Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Þorbjörn Friðriksson – minningarorð

Er KR nefnt í Biblíunni? Tobbi var svo ákveðinn KR-ingur að honum hefði þótt eðlilegt, alla vega skemmtilegt – að Heilög Ritning hefði nefnt svo mikilvægan félagsskap í veröldinni. Frá bernskudögum var honum ljóst að KR væri gott fyrir gleðina, skrokkinn, hláturinn, tilfinningarnar – já svo maður tali nú ekki um ástina og hjónabandið.

KR – við stöndum saman allir sem einn. Það er eitthvað verulega trúarlegt í því dæmi – já gott félag, sem þjónar fólki, gefur því samsemd, eflir unga fólkið til dáða, kennir að taka á, reyna á sig, stefna að marki, vinna sigra, sigra sjálfan sig, halda utan um hina sem ekki eru eins stekir, eflir fólk til að þjóna æðri gildum, þetta eru allt mikilvæg atriði sem trúin miðlar og góð félög og hópar í veröldinni spegla með einu eða öðru móti. KR er því þarna í Biblíunni og KR er þarna í miðjunni því þetta eru fyrstu stafirnir í nafni Krists.

Í kirkjum veraldar eru til stafirnir KR því í táknmáli kirkjunnar er það sem fólk les sem xp – það er KR skv. gríska stafrófinu. En KR lifir ekki án fólks, án samfélags. Og eins er það með KR-ið í Kristi – það er í samhengi kirkju, sögu, Guðs, veraldar og himins. KR er undur í Vesturbænum og svo er hið himneska KR í veraldarsögunni og Guði. Þetta tvennt fer ágætlega saman – og þannig var það í lífi Tobba, hann var öflugur, þjónaði sínu fólki, lagði rækt við félagið sitt, lagði sitt af mörkum til lífsins og hlaut og hlýtur því sigurlaun.

Uppvöxtur

Það þarf stóran hóp af fólki til að ala upp eitt barn. Í Afríku segir að til að manneskja verði til þurfi heilt þorp. Og eiginlega var það þannig þar sem Þorbjörn Friðriksson varð til og komst til manns. Hann var vormaður, fæddist þann 22. apríl 1934. Foreldrar hans voru Friðrik Einarsson og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir. Þau bjuggu börnum sínum heimili í Framfarafélagshúsinu, Vesturgötu 51C. Þorbjörn var elstur og systkini hans eru Friðrik, Guðbjörg og yngst er Þórunn. Heimilislífið var gott og gjöfult.

Vestast í Vesturbænum var líflegt mannlíf. Stórir barnaskarar voru til samfélags og gleði. Stutt var niður að höfn, upp að Landakoti, vestur í Örfirisey og niður í bæ. Strákarnir fóru í KFUM á sunnudögum. Tobbi var svo í 9 sveit í KFUM að auki og fór til fundar með félögunum. Stundum var komið við í sælgætisverksmiðjunni á leið á fund, vasarnir fylltir kannski umfram þarfir og leyfi og svo var kyrjað Áfram kristsmenn krossmenn af krafti. Vel sykraðir og súkkulaðikynntir strákar gátu aldeilis sungið: Rís upp með fjöri og stíg á stokk og streng þess heit að rjúfa eig flokk, uns sigri er náð og sagan skráð… segir í þeim söng. Þetta var sama fjörið og krafturinn og í KR.

Tobbi eignaðist í æskuvinum félaga fyrir lífið. Þessir strákar fyldust að. Í þeim bjó andi vaskleika og kappsemi, allt sem þurfti til afreka, enda var þeim eiginlegt og eðlilegt að stunda alls konar íþróttir. Þeir hlupu mikið og margar hringleiðir voru til í hverfinu. Þeir stunduðu margar greinar íþrótta og bolta var sparkað á lóðum og opnum svæðum. Svo voru íbúar í húsunum umburðarlyndir og kipptu sér ekki mjög upp við þó þessir snillingar spörkuðu nær því göt á húsveggina. Það var víst ekki alltaf svefnsamt fyrir kvöldsvæfa þegar buldi í húsunum sem urðu fyrir þrusunum. Svo þurftu afreksmennirnir gott og nærandi fæði og þegar fór að hausta var farið í garðana, þeim var jú nauðsynlegt að taka toll af heilsufæðinu rófum, næpum og rabbarbara.

Tobbi byrjaði snemma að vinna eins og hans kynslóð. Hann hafði ekki hug á sjómennsku, en var þó munstraður á grásleppu. Svo fór hann að vinna í kirkjugörðunum á sumrum og var snemma treyst til alvöruverkefna eins og hann væri fullorðin og vel harðnaður. Þá kom strax í ljós stefnufesta og persónustyrkur hans. Íþróttirnar áttu líka hug hans allan og hann varð einn af gulldrengjum KR, einn af bestu mönnum í fótboltanum og í handbolta. Meðan hann var í 2. flokki í var hann valinn í meistaraflokk í báðum greinum. Það eru ekki nema afburðamenn sem það leika. Tobbi varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 1952 og 1955.

Mestu sigrarnir og mestu áföllin sitja gjarnan í minni. Oft átti Tobbi góða leiki, hann var lunkinn spilari, markheppinn. Meira að segja Google hefur upgötvað það. Kannski var mikilvægasta mark hans ekki þegar KR sigraði í Reykjavíkur- eða Íslandsmóti, heldur þegar hann tók örlagaríkustu vítaspyrnu sína á ævinni haustið 1957. Hann var ekki vítaskytta liðs síns og átti því ekki að taka spyrnuna, sem skar úr um hvort KR félli niður um deild. Vítaspyrnumaður liðsins treysti sér ekki til að skjóta en Tobbi var ekki í vandræðum: “Látið mig um þetta” og skoraði auðvitað af öryggi. KR fékk annan séns, hékk í deildinni og blómstraði svo árið eftir og þar með var stefnan tekin á gull næstu ára. En vegna meiðsla hætti Tobbi fyrr í fótbolta en annars hefði orðið. Þegar hann var búinn að ná sér sneri hann sér að handboltanum á ný og varð Íslandsmeistari í handbolta innanhúss, í eina KR-hópnum sem það hefur afrekað. 

Elín og drengirnir

Afrek Þorbjörns í KR eru eðlilegt umræðuefni, en þá kemur Elín einnig strax við sögu. Meðan hann var að eltast við tuðruna upp á Melavelli var hún að æfa frjálsar. Hann hefur séð hana þegar hann tók einhverja aukaspyrnuna og hún hann þegar hún kastaði mæðinni. Þau voru ekki eitthvað svart og hvítt heldur sáu hvort annað. Svo í álfadansi við álfabrennu á Melavellinum kom hann til hennar og spurði hana, hvort hún vildi dansa við sig. Það var ekkert álfalegt við það þótt hún væri bara fimmtán og hann sautján. Svo fór hún að sækja KR-böllin og þau dönsuðu sig inn í hjónaband og hafa stigið í takt alla tíð síðan. Það hefur verið lán þeirra beggja, alla tíð hafa þau verið samhent og hjúskapurinn ástríkur, hamingjuríkur og gjöfull.

Þau Elín Helgadóttir og Þorbjörn gengur í hjónaband 7. desember árið 1957. Þau eignuðust tvo syni. Friðrik er hann kvæntur Huldu Mjöll Hauksdóttur. Þau eiga þrjú börn. Helgi Magnús er hinn sonur þeirra Elínar og hann tvö börn. Drengirnir, börn þeirra, afkomendur og ástvinir urðu þeim Þorbirni og Elínu miklir gleðigjafar. Fjölskyldan bjó um tíma á Víkingssvæðinu inn í Stóragerði, en svo fluttust þau á Kaplaskjólsveginn og síðan voru þau þau Elín síðustu árin á Boðagranda. Þorbjörn var mikill fjölskyldumaður og einstaklega natinn afi.

Víkingsprent og prentarinn

Þorbjörn lærði prentiðn og hafði af þeirri iðju atvinnu. Hann vann lengstum í Víkingsprenti og varð einn af eigendum. Þar var hann með félögum sínum og vinum. Þeir höfðu metnað til stórvirkja og Þorbjörn og félagar gátu prentað glæsilega prentgripi eins og listaverkabækur. Lagni, þolinmæði og metnaður Tobba naut sín í prentinu eins og í öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.

Þjónusta – fórnfýsi og hrífandi fyrirmynd

Það skal fúslega viðurkennt, að mér fannst gaman að hlusta á afkomendur, ástvini og félaga Þorbjörns lýsa honum. Prakkarasögur uppvaxtaráranna voru hrífandi, gáskasögurnar kættu, en eitt af því sem vermdi hið innra og jafnframt hefur orðið mér íhugunarefni þessa síðustu daga er fórnfýsi Þorbjörns og Elínar, hvernig þau hafa alla tíð verið vakin og sofin að stuðla að velferð og viðgangi KR, heiðri þess, og uppbyggingu. Afrek þeirra voru mikil á vellinum en utanvallarafrekin ekki síðri. Þau tóku að sér ótrúlega mörg verk til að styrkja félagið. Blásið var í blöðrur fyrir þjóðhátíðardaginn til að hægt væri að selja til styrktar KR. Prentarinn sá um gerð getraunaseðlanna sem við fylltum út hér á árum áður og Tobbi lagði mikið á sig í getraunamálinu. Þau Elín kunnu vart annað en segja já við beiðnum um að sitja í stjórn þessa eða hins verkefnisins. Þorbjörn vann við framkvæmdir á KR-lóðinni eða þegar eitthvað mikið stóð til, plantaði trjám sem lifa góðu lífi á KR svæðinu og kom að verki þegar unnið var að flóðlýsingu. Kjörorðið “eitt sinn KR-ingur – alltaf KR-ingur” var ekki gaspur eða hátíðaglamur – heldur fremur niðurstaða.

Félagaskipti og félagaflakk var kynslóð og skaphöfn Þorbjörns Friðrikssonar óhugsandi. Allir sem einn – hugsunin var aðalatriði. Ef illa gekk þarfnaðist félagið stuðnings. Ef fjár var þörf varð að vinna. Ef framkvæmda var þörf varð að smala liði. Þegar sigra skyldi var mætt á völlinn og ef eitthvað fór verr en efni stóðu til varð bara að standa þéttar og betur saman.

Þessi ótrúlega þjónusta Þorbjörns er í hnotskurn saga Íslands á tuttugustu öld, saga þess hvernig kraftaverkið Ísland varð til, en líka hvernig fjölbreytilegt félagslíf blómstraði og íþróttahreyfingin styrktist. Líf og starf Tobba – Elínar líka – er hrífandi fyrirmynd um hvernig hægt var að byggja upp stórveldi í íþróttasögu okkar. Og líf hans og allra annarra sem svona hafa lagt lífslóð sín á vogarskálar heilbrigði og lífsgleði er okkur áminning um að fjármunir, eins góðir og þeir eru, geta aldrei komið í stað fólksins. Það er fólkið, það er lífskrafturinn sem er mikilvægastur í lífi mannræktarfélags eins og KR.

Tobbi var fyrirmynd. Hann var ekki aðeins fyrirmynd okkur krökkunum, skemmtilegur og hvetjandi félagi, góður pabbi og stuðningur barna sinna og félaga þeirra heldur hvati okkur hinum að gæta að því hvenig við lifum. Hann minnir okkur á með lífi sínu að lifa vel. Gott líf verður aldrei til ef menn lifa aðeins fyrir sig sjálfa og eru aðeins uppteknir af eigin dýrð og snilli.

Þorbjörn Friðriksson sagði ekki sögur af að hann hefði verið einn af gulldrengjum KR, sagði ekki fræðgarsögur af afrekum sínum fyrr og síðar. Hann hrósaði sér ekki sjálfur en hann var afreksmaður í lífinu, ekki aðeins í keppnisíþróttum heldur í lífsgæðum í því hvenig hann lifði með öðrum, fyrir aðra og til stuðnings öðrum. Það eru svona menn sem skapa mestan auð meðal okkar. Því er hægt að mæra hann og þakka. Það eru mennirnir sem hafa innræti þjónstu sem megna að byggja upp. Þorbjörn Friðriksson var mikilmenni af því hann efldi fólk, samferðamenn og félag til sóknar og afreka. Slíkir eru okkar mestu menn. Hverjir eru mestir og hverjir eru bestir? Við getum hrópað en kannski ættum við að fara lyfta þeim hæst og best sem eru í stuðningsliðinu utan vallar. KR sem og aðrar menningar- og mannræktarhreyfinginar eiga að heiðra þessa snillinga með sýnilegum og ákveðnum hætti.

Sigurlaunin í lífinu

Skil urðu í lífi Tobba upp úr aldamótum þegar alzheimer sótti að honum og andi hans byrjaði að fara á undan líkama hans til Guðs. Og svo verða önnur skil nú. Þar sem er líf þar eru breytingar og álag, í sportinu, í ástinni, í trúnni. Postulinn Páll var sér vel meðvitaður um íþróttir og þær fórnir sem færa þarf til að ná langt. Hann segir á einum stað: “Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. …Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan.”

Já, það verða skil, allri keppni lýkur og bikarar fara í skápa. En góða menn skulum við lofa í lok dags og hylla þá sem bestir eru. Svo er í kappleikjum, hlaupum lífsins, ati daganna ljósbrot af mestu og stærstu keppninni sem til er – lífshlaupið inn í eilífðina. Já, ef KR verður ekki meistari í þeirri keppni hefur Guð búið til leikreglurnar og sent allan skarann út á völlinn. Markið er að við göngumst við manndómi okkar, viðurkennum köllun okkar til að vera eins öflug og við höfum hæfni til. Hlaupa þannig við fáum sigurlaunin. Og það eru engar smádollur í þeirri meistarakeppni.

Nú kveðjum við Þorbjörn Friðriksson, nú sér Elín á bak manni sínu, strákarnir á bak pabba, ásvinir, afkomendur og vinir á bak öflugum manni. Blessið minningu hans með því að vera góðar, öflugar og heilar manneskjur. Munið líka fyrirmyndina í Tobba, þjóna, efla og magna lífsgleðina og skemmta ykkur í leiðinni í góðum hópi. Það verða engar skrautlegar flugeldarsýningar í boði þeirra strákanna framar, engar heilsugöngur lengur, engar ferðir á völlinn eða í golf með honum og hann spyr ekki lengur hvort allir séu í boltanum.

Við vitum ekki hvernig tuðrur himins líta út en sjálfsagt er hægt að þrusa þeim. Og víst er að þar kemur ekkert gat á húsveggi, enginn verður sár og þar mun gleymskan ekki hrjá Tobba, hann mun öðlast að nýju styrk, vitund og gleði. Í trúnni máttu fela Þorbjörn Friðriksson góðum Guði. Hann verður ekki á gamla KR-vellinum heldur í liði Jesú Krists sem er frömuður lífsins á Melavelli eilífðar. Merki þess mikla Kr-ings, Kr-ists, er á enni okkar og brjósti og honum máttu treysta, hans lið er fyrir lífið. Við stöndum saman allir sem einn. Góður Guð geymi Þorbjörn Friðriksson og varðveiti og styrki ástvini hans og vini.

Útför Þorbjörns Friðrikssonar var gerð frá Neskirkju 5. mars, 2009.

Jarðsett var í Fossvogskirkjugarði.

Þorbjörn Friðriksson fæddist í Reykjavík þann 22. apríl 1934.  Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund þann 25. febrúar síðastliðinn.  Foreldrar hans voru Friðrik Einarsson f. 17.03.1911 d. 30.01.1970 og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir f. 11.09.1915 d. 20.06.1976 voru þau búsett í Reykjavík.  Systkini hans eru Friðrik f. 06.10.1937, Guðbjörg f. 03.08.1943 og Þórunn f. 09.04.1947. 

Þann 07.12.1957 kvæntist Þorbjörn Elínu Helgadóttur f. 08.08. 1936 og eignuðust þau tvo syni.  1) Friðrik f. 09.04.1958 er hann kvæntur Huldu Mjöll Hauksdóttur.  Eiga þau þrjú börn a) Elínu f. 27.09.1981 gift Andra Þ. Kristinssyni og eiga þau Eyrúnu Freyju f. 30.03.2007, b) Þórunn f. 1988 og c) Hauk f. 28.07.1994. 2) Helgi Magnús f. 01.09.1962 og á hann tvö börn. A) Önnu Björgu f. 04.05.1986.  Hún á tvær dætur Elínu Helgu f. 03.10. 2005 og Emilíu Ósk f. 25.08.2007.  b)Þorbjörn f. 01.05. 1992.

Þorbjörn hóf nám í Víkingsprenti 08.04. 1954, tók sveinspróf í prentun 14.06. 1958 og hóf nám í setningu 01.02.1967 og lauk sveinsprófi 05.07.1969.  Hann starfaði í Víkingsprenti 1954-1991 bæði sem starfsmaður og meðeigandi en síðar í prentsmiðjunni Umslagi frá 27.08. 1991 til 15.04. 2001. 

Þorbjörn var einn af þeim sem með sanni má kalla Vesturbæing. Hann ólst upp á Vesturgötunni og var mikill KR-ingur. Þar mynduðust sterk vinatengsl milli drengjanna í hverfinu sem var upphaf að löngu og árangursríku íþróttastarfi. Í KR æfði hann og keppti í mörg ár fót- og handbolta við góðan orðstír. Þegar Þorbjörn hætti keppni tóku við ýmis störf  fyrir KR sem hann vann af ánægju, dugnaði og einlægni.  Studdi hann félagið sitt og sína menn í leik og starfi til æviloka. Hann var í gönguklúbbi með gömlu félögunum úr KR og hittust þeir reglulega í félagsheimilinu bæði í tengslum við getraunir og til að spjalla um KR og pólitík, þá var oft heitt í kolunum honum til mikillar skemmtunar.  Kjörorð hans voru eitt sinn KRingur alltaf KRingur.

Þorbjörn hafði mjög gaman af veiðum og frá 1988 fóru feðgarnir oft saman til veiða í Brúará. Hann gekk í Golfklúbb Reykjavíkur árið 2000 og stundaði hann golf hér á landi sem og erlendis meðan heilsan leyfði.

Þann 13. 01.2009 fluttist hann á Hjúkrunarheimilið Grund þar sem hann lést 25. 02. 2009.

Ólafur Guðmundsson – minningarorð

Hversu merkilegt verður ekki félagsvist himinsins þegar Guð stokkar stóra stokkinn, hægt verður að spila ofurgrönd, ekki bara heilsóló heldur himinsóló – eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Ólafur Guðmundsson í essinu sínu. Útför hans fór fram frá Neskirkju 12. febrúar 2009. Minningarorðin fara hér á eftir.

Spilað úr gjöfinni

Það er gaman að spila félagsvist með glöðu fólki. Spil eru stokkuð um allan sal. Sumir tvískipta spilabunkanum og fella stokkana saman eins og tannhjól, aðrir bakblanda. Kliður fer um skarann, kátína smitar, nettur spenningur er í lofti. Gefið og sagt, glímt við grandið, reiknað stíft hvað makkerinn á mörg lauf eftir og rifjað upp hvort hjartaásinn var farinn. Hvernig ætli spilin liggi og hvar liggur kóngurinn í leyni? Svo er kanski svínað og stundum gengur það. Ólafur naut spilastundanna – spilalistarinnar og samfélagsins. Svo sló hann duglega í borðið þegar stórt var sagt eða miklu tapað.

Spilað úr lífsgáfunum

Öllum er okkur úthlutað til lífsins. Njáluhöfundur taldi að fjórðungi bregði til fósturs og erfðafræði og lífvísindi nútímans eiga sínar kenningar. Við vitum, að mismunandi lífsgæðunum er úthlutað. Einn fær spil fyrir grand og slemmu en öðrum hentar nóló best fyrir lífið. Svo eru sálar- og líkamsgáfur sú gjöf, sem spila verður úr. Ólafi var gefið gott við upphaf og hann átti því æskuláni að fagna að alast upp í stórum systkinahópi. Hann mat mikils og hafði gaman af hinu góða verki og var vandaður og vandvirkur sjálfur.

Upphaf og samhengi

Ólafur Guðmundsson fæddist í Króki í Ásahreppi þann 20. mars árið 1920 og lést á Landakotsspítala 4. febrúar síðastliðinn, 88 ára. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Ólafsson og Guðrún Gísladóttir, bæði úr Rangárvallasýslu. Barnalán þeirra var mikið, þau áttu fjórtán börn á sextán árum, frá 1915 til 1931. Það er mikið!

Af þessum stóra hóp lifir helmingurinn. Ólafur var fjórði í röðinni og eðli máls samkvæmt lærði hann strax í bernsku að allir verða leggja lífinu lið, allir verða að taka þátt í að afla matar og lífsbjargar, allir verða að standa sína vakt og með athygli og skerpu. Þessa uppvaxtarvisku fór hann vel með alla tíð og ávaxtaði sitt pund og talentur vel.

Í Króki hafði Ólafur stórbrotið umhverfi fyrir augum, Heklu, Tindfjöll og Þríhyrning og sá út til Eyja. Nærri var fljótið mikla og niður Þjórsár söng í eyrum. Þarna ólst hann upp eins og í miðju veraldar þar sem himininn verður ekki öllu stærri og fjallahringurinn er stórkostlegur. Lífið ávaxtasamt en eyðing þó nærri, gróðurmagn ríkulegt, en eldur undir og braust upp með reglubundnum skelfingum og afleiðingum fyrir mannlíf. Hvað er lífið, til hvers, hvaða getur manneskjan sagt? Er það í sókn  – eða er alt í vörn, í nóló. Ólafi hentaði að sækja fram og hann var grand í lífinu.

Króksystkinin hleyptu heimdraganum eitt af öðru. Ólafur fór þó ekki fyrr en hann var búin að sjá unga konu í Þjórsártúni. Jóhanna Kristjánsdóttir, norðan úr Flatatungu í Skagafirði, kom suður til veru hjá venslafólki og vaskur Krókskappinn sá norðankonuna og eitthvað hefur gneistað á milli. Síðar hittust þau suður í Reykjavík og þar voru tengslin endurnýjuð – og svo vel að Jóhanna og Ólafur gengu í hjónaband fyrsta vetrardag árið 1947.

Þá hafði Ólafur atvinnu af sjómennsku, en kom svo í land, starfaði síðan við höfnina, var við Togaraafgreiðsluna í um þrjátíu ár, þjónaði síðan Hafskipum og svo Rekstrarvörum. Ólafur var kappi til vinnu, kunnur fyrir vandvirkni og því var honum falin forysta á vinnustöðum sínum og hélt áfram vinnu löngu eftir að jafnaldrar hans höfðu lagt árar í bát, húfu á snaga og hjól í skúr. Hann var afar staðfastur og allir vissu að ef Ólafur sagði eitthvað stóðst það. Þegar tryggingafélag ætlaði að fara krókaleiðir í kringum sjálfsagt og augljóst réttlætismál settist Ólafur bara niður á skrifstofunni og tilkynnti að hann færi ekki fyrr en hann fengi úrlausn sinna mála. Og auðvitað varð honum ekki haggað fyrr en gengið var frá málum. Látlaus festan var augljós og áhrifarík. Ólafur var í samskiptum við fólk sem klettur sem stóðst áraun og líkamsburðir voru í samræmi við persónustyrkinn.

Ávallt var Ólafur því virtur. Vert er að þakka samverkamönnum hans samfylgd og vinsemd fyrr og síðar. Minnt skal á hversu vel eigendum Rekstrarvara fórst við hann. Heilindi og gagnkvæm umhyggja á vinnustöðum er dyggð, sem við Íslendingar eigum að halda fast í og rækta.

Heimili – fólkið þeirra Jóhönnu og Ólafs

Jóhanna og Ólafur eignuðust fyrsta heimili sitt í Faxaskjóli 24. Síðan fóru þau inn í Barmahlíð, en komu svo vestureftir að nýju og eignuðust íbúð á Kaplaskjólsvegi og bjuggu á nr. 37. Þar átti Ólafur síðan athvarf yfir hálfa öld – eða í 53 ár. Börnin komu, Valgerður fæddist 1948 og Guðmundur árið 1953. Þau áttu góðar uppeldisaðstæður þarna í nágrenni KR vallarins, svæðið var byggingasvæði með tilheyrandi ævintýrum þegar þau voru börn, með sjó og laug í nágrenninu, góða skóla og litríkt mannlíf.

Þau Jóhanna voru hamingjufólk. Ólafur var dugmikill og framfleytti vel fjölskyldu sinni, kom börnum sínum vel til manns, studdi og hvatti. Hann var alltaf til reiðu, hvatti til átaka, kenndi stundvísi, miðlaði reglusemi og trúmennsku til síns fólks.

Ólafur var svo elskur að sínu starfsumhverfi við höfnina að hann fór þangað niður eftir um helgar líka. Krakkarnir og síðan barnabörnin fóru með honum í þesar ævintýraferðir og lærðu nöfn á öllum togurum þjóðarinnar og hverjir gerðu þá út og með hvaða lagi þeir voru byggðir. Þau fengu góð yfirsýn og innsýn í sjávarútveg þjóðarinnar og vinnuna sem tengdist honum. Það er íhugunarefni hvernig Ólafur miðlaði skilningi á vinnu sinni og samhengi til síns fólks. Þau vissu hvað hann gerði og það er mikilvægt að börn hafi skilning á atvinnu og verkum foreldra sinna og fjölskyldufólks. Í því var hann góð fyrirmynd.

Bóndinn

Ólafur tók með sér lífsbjargarviljann úr sveit í borg. Hann var með hugann við matbjörg og lífsbjörg. Honum lánaðist að útvega sér stóra garða og í áratugi var hann garðyrkjubóndi – eiginlega stórbóndi – í Vatnsmýrinni. Þar stakk hann upp sinn garð, setti niður, fylgdist vel með þegar spíraði og fjólublágræn grösin teygðu sig upp úr moldinni – upp í júníkæluna. Hann reitti arfa með ákveðni, taldi dagana frá niðursetningu og vildi taka upp þegar ákveðinn tími var liðinn, fyrri partinn í september. Þá var ekki verið að tvínóna við hlutina, heldur gengið í verkið, svo þurrkað og sorterað og útsæði tekið með ákveðnu vinnulagi. Kartöflurnar voru síðan fluttar í jarðhús eða pokaskjattar til vina og ættingja til að gefa þeim ofurlítið nýnæmi.

Í kartöflunum var það bóndinn og svo var það hin vídd íslenskrar karlmennsku -sjómennskan. Ólafur hafði ekki aðeins atvinnu af útgerð og útgerðartengdum verkum, heldur varð hann meistari í hákarlsverkun. Hjallurinn hans vestur í Gróttu, sem enn stendur fagur og endurnýjaður, notaði hann til verkunar og varð listamaður í þeirri grein. Alltaf var beita til á Kapló til að gleðja. Að smakka hákarlinn hans Ólafs var engu óvirðulegri gerningur fagurkera en vínsmökkun.

Heimili þeirra Jóhönnu var umhyggjuheimili og opið hús. Vinir barna þeirra voru alltaf velkomnir. Konurnar í stigaganginum og nágrenni sóttu inn á heimilið. Barnamergðin og fjörið var mikið og öllu atinu tók Ólafur með jafnaðargeði. Hálfsystkini Jóhönnu áttu alltaf skjól á heimili þeirra. Allir voru velkomnir hvort sem var til samtals, í mat eða til gistingar. Lítil íbúðin var alltaf stór þegar fólk þarfnaðist.

Hvorgt þeirra Jóhönnu tók bílpróf, Ólafur fór allra sinna ferða á hjóli og við Vesturbæingar sáum hann oft fara um á svarta hjólinu sínu. Þegar Guðundur hafði aldur til keypti hann bíl og þá var farið í ferðir, fleiri ferðir norður en líka austur. Ólafur hafði gleði af ferðalögum, vissi margt, fræddi sitt fólk um það sem fyrir augu bar og naut þess að segja frá. Ferðalögin urðu fjölskyldunni góðar og gjöfular.

Vinnan var Ólafi mikilvæg alla tíð. En eins og kona hans var hann fjölskyldumaður. Hann vissi að ekkert skiptir meira máli en ástvinirnir. Og Ólafur átti sitt stærsta og mesta lán í fólkinu sínu. Hann ólst upp í ofurfjölskyldu og þar lærði hann vel á mannlífið. Hann lærði að umgangast fólk. Og hann varð góður maki og faðir og síðan vinur allra sem tengdust honum vensla- og fjölskylduböndum.

Börnin og elskurnar

Börn þeirra Jóhönnu og Ólafs eru tvö: Valgerður og Guðmundur.

Valgerður (f.13. febrúar 1948) er gift Ásgeiri Þormóðssyni. Þau eiga þrjá syni, Ásgeir Þór og hans sambýliskona er Guðrún Árnadóttir. Pétur er næstur og sambýliskona hans er Halldóra Lillý Jóhannsdóttir. Ólafur Ástþór er yngstur og sambýliskona hans Sigríður Dagmar Jóhannsdóttir.  

Kona Guðmundar (f. 18 desember 1953) er Fjóla Guðmundsdóttir. Af þremur börnum þeirra er Ólafur elstur og unnusta hans er Sigurlaug Erla Pétursdóttir. Yngri eru dætur þeirra Guðmundar og Fjólu: Jóhanna og Fjóla Ósk. 

Samtals eru langaafabörnin átta talsins.

Allt þetta fólk mat pabbinn, tengdapabbi, afi og langafi og þau nutu hans, höfðu gaman af hákarlsgæðum, visku og fróðleik. Og merkilegt er að Guðmundur, faðir Ólafs, vildi helst vera í horninu hjá Ólafi syni sínum. Það gefur innsýn í hvern mann Ólafur hafði að geyma og hvernig heimilislíf ríkti á heimili þeirra Jóhönnu þar sem gamli maðurinn dvaldi í 35 ár og varð aldargamall er hann lést.

Jóhanna lést árið 1993. Ólafur sá síðan um sitt heimili og gerði vel. Þegar um hægðist vegna vinnu gat hann stundað sundlaugina betur. Í Vesturbæjarlauginni átti hann vini og félagsskap. Og svo fór hann í strætó til vina sinna í félagsvistinni, spilaði, spilaði sín grönd og spaða, sló í borðið og skemmti sér. Hann lifði vel og fékk alltaf sína vinninga í bingói og spilum lífsins, en bestir voru stóru vinningarnir í fólkinu hans.

Spilamennska lífsins

Hvernig eru þessi lífsspil okkar? Hvað má segja og hvað er hægt að segja? Slagafjöldinn er takmarkaður og möguleikarnir ekki endalausir. Svo er í málum hjartans, lífsins, sálarinnar – eða hvað? Já, eins og við hin spurði Ólafur um stóru spilin líka. Hvert er vitið í þessari spilamennsku veraldarinnar. Hann var góður í sinni spilamennsku, stóð vörð um velferð fjölskyldu og þeirra, sem þurftu stuðning. En hvað meira?

Hvernig skilur þú lífsmörk og dauða? Er allt búið þegar síðasta andvarpið líður frá brjósti? Þeim sem sættir sig við það smálíf, að lífið sé bara þetta og ekkert meira verður engin alger huggun möguleg. Það er mun vænlegri, stórkostlegri heimssýn og lífsýn að vænta þess að dauðinn sé fæðing til nýrrar veraldar. Því trúir hinn kristni, í því er m.a. fólgin von trúarinnar. Gastu ímyndað þér þegar þú varst í móðurkviði hvernig veröldin utan magans yrði? Nei og varð ekki líf þitt fjölskrúðugt? Getur þú ímyndað þér hvernig lífið handan dauða er? Máttu ekki vænta þess að meira og enn stórkostlegra sé í vændum en þetta?

Guð hefur stokkað þessa veröld skemmtilega, með litum, fjöri, góðu lífi, góðri útgerð og afgreiðslu allra fleyja. Hugsaðu þér hina skemmtilegu félagsvist himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila ofurgrönd – ekki bara heilsóló heldur himinsóló, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Ólafur glaður, í góðum hópi og í góðu formi.

Nú eru Ólafur og Jóhanna í faðmi hans sem elskar veröldina. Guð geymi þau og varðveiti um alla eilífð og gefi okkur viturt hjarta í lífsspili okkar. Okkur hefur verið gefið og okkur ber að spila vel – eins og Ólafur. Guð geymi hann, Guð blessi þig og varðveiti.

Auðun Hlíðar Einarsson

Hvar heima – hvar er ég sannur? Auðun sat á þúfu við Sænautasel og var að íhuga spennandi endurreisnarverkið framundan. Hann var albúinn til verks, viskubrunnur um húsagerðina, þekkti vinnulag og verkfæri. Svo sat hann í góðviðrinu, með þennan stórkostlega, skrautlega húfukofra á höfði. Og hvernig verður að byrja verkið, hvernig verður endurreisnin, hvernig verður lífið?

Auðun sagði brosandi við Ævar Kjartansson viðmælanda sinn í sjónvarpsþætti: “Nú er hinn eini sanni, bjarti dagur að renna upp.” Þetta er sem setning úr Sjálfstæðu fólki: „Hinn eini, sanni, bjarti dagur.” Og Auðun naut allra sinna gáfna og hæfni í þessu verki. Hann vann með skemmtilegu fólki, hann naut þess að fræða unglingana af Jökuldal, sem fengu vinnu við uppbygginguna, fræddi þau með brosi á vör. Bjálkana hjó hann til og felldi saman. Svo varð til bær á nokkrum vikum – undur í heiðinni, sem ber handverki, natni, alúð og sögu gott vitni.

Hvernig lifði fólk í þessum bæ? Hvernig var mannlífið? Hvernig var að eiga heima þarna? Hvernig lífi lifðu menn þar sem hver maður hafði aðeins tvo fermetra til ráðstöfunar eins og í þessu heiðarkoti? Getum við rúmbýlt þéttbýlisfólk skilið þröngbýlt dreifbýlisfólk sem þar bjó? Hvernig leið börnum í fárviðri undir þunnri þekjunni? Allt þetta spannaði Auðun og miðlaði með höndum sínum og afstöðu. Hann naut hins eina, sanna, bjarta dags. Í þessu verki var sagan teygð, sögð að nýju, endurvakin og endurtjáð. Kannski var Auðun þarna í sínu föðurlandi, í fangi náttúrunnar, Austurlands, undir stórum himni, í tengslum við söguna, verkmenninguna, lífið. Kannski var hann þarna algerlega heima?

Já, hvar á maður heima og hvað merkir að koma heim? Mörgum öldum áður var annar merkur maður, Jónas spámaður sem frá er sagt í Gamla testamenntinu, spurður spurningar sem er höfð eftir í Jónasarbók: “Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?“ (Jónas 1.8.) Þessi spurning varðar alla menn með einum eða öðrum hætti. Hver eru heimkynni okkar? Hægt er að búa megnið af ævinni einhvers staðar en þrá þó alla tíð einhvern stað, eitthvert heimasamhengi annars staðar. Alla ævi erum við á heimleið. Spekingar mannkyns hafa lagt út af þeirri för, goðsögurnar, margar þjóðsögur og rismiklar bókmenntir eru um þá leit og leið. Auðun var heima í fangi Karenar og barnanna en svo var hann líka á heimleið, á leið heim til systkina, til fjölskyldu sinnar og inn í samhengi sitt. Saga Auðunar er merkileg, heillandi heimferðarsaga. Nú er hinn eini, sanni, bjarti dagur upprunninn honum.

Ætt og upprni

Auðun fæddist inn í sumarið á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí, árið 1941. Fjölskyldurnar hans voru ekki bara ein heldur tvær. Auðun Hlíðar var ekki bara sonur Hrafnkels og Láru á Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð. Hann var Einarsson líka. Hvernig máttu þau tilbrigði verða? Jú, Auðun varð ættleiddur þegar hann var á öðru ári af læknishjónum á Eskifirði, Guðrúnu Guðmundsdóttur og Einari Ástráðssyni. Fyrir áttu þau hjón tvær dætur sem voru á annan áratug eldri en Auðun. Eftir voru Hallgeirsstaðasystkini hans heima og smátt og smátt bættist í þann hóp. Tvö önnur voru ættleidd líka. Hvaða ferð hefja menn við ættleiðingu? Það er flókin ganga um tilfinningalönd og kannski var Auðun á heimleið æ síðan hann fór sína fyrstu ferð niður firði – barn á öðru ári, með fullu viti, í leit að föðurlandi og móðurfaðmi.

Á Eskifirði var hann fram á unglingsár, flutti síðan suður í Keflavík, var þar stutt og fór síðan til Reykjavíkur með foreldrum sínum. Við tóku ár vinnu og skólagöngu. Auðun var allra manna hagastur fór í Iðnskólann í trémíði, sem hann starfaði síðan við. Svo fór hann í Kennaraskólann og fór á tvöfaldri hraðferð í gegnum skólann og lauk handavinnukennaraprófi árið 1968. Trésmíðar, kennsla og blanda af hvoru tveggja varð síðan meginstarfi Auðunar síðan. Hann kenndi mörg ár í Æfinga- og tilraunaskóla KÍ, í Landakotsskóla, Iðnskólanum í Reykjavík, í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og víðar. Af myndskeiði í fyrrnefndum sjónvapsþætti er ljóst að Auðun hefur verið frábær kennari.

Á unglingsárum og áfram sótti Auðun austur í stórfaðminn. Hann kenndi einn vetur á Eiðum, eignaðist vini þar og vináttu sem entist. Stundum fór hann m.a.s. austur í jólafrí. Austrið laðaði.

Sænautasel var ekki eina stórverkefnið, sem Auðun stýrði og vann að. Hann hafði mikinn áhuga á endurbyggingu torfbæja og gamalla húsa. Auðun vann við endurbyggingu á Gömlu-Búð á heimaslóðum á Eskifirði, einnig við Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu, við Galtastaði fram sömuleiðis í Hróarstungu, Hrafnseyri við Arnarfjörð og Stekkjarkot í Njarðvík.

Ekki þarf annað en fletta á vefnum til að gera sér grein fyrir hversu hæfur Auðun hefur líka verið á þessu sviði. “Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú?” Hann sýndi hver hann var með handaverkum sínum og lífi.

Karen og fjölskyldan

Karen sagði fjölskyldunni og prestinum frá fyrstu fundum þeirra Auðunar. Þegar Karen var á fyrsta ári í Kennaraskólanum hringdi Broddi Jóhannesson, skólastjóri, í hana upp úr áramótum og sagði henni að austfirskur piltur væri að byrja í skólanum og þarfnaðist upplýsinga um námsbækurnar. Jú, jú, það var í lagi en hann yrði að koma fyrir kvöldmat, sem hann og gerði.

Karen var á leið í leikhús þannig að hún tók á móti mannsefninu sínu í fyrsta sinn með rúllurnar í hárinu og út um allt. Engin veit hvað Broddi hafði í huga, kannski sinnti hann einhverri dularfullri einkamálaþjónustu í viðlögum, alla vega tilkynnti hann Auðuni að í þetta fyrsta skipti mætti hann bara koma til Karenar fyrir kvöldmat.

Nýneminn fór svo með upplýsingarnar og minninguna um þessa kjarnmiklu konu á Víðimelnum, sneri henni við í stiganum í Kennaraskólanum síðar, svo alveg í fangið enn síðar. Þau Karen Tómasdóttir og Auðun Hlíðar ústkrifuðust úr KÍ 1968, trúlofuðu sig um áramótin 1968-69 og gengu í hjónaband 19. júlí 1969.

Þeim varð þriggja barna auðið. Halla er elst og hennar börn eru Auður Hlín, Hjalti og Björg. Hannes er næstur í röðinni og á synina Gunnar Pálma og Auðunn Benedikt. Kona Hannesar er Heiða Björg Marinósdóttir. Fyrir á Heiða Anítu og Marinó. Yngst barna Karenar og Auðunar er Katrín. Hennar maður Björn Oddsson og þau eiga Charlottu Karen.

Auðun var barngóður maður, var reiðubúinn að veita sínu fólki tíma, fræðslu, athygli, hjálp, stuðning, orð og hlátra. Og hann átti sögur, sem nú eru hljóðnaðar en lifa í ástríkinu og minningunni. Hann var hamingjumaður með sínu fólki og þakklátur fyrir að eiga Karen og börnin sín.

Hvað er heima? Já, Auðun vildi ekki til útlanda með sitt fólk heldur bauð þeim austur, fór austur þegar færi gafst, og þau hjón reistu sér hús á Héraði og svo fengu þau Karen land á Hallgeirsstöðum og hann teiknaði útlit hússins og svo beið Karenar að skilgreina innra rými og svo unnu þau saman að endanlegri úrvinnslu og húsið var byggt. Það heitir Krakastaðir og eftir beitarhúsum í nágrenninu.

Úr fjarlægð virðist að Aðun hafi náð að ljúka stóru hringferðinni sem hófst síðla árs 1942, þegar drengurinn var fluttur að heiman. Þessi sumarbústaðatilvera var Auðuni mikilvæg, Karen studdi hann og börnin nutu. Þau fengu að njóta með honum.

Eigindir og líf

Í Auðun bjuggu fjölþættar gáfur og listfengi. Þau, sem hafa skoðað handaverk hans, s.s. fugla eða fiska, vita að Auðun var oddhagur og tjáði elskuna til lífsins með höndunum. Hann var vandvirkur þjóðhagi og smíðaði þjóðlegar völdunarsmíðar eins og þegar hefur verið talið. Auðun hafði auga fyrir formum og litum og það skilaði sér líka gagnvart sjónlistum. Hann var afar lausnamiðaður við úrlausn flókinna verkefna og fundvís á einfaldar og snjallar lausnir.

Vegna smíðanna og blindrammagerðar varð hann vinur margra listamanna. Þeir nutu sagna hans og fágætlega góðra blindramma. Auðun hafði gaman af sérkennum þeirra, umbar og mat sérleik og naut skemmtilegheitanna eins og sést vel í kúnstugum sjónvarpsþætti sem gerður var um Stefán Jónsson frá Möðrudal, Stórval. Og margar eru myndirnar á heimili þeirra Karenar sem komnnar eru frá vinunum, listmönnunum.

Auðun hafði nautn af tónlist, fór á tónleika, leitaði í tónlist til að hvíla andann. Hann hafði mætur á orgeltónlist, sem skýrir návist Páls Ísólfssonar, Jakobs Hallgrímssonar og Bach í þessari útför. Svo var píanótónlist og góður söngur honum hugleikinn og eins og í flestu varð Auðun afar fróður og kunnáttusamur á víðlendum músíkurinnar. Hann setti plötu á fóninn eftir skapstemmingu. Svo lagðist hann útaf, alveg skv. ábendingu Páls Ísólfssonar, að maður nyti tónlistar best liggjandi. En börnin hans höfðu hann grunaðan um að þetta væri líka ákveðin praktík af hans hálfu – hann væri ekki til neins gagns meðan hann lægi svona með músikina dynjandi!

Allt frá upphafi var Auðun umhyggjusamur. Þegar í bernsku sótti hann til sér eldra fólks. Hann sótti til þeirra fræðslu, þekkingu, innsýn og lífsvisku og endurgalt með þjónustu, áhuga og návist. Hann var einstaklega greiðvikinn maður. Fyrr og síðar var Auðun umhugað um að allir nytu góðs og hann var málsvari allra sem á var hallað.

Á himnum

Hvað er heima? “En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists, segir postulinn í Filippíbréfinu (3.20). För manna er heimferð. Ágústínus, kirkjufaðir, sagði að við menn færum að heiman til að snúa heim, í stórum hring.

Auðun fæddist inn í birtuna. Í fjölskyldu og verkum urðu dagarnir ljósir. Nú er hinn eini sanni, bjarti dagur runninn upp í hans lífi. Hann mun ekki reisa fleiri bæi eða gera fleiri hús upp. Enga mun hann leiða til þroska með glettinni fræðslu, kímni og krafti. Engar fleiri sögur mun Auðun segja af fjöllum, tröllum, furðum, fólki eða sónötum. Hann mun ekki tálga þér fallegan fisk. Hann var farinn af stað heim og nú hefur dagað á hann með birtu og sannleika, þar sem allt er gott, allt vel viðað, allt vel hlaðið, í öllu góður hljómur og enginn verður gerður brottrækur. Eilífð Guðs er takmark mannsins, takmark alls lífs þessarar veraldar. Í okkur býr stefnuviti til þeirrar farar og í eilífðarfangi er okkar mið. Auðun náði sinni hringferð og nú lifir hann dagrenningu nýs lífs. Guð geymi hann og blessi þig.

Minningarorð, Neskirkja, 26. mars, 2009.

Eiginnafnið Auðun var ritað svo frá upphafi og beyging er því önnur en þegar nafnið endar á tveimur n-um. 

Ingjaldur Narfi Pétursson – minningarorð

Farmenn allra alda og allra þjóða hafa einhvern tíma starað upp í dimman stjörnuprýddan næturhiminn og íhugað stærðir og dýptir. Börn veraldar hafa legið á bakinu og horft á stjörnuhröp, hvítar risslínur loftsteinanna og blikandi og deplandi stjörnurnar. Grunur læðist að og vissan síðan seitlar inn í vitundina að maðurinn er smár og geimurinn stór. Hvers virði erum við? Er Guð þarna einhvers staðar? 

Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og hrifið barn, sem starir upp í glitrandi hvelfinguna. Í sálminum segir:

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg fraktferð milli tveggja hafna, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður – þessi sem við köllum Guð? Skáld Davíðssálmsins var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:

„… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri. Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“

Þetta er niðurstaða um veröldina, lífið, ævi mannsins, um framtíðina. Að Guð er, að Guð gefur, að Guð umvefur veröldina, Ingjald og þig merkir að lífið er gott og gæðaríkt og að himinn er eftir að heimsferð lýkur.

Upphaf og samhengi

Ingjaldur Narfi Pétursson var farmaður í veröldinni. Hann fór ungur til Noregs, var þar með foreldrum sínum á fjórða ár, kom síðan til Íslands og þegar hann hafði aldur til fór hann sinna eigin ferða um heiminn. Nú hefur hann farið sína hinstu ferð.

Ingjaldur fæddist á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi 17. júlí árið 1922. Foreldrar hans voru Kristján Narfi Pétursson, sem var aðalumboðsmaður hjá Líftryggingafélaginu Andvöku (f. 10. jan. 1891, d. 18. júní 1973) og Gurine Pétursson (f. Johansen, f. 20. febr. 1896, d. 11. sept. 1945). Börn þeirra fæddust á árunum 1921 til 1930. Systkini Ingjalds eru þrjú. Steinar (f. 5. janúar 1921, d. 4. mars 2005) var elstur og var Ingjaldur einu og hálfu ári yngri. Hann kallaði Steinar gjarnan Stóra, sem tjáir vel afstöðu hans til stóra bróður sem nú er látinn. Þriðji í barnahópnum er Jón (f. 21. jan. 1926) og yngst er Gully Evelyn (f. 10. ág. 1930) en þau Jón og Gully lifa eldri bræður sína.

Kristján, faðir Ingjalds, kynntist konu sinni Noregi og þar hófu þau búskap og ólu upp drengina sína fyrstu árin. Þegar Ingjaldur var fjögurra ára flutti fjölskyldan til Íslands og var fyrst á Ingjaldshóli á Sandi. Síðan fóru þau á Þingholtsstræti í Reykjavík en síðan fljótlega á Vesturgötu 67. Það var ævintýralegt fyrir börnin að alast up á þessu svæði í vesturbænum, stutt niður að höfn, út á Granda og í Örfirisey, upp á Landakotstún eða niður í bæ. Fjöldi barna var mikill og frelsið ríkulegt. Svo gat pabbinn haldið sína hesta, sem var honum mikilvægt. Skýli þeirra var svo nærri, að hægt var að heyra til hrossanna inn í rúm. Og hesthúsið var líka hentugt fyrir leiki og sem skýli fyrir mótorhjólafák Stóra eftir þeysireið með lögreglufylgd. Í barnríku umhverfi kynntist Ingjaldur mörgum og eignaðist vini, sem hann hélt tengslum við alla tíð. Hann ræktaði vini sína og hélst vel á þeim.

Í uppvextinum bjuggu börnin við og nutu útsýnar í margvíslegum skilningi. Móðirin ræktaði samband við norska landa sína í Reykjavík. Fjölskyldan naut því útlandstengsla langt út fyrir landsteinana. Pabbinn var líka félagslyndur og margir og fjölbreytilegir menn komu við sögu fjölskyldunnar fyrr og síðar. Þegar Ingjaldur var ungur fylltist bærinn af erlendum setuliðsmönnum og raddir og orð hins stóra heims hljómu á götum og tæki og gæði útlanda urðu innan seilingar. Allt þetta laðaði og sökk í vitundina.

Á bernskuheimilinu var ekki hægt að komast hjá því að fylgjast með skipakomum. Reykjavíkurhöfn var lífleg, þar voru allar gerðir af skipum og líka fossar Eimskipafélagsins. Þegar Ingjaldur hafði aldur til fór hann að vinna, fyrst í landi og síðar á sjó. Hann vann við sendilstörf um tíma, í nokkur ár var hann hjá Málmsteypunni og svo vann hann við höfnina. Síðan fór hann lengra til, var á síld og jafnvel skútu, en munstraði sig svo á skip hjá Eimskip, var á Dettifossunum lengstum.

Góður félagi og vinur

Gjaldi, eins og hann var gjarnan kallaður, var vinsæll meðal félaga sinna, hrókur fagnaðar, ræðinn, glaðsinna, tryggur og traustur. Allir ljúka þeir lofsorði á Ingjald, að hann var alltaf til reiðu fyrir spjall yfir kaffibolla, alltaf skemmtinn og kátur. Hann átti sína starfstöð í vélarrými og var svo vel treyst, að hann starfaði allan sinn aldur hjá sama félaginu og hætti ekki hjá Eimskip fyrr en hann fór á eftirlaun. Engir aðrir en toppmenn endast og halda vinnu svo lengi – segja kollegar hans.

Ingjaldur varð ævintýramaður í augum ættingjanna heima og barna bræðra sinna. Hann fór um heimsins höf og sigldi gjarnan á Evrópuhafnir og fannst líka gaman að sigla á New York. Úr ferðunum kom Ingjaldur svo gjarnan með útlenskar gjafir til barnanna í fjölskyldunni og jólagafir hans og Gullyjar voru stórkostlegar og eftirminnilegar. Ingjaldur var ræktarsamur við vini sína og ættmenni. Hann hafði alltaf tíma til að brosa við börnunum, glettast við þau, umbar hávaðann og svo komu auðvitað upp úr pússi hans nammi og annað eftirsóknarvert.

Margar víddir

Ingjaldur hafði alla tíð góða reglu á sínum málum í lífinu, vinnu og öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var snyrtimenni, smekkmaður og flottur í tauinu. Hann verslaði erlendis og varð því gjarnan á undan sinni samtíð heima. Ingjaldur var myndarmaður og sjentilmaður. Hann var reistur og beinn og Nóbelskáldið var ekki öllu flottari á götu. Ingjaldur var kvikmyndaáhugamaður og sótti kvikmyndahús mikið þegar hann var í landi.

Ingjaldur var einhleypur og lætur ekki eftir sig börn. Hann keypti sér íbúð hér í vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi 27. Þar átti hann sitt hlé, þar tók hann á móti vinafólki sínu og þar var hann þegar hann kom í land 14. október 1988. Þar bjó hann þar til fyrir rúmum tveimur árum þegar hann flutti á dvalarheimilið Grund. Þar var hann vistmaður þar til hann lést, 10. febrúar síðastliðinn eftir fótbrot og uppskurð.

Ingjaldur var vel liðinn, hann var góðmenni, hann var góður maður. Þetta eru umsagnirnar sem ég hef fengið um hann. En jafnframt var mér sagt beint og óbeint að Ingjaldur hafi verið fámáll um sumt hið innra. Hann var ræðinn um flest en ekki frekar en aðrir var hann allur séður. Bara Guð veit og sá. Bara Guð var hinn eini sem fylgdi honum alltaf. Við erum pílagrímar í lífinu, við erum farmenn tímans, ávinnum, en glötum síðan, okkur áskotnast ýmsilegt en missum svo. Margt er okkur gefið en flest fer forgörðum – en þó er einn sem aldrei víkur frá okkur, Guð. Guð sem er nærri okkur og andar til okkar og talar í stjörnum, á nóttinni, í hvísli daganna, í góðu fólki, í hlátrum og gleði. Alls staðar er Guð – fylgir okkur líka á vondum og þungum dögum.

Hin mikla för

Ingjaldur fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en það sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Ingjaldur njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og ekki þarf hann að óttast að vélinn fari í fárviðri!

Ingjaldur Narfi Pétursson kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Þar er hann í föruneyti þeirra sem hann elskaði og naut að vera með, þar er öllu dýrmæti veraldar safnað saman, þar fær hann að vera allur og heill með sínu og sínum. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, varðveitir, leiðir og blessar.

Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Ingjald Narfa um alla eilífð.

Minningarorð í Neskirkju 19. febrúar, 2009. Jarðsett í Garðakirkjugarði

Sólborg Hulda Þórðardóttir – minningarorð

„Hvenær má ég koma? Hvenær get ég komið með teppið handa barninu?” spurði Sólborg Hulda Þórðardóttir.  Hún var alltaf með eitthvað á prjónum og heklunálin var líka á lofti. Hún elskaði fólkið sitt, fylgdist grannt með viðburðum, afmælum, gleðiefnum og veislum. Hún fagnaði þegar konurnar í fjölskyldunni urðu barnshafandi! Þá hófst hún handa og tók þátt í undirbúningnum, bjó til teppi, sem beið svo nýburans. Hún varð spennt og vildi gjarnan afhenda teppið sem fyrst.

Það er heillandi að hugsa um þessar nýburagjafir. Hvað vildi hún með þeim? Um hvað voru þær tákn? Voðirnar eru auðvitað umhyggjumál. Bogga vildi varna að litlu lífi yrði kalt. Og hún lagði ekki bara til það, sem var hægt að leggja í vöggur og sveipa um hvítvoðunga, heldur komu sokkar, vettlingar, milliverk, listaverk sem hannyrðakonan hafði gaman af að gera og gefa. Svo bjó hún til glermuni og fleira til gjafa líka. Ástargjafir Boggu bárust því víða og til margra. Þær eru vitnisburður um gjafmildi og lífsgleði. Afstaðan hefur erfst í fólkinu hennar. Ég var snortin af stórkostlegum sængurgjöfum sem sonardóttir hennar gaf vinafólki sínu.

Hvaða mynd áttu innan í þér af Sólborgu Huldu Þórðardóttur? Hvaða geislar stafa frá henni? Líf hennar er bæði táknrænt um sögu Íslendinga á 20. öld en líka boðskapur úr huldum dýptum og um visku lífsins. Hún fæddist snemma á liðinni öld, lifði svo lengi að hún náði nær tug í næstu. Hún fluttist úr dreifbýli í þéttbýlið hér fyrir sunnan og veitir innsýn í byggðaþróun þjóðarinnar. Hún ólst upp í þorpi og sveit, hóf búskap í sjávarplássi og neyddist til að fara suður til að sjá sér og sínum farborða. Hún missti marga og margt og hafði fáa kosti aðra en að rísa upp og láta ekki mótlæti hefta sig. Hún missti mann sinn en missti þó ekki móðinn, heldur þroskaði með sér lífsvisku, sem er aðdáunarverð og til eftirbreytni. Hún er sem lýsandi fyrirmynd um hvernig fólk getur lifað svo vel sé lifað, hvernig bregðast má við mótlæti og sorgum og vinna með til góðs.

Vandið ykkur við lífið, vandið lífshætti ykkar, gætið að lífshlýjunni eru sem sólstafir Boggu. Til hvers að lifa? Til að lifa vel. Hvernig eigum við að lifa vel? Með því að opna fangið gagnvart lífinu, möguleikunum – með því að elska fólk, þjóna öðrum. Í Jóhannesarguðspjalli er svonefnd Litla Biblía: “Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn…” Til að skilja dýpt ástarorða Litlu Biblíunnar er mikilvægt að skilja hina biblíulegu merkingu ástar. Vitringar fortíðar voru engu síðri en samtímafólk okkar og í sumu raunsærri. Ást í Biblíunni, og þar með Guðsástin, var ekki aðeins tilfinning heldur einnig athöfn. Að elska var ekki bara að leyfa glóðinni að streyma heldur að gera eitthvað í málum, leita hins elskaða, umlykja og faðma. Því svo elskaði Guð… Það er aldeilis ástarsaga að Guð sendir son sinn. Tilfinning Guðs er svo sterk og svo altæk, að það er ekkert minna en það að Guð komi sjálfur. Líf Sólborgar Huldu var líf athafna og hagnýtrar elsku.

Uphaf og lífsstiklur

Norðanvert Snæfellsnesið var heimur Boggu fyrsta hluta ævinnar. Hún fæddist á Hellissandi í lok júní árið 1914 og hefði því orðið 95 ára gömul innan nokkurra daga – hefði hún lifað. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir og Þórður Árnason. Bogga átti fimm systkini. Hún var næstelst og öll systkinin eru nú látin. Pabbinn féll frá aðeins liðlega fertugur og Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Guðríði og Sigurgeir. Þar kynntist hún mannlífi sveitarinnar, atvinnuháttum, viðfangsefnum og verkum ársins og fékk æ næmari skynjun á hversu mannlífið er dýrmætt og kannski líka tæpt. Líf og dauði, en lífið er betra en dauðinn, lífið er sterkara en dauðinn.

Bogga naut hefðbundinnar menntunar þessa tíma. Adólf Ásbjörnsson varð hennar lífsást og þau áttu heimili sitt í Ásbjörnshúsi í Ólafsvík. Þau eignuðust fjögur börn. Fyrst komu tvær stúlkur, Guðríður árið 1936 og síðan Ragnheiður ári síðar. Báðar dóu þær í frumbernsku. Drengirnir áttu hins vegar líf í vændum, þeir Þórður Marteinn og Adólf. Þegar Þórður var þriggja ára og Adólf á leiðinni veiktist Adólf maður Sólborgar, fór suður til lækninga en lést skömmu eftir að Adólf yngri fæddist. Sá stutti fékk því nafn föður síns, sem féll frá aðeins 32 ára gamall, og var skírður við kistu föður síns.

Það er mikil saga sögð í þessum fáu setningum. Líf og dauði, líf þrátt fyrir dauða. Hvað hugsar móðir með látnar stúlkur í fangi og síðan lítið líf en látin mann á börum? Sólborg ekki þrítug í þessum dramatísku aðstæðum. Hvernig verður líf við slíka áraun? Þegar áföllin verða svo stór verða kostirnir aðeins tveir, að lúta eða lifa. Svo eignaðist hún stúlku sem hún lét frá sér síðar til góðs fólks og í góðar aðstæður.

Hvaða leið fór Sólborg Hulda? Hvernig lifði hún? Hún talaði ekki um áföllin, brotnaði ekki og hún rétti úr sér. Hún vék sér ekki undan ákvörðun. Hún kippti upp sínum tjaldhælum í lífinu, kom syni sínum, Adólf, fyrir hjá afa og ömmu sem ólu hann upp. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Ranka amma, var líka mikilvæg og skal henni þökkuð elska hennar við Adólf, Sólborgu og fjölskylduna.

Suður

Sólborg fór til starfa í Reykjavík og vann lengstum við sauma, m.a. við gerð tískufatnaðar hvers tíma. Bogga saumaði draumaflíkur margra. Kannski væri ráð næst þegar þú ferð fataskápinn að skoða handbragðið og íhuga hvort hendur og natni Boggu eigi þar einhver merki og spor! Barnabörnin hennar nutu þess, að amma var í miðri hringiðu tískubransans og gat saumað handa þeim það, sem var flottast á hverjum tíma. Sólborg Hulda varð að gera upp lífið á erfiðum tíma og hún var kannski algerlega í réttum aðstæðum, að sauma spjarir, sem voru tengdar tímanum. Hún gerði sér grein fyrir að best væri að njóta augnabliksins og stundarinnar, grípa daginn, lifa vel en draga hvorki fortíð á eftir sér né láta áhyggjur – af því sem við fáum ekki ráðið í framtíð – hemja núið.

Sjálfstæðið var Sólborgu mikilvægt. Eftir að hafa búið í leiguhúsnæði, m.a.s. í kjallara Háskóla Íslands, keypti hún sér íbúð í Stigahlíð 18 og bjó þar í nær hálfa öld. Hún var frumbyggi í blokkinni sinni og kunni margbýlinu vel. Hún laðaði að sér börnin, gaf þeim ís og dekraði við þau. Hún lagði gott til nágrannana, sem minnast hennar fallega og studdu hana þegar hún eltist. Bogga gekk gjarnan til vinnu og naut þar með hreyfingar og útivistar. Svo varð stigagangurinn í blokkinni ljómandi trimmstigi fyrir hana þegar hún eltist.

Til lærdóms

Hvernig minnistu Sólborgar Huldu Þórðardóttur? Hvað viltu muna? Hvað eflir þig og verður þér lífshvati? Hún var glaðsinna og tók eftir því fagnaðarríka. Er það ekki til eftirbreytni?

Hún var alltaf til í ævintýri – bílferð, matarboð, afmæli. Hún lét aldrei neitt smálegt hindra kátínu og gleði. Er það ekki okkur til íhugunar?

Hún lét ekki áföll og skelfingar slá skugga yfir líf sitt. Hvað getum við numið af slíkri afstöðu?

Hún var tilbúin til að opna fang og huga gagnvart sambýliskonu Þórðar, sem þakkar innilegt viðmót. Hvað getum við lært af því?

Hún elskaði fólkið sitt, börnin, ykkur öll sem kveðjið. Hún viðurkenndi margbreytileika og umbar mismunandi skoðanir. Er það ekki veganesti okkur í heimi, sem er fjölbreytilegur í hugmyndum og trú?

Þurfum við ekki Sólborgarsýn og Sólborgarelsku í lífinu? Hún var engin vingull, vissi nákvæmlega hvað hún vildi, gat og megnaði, hún var heilsteypt – og er ekki mikilvægt að stæla stefnufasta sjálfsmynd með vitund um hvar mörk liggja og að annað fólk hefur líka þarfir sem ber að virða. Getur Bogga orðið okkur hvati til að fara vel með líf okkar, virða þarfir en láta þær ekki flæða yfir aðra? Hún var kunnáttusöm í samskiptum og leitaði mannfagnaðar og tjáði skýrt jákvæðni og elsku sína. Er ekki í því fólginn hvati og viska til eftirbreytni? Hún kunni að þakka fyrir sig. Hvernig umgöngumst við fólk, sjálf okkur og gæði lífsins? Þurfum við ekki að æfa okkur svolítið betur í þeirri sjálfsögðu og mikilvægu lífskúnst – að þakka?

Sólborg himins

Nú eru skil orðin. Sólborg Hulda Þórðardóttir lést 11. júní síðastliðinn á heimili sínu í Sóltúni. Hún smellir sér ekki lengur í ferð með þér, hún kemur ekki lengur niður, hún laumar ekki kjötbita til ferfætlinganna eða sokkum á kalda barnafætur. En hún verður áfram fordæmi, vefur þig umhyggju og elsku. Vettlingarnir og værðarvoðirnar eru hljóðlát tákn um afstöðu til lífsins, um að lífið er til að lifa því og lífið er sterkara en dauðinn.

Hún bar í sér, nafni sínu og verkum afstöðu himinsins, að lífið er borg sólar, er ætlað að vera sólfang til góðs. Nú er hún sjálf í himinljósinu. Gagnvart mörkunum miklu er það til styrktar að hugsa um hana með Adólf, með dætrum sínum, með ættboganum öllum á þeim miklu Hulduhólum eilífðar, í Sólborg himinsins.

Guð geymi Sólborgu Huldu Þórðardóttur. Guð geymi þig í sorg þinni og lífi.

Minningarorð í Háteigskirkju 24. júní, 2009. Duftker jarðsett í Ólafsvíkurkirkjugarði.

Æviyfirlit

Sólborg Hulda Þórðardóttir fæddist á Hellisandi 28. júní 1914, hún lést fimmtudaginn 11. júní síðastliðinn á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, f. 2. júní 1885, d. 28. maí 1967 og Þórður Árnason, f. 23. mars 1880, d. 30. nóvember 1922. Hún var alin upp hjá móðurforeldrum sínum Guðríði og Sigurgeir.

Systkini Sólborgar voru: Guðlín Laufey Þórðardóttir, f. 1912, d. 2006. Olgeir Guðberg Þórðarson, f. 1915, d. 1997. Ólafur BjartdalÞórðarson, f. 1917, d. 1995. Árni Bergmann Þórðarson, f. 1919, d. 1985. Sigurgeir Þórðarson, f. 1922, d. 1922.

Maður Sólborgar var Adólf Ásbjörnsson, sjómaður í Ólafsvík, f. 27. október 1910, d. 13. febrúar 1942. Foreldrar hans voru Ragnheiður Eyjólfsdóttir, f. 1877, d. 1959 og Ásbjörn Eggertsson, f. 1874, d. 1957, Sólborg og Adólf áttu fjögur börn:

Guðríður, f. 1936, d. 1936

Ragnheiður, f. 1937, d. 1937

Þórður Marteinn, f. 14 nóvember 1938. Hann var kvæntur Hönnu Jónu Margréti Sigurjónsdóttur, f. 13. febrúar 1942, d. 6. maí 2005. Sambýliskona hans er Elsa Jóhanna Gísladóttir, f. 24. janúar 1941.

Börn Þórðar og Jónu eru: Margrét Þórunn, f. 26. febrúar 1960, d. 3. desember 1960. Sólborg Hulda, f. 10. júní 1961, gift Atla Karli Pálssyni,  f. 5 maí 1963, dóttir þeirra er Margrét Heba, f. 30. október 1997. Sigurjón, f. 8. mars 1963, kvæntur Hrafnhildi Garðarsdóttur, f. 9. mars 1962, börn þeirra eru Garðar Hrafn, f. 12. mars 1985, Kristinn Örn, f. 29. ágúst 1992 og Hanna Jóna, f. 20. ágúst 1999. Ragnheiður Margrét, f. 2. júlí 1964, d. 28. júlí 2008, gift Jóni Oddi Magnússyni, f. 31 október 1959, börn þeirrraeru: Margrét Þórunn, f. 26. janúar 1981, sambýlismaður hennar er Björgvin Fjeldsted, f. 26. september 1976, synir þeirra eru Óliver Dofri, f. 27. nóvember 1998 og Mímir Máni, f. 22. maí 2004 og Þrymur Orri, f. 2. nóvember 2005.

Þórður Ingi, f. 22. október 1988. Áslaug Þóra, f. 22. september 1992. Sigrún Ósk, f. 17. september 1995 og Hanna María, f. 5.desember 1996.

Gróa María, f. 16. júní 1967, gift Baldvini Kárasyni, f. 7. nóvember 1967, synir þeirra eru Páll Helgi, f. 22. mars 1999 og Gísli Marteinn, f. 12. febrúar 2002

Adólf, f. 4. janúar 1942, kvæntur Moniku Magnúsdóttur, f. 11. nóvember 1942,

Börn þeirra eru: Ragnheiður María, f. 11. júli 1967, gift Brynjari Guðbjartssyni, f.  19. janúar 1966, börn þeirra eru Iðunn, f. 18 nóvember 1993 og Ari, f. 7. mars 1996.

Magnús Már, f. 9. mars 1970, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur, f. 17. febrúar 1970, börn þeirra eru Óttar Már, f. 11. ágúst 1994 og Ólöf, f. 26. júní 1997.

Steinunn. f. 7. nóvember 1972, sambýlismaður hennar er Valdemar Sæberg Valdemarsson, f. 22 júlí 1971, dóttir þeirra er Ída María, f. 1. janúar 2008.

Soffía, f. 3. október 1983, sambýlismaður hennar er Ólafur Sverrir Kjartansson, f. 7, desember 1983, dætur þeirra eru Saga Guðrún, f. 29. október 2004 og  Arney Vaka f.  22. mars 2007.

Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum á Hellisandi. Hún var búsett í Ólafsvík þar til maður hennar lést en eftir þann tíma bjó hún í Reykjavík. Frá 1959 var heimili hennar í Stigahlíð 18 þar til hún fluttist í Lönguhlíð 3 fyrir tveimur árum síðan. Síðustu sex mánuðina naut hún umönnunar að Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Sólborg starfaði ung við ýmis þjónustu- og fiskvinnslustörf en lengst af við saumastörf  í saumaverksmiðjum eftir að hún fluttist til Reykjavíkur.

Útför Sólborgar Huldu frá Háteigskirkju miðvikudaginn 24. júní, 2009.