Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Jón Samsonarson 1931-2010 – Minningarorð

Englar, Freyjur, Bokki í brunni, land míns föður, Jónar, nunnur, mágar og faðir minn! Það er sérstæð efnisflétta sem við höfum þegar notið í þessari athöfn: Ólíkt efni, söngur um bláan straum, auglit sem vakir og svo kveðskapur um flug til himintungla og för inn í himinn. Þessir textar minna á ríkulegan orðageim, sem Jón Samsonarson bjó í og naut á vinnustofu eða með fólkinu sínu. Maðurinn fæðist nakinn í heiminn og verður ekki að manni nema í gagnlegum spjörum menningar. Jón sat löngum við þá menningarlegu tóvinnu að greiða vel úr svo að börn framtíðar nytu sér til skjóls og manndóms. Nú eru skil. Við kveðjum æðrulausan, þolgóðan öðling, Jón Samsonarson, rifjum upp atvik, tengingar við eigið líf, vinnustað hans, áföll, fræði, fjölskyldu, samferðamenn og velgjörðarmenn. Blessum minningu hans og spyrjum gjarnan um eigin hamingjuleiðir.

Fyrir hverja eru minningarorð í kirkju? Ekki fyrir englana og ekki þarfnast Guð ræðu prests eða annars manns fyrir handritahvelfingu himinsins. Ekki verður líkræða til að staðfesta gildi hins látna – heldur er hún fyrir lífið, fyrir þig og nesti til þinnar lífsferðar – fararblessun.

Uppruni

Jón Marínó Samsonarson fæddist um miðjan vetur á Bugðustöðu í Hörðudal árið 1931. Foreldrar hans voru Margrét Kristjánsdóttir og Samson Jónsson. Hann var yngstur í systkinahópnum. Eldri voru Þórunn Laufey, Kristján, Fanney og Árni, sem öll eru látin og Árni dó í bernsku, sama ár og Jón fæddist. Kolbeinn, fóstbróðir þeirra systkina, fæddist 1944. Ómar, sonur Laufeyjar, hefur reynst frændfólki sínu vel og er honum þakkað.

Mótun

Jón ólst upp við sveitastörf, mótaðist af sveitamenningu, gildum hennar og viðmiðum en ekki höftum. Í honum bjó menntaþrá og Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar urðu til að menntavonir hans náðu flugi, hann stæltist og ákvað sókn til náms. Jón fór suður og lauk grunnskólanámi í Reykjavík. Svo tók við Menntaskólinn í Reykjavík og hann lauk stúdentsprófi árið 1953.

MR-ingar þekkja Selið og Jón fór í skólaferð þangað og þar var líka Helga Jóhannsdóttir. Þau áttu skap saman, töluðu greitt, nutu samvistanna og elskan óx. Svo keyrði faðir Helgu þau niður í bæ 31. desember 1953 og þau voru gefin saman í hjónaband. Þá var Heiðbrá í gerðinni og Helga komin þrjá mánuði á leið. Hjúskapur þeirra lánaðist vel og Helga varð hans frú Fortuna, lánið í lífi Jóns.

Þau áttu sitt fyrsta heimili á Tjarnargötunni. Jóhann Sæmundsson, tengdafaðir hans, kenndi sér meins og trúði Jóni fryer, að hann væri sjúkur og til dauða. Þeir réðust í að byggja á Melhaga 11 til að stórfjölskyldan gæti búið saman í stóru fjölskylduhúsi. Þar bjuggu síðan í nánu sambýli fólk á öllum aldri og konurnar voru í miklum meirihluta. Heimilislífið var fjörlegt á þessu stórbýli og Jón Samsonarson var aðalkarlinn í húsinu og axlaði ágætlega þá ábyrgð að veita festu og skipan, sem tengdafaðir hans hafði falið honum áður en hann lést.

Dæturnar

Í samræmi við kynjahallann í húsinu eignuðust Jón og Helga fjórar dætur og eiginlega í fyrri og seinni hálfleik.

Elst er Heiðbrá, stærðfræði-hagfræðingur. Maður hennar er Einar Baldvin Baldursson. Börn þeirra eru Soffía og Baldvin. Fjölskyldan býr í Árósum.

Næstelst systranna er Svala, myndmenntakennari. Dóttir hennar er Helga Jónsdóttir.

Þiðja er Hildur Eir, löggiltur endurskoðandi í Madrid, gift José Enrique Gómez-Gil Mira. Börn þeirra eru Jón og Rósa.

Yngst systranna er Sigrún Drífa, gæðastjóri, og maður hennar er Árni Sören Ægisson. Börn þeirra eru Íris Eir, Sóley Margrét og Eiður Ingi.

Námsár

Jón stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, var afburðanemandi og lauk námi árið 1960 og fékk ágætiseinkun, sem sætti tíðundum. Meistaraprófsritgerð fjallaði um sr. Bjarna Gissurarson í Þingmúla. Það rímaði vel við störf hans síðar í Stofnun Árna Magnússonar, að hann skilaði ritgerð sinni fagurlega handritaðri en ekki bara vélritaðri. Menningarsjóður gaf svo út árið 1960 bókina Sólarsýn, sem er byggð á ritgerð Jóns og dregur fram hið bjarta, skemmtilega og gleðilega í menningu sautjándu aldar.

Þau Jón og Helga fóru síðan utan til Kaupmannahafnar til náms. Jón var undir vængbarði Jóns Helgasonar og varð sendikennari. Helga gekkst við tónlistarhneigð sinni og hóf nám í tónlistarfræðum. Kaupmannahafnarárin urðu ríkulegur og góður tími. Allt gekk þeim í hag, lifið á Händelsvej var gott, steplurnar voru efniskonur. A þessum árum voru stelpurnar tvær, Heiðbrá og Svala og fjölskyldumynstrið allt annað en síðar varð. Þetta var góður og yndislegur tími samrýmdrar fjölskyldu. Dæturnar eignuðust dönskumælandi vini. Húsakynnin voru lítil, en lífið var þeim öllum gjöfult og lærdómsríkt.

Jón Helgason felldi þann úrskurð, að þegar nafni hans hélt einhverju fram, þyrfti hann ekki að efast um að rétt væri. Úr stórum hópi glæsifræðimanna var Jón nákvæmastur og því gat nafni hans Helgason treyst. Sú eigind einkenndi fræðimennsku hans og líf. Þegar Jón Samsonarson uppgötvaði eina stafsetningarvillu í bók, sem hann gaf út síðar varð honum að orði: “Þetta er ónýt bók.” Á Hafnarárunum gekk Jón frá riti um kvæði og dansleiki í tveimur bindum, og treysta má því sem þar er skrifað og engum sögum fer af stafsetningarvillum.

Samfélagið Árnastofnun

Handritastofnun varð til með lögum árið 1962 og fékk seinna nafnið Stofnun Árna Magnússonar. Fyrstu árin voru fastir starfsmenn aðeins þrír. Árið 1968 kom Jón Samsonarson frá Danmörk og gekk til liðs við stofnunina. Samfélag fræðinganna var ljómandi, glatt á hjalla, mikill metnaður í vísindunum og tímarnir spennandi, handritin á leið heim, ekki aðeins “Vær so god – Flatöbogen” heldur fjársjóðir til að rannsaka og sýna.

Jón Samsonarson var miðvörður í landsliði íslenskra fræða og naut sín. Sérsvið hans voru saga og bókmenntir tímans eftir siðbreytingu. Í samráði við Jónas Kristjánsson hóf hann rannsóknir og útgáfu kjarnaveka í bókmenntasögu þessa tíma. Jón vissi vel af fræðaeyðum og vildi að skipulega yrði gengið til verka og undirstaðan yrði réttleg fundin. Jöfur stóð að baki og verklagið var gæfulegt. Margir hafa síðan notið grunnvinnu Jóns. Hann átti í sér kyrru, einbeitni og æsingalausa dómgreind, sem var þörf til mótunar gjöfulla verkferla. Hann var ósínkur á tíma í þágu fræða og fólks. Jón var góður kennari, miðlaði ekki aðeins fræðum, handritasýn og samanburði, heldur kenndi nemum sínum einnig vinnubrögð agaðra útgáfufræða.

Klaustralif

Stofnun Árna Magnússonar hefur verið sérstæður heimur og minnir um sumt á klaustur. Dyr voru læstar, allir áttu sinn stað og ramma. Vissulega var engin tíðagerð en hrynjandi árs og daga var í skorðum, kaffið á ákveðnum tímum og starfsmenn áttu sér sitt communio. Í þessum heimi voru líka englar, handrit, tíma- og söguþykkni, hefðir, reglur, ritúöl og skýr hlutverk. Kannski var ekki bænagerð en unnið að kraftaverkum samt. Í þessu fyrimyndarklaustri var einlífið möguleiki en ekki skylda, bænir leyfðar en ekki boðnar. Árnastofnun var samfélag, sem iðkaði margt það besta í klaustrum en sneiddi hjá mörgu því versta.

Svo þegar áföll dundu yfir kom í ljós að félaganna, bræðranna, var vel og dyggilega gætt. Þess naut Jón Samsonarson eftir heilablóðfall árið 1984. Samfélag stofnunarinnar fangaði hann vel og studdi. Þið vinir og samstarfsmenn megið vita að verk ykkar og afstaða er bæði metin og virt. Þökk sé ykkur, þökk sé stjórn, ábótum og jöfrum Árnastofnunar. Þetta er gott og gjöfult klaustur og góð regla sem ástæða er til að styðja – Íslandi, fræðum, tungu og menningu til góðs.

Prívatlífið

Fyrir utan fræðamúrana átti Jón Samsonarson ríkulegt líf. Kvennahúsið á Melhaga 11 var gott. Tuttugu ár voru milli elstu og yngstu dætranna og því strekktist vel á barnatíma fjölskyldunnar. Og lífríki heimilisins varð bara fjölbreytilegra og Jón aðlagðist mismunandi kröfum og dætur hans og kona voru umburðarlyndar við hann. Það eru ekki margar nútímakonur, sem hafa notið glæsilegrar bókmenntakennslu á gönguferð í og úr leikskóla eða fengið hraðferð í Njálu ef gönguferðin varð löng.

Helga var þjóðlagafræðingur og var frumkvöðull í að taka upp söng og kveðskap. Þau Jón ferðuðust um Ísland og hittu fólk, sem dætrum þeirra þótti sumt skrítið, en foreldrar þeirra mátu að verðleikum, tóku upp kveðskaparefni þess og söng. Þetta upptökusafn, mikið djásnasafn, er síðan varðveitt og fræðimönnum aðgengilegt.

Þau hjón voru líka ferðagarpar, gengu á fjöll og yfir jökla. Dætur þeirra nutu þessa og fjölskyldan bjó í tjöldum jafnvel í margar vikur í senn – í Skaftafelli, í Þórsmörk og víðar. Bílleysi var engin fyrirstaða, stutt var á BSÍ og svo var haldið á vit ævintýra og allir gátu notið sín, þau eldri í göngum og þau yngri að leikjum við tjald. Jóni þótti það nánast manndómsmerki að stunda útivist og vildi að barnabörn hans lærðu að ganga á íslensk fjöll.

Öllum var hann elskulegur og umhyggja hans átti sér fá takmörk. Ef ráðalaus róni varð í vegi hans lagði hann Kristslega lykkju á leið sína til að aðstoða hann í hús og skjól.

Þau Jón og Helga voru samstiga í þjóðmálum, vildu her úr landi og oft gengu þau sunnan úr Keflavík til að hóa hernum burt úr engi íslenskrar menningar. Þau höfðu erindi sem erfiði, þó síðar yrði. Helga lagði málefnum jafnréttis og kvenfrelsis lið og Jón stóð við bak – eða gekk við hlið hennar – bæði í orði og lífi.

Jón ólst upp meðal vísugerðarmanna. Hann naut þeirrar mótunar ekki aðeins í störfum heldur hafði gaman af að vera með kvæðamönnum og fór í ferðir með þeim.

Vandaður, góður maður

Jón Samsonarson var heilsteyptur maður, vandaður, frómur, hógvær, ljúfur og agaður. Hann var maður traustsins, orðvar og umtalsfrómur. Hann tamdi sér reglu og skóp festu í lífi síns fólks. Glaðlyndur og eftirlátur, gjöfull og félagslyndur, veitull og virðingarverður. Jón var staðfastur og líka á raunastundum var hann æðrulaus um sín mál og sinna – gerði það sem í hans valdi stóð og virti mörk sín og annarra.

Nú er þessi bókfróði fræðaþulur farinn. Nú hefur hans lífsbók verið lokað. Ég mun ekki túlka hana frekar, í þeim fræðum eru aðrir mér fremri og nákvæmari, bæði þessa heims og annars. En eftir hann liggja verk, orð, blöð, ævistarf og svo lifandi fólk.

Jón Samsonarson helgaði sig lífi bóka, handrita, menningar og fræða. Kristnin vefst inn í þá veröld með ýmsum hætti og með ýmsu móti. Kristnin er bókarátrúnaður og því varð íslensk menning orðrík og bókrík. Orðið biblia þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er rætt um mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir og um bækur. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók! Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður byrjaði með orð til að tjá veruleika lífsins, forsendur þess og tilgang. Orð voru við upphaf veraldar. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar.

Lífi Jóns er nú lokið og samkvæmt Biblíunni er þar með nýtt upphaf og sólarsýn. Við megum velja sjónarhól og túlkun og mér hugnast að sjá Jón Samsonarson fyrir mér í stórkoslegri handritahvelfingu og með aðgang að handritunum – sem alltaf vantaði í heimi tímans. Danshópur er nærri og sýnir honum hvernig vikivakar voru dansaðir á fyrri öldum, og svo eru öll mál kveðskapar leyst og allir eru glaðir í þessu himneska kvæðamannafélagi. Já, og Árnastofnun himinsins er bara til í hátíðaútgáfu. Þetta er sólarsýn, kristnin er átrúnaður hins bjarta og vonarríka. Guð kannast við heiminn vel krossaðan, veröld okkar er helguð og því góð.

Á miðvikudaginn stóðu hinar glæsilegu dætur Jóns við höfðagafl kistu föður þeirra. Tvær föðmuðust, svo komu hinar tvær og föðumuðu þær sem fyrir voru – í faðmlaginu mynduðu þær kross. Átta hendur vöfðust saman og þær mynduðu elskuskúlptúr, sem var fegurrri en nokkur skúlptúristi hefði getað meitlað. Þær voru að kveðja föður, en líka líf foreldra. Líf þeirra hefur ofist saman og þær eru næsti liður í keðju kynslóða. Þeirra er að ganga hamingjuleið, leið lífsins, til elskuauka fólks. Þær mynduðu kross – börn hafa um aldir verið krossuð á bak og brjóst. Kross er strikamerki himins og tjáir elsku og vernd. Þær njóta hennar.

Blessuð veri minning Jóns Samsonarsonar. Góður Guð geymi hann um alla eilífð – og vitji þín á þinni göngu, styrki og blessi.

Eybjörg Sigurðardóttir – minningarorð

Við sátum í fallegu stofunni hennar Eybíar síðastliðinn mánudag, hugsuðum um uppvöxt og líf hennar, rifjuðum upp atvik úr lífi þeirra Geirs, hvað hún gerði, hvað gladdi hana og hvernig hún umvafði allt sitt fólk til hinstu stundar. Fallegar sögur voru sagðar og hlýja skein úr augum ástvina hennar. Svo þurfti að ákveða hvaða mynd skyldi sett á sálmaskrána. Þungbúin mynd af Eybí kom ekki til greina. Nei, myndin skyldi tjá hlýju hennar. Og brosið er fallegt sem blasir við okkur.

Hver er mynd þín af Eybí? Er það elskusemin, augun hennar eða hendurnar sem þú manst? Eru það fallegu fötin hennar? Koma fyrst í huga þinn eigindir eða það, sem hún gerði þér til góðs? Minnistu þess að hún kom með ömmutertu í boð eða spilaði við þig? Staldraðu við og leyfðu huganum að fara til baka, vitjaðu þinna eigin mynda og leyfðu þeim að vinna djúpvinnu í sálinni þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar. Menningin er sneisafull af myndum sem túka, móta, hafa áhrif og skilgreina líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla hennar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Við erum því öll í mynd Guðs – og sú mynd er ekki eins og afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar sálargáfur, dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs, tenglar hins guðlega, kemur síðan fram í biblíuefninu. Að menn stóðu sig ekki, fóru villur vega, var túlkað sem skemmd þeirrar myndar Guðs, sem menn væru kallaðir til að vera.

Þessi myndaspuni verður áleitinn þegar við hugsum um hvern mann sem listaverk, stórbrotið djásn sem fagurkerinn Guð hefur gert til að gæða veröldina fegurð, gleði og lífi. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er þetta listagallerí heimsins flekkað og saurgað. Inn í þá veröld kom síðan hinn hreini og fallegi Jesús Kristur, sem stókostleg ímynd og fegurð, Guð í heimi. Þess vegna töluðu höfundar Nýja testamentisins um að Jesús Kristur hafi fullkomnað myndina, sem menn voru skapaðir í. Og það er síðan verkefni allra manna, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti, mynd Guðs, lifa þannig að lífinu sé vel lifað og í samræmi við fegurð og verkefni Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Við erum kölluð til að vera falleg mynd Guðs í veröldinni.

Hver er mynd þín af Eybí? Og hver er þín eigin mynd? Ertu sáttur eða sátt við myndina, sem þú hefur af þér? Er það í samræmi við hvernig þú gætir lifað vel og með visku og fegurð? Myndin af Eybí kallar á að þú hugsir um þína eigin mynd bæði gagnvart þér og Guði.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún Eybjörg Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl árið 1926. Foreldrar hennar voru Sigurður Bjargmundsson og Valgerður Júlíana Guðmundsdóttir. Vegna veikinda móður Eybíar var henni nokkurra mánaða komið í fóstur til Lovísu Bjargmundsdóttur og Þorvaldar Egilssonar. Þau voru þá barnlaus og tóku kornabarnið í fangið með getu, ábyrgð og elskusemi. Lovísa, fósturmóðir Eybíar, og Sigurður, blóðfaðir hennar, voru systkin og fjölskyldurnar voru samþættuð stórfjölskylda svo hliðrun Eybíar varð henni skaðlaus. Sjö systkini Eybíar voru Friðþjófur, Gunnar, Björn Jóhann, Bjargmundur, Erna, Dagbjört og Erna Sigrún, sem öll eru látin. Fóstursystkini Eybjargar eru Guðríður Stefanía og Sigurður Egill og þau lifa bæði systur sína.

Eybí óx upp í vesturbænum og Brunnstígur var nafli alheims. Hún tiplaði niður í bæ í Miðbæjarskóla og fór svo í Kvennó og fór því í gegnum miðbæinn og rölti fram hjá þinghúsinu daglega meðan á heimsstyrjöldinni stóð. Kvennó var dýrlegur skóli, sem fröken Ragnheiður stjórnaði. Eybí þótti gaman og lærði vel og var greinilega góður ambassador síns skóla því bróðir hennar þráði fátt heitar en fá að feta í fóstpor hennar – en það var áður en karlaveldi og kvennaveldi fortíðar tóku að riðlast. Eybjörg lauk námi frá Kvennaskólanum árið 1944. Hún hélt góðu sambandi við margar vinkonur úr Kvennó alla tíð. Þegar skóla lauk fór fór Eybí að vinna á Morgnblaðinu, var þar á árunum 1944-52.

Geir og börnin 

Eiginmaður Eybjargar var Geir Jóhann Geirsson. Hún sá glæismennið fyrst í Kaupmannahöfn og það var vel við hæfi að það var niður við höfn. Eybí naut danskrar menningar löngum og í Danmörk átti hún eftir að vera með manni og börnum eitt sumar í Köge. Þau Geir hófu hjúskap í Sörlaskjóli og börnin fóru að koma í heiminn. Heimilið var sjómannsheimili og Eybí hætti að vinna úti og sinnti börnum og búi. Þau Geir og Eybí voru alla tíð samhent hjón og studdu og efldu hvort annað.

Fyrstur í barnaröðinni var Þorvaldur og hefur verið fóstri Kochkorn Min Sádu. Næstur var Geir Helgi sem lést fyrir tæpum þremur árum. Ekkja hans er Helga Guðjónsdóttir. Þau áttu fjögur börn og tvö barnabörn. Eftir að þeim Eybí höfðu fæðst tveir strákar komu svo tvær dætur, Lovísa og Valgerður. Lovísa á tvö börn og Valgerður á tvær dætur. Maður hennar er Viktor Arnar Ingólfsson. Dóttir Geirs af fyrra hjónabandi er Nína, sem er búsett í Kaupmannahöfn. Hún á tvo syni.

Þegar byrjað var að byggja á Melunum tóku Geir og Eybí ákvörðun um húsbyggingu á Hagamel. Þau voru í samfloti með vinafólki, Bjarna og Áslaugu, sem urðu frábærir nágrannar þeirra í áratugi. Húsið var ekki aðeins vel byggt heldur fyllt góðvild og lífskrafti. Það varð hamingjuhús, mikill og góður samgangur var milli hæða – svo náinn að börnin gengu inn í hinar íbúðir hússins – og raunar í báða hluta hússins, næsta haftalaust. Og til að dyrnar út á gang væru ekki alveg galopnar allan sólarhringinn kom Geir einu sinni með löm frá útlöndum sem var þeirrar náttúru að hún hallaði hurðarspjaldi að stöfum. Þetta var auðvitað þarfaþing þegar barnaskarinn þaut milli hæða og í asanum gleymdist að loka. Enn er lömin þarna sem hljóðlátur vitnisburður um þetta fallega mannlífsþorp, sem myndaðist á fjórum hæðum. Það þarf þorp til að ala upp barn hefur oft verið sagt og þökk sé öllu þessu góða fólki, sem bjó til fallegt mannlíf og studdi að styðjandi lífsháttum sem fór vel með fólk. Gott nábýli er ekki sjálfsagt heldur þakkarefni og dýrmæti og að fá að lifa eins og í ítalskri stórfjöskyldu á Hagamel er ekkert minna en undur og kraftaverk.

Eigindir

Eybí var alla tíð mikil hannyrðakona. Hún prjónaði, saumaði og skapaði. Hún var fáguð í framkomu og svo mikil dama, að hún var ekki sátt við að taka á móti fólki til sín nema hún væri komin úr morgunfötunum og búin að punta sig. Eýbí hélt vel utan um hópinn sinn og þurfti ekki að byrsta sig til að börnin skyldu hvað til þeirra friðar heyrði. Hún sá um húshaldið og uppeldið, trúarfræðsluna, bænalífið, þvottana, eldhúsverkin, kenndi börnunum að spila á spil, ókjör af söngvum og leikjum. Hún hlustaði á sögur þeirra og svo las hún fyrir sitt fólk, bæði börn og barnabörn Óla Alexander Fílíbommbommbomm, um selinn Snorra, Dúmbó og Dimmalimm, þessar og aðrar sögur sem bæði skemmta en miðla líka margvíslegri visku til lífs og gerða.

Eybí var heimakær, leið vel með sínu fólki og í sínum ranni í hamingjuhúsinu á Hagamel 30. Henni þótti líka gaman að fara í fjölskylduferðir. Hún var félagi í kvennafélaginu Keðjunni, félagi kvenna vélstjóra, sem átti sér athvarf í sumarhúsi við Laugarvatn. Þangað fór Eybí og þau af hópnum hennar, sem áttu heimangengt í það og það skiptið. Og þar eystra var hamingjan stælt og iðja gleðinnar stunduð, fjallgöngur, ólsen-ólsen og samtöl.

Skaphöfn Eybýar var kyrrlát og styrk. Hún var skýr í skoðunum en umgekkst fólk ljúflega, orðaði elskulega og hafði því lag á góðum samskiptum við börn sem fullorðna. Eýbí lagði gott til annarra, talaði vel um og var því hamingjustoð ástvina sinna. Hún rækti vel sitt fólk, börn sín og fjölskyldur þeirra. Hún vakti yfir velferð stórfjölskyldu sinnar og reyndi að gera öllum gott sem hún gat. Svo sá Eybí til að börnin áttu gott samband við þrjú sett af öfum og ömmum, sem var auðvitað sérstakur bónus í tilverunni.

Þegar börnin flugu úr hreiðri fór Eybí að starfa utan heimilis að nýju. Hún var starfsmaður á leikskólanum Brekkukoti, Landakotsspítala, á árunum 1981-1994.

Stórfjölskyldan kom saman fyrir þremur vikum og hélt veislu. Eybí naut hennar og samfélagsins við margt af sínu fólki. Fögnuðurinn varð rammi um síðustu minningu margra þeirra um Eybí. Það er góður rammi um fallega mynd. Eybjörg Sigurðardóttir lést á heimili sínu 26. október síðastliðinn. Nú er hún farin inn í stórhús á gleðimel himinsis þar sem hamingjan á upphaf sitt, allt er gott, samgangur er greiður og engar lokur milli hæða!

Þakkir

Margir þakka Eybí samfyld og blessun lífs hennar. Hildur Sveinsdóttir og Ásthildur og Þóra, dætur hennar í Svíþjóð, biðja fyrirr kveðjur, Júlíus Bjarnason sömuleiðis. Frá Danmörk hafa borist kveðjur frá Nínu Geirsdóttir sem og hjónunum Dóru Gunnarsdóttur og Pétri M. Jónassyni.

Gott fólk eflir aðra til dáða og margir voru Eybí elskusamir í lífinu og vert að þakka þeim. Áslaug Stefánsdóttir var Eybí vinkona til lokadags. Þær studdu hvor aðra með hlýju og elsku. Guðríður systir Eybíar fylgdist grannt með velferð hennar. Stella, Didda, Hanna og Kalla voru oft á ferð til að gleðja Eybí. Siggi og Gurrý voru alltaf til stuðnings. Þeim og öllum öðrum sem hafa verið henni til styrks og gleði skal þakkað að leiðarlokum. Guð geymi ykkur og Guð laun.

Myndin í lífinu

Hver er myndin af lífinu? Þegar ég er búin að hlusta grannt á ástvini hennar er myndin af Eybí í mínum huga sem fögur helgimynd. Hún geymdi líka í sínum huga myndina af þér. Hún fylgdist vel með þér, þínu fólki, blessaði þig í huganum, ól önn fyrir þér. Hún var fulltrúi Guðs í mannheimum.

Þegar við kveðjum góða konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin mynd. Guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd þín verður aldrei sett í myndaalbúm – Guðsmynd er lifuð. Þú ert meira en það sem aðrir sjá. Þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Þér eru gefnar gjafir til að fara vel með í þína þágu, en líka annarra. Þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð.

Hvernig viltu lifa? Ekkert ykkar kemur lengur í mat til Eybíar, engir Hersheys súkkulaðikossar eru frambornir, ekkert barnabarna fær að sofa á spítunni eða spila ólsen-ólsen við hana. Hún hefur lokið þessu lífi, lokið ævistarfi, en mynd hennar lifir í tíma og hjörtum ykkar en sjálf lifir hún í eilífð Guðs í hamingjuveröld með ástvinum.

Lærðu af Eybí að lifa vel, efla aðra, brosa við börnum, tala vel um fólk, lifa með reisn. Lærðu að lifa hvern dag í þakklæti og gleði, lærðu að láta ekki sorgir eða áföll gærdagsins skemma þig. Þú ert falleg mynd, sem Guð hefur skapað, þú ert dýrmæti sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Eybí var það dýrmætasta, sem Guð átti og þú ert það dýrmætasta sem Guðs sér og elskar. Og hvernig viltu að myndin þín verði? Farðu vel með lífið og lifðu til eilífðar eins og Eybí – og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Eybjörg Sigurðardóttir, Neskirkju, 3. nóvember, 2010.

Brynjólfur Vilhjálmsson – minningarorð

Brynjólfur var maður hinna íslensku vega. Hann kunni á vegi og færð þeirra. Hann hafði unnið að vegum, hann vissi hvernig átti að gera vegi, hann hafði – eins og vænta mátti – skoðun á hvaða malargerð ætti að vera í undirlagi og kornastærð í slitlagi – ekki meira en 19 millimetra.

Brynjólfur vissi líka hvaða þykkt átti að vera á ólíulaginu til að vegurinn yrði góður. Og svo kunni hann að keyra, hafði gaman af ferðum sínum, naut vinnunnar, axlaði algerlega ábyrgð á sínum hlut og verkum. Brynjólfur var einn af þeim mönnum sem lögðu grunn að gæfu Íslands, lögðu leiðir til Íslands nútímans og fóru þær.

Vegir og ferðir eru heillandi mál. Við menn erum ferðalangar – ekki aðeins í tíma heldur rými. Við hefjum för okkar í móðurkviði, reynum margt sem fóstur, förum “þrengslin” á leið úr móðurlífi. Síðan er ferðalag alla æfi og áfram til eilífðar. Stundum gengur vel en  lífsfærðin getur líka verið slæm og menn lenda í vegleysum. Hvað er svo í framtíðarlandinu? Eitt sinn vorum við fóstur sem fórum úr móðurhlýjunni inn í allt öðru vísi heim. Og svo verða önnur ofurskil þegar við förum yfir mæri tíma og eilífðar. En við megum alveg búast við að þar verði gott því þar er Guð.

Vegagerð Guðs

Vegir og vegagerð. Ég las áðan úr Jóhannesarguðspjalli. Jesús sagði: “Ég er vegurinn…” Og það merkir ekki að hann hafi útflatt sjálfan sig í kornastærð 10-19 eða hann hafi viljað að menn völtuðu yfir sig. Ég er vegurinn… Það merkir að hann gerði torleiði fært, opnaði það sem áður var lokað og mönnum ófært. Vegamenn íslands, Þróttarar og við öll ættum að meta og þakka svo góðan ásetning. Svo bætti Jesús við að hann væri sannleikurinn og lífið. Það er flottur vegur. Ekki einu sinni vegatollur, ekkert torleiði, bara vilji til að halda leiðina, taka þátt í ferðinni, njóta hennar og menn eru hvattir til að vera góðir og tillitssamir ferðafélagar. Og þar sem þetta flutningafyrirtæki himinsins er vel rekið mega menn gera ráð fyrir að tækin séu góð, stjórnin í lagi, vinnan skili og allt gangi upp. Himininn, já það er máttugt, já þróttmikið félag, sem ekki fer í þrot!

Ætt og upphaf

Brynjólfur Vilhjálmsson var sonur hjónanna Guðlaugar Jónsdóttur og Vilhjálms Þórarinssonar. Hann var þriðja barn þeirra. Samtals voru börn þeirra sex  og svo voru tveir hálfbræður að auki. Elstur alsystkinanna var Hörður og Grétar var næstur. Þeir eru báðir látnir. Yngri en Brynjólfur voru Ingi, sem lést í fyrra og yngst eru Vilhjálmur Þórarinn og Marta, sem gat ekki verið við þessa athöfn og biður fyrir kveðju.

Fjölskyldan bjó fyrst á Hverfisgötu 88c og húsið þeirra stendur enn. Brynjólfur fór því í Austurbæjarskóla. Síðan keyptu Guðlaug og Vilhjálmur íbúð á Holtsgötu 19. Þegar Brynjólfur var kominn með bílpróf og leyfi til þungaaksturs glímdi faðir hans við veikindi og var frá vinnu um skeið. Hann var atvinnubílstjóri og gerði út vörubíl og Brynjólfur hljóp í skarð hans. Þegar pabbinn kom til baka var sonurinn búinn að gera sér fullkomlega grein fyrir að aksturinn væri hans áhugamál og lagði hann fyrir sig og þjónaði mörgum með akstri. Um tíma var hann hjá Völundi og síðar hjá Áhaldahúsinu. Árið 1967 varð hann félagsmaður í Þrótti, fékk sér Dodgebíl og seinna Benz en svo urðu Volvo-bílarnir hans tæki og mörgum þjónaði hann áður en yfir lauk. Og sem næst engin takmörk voru fyrir því sem hann flutti, möl og vikur en líka hvalinn Keikó.

Þróttur var Brynjólfi mikilvægur félagsskapur og var honum til styrks fyrr og síðar. Ástvinir Brynjólfs hafa beðið mig að færa félagsmönnum og stjórn þakkir. Og söfnuðurinn sér félagsfánann hér í kirkjunni.

Fjölskylda og heimili

Hulda Guðmundsdóttir og Brynjólfur sáu hvort annað á rúntinum og kynntust árið 1951. Hulda ólst upp í þeim hluta bæjarins, sem við Vesturbæjarbörn höfum kallað stóra Skerjafjörð. Þau hófu búskap á Laufásveginum og keyptu síðan hús, sem þau fluttu á blett í túni foreldra Huldu í Skerjafirði. Síðan byggðu þau hús sem síðan er Fáfnisnes 14. Þeim Huldu fæddust þrír drengir:

Guðmundur fæddist árið 1953. Hans kona er Björk Hjaltadóttir. Þau eiga tvö börn og 4 barnabörn.

Gísli fæddist 1959. Hans kona er Jónína Margrét Ingólfsdóttir. Þau eiga þrjú börn og barnabörn þeirra eru tvö. Magnea og hennar fjölskylda, sem búsett er í Noregi hefur beðið um að flutt verði kveðja þeirra hér.

Skúli fæddist þeim Brynjólfi og Huldu árið 1973.

Brynjólfur og Hulda komu á ákveðnu vinnulagi við uppeldi og rekstur heimilis og bílaútgerð. Hún sá um það, sem reyndist Brynjólfi óhöndugt, m.a. bókhaldið, og allt gekk vel meðan hún hafði heilsu til. Þegar heilsa Huldu bilaði varð bílaútgerðin jafnframt Brynjólfi erfiðari og hann eins og allir atvinnubílstjórar mátti búa við niðursveiflu í efnahagslífi þjóðarinnar á síðasta áratug liðinnar aldar, sem hitti bíljstórana illa. Um svipað leyti slitu þau Hulda samvistir.

Svo kom Eygló í líf Brynjólfs og opnaði honum nýja glugga eins og sonur hans sagði vel. Hann flutti vestur á Skeljagranda til Eyglóar og þau áttu saman góðan áratug. Nýtt líf og nýtt fólk opnaði Brynjólfi faðminn. Eygló á tvo drengi sem Brynjólfur tengdist, Harald Elfarsson, sem kvæntur er Bergþóru Kristínu Grétarsdóttur og Gunnar Þór. Barnabörn Eyglóar eru 6 og Brynjólfur átti margvísleg samskipti við þau og vert er að minna á hversu vænir og góðir þeir voru við hvor annan Brynjólfur og Elfar Haraldsson, sem nú hefur misst vin sinn.

Eigindir

Brynjólfur var þróttmikill frá upphafi. Já, vissulega var hann einn af Þrótturunum, en hann hélt mætti sínum og styrk allt til enda. Þó Brynjólfur væri hálfslappur fyrir vestan í sumar óraði ekki fólkið hans að hann væri að dauða kominn. En þegar hann vildi ekki einu sinni wiskýlögg var ljóst að af honum var dregið og full ástæða til að skoða málin! Brynjólfur hafði enga löngun til að láta leggja sig inn á spítala á Ísafirði. Nei, hann ók suður sjálfur, væntanlega þjáður og gekk beinn í baki inn á Landspítalann. Hann vildi ganga mót sínum málum með reisn, axla ábyrgð á sínu með þrótti og æðruleysi.

Já, vegagerðarmálin í lífinu. Brynjólfur trúði því að lífið hefði rennslismátt eins og vatnið, það færi í farvegi og síðan rynni það inn í haf eilífðarinnar. Svo trúði hann á hringrás og endurkomu. Það er lífræn hugsun og í þeim efnum á Brynjólfur sér skoðanabræður. Allt er tengt og þegar dýpst er skoðað – með augum trúar – er það elska Skaparans sem tengir. Og þeir gagnvegir eru mál elskunnar, lífsins. Á lífsförinni má hafa stuðning af þeim anda, sem blæs mönnum þrótt í brjóst þor til verka, ást til tengsla og fólks – og getu til sóknar áfram veginn.

Hamingja Brynjólfs var margvísleg, hann naut lífsgæða. Hann kunni að skemmta sér, naut unaðssemda og gat líka gengið í endurnýjun lífdaga í nýjum aðstæðum og með nýju fólki. Það var gott og gjöfult fyrir Eygló og hennar fólk. Fyrir það hve vel þau fögnuðu Brynjólfi er þakkað.

Brynjólfur var glaðsinna, hafði gaman af glöðu fólki. Hann sagði gjarnan sögur og kunni ágætlega að lita þær vel. Hann var opinn og óhræddur við tækninýungar. Hans heimili var opið fyrir nútíma hverrar tíðar.

Brynjólfur var sjálfstæðissinnaður í pólitík. Í sjálfboðavinnu vann hann við grunn miðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, Valhöll. En hann var ekki hrifinn þegar honum þóttu stjórnmálamenn ótryggir og segja skilið við grunn stefnunnar.

Brynjólfur hafði alla tíð gaman af kántrímúsík. Sú grein tónlistar er gjarnan tengd einhvers konar frásögn. Það eru sögur sem sagðar eru, sögur um lífið, sögur um baráttu, sögur um fólk á ferð. Vegir liggja til allra átta vissulega, en það er best þegar menn vita hvert þeir stefna.

Gullvagninn

Nú er skarð fyrir skildi. Þeir bræður, strákarnir hans Brynjólfs, hafa þegar kvatt móður og eiga ekki lengur í föður sínum viðfang til að takast á við. Nú eiga Eygló og Elfar engan Binna að lengur. Nú eru bílarnir hans Brynjólfs hættir að ganga, vegirnir eiga sé ekki lengur umboðsmann í honum. En þó vegir veraldar liggi til allra átta, er alveg víst að vegir til himins eru til. Ég er sannleikurinn og lífið sagði Jesús í viðbót við að vera vegameistari veraldar. Með í för Brynjólfs, hans kortamaður er þessi meistari frá Nasaret sem kann líka á vegi upp á Íslandi, vegi hjartans og er ágætur í öllum kornastærðum mannssálarinnar. Í honum á Brynjólfur traustan ferðafélaga, sem aldrei þrýtur mátt þótt þróttur Brynjólfs sé nú að engu orðinn. Á vegum Jesú brotna engar fjaðrir né fara bremsuklossar.

Og þá er það gullvagninn, þessi sem er best nothæfur til þeirrar miklu ferðar yfir mæri lífs og dauða. “Gættu mín, geymdu mig, gef mér frið,” segir þar. Og það er satt og gengur eftir. Ferðin hefst, vegurinn er góður og reikningurinn er greiddur með sannleika og til lífs. Guð geymi Brynjólf á eilífðarför hans. Guð geymi þig á þessari umferðarmiðstöð tíma og eilífðar og styrki þig.

Brynjólfur Vilhjálmsson f. 25. janúar 1934, d. 10. ágúst 2010. Útför frá Neskirkju 20. ágúst.

Þorsteinn Jónsson – minningarorð

Þorsteinn var góður flugmaður. Vinum hans og félögum ber saman um að hann hafi verið annað og meira en kerfisstjóri í háloftunum. Þorsteinn hafði margþættar flugmannsgáfur sem skapa listamann með vængi. Hann var veðurglöggur. Hann kunni að hemja dirfskuna og þorði að hætta við flug. Hann bar í sér þessa sókn upp í himininn, upp fyrir regnboga og ský, upp í heiðríkjuna.

Hér á eftir verður sunginn regnbogasöngurinn sem lengi hefur fylgt flugfólki. Ofar regnboganum: “Somewhere over the rainbow” – þar sem bláfuglar fljúga, í heimi unaðar, þar sem vonir rætast, ofar takmörkum manna og heims, þar sem tími og eilífð kyssast svo fallega. Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og hrifið barn, sem starir upp í glitrandi hvelfinguna. Í sálminum segir:

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Flughimininn er stór en stærri er geimurinn. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi? Erum við eitthvað meira en daggardropi í regnboga? Við lifum stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið?  Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg flugferð milli tveggja valla, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “flugfélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Skáld Davíðssálmsins var sannfært um, að stjörnur, tungl, fuglar himins og  menn nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið: 

„… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri.“

Þetta er niðurstaða um að Guð er, að Guð gefur, að Guð umvefur veröldina og merkir líka að lífið er gott og gæðaríkt og að himinn er áfangastaður æviflugsins.

Upphaf lífs og flugs

Þorsteinn Jónsson fæddist í Reykjavík 20. desember árið 1942. Hann var eldra barn hjónanna Jóns Bergsveinssonar og Unnar Þorsteinsdóttur, sem voru svo samhent að þau áttu meira segja sama afmælisdag, 10. desember. Yngri systir Þorsteins er Hildur og fæddist 1944, tveimur árum á eftir bróðurnum. Jón, faðir þeirra, féll frá árið 1953, aðeins 39 ára gamall. Þorstein var enn barn að aldri og við getum rétt ímyndað okkur hve missirinn hefur níst alla fjölskylduna. Þau Hildur sóttu barnamessurnar hjá sr. Óskari og sr. Jóni Auðuns, einhver svör hefur Þorsteinn fengið um eðli dauðans og vonarmál á þeim samverum og hann hóf sína sókn til hæða.

Unnur var tengd heimili þess mikla flugjöfurs Þorsteins Jónssonar flugmanns og réttnefnds flugkappa og konu hans, Margrétar Thors. Þorsteinn eldri tók nafna sínum vel, fór með hann út á völl, kynnti honum undur flugs og véla, hrærði í sál barnsins og varð til að Þorsteinn yngri heillaðist af flugi og öllu því sem lyfti mönnum upp fyrir regnbogann. Þorsteinn fór ekki aðeins suður á Reykjavíkurvöll eins og við strákar í Vesturbænum höfum lengi gert, heldur fór að stunda ferðir upp á Lögberg og skokka síðan frá endastöð upp á Sandskeið til að snudda kringum sviflugmenn og vélar, læra handtök, fylgjast með, hjálpa til og svo fljúga þegar tímar liðu. 14 ára var hann kominn í svifflug og varð eins og margir, sem byrja flugið á Sandskeiði, betri flugmaður en ella. Oft gisti hann og félagar hans í köldum flugskálanum til að fullnýta tímann.

Þorsteinn var algerlega ábyrgur fyrir sínu flugnámi. Hann var duglegur í vinnu og safnaði námsfé, hentist með Alþýðublaðið á hjóli, vann í VÍR. Áætlun hans tókst, hann lauk atvinnuflugmannsnámi með blindflugsréttindum árið 1963. Siglingafræðingsprófi ásamt flugkennaraprófi lauk hann svo 1964. Síðan tók við skrautlegur og fjölbreytilegur flugferill. Hann fékk starf við flugskólann Flugsýn, fór svo til Lofleiða um tíma, var flugmaður hjá flugþjónustu Björns Pálssonar. Um tíma fór hann svo til starfa í Bandaríkjunum. Eftir heimkomuna vann Þorsteinn síðan fyrir ýmis flugfélög, m.a. leiguflug Sverris Þoroddsssonar, Arnarflug innanlands og Íslandsflug. Samtals flaug Þorsteinn um tíu þúsund tíma. Það er raunar furðulegt og segir kannski meir en flest annað hversu góður og öflugur flugmaður hann var að þrátt fyrir válynd veður og alls konar erfiðleika lenti hann sínum farkostum ávallt án áfalla. Það þarf snilling til. Og kannski naut Þorsteinn sín aldrei betur en við erfið skilyrði, sem reyndu á og kröfðust kunnáttu og getu.

En eins farsæll og Þorsteinn var í flugmannssætinu var hann ekki jafn lánsamur í stjórn eigin lífs. Í fluginu var aðalatriði að halda sér á lofti og lenda vel. En í einkalífinu datt hann stundum illa í það og olli sér og sínum vanlíðan. Hann tók virkan þátt í AA-hreyfingunni, lærði vel á veilur sínar og eðli sjúkdómsins. Þökk sé félögum hans fyrir stuðning fyrr og síðar. Þrátt fyrir að Þorsteinn ynni ýmsa sigra í baráttunni við að láta flöskuna vera hindraði áfengissóknin hann frá fastráðningum og að njóta til fullnustu hæfileika sinna í flugmannssætinu.

En fyrir bragðið nutu margir flugnemar hæfileika hans og Þorsteinn var orðlagður fræðari, miðlaði nemendum sínum skilningi, þekkingu og virðingu fyrir fluginu. Og hann kenndi stórum hópi flugmanna Íslendinga fyrr og síðar. Fyrir það þökkum við.

Frá 1978 til 2008 vann Þorsteinn samhliða fluginu hjá Optima. Hann hafði kynnt sér ljósritunarvélar vestan hafs og fór að selja þær þegar hann kom heim. Hann var annálaður sölumaður, naut sín í starfi og naut trausts sem fagmaður í greininni.

Á síðari árum flaug hann oft með vísindamenn við rannsóknir og Þorsteinn naut þess að vera með í fræðaferðum við talningar á lífverum í náttúru Íslands. Svo lokaðist spírallinn í lífi hans með því að hann var farinn að sækja upp á Sandskeið að nýju og miðla yngra fólkinu af reynslunni. Líf okkar er ekki hringsól heldur spírall, við vitum fortíðar og megum gjarnan koma til baka með visku, reynslu og miðla henni.

Eigindir

Þorsteinn var snyrtimenni allt frá bernsku, hafði reyndar ekki langt að sækja það, því uppvaxtarheimili hans bar allt vitni um fágun. Ég þekkti Unni móður Þorsteins og hún var smekkvís fagurkeri og þær eigindir erfði sonur hennar. Þorsteinn klikkaði aldrei á skóburstun né að búa sig vel og heimli hans vitnaði um kunnáttusaman húsbónda.

Þorsteinn hafði næmi á góðar sögur, hafði gaman að segja frá, kveða fast að orði, halda fram málstað með ákveðni og miðla því sem honum þótti mikilvægt. Hann fylgdist vel með málum samfélagsins. Svo var hann líka veiðimaður og undi sér vel á vatnsbakka og í glímunni við vatnabúa. Þorsteinn flaug ekki aðeins heldur hafði gaman af ferðalögum innan lands og utan. Á síðari árum dvaldi hann langdvölum í Asíu, lærði að meta þann hluta heims og eignaðist vini.

Þorsteinn var drátthagur og listrænn, handlaginn, flinkur og var meira segja fenginn til að kenna unga fólkinu föndur og smíðar við Fríkirkjuveg. Hann hafði gaman af tækjum og tólum. Kunni snemma að fara vel með viðkvæm módel og skildi vel mikilvægi þess að fara vel með til að þau entust honum lengi og vel. Góð meðferð var honum bæði innrætt heima og svo lærði hann af mistökum hvað miklu skipti að hann færi vel með sjálfur. Við lokadægur átti hann jafvel sumar fermingargjafir sínar, svo góður vörslumaður var hann.

Konur og börn

Sjarmerandi og vel til haft flugmannsefni, sem kunni að segja sögur, varð auðvitað kvennaljómi. Þegar þær systur Mjöll Hólm og Svala unnu í Vinnufatagerð Íslands í kringum 1960 og þá var Þorsteinn á sendibílnum. Hann sagði þeim skemmtilegar sögur, heillaði þær og svo fóru þau að skjóta sér saman hann og Svala H. Friðbjörnsdóttir. Svo hófst hjúskapur hjá þeim. Þau bjuggu í Mávahlíð og fóru svo yfir í Álfheima. Þau giftu sig 1965 og þeim fæddust þrjú börn. Sigurbjörn Þór fæddist 1964, Jón Bergsveinn ári síðar og Unnur árið 1966. Þrjú börn á þremur árum, álagið var auðvitað mikið, mikil vinna og mikil gleði, en líka óregla sem ekki hentaði barnalífinu. Úr hjúskapnum slitnaði og svo fór Svala alfarin til Danmerkur með börnin. Fjarlægð og félagsaðstæður urðu til að milli Þorsteins og barnanna myndaðist stærri gjá en þau kusu. Í því var fólginn annar stóri sársaukavaldur í lífi Þorsteins. Honum þótti mikilvægt að fylgjast með sínu fólki, hann spurði frétta af þeim, heimsótti Unni gjarnan í Danmörk á seinni árum og hengdi upp myndir af afkomendum sínum á heimili sínu sér til gleðiauka.

Börn Þorsteins eru öll búsett í Danmörk og barnabörnin eru samtals sex talsins. Tvíburasysturnar Tanja og Jannie eiga afmæli í dag og mér var falið að bera þessum söfnuði kveðju þeirra.

Seinni kona Þorsteins var Sólveig Friðfinnsdóttir. Hún og fjölskylda hennar veittu Þorsteini athvarf og samhengi. Sólveig lést árið 1996, fyrir aldur fram, aðeins 54 ára að aldri. Og fjölskyldu Sólveigar og börnum er þökkuð hlýja, rækt og elskusemi í garð Þorsteins fyrr og síðar.

Yfir regnboga

Í sumar átti ég því láni að fagna að vera í nokkrar vikur í bústað sem stóð hátt og sá yfir undirlendi Suðurlands. Stundum sá ég “Þristinn” og naut hins þunga gnýs. Á hitadögum var uppstreymið mikið, skýjaborgir voru gjarnan í ofurstærð og svo gerði hitaskúrir síðdegis. Regnbogar mynduðust og litaspilið var stórkostlegt. Ég hugsaði stundum um hvort fólkið vissi af regnboganum yfir sér og vissi að nú væri stundin til að óska.

Fólk allra tíma hefur horft á litafurður regnboga og undrast. Biblían geymir íhugunarsögu um mikla ferð Nóa og að Guð hafi gert tákn á himni til að minna á sátt milli Guðs og manna. Síðan er regnboginn tákn um frið himins og jarðar, heims og Guðs.

Somewhere, over the rainbow. Þorsteinn hefur nú lokið síðustu flugferð sinni og haldið inn í land hins eilífa regnboga, þar sem friður og sátt ríkja. Himininn, stjörnurnar, tákn náttúru, gæska manna, – allt eru þetta tákn og vísanir í dýpri veruleika og djúpa þrá. Hvað er maðurinn? Í lífi okkar allra, líka Þorsteins, verða skin og skúrir, ljósadýrð en líka myrkur. Hvað gerum við þá? Hvernig er líf okkar og til hvers lifum við?  Ferðin undir og yfir regnbogann eru leiðir til gæða og óska. Við erum ábyrg að mestu um hvernig við spilum úr en svo er þessi dásamlegi boðskapur regnbogans, lífsins, trúarinnar, að þegar við viðurkennum vanmátt okkar þá er æðri máttur sem hjálpar, leggur til þetta aukalega, þetta mikilvæga sem þarf til að ferðin verði til góðs og lendingin hinum megin verði ekki hrap heldur til lífs.

Það er í þeim anda sem við megum kveðja Þorstein Jónsson, rifja upp eftirminnilegan mann, sem gerði öðrum það gott sem hann mátti. Þakkaðu í þínum huga það sem hann var þér, lyftu því sem var gott og gerðu upp við skuggana. En leyfðu honum að lifa í minni þér sem manni sem flaug yfir regnbogann í lífinu, hefur haldið inn í eilífð þar sem alltaf má fljúga, enginn er grándaður fyrir mistök og allir mega gleðjast. Frá flugturninum á þeim velli koma bara  góðar fréttir og greiðar heimildir, engum ferðum aflýst og bara gaman. Guð blessi Þorstein Jónsson, Guð blessi þig.

Neskirkja, 4. ágúst 2010.

Svanþrúður Frímannsdóttir – Minningarorð

Hvað mótar líf okkar? Hvað veldur hamingju? Hvernig spilar þú þinn Olsen-Olsen í lífinu? Lífið er ferðalag og Svana hafði gaman af ferðum. Eiginmaður hennar var ferðagarpur, sem hún átti alltaf styrk í. Þau voru vinir á sameiginlegri ferð. Auðvitað var gaman að sjá til hennar – kona í rauðri kápu sést vel á götu og ekki síður ef hún er að auki með sterkrauðan varalit. Og svo draga aðrar ferðir Svönu að athygli þegar horft er til baka yfir heila ævi. Hún var aðeins þriggja ára þegar hún var send út af heimili sínu vegna veikinda heima. Hvernig líður barni í slíkum aðstæðum?

Það er sláandi dramatískt og mjög rómantískt að þegar Svana hafði fundið fangið hans Sigurvins tók hún sig upp, sleit upp alla sína tjaldhæla, tók stefnuna með sínum ástvini og fór alfarin að heiman – úr Firðinum og út í Vestmannaeyjar. Hún var bara unglingur þá, átti ekki einu sinni kápu til að fara í, hennar líf var að vera með Sigurvin, vera hans í hvaða stöðu sem hún lenti í. Hvernig áhrif hefur slík vending á allt hið innra? Svo eignaðist hún börn vart komin af barnsaldri? Lífsferðin hennar Svönu var merkileg og mikilvæg fyrir ykkur. Hvað ætlar þú að læra af henni til lífs?

Lífsþættir og stóra samhengið

Öll þörnumst við nokkurra frumgæða til að geta lifað, skjól, föt, fæðu og lágmárksfé til framfærslu. Eitthvað fleira? Já, hamingju í nærsamfélagi okkar og líka öryggi. Hvað um trúna – tenginguna við hið stóra öryggissamhengi. Um allar aldir hafa menn leitað að tryggingu sem ekki splundrast í einhverju mannahruninu. Það nefnum við Guð og boðskapur trúarritanna er skýr. Í Davíðssálmum segir: „Fel Drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá.“ (Sl 37.5)

Sumt í lífinu getum við kortlagt vel en svo kemur ýmislegt uppá sem við fáum ekki ráðið og getum ekki breytt. Fel Drottni vegu þína er viðvörun um að vegir manna geta breyst í vegleysu og bending um að með því að fela Guði tilveru sína og lífshlaup getum við treyst því að eiga styrkan félaga á ögurstundu.

Ævistiklur

Svanþrúður Frímannsdóttir fæddist í Hafnafirði 7. janúar 1930 þeim hjónum Frímanni Þórðarsyni og Guðrúnu Ólafsdóttur. Svana var sjötta barn þeirra, en alls eignuðust þau 7 börn og eru tvö systkini Svönu enn á lífi, þau Gróa sem fagnaði níræðisafmæli sínu á síðasta ári og Guðjón eða Gauji, sem er rúmlega ári eldri en Svana. Í stórum systkinahópi var auðvitað mikið líf og fjör og stundum þröngt í búi. Þegar Svana var einungis þriggja ára gömul herjuðu berklar á fjölskylduna og Svana var send suður í Hafnir og dvaldi í tvö ár á heimili Einars Ólafssonar, móðurbróður hennar, á meðan sjúkdómurinn gekk yfir. Því oftar sem ég staldra við þetta rof í frumbernsku hennar því ágengari verður spurn um hver áhrif þetta hafði á Svönu. Hvernig verður þriggja ára barni við að vera slitin úr fangi sinna og sett í aðrar og ókunnar aðstæður? Hvaða áhrif hafði það á kvíða, sjálf og mótun gilda? Líklegast er að þar sé skýring ákveðinnar löngunar hennar til að styðja börn æ síðan. Svana kom til baka og sótti síðan skóla í Hafnarfirði og óx úr grasi. 

Svo kom lífsprins hennar. Eyjagarpurinn Sigurvin Snæbjörnsson nam trésmíði í Hafnarfirði. Langaafabörnin munu skilja hæfni hans ef þeim er sagt að hann hafi verið eins og íþróttaálfurinn – hann var fjölhæfur, stundaði knattspyrnu og var fimleikakappi að auki. Það er alveg hægt að skilja að Svana féll í fang smiðsins handlægna sem strauk svo ljúft og létt. Hún yfirgaf æskuheimili sitt og flutti með honum til Vestmannaeyja þar sem þau byrjuðu sinn búskap. 17 ára gömul eignaðist Svana svo fyrsta barn þeira og á árunum í Eyjum urðu dæturnar fjórar. Guðný er elst þeirra systra fædd árið 1947, þá Sif fædd fjórum áður síðar og yngst Ethel Brynja fædd 1956. Þá færðu örlögin þeim í umsjón kjördóttur sem systir Sigurvins, Steinunn Svava, eignaðist 1950. Hún heitir Guðný. Ungu hjónin ólu hana upp sem sína eigin dóttur og hún er því Sigurvinsdóttir.

Steinunn Svava hefur verið búsett í Bandaríkjunum um áratugaskeið sendir fjölskyldu og ástvinum Svönu hlýjar samúðarkveðjur.

Það ferðalag sem Svana lagði í til Eyja reyndist gæfuför. Árin í Vestmannaeyjum voru henni kær í minningunni. Svana talaði ávallt um að fara “heim” þegar hún ræddi um Vestmannaeyjar. Þetta voru einnig örlagarík ár og ungu hjónin urðu fyrir áföllum síðla árs 1950 í í byrjun 1951 þegar tengdaforeldrar Svönu létust af slysförum með stuttu millibili. 

Eyjaárin reyndu því á, lífið kviknaði, lífslán þeirra var mikið, barnalán og svo skelfileg dauðsföll. Árið 1958 fluttu þau hjónin í Hafnarfjörð þar sem Sigurvin vann við trésmíðar og rak á tímabili verktakafyrirtæki og reisti fjölbýlishús. Svana var öflug húsmóðir og kom barnahópnum sínum upp og til manns. Eftir að létta fór á heimilisrekstri fór Svana svo út á vinnumarkaðinn og vann lengstum við aðhlynningu á Vífilstöðum og síðar á Landspítala við Hringbraut.

Afkomendur

Stolt og yndi Svönu voru afkomendur hennar.

Guðný á með eiginmanni sínum Kristni Atlasyni þrjú börn, þau Svanhildi, Aðalbjörgu Sif og Kjartan Geir.

Guðný Ó eða Gugga á sömuleiðis þrjú börn, þau Steinunni, Sigurvin eða Joshua, og Helgu.

Sif á með eiginmanni sínum Jóni L. Sigurðssyni soninn Sigurvin.

Og Ethel á fjögur börn með eiginmanni sínum Daníel Sigurðssyni, þau Önnu Dagmar, Svan, Tinnu Sif og Aron Örn.  

Yngsti afkomandinn fæddist nú í byrjun árs, stúlkubarn sem varð ættmóðurinni fagnaðarefni á lokadögum lífs hennar. Langömmubörn Svönu eru fjórtán á fæti og eitt í kvið – ófætt. Fjölskyldan minnist þess á kveðjustund hversu mjög hún naut þess að þjónusta sitt fólk en Svana var óþreytandi við að aðstoða við uppeldi þeirra, keyra þau þangað sem erindi lá og alltaf var stutt í leik. Afkomendur eiga eiginlega aðeins eitt sameiginlegt umkvörtunarefni, að hún gaf of hraustlega í þegar hún var í umferðinni! En heima átti hún hins vegar góðan tíma fyrir þau, spilaði við þau Olsen-Olsen upp og niður, eldaði og bakaði handa þeim randalínur og góðgæti. Og svo var hún alveg til í að tala við þau um hjartans mál þeirra, halda námskeið í að baka góðar pönsur eða setjast á bossann og kubba með litlum kútum. Svana var kona tengsla, til fyrir aðra, hógvær, en var til reiðu fyrir sitt fólk.

Sigurvin

 Sigurvin, eiginmaður Svönu lést 16. janúar 1997, þá sjötugur að aldri. Þau hjón voru alla tíð samhent. Þau voru algerlega sama hugar þegar þau fóru um langan veg til að sjá Vestmannaeyjaliðið spila fótbolta. Svo var það handboltinn og enski boltinn í sjónvarpinu. Þegar dætur þeirra rifja upp samskipti foreldra sinna lýsa þær því sem svo að Sigurvin hafi borið Svönu á höndum sér en alúð hennar við eiginmann og fjölskyldu einkennir minningu hennar. Verkaskipting þeirra hjóna var skýr og það var mikið áfall fyrir Svönu að missa maka sinn og förunaut til 55 ára.

Ferðirnar

Ferðagleði var áberandi þáttur í lífi fjölskyldunnar og hjónin nýttu sér ferðafærin þegar þau voru komin upp á land. Tvö ferðalög til útlanda standa uppúr í minningunni. Árið 1975 fóru þau til Kanada – óku frá vestri til austurs yfir Klettafjöllin og enduðu ferðina á Íslendingaslóðum. Tuttugu árum seinna fóru þau svo til Cancun í Mexíkó. Sigurvin langaði að heimsækja Castro á Kúbu, en á meðan einbeitti Svana sér að því að læra að snorkla! Myndin af Svönu með sundblöðkurnar á fótum birtir okkur skemmtilega mynd af gáska hennar.  

Fyrir aðeins fimm árum síðan fór Svana í siglingu niður Hvítá og í snjósleðaferð upp á Snæfellsjökul. Hún þorði að prufa nýungar í lífinu.  

Í byrjun árs 2009 kenndi Svana sér hjartameins og var síðan skorin. Batinn kom fljótt og endurhæfing gekk vel því hún var eljusöm við æfingar. Hún ætlaði sér til dóttur sinnar í Noregi. Svana hafði ekki hugsað sér að láta rúlla sér í gegnum Leifsstöð í hjólastól. Noregsferðin var þó aldrei farin. Í haust kom í ljós innanmein sem varð henni að aldurtila. Síðustu vikur lífsins naut hún umönnunar starfsfólksins á líknardeild Landakotsspítala og kunna ástvinir starfsfólkinu þar þakkir fyrir. Þann 7. janúar s.l. hélt fjölskyldan henni hóf í tilefni áttræðisafmælisins. Hún naut samvista, vaknaði til vitundar og náði jafnvel að tala óheft um stund, sem var eftirminnilegt. Þeim er það dýrmæt minning að Svana naut samvistanna með þeim sem henni voru kærust og dóttir hennar Guðný kom frá Noregi til fagnaðarins.

 Guðný Ó Sigurvinsdóttir, er búsett í Inderöy í Noregi og biður fyrir samúðarkveðjur ykkur fjölskyldu og ástvinum Svönu.

Heima

„Fel drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá …“ 

Nú smokrar Svana sér ekki í rauða kápu og smellir ekki heldur á sig snorkblöðkum. Hún gefur ekki í á Hafnarfjarðarveginum, fer ekki heim í Eyjar eða spyr tíðinda af sístækkandi fjölskyldu. Svana er farin. Ferðalag lífsins endar ekki með dauða. Það heldur áfram inn í eilífðina. Hvað viltu læra af Svönu? Hugsaðu um hvað hún gerði fyrir þig. Hvernig þú getur heiðrað Svönu vel í lífi þínu? Þú þarft ekki að óttast um Svönu. Hún drukknar ekki í Hvítá himinsins, ekkert kemur fyrir hana á Íslendingaslóðum hið efra. Hún er heima þar sem allt er gott og ekkert verður betra. Þú mátt í huganum sjá þau Sigurvin saman, hún snertir enni hans blíðlega og hann vefur hana að sér. Af hverju? Jú af því að þar er Guð öllu og öllum nærri og mun vel fyrir sjá. Guð geymi Svönu, Guð geymi Sigurvin. Guð geymi ástvinina alla og Guð blessi þig.  

Fríkirkjan í Hafnarfirði. Minningarorð. 28. 01. 2010.

Æviyfirlit

Svanþrúður (Svana) Frímannsdóttir fæddist í Hafnarfirði 07. janúar 1930. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 20. janúar s.l. Foreldrar Svanþrúðar voru hjónin Frímann Þórðarson málari í Hafnarfirði, f. 23. apríl 1893, d. 3. júní 1979 og Guðrún Ólafsdóttir, f. 16. febrúar 1893, d. 9. júní 1979. Systkini Svaþrúðar eru Gróa, f. 1919, Ólafur f. 1921, d. 1987, Elín f. 1924, d. 2006, Þorsteinn f. 1926, d. 1982, Guðjón f. 1928 og Einar Frímannsson f. 1931, d. 2004. Eiginmaður Svanþrúðar var Sigurvin Snæbjörnsson byggingameistari úr Vestmannaeyjum f. 29. mars 1926, d. 16. janúar 1997. Börn þeirra eru: 1) Guðný, f. 28. nóvember 1947, maki Kristinn Atlason, börn þeirra eru Svanhildur, Aðalbjörg Sif og Kjartan Geir. 2) Guðný Ó., f. 1950, maki Kaare Solem, börn hennar eru Steinunn (Viðarsdóttir) Poulsen, Sigurvin (Joshua) Viðarsson og Helga Madsen. 3) Sif, f. 5. desember 1951, maki Jón L. Sigurðsson, sonur þeirra er Sigurvin. 4) Ethel Brynja, f. 29. maí 1956, maki Daníel Sigurðsson, börn þeirra eru Anna Dagmar, Svanur, Tinna Sif og Aron Örn. Auk þess á Svanþrúður 14 barnabarnabörn. Svanþrúður ólst upp í Hafnarfirði en fluttist ung  til Vestmannaeyja með verðandi eiginmanni sínum og hóf þar búskap. Þau giftust 10. janúar 1948, eignuðust börn sín í Eyjum og fluttust til Hafnafjarðar 1959 þar sem maður hennar starfaði við húsamíði. Svanþrúður vann við aðhlynningu á Vífilsstöðum og á Landsspítala Íslands. Útför hennar var gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði fimmtudaginn 28. janúar 2010.