Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Örn Jóhannsson

Síminn hringdi og rödd Eddu hljómaði. Örn vissi að hún væri í Kaupmannahöfn og væri á leið heim. Honum þótti vænt um að heyra í henni áður en hún færi út í vél. Í gegnum flugstöðvarhljóðin frá Kastrup heyrði hann að með henni væru listamenn sem væru að koma á vegum i8. Svo sagði hún honum að hana langaði til að bjóða hópnum heim þegar þau væru lent. Hún spurði því bónda sinn hvort hann væri til í að kaupa þrjú lambalæri og elda fyrir hópinn. Jú, mikil ósköp, hann sá ekkert til fyrirstöðu að græja máltíð fyrir heilan hóp. Hvað væri það sem hann gerði ekki fyrir Eddu sína? Svo kvöddust þau. Örn skrapp í búðina og náði í hæfilega hangið. Flysjaði svo hvítlaukinn, stakk beitta japanska hnífunum sínum í kjötið og síðan fóru hvítlauksgeirarnir í götin. Svo var saltað, piprað og gott ef ekki kryddað líka með slatta af oreganó, tímían og rósmarín. Svo kom hann þrennunni í ofninn. Úr varð langsteiking af því Edda var svo forsjál að hringja með góðum fyrirvara. Undursamleg lyktin mætti henni og hópnum. Það var upphafið að Íslandsævintýri með gjörningum og kraftaverkum sem þau hjón gátu saman töfrað fram. Þau voru frábært teymi. Gjörningar þeirra voru fyrir öll skynfærin og samfélag við borð er öllum gleðigjafi. Eins og kirkjur eru heimili best þegar þau eru borðhús, samastaður þar sem boðið er til borðs – til tjáningar, skoðanaskipta, unaðar krydds og lyktar, til veislu til að næra sálir, hjörtu, samskipti og nánd. Örn flaug manna hæst í veitulli mennsku. Lífið lifir.

Hvernig manstu Örn? Hvað var það sem hann sagði og þér þótti markvert og jafnvel viska sem þú lærðir og hagnýttir? Manstu taktana hans? Pípurnar eða hlýtt augnatillitið? Vel snyrta skeggið, formfestuna og víðsýnið? Í Erni voru ýmsar víddir, festa en líka opnun, djúp en líka hæð, smáfegurð en líka næmni á hið rosalega. Hvað þótti þér mest áberandi og hvað varð þér til eftirdæmi? Hvað lærðir þú af honum og hvað skilur hann eftir í þér eða hjá þér?

Örn var maður tveggja tíma. Hann naut staðfestu íslenskar menningar en líka breytinga tuttugustu aldarinnar. Hann naut hins besta úr kyrrstöðumenningu fortíðar en líka breytinga í hraðri verðandi nútímans. Hann var klassíker sem sótti í gæði og miðlaði. Hann sótti í opnun hins stóra, djúpa, fagra og magnþrungna. Ísland breyttist þegar hann var að alast upp og með festu fortíðar mætti hann óhræddur nútímanum – og þorði að beita sér.

Melaskóli var nýr þegar skólaganga Arnar hófst. Barnamergðin var mikil í vesturbænum. Hvert vildi hann fljúga þessi hæfileikamaður? Örn tók stefnuna á Verslunarskólann, lærði bókhald, reglu í rekstri, fyrirhyggju og mikilvægi yfirsýnar til að allt gengi sem best. Svo var það gæfa hans að hann tengdist Morgunblaðinu snemma. Örn varð þjónn þess í fyrstu og síðan leiðtogi í framsæknum hópi hæfileikamanna. Glöggur rekstrarmaður var þarfur í hringiðu miðlunar og stjórnmála eftirstríðsáranna. Ritstjórar og stjórn Árvakurs uppgötvuðu að Erni var treystandi á rólegum dögum og líka þegar þurfti að finna fé fyrir nýjum prentvélum eða flugvélum á gosstöðvar eða staði stórræðanna. Á sjöunda áratugnum var ungu fólki ekki lögformlega treyst fyrir horn með peninga. Þá urðu menn ekki fjárráða fyrr en 21 árs. En Örn var um tvítugt kominn með ávísanahefti stórfyrirtækis, borgaði reikninga Árvakurs, gerði fárhagsáætlanir og stundaði stórbisnis. Hið kostulega var að hann hafði ekki leyfi til að eiga ávísanahefti sjálfur. Síðar tottaði Örn pípuna sína og glotti yfir þessum furðum. Hann var á undan sinni samtíð. Hann þoldi ekki aðeins breytingarnar heldur var óhvikull þegar þurfti að endurnýja tækjabúnað og bæta aðstöðu Moggans. Hann vakti yfir gæðum og þróun tækni í útgáfumálum og þorði alltaf að sækja fram. Hann fylgdi eftir flutningi úr Kvosinni og inn í Kringlumýrina til að hægt væri að kaupa nýjar prentvélar. Hann vaktaði breytinguna úr blýsetningu yfir í tölvutækni. Var á öldufaldi tölvuvæðingar. IBM-tölvurnar, upphafstölvur til almenningsnota, þessar með MS-DOS-kerfunum og Word-Perfect voru bylting. Örn hikaði ekki að kaupa því þrátt fyrir vankanta upphafsáranna voru þær þó bylting frá ritvélum og setningu. Svo keypti Örn risaprentvélar fyrir Morgunblaðið svo ekki var lengur pláss í Kringlumýrarhúsunum. Enn ýtti Örn öllu af stað og Mogginn flutti að Rauðavatni þar sem rýmið var nægilegt fyrir breytilegan rekstur. Í Erni var framtíðin opin og hann var alla tíð framsýnn. Hann hafði auga fyrir tækifærum, fylgdist með breytingum, straumum og stefnum. Hann var hagsýnn en líka með opin augu og huga. Örn var á sinni vinnstöð nákvæmur gæðaeftirlitsmaður og öflugur mannauðsstjóri. Hann lagði upp úr góðri umgengni á vinnustað og gerði óþrifnað útlægan úr prentsölunum sem ekki var sjálfgefið í salarkynnum prentsvertunnar. Hann iðkaði mannvinsemd. Vinnufélagi hans kallaði hann kúltíveraðan sjentilmann sem var fyrirmynd samstarfsfólki.

En Örn var ekki bara Moggamaðurinn. Hann var maðurinn hennar Eddu. Hjón geta verið ólík ef þau eru sálufélagar og rækta virðinguna fyrir hvoru öðru. Fyrstu kynni þeirra Arnar voru kostuleg. Örn hafði verið í skóla í Englandi og kom til baka uppdressaður úr Harrods og betri búðum í London. Hann hafði jú alltaf auga fyrir vönduðum fötum. Edda kom heim til hans á Melhagann með vinafólki. Hann var í tveed-fötum og með flókaskó á fótum, ungur maður en algerlega á skjön við twist Elvistímans eða tísku samtímans. En fegurðardísin féll fyrir gæðaleitandi og fallega Anglófíl. Edda gerði sér grein fyrir að Örn var ekki eins og hinir strákarnir. Vinskapur þeirra þróaðist svo þvert á líkindi og þau áttu síðan í hvoru öðru gangrýna samstöðu, traust, virðingu og elsku. Alltaf stóð Örn með Eddu sinni. Hann dáðist að henni, verkum hennar, hugmyndum og list hennar. Alltaf studdi hann hana og hvatti til dáða. Hann gaf henni færi á fara til náms erlendis þótt drengirnir væru á barnsaldri. Svo studdi hann hana stofnun i8, tók á móti listamönnum heimsins og skapaði trygga heimahöfn. Hann gerði Eddu fært að sinna list sinnig og rekstri og hún gaf honum víddir og lífsliti í einkalífinu. Svo bar hún virðingu fyrir gleði hans, þörfum, listfengi og naut snilldar hans í kokkhúsinu. Edda gat örugg boðið fólki í þrjú læri og vissi að hann myndi eiga nothæft vín með matnum og verða dívum heimsins góður félagi.

Já, kokkhúsmaðurinn Örn. Hvað þarf til að verða góður kokkur? Jú, áhuga á mat, getu til að njóta, forvitni, bragðsækni, lyktargleði og litasókn. Fagurkerinn í Erni sótti í gæði. Móðurleggur hans hafði lagt upp úr fágun í heimilsháttum og líka varðandi mat. Amman austur í Fáskrúðsfirði hafði verið rómuð húsmóðir og móðir Arnar var henni engin eftirbátur. Örn hafði því alist upp við áhuga á meðferð matar. Örn varð ábyrgur heimilismaður strax sem unglingur og ábyrgur heimilisfaðir við hlið Eddu. Svo þótti honum gaman að standa yfir pottum og pönnum. Eldamennska hans varð ítölsk, kryddin voru gjarnan frá Miðjarðarhafinu. Svo þegar þau Edda voru á ferð erlendis voru augu, eyru og nef Arnar opin og hann þorði að smakka til að læra. Og varð síðan þessi afbragðskokkur. Hvítlaukur varð honum yndiskrydd. Eldhúsið varð honum kyrrðarsetur sálar og jafnframt vel lyktandi tilraunastöð fyrir gjörninga. Koli og rauðspretta, osso buco eða kjúklingasúpa.

Í gegnum matarilminn fannst líka reykur úr pípunni hans. Framan á blaðinu sem þið hafið í höndum er þessi dásamlega mynd af Erni með pípuna. Pípurnar voru honum ávallt nærri, þessar með hvíta punktinum. Það var ekkert haldið fram hjá með einhverjum eftirlíkingum, nei Dunhill var það alla tíð. Stefnufastur maður Örn og hafði einfaldan smekk. Hann vildi bara það besta – og því Dunhill með hvíta punktinum. Og líka besta tóbakið. Svo hreinsaði hann pípurnar sínar, skóf þær rétt og vel, tróð með natni og vel og kveikti í. Svo hvíldi pípan í hendi hans eða hann gældi við hana og reykurinn myndaði hvelfingu í kringum Örn og gaf honum hlé. Hann var í essinu sínu.

Örn var fagurkeri og hafði í sér getu og kyrru til að njóta. Hann var líka maður hljóma. En engin tónlist verður til án þagnar. Örn var óhræddur við kyrrð og sótti raunar í hana. Hann mat þögn mikils. Ekki streituþögn heldur þessa fylltu, orðlausu og gefandi kyrru. Í þögn með Erni fylltist rýmið af nærandi nánd. Þegar á unglingsárum hafði Örn lært að vera fatlaðri systur sinni natinn og náinn og hafði lært að umvefja fólk öryggi með hlýju kyrrunnar. Síðan lærðist honum að leyfa hljómum að umvefja eigin þögn og fleyga sálardjúpin með ljósi hljómanna og verðandinnar. Hann meira að segja stýrði sjóði til styrktar tónlistinni. Þessi minningarathöfn er sett saman af virðingu við tónlistarást Arnar. Í reglusemi daganna fór hann á fætur, setti plötu á fóninn eða disk í spilara og svo hljómaði músík heimsins. Verkin sem eru leikin og sungin í dag eru dæmi um eftirlæti hans og jafnvel það sem hljómaði þegar hann fór inn í himininn.

Örn fæddist inn í vorið 1939. Hann fæddist inn í veröld og menningu síðbænda- og útgerðar-menningar Íslands, kynslóðarinnar sem flutti á mölina og var handgengin aldamenningu Íslands. Foreldrarnir voru úr sitt hvorum fjórðungnum. Sigurbjörg, móðir hans, var að austan, fædd á Fáskrúðsfirði. Jóhann, pabbinn, var af hinum enda Íslands. Hann fæddist í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og vegna mikils barnafjölda foreldranna var hann fóstraður á prestssetrinu í Bjarnarhöfn frá fimm ára aldri þar til hann fór suður til vinnu. Jóhann var starfsmaður Landsbankans. Örn fékk frá foreldrum sínum kjarnmikið uppeldi, fágun, traust í samskiptum og gott umhverfi. Hann var eiginlega uppalinn í anda aldamótakynslóðinnar. Hann skildi gildi og gæði eldra fólks. En svo var hann líka maður nýs tíma. Í honum kysstust fortíð og framtíð. Örn hafði í sér festu en líka opnun. Klassík er það sem varðar gildi, efni, gæði eða undur lífsins. Örn varðveitti í sér virðingu fyrir gildum hins klassíska en svo var í honum stöndug virðing fyrir verðandi tímans. Við getum ekki lifað án fortíðar og festu en við byrjum að deyja ef við ætlum bara að endurtaka hið gamla og vanvirða þar með opnun. Örn varðveitti skipan, festu, þolgæði, gildi, manndóm og virðingu en hann var líka opinn, hugrakkur, víðsýnn og fangstór. Hann þorði að breytast og í því er Örn okkur hinum  fyrirmynd. Hann var líka mannvinur og til fyrirmyndar. Hann stóð með fólkinu sínu, líka samstarfsfólki. Hann var óáreitinn en nálægur, hlýr og áhugasamur. Hann bar virðingu fyrir unga fólkinu og hvatti til dáða. Hann spurði og þorði að kynnast, velta vöngum og þroskast.

Svo hélt hann á djúpmiðin í andlegum efnum. Lestrarhestur sem tottaði pípuna og þorði að hugsa langar hugsanir. Spurði og vissi að meira væri í kringum okkur en við fengjum séð. Lesturinn, tónlistin, Frímúrarareglan, listin og kyrrðarstundir íhugunar opnuðu Örn. Hann þorði að fljúga hátt í heiðríkju vitsmunanna og hvelfingum tilfinninganna. Hann skildi ekki aðeins hið trúarlega heldur ræktaði með sér traust og elsku sem fléttaðist svo fallega í lífi hans. Svo heldur hann inn í Haga og Mela himinheimanna. Við vitum ekki hvort þörf er á tweed eða hvítlauk en guðsríkið er veröld gæðanna ef nokkuð má trúa miðlum þessa heims.

Hvað var þér mikilvægt í Erni? Hvernig viltu kveðja hann? Og spurningin varðar ekki aðeins minningar eða sorgarstrengi heldur líf þitt. Hvernig viltu lifa svo þú lifir vel? Hvað var það í Erni sem þú vilt iðka, læra af, efla þig með, taka í notkun? Er það mannvirðingin, ást á gæðum, þor til að opna, standa með fólki, þora að opna inn í veraldir handan skynjunar? Við kveðjum Örn í kirkju með hljómum, þögn, tilfinningu, jólagleði og von. Hann fjárfesti í fólki og hugmyndum, ekki til að fá greitt til baka heldur vera öðrum til eflingar. Allur boðskapur kristni veraldar – sem einnig kemur fram í djúpmynstrum trúarbragðanna – tjá að lífið er sterkari en dauðinn, réttlæti er sterkara en hryllingur, von er styrkari en vá. Elskan er sterkari en hatrið. Örn var fulltrúi elskunnar.

Hann heldur á Dunhill. Punkturinn sést og hringurinn á fingri hans er ástartákn um sambandið við Eddu. Augun horfa djúpt, skeggið fallegta snyrt, Og svo eru þrjár myndir að baki, verk konu hans. Þrenningartákn og myndin er helgimynd – og reiknivélin skaddar ekki. Svo nálægur en líka algerlega farinn. Nú nær hann ekki í fleiri læri til að tryggja að listamenn haldi áfram að skapa, hann eldar ekki framar osso buco eða dásamlega lyktandi kjúklingasúpu. Hann flysjar ekki fleiri hvílauka eða fær sér kola eða rauðsprettu með capers og drekkur með gott chablis. En tilveran er opin. Þegar Örn horfði á fólk – með pípuna sína á lofti og íhugandi brosvipru í augum – sá hann gullið og lífið. Það er æfiverkefni okkar allra að nema og njóta, miðla og efla. Hlutverk okkar allra er að lifa vel, lifa af nautn og til gleði, vinna úr fléttum ævigjörninga eitthvert það lífsgull sem gerir okkur hamingjusöm og verður öðrum líka til láns. Í því verkefni var Örn okkur fulltrúi Guðs.

Örn Jóhannsson, 7. apríl 1939 – 5. desember 2022.

Útför. Hallgrímskirkju 29. desember, 2022. Jarðsett í Sóllandi. 

 

Eggert Konráð Konráðsson – minningarorð

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Haukagilsstrákurinn renndi sér á skólasvellinu út á Blöndósi. Fyrr um haustið hafði hann veikst hastarlega og úrskurður lækna var skæð sykursýki. Hann hafði því horfið skólasystkinum meðan hann var til lækninga. Nú var hann kominn aftur, feginn að vera laus úr spítalaeymdinni – reyndi á sig og renndi sér. En svo datt hann illilega, rak olnbogann í svellið. Þá brast Eggert í annað sinn þennan vetur. Hann brotnaði illa og þannig rann hann út úr skóla og inn í heim veikinda, átaka og lífs þess, sem alla ævi þarf að búa við skerta heilsu, annað líf. Hvað þýðir það í lífi fólks – í lífi hans? Það er einhver nístandi ógn í þessari sögu og spor inn í skuggasal. Myndu þessi áföll verða ævibrestur Eggerts sem yrði ekki lagfærður? Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér, segir í 23. Davíðssálmi. Það er hægt að búa við skuggan, en aðeins ef menn eiga ljósið sitt víst. Hægt er að búa við stóran lífsama ef menn eiga góða stoð vísa. Það er hægt að öðlast vit, þroska og gæði, ef menn kunna að bregðast rétt við.

Lífsstiklur

Eggert Konráð Konráðsson fæddist á Blönduósi 10. janúar 1949. Foreldrar hans voru Haukagilshjónin Konráð Már Eggertsson og Lilja Halldórsdóttir Steinsen. Þau eru bæði látin. Systkini Eggerts voru fimm: Þau eru Guðrún Katrín, Ágústína Sigríður, Inga Dóra, Hólmfríður Margrét og bróðir sammæðra Sævar Örn Stefánsson. Fyrri kona Eggerts er Sóley Jónsdóttur. Þau gengu í hjónaband árið 1969. Börn Eggerts og Sóleyjar eru: Lilja Margrét f. 1970. Hún býr í Danmörk og á fjögur börn. Harpa Björt f. 1971 býr á Haukagili. Sambýlismaður hennar er Egill Herbertsson. Þau eiga þrjú börn. María Hlín f. 1972 býr á Akranesi. Hennar sambýlismaður er Marteinn Sigurðsson. Þau eiga samtals þrjú börn. Yngstur barna Eggerts og Sóleyjar er Heiðar Hrafn f. 1976. Eggert og Sóley slitu samvistum 1992. Kona Eggerts frá 1995 er Torfhildur Rúna Gunnarsdóttir. Þau gengu í hjónaband 1999. Rúnubörnin eru Arnór Ingi, Særún, Haukur og Davíð.

Lilja Margrét Eggertsdóttir hefur beðið fyrir kveðjur, en hún og börn hennar eru í Danmörk. Sömuleiðis hefur fjölskyldan í Holti í Svínavatnshreppi og Helgi Bragason beðið um kveðjur til þeirra sem hér eru samankomin.

Skólaganga

Skólafyrirkomulag í Vantsdal var í bernsku Eggerts með farskólasniði. Eins og önnur börn úr framdalnum sótti hann skóla að Ásbrekku hluta úr hverjum vetri. Eftir fermingu fór hann síðan út á Blönduós til svonefnds miðskólanáms, sem lauk með landsprófi. Í nóvember á þriðja og síðasta ári kom sykursýkin í ljós. Þar með var úti um skólagöngu Eggerts fyrir jól, því hann var sendur suður til lækninga. Eftir áramót byrjaði hann að nýju í skólanum, en við handarbrotið var útséð um námið þann veturinn. Fyrir þrautseigju og hjálp Lilju móður hans tók Eggert þó vorprófin utanskóla um vorið.

Á nöfinni

Mannlífið er undursamlegt. Það er aldrei og í engu tilviki samfelld sælubraut án hnökra. Slíkt líf tilheyrir aðeins himnaríki. Eggert fékk sinn skerf af mótlæti. En þegar í raunir rekur er hægt að bregðast við með ýmsu móti. Það er hægt að lúta mótlætinu, leggja á flótta og láta það sigra sig. Slík er för þeirra sem verða einhverju að bráð í lífinu. Hins vegar er þau sem bregðast við, reyna á sig til að hefja sig upp, reyna að eflast og þroskast við að glíma við raunina. Slík var för Eggerts. Það var honum manndómsraun að takast á við skerta heilsu og þær skorður sem sykursýkin settu honum. Hann naut vissulega stuðnings. Lilja vakti yfir matarræði hans og að hann hefði bita með sér þegar hann fór í smalamennsku eða gekk til rjúpna. Þó var lífi hans stundum stefnt í tvísýnu. Eitt sinn gekk hann vestur í Víðidalsfjall í leit að jólarjúpunum og í það sinn hafði hann farið án þess að hafa nestisbita meðferðis. Hann var ungur og léttur á fæti og ætlaði bara snögga ferð. Færið var þyngra en hann hafði búist við. Á leiðinni varð hann fyrir sykurfalli og nánast örmagnaðist. Það var honum til bjargar að hafa náð einum fugli, sem hann náði að rífa og tuggði síðan hrátt kjötið til að fá orku og ná heim! Oft síðar var Eggert á ystu nöf, oft var honum naumlega bjargað. Hann átti góðan hirði, sem lyfti honum upp þegar hann hrasaði. 

Suður

Eftir landspróf var Eggert heima við bústörfin. Þótt skólagangan hafi eflaust blundað í honum var hann bóndaefni og fór því einn vetur í Bændaskólanum á Hvanneyri. Þegar hann hafði fest ráð sitt urðu þau Sóley bændur á Haukagili frá 1970 og allt til 1987. Þá hafði líkami Eggerts enn á ný brostið. Um vorið var orðið ljóst að nýru hans störfuðu ekki eðlilega og þurfti hann að fara af og til í nýrnavél. Niðurstaðan var sú, að elsta systirin gæfi honum nýra. Lögðust þau systkin undir hnífinn á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í nóvember 1987 og tókst aðgerðin hið besta. Guðrún nýragjafi lengdi því líf bróður síns um mörg ár. Þökk sé henni. Vegna heilsufars Eggerts ákváu þau Sóley að bregða búi og flytja til Reykjavíkur.

Nýr kafli hófst í lífi Eggerts. Hann fékk vinnu í fyrirtæki frænda sinna, Plastprenti. Þá tóku við vörslu- og umsjónar-störf; við húsvörslu í Iðnskólanum í Reykjavík. Um tíma starfaði Eggert á Alzheimerdeildinni við Lindargötu, var síðan hjá Ríkisspítölum og síðast hjá Bykó í Kópavogi. Þar var hann að vaktstörfum við hliðið og tók á móti tugþúsundum stressaðra húsbyggjenda, sem þutu um með vörur og áhyggjur. Það var Byko ómetanlegt að hafa mann, sem Eggert á þessum mikla álagsstað. Glögg rósemi, friður og gáski skein úr augum hans og snöggfriðaði taugaþanda viðskiptavini.

Eftir að þau Sóley skildu hafði fólkið hans Eggerts skiljanlegar áhyggjur af heilsufari og velferð hans. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér. Svo sannarlega kom Rúna inn líf hans sem framrétt Guðshönd. Ég náði að fylgjast með því kraftaverki frá upphafi til enda. Það er ein af þessum undrasögum um lífið þvert á svig við dauðann – þegar maður staðreynir að elskan er sterkari en samfellt sjúkrastríð og hel. Rúna og Eggert rugluðu reitum 1995. Það var ljóst að hún var tilbúin að vera honum stuðningur og hvikaði aldrei.

En sykursýkin var eitt, en síðan féll næsta slagið 1998, þegar í ljós kom að Eggert var með krabbasýktan maga. Síðan hefur með stuttum hléum allt verið á sama veg, ný meinvörp, nýjar aðgerðir, ný lyfjameðferð, ný geislun. Að lyktum dró og Eggert féll frá hinn 12. desember síðastliðinn aðeins 54 ára gamall.

Að bregaðst við

Hvernig má lifa í skugga sjúkdóma og slysfara? Auðvitað dró Eggert sig í hlé á unglingsárum. Hann var hlédrægur frá upphafi og kunni vel að vinna með sína kröm í hljóði. Hann erfði jafnlyndi móðurinnar, en hann átti einnig skapfestu föðurins. Hann var ekki ánægður með hlut sinn en ákvað að lifa. En alla tíð þarfnaðist hann næðis, öryggis og kyrru. Hann naut stuðnings síns fólks fyrr og síðar og svo þegar síðasta áfanga var náð var Rúna öflugur gleðigjafi og gaf honum styrk til að njóta hvers dags þrátt fyrir áföllin.

Eggert var stefnufastur, stöndugur og gegn. Með ýmsum ættmennum sínum var hann staðfastur Sjálfstæðimaður og brást ákveðið við ef honum þótti vegið að einhverju mikilvægu í landsmálum. Hann gerði allt vel sem honum var falið, hann var jú alinn upp við að gerð í verki væri ekki síðri en gerð í orði.

Hugur og verk

Eggert var mikill ættjarðarvinur, unni ferðalögum, lagði sig eftir fróðleik um byggðir og sögu, vildi skoða landið sem best, fór gjarnan utan alfaraleiða til að fá sem næmasta sýn á landshagi. En mest og best unni hann heimahögunum. Hann elskaði sveitina sína. Aldrei var hann glaðari en þegar hann fór norður og beygði heim í Haukagil, sem hann var sterkast og tryggast bundinn.

Þegar Eggert mátti sig lítt hræra utan húss síðustu mánuði og ár ævinnar undi hann löngum við að vinna við Örnefnaskrá og byggingasögu jarðarinnar og vildi halda málum hennar vel til haga þótt hann hefði látið af búskap. Hafði jafnvel mikið fyrir að hafa uppá tækjum sem afi hans hafði smíðað, eins og hornaklippurnar sem hann náði austan úr Hornafirði og kom á heimaslóðir. Þetta er einbeitt tryggð.

Eggert var söngmaður. Söngæfingar kirkjukórs Undirfellskirkju voru í heimahúsum á hans uppvaxtarárum, ekki síst heima á Haukagili. Pabbinn var í kirkjukór og hafði um sína daga sungið sópran, tenór og bassa í kórnum! Kirkjusöngur var því uppeldismál. Eftir að Eggert kom til Reykjavíkur söng hann síðan í kirkjukór Hjallakirkju, eignaðist söngfélaga, sem kveðja vin sinn svo vel í kirkjunni í dag. Þökk sé þeim og kantor þeirra.

Eggert var reglumaður og snyrtimenni og leið nokkra önn fyrir alla lausung í hverju sem var. Hann hafði skoðun jafnvel á litum þegar mála skyldi. Hvítt skyldi það vera, annað væri ekki snyrtilegt.

Hirðir, vitringur og engill

Myndirnar af Egget blasa misvel við okkur. Ég sá aðeins þær sem blöstu við síðustu æviár hans. Á aðventutíð er jólaguðspjallið nærri og Eggert hefði getað verið í mörgum hlutverkum í þeirri sögu. Hann var afbragðs fjármaður og um tíma með á sjötta hundrað fjár í húsi. Hann leitaði í gripahúsin þegar hann kom heim, leið vel þar og átti hjarta sem sló í takt við hjörðina og var sem sál safnsins. En hann var meira. Fáa menn hef ég hitt sem átti jafn djúptækt æðruleysi og Eggert, sama á hverju gekk. Vissulega naut hann stuðnings síns fólks, átti stuðning systkina og barna vísan. Og Rúna reyndist honum fágætur sálufélagi og stuðningur í lífinu. En hann hafði frá upphafi náð að slípa sinn lífsstein svo vel að það var sama hversu myrkt var, lífsljósið, gleðin að handan fékk ávallt speglun og mögnun í honum og kom fram í augum, orðum og brosum. Aldrei var hann svo aðkrepptur að hann hefði ekki orku til að þjóna Rúnu sinni, vinum og þeim sem hallir stóðu. Þetta sá ég hvað eftir annað og aðrir hafa staðfest. Eggert var á stuttri ævi orðinn vitur maður, margreyndur en djúpur þroskabrunnur. Æðruleysi, gleði þrátt fyrir æðstæður, gerði okkur forviða, en jafnframt þakklát fyrir að lífskúnstin og hamingjan skuli hafa átt svo kunnáttusaman fulltrúa meðal okkar. Og kanski var það hirðirinn sem sameinaðist vitringnum í honum. En svo var Eggert einnig frábær vörslumaður hvar sem hann var, hvort sem það var á Haukagili, í samskiptum við ættmenni og foreldra, systkini og sveitunga. En hann var einnig öflugur vörslumaður í vinnu, tryggur í störfum eins og við sem áttum leið um hliðið góða vitum best. En bestur var hann á síðasta skeiði í vörslu ástarinnar og hamingjunnar. Þar varð vörðurinn að verndarengli. Hann varð Rúnu sem gjöf himinsins, og hún honum sömuleiðis. Ég hef séð fólk kunna að lifa en fá sem hafa kunnað að rækta hamingju sína með eins kröftugu móti og þau. Gagnvart undri lífisins er það best hlutverk að geta sungið með englunum á Betlehemsvöllum um dýrð Guðs og velþóknun yfir mönnunum.

Brotinn, orkulaus, en samt góður hirðir og vitringur. Hæggerður, hlédrægur en samt ótrúlega sterkur og ávirkur. Skaddaður en heilbrigður í vernd og lífsgáska. Hirðir á för um myrk sund og hrellingarhóla, samt kyrr og öruggur. Hann dó fyrir aldur fram, alltof snemma. Slegin stöndum við nú á útjaðri Betlehemsvalla og skiljum ekki þetta ráðalag, en megum vita að hirðirinn besti, Jesús Kristur hefur opnað fang sitt. Eggert hafði lært á lífið og ástina, nú fellur hann í fang hans sem er sjálft lífið og orkubrunnur elsku, hlátra, gáska, og framtíðar.

Já gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

10.1. 1949 – 12.12. 2003

Myndin af Eggerti einum tók Rúna af honum fyrir framan Þingvallabæinn. Samsetta myndin er frjá hjónavígsludegi Rúnu og Eggerts 19. mars 1999 og svo af þeim saman á Benidorm. 

Gauja – minningarorð

Guðbjörg Þorvarðardóttir – 30. mars 1951 – 28. ág. 2022

Gauja var orðin dýralæknir á Hólmavík. Enginn vissi hvernig konan, sem hafði orðið fyrsti héraðsdýralæknirinn, myndi reynast. Væri hún gunga eða myndi hún duga við erfiðar aðstæður? Gæti hún læknað skepnurnar? Það voru jú aðallega stórgripir sem hún yrði að sinna í sýslunni. Gæti kona tekið á kúm og hestum og komið þeim á lappir? Væri henni treystandi til vetrarferða á svelluðum, fáförnum vegum í blindhríð og myrkri? Áleitnar spurningar voru bornar fram við eldhúsborð Strandamanna. Kraftatröllin sáu svo að hún tók til hendinni. „Það er töggur í henni“ – var hvíslað. Gauja keyrði ekki útaf og hún kom þegar kallað var. Hún hafði líka fræðin á hreinu og svaraði skýrt þegar spurt var um hvað ætti að gera. Virðingin óx.

Svo var hluti af starfi hennar að vera heilbrigðisfulltrúi og framfylgja lögum og reglum um hollustuhætti. Gauja kom í kaupfélagið og sá sér til furðu að kjöt og grænmeti voru ekki aðgreind í búðinni. Blóðvessar fara illa með salatinu. Hún talaði við kaupfélagsstjórann. Hann lofaði að klára málið og tryggja að farið yrði að reglum. Svo leið tíminn. Gauja kom í búðina að nýju. Þegar hún var að smella vörum í körfu sá hún að ekki hafði verið lagfært. Allt var við það sama, ekki hafði verið hlustað á heilbrigðisfulltrúann. Hún bölvaði, sem ég ætla ekki að hafa eftir, rauk upp og til kaupfélagsstjórans og talaði svo kröftuga íslensku að maðurinn lak niður í stólnum, andmælalaust. Sýsli kom, kaupfélagsbúðinni var lokað og hún innsigluð. Fréttirnar bárust með eldingarhraða um sýsluna. Nýi héraðsdýralæknirinn – já stúlkan – hafði lokað stórveldinu. Ekki var opnað aftur fyrr en úrbætur höfðu verið gerðar. Strandamenn eru sagðir hafa grátið þegar Gauja færði sig um set og fór í annað umdæmi. Þeir og dýrin höfðu misst bandamann.

Gauja var leiðtogi. Á hana var oftast hlustað og henni var fylgt. Gauja átti í sér styrk til að veita forystu og í þágu annarra. Hún ræktaði með sér sjálfstæði. Systkini hennar treystu henni. Hún var útsækinn þegar á barnsaldri, sótti út í náttúruna og til dýranna. Hún var glögg á möguleika en líka hættur. Gauju var treystandi til að marka stefnu og hópur af börnum fór gjarnan á eftir henni um mýrar og engi, móa og börð og vitjaði dýra og ævintýra. Gauja fór á undan og hin á eftir. Hún setti kúrsinn. Það var vissara og líka betra að treysta henni.

Enn ein minning: Þegar Tumi var á Hólmavík hjá fóstru sinni einhverju sinni var hann ekki kominn með bílpróf. Í dreifbýlinu hefur unglingunum frá upphafi vélaaldar á Íslandi verið trúað fyrir dráttarvélum, heyvinnutækjum og að keyra bíla. Gauja treysti sínum manni fyrir bílnum en áminnti hann að fara ákveðna leið, virða óskráðu reglurnar og alls ekki keyra aðalgötuna. Í gleði stundarinnar sinnti hann ekki fyrirmælum fóstru sinnar og keyrði út af vegi. Og kom heldur lúpulegur heim. Hún skammaði hann ekki og kunni þó vestfirsku líka. Drengurinn hafði átt von á yfirhalningu en kenndi til djúphljóðrar sjáfsásökunar fyrir að hafa brugðist Gauju. Hann lærði lexíu fyrir lífið. Það var betra að treysta dómgreind Gauju, hlýða henni. Hún var ekki aðeins leiðtogi heldur eiginlega máttarvald.

Arfur, umhverfi og nám

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Einarsdóttir og Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson. Það var meira en bara ættartré sem blasti við Gauju þegar hún ólst upp. Vegna fjölda barna og í mörgum húsum mætti jafnvel fremur tala um ættaskóg. Alsystkini Gauju eru: Einar; Sigríður; Margrét og Þorsteinn. Hálfsystkini Guðbjargar, sammæðra, eru Þorkell Gunnar; Sigurbjörn; Kristín og Björn. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður; Þórunn; Dagbjört Þyri; Ólína Kjerúlf og Halldóra Jóhanna.

Gauja bjó í foreldrahúsum fyrstu árin. Foreldrar hennar skildu og hún fór fimm ára gömul með móður sinni að Kiðafelli í Kjós. Þar var hún í essinu sínu, leið vel með skepnunum og við sjóinn. Hún naut einnig góðrar skólagöngu. Vegna búfjáráhugans fór hún í búfræðinám í Borgarfirði. Hún var eina stúlkan í stórum strákahóp á Hvanneyri. Þeir gripu ekki í flettur hennar og hún gaf þeim ekkert eftir í námi og störfum. Alla virti hún og fann sig jafnoka allra. Gauja var aldrei í neinum vandræðum með að umgangast bændur á löngum dýralæknisferli. Í henni bjó yfirvegaður styrkur. Hún útskrifaðist sem búfræðingur frá bændaskólanum árið 1968. Hún hafði verið við nám í MR um tíma en ákvað að fara í MT, Menntaskólann við Tjörnina, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1971. Í stúdentsbókinni Tirnu kemur fram að hún hafði hug á dýralæknanámi og er teiknað hross á myndinnni við hlið hennar. Í textanum er spáð að hún muni nota hrossasóttarlyf við bráðapest í lömbum! Spá samstúdentanna um námsstefnu rættist en hún hún varð meira en hrossadoktor í fjárhúsum. Gauja útskrifaðist árið 1981 sem dýralæknir frá KVL, Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Gauja var heimsborgari og fór til Nýja Sjálands til dýralæknastarfa og þar á eftir lærði hún röntgenlækningar í Sidney í Ástralíu. Þá setti hún stefnuna heim.

Störfin

Eftir störf í Strandasýslu gegndi hún dýralæknastöðum á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Svo togaði Reykjavík. Hún ól með sér þann draum að setja á stofn eigin dýraspítala. Hún hafði með öðrum keypt hús Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, sem er nr. 35 við Skólavörðustíg. Við hlið hússins var skúr sem Gauja reif og byggði þar hátæknispítala fyrir dýr. Húsið vakti mikla athygli og aðdáun borgarbúa fyrir búnað og hönnun. Hluti þess var blýklæddur til að varna geislun. Gauja hafði jú lokið röntgennámi og vildi nota nýjustu tækni við greiningu á dýrunum sem hún bar ábyrgð á. Gauja var dr. Dolittle og Dagfinnur dýralæknir okkar gæludýraeigenda í Reykjavík. Það var alltaf gott að koma til hennar. Hún bar ekki aðeins virðingu fyrir dýrunum heldur líka fyrir sálarbólgum eigendanna sem komu stundum hræddir og oft í mjög dapurlegum erindagerðum.

Fjölskyldulíf Gauju var litríkt. Systkinin voru mörg og ættboginn stór. Gauja hafði lært að vera öllum söm og jöfn, talaði við alla með sömu virðingunni. Hún var glaðsinna, ræðin og lagði gott til. Hún var vinsæl, virt og eftirsótt til ábyrgðarstarfa. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands í mörg ár og starfaði m.a. í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið. Gauja hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og réttlætismálum nær og fjær. Hún tók m.a. þátt í starfi Kvennalistans og var mörgum eftirminnileg í þeim störfum. Gauja talaði við börn sem fullorðna.

Tumi

Þegar hefur verið nefndur til sögu fóstursonurinn Kjartan Tumi Biering. Hann laðaðist að Gauju í Kaupmannahöfn þegar móðir hans og Gauja voru þar í námi. Milli þeirra Tuma og Gauju varð strengur sem aldrei slitnaði og hann var langdvölum hjá fóstru sinni – í Strandasýslu, á Húsavík og víðar. Hún studdi hann, kenndi honum að keyra og að gera kartöflumús, sem er kostur að kunna í lífinu.

Juliette

Kona Gauju var Juliette Marion. Gauja bjó þegar á Skólavörðustígnum þegar þær kynntust og Juliette flutti inn til Gauju. Þær urðu par og gengu síðar í hjónaband. Þær vou góðar saman, gáfu hvor annarri styrk og samhengi og sköpuðu fagurt heimili. Þökk sé Juliette að veita Gauju ástríkan hjúskap.

Hver var Gauja?

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Hvernig eigum við að lifa? Þetta eru setningar sem hafa verið sagðar á fundum mínum með ástvinum Gauju. Hver var hún og hvaða mynd skapaði hún með orðum sínum, gerðum og tengslum? Hver er mynd hennar í þínum huga? Jú, hún var kát, gjöful, barngóð, bóhem, frábær dýralæknir, umhyggjusöm, vísindamaður, lífskúnstner, nákvæm, skynsöm, sjálfstæð, hugrökk, nærfærin, umhyggjusöm, stórlynd, gæflynd, höfðingi, dýravinur, mannvinur, ættrækin, félagsvera, mannasættir, gleðisækin, fróð, vitur – þetta eru allt lýsingar sem hafa verið tjáðar síðustu daga og þið getið enn bætt í sjóðinn.

En Gauja var þó ekki flekklaus dýrlingur – en við skil verða plúsarnir mikilvægastir, gullið, en ekki hvort einhver blettur var hér eða þar. Í bernsku og gegningum lífsins hafði Gauja unnið með gildi, stefnumál sín og sig sjálfa. Hún hafði sín mál að mestu á hreinu, hvort sem um var að ræða kynhneigð, fjölskylduáföll, gildi eða tengsl. Þó hún væri húmoristi hafði hún ekki mikla þolinmæði gagnvart óréttlæti. Hún beitti sér gegn málum og kerfum, ef hún taldi þau gölluð og ekki síst ef þau gætu valdið skaða mönnum, málleysingjum eða náttúru. Þegar ég kom til Gauju með hundinn minn fékk ég tilfinningu fyrir kyrrlátum styrk hennar og félagslegri getu. Því fleiri sögur sem ég heyri og les dýpkar myndin af Gauju.

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Það er tilfiningin fyrir djúpum missi sem Juliette, systkini og ástvinirnir tjá. Mér virðist að Gauja hafi verið meira en hæfur einstaklingur. Hún átti í sér getu og mátt sem var meira en bara orð, gerðir og tengsl. Af því hún var heil og óspungin var hún meira en væn manneskja. Hún var máttur sem hægt var að teysta – eiginlega fjallkona. Gena-arfurinn og dýptarmildi áa og edda skipta máli en einstaklingar ákveða sjálfir og velja hvernig unnið er úr og hvernig brugðist er við í lífinu. Gauja var mikil af sjálfri sér. Hún hafði í sér áunninn styrk og nýtti þau gæði í þágu annarra, með því að lifa vel, gleðjast, njóta, opna og vera. Hvað er það sem þú saknar mest í Gauju? Þið sjáið öll á bak miklum persónuleika og mætti til mennsku. Missirinn er sár. En hún er fyrirmynd okkur öllum um svo margt. Fjallkona.

Himinmyndir

Nú er hún farin að Kiðafelli eilífðar. Hún hlær ekki framar með þér, spilar við þig Kings Quest eða bridds, býr til forrit eða app, býður þér heim eða kemur skepnunni þinni á fætur að nýju. Hún leikur ekki jólasvein framar eða fer í annað bæjarfélag til að kaupa bensín af lægstbjóðendum. Hún heldur engan fyrirlestur oftar um galla vindmylla eða launamál dýralækna. Áramótin hennar eru komin og rífa í. Ofurgestgjafarnir Gauja og Juliette opnuðu heimili sitt oft og galopnuðu við áramót. Skrallað var á gamlárskvöldum, svo voru skaup lífsins, flugeldar og gleði. Þar á eftir fóru margir inn til þeirra Gauju. Þær úthýstu engum. Allir voru velkomnir. Laðandi og hlý mennskan stýrði. Gauja var jú söm við alla. Er það ekki þannig sem djúp-réttlætisþrá okkar uppteiknar guðsríkið – að gefa séns, opna, leyfa, henda helst engum út. Nú er partí á himnum eftir ármót – á þessum skilum tíma og eilífðar. Við þökkum fyrir líf Gauju og fyrir hana sjálfa. Því verður skrallað í Gamla bíó eftir þessa útfararathöfn. En munum að hún er ekki í því gamla, heldur farin yfir í nýja bíó – nýja lífið á himinum. Sem góður vísindamaður, sem virti mörk þekkingar og mat lífsplúsana, var hún var opin gagnvart hinu óræða. Þær víddir hafa ýmsir bóhemar lífsins kallað Guð. Við felum Gauju þeim Guði. Ég bið Guð að vera með ykkur ástvinum og vinum. Nú er það Kiðafell eilífðar eða vonandi fær Gauja að beisla himneskan fák og spretta yfir eilífðargrundirnar.

Kveðjur: Snorri Sveinsson og Þorsteinn Paul Newton.

Minningarorð SÁÞ við útför-bálför Guðbjargar Önnu Þorvarðardóttur, Háteigskirkju, 13. september, 2022, kl. 15.

Æviágrip – yfirlit

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM  fyrir Dýralæknafélagið.  

Elsa Magnúsdóttir + minningarorð

Hún var skáldmælt hún Elsa. Þessa brýningu um þor og dug setti hún einu sinni á blað, viska sem á erindi til okkar: 

Dugðu, ei deigan lát síga.

Daglangt skal hamarinn klífa.

Þitt efldu þor og stolt.

Hagnýt þitt höfuð betur.

Hugsaðu eins og þú getur

Þá fær ekkert fleyinu hvolft.

 

 

Það er kraftur í þessu ljóði Elsu. Hún hafði verið á heilsuhælinu í Hveragerði sér til eflingar. Og ljóðið er sjálfshvatning eins og hún nefndi það. Dugðu, efldu, hugsaðu. Og það gerði Elsa í því sem henni var falið, í tengslum við fólk, innri átök, vinnu, og ævintýri lífsins.

Upphaf og fjölskylda

Þorbjörg Elsa Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík laugardaginn 1. september árið 1928. Foreldrar hennar voru Valgerður Pétursdóttir og Magnús Skúlason. Þá bjuggu þau við Laugaveginn og þar fæddist Elsa. Magnús var ættaður úr Mýrdal en Valgerður kom að austan – frá Reyðarfirði. Þegar Elsa óx í móðurkviði var faðir hennar í önnum við að búa fjölskyldunni framtíðarbústað í Skerjafirði, húsið Þrúðvang, sem var Þvervegur 2 en svo síðar – vegna allra götu- og byggðarbreytinganna sem flugvallargerð stríðsáranna olli – varð að Einarsnesi 42. Magnús var framkvæmdamaður og stækkaði og breytti og hafði sinn hátt á húsahönnun. Húsið þeirra var um tíma kallað píanókassinn vegna þess að það minnti spaugara hverfisins á efri hluta píanós. Landrýmið leyfði og jafnvel kallaði á fleiri hús. Magnús byggði húsið Einarsnes 42a og þar bjó fjölskyldan um tíma. Það var kallað steinhúsið, enda steinsteypt.

Elsa var elst alsystkinanna. Yngri eru Gunnar Sigurður, sem fæddist á Alþingisárinu 1930 og Ásdís Sigrún, Sísí, fæddist árið 1932. En Rakel Kristín Malmquist varð ein af hópnum. Hún var fjórum árum eldri en Elsa, missti móður sína í bernsku, kom í Einarsnesið ung og varð elst í barnahópnum. Þær Elsa og Rakel urðu nánar og studdu hvor aðra alla tíð. Rakel lifir systkini sín.

Skerjafjörður og Reyðarfjörður

Saga byggðarinnar við Skerjafjörð er litrík, allt frá Nauthóli og meðfram strandlengjunni í vestur. Nokkrir byggðakjarnar urðu til á tuttugustu öldinni á þessu svæði, við Skerjafjörðinn, nærri Görðunum og á Grímsstaðaholti. Og Elsa naut uppvaxtar í fjölbreytilegu mannlífi á þessum útjaðri Reykjavíkur. Og löngu áður en Melaskóli varð til var skóli í Skerjafirði og þar byrjaði hún nám. Svo var til Sundskáli við Þormóðsstaðavör og þar lærði Elsa sundtökin.

En Elsa var ekki aðeins úr Skerjafirði og Reykjavíkurmær. Hún var líka Skaftfellingur en ekki síst að austan. Reyðarfjarðartengslin voru henni mikilvæg og ég rakst á – í einni heimildinni – að Elsa sagðist vera frá Reyðarfirði. Þegar í bernsku var Elsa send með strandferðaskipi austur í sumardvalir. Og þar sem henni leið vel og lagði líka gott til ættfólks síns urðu ferðir hennar margar austur og þar kom að hún hafði líka vetursetu. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á þótti öruggara að hún yrði sem lengst fyrir austan. Elsa naut því menntunar í Reyðarfirði líka og var í farskóla sveitarinnar. Elsa var jafnvel fermd á Hólmum og að fjarstöddum foreldrunum. Hún fékk tvær krónur frá afa sínum og pabbi hennar og mamma gáfu henni armbandsúr þegar þau komu austur um sumarið. Til er falleg mynd af brosandi fermingastúlkunni með sítt hár og í hvítum kjól. Hún er með þessa líka fínu blómaskreytingu í hárinu. Reyðarfjarðarárin voru Elsu hamingjutími. Hún tók þátt í öllu því sem sveitalífið gaf og það var alltaf nóg að gera. Elsa fór meira segja á sjó með afa sínu til að vitja. Og svo tengdist hún skepnum og var alla tíð síðan dýravinur og hélt gjarnan dýr.

Í Skerjafirðinum sótti Elsa Skildinganesskóla þar sem nú er Bauganes 7 (áður Baugsvegur 7). Svo fór Elsa vestur í skóla og var ásamt Gunnari bróður hennar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hún lærði m.a.s. að binda inn bækur og væntanlega hefur skáldið Þóroddur Guðmundsson, sem þá var skólastjóri í Reykjanesi, haft hvetjandi áhrif á skáldkvikuna í Elsu. Elsa stundaði svo líka nám í húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Hún naut ekki aðeins að læra hannyrðir og húshald heldur eignaðist hún í skólasystrum sínum vinkonur og entist vináttan æfina alla. Og seinna stundaði Elsa svo nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Og þar eignaðist hún annan vinkvennahóp sem hún naut samvista við æ síðan.

Ásmundur, börnin og lífið

Svo var það Vetrargarðurinn og Ásmundur. Á Tívolísvæðinu í Vatnsmýrinni var aðalfjörið fyrir unga fólk höfuðstaðarins eftir stríð. Vetrargarðurinn var starfræktur frá 1946 og fram yfir 1960. Unga fólkið safnaðist þar saman, talaði og hló og dansaði. Og Ásmundur sá draumadísina sína og hún hann. Ásmundur var flugvirki og hafði lært sín fræði í Bandaríkjunum. Þau Elsa urðu par, já glæsilegt par, og hófu hjúskapinn í Skerjafirðinum, fyrst í Einarsnesi 42 en síðan í Einarsnesi 40 sem faðir Elsu hafði m.a. annars tekið þátt í að byggja 1928. Þau Elsa og Ásmundur áttu ekki börnin í kippu heldur dreifðu þeim á nær tvo áratugi. Valgeir Már kom í heiminn árið 1948, Magnea Þórunn árið 1952 og svo löngu seinna fæddist Friðrik Smári eða árið 1965. Ásmundur flaug um heiminn á vegum íslenskra flugfélaga og Elsa sá um uppeldið og heimilishaldið. Elsa vann gjarnan með heimilisstörfum, m.a. í verslunum í Skerjafirði og svo síðar í versluninni Baldri við Framnesveg og líka á Hótel Borg. Elsa starfaði líka í verslun Íslenska heimilisiðnarfélagsins meðan hún var enn við Laufásveginn. En við svo sértæka afgeiðslu voru ekki fengnar konur nema að þær kynnu til hannyrða og væru vel að sér í þeim merku fræðum.

Minningarnar

Og nú eru orðin skil. Ásmundur er löngu farin í flugferðina hinstu og nú hefur Elsa lagt í sína för. Eftir eru minningar, gripir og handaverk þeirra. Steinasafnið í garðinum er stórkostegt og opnar sýn til vídda í persónu Elsu og vekur skilning á náttúrubarninu. Elsa sagði um sjálfa sig í blaðaviðtali að hún væri náttúrubarn. Hverngig manstu Elsu og hvað skildi hún eftir hjá þér? Hvað fannst henni gaman að gera, hvað skemmti henni, hvernig er eftirminnilegasta minningin um hana í þínum huga?

Það er áhugavert að hugsa um sögu hennar og hvað mótaði hana. Víddir hennar voru margar og hún varð til úr svo mörgu og fléttaði sjálf lífvefnað sinn með listfengi og af fjölþættum hæfileikum. Hún var alin upp á ströndinni við Skerjafjörðinn og mótaðist undir himinháu fjalli og við sjó austur í Reyðarfirði. Hún sótti nám vestur og eignaðist mann sem kom fljúgandi úr háloftum og líka að norðan. Elsa var tónelsk og leyfði sér að fljúga á vængjum söngsins. Hún lærði söng og söng í kórum, einnig kirkjukór Hallgrímskirkju og kór Langholtskirkju. Og það voru ekki bara þakklát mannabörn sem nutu tónlistar hennar heldur blómin hennar líka. Löngum hefur nú verið sagt, að jurtir verði fallegri ef andað er á þau – og ef öndunin ber þeim líka músíkfegurð er ekki einkennilegt að blómin hennar Elsu hafi tekið flestum fram. Já, svo var Elsa kvennréttindakona, dýravinur, hannyrðakona, mannvinur sem alltaf studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar. Hún studdi velferðarmál. Keypti hlutabréf í Kvennalistahúsinu. Hún var góður bílstjóri því faðir hennar kenndi henni vel að keyra og var líka með meirapróf og hafði löngun til að keyra strætisvagna, en náði ekki að brjóta niður einokun karlaveldisns í akstri þess tíma. Elsa var litrík, fyldist vel með tískunni, en fór síðan eigin listrænu leiðir. Hún var vissulega húsmóðir, vann víða og hefði getað titlað sig með ýmsu móti – en þegar hún ritaði undir áskorunarskjal fyrir liðlega tuttugu árum sagðist hún vera ljóðskáld. Já Elsa orkti, hún var góður hagyrðingur og ljóðskáld eins og mörg ykkar vitið fyrir.

Elsu var frelsið mikilvægt. Hún þjónaði vissulega fólkinu sínu og verkefnum, en gat líka verið á fótum á nóttinni. Ef hún var að gera eitthvað mikilvægt átti hún janvel til í gleði sinni að vekja þau sem sváfu til að fara fyrir þau með ljóð eða segja þeim tíðindi, sem hún taldi að ekki geta beðið morguns. Líf Elsu var fjölbreytilegt, margvíslegt og með öllum litaskalanum frá hinum dimmustu til hinna björtustu. Í henni bjó ríkulegt listfengi, mikil músík, djúpar tilfinningar. Draumar veraldar áttu leið inn í kviku hjarta og huga. Framtíðin var henni alltaf opin.

Og nú er hún farin inn í Einarsnes eilífðar með Hólmatind paradísar nærri. Og úr þeirri fjallaborg falla engar skriður og valda engum kvíða. Elsa syngur ekki framar fyrir blómin sín, eða raðar steinum mót sólu. Hún vekur engan framar í gleði sinni til að segja frá dásemdum lífsins. Hún opnar ekki alla vitund sína þegar nýtt lag hljómar á öldum ljósvakans. Hún raðar engum orðum í hrífandi ljóðræðnu, gefur engin ráð framar, saumar ekki og prjónar, eða segir sögur frá Hong Kong. Ekkert hindrar, ekkert er ómögulegt, allt er fært, ljóst, bjart, gott og hláturinn fyllir veröld hennar, Ásmundar, allra þeirra sem hún elskaði. Ekkert er of gott fyrir orðið sem kemur frá Guði. Hún varð slíkur boðskapur sínu fólki og nú er hún farin í himininn. 

Le,,

mggðu aftur augun þín.

Elsku litla stúlkan mín.

Dagur aftur í austri skín.

Alvaldur mun gæta þín.

Amen. Kveðjur: Pétur Haukur Guðmundsson biður fyrir kveðjur. Það gera einnig Sonja Einarsdóttir og Þórdís og Selma Matthíasdætur. Sigga ósk og Kolbrún Helga Gústavsdóttir biðja fyrir kveðjur sem og Filippía Helgadóttir, svilkona Elsu. Friðrik Smári kemst ekki til útfarar móður sinnar. Hann, Vigdís og Snædís dóttir þeirra biðja fyrir kveðjur til ykkar allra.

Útför, Fossvogskirkja 12. mars, 2020. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði D-5-46.

 

 

 

 

Helgi Ásgeirsson – Göngumaður Reykjavíkur

Nú er Helgi Ásgeirsson kominn í þessa kirkju í hinsta sinn. Oft kom hann í þetta ljóshús vegna sóknar í birtuna. Hann átti alla tíð heima í nágrenni kirkjunnar. Þau urðu eiginlega til samtímis Hallgrímskirkja og Helgi. Kirkjubyggingin var bara hugmynd til umræðu þegar móðir Helga var barni aukin og hann var í gerðinni. Svo þegar hann kom í heiminn var farið að grafa fyrir kór kirkjunnar. Síðan fylgdist Helgi með byggingu guðshússins. Helgi varð miðborgarmaður, Reykjavíkurmaður og heimamaður í Hallgrímskirkju. Hann sótti í kórkjallarann meðan hann var hverfiskapella. Svo tók Suðursalurinn í turnvængnum við kirkjuhlutverkinu og síðan gladdist hann þegar kirkjusalurinn var vígður árið 1986. Hann sótti í kirkju sína. Helgi var eftirminnilegur maður sem kom með friði, áreitnislaust og með hlýju í augum. Hann settist í kirkjubekk og naut kyrrðar, helgi, orða og tóna og fór svo þakkandi frá þessu hliði himins. Nú kveðjum við Helga hinsta sinni og þökkum honum samfylgdina, blessum minningarnar um hann og biðjum honum friðar í ljósríki eilífðar.

Helgi Ásgeirsson fæddist 10. maí árið 1944. Hann var vormaður hins unga lýðveldis, fæddist í Danaveldi og á stríðstíma en varð svo liðlega mánaðargamall einn af yngstu borgurum nýs lýðveldis og friðartíma. Foreldrar hans voru Kristín Helgadóttir og Jón Ásgeir Jónsson. Bæði voru af miklu dugnaðarfólki komin. Foreldrar beggja voru framkvæmdafólk og kunn fyrir húsin sem þau byggðu og voru stærri en annarra. Kristín var að vestan og fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð. Faðir hennar var kunnur sjósóknari og aflaskipstjóri á Suðureyri og síðar á Flateyri. Helgi fékk nafnið frá þeim afanum. Amma Helga lést þegar Kristín, móðir hans, var aðeins fjögurra ára. Kristín fór þá til vandalausra í vist og flutti um síðir að vestan og giftist föður hans Ásgeiri, vélvirkjameistara. Helgi var eina barn þeirra hjóna. Ásgeir var úr Borgarfirði. Foreldrar hans, Jón Jónsson og Sigríður Guðmundsdóttir, bjuggu í Galtarholti í Borgarhreppi. Jón, afi Helga, var landpóstur, kunnur garpur og happamaður. Ásgeir sótti skóla á þeim merka lýðskóla, Hvítárbakkaskóla, áður en hann flutti suður, lærði vélvirkjun og stundaði iðn sína. Ásgeir var sagður ljúfur maður og dagfarsprúður. Þegar Helgi var að komast á legg vann Ásgeir faðir hans hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og var virtur og mikils metinn.

Helgi var einbirni og naut því allrar athygli og verndar elskuríkra foreldra. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Spítalastíg, um tíma á Hverfisgötu síðan á Njálsgötu – á sitt hvorum endanum. Síðustu áratugina bjó Helgi á Njálsgötu 5, fyrstu árin þar með móður sinni og síðan einn þegar hún lést árið 2002. Foreldar Helgan voru samrímd og samstiga. Helgi skrifaði síðar í minningargrein um móður sína að foreldrar hans hefðu bæði verið náin honum, og „ … svo nátengd voru þau hvort öðru, að þar mynda miningarnar eina órofa heild.“ Foreldrar Helga höfðu skýrar reglur og stefnu í uppeldinu og pössuðu vel upp á drenginn sinn. Þau höfðu fyrir honum formlegan fatastíl sem Helgi lærði og tileinkaði sér. Við getum ímyndað okkur að eina barnsins hafi verið vel gætt. Kristín, mamma Helga, hafði misst móður sína ung og tvo bræður í frumbernsku og faðir hans var af hugumstóru en gætnu fólki komið. Með þennan bakgrunn og háskareynslu íslenskra kynslóða í erfðavísunum voru Ásgeir og Kristín samstiga í að gæta sonar síns vel.

Helgi var eftirtektarsamur og minnugur. Hann fékk ríkulega hvatningu að heiman til sjálfshjálpar. Á árinu 1957 kom t.d. frétt í dagblaði að Helgi Ásgeirsson á Spítalstíg 2 hefði orðið dugmesti sölumaður í happdrætti KSÍ. Á þessum tíma var mikið kapp í sölubörnum og hússala og dagblaðasala var helsta leiðin til að afla sér nokkurra króna. Að mynd af Helga og frétt birtist í blaði merkir að það hefur verið talið til tíðinda að hann skyldi selja svona vel í þágu knattspyrnusambandsins. Helgi hefur því verið gæfusmiður og lagt til velferðar íslenskum fótbolta. Helgi var ekki lokaður heima og inni heldur fékk hvatningu til dáða. Hann gekk um hverfin og seldi. Hann lærði að fara um og handfjatla fé. Síðan kunni hann til verka að innheimta, rukka og hafa gaman af röltinu í Reykjavík og fylgjast með mannlífi og stækkandi bæ verða að borg.

Helgi naut ágætrar skólagöngu. Eftir grunnskóla sótti hann Gaggó Vest og lauk síðan prófi og einnig stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Þar á eftir hóf hann nám í lögfræði við HÍ. Hið sérkennilega og eftirtektarverða er að Helgi lauk öllum prófum í lögfræði nema einu. Hann féll í Réttarsögu og náði þar með ekki lágmarkseinkunn til að útskrifast. Helgi sendi lagadeildinni erindi eftir prófin, fór yfir námsferil sinn, próf og stöðu og skýrði út líðan sína í prófi. Helgi bað um miskunn og að hann fengi annað tækifæri. Bréfið er merkilegt, skýrt og vel grundað (Reykjavík 8. sept. 1975). En Helgi naut engrar náðar eða undanþágu. Hann sagði skilið við háskóla eftir langt nám en þó próflaus. Þau úrslit og lyktir urðu honum áfall. En hann gafst ekki upp og leitaði á ný mið. Helgi hafði síðan atvinnu af innheimtustörfum fyrir ýmsa aðila, bókaútgefendur, útgfendur tímarita og dagblaða, m.a. Frjálsa Fjölmiðlun og þmt Svein Eyjólfsson. Helgi gekk gjarnan um bæinn í innheimtuerindum, með tösku sína, og fór víða. Hann varð einn af kunnustu göngumönnum Reykjavíkur og efasamt að margir fleir hafi stigið fleiri spor í borginni en hann. Á göngu fylgdist Helgi vel með, vissi hver verslaði hvar og hverjir ráku fyrirtæki og hvar. Hann þekkti ferðavenjur samborgaranna, skildi púlsa mannlífsins í bænum og hafði nánast ensyklópedíska þekkingu á lífi borgaranna, menningu borgarinnar, veðrum og dyntum veraldarinnar. Helgi var næmur og lærði vel að lesa stöðu fólksins sem hann átti samskipti við. Rukkarastarfið þroskaði með honum tilfinningu hvenær hann varð að sækja fram og hvenær hann ætti að gefa eftir til að styggja ekki fjárlitla eða aðkreppta skuldara. Helgi var ljúfur í samskiptum sem efldi farsæld hans í störfum og samskiptum. Hann var traustsins verður.

Helgi var eftirminnilegur maður. Hann var reglusamur í öllum efnum, neytti hvorki tóbaks né áfengis. Hann hafði góða reiðu á öllu því sem honum var falið. Færði í kompur sínar og stílabækur hverjir borguðu hvenær og hvað og stóð skil á öllu með skilvísum hætti. Helgi var alinn upp af fólki úr menningu fyrri hluta tuttugustu aldar og hann braust eiginlega aldrei út úr skipulagi fortíðar fyrr en eftir sextugt þegar foreldrar hans voru látnir. Síðustu árin voru eins og unglingsár í lífi hans. Hann var þá orðinn vel stæður og hafði efni á að kaupa það sem hann hafði hug á. Helgi var góður við vini sína og samferðafólk. Hann hitti gjarnan félaga sína í bænum og oft fór hann í Kolaportið til að næla sér í bók eða kaupa eitthvað smálegt sem hann fór með heim.

Helgi var elskulegur í samskiptum, mannvinur og dýravinur. Hann lagði gott til fólks, talaði það fremur upp en niður, minntist á hið jákvæða en sleppti hinu. Hann studdi þau sem hann taldi vert að styrkja og var í því fulltrúi samábyrgðarsamfélags og kristninnar. Helgi var eins og foreldrar hans sérlega natinn við dýr. Kötturinn Keli Högnason var reyndar nokkrir kisar. Þeir áttu skjól í Helga og á heimil hans og voru svo frægir og um þá var ritað í Morgunblaðinu. Helgi var líka umhyggjusamur gagnvart mannfólkinu. Þegar einhverjir áttu óvissan samastað var oftast hægt að fara til Helga sem skaut skjólshúsi yfir fólk. Helgi var vinur vina sinna og vildi alltaf standa vel skil á því sem til hans friðar heyrði. Í því var hann framúrskarandi. Helgi var fróleiksfús, las talsvert, safnaði þjóðlegum fróðleik, var vel heima í ættfræði og héraðasögu síns fólks. Hann mundi það sem hann hafði áhuga á og gat þulið daga og eftirminnilega atbgurði.

Nú kveðjum við Helga. Hann er kominn í kirkju í hinsta sinn. Í minningargrein um móður sína, Kristínu, tjáði Helgi fallega trú sína sem og trú foreldra sinna. Hann skrifaði: „Ég vil aðeins kveðja þau sem voru mér svo kær með bæn um að Drottin Guð verndi þau að eilífu.“ Svo bætir Helgi við vísun í orð Jesú og skrifar í minningargreinina versin tvö úr 11. kafla Jóhannesarguðspjalls: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Þessa afstöðu og von gerði Helgi að sinni. Í þeim krafti lifði hann og til þeirrar birtu hverfur hann úr þessum heimi. Það er trú kristninnar.

Guð geymi Helga Ásgeirsson og Guð geymi okkur öll.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið Helga góðir vinir og félagar. Þökk sé vinum hans og vinkonum sem voru honum öflugir og góðir félagar. Þökk sé öllum sem vitjuðu hans og gerðu honum gott til. Guð laun. Í lok þessarar athafnar verður efnt til erfis í Suðursal Hallgrímskirkju.

Minningarorð SÁÞ í útför Helga í Hallgrímskirkju, föstudaginn 8. apríl, 2022. Kistulagning sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Útf. Sverrir Einarsson. BSS og Schola cantorum. Eggert Reginn Kjartansson. Erfi í Suðursal Hallgrímskirkju eftir útför. Þórólfur Árnason hélt snjalla ræðu í erfinu um Helga, líf hans, tengsl og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Myndin úr Hallgrímskirkju var tekin um það leyti sem kista Helga var borin í kirkju.