Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Björn Árnason – minningarorð

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Sólin skein á kistu Björns þegar útför hans var gerð frá Neskirkju 11. maí 2007, minnti á lífshátt hans og líka himinljósið mikla. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Hvaða mynd hefur þú af Birni Árnasyni? Hvaða minning um hann yljar þér og gleður? Er hann þér minnisstæður þegar hann sat í hópi fólks, sagði sögu, rétti upp hendi, hló og sló sér á læri?

Eða er það bæjarverkfræðingurinn, sem stóð við öskuhauga Hafnfirðinga, sá til þess að ruslið fyki ekki um allt og yrði öllum til ama og Hafnfirðingum til skammar?  

Eða er það þegar hann stóð stoltur og brosandi við hlið konu sinnar?

Eða er það myndin af skógarbóndanum, sem vakti yfir vonarsprotum sínum, sá til að engin planta lægi rótarber og óniðursett á víðavangi, og átti skyrdollu til að geyma hana í þar til hún færi í mold?

 Eða er það af afanum, sem réð til sín barnabörnin, tengdi þau saman, kenndi þeim að verða hlekkur í keðju frændgarðs, tíma og lífs – afa sem vissulega elskaði góðan mat, en hafði líka húmor fyrir eigin gúrmetísku áföllum við einfalda pastasuðu?

Eða heillar þig myndin af berjamanninum, sem fremur vildi flengjast um fjöll á köldum haustdögum en fara til sólarlanda, vildi falla inn í litasprengjur haustsins, hamast í brekkunum við að draga björg í bú, fylla alla koppa og kirnur og hús sitt af ávexti jarðar og naut síðan lengi og hafði líka unun af að deila gæðunum með fólkinu sínu og vinum.

Myndirnar af Birni eru margar, flestar skemmtilegar og elskulegar. Hvaða mynd ætlar þú að lyfta í huga og til hvers? Hvernig viltu heiðra minningu Björns? Önnur vídd þeirrar spurningar er: Hvernig viltu lifa svo vel sé lifað og til góðs? 

Grænar grundir, dimma og líf

  1. sálmur Davíðs er ljóð um mennsku og líf:

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast….

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því þú ert hjá mér…

Þú býrð mér borð…

bikar minn er barmafullur…

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Þegar við rjúkum af stað inn í lífið og út í verkefni og ævintýri með óþreyju og fyrirgangi er áhyggjan oft fjarri. En svo verða skaflarnir fyrir og líka áföll og sum djúp. Ævin er kaflaskipt og skiptir miklu að vinna úr, hreinsa gullið í lífinu og taka út þroska. Björn naut gjöfullar ævi, var mikið gefið, naut lengstum gæfu í einkalífi, en slapp ekki heldur við sorgirnar. Hann átti sínar grænu grundir, borð og barmafullan bikar, já langa ævi. En hvað er svo gildi þessa brambolts? Hvað skiptir máli? Að því lýtur þráin hið innra, lífsreynsluspurningarnar, sem eru eins og vængjaslög eilífðar í tíma.

Ætt og uppruni

Björn Árnason fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1928. Foreldrar hans voru Árni Björn Björnsson, gullsmiður, og Svanbjörg Hróðný Einarsdóttir, prests í Reykholti. Gull og Guð voru því samhengi uppvaxtar Björns. Hann var yngsta barn foreldra sinna. Bræður Björns voru Haraldur og Einar. Þeir eru báðir látnir.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín.

Eftir stúdentspróf frá M.R. árið 1948 hélt Björn utan til náms í vélaverkfræði í Svíþjóð og lauk prófi frá Chalmers Tekniska högskolan í Gautaborg árið 1954. Björn réð sig til Kockums Mekaniska Verkstad í Málmey. Wikipedia uppfræðir, að þetta mikla þungaiðnaðar-fyrirtæki hafi verið þessi árin eitt hið stærsta í heimi í sinni grein. Nýútskrifaður verkfræðingur fékk því verkefni við hæfi. Með reynslu og menntun í veganesti varð Björn svo yfirmaður Áhaldahúss Reykjavíkur árið 1957 og síðan forstjóri Vélamiðstöðvar 1964. Þegar framkvæmdir hófust við Búrfellsvirkjun tók hann glaður þátt í því ævintýri og var deildarverkfræðingur hjá Fosskraft. En lengst þjónaði Björn Hafnfirðingum. Hann var bæjarverkfræðingur í Firðinum í 27 ár eða frá 1968-95.

Hjúskapur

Í ársbyrjun 1953 gengu Ingunn Sigríður Ágústsdóttir og Björn í hjónaband. Gógó átti sér uppvaxtarreit á vatnsbakka Elliðaánna og verkfræðingnum þótti ekki verra að hún var alinn upp í nágrenni vélanna og í stuðinu í Elliðaárvirkjun – pabbi hennar var þar stöðvarstjóri. Og straumurinn hljóp í Björn þegar hann hitti hana fyrst. Það var alltaf stæll á þeim Birni og Gógó. Ef þau hefðu verið sjálfráð að, hefðu þau ekki geta valið öllu flottari stað en Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn fyrir sinn fyrsta fund og tillit. Þar voru þeir skólabræður Manfreð Vilhjálmsson á leið heim og sáu þá tvær íslenskar draumadísir á torginu með stúdentshúfurnar á kollum – núútskrifaðar úr Versló. Siglingin heim varð þeim happadrjúg og þær urðu þeirra eiginkonur. Allir vissu og fundu, að Björn elskaði og átti alla hamingju lífsins miðjaða í Gógó.

Hún var honum jafnoki, ríkisstjórnin, sem var spurð, vinur, lífsakkeri og félagi. Saman stóðu þau í öllu verkum og áætlunum. Hún stóð við hlið hans í uppbyggingu heimilis, á Laugalæknum, á Markarflöt í Garðabæ og síðan í Hafnarfirði í Klettahrauninu. Ingunn var hin trausta húsmóðir og hélt flóknum þráðum heimilis og uppeldis saman og heimilislífið blómstraði, börnin komust til manns. Gógó fór svo að vinna, sem skólaritari í Flataskóla í Garðabæ. Og svo reið lagið yfir. Gógó féll fyrir krabbameini í júníbyrjun árið 1985 og veröldin umpólaðist. Björn bar sig vel, beit á jaxlinn, setti upp svip æðruleysis og hélt áfram lífinu. Sorgarvinna var ekki viðurkennd reikningskúnst karlmanna á þessum árum. 

Börnin

Þau Gógó og Björn eignuðust fjögur börn, sem öll lifa foreldra sína. Elst er Kristín og hennar maður er Friðrik Már Baldursson. Þeirra börn eru tvö. Næstelstur er Árni Björn og hans kona er Halldóra Kristín Bragadóttir. Þau eiga tvö börn einnig. Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Valur Ragnarsson. Börnin eru tvö og barnabarn að auki. Björn Ágúst er yngstur. Kona hans er Kristín Lúðvíksdóttir og þau eiga samtals þrjú börn.

Allur þessi hópur er glæsilegt manndómsfólk hvernig sem þau eru skoðuð og skilin. En mestu skiptir þó, að þetta er gæfufólk. Björnsbörnin eru foreldrum sínum öflugt vitni um elsku, natni, húmor og árvekni. Og tengdabörnin fengu hlýtt já og stuðning. Sterk fjölskyldubönd eru ekki sjálfsprottin, heldur ávöxtur tengslaæfinga og uppeldis.

Vaka Valsdóttir er erlendis og biður fyrir kveðjur til ykkar, sem hér eruð og kveðjið.

Eftir að Ingunn féll frá hóf Björn sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur. Þau slitu samvistir eftir nokkurra ára sambúð. 

Hugðarefni og störf

Björn var manna kátastur á mannamótum, orðheppinn, minnugur á nöfn, staði og staðreyndir, glaðsinna, jafnlyndur, hlýr og sögumaður. Hann var glæsimenni, fínn í tauinu, bar sig vel og hreif fólk. Björn var praktískur fagurkeri. Margir vildu njóta félagsskapar hans og liðsinnis. Birni voru falin mörg embætti á lífsleiðinni. Hann starfaði lengi í Rotary-klúbbi Hafnarfjarðar. Hann var áhugamaður um stjórnmál og staðfastur sjálfstæðismaður. Hann hafði gaman að ræða pólitík og sem margsjóaður embættismaður gat hann greint kjarna frá hismi, fúskið frá hagnýtri og skilvirkri pólitík.

Í bernsku blésu foreldrar Birni í brjóst gróður- og skógræktaráhuga. Hann tók þátt í starfi skógræktarfélagsins í Hafnarfirði og Skógræktarfélagi Íslands. Hann tengdi verkfræðina og umhverfismál. Björn beitti sér mjög fyrir ábyrgri sorpförgun, tók þátt í undirbúningi Sorpu og var frumkvöðull í sorphirðumálum sveitarfélaganna á suðvesturhorninu. Svo hafði hann áhuga á gróðurvernd í landnámi Ingólfs og vann að stofnun fólkvangs og var um tíma í stjórn Landgræðslusjóðs.  

Björn var áhugamaður um tónlist, unni henni, var klassískur í smekk, lék á hljóðfæri í æsku og sótti tónleika hvenær sem færi gafst.

Mykjunes

Nýr áfangi hófst í lífi Björns þegar þeir Haraldur, bróðir hans, keyptu jörðina Mykjunes í Holtum árið 1990. Í því, sem Björn skildi eftir sig á prenti er ljóst, að í honum bjó ræktunar-, gróður- og ekki síst skógræktar-áhugi. Allt líf á sér aðveituæðar, tré eiga sér rætur og ræktunaráhugi líka. Reykholtsfjölskyldan hafði, með miklum krafti, efnt til og komið upp hinum stóra skógarreit í Reykholti til minningar um prestshjónin þar. Björn tók vel við skógarviti síns fólks og í minningariti um Reykholtshjónin segir Björn, að hann hyggi á langlífi og ætli sér að lokum að deyja standandi í eigin skógi! Það, eins og flest sem Björn stefndi að, gekk fullkomlega eftir. Hann dó í miðju verki, í vorinu, í vaknandi skóginum fyrir austan 30. apríl síðastliðinn.

Skógræktin í Mykjunesi er rismikill bautasteinn, sem Björn reisti sjálfum sér, eða eigum við að segja vistkerfi sem hann þjónaði með natni lífgjafans. Það er afrek að planta um þrjú hundruð þúsund plöntum á annað hundrað hektara lands á þessum fáu árum, sem liðin eru, eiginlega kraftaverk. Þegar Björn var laus undan verkum, skyldum og kvöðum annarra gat hann snúið sér að skógræktinni með fullum krafti. Það gerði hann, en hann var ekki einn. Haraldur, bróðir, var þarna fyrstu árin og svo líka stór hópur barnabarna, sem Björn var svo snjall að ráða í vinnu. Krakkarnir puðuðu saman og tengdust því. Björn kenndi þeim verklægni, verkferla og afköst, skemmti þeim og þjónaði, blés þeim brjóst virðingu fyrir gróðri, natni í störfum, tilfinningu fyrir lífkeðjunni, sem jafnframt er æfing í visku um eigin stöðu í stærra samhengi, mörk og tíðir.

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Þau vissu öll hversu mikilvægt Mykjunes var honum og hversu djúpar rætur hans voru orðnar meðal þessara vina, sem voru að vakna inn í vorið, teygja anga sína mót lofti og sól sumarsins. “Það er allt vel lukkað, gott og blessað, fagurt og indælt.” Strípuð Holtin eru að breytast í skóglendi og framtíðin spírar í unga fólkinu. 

Björn og lífið

Hvað mynd af Birni hefur þú í huga, hvaða lærdóm dregur þú heim, frá honum? Hvernig ætlar þú að heiðra minningu hans með hamingjurækt í eigin lífi? Hann færir þér ekki lengur “svartini” á góðri stund. Hann kemur ekki framar með þunga berjafötu í hendi og kátínu í augum. Hann slær sér ekki framar á lær og segir þér kostulegar sögur. Hann stoppar ekki lengur elda í sorpinu. Og hann ræður afkvæmi barna sinna aldrei aftur í vinnu. Björn er farinn og stingandi fjarvera hans spyr þig um eigið líf.

Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast…. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér… Þú býrð mér borð… bikar minn er barmafullur… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Faðmur himinsins umlykur Gógó, Björn, já, öll þessi sem þú manst og elskar. Þakkaðu fyrir hann Björn, þakkaðu fyrir kynnin og farðu vel með eigið líf.  

Austur í Mykjunesi leika hrossagaukarnir sér og stunda sínar músíkdýfur. Mófuglar vinna að hreiðurgerð og mikill skógur vaknar til lífs. Milljarðar laufblaða lifa af því Björn elskaði lífið og vildi skila sínu. Allur þessi lauf- og barrheimur mun syngja í sumar og jafnvel aldir kliðmjúka lífssálma, um lífgjafa sinn, um fegurð heimsins, um ást, um að lífið er sterkari en dauðinn. Í því mikla samhengi lifði Björn og mun lifa. Guð blessi og varðveiti Björn Árnason.

 Minningarorð við útför Björns í Neskirkju 11. maí 2007.

Æviágrip

Björn Árnason fæddist í Reykjavík, 12. ágúst árið 1928.  Hann lést á heimili sínu í Mykjunesi í Holtum 30. apríl síðastliðinn.  Björn var sonur hjónanna Árna Björns Björnssonar gullsmíðameistara og kaupmanns í Reykjavík, f. 11. mars 1896, d. 2. júlí 1947 og Svanbjargar Hróðnýjar Einarsdóttur, f. 20. júlí 1899, d. 27. nóvember 1986. Föðurforeldrar: Björn Símonarson, gullsmiður á Sauðárkróki og í Reykjavík, f. 26. apríl 1853, d. 27. desember 1914 og Kristín Björnsdóttir forstöðukona veitingasölu og Björnsbakarís, f. 11. desember 1866, d. 5. maí 1927.Móðurforeldrar: Einar Pálsson, prestur í Reykholti, f. 24. júlí 1868, d. 27. janúar 1951 og Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir Briem, f. 2. febrúar 1872, d. 4. desember 1962. Bræður Björns voru Haraldur, f. 7. febrúar 1923, d. 10. mars 2003 og Einar, f. 22. desember 1926, d. 15. september 1992.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín, f. 12. júní 1925.  Björn giftist 10. janúar 1953, Ingunni Sigríði Ágústsdóttur, f. 2. október 1930, d. 8. júní 1985. Hún var dóttir hjónanna Björns Ágústar Guðmundssonar yfirvélstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Sogsvirkjana, f. 10. desember 1889, d. 27. desember 1952 og  Sigríðar Pálsdóttur f. 21. júní 1895, d. 12. febrúar 1989. Björn Ágúst og Sigríður voru kennd við Rafstöðina við Elliðaár þar sem þau bjuggu í áratugi. Ingunn starfaði síðustu æviár sín sem skólaritari í Garðabæ. Börn Björns og Ingunnar eru: 1) Kristín, prófessor við Háskóla Íslands, f. 22. desember 1956.  Eiginmaður hennar er Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, f. 11. apríl 1957.  Börn þeirra eru: a) Jóhanna Katrín, f. 1. apríl 1980 og b) Björn Már, f. 11. júní 1990.  2)  Árni Björn, verkfræðingur, f. 20. september 1958.  Eiginkona hans er Halldóra Kristín Bragadóttir, arkitekt, f. 21. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Bragi, f. 2. október 1986 og b) Ingunn Sigríður, f. 16. nóvember 1990.  3)  Sigríður, lyfjafræðingur, f. 2. apríl 1962. Eiginmaður hennar er Valur Ragnarsson, lyfjafræðingur, f. 13. janúar 1964.  Börn þeirra eru: a) Ingunn Ýr, f. 17. maí 1983, hennar maki er Hannes Þorsteinn Sigurðsson og eiga þau eina dóttur, Freyju, f. 16. nóvember 2006.  b) Vaka, f. 3. maí 1989.  4) Björn Ágúst, verkfræðingur, f. 9. júlí 1967.  Eiginkona hans er Kristín Lúðvíksdóttir, viðskiptafræðingur, f. 5. nóvember 1969.  Börn þeirra eru: a) Þorsteinn Friðrik, f. 19. nóvember 1992, b) Sólveig, f. 5. ágúst 1999 og c) Haraldur f. 24. september 2006.  Björn var um tíma í sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur, f. 14. ágúst 1936, en þau slitu samvistum. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og prófi í vélaverkfræði frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg í Svíþjóð árið 1954.  Árin 1954-56 starfaði Björn hjá Kockums Mekaniska Verkstad AB í Málmey í Svíþjóð.  Hann starfaði hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurbæjar 1956-66 og var forstöðumaður þess frá 1957-66.  Hann undirbjó sameiningu bifreiða- og farvélareksturs flestra fyrirtækja Reykjavíkurborgar 1960-64.  Björn var forstjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar 1964-66 og síðan deildarverkfræðingur hjá Fosskraft sf. við Búrfellsvirkjun 1966-67.  Á árunum 1968-95 starfaði hann sem bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði.  Frá árinu 1995 og til dauðadags var Björn skógarbóndi í Mykjunesi í Holtum.  Björn var Rótaryfélagi frá árinu 1970 og var forseti Rótaryklúbbs Hafnarfjarðar 1976-77 og formaður skógræktarnefndar klúbbsins. Hann var varaformaður Skógræktarfélags Hafnafjarðar og heiðursfélagi frá árinu 2006. Stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og stjórnarmaður og stjórnaformaður í Landgræðslusjóði. Björn tók fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar þátt í undirbúningi sameiginlegrar sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins frá upphafi; var varaformaður stjórnar undirbúningsfélags 1984-88; og Sorpu bs. frá stofnun árið 1988 til ársins 1994. Formaður stjórnar  Sorpu 1992-94.  Björn sat í nefndum um útgáfu fræðslurita um sorphirðu og fráveitur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytisins.  Var meðdómari og dómkvaddur matsmaður í allmörgum málum við héraðsdómstóla í Hafnarfirði og víðar.

Lóa – Guðbjörg A. Þorsteinsdóttir – minning

Forsíða1Hvernig var Lóa? Hvað manstu? Þú getur horft á myndina á sálmaskránni og séð íhugandi augun sem sáu fólk svo vel. Hvaða hugsanir vakna við myndirnar á skránni? Hvaða myndir eru innan í þér? Leyfðu Lóuminningum að koma fram, líka tilfinningum sem þú berð í brjósti til hennar. Íhugaðu í hverju söknuðurinn er fólgin og hvernig þú vilt varðveita minningu um tengslin. Og segðu sögur um hana.

Hér eru tvær Lóusögur: Einu sinni kom dóttursonur hennar mjög seint heim – svo seint að foreldrarnir voru orðnir verulega áhyggjufullir. Þegar drengurinn kom loks – undir morgun – spurði foreldrarnir: „Hvar hefur þú eiginlega verið, drengur?“ Og ungi maðurinn var algerlega gáttaður á spurningunni, enda taldi hann að hann hefði ekki gert neitt af sér. „Nú, ég var hjá ömmu?“ „Hjá ömmu þinni, hvað varstu að gera þar?“ Og drengurinn svaraði: „Við amma vorum að horfa á boxið.“ Og boxið í beinni frá Ameríku er auðvitað eftir miðnætti! Þetta er að vera kúl amma, enda fór Lóa í annað sætið í keppninni í Hagaskóla um kúlustu ömmuna!

Lóa gat sem sé horft á box – hún hafði áhuga á íþróttum og hélt kefli Gunnars bónda síns hátt á lofti þó hann félli frá – fyrir aldur fram. Lóa keypti aðgang að íþróttarásunum og fylgdist vel með enska boltanum og mörgum öðrum greinum líka. Einu sinni kom sonur Lóu í heimsókn til hennar á laugardegi. Hann kunni á fótboltann og vissi mæta vel að enski boltinn væri í fríi og átti því von á að mamma hans væri ekki við skjáinn. Nei, ónei, hann fann hana ekki: „Hvar ertu mamma?“ kallaði hann. Og hún gerði vart við sig og auðvitað sat hún og fylgdist með sportinu. „Hvað ertu að gera? Er ekki frí í Englandi?“ spurði sonurinn undrandi. „Jú, en ég er að horfa á Formúluna“ sagði mamma hans eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Lóa fylgdist svo sannarlega með. En mestan áhuga hafði hún á fólkinu sínu, börnunum, ömmubörnunum eldri og yngri, afkomendum sínum, öllum tengdabörnunum – sem hún mat afar mikils – og vinum og vandamönnum. Hún bar þetta fólk á ástarörmum, gerði þeim allt það gott til sem hún gat og var þeim öllum vinur, gleðigjafi, félagsmálastjóri, sjónvarpsstjóri, hlýtt fang, matmóðir og aðdáandi. Hún hafði góða stjórn á fjölskuyldufyrirtækinu en gaf mikið frelsi og leyfði sínu fólki jafnvel að spila fótbolta inni. Henni brá ekki þó eitt stykki lampi eða ljósakróna færi veg allrar veraldar. Fólkið, fjörið, gleðin og ástin áttu forgang í Lóu. Lóa lifði í þágu lífs. Því var hún elskuð og metin. Því er svo mikill hlátur í fólkinu hennar.

Upphaf

Guðbjörg A. Þorsteinsdóttir fæddist í Hafnarfirði 16. janúar árið 1921. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund þann 16. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elínborg Jónsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Hún sá um heimilið og hann sótti björg í bú á sjó.

Lóa ólst upp í Hafnarfirði og þar gekk hún í skóla. Hún meira að segja lærði að synda í hafnfirskum sjó. Lóa hreifst ung af starfi nunnanna í Hafnarfirði og mat kaþólskuna að verðleikum, átti sitt bænaband og fékk sína fyrstu launuðu vinnu á Sankti Jósepsspítala. Lóa starfaði síðar í brauðbúð, einnig hjá Bæjarútgerðinni í Reykjavík en lengstum á Landakotsspítala. Alls staðar fékk hún lof fyrir dugnað og mannkosti sína.

Lóa vann á Landakotsspítala haustið 1936 þegar franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas fórst og fjörutíu manns druknuðu. Lík skipverjanna sem fundust voru flutt í Landakot og þar var Lóu og fleirum falið að þrífa þau. Sá starfi sat í henni og síðar minntist hún sterkrar reynslu, lýsti áhrifunum, tilfinningu og gat jafnvel lýst kónganefi og prófíl leiðangursstjórans Charcot. Já hún lærði að vinna, efldist að þroska, upplifði veruleika dauðans en svo var líka ástin sem lýsti upp líf hennar.

Gunnar og börnin

Lóa kynntist Gunnari Jónssyni (1920-1985) og hann varð maðurinn hennar. Gunnar var kraftmikill, glaðsinna og heillandi, hvers manns hugljúfi. Hann var sölumaður og sölustjóri hjá innflutningsfyrirtækinu Nathan & Olsen, sem Gunnar og allt hans fólk stóð með. Þegar keypt var tómatsósa var það Libby’s enda hluti af innflutningi Nathan & Olsen. Að kaupa einhverja aðra tómatsósu kom ekki til greina. Gunnar stóð með sínu fyrirtæki, var trúr og traustur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Honum var treyst og hann stóð sína plikt. Hið sama kom fram í afstöðu hans og þjónustu við KR. Gunnar var máttarstólpi KR, spilaði um tíma í meistaraflokk, þjálfaði svo yngri flokkana og lagði góðan grunn að sigursæld knattspyrnudeildarinnar.

En Gunnar var líka fjölhæfur tónlistarmaður. Ungur barði hann húðirnar ekki aðeins í Reykjavík heldur líka í Hafnarfirði – og þar sá Lóa þennan fallega mann spila jazz svo snilldarlega. Hann hreifst af glæsileik hennar og mannkostum og hún af honum. Þau Lóa voru flott par sem sálmaskrármyndin á baksíðunni sýnir glöggt. Þau voru í hjúskap sínum hamingjusöm, traust, samhent og samlynd hjón og góðir uppalendur.

Lóa og Gunnar

Þau bjuggu fyrst á Egilsgötu og síðan í kjallara við Sörlaskjól. Börnin komu í heiminn eitt af öðru og ljóst var að þau Lóa og Gunnar yrðu að stækka við sig. Svo tóku þau þátt í ævintýrinu á Framnesvegi 65 og urðu frumbyggjar þar, fluttu inn árið 1959 og þar bjó fjölskyldan í sömu íbúð í fjóra áratugi. Þar höfðu þau nóg pláss fyrir öll börnin sjö og amma og afi komu síðar í kjallarann. Og kjallaraíbúiðin hefur síðan verið í eigu afkomenda Lóu.

Á Framnesveginum var samkomulag íbúanna í húsinu svo gott að menn sögðu ekki góðan daginn á ganginum heldur hið enn betra: „Áfram KR!“

Börnin og fjölskyldan

Ragnar Ellert er elstur í barnaskaranum. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1941. Kona hans er Helga Sveinbjörnsdóttir. Elín fæddist á kvennadeginum í júní árið 1950. Dóttir hennar, Guðbjörg Aðalheiður Jónsdóttir, varð Lóu sem yngsta barnið á heimilinu. Gunnar fæddist – eins og Elín – í júní árið 1951 og er þriðji í barnahópnum. Kona hans er Heiða Björk Vignisdóttir. Herdís er fjórða í röðinni og fæddist í desember 1953. Maður hennar er Haukur Ingi Hauksson. Sigríður kom í heiminn tæplega tveimur árum síðar, í október árið 1955. Helgi Gunnarsson er maður hennar. Sjötta er Hellen Magnea, fædd í febrúar 1957 og maki hennar er Örn Karlsson. Þorsteinn rak svo lestina í júlí 1963. Kona hans er Soffía Ólafsdóttir. Lóa og Gunnar eignuðust fjórar dætur og þrjá syni. Barnabörnin eru samtals sextán, flest strákar eða tólf – þ.e. heilt fótboltalið – og stelpurnar eru fjórar. Langömmubörnum Lóu fjölgar þessi árin en þar ríkja konurnar. Þau eru orðin sex barnabarnabörnin, 80% kvenkyns. En yngst er strákur fæddur 2012.

Samskiptin og eigindir

Lóa og Gunnar bjuggu við barnalán. Í fólki er mestur auður þessa heims og þau voru rík. Og uppeldið lánaðist vel og Lóa var sátt hvernig til tókst. Hún var ekki aðeins glöð með börnin sín, heldur mat tengdabörn sín mikils. Lóa tengdamamma var framúrskarandi og svo var hún ekki bara kúl amma heldur svo gefandi í samskiptum að barnabörnin sóttu til hennar, ekki bara til að horfa á box eða fá hana til að dripla bolta, heldur til að vera með henni.

Lóa er okkur – og fjölskylda hennar – lýsandi vottur um mikilvægi samveru í fjölskyldum – þetta einfalda en mikilvæga að vera. Lóa lagði ekki upp úr að fólk kæmi uppábúið eða í sínu fínasta skarti heldur væri það sjálft. Fólk var metið fyrir það sem það var en ekki vegna ásýndar eða klæða. Fólk fremur en föt – það var Lóustefnan. Hvað getum við lært af því?

Þar sem Lóa var þangað sótti stóra fjölskyldan, t.d. á gamlaárskvöld. Hún var ættmóðirin, möndullinn, og veitti fjölskyldunni samhengi. Af hverju? Vegna tengslanna sem hún átti við fólkið sitt. Hvað lærir þú af því? Hvernig viltu lifa og hvað veitir þér mesta hamngju? Gunnar þjálfaði vel – það veit ég af eigin reynslu. Þó Lóa væri ekki starfandi íþróttaþjálfari var hún eins og besti stjóri. Hún þjálfaði ástvini sína til lífsleikni og lífsgáska. Af því hvernig hún var í tengslum og samskiptum urðu þau það sem þau eru. Það er stórkostlegur minnisvarði sem hún reisti sér – og orðstír hennar deyr ekki.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju nokkurra sem ekki geta verið við þessa athöfn – frá Helgu Sveinbjörnsdóttur, Þorsteini Ragnarssyni, Gunnari Erni Arnarsyni, Elmari Orra Gunnarssyni og Brynjari Birni Gunnarssyni.

Minningarnar

Hvað minningar áttu um Lóu? Manstu eftir hvernig hún setti börn upp á eldhúsborð, sagði þeim sögur, dreifði huga þeirra og tókst að koma í þau ókjörum af skyri eða öðrum mat. Ef fyrirstaða var gat meiri sykur stundum hjálpað til!

Lóu var mikils virði að öllum væri vel þjónað, allir nytu veitinga og góðs atlætis. Hún var var ekki aðeins góð húsmóðir og sá um svanga maga, heldur vaktaði andlegar og félagslegar þarfir – og skildi vel þegar ungviðið þurfti að hreyfa sig. Hún var höfðingi á sínu heimili, stýrði því sem þurfti en gaf öllum pláss og frelsi til lífs. Það er sitthvað að stjórna öðrum með látum og annað að stjórna fólki til þroska og að axla ábyrgð. Í því er kúnst hins góða stjóra, hvort sem er í íþróttum, á heimili, í siðferði eða öðrum listum lífsins. Þá kúnst kunni Lóa og hún var meistari.

Manstu hve dugmikil spilakona Lóa var? Hún kunni rússa, Ólsen – Ólsen, veiðimann og rommí og hleypti upp fjörinu í spilafélögunum. Og svo skemmti hún sér í bingó, passaði upp á 16 spjöldin – 16 var happatalan hennar enda gerðist margt það besta í hennar lífi á 16 degi mánaðanna.

Manstu að hún byrjaði að halda ræður á síðari árum, hlýjar elskulegar ræður sem smituðu lífsvisku, umhyggju, stolti yfir fólkinu sínu – hlýjar hvatningarræður um að lifa vel.

Hvað ætlar þú að gera með viskuna hennar Lóu? Leyfðu lífssöng hennar að hljóma í þér og verða þér til hvatningar um að hlæja, fagna gjöfum Guðs, fagna viðburðum daganna, bregðast við til góðs þér og þínum.

Himininn

Og nú eru skil. Lóa er flogin inn í himininn. Hún matar ekki lengur litla munna, driplar bolta eða fagnar marki KR eða í enska boltanum. Lóa stjanar ekki lengur við þig, kemur með Cocoa Puffs eða Trix, hún heitir ekki á þig í bingó eða kaupir Libbýs tómatsósu framar.

Á seinni árum var hún á heimleið – og nú er hún komin heim. Því máttu trúa. Hún er komin í þá veröld sem við köllum himinn Guðs. Og hún stendur á einhverju himintorgi með Gunnari sínum, – kannski á leið á leik í himinboltanum – en örugglega fagnandi, hlægjandi, elskurík og hamingjusöm. Þú mátt fela hana góðum Guði sem elskar fólk eins og Lóu sem lifa sem englar lífsins, fulltrúar himinsins í heimi. Og við segjum ekki bara Áfram KR, heldur áfram lífið – áfram Guð. Og Guði séu lof og þökk fyrir Lóu. Guð geymi hana ávallt og ævinlega í eilífð sinni. Og Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Edda S. Erlendsdóttir – minningarorð

4551sh(10x15)Edda var hetja. Hún tók viðburðum lífsins með styrk, ljúflyndi, þakklæti og elskusemi. Hún var hetja í baráttu við sjúkdóm sem sótti að henni innan frá, dró úr henni mátt, lamaði hana smám saman og af miskunnarlausri hægð. Hetja – andlegur styrkur Eddu var ótrúlegur og aðdáunarverður. Hvaðan kemur okkur hjálp í aðkrepptum aðstæðum? Að innan og ofan. Og öflugt fólk verður okkur fyrirmynd til góðs.

Uppruni og ætt

Edda S. Erlendsdóttir fæddist á Eiðstöðum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, þann 25. september 1947. Faðir hennar var Erlendur Ó. Jónsson. Hann var farmaður og þjónaði Eimskip, fyrst sem stýrimaður og síðar sem skipstjóri. Móðir Eddu var Ásta M. Jensdóttir, húsmóðir. Þau hjón voru alla tíð afar náin, leikandi ástrík við hvort annað og eins og splunkunýtt kærustupar til hinstu stundar. Edda ólst því upp við hlýju og elskusemi. Hún var einbirni í nokkur ár, en svo fæddist yngri systirin Ólína í febrúar árið 1955. Þær systur voru nánar og Edda varð Ólínu sem fyrirmynd og saman áttu þær samheldna fjölskyldu sem ræktaði tengslin vel til hinstu stundar.

Foreldrar Eddu, Ásta og Erlendur, hófu hjúskap í Norðurmýri en fluttu síðan vestur í bæ og bjuggu á Neshaga 13. Edda fór því fyrst í Austurbæjarskóla og síðan í Hagaskóla. Heimilislífið var líflegt, bæði þegar pabbinn var á sjó – en einnig þegar hann kom heim. Þá var bara enn gleðilegra að vera til. Edda, Ólína og mamman guldu ekki fyrir farmennsku pabbans – heldur nutu með margvíslegum hætti. Þær fóru t.d. með Erlendi í túra, hvort sem siglt var á Ameríku eða Evrópu. Og þegar Gullfoss brann í Kaupmannahöfn 1963 var Erlendi falið að vera í Höfn og líta eftir viðgerðinni. Þá voru þær dömurnar með  – voru fyrst á hóteli og síðan um borð meðan viðgerð lauk. Þær urðu Kaupmannahafnardömur og kunnu sig.

Þau Einar Páll Einarsson kynntust í Vesturbænum ung að árum. Hann ólst upp á Lynghaganum. Hagaskóli hefur ekki aðeins verið skóli bóknáms heldur vermireitur kynna og tengsla, sem hafa skilað mörgu og miklu til lífsins. Samband þeirra Palla styrktist og sambúð var skipulögð. Edda fór í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur og hann lærði rafvirkjun og varð meistari í sinni grein. Þau gengu í hjónaband þann 3. október 1970 við altarið hér í Neskirkju. Ungu hjónin fengu inni á Neshaganum og bjuggu í risinu hjá foreldrum Eddu en fluttu síðar á Lynghaga 15.

Þau Edda eignuðust tvo syni. Þeir eru Erlendur Jón og Steingrímur Óli. Kona Erlends er Anna Kristín Scheving. Þau eiga dótturina Eddu Steinunni og annað barn er í kvið og er væntanlegt innan tíðar! Önnur börn Önnu Kristínar eru Hildur Björk og Marinó Róbert.

Kona Steingríms er Birna Dís Björnsdóttur. Dætur þeirra eru Maríanna Mist og Rebekka Rut. Fyrir á Steingrímur soninn Dag Snæ.

Fólkið hennar Eddu stóð henni ávalt nærri hjarta. Hún hafði mikla gleði af drengjum sínum, tengdadætrum og ömmubörnum. En hjónabandið trosnaði og Edda og Páll skildu árið 1988.

Vinna – kveðjur – þakkir

Auk heimilisiðju og sonauppeldis starfaði Edda við skrifstofu- og afgreiðslustörf í Reykjavík. Hún vann við bókhaldsstörf á Vegamálaskrifstofunni og síðan hjá Vita- og Hafnarmálastofnun í Reykjavík – þar til hún gat ekki lengur starfað utan heimilis vegna veikinda sinna. Edda bjó lengstum í vesturbæ Reykjavíkur en fluttist í Sjálfsbjargarheimilið fyrir tæpum sjö árum. Hún lést á heimili sínu í Hátúni 12 þann 2. mars 2014.

Við skilin sem eru orðin biðja nokkur fyrir kveðjur til þessa safnaðar –  Nína í Danmörk, Margréta Ásta í Berlín og Styrmir Örn í Amsterdam. Þórdís Richter biður einnig fyrir kveðju sína. Fjölskylda Eddu þakkar starfsfólki í Hátúni fyrir góða umönnun og ljúft viðmót.

Lúta eða lifa

Hvernig var Edda? Hvað kemur upp í hugann? Hvaða minningar dekrar þú við í huganum? Meira en hálfa æfina glímdi Edda við MS – en alla æfi var hún lífsins megin. Hún stóð með lífinu og er því okkur fyrirmynd um hvernig hægt er að bregðast við með styrk og hetjuskap í kreppu eða erfiðleikum. Hvað gerum við þegar áföll skella á okkur? Þá verða kostirnir kannski heldur fáir og jafnan aðeins tveir. Að lúta eða lifa – að bíða ósigur eða glíma við áfallið, sorgina eða meinið. Edda ákvað að lifa og alla æfi lifði hún fallega – já hún var hetja.

Lífsins megin

Í sögu Eddu er brot af eilífðinni. Í viðbrögðum sínum kennir Edda okkur mikið um lífið og Guð. Saga hennar byrjaði undursamlega. Hún átti hamingjuríkt upphaf, naut ástríkis foreldra og fjölskyldu, elskaði og naut tengsla við bónda og drengi. Hún naut hæfileika sinna í störfum og einkalífi. Það var fyrri hálfleikur lífs hennar. Svo hófst seinni hlutinn og allt í einu byrjaði dofinn að læðast um líkama hennar og líf. Ekkert var lengur gefið og margt brást í lífi Eddu – en ekki hún. Hún var sem engill, fulltrúi alls þess besta sem til er.

Saga hennar er endurvarp sögu Guðs og lífsins. Heimurinn byrjaði vel, allt var gott. Það var fyrri hálfleikurinn. Svo kom áfallið og allt var breytt. Guð brást ekki, laut ekki heldur elskaði og vann með meinið allt til enda. Sigur lífsins yfir dauðanum er mál páskanna, boðskapur um að allir sem eru fjötraðir verði leystir, ef ekki í þessum hálfleik lífsins – þá í næstu lotu sem heitir eilíft líf.

Minningarnar

Edda – hetja lífsins. Hvernig manstu hana? Manstu brosið hennar, gáskann? Manstu hvernig hún gat gert grín að sjálfri sér og meinum sínum? Með vinum sínum gat hún hlegið í hinu hláturmilda Kvikindismannafélagi sem var stofnað fyrir kátínuna. Manstu hið góða geðslag Eddu?

Manstu hve sjálfstæð og sjálfri sér nóg hún var? Hún miklaði ekki fyrir sér að skjótast á hjólastólnum hvert sem var. Hún fór að heiman og um langan veg – inn með Skerjafirði, út á Nes og upp í Háskólabíó. Hún var ekki í neinum vandræðum með sjálfa sig. Fyrirstöður urðu henni tækifæri en ekki hindranir. Líf hennar var ekki hálftómt glas heldur hálffullt. Hún sýndi hetjumátt sinn í dugnaði daganna. Hún er okkur fyrirmynd um afstöðu til lífsins. Að lúta ekki heldur lifa!

Já, Edda magnaði ekki vandamál heldur leysti þau. Hún var útsjónarsöm og skynsöm. Hún greiddi úr flækjum en bjó þær ekki til. Því átti hún ánægjuleg samskipti við fólk – hafði gott lag á að bæta mál og sjá leiðir, sem öðrum hafði ekki auðnast að greina eða uppgötva. Þetta er að velja ljósið fremur en myrkrið. Getum við eitthvað lært af Eddu í því?

Og svo var Edda þessi líka fíni kokkur. Og hún naut þess að barnabörnin hennar náðu að upplifa hve hún var flínk. Þegar Dagur, sonarsonur hennar var lítill og Edda amma passaði hann bauð hún honum að panta pitsu. Nei, hann vildi heldur fá plokkfiskinn hennar ömmu og helst bjóða vini sínum í mat líka! Og þá vitum við það: Plokkarinn hennar Eddu sló öllum pitsum heimsins við! Hvernig var þá allt hitt sem Edda eldaði?

Manstu hve glöð hún var, þakklát fyrir það sem henni var gefið og allt það sem aðrir voru henni? Er hún ekki fyrirmynd í því einnig? Lífið er gjöf, “lán” okkar er lán. Og fyrir allt jákvætt og gott megum við þakka. Það kunni Edda.

Manstu eftir listfengi Eddu og handbragði? Áttu eitthvað sem hún prjónaði – eða kannski sængurföt frá henni, laglega hönnuð, þrykkt með fallegum skýjum á svæfilveri og sængurveri? Handavinnan hennar var falleg og bar sköpunarvilja og hæfni hennar gott vitni.

Inn í himininn

Nú er hún farin. Nýr kafli hefur opnast henni. Edda – formóðir – um innræti og afstöðu til lífsins. Edda – móðir minninga um lífið. Nú er hún ekki lengur bundin. Fjötrarnir eru fallnir, tilfinningin komin, skerpan er alger og krafturinn óbilaður. Hún er frjáls að nýju. Edda er komin inn í þann heim þar hún fær að vera í samræmi við upplag, mótun og vonir.

Þetta má segja og því má trúa að hin kristna saga endar aldrei illa heldur vel. Kristin trú varðar ekki að lúta heldur lifa. Allt líf er endurvarp hinnar miklu sögu að Guð elskar allt og alla. Og því er líf okkar ekki dimmt heldur baðað ljósi – líf frelsis, krafts, ódofinna tilfinninga, gleði og vonar. Veröld Guðs er góð.

Guð geymi Eddu.

Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í Neskirkju 12. mars, 2014.

Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Hilmar Sævald Guðjónsson – minningarorð

Hilmar S H 445aAutt og óskrifað blað er ögrandi og jafnvel krefjandi. Hvað á að skrifa og hvað er hægt að teikna? Óskrifað blað er hreinn veruleiki – allra möguleika. Hvernig verður svo teiknað eða ritað? Verða pensilstrokurnar léttar og túlkandi – eða vondar og særa augu? Verður það sem fært verður á blað hrífandi eða meiðandi? Að skrifa og teikna er ekki sálarlaust handverk heldur krefst ögunar, alúðar, meðvitundar, samstillingar huga og handar og jafnvel líka ástríðu. Það er hrífandi að skoða myndir Hilmars – hvernig hann reyndi að láta pensil eða krít líða átakalaust yfir örkina til að draga fram svífandi línur, eðlileg form, skugga og birtu svo úr yrðu þokkafullar myndir af fólki. Og þessar frjálsu en öguðu línur og strokur vekja tilfinningaviðbrögð. Teikningar Hilmars tjá vel listfengi hans og hæfni.

Hvernig teiknaði Hilmar sína eigin mynd inn í líf ykkar? Hvaða mynd dró hann af sér inn á glugga minninga þinna? Hilmar lifði í þágu fólks, fjölskyldu og vina. Hann lifði í þjónustu við aðra og notaði hæfni sína og list til eflingar öðrum. Vegna hógværðar og umhyggju varð Hilmar farvegur gæsku. Hann þjónaði og kunni listina að lifa fallega.

Þegar við hugsum um fólk – gott fólk – sjáum við oft lífið í stærra samhengi og skynjum jafnvel spor eilífðar. Gæska í tíma vekur vitund um hið stóra og mikilvæga. Hendi Hilmars með pensil og örk er mynd af skapara og verðandi. Til hvers að skapa? Til að efla lífið. Til hvers að draga upp myndir? Til að gleðja og efla. Til hvers er list? Til hvers lifum við sem menn? Hlutasvörin eru að list og einstaklingur eru aldrei aðeins í eigin þágu – sjálfhverf og eigingjörn – heldur tengd hinu stóra. Og trúmaðurinn sér í allri framvindu heimsins að lífið hefur ekki bara smátilgang heldur fjölþætta merkingu, margbreytilega gleði, stórt samhengi – af því til er Guð sem elskar og þjónar.

Ætt og uppruni

Hilmar Sævald Guðjónsson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1941. Móðir hans var Halla Sæmundsdóttir (f. 24. janúar 1918  d. 18. október 2013) og Guðjón Steingrímsson (f. 2. desember 1917, d. 12. apríl 1996). Guðjón lést fyrir nær 18 árum en milli Hilmars og Höllu voru aðeins fjórir mánuðir. Hún lést í október síðastliðnum. Foreldrar Hilmars, þau Halla og Guðjón, bjuggu ekki saman og Halla fór með Hilmar ungan og óskírðan norður til ættfólks hennar í Strandasýslu. Hún sendi svo tilkynningu suður síðar að hann drengurinn héti Hilmar – og reyndar var hann Sævald að auki.

Fyrir norðan kynntist Halla Jóhanni Snæfeld og giftist honum. Þau bjuggu á Hamarsbæli við Steingrímsfjörð. Af bæjarnafninu fékk Hilmar svo viðurnefndið Hilmar í Bælinu! Fóstri Himars, Jóhann, reyndist honum hinn besti vinur og fóstri.

Hilmar eignaðist marga bræður og systur og var elstur í stórum hópi systkina. Sammæðra á hann systurnar Bettý, Kolbrúnu og Báru – allar Snæfeld. Samfeðra á hann systkinin Magnús,  Steingrím, Sigríði, Ingólf og Kjartan. Þau lifa öll bróður sinn.

Mótun

Í Hamarsbæli komst Hilmar til manns, lærði að axla ábyrgð, þjóna fólki og lífi. Hann lærði að fara á sjó og sækja björg í bú, lesa tekningar í Popular Mechanics, vanda til allra verka og smíða stórt úr litlu. Strandamenn hafa um aldir smíðað báta og Hilmar vissi vel að hugur og hönd urðu að vinna saman og allt yrði að falla vel til að fleytan yrði góð. Hann gat því öruggur sjósett kajak sinn sem hann smíðaði ungur. Hann lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Svo lærði hann að gefa – og jafnvel of vel að betra er að gefa en þiggja.

Jóhann, fóstri Hilmars, sótti sjó og Hilmar fór í róðra um leið og hann hafi getu til. Á sjó var ekki bara fiskur og fegurð. Hilmar varð snemma góður skotmaður og þeir fóstrar skutu fugl til matar. Jóhann mundaði haglabyssu og skaut oft marga í skoti en Hilmar stóð í bátnum, dansaði limamjúkt í takt við ölduna og skaut svo markvisst og hratt að hann veiddi oft meira en sá sem skaut marga í skoti. Hilmar kenndi svo strákum sínum og jafnvel sonarsonum að skjóta. Engum sögum fer af skotum kvenna sem af Hilmari eru komnar!

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Hilmar menntun sína.

Bændur í Hamarsbæli bjuggu ekki við fé heldur fisk og sjór var sóttur af kappi. Hilmar var því óbundinn af stað og búskap móður og fósturföður og frjáls til atvinnu. Steingrímsstöð við Sog var byggð á árunum 1957-60. Þar starfaði Guðjón, blóðfaðir Hilmars, og ungi maðurinn fékk þar vinnu einnig. Það varð til að þeir feðgar kynntust betur og áttu eftir að vera í talsverðum og oft miklum samskiptum síðan.

Eftir vinnu í Steingrímsstöð var Hilmari ljóst að gæfulegt væri að afla sér atvinnuréttinda. Og Hilmar hóf nám við Iðnskólann á Skólavörðuholti og lauk þaðan tækniteiknaranámi árið 1972. Um árabil starfaði hann síðan á verkfræðistofu Benedikts Bogasonar. Árið 1979 færði hann sig um set og gekk til liðs við stórfyrirtækið Phil & Sön í Kaupmannahöfn. Þar var hann tækniteiknari í þrjú ár. Hjá Benson innréttingum starfaði hann frá árinu 1982 og síðar við auglýsingagerð, innréttingahönnun og smíði.

Þegar í bernsku teiknaði Hilmar af miklu listfengi myndir af Hamarsbælisbátunum. Alla tíð var hann drátthagur, hafði áhuga á línum og teikningu. Og ástríðan til hins auða blaðs leiddi til að árið 1969 fór Hilmar á námskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur og naut leiðsagnar ýmissa meistara, m.a. Hrings Jóhannessonar – og fór svo að kenna sjálfur. Yfir fjörutíu ár var Hilmar síðan tengdur skólanum og naut þess að vera fullgildur þáttakandi þessarar merku listasmiðju og uppeldisreit. Auk þess að Hilmar kenndi teikningu um árabil sá hann einnig um viðhald, smíðar og breytingar. Eftir að hann varð fyrir heilsufarsáfalli fyrir liðlega áratug dró hann úr kennslu en þjónaði skólanum áfram með ýmsum hætti. Og í Myndlistarskóla Reykjavíkur lauk hann ævi og starfi. Þar varð Hilmar kvaddur burt úr heimi með skyndingu og fyrirvaralaust þann 11. febrúar síðastliðinn.

Hjúskapur
Hilmar kvæntist Ásthildi Sveinsdóttur, þýðanda, árið 1962. Þau skildu áratug síðar í vinsemd og stóðu saman vörð um hag sona sinna þriggja. Elstur er Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur. Kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir, íslenskufræðingur. Þau eiga börnin Kristján Sævald og Eddu.

Síðan komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr.

Axel er verkfræðingur og kona hans er Ásdís Ingþórsdóttur, arkitekt. Dætur Axels og fyrri konu hans, Þórnýjar Hlynsdóttur, bókasafnsfræðings, eru Sunna og Álfrún. Börn Ásdísar eru Guðmundur og Linda.

Snorri Freyr er leikmyndateiknari. Kona hans er Ann Söderström, sem stundar nám í þjóðfræði. Dóttir þeirra er Hilda Sóley. Börn Snorra og fyrri konu hans, Láru Hálfdánardóttur, kennara, eru Skarphéðinn og Unnur.

Sambýliskona Hilmars var Jóhanna Thorsteinson,  kennari. Þau slitu samvistir en ekki vináttu.

Hilmar var drengjum sínum góður og natinn faðir. Hann hafði gleði af barnabörnum sínum, naut samvista við þau og að fræða þau. Hann föndraði með þeim, smíðaði og vakti yfir framvindu í lífi þeirra. Og svo var hann mikilvægur börnum Jóhönnu líka.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju frá Ásthildi, fyrrverandi eiginkonu Hilmars, sem er á sjúkrahúsi og komst ekki til þessarar athafnar. Ennfremur hafa Kristinn Sæmundsson og Þorbjörg, kona hans, beðið fyrir kveðjur. Þá hafa Sjöfn og Auður, frænkur Hilmars sem eru erlendis, beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Einnig eru kveðjur frá frá Önnu Fanney Helgadóttur og Valdimar Jónassyni.

Myndirnar af Hilmari

Hilmar dró upp myndir. En hvaða mynd er dregin upp í huga þinn af Hilmari? Hvernig minnistu hans? Og hvað viltu muna og af hverju?

Manstu hve elskulegur hann var? Manstu hve bóngóður hann var? Sástu Hilmar einhvern tíma setja upp eldhúsinnréttingu? Kom hann jafnvel til þín til að hjálpa við að leggja partkett, smella upp gerektum og baðinnréttingu eða lagfæra skáp- eða dyrahurð, sem var orðin skekkt eða féll ekki lengur vel í fals? Hilmar hefur væntanlega ekki innheimt stórar upphæðir? Það var ekki hans stíll. Hvernig ætlar þú að þakka fyrir greiða og gæsku?

Manstu hve hógvær Hilmar var? Aldrei tranaði hann sér fram og undi glaður við sitt. En gott þótti honum að vera háseti á fleyi listarinnar í landinu. Hann undi vel í Myndlistaskólanum og var metinn að verðleikum til hinsta dags. Lof sé samstarfsfólki og yfirmönnum skólans fyrir þá elskusemi sem Hilmar naut þar og þá hlýju sem þau sýndu fjölskyldunni við fráfall hans.

Var hann þér fyrirmynd í tengslum við fólk? Brostu ekki augu hans við veröldinni? Manstu hve hlýlegur hann var í samskiptum og tók börnum. Manstu hve iðjusamur hann var? Manstu þegar hann settist niður með bilaðan hlut, stóran eða smáan til að skoða gangverkið, athuga hvort hægt væri að laga, smíða varahluti eða flikka til svo hægt væri að koma í gagnið á ný? Hilmar var fremur maður endurvinnslunnar en neyslunnar og því varð í höndum hans margt til úr “engu.” Það sem aðrir hefðu kastað á hauga naut náðar í augum hans og var komið til brúks á ný. Jafnvel ryðgaður lás reis upp til nýs lífs vegna þess að Hilmar hafði í sér þolinmæði til að sitja við og pússa, liðka og laga. Gangverk eilífðar birtist í fingrum og tíma Hilmars.

Á síðari árum fór hann æ oftar heim í Hamarsbæli og síðustu misserin undi hann glaður við að gera bæinn upp. Þið fjölskylda og ástvinir Hilmars munuð njóta verka hans um ókomin ár.

Hamarsbæli himinsins

Og nú er Hilmar farinn. Ekki fleiri pensilstrokur og engar fleiri skissur. Einu sinni talaði Hilmar við sonardóttur sína um himininn og ferð sína inn í eilífðina. Í hógværð sinni eða jafnvel sjálfsgagnrýni sagði hann henni að hann væri ekki viss um að komast inn í himininn. En hún hafði góða þekkingu á afa sínum og fullkomnunarsókn hans. Hún taldi líka víst að gangverk og opnunarbúnaður gullna hliðsins væri ekki beintengt við sjálfsgagnrýni og verk mannanna. Og það er rétt og góð guðfræði. Opnunarbúnaður himinsins er mekaník sem teiknarinn mesti hefur hannað, smíðað og prufkeyrt sjálfur. „Jú afi minn þú flýgur inn í himininn“ var hennar niðurstaða.

Íhugun Hilmars er eðlileg og sammannleg. Að okkur sækja þankar um framvindu lífsins og hvernig eilífðin verður uppteiknuð og með hvaða línum, birtu og skuggum. En lífið er ríkulegt og ekki eitt strik og svo allt búið. Öldurnar í hafinu, vindurinn, sólstafirnir, undur hjalandi barna, merkingin í öllu því besta sem mennirnir upplifa læðir að þeim grun um að lífið er ekki smátt heldur stórt, að við megum eiga von á að það sé meira en snögg blýantslína. Trúin lokar ekki heldur opnar – kristnin boðar elsku, frelsi, hinar frjálsu línur – að heimurinn sé vel teiknaður og fallega. Himinn er opinn fyrir menn og líf. Menn sem fæðast með eilífð í augu og fingrum eru gerðir fyrir framhald. Það er þokkinn í skissu teiknarans mesta. Heimurinn er dreginn upp af ástríki og lífsarkirnar eru fullar af gleðiefnum.

Himinn er opinn fyrir Hilmar. Nú er hann farinn inn í hina frjálsu, fallegu, undursamlegu mynd sem Guð teiknar.

Guð geymi Hilmar Sævald Guðjónsson og Guð teikni þig vel.

Amen.

Minningarorð í Neskirkju 26. febrúar, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Pétur Pétursson – minningarorð

Vonarskarð, ævintýraveröld, hjarta hálendisins. Pétur var frjáls á fjöllum, opnaði þar vitund og sálargáttir. Naut þess að gera ekkert annað en að upplifa – dást að samspili forms og lita, lesa landið, vita af meigineldstöðvunum, horfa til Tungnafellssjökuls eða Bárðarbungu, reyna að sjá fyrir sér landnámsmanninn á ferð með búsmala úr Bárðardal fyrir norðan – um Vonarskarð – og að Núpum sunnan jökla. Í Vonarskarði eru vatnaskil – og hægt að fara til norðurs eða suðurs – opin veröld.

Pétur upplifði fegurð í eyðimörk hálendisins, veðurstillu háfjallanna, naut litasterkjunnar í mosagrænku eða útfellingum hverasvæðisins. Honum þótti gott að liggja á bakinu í heitri lind og leyfa sólinni að kyssa sig. Svo kyssti fegurð himins og sköpunarverksins líka vin sinn Pétur Pétursson, ferðagarp og fagurkera. Og hann fór með varkárni og virðingu í helgidóma Íslands og heims.

Vonarskarð – öll förum við um einhver Vonarskörð. Hvaða lífsleið velur þú? Þú átt val í ferðamálum þessa heims en annars einnig. Hver eru þín vonarmál?

Ætt og uppruni

Pétur Pétursson fæddist að vetri, 11. janúar árið 1963. Foreldrar hans voru Hjördís Ágústsdóttir og Pétur Guðmundsson. Hjördís lifir en Pétur, faðir hans, er látin. Pétur var yngstur systkina sinna. Hin systkinin eru Anna Sigríður, Guðmundur Ágúst, Sturla og Bryndís og lifa öll bróður sinn.

Fjölskyldan bjó fyrstu árin í Vesturbænum en þegar Pétur var um það bil að hefja skólagöngu flutti hópurinn inn í Fossvog. Pétur fór því skólana sem þjónuðu Bústaðahverfinu og tók þátt í því fjölbreytilega lífi sem það hverfi bauð til á áttunda og níuna áragug síðustu aldar. Pétur átti í sér kyrru og sótti snemma í bækur. Bókástin fylgdi honum alla tíð. Á unglingsárum þegar hann átti einhverja aura kom Pétur fremur heim með bók en buxur ef hann mátti ráða.

Eftir grunnnámið fór Pétur síðan í Menntaskólann í Reykjavík, átti farsæl og gleðirík menntaskólaár og lauk stúdentsprófi frá MR. Áhugaefnin voru ýmis og hæfileikarnir margir. Með stúdentsskírteinið í höndum var Pétur í einu af vonarskörðum lífsins. Hann gat farið í hverja þá átt sem hann vildi. En svo tók hann stefnu – og fór í viðskiptafræðina í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA námi. Pétur var alla tíð marksækinn og íhugaði framhaldið – og tók stefnu á Kaupmannahöfn og lauk meistaraprófi þar. Honum leið vel í Danmörk, var hrifinn af Kaupmannahöfn, skólanum og menningunni. Engir voru jöklarnir og engin fjöll en Pétri leið þó vel og stóð sig framúrskarandi vel í námi. Svo framúrskarandi – að í ljós kom að Pétur vann til verðlauna. Hinum hógværa manni þótti gott að hafa staðið sig svo vel að ástæða væri til að verðlauna hann.

Svo fór Pétur heim og réði sig til starfa hjá Innkaupastofnun ríkisins. Þar leið honum ágætlega í starfi, var metinn og virtur. Svo vildi hann leita á ný mið og stórfyrirtæki var honum nægilega mikil ögrun til að breyta til. Hann varð innkaupastjóri hjá Landsvirkjun frá árinu 2006 og blómstraði í starfi. Og ég hef séð falleg ummæli um framlag Péturs til Landsvirkjunar og samskipta við fólk á þeim vinnustað.

Ég hef verið beðinn að færa þessum söfnuði kveðju frá Þórarni Inga sem er í Noregi og kemst ekki til þessarar útfarar.

Jóna Björk

Svo var það ástin í lífi hans. Hvergi leið Pétri betur en í óbyggðum. Það er við hæfi að þau Jóna Björk Jónsdóttir sáust og kynntust á fjöllum. Pétur bar virðingu fyrir fræðum konu sinnar, líffræðinni og jarðfræðinni. Þau voru sálufélagar, afar náin og umhyggjusöm við hvort annað. Þau fóru víða, hlupu gjarnan á fjöll, garpar, næm og kát. Jóna Björk veitti Pétri innsýn í sveitalífið og Skaftfellingarnir tóku hann í sinn hóp. Sambúð þeirra var ekki löng en góð. Svo þegar Pétur veiktist vakti Jóna Björk yfir hverju skrefi og velferð Péturs – allt til enda. Lof sé henni.

Minningarnar

Hvernig var Pétur? Hvernig minningar þyrlast upp þegar hann er farinn? Hvað kemur upp í huga þinn?

Manstu hve skipulagður hann var? Hvernig hann tók áskorunum, vildi ögra sjálfum sér en vildi þó hafa stefnuna á hreinu og hvernig ætti að ná markinu?

Manstu óbyggðaelsku Péturs? Raunar voru jöklar í uppáhaldi hjá Pétri enda fáir sem ganga yfir Grænlandsjökul sem ekki hrífast af stórveröld hinnar köldu fegurðar.

Manstu hvernig hann vildi hafa gott yfirlit sinna verka? Félagar Péturs á Grænlandsjökli vissu að hann var forsjáll og aðgætinn og ganga mátti að því vísu að ef einhver hefði gleymt einhverju smáræði hafði Pétur ekki flaskað á slíku.

Og þegar Pétur var að hugsa um að kaupa einhvern hlut var það ekki gert í óðagoti eða vanhugsað. Hann skoðaði, las sér til, kannaði og rannsakaði og þegar hluturinn var keyptur vissi hann allt sem vert og þarft var að vita. Og handbækurnar kunni hann líka á. Þegar hann keypti rauða Wranglerinn frá Ameríku vissi hann nákvæmlega hvers konar gripur kæmi og í hverju hann væri frábrugðin hinum útgáfunum.

Manstu hversu auðvelt honum var að fara í fjallgöngu? Og að hann fór gjarnan í göngu þegar eitthvað var mótdrægt. Eða þegar hann var þreyttur – þá hljóp hann á Esjuna!

Manstu hve Pétur var víðlesinn og fróður? Hann var ekki bara góður í innkaupum, þróun peningamála eða viðskiptum. Hann gat sest með vinum sínum eða mömmu og túlkað vel persónur eða viðburði í Njálu eð einhverri skáldsögu Charles Dickens. Hann var upplýstur og glöggur, hélt sínu fram með rökum og hlustaði á mótrök.

Og manstu fagurkerann? Hann hafði auga fyrir og hreifst af því sem var fagurt. Og næm tilfinning fyrir gæðum litaði afstöðu og uppifun. Gæði frekar en magn er góð lífsstefna og var sem iðkunarstefna Péturs. Hann keypti gjarnan vönduð föt og gallabuxurnar hans voru ekki keyptar af því að þær væru með Armanimerki – heldur af því hann mat gæðin mikils. Búshlutirnar hans voru vandaðir – og eldhúsgræjur Péturs voru góðar. Hann hafði áhuga á hönnun og sjónlistum. Hann hafði skoðanir og áhuga á hvernig hús voru skipulögð og gerð og hefði líklega orðið góður arkitekt. Og Pétur var líka fagurkeri í matarmálum.

Pétur var yngstur systkina sinna og lærði að taka tillit til annarra og var umhugað um velferð samferðafólks síns og beitti sér í þeirra þágu. Hann sá þegar skór móður hans voru orðnir lúnir og þá tók hann sig til og stífburstaði þá. Manstu eftir hvað hann tók vel eftir líðan fólks, var umhugað um velferð og var tillitssamur? Jafnvel í dauðanum var hann með huga við að liðsinna fólki og efla velferð annarra. Hann átti því trausta vini.

Mannstu gæði Péturs, áhugamál hans og gáfur? Manstu hve hann var sjálfum sér nógur? Hann gat vel verið einn og kunni því raunar vel því hann þurfti tíma til að sinna lestri, íhugun og innri vinnu – eða einfaldlega að hlusta á útvarpið í ró og friði. Góður maður með sterka sýn, átti góða vini.

Manstu æðruleysi, dugnað og stillingu Péturs sem einkenndu hann alla tíð. Í mestu átökum kemur í ljós hvaða mann menn hafa að geyma. Hjúkrunarfólkið á sænskum spítala undraðist þann ofurstyrk sem bjó í Pétri og blasti við öllum þegar hann glímdi við veikindin og lífslok. Þau dáðust að honum og afstaðan til lífsins og ástin til lífsins má verða okkur til blessunar og hvatningar.

Vonarskarð eilífðar

Og nú eru skil. Hvaða minningar ætlar þú að varðveita um Pétur? Veldu vel og farðu vel með minningarnar. Nú ræðir hann ekki lengur um bók sem hann var að lesa. Þú getur ekki treyst því að upp úr bakpokanum hans komi aukareim ef þín slitnar á fjöllum. Hann hoppar ekki kátur af stað upp á næsta fjall eða fleytir kajak á Langasjó. Hann borðar engar góðar ólífur lengur og hann mun ekki framar liggja á bakinu og brosa alsæll í laug í Vonarskarði.

Pétur var skipulagður og marksækinn. Og þannig er Guð líka. Veröldin er ekki jökulsprunga sem við dettum í heldur lifandi ævintýri – veröld ástar og umhyggju. Þegar við deyjum megum við falla inn í veröld og fang Guðs. Það er skipulag í ferðalagi veraldarinnar, ferðum mannanna. Þar eru engar ógöngur!

Nú eru vatnaskil. Pétur er komin í Vonarskarð himinsins. Þar ber jökul við loft og jörðin, lífið og mennirnir fá hlutdeild í himninum. Þar ríkir fegurðin ein.

Guð geymi minningu Péturs Péturssonar og Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í útför Péturs sem fór fram í Fossvogskirkju, 17. febrúar, 2014.