Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Inga í Brekku – minningarorð

IngaIngigerður Ingvarsdóttir vildi jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og sagði gjarnan sögu um sjálfa sig unga sem er einnig lykilsaga og skýrir afstöðu og líf hennar. Ingu hafði verið bannað að fara á dansleik á Vatnsleysu í Biskupstungum. En bræður hennar, bæði eldri og yngri fengu hins vegar að fara. Ingu sárnaði þessi mismunun kynjanna. Þegar allir voru farnir í háttinn heima brá hún á það ráð að taka hrossaleggina sína sem hún notaði sem skauta og batt þá á sig. Síðan skautaði hún upp Tungufljótið og fór þangað sem dansleikurinn var haldinn. Og þar sem Inga var ekki með peninga með sér í þessari hljóðlátu mótmælaskautferð fékk hún lánaðar krónurnar sem þurfti til að komast inn. Inga fór það sem hún ætlaði – hún hafði sér einbeittnina og nægilega þrjósku!

Ætt og uppruni

Ingigerður Ingvarsdóttir var fædd á Litla-Fljóti í Biskupstungum 23. ágúst árið 1920. Hún var dóttir hjónanna Jónínu Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Ingvars Jóhannssonar. Hún var næstelst fjórtán systkina. Það var mikið barnalán á þeim bæ. Elstur var Ingvar. Á eftir Ingu kom Einar, þá Kristinn, Jóhanna Vilborg, Kormákur, Hörður, Hárlaugur og tvíburabróðir hans andvana fæddur, Ragnhildur, Guðrún, Elín, Sumarliði og Haukur. Tvö þeirra systkina eru á lífi, Sumarliði og Guðrún en hin eru farin af þessum heimi.

Inga flutti ung með foreldrum sínum og bræðrum að Halakoti, sem nú heitir Hvítárbakki, í Biskupstungum. Inga hafði bæði getu og gaman af vinnu og sótti í puðstörfin og kallaði sjálfa sig síðar “útikonu” vegna áhugans á útiverkunum. Einhverju sinni hafði sveitungi Hvítárbakkafólksins orð á dugnaði Ingu og þá varð föður hennar að orði: „Já hún Inga hefði átt að vera strákur.“ Inga heyrði umsögnina, var hnittin og orðheppin og svaraði ákveðið: „Það er þér að kenna en ekki mér pabbi.“ Þeir hafa væntanlega ekki mótmælt, karlarnir.

Inga sótti skóla í Reykholt í Biskupstungum og var í heimavist. Henni gekk vel í skóla, var námfús og fljót að læra. Alla tíð bjó þekkingin í henni og hún mundi það sem hún hafði læri – líka ljóð og sálma. Reykholt var ekki aðeins staður vísulærdóms, lesturs og stærðfræði. Þar var líka hægt að synda. Vegna jarðhitans var sundaðstöðu komi fyrir og sund kennt. Inga lærði að synda og njóta sunds og það gerði hún alla tíð meðan hún hafði heilsu til.

Gunnar og börnin 

Svo fór Inga suður til að afla sér tekna. Hún starfaði sem vinnukona – fór í vist hjá þýskri konu og íslenskum bónda hennar. Lífið í höfuðstaðnum heillaði og í Reykjavík kynntist Inga Gunnari Sveinbjörnssyni, leigubístjóra. Hann var að norðan og hún að sunnan og þau féllust í faðma og hófu búskap. Og þau voru í “görðunum” þessi árin. Þau bjuggu fyrst í Garðastræti í Reykjavík en fluttu svo 1943 í Garðahrepp, kenndan við Garða á Álftanesi. Í þeim hreppi voru þau næstu áratugina – fyrst í Litlu Brekku en byggðu síðan stórt hús upp úr 1950 og nefndu það Brekku. Mannlífið var fjölbreytilegt í umhverfinu og fjölskyldan mátt jafnvel eiga von á að skrúfað yrði fyrir vatnið vegna duttlunga nágranna. Gunnar aflaði tekna fyrir sístækkandi fjölskyldu. Hann rak verkstæði um tíma í stórri skemmu frá Bretunum. Hann vann í Fjöðrinni um tíma og gerði einnig út trillu. Og svo var Gunnar vaktmaður í síldarvinnslu í Njarðvík.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim Ingu og Gunnari, fjölskyldan stór og þó Bakkus kæmi oft við í Brekku bauð Inga hann ekki velkominn. Að því kom að þau Inga og Gunnar skildu og Inga flutti á Álfaskeið 100 í Hafnarfirði. Það var um 1970. Síðar fór Inga svo á Unnarstíg, þá á Miðvang og síðan á Ölduslóð. En þó þau Inga skildu slitnaði aldrei vináttustrengurinn milli þeirra. Þau áttu börnin, góðar stundir og fortíðina saman og virðinguna líka.

Gunnar lést í mars 1992 en Inga lifði 22 árum lengur. Árið 2011 fór Inga inn á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar naut hún góðrar aðhlynningar síðustu árin og allt til enda.

Inga og Gunnar eignuðust 9 börn á 18 árum. Það er mikið afrek og aðallega Ingu. Sveinn fæddist árið 1940. Sveinbjörn Pálmi fæddist árið 1942. Vegna þroskahömlunar héldu þau Inga heimili saman þar til hann lést árið 2002. Það veitti henni mikilvægt hlutverk fram á gamals aldur. Ingvar fæddist árið 1943 en drukknaði aðeins tvítugur árið 1963. Ragnar fæddist árið 1944 og Kolbrún Kristín árið 1947 og Hjörtur Laxdal 1948. Hrafnkell kom í heiminn árið 1950, Torfhildur Rúna árið 1951 og Gunnþórunn Inga var síðust í röðinni. Hún fæddist 1958.

Hópurinn er stór og afkomendur Ingu orðnir margir – um níu tugir börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Mesta auðlegð fólks er í ástvinum og fjölskyldu – svo Inga var forrík. Og Inga hafði gaman af fólkinu sínu, eldra og yngra og vildi gjarnan þjóna því. Og það eru ilmandi og elskulegar sögur sem ég hef heyrt að hve umhyggjusöm hún var í þeirra garð. Ástvinir Ingu og afkomendur hugsa gjarnan um hana þegar minnst er á pönnukökur. Ingu þótti gaman að standa í kokkhúsinu og baka fallegar pönsur í svanga munna. Og þeim þótti gaman að taka við og njóta hjá henni.

Störfin og minningar

Inga var dugmikil. Hún lærði snemma að vinna og kom stóra hópnum sínum til manns. Þegar næði gafst til frá heimilisstöfum fór hún að vinna sem verkakona. Hún réði sig til fiskvinnslu hjá Frosti í Hafnarfirði og síðar hjá Hval h.f. – sem yfirtók Frostið. Og þar vann hún – framyfir venjulegan lokaaldur – allt þar til hún lét af störfum hálfáttræð. Og hún hefði mátt vera lengur hefði hún viljað – eftir því sem forstjórinn sagði.

Hvernig var svo Inga? Hvernig manstu hana?

Leyfðu myndunum að koma upp í hugann.

Manstu útlit hennar? Horfðu á myndirnar á sálmaskránni og sjáðu hve glæsileg hún var.

Manstu persónustyrk hennar, glaðlyndi og traust?

Manstu styrk hennar? Hún átti ekki alltaf auðvelda daga en gafst aldrei upp og bar í sér Hvítárbakkastyrkinn. Svo var hún traustur vinur og félagi.

Manstu hve góð mamma hún var ósérhlífin og sívinnandi? Hún sat aldrei aðgerðarlaus. Margar fallegar flíkurnar komu úr höndum hennar og klæddu kroppa barna hennar. Hún vildi skýla sínu fólki og tryggja velferð þeirra.

Hún var sterk og kjarkmikil og vílaði ekki fyrir sér að fara í langar og flóknar utanlandsferðir – og alltaf bjargaði hún sér.

Svo gladdist hún með glöðum. Inga naut þess að fara í sveitina og hitta fólkið sitt. Hún hafði gaman að fara í Hvítárbakka hvort sem var til að baka flatkökur eða undirbúa Þorrablótið í Tungunum.

Svo naut hún fjallaferðanna og sóttist eftir að fara með Ídu til að elda ofan leitarmenn. Það þótti henni gaman og svo var maturinn kryddaður með söng og hlátrum. Lífið á fjöllum heillaði Ingu.

Inga hafði fágaðan smekk og var alltaf svo snyrtileg og falleg. Og þótti mikilvægt að hárið færi vel. Inga hafði næman smekk og gekk vel um allt, braut fallega saman og fágun hennar hélst allt til enda. Inga hafði gaman af fallegu handverki og meira að segja fallegum hleðslugörðum.

Svo hafði unun af söng og tónlist og þótti gaman að sækja tónleika. Hún þekkti ekki aðeins ókjör af ljóðum og sálmum heldur söng með tærri og fagurri rödd. Söngáhugi Ingu fær sína útgáfu í sálmum og ljóðum þessarar útfararathafnar.

Himininn

Hvernig er með himnaríkið? Þegar Bjössi dó ræddi Inga stundum um framhald lífsins hinum megin grafar. Inga vildi ekki láta brenna sig. Hún hafði aldrei mörg orð um sín innri mál og ekki heldur um trúmálin. En hún átti í sér von og trú um að mega hitta fyrir fólkið sitt sem hún hafði séð fara yfir móðuna miklu. Foreldra hennar, systkini, synina hennar og Gunnar. Og allir vinirnir hennar voru farnir á undan. Og þá er gott að tala um himininn.

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið?

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Biskupstungur eða Garðabæ, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Ingu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Inga tók á móti deginum fyrir austan – átti leið í bæinn og var svo rík að eignast öll þessi börn, afkomendur og ástvini. Hún fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Inga hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, leika sér á hvers konar skautum sem henni þykja bestir og hlægja og syngja.

Nú er Inga farin. Hún bakar ekki lengur pönsur handa þér, syngur ekki fyrir þig, fer ekki á tónleika, hlær ekki við góðri sögu eða segir eitthvað hnyttið og kúnstugt. Hún er farin inn í himin Guðs.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.

Amen.

Þau er biðja fyrir kveðjur eru:

Kristín Ellen Hauksdóttir,

Ingigerður og fjölskylda og Katrín í Ástralíu.

Bergþóra og Alex í Ameríku

Steinþóra á Spáni,

Ragnheiður Diljá og fjölskylda í Noregi

og Daði Hrafnkelsson.

Erfidrykkja í safnaðarheimili kirkjunnar og jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Minningarorð í Hafnarfjarðarkirkju 24. september, 2014

 

Meistarinn Gunnar

GunnarGunnar Bjarnason byggði gjarnan fyrir vini sína og lagði alúð í verk og kærleika í samskeyti. Stór hluti hússins sem ég bý í er handaverk hans. Mér þykir ekki aðeins vænt um húsið heldur met það sem verk vinar og dáist að smíðagæðum.

Fyrir tólf árum bætti Gunnar við húsið okkar og ég var liðléttingur. Ég hef hvorki fyrr eða síðar fylgst með nokkrum manni vinna eins hratt og Gunnar. Hann var á sprettinum. Ef hann vantaði fjöl eða verkfæri rölti hann ekki eða gekk – heldur spretti úr spori. Það gekk því mjög undan honum og þeim sem voru í vinnu hjá honum. En hann vandaði sig alltaf, flýtti sér aldrei þegar kom að fínu vinnunni.

Þjóðardýrmæti

Mörg ykkar sem kveðjið Gunnar í dag nutuð verka hans. Þau eru okkur mikilvæg og við megum gjarnan þakka fyrir Gunnar og vitja minninga um hann þegar við njótum húsaskjóls á köldum vetrardegi eða förum í einhvert dásemdarhúsið sem Gunnar smíðaði, hvort sem það er í Austurstræti, í Þjórsárdal, í Landsveit, í Brattahlíð á Grænlandi eða á Hólum. Handaverk hans eru ekki aðeins mikilvæg einstaklingum heldur líka menningarverðmæti og þjóðardýrmæti.

Ég er sáttur við líf mitt

Við Gunnar hittumst nokkrum sinnum síðastliðið haust til að fara yfir lífið og undirbúa næsta líf. Gunnar talaði um æfi sína, fór yfir eigin afstöðu, talaði fallega um konu sína, son, tengdadóttur, afadreng, systkini og ættboga. Hann talaði um hugðarefni, skýrði verkefni sín og ástríðuna að baki. Svo horfði hann á mig íhugulum augum og sagði: „Ég er sáttur við líf mitt.“ Og hann bætti við: „Ég er sáttur við handaverk mín. Ég er sáttur við að nú lýkur mínu lífi.“

Að vera sáttur við líf sitt er mikil blessun. Í Gunnari bjó eldur og lífsþorsti en líka ræktuð Guðstrú. Hann virti teikningu meistarans mikla sem hefur hannað heiminn og ákvarðaði honum verkefni, stefnu og áferð. Svo þegar Gunnar gerði sér grein fyrir að hamarinn var fallinn, sögin líka og dagsverki var lokið gerði hann upp og kvaddi hann ástvini og samferðamenn. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og starfa sinna. En hann sagði: „Ég er sáttur“ – í þeirri sátt var fólgin vissa þess að hafa unnið vel, gegnt kalli og hlutverki. Öllu var vel fyrir komið og hann gætti horft til baka og verið þess viss að vel hefði verið lifað og hann ætti góða heimvon – því þannig er tilveran gerð.

Í húsi föðurins eru margar vistarverur, allar flottar, vel strikaðar, hús fyrir líf. Þar hrynur ekkert, engin fúi eða álag tímans skemmir. Lífið er uppbygingartími en eilífa lífið er til fullkomnumar. Það kunni Gunnar að meta.

Lofsöngurinn

„Og gerðu svo vel að lesa úr 103. Davíðssálmi við útförina mína“ sagði Gunnar og bætti svo við „skrítið að skipuleggja eigin útför.“ Við ræddum um líf og dauða og svo las ég fyrir hann upphátt þennan sálm. Hann gerþekkti merkingu textans, um lífsafstöðuna – um Guð og menn, líf og verk og samhengi mannlífsins. „Lofa Drottinn … allt sem í mér er.“ Guð er upphaf, máttur heims, bindingsverk alls.

Allt sem í mér er. Í Gunnari bjó afar margt – en allt vildi hann setja í þjónustu meistarans mikla og leyfa verkum, orðum, hlutum að syngja lofsöng. Hann hafði notað vel lífstímann til að marka sér stefnu og vinna í sjálfum sér og fyrir aðra.

Fyrir hvað lifum við? Fyrir hvað lifir þú?

Fólk og upphaf

Foreldrar Gunnars voru Hanna Arnlaugsdóttir, röntentæknir (f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984) og Bjarni Ólafsson (3. ágúst 1923. – 10. maí 2011) húsasmíðameistari og lektor. Gunnar fæddist 15. ágúst árið 1949 og var elstur þriggja systkina. Hann hafði í sér getu og mótun elsta barnsins og axlaði vel ábyrgð og skildi mikilvægi hennar. Ólafur var næstur, fæddist 1953 og Hallfríður er yngst, en hún kom í heiminn árið 1957.

Þau eru öll uppbyggileg. Það er ættarfylgja þeirra að bæta – byggja upp – og gildir einu hvort rætt er um hluti, hús eða fólk. Ólafur er bifreiðasmiður að mennt og býr í Svíþjóð ásamt sínu fólki en Halla er iðjuþjálfi og kennari og byggir upp fólk. Hún býr í Noregi sem og hennar fjölskylda.

Bjarni, Hanna og börnin áttu heima á Gullteig og í Sigtúni í bernsku Gunnars. Hann hóf því skólagönguna í Laugarnesskóla. Gunnar var kominn af smiðum. Ólafur, afi hans, var kunnur smiður og Bjarni, faðir hans, sömuleiðis. Gunnar fékk því smíðar í arf og meistaravíddina einnig. Gunnar fór í Gagnfræðaskóla verknáms og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1970.

Handverk og fræði

Gunnar starfaði síðan við smíðar og fyrst með föður sínum í nokkur ár eftir að námi lauk. Hann lærði byggingu stokkahúsa í Ål í Hallingdal í Noregi veturinn 1976 og í framhaldinu fékk hann vinnu á byggðasafninu á Bygdöy í Osló. Á þessum árum var Gunnar líka yfirsmiður þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Með smíðinni kynntist hann húsagerðarsögu, handverki, miðaldafræðum og fólkinu í þessum greinum. Arkitektar, safnamenn og handverksmenn urðu síðan vinir hans og félagar og Gunnar lagði til þessa samfélags bæði tæki, hugmyndir og verk.

Gunnar fékk meistararétindi í grein sinni árið 1987. Sem húsasmíðameistari kom Gunnar og menn hans að smíði margra húsa. Hann stýrði ekki aðeins verkum eða negldi, heldur blés mörgum í brjóst áhuga á handverki fyrri kynslóða. Gunnar sérhæfði sig í viðgerð gamalla húsa og vann við mörg hús í umsjá Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar. Svo tók hann þátt í byggingu margra tilgátuhúsa. Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er þegar nefndur. Við hlið hans er helgidómur sem Gunnar smíðaði. Þá vann hann við smíði bæjarins á Eiríksstöðum í Haukadal og í Brattahlíð þegar Þjóðhildarkirkja var reist. Og vert er að minna á Austurstræti 22 í Reykjavík. Og dýrmæti önnur mætti nefna og nokkur þeirra í einkaeign. Gunnar smíðaði hér í Neskirkju og lagði á ráðin um margt varðandi viðgerðir. Hann smíðaði í tugum kirkna á Íslandi, lagfærði og bætti. Ég vil fyrir okkar hönd, Neskirkjufólks, og fyrir hönd þjóðkirkju Íslands færa þakkir fyrir verk völdundarins í þágu kirkjunnar.

Svo háttaði til að við Gunnar hittumst reglulega þegar unnið var að undirbúningi byggingar Auðunnarstofu á Hólum. Það var hrífandi að hlusta á Gunnar þegar hann lýsti verkefninu, gerð hússins, að hverju þyrfti að hyggja og hvernig yrði að vinna verkið svo það yrði eins og að væri stefnt.

Sami hugurinn brann í Gunnari þegar komið var að búðinni í Skálholti, sem nú er risin við hlið dómkirkjunnar. Sum áhöldin sem hann notaði við smíði þess húss og annarra tilgátubygginga smíðaði hann sjálfur. Gunnar hafði verið í sveit í Heysholti í Landsveit. Þar var smiðja og smíðað úr járni. Síðar fékk Gunnar tækifæri til að læra eldsmíði og lagði sig eftir tengslum við erlenda smiði.

Gunnar leitaði út fyrir mörk í smíðavinnu og gerði tilraunir með alls konar smíðar og eldsmíðin var ein handverksvíddin sem hann kom að. Raunar hafði hann áhuga á að prufa fornar iðnir. Sverðið sem hann smíðaði ungur kallaði á fjölbreytilega vinnu. Gunnar steypti t.d. döggskó sverðslíðursins og svo lærði hann spjaldvefnað til að geta gert upphengiól slíðursins.

Fyrir hönd handverksmanna í Noregi biður Atle Ove Martinussen, menningarsafnastjóri á Hörðalandi, fyrir kveðjur og þakkir fyrir góðan félaga, afburða smíðar og segir að skerpa og gæði verkfæranna sem Gunnar skildi eftir sig í Noregi muni gleðja marga og mörg ár.

Norskur fræðimaður sagði einu sinni að manneskjan bæri í sér „grænseoverskridende tendens.“ Gunnar hafði alltaf áhuga á að gera sem best og skila sem fegurstu verki og grúskaði því mikið. Hann vildi skoða gerð hluta, fræða, hefða og skilja og skila síðan til nýrrar kynslóðar.

Það var vandalaust að koma Gunnari inn á menningarsöfn, en það gat verið þrautin þyngri að ná honum þaðan út – svo heilaður var hann af lömum og lásum aldanna, snilldarhandbragði og verkfærum. Gunnari var gefið að draga heim lærdóm fortíðar til nota fyrir framtíð. Því var Gunnar ekki aðeins mikilvægur smiður heldur ráðhollur við hönnum og frágang.

Jesús Kristur og trúin

Þið sem hér eruð í dag nutuð ekki aðeins verka hans heldur einnig fyrirbænar. Gunnar var maður andans einnig. Í Jesúskólanum var hann jafnlengi og lífið lifði. Hann þáði trú og menningu kristni í arf frá foreldrum sínum. Frá barnsaldri tók Gunnar tók þátt í starfi KFUM og -K. Á fullorðins árum vann hann mikið fyrir sumarbúðir í Vatnaskógi og Vindáshlíð. Hann sat í stjórn KFUM í Reykjavík um tíma. Svo gekk hann í Karlakór KFUM á síðari árum og söng annan tenór og hafði mikla gleði af. Hann studdi kristniboð og var í stjórn kristniboðssambandsins um tíma.

Hann var félagi í Gideonfélaginu og kapellán sambandsins 1996-99 og gaf æsku þessa lands Nýja testamenti. Gídeonfélagar á Íslandi biðja fyrir kveðju til þessa safnaðar með þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í hinum ýmsu embættum og verkefnum sem Gunnari voru falin.

Gunnar var bænamaður. Hann var sem sveinn í samskiptum við meistarann mesta, lagði lærdómsefni lífsins fyrir hann, gleðiefni sín og vandkvæði. Hann var algerlega opin fyrir bænheyrslu og þakkaði heilshugar þegar kraftaverkin urðu. En svo var hann líka auðmjúkur þegar beiðnum hans var ekki svarað með þeim hætti sem hann vonaðist eftir. Í dauðastríði sáum við vinir Gunnars æðrulausa trú hans og traust sem ekki brast. Jesúskólinn hafði skilað honum miklu.

Kristín og fjölskylda

Í hjúskap var Gunnar hamingjumaður. Þau Gunnar og Kristín Sverrisdóttir (f. 31.3.1952, náms- og starfsráðgjafi) voru engir unglingar þegar þau fóru að leiðast. Mæður þeirra þekktust og þegar Gunnar var sjö eða átta ára talaði hann um óþekku stelpurnar og átti við þær Sverrisdætur!

En svo tók Gunnar síðsumars árið 1978 við pakka úr hendi Kristínar til að fara með til Danmerkur. Eitthvað í þeim gjörningi snart Gunnar því skömmu síðar fór að styttast á milli þeirra. Þegar andinn var kominn var Gunnar stefnufastur um framhaldið. Þau Kristín gengu í hjónaband 7. júlí árið 1979, voru samhent og leiddust síðan í gegnum lífið. Þau nærðu samband sitt, höfðu að fjölskyldustefnu að eiga sunnudaginn saman – til kirkjuferða, gönguferða og fjölskylduræktar. Þau lögðu upp úr að vera saman, líka þegar Gunnar var að verki utan höfuborgarsvæðisins. Og vinnutími og fjölskyldutími þeirra samfléttaðist vel. Og Gunnnar kunni að meta konu sína og henni var lagið að efla hann og styrkja.

Kristín og Gunnar eignuðust einn son, Sverri, sem fæddist þeim í febrúar árið 1982. Þau lögðu til hans umhyggju, kærleika og fyrirbænir. Þau voru lengur með hann heima í bernsku en flestir aðrir foreldrar gerðu á þessum tíma og hafa enda uppskorið nánd og ræktuð tengsl. Sverrir smíðaði um tíma með föður sínum og það var heillandi að verða vitni að samvinnu þeirra og gagnkvæmri virðingu. Svo flaug Sverrir að heiman og upp í skýin, varð flugmaður og hefur atvinnu af flugi. Og Gunnar hafði líka áhuga á flugi! Kona Sverris er Guðrún Birna Brynjarsdóttir, ferðamálafræðingur (f. 12.5. 1984). Sonur þeirra er Jakob Bjarni f. 6.1.2014 og annars barns er að vænta. Það er harmsefni að þau njóta ekki barngæsku Gunnars í framtíð.

Gunnarsminningar

Hvernig manstu Gunnar? Kannski sástu hann þeytast um mótorhjóli! Montesa-hjólið hans dansaði jafnvel með hann. Manstu eftir honum út í sveit vera svipast um eftir Willysjeppa – eða einhverju Willysbraki? Hann sagði stundum við Kristínu konu sína að hún mætti ekki láta sér bregða – hann ætti von á sendingu – og stundum voru Willysræflar sendir til hans og hann gerði þeim gott til á næstu árum. Og svo stendur Willys 44 hér utan kirkjunnar og fylgir meistara sínum hinstu ferðina.

Manstu eftir myndum Gunnars? Sástu einhvern tíma til hans bograndi yfir gömlum lás, rannsaka og ljósmynda til að greina sem best gerðina. Hlustaðir þú á Gunnar segja frá því sem hreif hann? Manstu hve vel hann sagði frá þegar hann talaði um hjartansmál?

Stríddi hann þér einhvern tíma – og gerðir þú þér grein fyrir hvað hann yddaði vel og húmor hans gat verið beittur? Manstu eftir honum á fjöllum og í víðerni Íslands, með dýrð himins og jarðar í blikandi augum?

Manstu eftir honum með spenntar greipar í djúpu samtali við yfirhönnuð alheimsins? Sástu hann einhvern tíma lesa hina helgu bók með íhugulli vitund? Sástu hann móta listaverk í eldsmiðjunni? Manstu þegar hann rak fram hökuna þegar eitthvað kúnstugt kom fram á varirnar? Manstu hve vel hann hlustaði á fólk, hve hann lagði sig fram um að nema og skilja – og hve mannvirðing hans var djúp? Manstu hve lausnamiðaður hann var?

Í húsi föður míns

Og nú er hann horfinn. Hann mun ekki fella saman fleiri stokka nema ef vera skyldi í himneskum föðurhúsum. Hann mun ekki hlaupa á safni til að skoða flugvél eða lás. Tenórrödd Gunnars er þögnuð en lofsöngurinn er ekki þagnaðar.

Handaverkin hans lifa, bænir hans hafa verið heyrðar.

Í sumar skoðaði ég Auðunnarstofu og dáðist að handarverkunum. Fyrir einni og hálfri viku gekk ég að búðinni í Skálholti sem Gunnar smíðaði, heillaðist ekki aðeins að trésmíðinni heldur hreifst líka af lásnum – og hugsaði til Gunnars sem lifði óhræddur sína hinstu daga í þessum heimi. Lásinn er fagur. Gunnar trúði því dauðinn læsti ekki líf hans í gleymsu eilífðar, heldur hefði Guð opnað lás heimsbrenglunarinnar og dauðans algerlega. Í dauða Gunnars er byrjað nýtt líf í búð eða stofu eilífðar. Og því megum við syngja Guði lof sem teiknar, gerir, leysir og blessar heiminn.

Guð geymi Gunnar Bjarnason – Guð geymi þig.

Amen – Í Jesú nafni Amen.

Minningarorð við útför Gunnars í Neskirkju 23. september, 2014.

 

Sálmur 103, 1-22

2 Lofa þú Drottin, sála mín,

og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;

lofa þú Drottin, sála mín,

og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

3Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,

læknar öll þín mein,

4leysir líf þitt frá gröfinni,

krýnir þig náð og miskunn.

5Hann mettar þig gæðum,

þú yngist upp sem örninn.

6Drottinn fremur réttlæti

og veitir rétt öllum kúguðum.

7Hann gerði Móse vegu sína kunna

og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

8Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

9Hann þreytir eigi deilur um aldur

og er eigi eilíflega reiður.

10Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum

og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum

11heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðinni,

svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12Svo langt sem austrið er frá vestrinu,

svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,

eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14Því að hann þekkir eðli vort,

minnist þess að vér erum mold.

15Dagar mannsins eru sem grasið,

hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16þegar vindur blæs á hann er hann horfinn

og staður hans þekkir hann ekki framar.

17En miskunn Drottins við þá er óttast hann

varir frá eilífð til eilífðar

og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18þeirra er varðveita sáttmála hans

og muna að breyta eftir boðum hans.

19Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum

og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20Lofið Drottin, þér englar hans,

þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,

er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21Lofið Drottin, allar hersveitir hans,

þjónar hans er framkvæmið vilja hans.

22Lofið Drottin, öll verk hans,

á hverjum stað í ríki hans.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir – minningarorð

DillaÚtfarardagur Huldu Heiðrúnar var bjartur og fagur. Litadýrð á altarisvegg Neskirkju og sólargeisli fann leið að kistunni hennar og lýsti hana upp og blómin brostu. Minningarorðin fara hér á eftir.

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir ólst upp í húsi sem bar sólarnafn og við útför hennar nú skín sólin á kistuna hennar. Ég hlustaði á allar sögurnar um Dillu, um eiginkonuna, mömmuna, ömmuna, tengdamóðurina – sögur um ósérhlífna og elskuríka konu sem var málsvari birtu og elskusemi. Hún var ljósberi í lífinu, öllum mönnum og öllu lífi. Sólvangur – það er gott heiti á seyðfirska húsinu hennar Dillu, húsi birtu sem var sólarblettur í tilverunni. Og Seyðisfjörður var og er stórt sólfang og þar var Sólvangur. Þar naut Hulda Heiðrún góðs uppvaxtar, þaðan fór hún með birtu í sinni, þangað leitaði hún í huga þegar hún þarfnaðist leiðarljóss og þangað hvarflaði hugur hennar æ oftar þegar dró að lokum.

Þegar á fyrstu blaðsíðu Biblíunnar er fjallað um ljósið og lífið. Verði ljós var máttarorð Guðs gegn myrkri þá og svo öllu myrkri síðar. Og heimsljósið kviknaði og hefur ekki slokknað síðan. Ljósminnið birtist oft í hinni heilögu bók. Og Jóhannesarguðspjall er guðspjall ljóssins. Þar er sagt frá að ljósið kom í myrkur heimsins. Og Jesús tók af öll tvímæli um hvers eðlis ljósið væri og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Og svo eru kristnir menn börn ljóssins og er ætlað að halda sér við ljósið, vera farvegir birtunnar öðrum mönnum, speglar Guðs í veröldinni. Sólvangur var hluti þess ríkis birtunnar og Dilla ljósberi.

Æviágrip

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir fæddist inn í vorbirtuna þann 30. maí 1919. Foreldrar hennar voru bæði menntuð sem ljósmyndarar. Faðirinn var Eyjólfur Jónsson og starfaði auk myndatöku einnig sem klæðskeri, verslunarmaður og bankastjóri Íslandsbanka á Seyðisfirði (f.31.10.1869, d. 29.6. 1944). Hann var tvíkvæntur. Sigríður Jensdóttir, móðir Dillu, var seinni kona hans. Hún kom til Eyjólfs fyrst sem vinnukona og Eyjólfur sá í henni hæfileikana og hvatti hana og studdi til náms. Sigríður fór til Danmerkur og lærði ljósmyndun og hafði atvinnu af iðn sinni. Á Sólvangsreitnum ráku þau hjón ljósmyndastofu og tóku myndir af Austfirðingum og öllum þeim sem vildu góðar myndir. Og það er gaman að sjá gæðin í myndum fjölskyldunnar og þær bera fagmennsku þeirra hjóna gott vitni. Þær eru mikilvægt framlag þeirra til sögu, ekki aðeins seyðfirskrar heldur einnig austfirskrar. Sigríður (f. 9. 6. 1881, d. 4.5. 1956) sá um heimilið og bar eflaust aðallega ábyrgð á ljósmyndavinnunni og redúseríngunni – sem var photsjoppvinna þess tíma. Svo rak Eyjólfur líka verslun eins og bróðir hans og var sænskur konsúll. Heimilislífið var fjölskrúðugt og litríkt.

Hulda Heiðrún átti fimm systkini og eru þau öll látin. Þau voru Svava, dóttir Eyjólfs af fyrra hjónabandi, Haukur, Axel, Ólöf Hrefna og Garðar. Og Dilla var þriðja í röðinni.

Seyðisfjörður var á uppvaxtartíma Huldu Heiðrúnar – eins og löngum síðar – kraftmikið samfélag. Erlend útgerð hafði tengt mannlífið við hinn stóra heim, ekki aðeins við Noreg heldur líka við Ameríku. Svo kom síminn áður en Dilla fæddist og orðin til og frá Íslandi fóru um Seyðisfjörð. Áin var stífluð, fyrsta orkubú Íslands var gert og ljós nútímans kviknuðu eitt af öðru. Heimilið á Sólvangi iðaði af lífi, mikið var umleikis en það var alltaf tími til að gleðjast. Myndirnar af garðveislum stórfjölskyldunnar sýna okkur glaðværan og framsækinn heim, geislandi af lífsþrótti. Karlarnir voru með flotta, ljósa sumarhatta, konurnar prúðbúnar og börnin frjálsleg og smekkleg. Og þessar gömlu myndir sýna velsæld og glæsileika og gætu allt eins verið af betri borgurum í Reykjavík, Oslo, London eða Vín nema vegna austfirskra fjalla og húsa.

Baksíða1Hulda Heiðrún gekk í góðan skóla á Seyðisfirði. Hún var bóksækin og hafði á heimilinu möguleika til að sökkva sér í bækur. Alla tíð síðan sótti hún í að lesa og þótti miður undir lokin þegar hún gat ekki lengur leitað í heim hins ritaða máls. Hún sá um garðinn á Sólvangi og svo var hún snör í snúningum og stóð sig vel í íþróttum, m.a. hlaupum. Og þið – afkomendur hennar – megið alveg reyna að sjá hana fyrir ykkur á spretti í hlaupakeppni á Seyðisfirði. Og hún vann – og var stolt af en hún gortaði ekki af afrekum sínum. Eftir nám fékk Hulda Heiðrún vinnu í lyfjabúð hjá Ellerup á Seyðisfirði. Svo togaði Reykjavík í. Um tvítugt fór Hulda Heiðrún til höfuðborgarinnar og starfaði hjá Friðrik Bertelsen og Kristjáni G. Gíslasyni.

Unga fólkið fór á Borgina. Og Hulda Heiðrún heyrði um unga glæsimennið Halldór B. Ólason frá Ísafirði. Samstarfskonur hennar voru systur hans og Dilla hafði alla tíð góðan smekk og kunni að meta glæsileikann, gáskann og snerpuna. Hún kom að austan og hann að vestan og svo mættust þau syðra – ástin kviknaði og þau gengu í hjónaband 12. september árið 1942. Síðan héldust þau í hendur, lifðu í ástríku hjónabandi og þó skuggar féllu á götu þeirra var Hulda Heiðrún alltaf skotin í karlinum sínum. Og hann hafði gjarnan á orði að þau væru glæsileg, sem þau voru. Halldór var sjálfstætt starfandi rafverktaki og rak eigið fyrirtæki, Rafvélaverkstæði Halldórs B. Ólasonar, nær allan sinn starfsferil. Hann var snillingur í sinni grein og flutti m.a. inn lyftur af gerðinni Hiro og þau Hulda Heiðrún göntuðust með að hinar lyftarnar væru nú ekki neinar Híró! Þau stóðu alltaf saman.

Lengstum bjuggu þau Hulda Heiðrún á Framnesvegi og voru gjarnan á síðari árum kölluð afi og amma á Frammó. Raunar bjuggu þau á tveimur stöðum við Framnesveg, fyrst á nr. 55 og fluttu svo yfir í rauðu blokkina nr. 62. Þar bjuggu þau frá miðjum níunda áratugnum. Þar var Halldór til enda og Hulda Heiðrún þar til hún fór á Grund fyrir um fjórum árum. Á Grund var hún síðan og naut góðrar aðhlynningar allt til enda þar til hún hvarf inn í bjart sumarið 6. ágúst. Og það er við hæfi að útfarardagur hennar skuli vera dagur birtu og fegurðar.

Eftir að þau Halldór hófu búskap og börnin fæddust var Hulda Heiðrún heimavinnandi húsmóðir en stundaði saumaskap meðfram húshaldinu. Eftir að börnin voru uppkominn starfaði hún m.a. hjá Efnalauginni Hraða í um 20 ár og stóð sig frábærlega var mér sagt í forkirkjunni áðan.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju Hauks Hallsonar og fjölskyldu hans. Sömuleiðis frá Daða Frey Ólasyni og Lillían Rakel Óladóttur en öll eru þau erlendis.

Börnin og afkomendur

Þau Hulda Heiðrún og Halldór bjuggu við barnalán og eignuðust fjögur börn. Elstur var Eyjólfur Rafn, en hann er nú látinn. Hin börnin eru Valgerður, Sigríður og Óli Friðgeir.

Kona Eyjólfs Rafns hét Bjarnveig Borg Pétursdóttir en hún er einnig látin. Þá áttu synina Pétur Bergmann, sem er látinn, Garðar Rafn og Þorra Frey.

Valgerður er næstelsta barn Huldu Heiðrúnar. Hennar maður er Helgi H. Steingrímsson. Þau eiga fimm börn, Halldór, Margréti Gróu, Heiðrúnu, Steingrím og Friðrik.

Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Gylfi Þorkelsson og þau eiga dótturina Ástu Heiðrúnu.

Fjórði og yngstur barna Huldu Heiðrúnar og Halldórs er Óli Friðgeir. Kona hans er María Björk Daðadóttir. Þau eiga þrjú börn og þau eru: Daði Freyr, Halldór Skjöldur og Bára Björk. Og fyrir átti Óli dæturnar Lilían Rakel og Huldu Heiðrúnu.

Langömmubörn Huldu Heiðrúnar eru 14 á fæti og 2 í kvið. Það er mikið ríkidæmi.

Eigindir

Öllu þessu fólki var Hulda Heiðrún klettur, stoð og stytta. Hún hvatti þau til dáða, hafði áhuga á námi og velferð, hafði skoðun á hvort gular buxur væru við hæfi í selskap eða ekki. Hún gerði kröfur um að börnin hennar kynnu mannasiði og kynnu sig félagslega. Uppeldi hennar var helgað trausti en ekki ógn og viðurlögum. Því var hún ekki hrædd um börnin sín. Hún naut virðingar sinna og miðlaði jákvæðri mannsýn til afkomenda sinna. Öll vissu þau að hún var tilbúin að leggja mikið á sig fyrir bónda sinn og ástvini. Í því var hún skýr fyrimynd og ljósberi. Og svo barst henni líka staðfesting að henni hafði tekist vel. Einhverju sinni misbauð nágrannakonu Huldu Heiðrúnar ólæti í börnunum í blokkinni og það hvein í. En hún lét Huldu Heiðrúnu jafnframt vita að kvörtunin ætti ekki við hennar börn, þau væru vel upp alin! Þetta þótti henni gott að heyra.

Og hvernig var þessi kona birtunnar, Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir? Hvernig manstu hana?

Hún var hetja sem ekkert haggaði. Hún var ljúf, hógvær, stillt og hlý. En hún var líka stolt og í henni bjó öguð, slípuð reisn. Hún sá fólk, styrk þess og veikleika en skipti sér ekki af málum annarra ef henni komu þau ekki við. Hún kunni því að virða mörk. Og hún ræktaði vel fólkið sitt, var alltaf stór faðmur fyrir fjölskyldu og afkomendur hennar hafa sagt margar sögur um hve hún og afinn tóku á móti litlu fólki og juku gleði þeirra og fjölskyldna þeirra.

Svo var hún jákvæð og kvartaði alls ekki. Eitt sinn lenti Hulda Heiðrún í alvarlegu bílslysi og slasaðist mjög illa. Þegar hún var spurð um bílstjórann sem keyrði yfir hana bar hún blak af honum og sagði að þetta hefði verið óviljaverk. Aumingja maðurinn – sagði hún – og var eiginlega helst á henni að skilja að þetta væri bara yndislegur maður sem olli henni þessum líka kvölum! Og ekki vildi hún að skuggi félli á hann.

Á spítalanum var hún illa haldinn af meinum sínum. Læknirinn spurði varfærnislega hvernig henni liði og átti von á að hún segði frá verkjum hér og sársauka þar. Nei, nei, henni Huldu Heiðrúnu leið bara bærilega! Og lækninn setti hljóðan – sú slasaða var svalari en hann hafði átt von á.

Svo spilaði hún. Þegar í bernsku læri hún að spila á píanó og varð svo snjöll að hún spilaði m.a.s. undir á sýningum á þöglu myndunum í bíó fyrir austan. Og það þarf færni og spunagetu að spila ómþýtt undir kossasenur og sveifla sér svo yfir í hasar og læti í miklum taktbreytingum þessa myndaflokks. Halldór gaf henni píanó og alla tíð varð tónlistin henni vinur í gleði og sorg. Hún spilaði þegar hún var glöð og hún spilaði þegar hún var leið. Hún spilaði sér til hugarhægðar og hvatningar, spilaði sig til birtunnar. Og það var gott.

Hulda Heiðrún fékk góða dómgreind í vöggu- og uppeldisgjöf og svo agaði hún sjálf fegurðarskyn. Það kom fram í saumaskap hennar og heimilsrekstri. Hulda Heiðrún gat saumað smart kjóla og flott föt sem fjölskylda hennar og ástvinir nutu.

Inn í Sólvang himinsins

O nú eru skil. Amma og afi á Frammó eru bæði farin inn í birtuna. Þau fara ekki lengur ferðir vestur, austur eða á sólarströnd. Þau taka ekki á móti ungviðinu og skemmta þeim og sjálfum sér. Nú eru þau farin inn í stóra heim Guðs og það er Guð sem tekur myndirnar og redúserar. Jesús sagði „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Ekkert ljós lýsir betur. Heimur Huldu Heiðrúnar er ljósaslóð. Þú mátt treysta að henni líður vel, hún er sæl, hún er hamingjusöm, þarf ekki að leggja kapal eða spila en kannski sest hún við einhvert himneskt piano og leikur í gleði sinni um suðrið sem andar, um sumarið, um lífið og um þig. Guð geymi Huldu Heiðrúnu í Sólvangi himinsins og Guð geymi þig og framkalli til lífs.

Minningarorð við útför í Neskirkju 13. ágúst 2014 kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Esther Þórðardóttir – minningarorð

Sumar umvefur okkur öll. Plöntur brosa mót himni og hita. Tré breiða út fangið. Fuglamömmur fljúga yfir felustaði ungviðis og reyna að villa um fyrir þeim, sem koma nærri. Ábyrgir foreldrar verja afkvæmi sín.

Vestur í Ólafsvík léku börn út í móa og stelkmamma reyndi að draga athygli þeirra frá felustað litla ungans, svanaforeldrar vörðu ungana sína. Ung stelpa lærði lexíur fyrir lífið, lærði að mömmur halda fast og verja afkvæmi. Lífið verður best þegar börnin lifa, ekkert verður til að spilla og dauðinn kemur ekki of snemma. Mömmur gleyma ekki, brjóstabörnin týnast aldrei. En hvað gerist þegar slitið er á milli?

Fjölskylda og uppvöxur

Í dag kveðjum við Esther Þórðardóttur. Hún fæddist í Ólafsvík 5. janúar árið 1921. Foreldrar hennar voru Þórður Kristjánsson (f. 23.7. 1891, d. 28.9. 1980) og kona hans, Svanfríður Una Þorsteinsdóttir ( f.  21.12.1888, d. 8.5. 1960). Þau hjónin eignuðust 13 börn og fyrir hjúskap þeirra Þórðar átti Svanfríður dótturina Önnu Lárensínu, sem féll frá aðeins sex ára (f. 26.5. 1915, d. 9.7. 1921). Systkinahópurinn var stór og Esther var næstelst þeirra systkina, sem náðu fullorðinsaldri. Systkinin eru:  Ellert Kristján f. 24.7. 1916, d. 13.1. 1918; Elín Kristín f. 19.12. 1917, d. 21.6. 2006; Ebba f. 13. 10. 1919, d. 4.8. 1921; Ebba Anna f. 12. 12. 1921, d. 18.11. 1923; Þórður f. 1. 11. 1923; Aðalbjörg f. 11. 12. 1924, d. 28.3. 1925; Sigrún f. 5. 6. 1926; Rafn f. 4. 12.1927, d.13.7. 1996; Hrafnkell f. 3.1.1929 d. 23.07. 1935; Lilja f. 12. 9. 1930; Rakel f. 6. 10. 1931, d. 23.12. 1975; Unnur f. 25.8. 1933. 

Missir og líðan

Fjögur systkinanna lifa Esther, hin eru öll látin. Þau Þórður og Svanfríður nutu barnaláns en ekki lífsláns þeirra að sama skapi. Þegar rýnt er í æviskrárnar kemur í ljós, að þau misstu fimm börn á barnsaldri. Ellert Kristján dó eins árs árið 1918, Ebba var ekki tveggja ára þegar hún fór 1921, tæplega mánuði á eftir hálfsystur sinni Önnu Lárensíu. Ebba Anna var ekki tveggja ára þegar hún lést 1923, sautján dögum eftir að Þórður fæddist. Aðalbjörg var aðeins fjögurra mánaða þegar hún féll frá árið 1925. Foreldrar, sem staðið yfir moldum barna sinna hafa löngum stunið upp – með tár í augum, að það eigi ekki að leggja á nokkurn að grafa barnið sitt. Það er satt. Hvernig geta menn glímt við sorg barnmissis, hvernig er hægt að lýsa upp þann skugga svo hann verði ekki að innanmeini og þar með fjölskylduvoða? Það er skelfilegt að missa barn og fullkomlega óskiljanlegt hvernig er hægt að sjá á bak fimm börnum í dauðann. Hvernig farnaðist þeim Svanfríði og Þórði með þann bagga? Hvernig gátu þau unnið úr áfallinu.

Allar fjölskyldur eiga sér leyndarmál, sem seint verða opinberuð. Fjölskyldan á Fagrabakka bjó við sorgargímald. Foreldrar áttu gullin sín bæði þessa heims og annars, á Jaðri tveggja veralda. Það er eins öruggt og að sólin kemur upp og hnígur til viðar, að barnsmissir fyrstu áranna hefur haft mikil áhrif á líf og líðan þessa fólks og næsta örugglega mótað anda og skaphafnir meira en börnin á heimilinu gerðu sér grein fyrir á fyrri árum. Þegar börn fæðast er glaðst og þeim fagnað. En þau koma þó ekki í stað hinna, sem deyja. Hver einstaklingur er einstakur, sorgin eftir hann eða hana er einstök og sefast ekki þó ný augu horfi og litlir puttar leiki sér og munnur leiti að móðurbrjósti. Móðir og faðir gleyma ekki.

Rist þig á lófa mér

Elskan vaknar alls staðar þar sem líf kviknar. Fuglarnir elska afkvæmi sín, dýrin sömuleiðis. Tengslin eru ekki aðeins verndartilfinning, það vita allir sem hafa séð dýr sem hafa misst, kveina – já eiginlega æpa af harmi. Þar sem mannslíf kviknar verður ást – og sorg þegar lífið slokknar að nýju. Biblían er sneisafull af orðum um lífskveikjur, lífslát og átökin, sem verða hið innra af söknuði.

Í spádómsbók Jesaja er minnt á hversu sterk tengslin eru milli móður og barns. Þar er spurt – og ég les úr 49. kafla Jesajabókarinnar: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína…” Jesaja 49.15-16

Og þannig er Guð, sem talar skýrt. Lífsbarátta er söm hvort sem er á hæðunum norður af Jersúsalem eða í víkinni austan við Enni. Móðurástin er sterk, en ritari Jesajabókarinnar ber mönnum og heimi þá stórfregn að enn sterkari sé ást Guðs. Menn geta gleymt, en Guð ekki. Svo stefnuföst er Guðselskan, að mennirnir eru skráðir á lófa Guðs. Ekki vitum við hvernig hinn oddhagi hefur farið að, en líkingamálið er skýrt, með oddi hefur nafn manns, mynd manns, líf manns verið rist á lófa Guðs. Ekkert er gleymt, ekki Ellert Kristján, ekki Ebba, Anna Lárensía, Ebba Anna, Aðalbjörg, já eða Þórður og Svanfríður, – ekki heldur Elín Kristín, Rafn; Hrafnkell og Rakel. Hinn kristni boðskapur minnir á, að ekkert er glatað – fólkið, sem dó, er ekki gleymt þó við gleymum. Guð man – Guð varðveitir, Guð sér, Guð umvefur þig – hvort sem þú ert hérna megin við jaðar lífsins eða hinum megin í Guðsfanginu. 

Uppvöxtur

Ólafsvíkin var uppvaxtarreitur Estherar. Hún naut margmennis og fjölbreytileikans, nábýlis við frændfólk og góða granna og lærði á lífið. Hún gekk í skóla á bernskuslóð. Þegar hún var ung var pabbinn á sjó, skipstjóri á bát. Hann var því löngum fjarri heimili. Það kom í hlut Estherar að aðstoða móður sína á stórheimili og við margvísleg störf. Því sinnti hún með dugnaði og kappi.

Stríðið breytti Íslendingum og líka Esther. Hún fór suður – fyrst til Hafnarfjarðar og vann á Vífilstöðum og svo síðar á Reykjalundi. Hún flutti svo til Reykjavíkur og starfaði í Reykjavíkurapóteki í nokkur ár. Var í kjallaranum og vann m.a. við lyfjavinnslu og pökkun. Þaðan fór hún svo á Grund og vann þar á “frúarganginum.” Esther bjó þá á Ljósvallagötunni og þótti gott að geta hlaupið í og úr vinnu.

Hrafn

Já stríðið breytti Esther. Hún sá og hreifst af glæsimenni í bandaríska setuliðinu, sem bar nafn stórskáldsins William Blake og átti að auki fjölskyldunafnið Warren (f. 22.8.1916, d. 15.11. 2006). Þau eignuðust soninn Hrafn Unnar Björnsson árið 1944 (f. 22.1.).

Í fjölskyldunni voru deildar meiningar um hvernig best væri að sjá fyrir drengnum og koma honum til manns. Svanfríður, móðir Estherar og fjölskyldan, beittu sér fyrir að hann færi til Elínar Kristínar, sem var eldri en Esther og barnlaus. Svo varð og Hrafn var alinn upp hjá þeim Elínu og Birni Sæmundsyni. Enginn veit nákvæmlega hvernig barnsflutningurinn var ræddur, hvaða sár urðu af né heldur hvernig tengslin breyttust. En víst er, að Esther leið fyrir og tengsl milli móður og sonar breyttust og trosnuðu. Hvernig getur móðir gleymt brjóstabarni sínu? Hrafn er kvæntur Guðrúnu Biering (f.13.11.1945). Hann hamingjumaður í lífinu og þau Guðrún eiga tvo syni. Sá eldri er Arnar (f. 25.12. 1971). Sambýliskona hans er Dagný Laxdal (f. 1.8.  25.11. 1977). Sonur þeirra er Franklín Máni (f. 2004). Yngri sonur Hrafns og Guðrúnar er Þröstur (f. 28. 12. 1973).

Heba

Esther var ferðafluga og fór víða, ekki síst um hálendið á árunum fyrir 1960. Á þeim ferðum kynntist hún eða tengdist Helga Enokssyni, rafvirkjameistara í Hafnarfirði (f. 27.11.1923, d. 6.8. 1999). Þau eignuðust Hebu árið 1961 (f.  23.7.). Esther söðlaði um og helgaði henni líf sitt þaðan í frá. Hún hafði misst Hrafn úr móðurfangi sínu og vildi allt fyrir kraftaverkabarnið Hebu gera. Esther og Helgi voru náin í nokkur ár, en svo slitnaði bandið á milli þeirra og mæðgurnar bjuggu í Skaftafelli á Grímsstaðaholti fyrstu árin en fóru síðan á Grettisgötu. Þaðan lá leið Estherar niður á Vatnsstíg og síðustu sex æviárin bjó hún á frúarganginum á Grund, sínum gamla vinnustað. Mennskan verður oft lifuð í hringjum og spíral.

Heba er hamingjukona. Hennar maður er Kristján Ívar Ólafsson (25 12. 1964), og synir þeirra eru Stefnir Húni, (f 21. 07. 1989) og Dagur Fróði (f. 21. 1. 1996).

Hugðarefni og gleðigjafar

Esther var margt til listar lagt. Hún var lestrarforkur og hélt upp á Sigrid Undset og Margit Söderholm. Svo féllu í kramið bækur bandarísku skáldkonunnar Pearl S. Buck, sem sagði svo eftirminnilega, að alltof margir biðu í lífinu bara stóru tækifæranna og í biðinni tækju þeir ekki eftir smágæðum lífsins.

En Esther kunni að meta og njóta hins smá- og fín-gerða, laut að blómi, hreifst af fugli, vindi sem gældi við kinn og dýrmæti núsins, sem hún upplifði. Hún hafði gaman af matseld og heimilisfegrun. Esther hafði áhuga á ljósmyndun og lét laga eða bjarga ýmsum fjölskyldumyndum, sem hún kom í viðgerð eða stækkun, eins og bréfin að vestan sýna og sanna. Svanfríður, mamma hennar, hreifst af ljósmyndunum, sem hún sendi. Esther var gjarnan með eitthvað í höndum, prjónaði og heklaði og skemmti sér við að sauma dúka, myndir og annað það sem fegraði eða var hagnýtt á barnafætur eða hendur. Hún var líka tónelsk og til er falleg myndin af henni við harmóníum og með Orgelskólann fyrir framan sig.

Ég man eftir Esther á Grímsstaðaholtinu á sjöunda áratugnum. Hún fór fram í garðinn sinn á Arnargötu 4, sem heitir Skaftafell, hugaði að blómgróðri og grænmeti. Sá um Hebu sína með einbeittri móðurást, en átti líka tíma og umhyggju aflögu fyrir annarra börn. Hún passaði fyrir kunningjakonur sínar, þegar hún var orðin heimavinnandi og varð þeim og börnunum mikil hjálp. Hún fór í smáferðir með Hebu til að kenna lífið, kenna ást á fuglunum, ekki síst svönunum, kenna að njóta hinnar látlausu fegurðar í náttúru og líka manngerðu umhverfi.

Á þrítugsaldri varð Esther fyrir að botnlangi sprakk og varð hún aldrei heilsuhraust eftir það. Á sjötugsaldri fór að halla undan – ekki síst eftir að minni hennar fór að förlast. Við það varð hún hræddari um sjálfstæði sitt, hvarf æ meir á vit eigin heima, en komst í góðar hendur þegar hún fór á Grund. Þar naut hún góðrar aðhlynningar, sem er þökkuð. Esther Þórðardóttir lést á dvalar- og hjúkrunar-heimilinu Grund þann 6. júlí síðastliðinn.

Lífsundrin

Við kveðjum Esther. Hún mætti mörgum mærum í lífinu, varð fyrir margs konar mótlæti. En hún ræktaði með sér elskuna til sinna, til barnanna sinna. Nú er hún öll. Minnstu hennar og heiðraðu minningu með því að rækta með þér virðingu fyrir gæðum lífsins. Bíddu ekki eftir stóru vinningunum, stóru tækifærunum heldur ræktaðu með þér, eins og Esther, næmi fyrir stund og stað, fyrir smáundrum lífsins og þá verður lífið að samfelldu stórundri. Hún ólst upp á Fagrabakka sem varð svo Jaðar. Hún hefur nú farið yfir mörkin, inn í Fagrabakka himins. Þar tekur við henni og umfaðmar hana Guð, sem hefur nafnið, mynd hennar, já líf hennar rist á lófa. Guð gleymir aldrei og í veru og vitund Guðs er eilífðin. Guð varðveiti þig sem lifir og minnist Estherar. Guð blessi Esther Þórðardóttur.

Neskirkja, júlí 2007.

Björn Árnason – minningarorð

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Sólin skein á kistu Björns þegar útför hans var gerð frá Neskirkju 11. maí 2007, minnti á lífshátt hans og líka himinljósið mikla. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Hvaða mynd hefur þú af Birni Árnasyni? Hvaða minning um hann yljar þér og gleður? Er hann þér minnisstæður þegar hann sat í hópi fólks, sagði sögu, rétti upp hendi, hló og sló sér á læri?

Eða er það bæjarverkfræðingurinn, sem stóð við öskuhauga Hafnfirðinga, sá til þess að ruslið fyki ekki um allt og yrði öllum til ama og Hafnfirðingum til skammar?  

Eða er það þegar hann stóð stoltur og brosandi við hlið konu sinnar?

Eða er það myndin af skógarbóndanum, sem vakti yfir vonarsprotum sínum, sá til að engin planta lægi rótarber og óniðursett á víðavangi, og átti skyrdollu til að geyma hana í þar til hún færi í mold?

 Eða er það af afanum, sem réð til sín barnabörnin, tengdi þau saman, kenndi þeim að verða hlekkur í keðju frændgarðs, tíma og lífs – afa sem vissulega elskaði góðan mat, en hafði líka húmor fyrir eigin gúrmetísku áföllum við einfalda pastasuðu?

Eða heillar þig myndin af berjamanninum, sem fremur vildi flengjast um fjöll á köldum haustdögum en fara til sólarlanda, vildi falla inn í litasprengjur haustsins, hamast í brekkunum við að draga björg í bú, fylla alla koppa og kirnur og hús sitt af ávexti jarðar og naut síðan lengi og hafði líka unun af að deila gæðunum með fólkinu sínu og vinum.

Myndirnar af Birni eru margar, flestar skemmtilegar og elskulegar. Hvaða mynd ætlar þú að lyfta í huga og til hvers? Hvernig viltu heiðra minningu Björns? Önnur vídd þeirrar spurningar er: Hvernig viltu lifa svo vel sé lifað og til góðs? 

Grænar grundir, dimma og líf

  1. sálmur Davíðs er ljóð um mennsku og líf:

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast….

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því þú ert hjá mér…

Þú býrð mér borð…

bikar minn er barmafullur…

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Þegar við rjúkum af stað inn í lífið og út í verkefni og ævintýri með óþreyju og fyrirgangi er áhyggjan oft fjarri. En svo verða skaflarnir fyrir og líka áföll og sum djúp. Ævin er kaflaskipt og skiptir miklu að vinna úr, hreinsa gullið í lífinu og taka út þroska. Björn naut gjöfullar ævi, var mikið gefið, naut lengstum gæfu í einkalífi, en slapp ekki heldur við sorgirnar. Hann átti sínar grænu grundir, borð og barmafullan bikar, já langa ævi. En hvað er svo gildi þessa brambolts? Hvað skiptir máli? Að því lýtur þráin hið innra, lífsreynsluspurningarnar, sem eru eins og vængjaslög eilífðar í tíma.

Ætt og uppruni

Björn Árnason fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1928. Foreldrar hans voru Árni Björn Björnsson, gullsmiður, og Svanbjörg Hróðný Einarsdóttir, prests í Reykholti. Gull og Guð voru því samhengi uppvaxtar Björns. Hann var yngsta barn foreldra sinna. Bræður Björns voru Haraldur og Einar. Þeir eru báðir látnir.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín.

Eftir stúdentspróf frá M.R. árið 1948 hélt Björn utan til náms í vélaverkfræði í Svíþjóð og lauk prófi frá Chalmers Tekniska högskolan í Gautaborg árið 1954. Björn réð sig til Kockums Mekaniska Verkstad í Málmey. Wikipedia uppfræðir, að þetta mikla þungaiðnaðar-fyrirtæki hafi verið þessi árin eitt hið stærsta í heimi í sinni grein. Nýútskrifaður verkfræðingur fékk því verkefni við hæfi. Með reynslu og menntun í veganesti varð Björn svo yfirmaður Áhaldahúss Reykjavíkur árið 1957 og síðan forstjóri Vélamiðstöðvar 1964. Þegar framkvæmdir hófust við Búrfellsvirkjun tók hann glaður þátt í því ævintýri og var deildarverkfræðingur hjá Fosskraft. En lengst þjónaði Björn Hafnfirðingum. Hann var bæjarverkfræðingur í Firðinum í 27 ár eða frá 1968-95.

Hjúskapur

Í ársbyrjun 1953 gengu Ingunn Sigríður Ágústsdóttir og Björn í hjónaband. Gógó átti sér uppvaxtarreit á vatnsbakka Elliðaánna og verkfræðingnum þótti ekki verra að hún var alinn upp í nágrenni vélanna og í stuðinu í Elliðaárvirkjun – pabbi hennar var þar stöðvarstjóri. Og straumurinn hljóp í Björn þegar hann hitti hana fyrst. Það var alltaf stæll á þeim Birni og Gógó. Ef þau hefðu verið sjálfráð að, hefðu þau ekki geta valið öllu flottari stað en Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn fyrir sinn fyrsta fund og tillit. Þar voru þeir skólabræður Manfreð Vilhjálmsson á leið heim og sáu þá tvær íslenskar draumadísir á torginu með stúdentshúfurnar á kollum – núútskrifaðar úr Versló. Siglingin heim varð þeim happadrjúg og þær urðu þeirra eiginkonur. Allir vissu og fundu, að Björn elskaði og átti alla hamingju lífsins miðjaða í Gógó.

Hún var honum jafnoki, ríkisstjórnin, sem var spurð, vinur, lífsakkeri og félagi. Saman stóðu þau í öllu verkum og áætlunum. Hún stóð við hlið hans í uppbyggingu heimilis, á Laugalæknum, á Markarflöt í Garðabæ og síðan í Hafnarfirði í Klettahrauninu. Ingunn var hin trausta húsmóðir og hélt flóknum þráðum heimilis og uppeldis saman og heimilislífið blómstraði, börnin komust til manns. Gógó fór svo að vinna, sem skólaritari í Flataskóla í Garðabæ. Og svo reið lagið yfir. Gógó féll fyrir krabbameini í júníbyrjun árið 1985 og veröldin umpólaðist. Björn bar sig vel, beit á jaxlinn, setti upp svip æðruleysis og hélt áfram lífinu. Sorgarvinna var ekki viðurkennd reikningskúnst karlmanna á þessum árum. 

Börnin

Þau Gógó og Björn eignuðust fjögur börn, sem öll lifa foreldra sína. Elst er Kristín og hennar maður er Friðrik Már Baldursson. Þeirra börn eru tvö. Næstelstur er Árni Björn og hans kona er Halldóra Kristín Bragadóttir. Þau eiga tvö börn einnig. Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Valur Ragnarsson. Börnin eru tvö og barnabarn að auki. Björn Ágúst er yngstur. Kona hans er Kristín Lúðvíksdóttir og þau eiga samtals þrjú börn.

Allur þessi hópur er glæsilegt manndómsfólk hvernig sem þau eru skoðuð og skilin. En mestu skiptir þó, að þetta er gæfufólk. Björnsbörnin eru foreldrum sínum öflugt vitni um elsku, natni, húmor og árvekni. Og tengdabörnin fengu hlýtt já og stuðning. Sterk fjölskyldubönd eru ekki sjálfsprottin, heldur ávöxtur tengslaæfinga og uppeldis.

Vaka Valsdóttir er erlendis og biður fyrir kveðjur til ykkar, sem hér eruð og kveðjið.

Eftir að Ingunn féll frá hóf Björn sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur. Þau slitu samvistir eftir nokkurra ára sambúð. 

Hugðarefni og störf

Björn var manna kátastur á mannamótum, orðheppinn, minnugur á nöfn, staði og staðreyndir, glaðsinna, jafnlyndur, hlýr og sögumaður. Hann var glæsimenni, fínn í tauinu, bar sig vel og hreif fólk. Björn var praktískur fagurkeri. Margir vildu njóta félagsskapar hans og liðsinnis. Birni voru falin mörg embætti á lífsleiðinni. Hann starfaði lengi í Rotary-klúbbi Hafnarfjarðar. Hann var áhugamaður um stjórnmál og staðfastur sjálfstæðismaður. Hann hafði gaman að ræða pólitík og sem margsjóaður embættismaður gat hann greint kjarna frá hismi, fúskið frá hagnýtri og skilvirkri pólitík.

Í bernsku blésu foreldrar Birni í brjóst gróður- og skógræktaráhuga. Hann tók þátt í starfi skógræktarfélagsins í Hafnarfirði og Skógræktarfélagi Íslands. Hann tengdi verkfræðina og umhverfismál. Björn beitti sér mjög fyrir ábyrgri sorpförgun, tók þátt í undirbúningi Sorpu og var frumkvöðull í sorphirðumálum sveitarfélaganna á suðvesturhorninu. Svo hafði hann áhuga á gróðurvernd í landnámi Ingólfs og vann að stofnun fólkvangs og var um tíma í stjórn Landgræðslusjóðs.  

Björn var áhugamaður um tónlist, unni henni, var klassískur í smekk, lék á hljóðfæri í æsku og sótti tónleika hvenær sem færi gafst.

Mykjunes

Nýr áfangi hófst í lífi Björns þegar þeir Haraldur, bróðir hans, keyptu jörðina Mykjunes í Holtum árið 1990. Í því, sem Björn skildi eftir sig á prenti er ljóst, að í honum bjó ræktunar-, gróður- og ekki síst skógræktar-áhugi. Allt líf á sér aðveituæðar, tré eiga sér rætur og ræktunaráhugi líka. Reykholtsfjölskyldan hafði, með miklum krafti, efnt til og komið upp hinum stóra skógarreit í Reykholti til minningar um prestshjónin þar. Björn tók vel við skógarviti síns fólks og í minningariti um Reykholtshjónin segir Björn, að hann hyggi á langlífi og ætli sér að lokum að deyja standandi í eigin skógi! Það, eins og flest sem Björn stefndi að, gekk fullkomlega eftir. Hann dó í miðju verki, í vorinu, í vaknandi skóginum fyrir austan 30. apríl síðastliðinn.

Skógræktin í Mykjunesi er rismikill bautasteinn, sem Björn reisti sjálfum sér, eða eigum við að segja vistkerfi sem hann þjónaði með natni lífgjafans. Það er afrek að planta um þrjú hundruð þúsund plöntum á annað hundrað hektara lands á þessum fáu árum, sem liðin eru, eiginlega kraftaverk. Þegar Björn var laus undan verkum, skyldum og kvöðum annarra gat hann snúið sér að skógræktinni með fullum krafti. Það gerði hann, en hann var ekki einn. Haraldur, bróðir, var þarna fyrstu árin og svo líka stór hópur barnabarna, sem Björn var svo snjall að ráða í vinnu. Krakkarnir puðuðu saman og tengdust því. Björn kenndi þeim verklægni, verkferla og afköst, skemmti þeim og þjónaði, blés þeim brjóst virðingu fyrir gróðri, natni í störfum, tilfinningu fyrir lífkeðjunni, sem jafnframt er æfing í visku um eigin stöðu í stærra samhengi, mörk og tíðir.

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Þau vissu öll hversu mikilvægt Mykjunes var honum og hversu djúpar rætur hans voru orðnar meðal þessara vina, sem voru að vakna inn í vorið, teygja anga sína mót lofti og sól sumarsins. “Það er allt vel lukkað, gott og blessað, fagurt og indælt.” Strípuð Holtin eru að breytast í skóglendi og framtíðin spírar í unga fólkinu. 

Björn og lífið

Hvað mynd af Birni hefur þú í huga, hvaða lærdóm dregur þú heim, frá honum? Hvernig ætlar þú að heiðra minningu hans með hamingjurækt í eigin lífi? Hann færir þér ekki lengur “svartini” á góðri stund. Hann kemur ekki framar með þunga berjafötu í hendi og kátínu í augum. Hann slær sér ekki framar á lær og segir þér kostulegar sögur. Hann stoppar ekki lengur elda í sorpinu. Og hann ræður afkvæmi barna sinna aldrei aftur í vinnu. Björn er farinn og stingandi fjarvera hans spyr þig um eigið líf.

Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast…. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér… Þú býrð mér borð… bikar minn er barmafullur… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Faðmur himinsins umlykur Gógó, Björn, já, öll þessi sem þú manst og elskar. Þakkaðu fyrir hann Björn, þakkaðu fyrir kynnin og farðu vel með eigið líf.  

Austur í Mykjunesi leika hrossagaukarnir sér og stunda sínar músíkdýfur. Mófuglar vinna að hreiðurgerð og mikill skógur vaknar til lífs. Milljarðar laufblaða lifa af því Björn elskaði lífið og vildi skila sínu. Allur þessi lauf- og barrheimur mun syngja í sumar og jafnvel aldir kliðmjúka lífssálma, um lífgjafa sinn, um fegurð heimsins, um ást, um að lífið er sterkari en dauðinn. Í því mikla samhengi lifði Björn og mun lifa. Guð blessi og varðveiti Björn Árnason.

 Minningarorð við útför Björns í Neskirkju 11. maí 2007.

Æviágrip

Björn Árnason fæddist í Reykjavík, 12. ágúst árið 1928.  Hann lést á heimili sínu í Mykjunesi í Holtum 30. apríl síðastliðinn.  Björn var sonur hjónanna Árna Björns Björnssonar gullsmíðameistara og kaupmanns í Reykjavík, f. 11. mars 1896, d. 2. júlí 1947 og Svanbjargar Hróðnýjar Einarsdóttur, f. 20. júlí 1899, d. 27. nóvember 1986. Föðurforeldrar: Björn Símonarson, gullsmiður á Sauðárkróki og í Reykjavík, f. 26. apríl 1853, d. 27. desember 1914 og Kristín Björnsdóttir forstöðukona veitingasölu og Björnsbakarís, f. 11. desember 1866, d. 5. maí 1927.Móðurforeldrar: Einar Pálsson, prestur í Reykholti, f. 24. júlí 1868, d. 27. janúar 1951 og Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir Briem, f. 2. febrúar 1872, d. 4. desember 1962. Bræður Björns voru Haraldur, f. 7. febrúar 1923, d. 10. mars 2003 og Einar, f. 22. desember 1926, d. 15. september 1992.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín, f. 12. júní 1925.  Björn giftist 10. janúar 1953, Ingunni Sigríði Ágústsdóttur, f. 2. október 1930, d. 8. júní 1985. Hún var dóttir hjónanna Björns Ágústar Guðmundssonar yfirvélstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Sogsvirkjana, f. 10. desember 1889, d. 27. desember 1952 og  Sigríðar Pálsdóttur f. 21. júní 1895, d. 12. febrúar 1989. Björn Ágúst og Sigríður voru kennd við Rafstöðina við Elliðaár þar sem þau bjuggu í áratugi. Ingunn starfaði síðustu æviár sín sem skólaritari í Garðabæ. Börn Björns og Ingunnar eru: 1) Kristín, prófessor við Háskóla Íslands, f. 22. desember 1956.  Eiginmaður hennar er Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, f. 11. apríl 1957.  Börn þeirra eru: a) Jóhanna Katrín, f. 1. apríl 1980 og b) Björn Már, f. 11. júní 1990.  2)  Árni Björn, verkfræðingur, f. 20. september 1958.  Eiginkona hans er Halldóra Kristín Bragadóttir, arkitekt, f. 21. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Bragi, f. 2. október 1986 og b) Ingunn Sigríður, f. 16. nóvember 1990.  3)  Sigríður, lyfjafræðingur, f. 2. apríl 1962. Eiginmaður hennar er Valur Ragnarsson, lyfjafræðingur, f. 13. janúar 1964.  Börn þeirra eru: a) Ingunn Ýr, f. 17. maí 1983, hennar maki er Hannes Þorsteinn Sigurðsson og eiga þau eina dóttur, Freyju, f. 16. nóvember 2006.  b) Vaka, f. 3. maí 1989.  4) Björn Ágúst, verkfræðingur, f. 9. júlí 1967.  Eiginkona hans er Kristín Lúðvíksdóttir, viðskiptafræðingur, f. 5. nóvember 1969.  Börn þeirra eru: a) Þorsteinn Friðrik, f. 19. nóvember 1992, b) Sólveig, f. 5. ágúst 1999 og c) Haraldur f. 24. september 2006.  Björn var um tíma í sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur, f. 14. ágúst 1936, en þau slitu samvistum. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og prófi í vélaverkfræði frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg í Svíþjóð árið 1954.  Árin 1954-56 starfaði Björn hjá Kockums Mekaniska Verkstad AB í Málmey í Svíþjóð.  Hann starfaði hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurbæjar 1956-66 og var forstöðumaður þess frá 1957-66.  Hann undirbjó sameiningu bifreiða- og farvélareksturs flestra fyrirtækja Reykjavíkurborgar 1960-64.  Björn var forstjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar 1964-66 og síðan deildarverkfræðingur hjá Fosskraft sf. við Búrfellsvirkjun 1966-67.  Á árunum 1968-95 starfaði hann sem bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði.  Frá árinu 1995 og til dauðadags var Björn skógarbóndi í Mykjunesi í Holtum.  Björn var Rótaryfélagi frá árinu 1970 og var forseti Rótaryklúbbs Hafnarfjarðar 1976-77 og formaður skógræktarnefndar klúbbsins. Hann var varaformaður Skógræktarfélags Hafnafjarðar og heiðursfélagi frá árinu 2006. Stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og stjórnarmaður og stjórnaformaður í Landgræðslusjóði. Björn tók fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar þátt í undirbúningi sameiginlegrar sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins frá upphafi; var varaformaður stjórnar undirbúningsfélags 1984-88; og Sorpu bs. frá stofnun árið 1988 til ársins 1994. Formaður stjórnar  Sorpu 1992-94.  Björn sat í nefndum um útgáfu fræðslurita um sorphirðu og fráveitur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytisins.  Var meðdómari og dómkvaddur matsmaður í allmörgum málum við héraðsdómstóla í Hafnarfirði og víðar.