Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Ingi Kristinsson – minningarorð

Ingi Kristinsson1Ingi skólastjóri var nálægur nemendum Melaskóla. Þegar við komum í skólann var Ingi alltaf mættur, glæsilegur, hlýlegur, opineygur og vinsamlegur. Svo þegar við hlupum út í frímínútur var Ingi líka á skólalóðinni, viðtalsfrómur, leikjahvetjandi, vökull vörður hinna smáu og þeim sem var strítt og skildi að þau sem flugust á. Svo þegar við fórum heim var Ingi líka nálægur og fylgdist með og kvaddi. Hann ávann sér virðingu okkar af verðleikum sínum en ekki stöðu.

Ingi kenndi flestum, sem voru í Melaskóla, eitthvað mikilvægt. Hann kenndi mér merkingu gullnu reglu Biblíunnar. Þegar ég var 11 ára gekk hark- og púkk-æði yfir grunnskólana og fé lagt undir. Mörg mættum við með fimmeyringa í vasanum til að geta tekið þátt í því æsilega fjárhættuspili – að hitta í holu eða á línu! Ég varð brátt svo slyngur kastari að ég græddi flesta daga. Þegar ég fór heim úr skólanum voru vasar mínir oftast svo fullir af fimmeyringum að ég fékk marbletti á lærin af þunganum. Ingi sá til okkar fjárhættuspilaranna og kom út á skólalóðina. Hann sagði félögunum að fara – en sagðist vilja tala við mig einan.

Ég bar virðingu fyrir Inga og óttaðist hann ekki. Ég sá að hann hvorki kímdi né brosti, sem honum var þó tamt. Við töluðum saman lengi, aldrei hækkaði hann róminn, aldrei missti hann stjórn á skapi sínu, heldur minnti mig á að ég hefði náð miklu fé af skólafélögum mínum. Hvað þætti mér um það? Mér þótti þetta samtal stefna í vonda átt. Svo spurði Ingi mig hvernig mér litist á ef aðrir næðu af mér mínum peningum! Mér þótti það ill tilhugsun og skildi hvað hann meinti með opnum og kröftugum spurningum. Á þeim grunni byrjaði Ingi Kristinsson síðan að reisa mér hús siðfræðinnar, útlistaði að athöfn hefur afleiðingar, fjárplógur getur leitt til mikilla vandræða, en mikilvægast væri þó að gæta mannvirðingar og jafnvel takmarka eigið frelsi vegna tillitssemi við aðra. Ingi, sem var vel upplýstur um bakgrunn nemenda sinna, vissi að foreldrum mínum væri annt um að sonur þeirra misnotaði ekki fólk og gerði aðra að eigin féþúfu.

Svo lauk Ingi máli sínu með því að spyrja mig hvort ég þekkti gullnu regluna? Nei, ég var ekki viss – en hafði þó grun um að það væri eitthvað Jesúlegt siðvit. Og þá var Ingi farinn að kíma og hafði yfir það sem ég hafði reyndar heyrt áður að það sem við vildum að aðrir gerðu okkur – það ættum við að gera þeim. Fimmeyringar heimsins, já allt gull veraldarinnar fölnaði í samanburði við ríkidæmi siðvitsins fræddi skólastjórinn mig um. Í lok samtalsins tók Ingi af mér loforð: Ég hét honum að ég skyldi hætta að hafa fé af nemendum Melaskóla. Ég stóð við það, ég hætti harki og púkki algerlega og hef reyndar síðan haldið mér við þá stefnu að hafa ekki fé af nokkrum manni. Enn stend ég í þakkarskuld við Inga fyrir að hafa kennt mér hagnýta Jesúspekina fyrir líf og samskipti. Þessi heimur væri betri ef skólum og stjórnum veraldar væri stýrt af mönnum eins og Inga Kristinssyni.

Þessi einkatími minn í siðfræði hjá Inga fléttar margt saman sem einkenndi þennan eðlisvæna dreng og öfluga skólamann. Hann axlaði ábyrgð, vann sín stórvirki með festu en hægð, fór ekki hraðar en viðmælandinn þoldi, beitti hagnýtum rökum og flestum – kannski öllum – kom hann til nokkurs þroska. Í honum bjó djúp mannvirðing sem varðaði alla og gilti fyrir alla. Hann var þjónandi forystumaður. Fjallræðuspekin var iðkuð í Melaskóla því skólastjórinn var þroskaður: „Það sem þér viljið að aðrir geri yður – það skuluð þér og þeim gera“ (Matt. 7, 12). Þessi glæsilegi maður – sem mér þótti sá fallegasti í Vesturbænum – var góður fulltrúi alls hins besta í kristni og vestrænni mannúðarhefð.

Ætt og upphaf

Ingi Kristinsson var Þingeyingur, fæddist á Hjalla í Grýtubakkahreppi og sleit barnsskónum undir Kaldbak, sem honum þótti vænt um. Brynhildur Áskelsdóttir, móðir hans, var úr Fnjóskadal en Kristinn Jónsson, pabbinn frá Hjalla, var kennari og skólastjóri og þau hjónin stunduðu einnig búskap. Ingi var eldra barn þeirra og fæddist fimmtudaginn, 29. ágúst árið 1929. Laufey, alsystir hans, fæddist árið 1933 og lifir bróður sinn.

Brynhildur, móðir Inga, lést frá börnum, eiginmanni og ástvinum í júlílok árið 1938. Ingi var þá átta ára. Hvernig er fyrir ungan dreng að missa móður sína (sérkennileg spekin í upphafi Brekkukotsannáls nær ekki að skýra vel áhrifin)? Hvaða áhrif hafði hið þunga slag á drenginn? Getur verið að hann hafi orðið dulari vegna áfallsins, axlað meiri ábyrgð – alla tíð – vegna þess að hann var elstur og að auki móðurlaus? Átti hin djúprætta mannvirðing – sem bjó í Inga – sér upphaf í bernskureynslu hans sjálfs? Varð hann svo öflugur skólamaður – og gætti allra nemenda sem honum voru fólgnir og umfram alla skyldu – vegna þess að hann hafði sjálfur orðið fyrir sálarhöggi og skildi því að börn finna til? Sum hinna böldnu eiga sér lífsreynslu, sem þarf að greina og virða til að hægt sé liðsinna þeim til vaxtar. Ég undraðist alltaf virðingu Inga fyrir okkur smáfólkinu og furðaði mig á að hann var alltaf til staðar og fylgdist svo vel með okkur. En kannski er móðurmissir hans hlutaskýring á skólastjórnarháttum, Inga – auk kærleiksríks uppeldis í faðmi viskuleitandi, þingeysks ættboga.

Ingi og Laufey uxu upp meðal föðurfólksins á Hjalla og Greinivík. Föðurbræður og amma urðu móðurlausum Inga mikilvæg . Svo hlotnaðist þeim stjúpa því Kristinn gekk að eiga nýja konu, Steingerði Kristjánsdóttur. Börn þeirra og hálfssystkin Inga eru Jón, sem fæddist 17. júní 1942 og fékk því lýðveldið í afmælisgjöf þegar hann varð tveggja ára. Síðan fæddist Gunnar í ágúst 1948.

Allt sumarbörn.

Heimatökin vor hæg með nám og Ingi var góður námsmaður. Þegar hann hafði lokið grunnnámi tók hann stefnuna inn í Menntaskólann á Akureyri. Hann sagði síðar sjálfur frá að þeir faðir hans hefðu farið af stað með mjólkurbílnum inn eftir. En bíllinn fór út af veginum á leiðinni og feðgarnir gengu um 20 km. leið til Akureyrar – og í miklum snjó. Það þurfti að hafa fyrir að komst til skóla á þessum tíma.

Menntaskólaárin urðu Inga til margþættrar hamingju. Hann aflaði sér góðrar menntunar og kynntist góðum félögum sem urðu vinir hans. Hann lærði að axla félagslega ábyrgð og svo fann ástin hann og þau Hildur urðu par.

Ingi var söngvin og söng með bekkjarbræðrum í kvartett – og hann söng síðan alla ævi. Í Melaskóla stýrði Ingi gjarnan söng eða hvatti til skólasöngs. Ingi ávann sér tiltrú skósystkina og var kosinn til skólaforystu. Ingi var inspector scholae síðasta veturinn í menntaskóla og var vel metinn forystumaður.

Ingi lauk stúdentsprófi árið 1951 og Þórarinn Björnsson sagði þegar hann afhenti honum prófskírteinið að Ingi væri „eðlishreinn drengur.” Umsögn skólameistara merkti að hann væri hreinlyndur maður.

Ingi fór um suður haustið 1951 og hóf nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1952. Sama ár hóf hann síðan kennslu í Melaskóla í Reykjavík, ávann sér strax virðingu starfsfélaga og nemenda og þótti afburðakennari. Hann ræktaði samband við “gamla” nemendur sína og það var hrífandi að heyra og sjá umsagnir þeirra að honum látnum – um “besta kennara og skólastjóra” sem þeir gætu hugsað sér.

Þegar Arngrímur Kristjánsson, fyrsti skólastjóri Melaskóla, lauk störfum árið 1959 – eftir átján ára starf – var farið að svipast um eftir þeim sem gæti tekið við og leitt skólann inn í nýtt skeið. Það þótti ekki auðvelt að stýra þessum margsetna risaskóla. Hinn þrítugi Ingi var talinn best fallinn til að takast á hendur verkefnið. Nokkrum þótti Ingi of ungur – en efasemdaraddir þögnuðu fljótt. Hann varð farsæll skólamaður, fremstur meðal jafningja, gekk sjálfur í verkin, hagsýnn, óhræddur en þó gætinn, mannasættir, hlýr og þótti eflandi og réttsýnn.

Ingi var sagður hafa verið fjárglöggur unglingur og þroskaði eðlisgáfuna og varð mannglöggur! Sem skólastjóri lagði hann upp úr að kynnast öllum nemendum skólans. Hann fylgdist með þeim, þekkti nöfn þeirra – sem er ótrúlegt afrek – og lagði sig eftir að nýta alla vaxtarsprota sem hann sá. Í þrjátíu og fimm ár stýrði Ingi Melaskóla og hætti svo 65 ára. Þá fannst okkur, sem bjuggum í hverfinu sem og starfsfélögum, hann enn vera bráðungur. En það var gott að sjá þennan skólahöfðingja fara um í hverfinu árin sem hann átti ólifuð – alltaf bjartan til augna og með friði.

Einar Magnússon, fyrrum skólastjóri Hagaskóla, þakkar fyrir samvinnu og vináttu. Það er þakkarvert hversu gott samstarf hefur alla tíð verið milli skólanna í hverfinu. Fyrir hönd okkar vesturbæinga vil ég þakka Inga Kristinssyni farsæla skólastjórn, alúð hans og mannúð í störfum og tengslum. Við minnumst ljúfs stjórnanda sem laðaði fremur fram með vinsemd en valdbeitingu. Minning okkar flestra um hann er sveipuð virðingu og þökk.

Ingi var öflugur félagsmálamaður. Hann sat í stjórn íslenskra barnakennara í tvo áratugi, var varaformaður þess í átta ár og formaður í fjögur, frá 1972 til 1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum m.a. fyrir BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Oft fór hann á fundi þegar skólastjórastörfum lauk og Brynhildi, dóttur hans, þótti nóg um og sagði einhvern tíma: „Ég nenni ekki að pabbi fari á fund!“

Hjúskapur

Ingi var hamingjumaður í einkalífi. Húsvíkingurinn Kristbjörg Hildur Þórisdóttir sá Inga í MA, hreifst af honum og vildi gjarnan kynnast honum betur – og það gekk eftir. Kóngur og drotting urðu hjón og gengu æviveginn saman og hafa sem næst alla hjúskapartíð sína – yfir sextíu ár – búið í vesturbænum og lengst á Tómasarhaga.

Hildur er kennari. Börn þeirra Inga eru: Þórir, Kristinn og Brynhildur.

Þórir fæddist 3. ágúst árið 1954. Hann er verkfræðingur. Kona hans er Þorbjörg Karlsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Ragnar, Hildi og Inga.

Kristinn, yngri sonur þeirra Inga og Hildar, fæddist 24. september árið 1958. Hann er einnig verkfræðingur. Kona hans er Bergdís Hrund Jónsdóttir og þau eiga dæturnar Sigríði Þóru og Þórdísi. Fyrir átti Kristinn dótturina Addý Guðjóns með Mörtu G. Hallgrímsdóttur.

Brynhildur var þriðja barn Inga og Hildar. Hún fæddist á aðventunni árið 1967, kom í heiminn 7. desember. Hún var lífeindafræðingur. Brynhildur lést árið 2011, aðeins fjörutíu og þriggja ára. Maður hennar var Þorkell Lillie Magnússon og þau áttu börnin Margréti Stefaníu, Guðrúnu og Friðrik Ómar.

Afkomendur Inga og Hildar eru tuttugu og eitt, þrjú börn, níu barnabörn og níu barnabarnabörn. Ingi þjónaði fólkinu sínu af elskuríkri elju, tók á móti barnabörnunum með gleði, las með þeim, reiknaði, gaf þeim ís og fékk viðurnefndið afa-pava-rafa skafís – kenndi þeim á skíði og var óhræddur að setja þau af stað í brekkunum. Svo dreif hann fólkið sitt á fjöll og ef eitthvert barnanna var þungt til sporsins sagði hann spennandi Ólasögur og þá var jafnvel hægt að laða unga snót um týrólsk fjöll því sögurnar voru spennandi.

Þegar Hildur var í námsvist í Noregi heilan vetur vafðist ekki fyrir Inga að halda heimili fyrir börnin og kona hans gat sinnt námi sínu óhrædd um holdafar, heilsu þeirra og velferð.

Ingi náði að umgangast börn sín og barnabörn með hlýju í skólanum án þess þó að láta þau njóta einhverrar forréttindastöðu. En þegar hann eignaðist barnabörn leyfði hann sér að blikka sitt fólk án þess að aðrir sæju, brosti asæll og tjáði gleði sína óhikað en með hógværð.

Ingi var alltaf til reiðu til að styðja afkomendur sína. Hann studdi þau í námi og jafnvel vini þeirra einnig. Hann varð þeim aðstoðarkennari, innrætti þeim heilsurækt og gildi hreyfingar, hló með þeim og söng, sagði sögur og þau glöddust yfir uppátækjum hans. Öll áttu þau athvarf hjá Inga afa og Hildi ömmu.

Eigindir

Minningarnar um Inga Kristinsson þyrlast upp á tímamótum. Mannstu ljúflyndi hans og vinsemd? Hve laginn skólamaður hann var? Mannstu hve elskulega hann horði á þig þegar þú áttir orðastað við hann?

Mannstu eftir harðdulegum verkmanninum, sem kunni múrverk, var góður smiður, vandvirkur málari en hafði minni þekkingu á rafmagni og hvaða hlutverki þéttir þjónaði? Manstu hve vandvirkur handverksmaður hann var og hve miklar kröfur hann gerði til sjálfs sín og hve góður kennari hann var öllum þeim sem hann aðstoðaði við húsbyggingar og hreiðurgerð? Mörg ykkar eigið ljúfar minningar um hjálpsaman föður og afa sem ekki dró af sér.

Vissir þú að Ingi og Hildur flugu í mörg ár til Lúxemburg til að njóta evrópsks sumars, óku í austur og gjarnan til Fiss í Austurríki og gengu svo um Alpana?

Manstu hve vel Ingi greindi milli vinnu og heimilis og bar ekki skólavandann með sér heim? Manstu hve vel hann vaktaði Melaskóla meðan hann stjórnaði þeirri menntastofnun? Manstu eftir hve glæsilegur hann var, fallegur höfðingi? Manstu sönginn hans – og skólasönginn?

Manstu garpinn á fjöllum – skíðamanninn, göngumanninn? Og Ingi, sem allan sinn fullorðinstíma bjó á KR-svæðinu var svo mikill fjallamaður að hann var jafnvel til í að hjálpa Fram við að reka skíðaskála í Eldborgargilinu. Svona eru eðal-KRingar.

Manstu geðprýðismanninn og öðlinginn – traustið sem hann þroskaði með sér og smitaði til annarra? Manstu hve ábyrgur hann var í öllum tengslum og störfum? Manstu hinn grandvara, trygga og trúa Inga, ljúflyndan, ærðulausan og samviskusaman?

Inn í himininn

Nú eru orði skil. Ingi hefur verið hrifinn úr faðmi Hildar og ástvina. Nú er Ingi farinn inn í eilífðina. Við horfum á eftir gæfumanni og öðlingi, sem skilur eftir litríkar minningar. Við sem nutum hans þökkum og blessum hann hið innra. Skóla- og samstarfs-fólk þakkar samfylgdina. Vestubæingar lofa þjónustu hans. Þið ástvinir haldið kefli hans á lofti.

Ingi mun aldrei snúa snú-snúbandinu framar en snilld hans lifir í minningunni og þolinmæði við ungviðið. Hann blandar aldrei aftur swiss-miss út í ís til að búa til afa-ís. Ólasögur mun hann ekki segja framar á fjöllum. Engir fleiri aukatímar í siðfræði og gullnu reglunni. Ingi mun aldrei framar grípa til söngbókarinnar í vasanum til að stjórna söng og það verða engir bílasöngvar framar með hans þátttöku. Söngbókin hans var það síðasta sem fór í kistuna hans og fallega tenórröddin hans er þögnuð. En söngvarnir hans lifa, hann kenndi fólkinu sínu að syngja og þegar í frumbernsku.

Ungur afadrengur fékk söngkennslu í langri ökuferð og hann skynjaði merkinguna vel því þegar hann stökk út úr afa-og ömmubílnum í Herðubreiðarlindum söng hann hástöfum Inga og Hildi til gleði: Frjálst er í fjallasal… og söngur barnsins barst um hásal hálendisins, inn í vitund samferðafólksins – og upp í himininn. Nú er Ingi Kristinsson frjás í fjallasal eilífðar, ekkert bindur hann lengur, engin gleymska eða hömlun. Hann á góða heimvon, hittir móður, dóttur, föður og frændgarð. Leyfið honum að fara en leyfið söng hans, siðfræði, metnaði, kímni og gæsku hans að lifa.

Guð geymi hann ávallt, opni honum öll fjallendi undraheims himins – til gangs og svigs. Guð geymi minningu hans og Guð blessi ástvini, íslenska skóla og menningu – og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför – jarðsett síðar í Kópavogskirkjugarði.

Minningarorð við útför Inga Kristinssonar í Neskirkju, 2. febrúar, 2015.

Ævistiklur:

Ingi Kristinsson fæddist 29. 8. 1929 á Hjalla í Grýtubakkahreppi í S- Þingeyjarsýslu. Hann lést laugardaginn 24. janúar 2015. Foreldrar hans voru Brynhildur Áskelsdóttir húsmóðir f. 13.1 1906 að Austari-Krókum í Fnjóskadal, S-Þingeyjarsýslu, d. 30.7 1938 og Kristinn Jónsson bóndi, kennari og skólastjóri, f. 14.10 1894 á Hjalla í Grýtubakkahreppi, d. 21.9 1975. Systkini Inga eru Laufey f. 25.7 1933 og hálfbræður samfeðra Jón f. 17.6 1942 og Gunnar f. 28.8 1948.

Eiginkona Inga var Kristbjörg Hildur Þórisdóttir kennari og talmeinafræðingur. Hún fæddist á Húsavík 31.1 1933. Foreldrar hennar voru Arnfríður Karlsdóttir húsmóðir f. 26.6 1905, d.7.6 1976 og Þórir Friðgeirsson gjaldkeri og bókavörður, f. 14.9 1901 d. 26.9 1996.

Börn þeirra eru 1) Þórir verkfræðingur f. 3.8 1954 kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur. Þeirra börn eru a) Ragnar f. 17.2 1977 kvæntur Birnu Björnssdóttur og eiga þau tvö börn b) Hildur f. 28.12 1978 gift Bjarka Valtýssyni og eiga þau þrjú börn c) Ingi f. 30.10 1990 í sambandi með Hörpu Ellertsdóttur. 2) Kristinn verkfræðingur f. 24.9 1958 kvæntur Bergdísi Hrund Jónsdóttur. Þeirra börn eru a) Sigríður Þóra f. 17.7 1986 í sambúð með Steingrími Arasyni og eiga þau eitt barn b) Þórdís f. 4.2 1991 í sambúð með Ívari Sveinssyni. Fyrir átti Kristinn Addý Guðjóns f. 1.4 1978 með Mörtu G Hallgrímsdóttur. Addý er gift Helga Sigurðssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Brynhildur lífeindafræðingur f. 7.12 1967 d. 24.6 2011, gift Þorkeli Lillie Magnússyni. Þeirra börn eru a) Margrét Stefanía f. 6.8 1995 b) Guðrún f. 5.11 1998 c) Friðrik Ómar f. 15.10 2003.

Ingi ólst upp á Hjalla og á Grenivík við Eyjafjörðinn austanverðan. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1951. Að loknu stúdentsprófi flutti Ingi suður til Reykjavíkur, gekk í Kennaraskólann og lauk kennaraprófi 1952. Í Reykjavík bjuggu Ingi og Hildur í Vesturbænum, lengst af á Tómasarhaga. Haustið 1952 hóf Ingi kennslu við Melaskólann í Reykjavík og varð skólastjóri árið 1959. Hann var skólastjóri Melaskóla í 35 ár eða þar til hann lét af störfum 1994. Ingi sat í stjórn íslenskra barnakennara 1956-1976, var varaformaður þess 1964-1972 og formaður frá 1972-1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir m.a. BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Eftir að skólastjóraferlinum lauk tók hann í nokkra vetur að sér skálavörslu í skíðaskála Fram í Bláfjöllum auk þess sem hann gætti barnabarna áður en þau fengu leikskólapláss.

Anna Rögnvaldsdóttir – alltaf lífsins megin

AnnaAnna var fjölhæf og vel tengd. Í henni bjó geta til að kanna hið fjölbreytilega og nýta það til góðs og fyrir lífið. Hún vann ekki aðeins við að fræða um staðreyndir, heldur miðlaði hún mörgu, litríku og skemmtilegu. Hún kenndi börnum en líka þeim eldir og raunar alls konar fólki. Hún lét sér ekki nægja efnisheim heldur var opin fyrir víddum undurs, engla, andlegrar tilveru, söngs og eilífðar.

Anna lét ekki þröngsýni annarra spilla eigin útsýn. Hún hafði gaman af því sem lífið bauð henni, naut þess að skoða hið smáa sem og hið stóra, það sem var nærri og hins einnig sem var í fjarskanum. Næmni, styrkur, tilfinning fyrir hinu heila sem og hinu brostna ófust saman í kærleiksríka persónugerð Önnu, sem var veitul, gjafmild, umhyggjusöm og kærleiksrík. Hún var næm og ræktaði með sér tilfinningu fyrir öllu því sem var aumt og sá þau, sem þörfnuðust aðstoðar og stuðnings.

Anna Rögnvaldsdóttir var alltaf lífsins megin.

Upphaf og æfi

Uppeldisumhverfi Önnu var ævintýralegt, alla vega þótti okkur það sem ólumst upp á Grímsstaðaholtinu á sjötta og sjöunda áratugnum. Á bernskuárum Önnu var Holtið jafnvel litríkari og fjölbreytilegri veröld en nú er. Þar bjó fólk úr flestum stéttum og menningarkimum samfélagsins, fólk með fjölbreytilegan bakgrunn og fólk sem sinnti mjög ólíkum störfum.

Allir stjórnmálaflokkar áttu sér fulltrúa í samtali og átökum. Á Holtinu varð til fyrsta sellan á Íslandi og í hverfinu bjuggu háskólakennararnir. Setuliðið hafði mikil áhrif á mannlífið á stríðsárunum og þegar Anna fór að skokka um svæðið voru þar enn margar herbyggingar. Í hverfinu var ekki bara ein tegund kristni og Neskirkja. Rétt hjá heimili Önnu á Fálkagötunni var trúboðsstöð rekin af hjólandi kristniboða, sem var með biblíuvers á spjaldi á hjólinu. Stutt var í fjöruna, stutt á Reykjavíkurflugvöll, í Tívolí í Vatnsmýrinni og stutt niður í miðbæ. Landleiðir voru með rútuverkstæði sín þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Og miðaldir áttu sér afleggjara í húsbyggingum hverfisins. Stutt frá heimili hennar var torfbær við Suðurgötu. Hann var ekki rifinn fyrr en Anna var komin vel á legg. Mikill fjöldi barna var í flestum húsum við Tómasarhaga, Hjarðarhaga og í húsunum við göturnar sem kenndar voru við fugla; Fálkagötu, Þrastargötu, Smyrilsveg og Arnargötu. Grimsby var nærri heimili hennar. Fjöldi smáfyrirtækja voru í hverfinu.

Inn í þennan litríka og oftast skemmtilega heim fæddist Anna Rögnvaldsdóttir þann 1. nóvember, árið 1953. Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Ragnar Gunnlaugsson kaupmaður (1920-1998) og kona hans Hulda Ósk Ágústsdóttir, f. 1931. Ragnar lést fyrir sextán árum, en Hulda lifir dóttur sína og býr enn á bernskuheimili Önnu.

Anna var elst í hópi þriggja alsystkina. Fjórum árum yngri er Ragna, sem fæddist árið 1957. Og Gunnlaugur fæddist svo árið 1961. Áður en þau Ragnar og Hulda hófu hjúskap átti hann af fyrra hjónabandi dæturnar Sigríði Steinu, Sigríði Báru og Þórdísi.

Afi, amma og Maja móðursystir í Lækjargötu tóku þátt í uppeldinu.

Hulda og Ragnar ráku merkilega verslun á horni Fálkagötu og Suðurgötu og allir í hverfinu vissu hvar Ragnarsbúð var. Nærri voru Stebbabúð, Árnabúð og bakarí við Fálkagötuna og svo var KRON við Dunhaga auk sérvöruverslana. Samkeppnin í verslungeiranum var því hörð í hverfinu og allir vissu að vöruúrvalið var gott í Ragnarsbúð. Og svo var líka þekkt að Ragnar gerði sér ekki mannamun. Prófessorarnir nutu sömu fyrirgreiðslu og alúðar og hin sem stóðu höll í lífsbaráttunni. Í Ragnarsbúð var iðkuð mannvirðing og Anna fékk í arf jákvæða mannsýn og var mannúðleg í samskiptum við fólk.

Anna varð fljótt öflugur foringi og varð systkinum sínum ekki aðeins elskuleg stóra systir heldur eins og lítil mamma. Hún sótti skóla í Melaskóla sem var þá sem nú – öflug menntastofnun. Svo lá leiðin í Hagaskóla og þar á eftir í Kennaraskólann. Anna var félagslega hæf og eignaðist því vini – ekki bara í húsunum í kring heldur líka í skólunum. Svo stækkaði kunningjahópurinn eftir því sem hún eltist.

Anna lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973 og kenndi við ýmsa grunn- og framhaldsskóla þaðan í frá og til ársins 1996. Eftir að hún lauk kennararprófi hleypti hún heimdraganum og hóf kennslu í Keflavík. Þar var hún í nokkur ár og flutti svo í bæinn og kenndi við Fellaskóla og fleiri skóla.

Önnu hentaði ekki að staðna eða vera í einni rás í lífinu. Hún vildi gjarnan bæta við sig, auka menntun sína og prófa nýtt. Um tíma bjó Anna í Tulsa, Oklahoma í Bandaríkjunum með manni sínu og stundaði nám í háskóla í þeirri borg á meðan bóndi hennar lærði til flugvirkja. Og á árunum1996-98 stundaði Anna nám í listmeðferð í háskólanum í Hartfordshire í Englandi. Eftir að hún útskrifaðist starfaði hún ýmist við almenna kennslu eða listmeðferð fram til ársins 2013 þegar hún lét af störfum vegna veikinda.

Þórarinn, Ragnar og staðirnir

Svo var það Þórarins þáttur Sigurgeirssonar. Þórarinn sá Önnu í fyrsta sinn þegar hún kom á heimili hans á Sólvallagötunni og átti erindi við systur hans. Þórarinn sá hana í sjónhendingu en gerði sér þó grein fyrir að þar fór “flott stelpa” – eins og hann orðaði það. Þórarinn var síðar verkstjóri í Saltvík á Kjalarnesi. Anna kom þangað í heimsókn til að hitta systur sína, Rögnu, sem var í vinnuhópnum hans Þórarins.

Hópur af ferðaglöðu, ungu fólki ákvað að fara saman í Evrópureisu og á árinu 1976, fóru sex af stað til Kaupmannahafnar. Í þeim hópi voru Anna og Þórarinn. Þau fóru utan sem einstaklingar en komu heim sem par. Og þegar hópurinn hafði ekið á Volkswagen rúgbrauði frá Kaupmannahöfn, yfir Þýskaland, farið um Austurríki, Ítalíu, Frakkland og England voru þau Anna og Þórarinn farin að sjá hvort annað mjög vel. Þegar þau voru komin heim til Íslands flutti Þórarinn með tannburstann sinn og sitthvað fleira inn til Önnu. Síðan þá var hann kletturinn hennar, sól og ljósgjafi. Og Anna var Þórarni öflugur stuðningur og í henni átti hann alltaf tryggan bandamann sem hvatti hann til mennta, dáða og starfa.

Um tíma bjuggu þau Anna og Þórarinn á Sólvallagötu, voru sjö ár í Breiðholti og fluttu svo í Selás árið 1987 og bjuggu þar síðan.

Sonur þeirra Önnu og Þórarins er Ragnar. Hann fæddist árið 1980 og er flugvirki eins og faðirinn. Ragnari var Anna hin besta móðir, kennari og vinur.

Kveðjur

Ég hef verið beðin að flytja þessum söfnuði kveðjur þeirra sem ekki geta verið við athöfnina. Helga og Helgi á Akureyri þakka fyrir vináttu Önnu og biðja fyrir samúðarkveðjur til ættingja og vina. Þá þakka Guðrún, Árni og Hjörtur frá Köldukinn fyrir allar góðu samverustundirnar þegar Anna var í sveit hjá þeim.

Og vert er – á þessum tímamótum – að þakka öllum þeim sem hafa verið Önnu stuðningur fyrr og síðar, s.s. starfsfólki á Líknardeildinni. Auk eiginmanns og sonar hafa systkini Önnu, Ragna og Gunnlaugur, stutt hana og þjónað umfram alla skyldu. Lof sé þeim og þökk.

Minningarnar um Önnu

Hvernig manstu Önnu? Hvað kemur upp í huga? Manst útlit hennar, glæsileika?

Manstu sálargáfur hennar og eigindir? Manstu hve næm hún var, líka viðkvæm? Hún var tengd sínum innri manni og tók mark á víddum sálar og anda. Hún var jafnvel berdreymin og tók mark á draumförum og átti í engum vandræðum með að kafa í táknmál og tilfinningatengingar.

Manstu skopskyn Önnu, að hún gat haft skemmtilega orð á hinu óskemmtilega – og jafnvel gert hið alvarlega og ógnvænlega ofurlítið léttbærara með því að varpa óvæntu ljósi á málin?

Anna var kona orðsins, las mikið – hafði breiðan bókmenntasmekk. Og svo átti hún líka til að skrifa vísur á blað sem hún setti í kompu sína og skúffur. Manstu hve orðheppin hún gat verið?

Manstu hve þjónustufús hún var ávallt og vildi öllum hjálpa? Manstu hjartalag hennar og umhyggju og að hún var reiðubúin að leggja hart að sér til að létt öðrum lífið. Og manstu hve öflug elsta systir hún var og vildi tryggja velferð sinna?

Og svo veislukonan: Getur þú dregið fram í huga veislurnar í hennar húsi og matargnóttina? Anna skipulagði sínar veislur og vandaði til skreytinga og matar.

Og svo kunni hún að dansa. Vissir þú að hún var virkur þátttakandi í Þjóðdansafélaginu á sínum tíma?

Manstu hve listræn Anna var, drátthög, handlagin og kunnáttusöm á mörgum sviðum sjónlista? Hún var sífellt að bæta kunnáttu sína og þjálfaði sig á nýjum sviðum. Því var hún sífellt að eflast sem skapandi listakona og listmeðferðarmenntunin var ekki aðeins í þágu þeirra sem hún þjónaði heldur einnig henni sjálfri – gaf henni dýpt og túlkun sem styrkti hana á eigin þroskaferli.

Og manstu söngvarann Önnu? Kórsöngurnn varð henni fyrr og síðar gleðigjafi. Hún lærði að syngja í Tónlistarskóla Kópavogs, gekk til liðs við Óperusmiðjuna, söng í Kvennakór Reykjavíkur og svo Vox Feminae. Nú syngja vinkonur hennar yfir henni látinni. Þökk sé vinkonum hennar og Guð styrki þær.

Skilin og ferðin inn í eilífðina

Anna hóf lífsferð sína á Grímsstaðaholtinu og lauk henni við Kópavoginn. Skömmu áður en hún dró andann í síðasta sinn syntu tveir hvítir svanir á voginum fyrir framan gluggann hennar. Svanirnir urðu þeim friðartákn, sem voru nærri. Hulda, móðir Önnu hringdi, og bað um að kysst yrði á enni dóttur hennar. Og svo hvarf Anna frá Þórarni og öllum ástvinunum inn í himininn.

Anna málar ekki meira. Hún passar ekki lengur upp á strákana sína eða dekrar við systurdætur sínar. Hún fær ekki að njóta hússins sem verður smíðað næsta sumar norður í Svarfaðardal. Hún eignast engar hænur þar eða hunda og heldur enga ketti heldur. Hún túlkar enga drauma eða skreytir veisluborð. Nú er hún farin.

Og leyfðu henni að fara inn í himininn. Hún trúði á Guð, hún var viss um að lífið væri ekki búið þegar hinu tímanlega lyki. Hún er farin inn í þá veröld, þar sem litirnir eru stórkostlegir, þar sem þokki formsins færa að njóta sín og þar sem ástvinir hennar syngja í risastórum kór eilífðar. Og þar verður söngur því kristnir menn trúa að líf og upprisa Jesú Krists hafi opnað himinveröldina og boðskapur hans sé merkingarbær – að lífið lifir og því beri að syngja. Anna má lifa því lífi og syngja eilífarsöngva.

Guð geymi Önnu og Guð geymi þig.

Amen

Útför frá Fossvogskirkju, föstudaginn, 19. desember, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Edith Thorberg Traustadóttir – minningarorð

Edith Thorberg forsidaMeð pensil í hendi og músík í eyrum. Aldrei var Edith ánægðari en þegar hún var komin í hvíta málarasloppinn sinn með málningartólin tilbúin og málverk varð til og tónlistin ófst inn í liti og vitund hennar. Edith var listræn, hafði auga fyrir fegurð, fyrir litum og einnig fegurð heimilisins. Hún kunni að opna tilveru sína fyrir hinu fjölbreytilega. Skynjun, hugsun og hendur unnu vel saman – ekki aðeins við að skapa mynd heldur líka umhverfi. Listaverkin hennar Edith voru ekki aðeins í ramma heldur á heimilinu – í lífi hennar og fólksins hennar. Og svo umvafði hún börn sín, barnabörn og ástvini með gæsku sinni – þeim til eflingar og gleði.

Í fólki sjáum við inn í veröld og út fyrir veröld. Edith varð samferðafólki sínu hvati til að sjá umhverfi sitt, leita fegurðar, skapa, vakna til vitundar um litríki og möguleika hversdagslistar á heimilum, rækta næmni í list heimila og lífsins. Hún beindi sjónum inn á við og til hinnar dýpri fegurðar. Í því var hún sem góður túlkandi og lærisveinn Jesú Krists sem beindi alltaf sjónum að lífinu, mannfólki, djúpri fegurð smáblóma og dýrmæti lífsbarnanna. Og svo ræddi Edith um drauma og eilífðina við sín börn og opnaði þeim þar með stóra veröld möguleika og merkingar. Hún hafði Guðsneistann í sér, traust til að tengja við trú. Og leyfa síðan öllu þessu marglita og fjölþætta að faðmast í eigin lífi. Í kyrrlátum augum hennar, sem sáu og horfðu fallega, speglaðist ekki aðeins fólk í tíma heldur líka Guð í eilífðinni.

Ætt og upphaf

Edith Thorberg Traustadóttir fæddist í Reykjavík 24. mars árið 1953. Foreldrar hennar voru hjónin Dóra Sigfúsdóttir, hannyrðakona og Trausti Thorberg Óskarsson, tónlistarmaður og rakari. Systkini Edithar eru Elsa Thorberg Traustadóttir og Óskar Thorberg Traustason. Systir hennar dekraði við hana alla tíð og bróðir hennar var hennar stoð og stytta. Þökk sé þeim.

Fjölskylda Edithar bjó í Reykjavík og þar óx hún upp og sótti grunnskóla í borginni. Hún átti góða og gæfuríka bernsku. Í nokkur sumur fóru þær systur í sveit austur í Lambafell undir Eyjafjöllum. Edith talaði um fjölskrúðugt mannlíf þar og getu húsmóðurinnar til að gera gott úr öllu leikjum. Hún setti Edith upp á eldhúsbekk, gladdi hana eða þurrkaði tár af hvörmum og gaf henni mjólk í glas að drekka. Edith mat sveitaveruna svo mikils að hún vildi miðla börnum sínum náttúrupplifun og frelsi sveitarinnar – og fór með þau með sér austur til að sýna þeim samhengi bernskureynslunnar sem hún hafði notið.

Á unglingsárum kom í ljós að Edith var sjálfstæð og þorði að fara eigin leiðir í málum og lífi. Hún var hreinskiptin, sagði sína meiningu og meinti vel. Eftir að hún lauk skóla vann Edith ýmis störf. Hún starfaði t.d. sem símadama og í fiskvinnslu.

Svo fór hún til náms í Danmörk. Edith fór í húsmæðraskóla í Vordinborg. Dóra, listræn móðir hennar, hafði sótt þennan skóla áður og reynsla móðurinnar varð til að dóttirin vildi gjarnan njóta hins sama. Þar upplifði Edith ekki aðeins stranga uppeldisstefnu heldur lærði hún fjölmargt og m.a. hannyrðir. Hún kunni því gat alla tíð saumað það sem hún vildi – og gluggatjöldin á heimili Edithar voru að sjálfsögðu voru heimasaumuð.

Skólanámið efldi með ýmsu móti listiðju Edithar og þá helst helst í vatnslitum og akríl. Alla æfi iðkaði hún list sína. Hún sótti alla fullorðinsæfina námskeið og skóla, sem efldu listfimi hennar. Meira segja eftir að hún veiktist sótti hún nám hjá Fjölmennt og hélt myndlistarsýningar, tók þátt í fjölda samsýninga t.d. í tengslum við List án Landamæra. Edith var mikilvirk í listsköpun sinni og nú gleðja verk hennar marga á heimilum ástvina.

Edith var í mun að fegra heimili sitt. Fjölskyldufólk hennar vitnar um að hún átti ekki í neinum vandræðum með að breyta um lit húsgagna og gefa gömlu framhaldslíf. Edith kunni að bæsa og saumavélin var aldrei langt undan. Og hæfni og kunnátta hennar smitaðist áfram í afkomendum hennar. Svo kenndi hún þeim margt hagnýtt í heimilishaldi og þau vita hvernig á að pússa messing!

Makar og börn

Edith Thorberg - aberandiÁrið 1974 gekk Edith í hjónaband með Þorsteini Þorsteinssyni. Þeim fæddist dóttirin Dóra Thorberg í júlí og fékk hún nafn frá ömmu sinni. Dóra lést árið 1991 – á unglingsaldri, tæplega sautján ára – allri fjölskyldunni mikill harmdauði. Skuggi láts hennar er langur í lífi ættmenna hennar. Þorsteinn og Edith skildu.

Seinni eiginmaður Edithar var Sigurður Brynjólfsson. Börn þeirra eru tvö. Sesselja Thorberg Sigurðardóttir er eldri. Hún fæddist 10. júlí 1978. Sesselja er hönnuður og þekkt í þjóðlífinu sem Fröken Fix. Eflaust nýtur hún einhvers úr uppvexti, hugrekki móðurinnar til að skapa, endurvinna og raða betur. Eiginmaður Sesselju er Magnús Sævar Magnússon (f. 3.08. 1976). Þeirra barn er Matthías Thorberg Magnússon. Fyrir átti Sesselja Ísak Thorberg Aðalsteinsson og Magnús Sævar átti fyrir Láru Theodóru Magnúsdóttur.

Ísak varð ömmu sinni sérstakur gleðigjafi, enda fæddist hann áður en hún missti heilsuna. Hún gætti Ísaks í frumbernsku og þegar Sesselja fór í skóla.

Seinna barn Edithar og Sigurðar er Trausti Ómar Thorberg Sigurðsson. Hann fæddist 22. janúar árið 1980. Edith miðlaði til hans andlegri næmni og getu sinni sem varð til að hann lærði nudd og starf við grein sína. Eiginkona Trausta er Kristín Erla Þráinsdóttir. Þau eiga dótturina Thelmu Maríu Traustadóttur.

Edith var mjög umhugað um ástvini sín og bjó börnum sínum gott heimili. Hún hvatti börnin sín svo þau fengu trú á sjálfum sér til náms og starfa. Edith var vinur unga fólksins og kom fram við vini barna sinna sem jafningi. Edith elskaði tengdabörnin sín og talaði hún oft um þau sem sín eigin. Þegar barnabörnin komu síðan í heiminn eignuðust þau traustan vin í ömmu sinni. Ísak var fyrstur og svo bættist Lára Theodóra við sem ömmustelpa þegar Sesselja og Magnús tóku saman. Nokkrum árum síðar kom Thelma María í heiminn og Matthías er yngstur ömmubarnanna. Edith fyldist grannt með þroskaferli afkomenda sinna, málþroska, áhugamálum, nýjum tönnum og lestrarbókum. Hún naut samvista við vini og fólk og eftir að hún varð fyrir heilablóðfalli. Edith naut mjög fjölskylduskemmtana og matarboða.

Minningar

Hvaða minningar áttu um Edith? Manstu hve andlega þenkjandi hún var? Manstu trú hennar og traust á Guð. Á seinni árum sótti hún samkomur hjá trúarsamfélaginu Salt sem fundar í Grensáskirkju í Reykjavík. Þar átti hún góða og kæra vini þar sem hún fékk næringu fyrir trú sína og gat sinnt félagsþörf sinni í samfélagi. Og Edith miðlaði trausti sínu og trú til barna sinna og veitti þeim næringu með ýmsum hætti sem hefur skilað börnum hennar mikilvægri vídd lífsins. Hún náði að miðla börnum sínum vitund um margbreytileika lífsins. Hún bjó til stundir sem urðu börnum hennar dýrðlegar því draumar næturinnar voru ræddir og líf þessa heims og eilífðar skoðað.

Ein af myndunum á baksíðunni er myndverk Edithar. Hún varð hún fyrir sterkri reynslu þegar hún var nærri dauða. Þá upplifði hún að sendiboðar – englar – Guðs kæmu til hennar og miðluðu til hennar að hennar tími væri ekki kominn. Svo málaði hún englana og hafði trú á djúpri reynslu og lifði ríkulegu andlegu lífi.

Manstu hve skemmtileg Edith var, að hún var stuðpinni þegar hún var fullfrísk? Manstu dansinn hennar þegar hún var ung? Og börnin hennar muna glens, gaman og stuðið í móður þeirra á góðum dögum.

Manstu hve hjálpsöm hún var og hve góður vinur hún reyndist vinum sínum? Og svo var hún sínu fólki til taks þegar á þurfi að halda og dugleg að rétta fram hjálparhönd?

Manstu lífseigju hennar og lífsvilja? Manstu umhyggju fyrir ástvinum?

Þið sem eldri eruð munið kannski að Edith þorð að fara á móti straumnum, var svolítill “rebel” á unglinsárunum. Og það er við hæfi að útför hennar skuli vera á siðbótardeginum. Marteinn Lúther þorði að fara á móti straumi. Hann negldi – á þessum degi fyrir 497 árum – siðbótarkenningar sínar á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Sá gjörningur breytti heiminum. Og Edith breytti heimi ástvina sinna, var ykkur mikilvæg og snerti líf ykkar með svo margvíslegu móti.

Edith varð fyrir heilablóðfalli árið 1997 sem breytti lífsháttum hennar algerlega. Eftir endurhæfingu á Grensásdeild LSH átti hún heimili á Sjálfsbjargarheimilinu Hátúni 12 í Reykjavík. Hún lifiði í núinu, naut samvista við fólkið sitt, sótti listsýningar bæði með fjölskyldumeðlimum og vinkonu. Og svo hitti hún vini sína í Grensáskirkju. Síðasta árið varð Edith erfitt þegar heilsu hennar hrakaði enn frekar. En alltaf bað hún bænirnar sínar á hverju kvöldi og bað fyrir hverjum og einum. Og ykkur ástvinum skal þakkað fyrir umhyggju gagnvart henni og þið vinir hennar hafið blessað hana með ýmsu móti. Guð blessi ykkur.

Og nú er Edith farin inn í himininn. Enginn hjólastóll og engar hömlur. Engir grænir skór eða hvíti málarasloppurinn. Nú er hún komin inn í hið mikla gallerí himinsins, þar sem allir mega mála, allir mega tjá sig og vera. Og galleristinn er Guð, sem teiknar veröldina fagurlega, litar og laðar allt það fegursta fram. Guð sem kann að bæsa og bæta, endurraða og hugsa allt upp á ný – og kemur sjálfur. Edith mat engla mikils og nú er engiltilveran hennar. Edith var góður fulltrúi Guðs í veröldinni og nú er hún komin til sinna án nokkurrar fötlunar.

Guð geymi hana í eilífð sinni og Guð geymi þig.

Amen

Kveðja frá Guggu, bestu vinkonu Edithar frá því þær voru fjórtán ára gamlar. Gugga er erlendis.

Elna Ósk og börn í Noregi báðu fyrir kveðju.

Regína og Bjarni, vinafólk í Svíþjóð, þakka fyrir vináttu Edithar og biðja fyrir samúðarkveðjur til ættingja og vina.

Bálför og jarðsett síðar í Fossvogskirkjugarði.

Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð í Fossvogskirkju, föstudaginn, 31. október 2014.

Guðlaug Þórarinsdóttir – minningarorð

Í sálmaskránni eru hrífandi myndir af Guðlaugu – og ástvinum hennar. Myndin af henni í rútunni er skemmtilega laðandi. Þar stendur kona traustum fótum, styður höndum á stólbök. Stór rúta er umgjörðin og sterkir litir áklæðis og innréttingar mála bakgrunn Guðlaugar bílstjóra, Guðlaugar framkvæmdastjóra og Guðlaugar dugnaðarkonu.

Svo vakna aðrar áleitnar myndir þegar Guðlaugar er minnst. Ein myndin spratt fram í frásögn ástvina. Hún er ekki í sálmaskránni heldur í minni fjölskyldunnar og hugum þeirra sem hafa heyrt. Fjölskyldan í Fagurhlíð var segja skilið við heimasveit og að flytja út í Mosfellssveit. Elín, mamman, fór með systkinin í rútu út úr – eins og – Skaftfellingar segja, en Guðlaug var sú sem fór með pabbanum á vörubílnum yfir vötn og sand. Í Guðlaugu var dugur, geta, festa og máttur – henni var treyst til volkferðarinnar.

Myndin sem hefur verið uppteiknuð af Guðlaugu fyrir mig er af öflugum Skaftfellingi sem átti í sér margt af andlegum djásnum sem urðu til í glímu við máttuga náttúru. Svo agaði hún sjálfa sig til gæða og góðs lífs.

Uppaf og ætt

Guðlaug Þórarinsdóttir fæddist 7. desember árið 1925, í Fagurhlíð í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin og bændurnir Elín G. Sveinsdóttir og Þórarinn Auðunsson. Guðlaug var önnur í röð fjögurra systkina. Elst var Valgerður og yngri voru Ólöf og Sveinn. Þau eru nú öll látin.

Heimilsbragurinn í Fagurhlíð var fagur. Elín, mamman á heimilinu, var einstök kona, sem óf kærleika í fjölskylduvefinn. Foreldrarnir skópu gott heimilislíf og samskipti. Því var kært milli systkina. Guðlaug ólst upp í ástríkri og samheldinni fjölskyldu. Því minntist hún æskuára, Fagurhlíðar og æskustöðva með gleði. Hún talaði gjarnan um smágerða en jafnframt stórbrotna náttúruumgerð og einnig um dýrin. Í minningunni virtist henni að sólin hefði skinið samfellt á bernskuárum hennar eystra. Og á Þykkvabæ í Landbroti byrjaði hún skólanám sitt. Þangað var um tuttugu mínútna gangur frá Fagurhlíð.

Svo var dugur í öllu fólkinu hennar. Þórarinn, faðir Guðlaugar, var framkvæmdamaður og var með þeim fyrstu eystra, sem virkjaði bæjarlækinn og smíðaði líka spunavél til hagsbóta fyrir heimili. Hann var laghentur og kunnáttusamur í besta lagi. Guðlaug var alin upp við að lífið sækti fram og fólk gæti beitt sér og til bættra lífskjara.

Elín, móðir hennar – ættuð frá Reyni í Mýrdal, lýsti Guðlaugu sem ákveðinni og duglegri og að hún hafi alltaf sóst eftir að vera best í því sem hún tók sér fyrir hendur. Guðlaug vildi alltaf gera vel við fólk, heimafólk og alla gesti. Hún var jafnframt óhrædd að fara út fyrir ramma hins venjulega ef það þjónaði góðu markmiði. Í fjölskyldunni lifir saga um að þegar Guðlaug var barn vildi hún að mamma hennar bakaði lummur með kaffinu. Hún fékk þó þau svör að ekki væri til eldiviður til þess. Guðlaug brá sér frá, sótti dúkkurúmið sem pabbi hennar hafði smíðað, braut það og rétti móður sinni spýturnar með þeim orðum að nú væri kominn eldiviður!

Guðlaug var dugmikil til náms. Henni gekk vel í skóla, var leikin með tölur og hafði gaman af reikningi. Hún teiknaði mikið og eftir hana liggja náttúrumyndir. Á mörgum eru blóm og dýr fyrirmyndir. Þá var hún tónelsk. Á bernskuheimili hennar var mikið sungið og hún hafði æ síðan yndi af söng og tónlist. Hana langaði að læra á píanó en til þess voru ekki ráð á þeim tíma, en hún sá til þess að börnin hennar nytu þeirrar tónlistarmenntunar sem þau vildu.

Fjölskyldan fluttist frá Fagurhlíð árið 1940 að Skeggjastöðum. Á árunum 1941-1943 sótti Guðlaug nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Bóksækinn unglingurinn gladdist yfir skólaverunni. Henni leið vel á Laugarvartni, sóttist nám hið besta og var virk í söng og félagsstarfi.

Einmaður, fjölskylda og fyrirtæki

Á Laugarvatni kynntist hún eiginmanni sínum, Ingvari Sigurðssyni frá Efstadal (f. 18. Júlí 1919, d. 2. Júní 1990). Þau Guðlaug og Ingvar gengu í hjónaband þann 13. júní 1945 og hófu búskap í Reykjavík. Börn þeirra Guðlaugar eru Sigríður, lögfræðingur og fyrrverandi héraðsdómari. Maður hennar er Stefán Ingi Þórhallsson. Börn Sigríðar eru Þóranna og Ingvar. Þór er annar í röðinni og starfar sem framkvæmdastjóri Þingvallaleiðar. Kona hans er Ólafía Jóna Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Björg María, Róbert Þór, Reynir Ari og Guðlaug Rut. Elín er þriðja og hún starfar sem aðstoðarkona. Maður hennar er Karl Reykdal Sverrisson. Sigurður er svo yngstur. Hann er forstöðumaður á Keldum. Kona hans er Þórunn Marsilía Lárusdóttir. Þau eiga börnin Lárus, Tinnu og Val. Langömmubörn Guðlaugar eru 13 talsins.

Ingvar var bílstjóri og þau Guðlaug kynntust á Laugarvatni. Hann hreifst af því að hún dekraði við hann umfram allar hinar stúlkunar sem færðu bílstjórunum mat á hótelinu. Það var ekki ætlast til þess að þeir fengju annað en vatn með matnum en þegar hann leit til Guðlaugar með bros í fallegu augunum og hvíslaði: “Gulla áttu mjólk” – þá gaf hún honum mjólk með matnum. Þetta kunni hann að meta og þau felldu hugi saman.

Guðlaug og Ingvar festu kaup á fokheldri hæð í Drápuhlíð 17 þar sem þau bjuggu í tæp 40 ár. Börnin þeirra fjögur fæddust í Drápuhlíðinni og ólust þar upp. Þau fóru gjarnan með fjölskylduna í heimsókn í Efstadal og að Hlíð í Mosfellsbæ þar sem foreldrar Guðlaugar bjuggu eftir að hún flutti að heiman.

Guðlaug hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hvatti þau til náms og að stæla sig til þroska í skóla og lífi. Sjálf var hún traust og miðlaði festu til ástvina sinna.

Ingvar vann við akstur, bæði á hópferðabílum og einnig sem leigubílstjóri. Svo bauðst þeim Guðlaugu að kaupa sérleyfi og bíla og þau stofnuðu fyrirtækið Þingvallaleið, sem fékk nafn af sérleiðinni. En svo bættist sérleyfið til Grindavíkur við og þau Guðlaug voru samstiga og samhent. Ingvar ók mikið og var dugmikill. Guðlaug tók svo rútupróf, ein fyrst kvenna á Íslandi. Hún varð því fyrirmynd um að störf voru ekki einokuð af kynjum. Kona gat ekið eins vel og karl. Guðlaug ók bílum og rútum Þingvallaleiðar í áratugi og sinnti öllu því sem gera varð í akstri og rekstri fjölskyldufyrirtækisins. Og enn er Þingvallaleið til, hefur aðlagast nútímanum í rekstri og nafngift – Bus Travel og svo er þar líka Þingvallaleið. Allt til lífsloka lét Guðlaug sig varða hag og velferð Þingvallaleiðar – en nú hefur næsta kynslóð tekið við.

Eigindir

Guðlaug var glaðsinna og félagslynd. Hún hafði mikinn áhuga á söng og lengi æfði kór á heimili hennar því þar var píanó. Svo söng hún við húsverkin. Guðlaug lét til sín taka í félagsstarfi kvenfélags Háteigssóknar og sinnti einnig sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn.

Hún var trúrækin og kirkjurækin – bjó löngum í Hlíðunum og því tengdist hún Háteigskirkju. Guðlaug hafði gaman af dansi og yngri árum tók hún m.a. þátt í starfi Þjóðdansafélagsins.

Heimili Guðlaugar og Ingvars var stórt og gestkvæmt. Flest börn þeirra hófu búskap í Drápuhlíðinni hjá þeim og bjuggu þar fyrstu árin með maka og jafnvel börn. Þá áttu ýmsir vinir og ástvinir þar heimili um skeið, m.a. Elín móðir Guðlaugar, Ólöf systir hennar ásamt manni og tveimur sonum, nokkur systkinabörn þeirra Guðlaugar og Ingvars, ættingjar tengdabarna og fleiri.

Svo komu barnabörnin inn á heimilið og Guðlaug taldi ekki eftir sér að gæta að ömmudreng um leið og hún reddaði einhverjum ferðum fyrir Þingvallaleið eða sinnti skrifstofustörfum fyrirtækisins. Svo sá hún um fjármál sonar síns og leigði húsnæði unga fólksins þegar þau bjuggu erlendis. Hún var rismikill forstjóri á heimili, í fyrirtæki og meðal ættmenna sinna.

Veisluhöld og ræktarsemi við fjölskyldu og vini voru henni mikilvæg. Þá las hún mikið og sagði sjálf að hún væri alæta á bækur.  Þá hafði hún einnig gaman að því að grípa í spil.

Guðlaug var listfeng og hannyrðir léku í höndum á henni. Hún fór létt með að sníða og sauma allar flíkur á sjálfa sig og fjölskylduna. Þá liggur eftir hana heilmikill útsaumur og prjónaskapur.

Guðlaugar verður minnst sem einstakrar konu og stórbrotins persónuleika. Hún var í senn frumkvöðull, brautryðjandi og fyrirmynd, kraftmikil, ákveðin og stórtæk, gestrisin, gjafmild og hlý.

Eilífðin

Og nú hefur hún farið síðasta túrinn. Ekki lengur austur í Þingvallasveit eða til Grindvíkur, heldur inn í himininn, hina bestu Fagurhlíð. Þar eru góðir vegir, fín sérleyfi og gaman að keyra ef að líkum lætur. Engar afkomuáhyggjur, sprungin dekk eða bílstjórar sem ekki koma á vaktina. Þar hefur Guðlaug hitt allt sitt fólk og alla ástvini.

Guð geymi hana og varðveiti ykkur ástvini hennar.

Tinna Sigurðardóttir, barnabarn – í Ástralíu – biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Minningarorð við útför í Háteigskirkju á siðbótardeginum 2014, 31. október.

Jóhann Þorsteinsson – minningarorð

Jóhann hafði gaman tækjum og gerði sér grein fyrir möguleikum tækninýjunga og hann nýtti þær. Jóhann var ágætlega hæfur í notkun á tölvum og gat jafnvel tekið sundur bilaða tölvu til að laga. Engin hræðsla eða ótti við sýndarheima og tækniveröld. Það var gaman að hlusta á fólkið hans Jóhann segja frá getu hans til að fanga nýungar. „Þú hefðir átt að vinna við tölvur“ var sagt við hann þegar hann var í Boston og tjáði getu hans til skapandi vinnu á tæknisviðinu.

Svo hlustaði ég á dætur hans segja frá myndasmiðnum Jóhanni. „Merkilegt“ hugsaði ég. Jóhann hafði auga fyrir hinu sérstaka og vildi fanga augnablikið. Hann fór því að taka myndir, tók myndir á súper 8 filmu, síðan vídeómyndir og svo kom tölvufærnin honum til góða og hann færði gömlu myndirnar yfir á vídeospólur og síðan yfir á DVD-form. Gömlu myndirnar voru uppfærðar, myndir og myndskeið af fólkinu hans voru endurnýjaðar á því sniði sem notað var á hverjum tíma. Og breytingarnar hafa verið hraðar eins og þau vita sem fylgst hafa með byltingunni, sem hefur orðið í myndageiranum, frá tímum filmu til starfrænnar töku og vinnslu. Og Jóhann tók myndir af mörgum ykkar og náði að vera skrásetjari stórfjöskyldunnar, sem hefur líklega ekki verið upphaflegt markmið hans. Myndasafnið hans er dýrmætt og ber að varðveita og endurnýja ef hægt er – taka afrit af því og helst setja á vefinn og þar með að smella myndskeiðunum á youtube!

Mynd af Jóhanni myndasmið varð mér áleitin. Hann tók ekki aðeins myndir af skýjum, fjöllum eða viðburðum í þjóðfélaginu. Hann var ekki fréttaljósmyndari eða landslagsljósmyndari. Hann tók myndir af fólkinu sínu, heima og heiman, í fjölskylduboðum og á ferðalögum. Hvernig er ljósmyndari? Jafnan aftan við tækið, stendur oftast utan sjónsviðs myndavélarinnar, beinir linsunni að viðfangsefni og myndefni. Kannski var það sjálfvalin staða Jóhanns að taka af öðrum eða öðru og vinna síðan með það efni. Stundum fór Jóhann einförum, fáir sáu hann allan eðu þekktu djúp sálar hans. Hann fór sinna ferða og kynntist mörgum, en fáir urðu honum nánir eða náðu til hans að baki linsu lífsins. En hann beindi sjónum og sjónglerjum sínum til þín, til fjölskyldunnar, hafði það mikinn áhuga á ykkur að hann vildi taka af ykkur myndir. Og þessar myndir eru síðan erfðagjöf hans til ykkar, til fólksins sem lifir hann. Hann þjónaði ákveðnu hlutverki í lífi ykkar og svo skilar hann af sér.

Hver skyldi vera mesti myndasmiður þessarar veraldar. Það er ekki einher ljósmyndari í sögu sjónlista. Heldur hver? Guð – sem sér þessa veröld, skugga og ljós. Er ljósgjafinn sem lýsir upp myndsviðið allt, sér alla leikarana og beinir sjónglerjum sínum að lífinu. Ekki til að sjá misfellur, bresti og áföll, heldur til að gefa líf. Guð skannar ekki aðeins, tekur ekki aðeins mynd af fólki og veröldinni. Guð sá allt og kom svo sjálfur í rammann til að tryggja að allt færi vel.

Við sjáum í Jóhanni mynd manns sem gat svo margt og m.a. sá fólk en var líka mennskur í því að hann náði aldrei að leysa alla hnúta. En svo er hann farinn inn í stóran himinn og þar er Guð sem leysir allt, sér allt og tekur nýja mynd af heiminum sem er betri en allar aðrar.

Og nú er komið að því að við lyftum upp nokkrum mynd af Jóhanni Þorsteinssyni, lífi hans, ferli og upplifunum þínum af honum.

Upphaf og samhengi

Jóhann Þorsteinsson fæddist í Stykkishólmi 5. nóvember árið 1935. Þetta var tíminn milli stríða. Stykkið var á sínum stað og hæðir og hólar Hólmsins urðu skjól til lífs og leikja. Svo var stutt í töfrastaðinn Helgafell. Það var gaman að vaxa úr grasi í Stykkishólmi og mannlífið var fjölbreytilegt, myndríkt og gott.

Foreldrar Jóhanns voru Veronika Konráðsdóttir (1909) og Þorsteinn G. Þorsteinsson (1906). Hún var úr Ólafsvík, en ólst upp í Hólminum hjá Jósafat Hjaltalín og Ingveldi Jónsdóttur. Þorsteinn var úr Hafnarfirði. Veronika og Þorsteinn kynntust fyrir sunnan en þegar Ingveldur, fósturmóðir Veroniku, lést bað Jósafat, fóstri hennar, unga fólkið að koma og það varð úr. Þau tóku sig upp og fóru í Stykkishólm.

Pétur var elstur þeirra systkina og fæddist árið 1929, og síðan kom María í heiminn tæpum tveimur árum síðar. Jóhann var þriðji í röðinni en yngstur var Sveinn sem kom í heiminn árið 1937. Þau eru nú öll farin inn í himininn. Jóhann var síðastur í röðinni.

Foreldrarnir vildu að börnin þeirra nytu skólagöngu og menntuðust. Jóhann gekkst við þeirra þrá. Hann gekk fyrst í skóla fyrir vestan. En svo var komið að því að Pétur færi í skóla fyrir sunnan og þá voru góð ráð dýr. Þau Þorsteinn og Veronika seldu eignir sínar á Snæfellsnesi og keyptu sér hús í Efstasundi. En tíminn var erfiður og vegna atvinnuleysis sáu þau á bak húsi sínu í Sundunum. Þá bar auðnan þau hingað vestur í bæ og í þann sögufræga Camp Knox. Jóhann fór í Melaskóla. Síðan flutti fjölskyldan inn í Hlíðar og Bogahlíð 18 varð eins konar fjölskyldumiðstöð allt þar til Þorsteinn og Verónika létust.

Þegar Jóhann hafði lokið grunnnámi voru ýmsir kostir í stöðunni en niðurstaðan var að hann fór vestur í Núp við Dýrafjörð og var þar tvo vetur, frá 1949-51. Á Núpi lauk hann landsprófi. Síðan fór hann strax í Samvinnuskólann í Reykjavík og starfaði síðan í Ríkisbókhaldi til ársins 1956. Þaðan lá leiðin vestur í Ólafsvík en þar var kaupfélagið Dagsbrún og varð starfsstöð Jóhanns í tvö ár. Þá tók við sjósókn sem síðan leiddi til náms í Sjómannaskólanum.

Vegna þessarar breiðu menntunar og starfsreynslu voru Jóhanni margir vegir færir. Hann hafði stýrimannsréttindi og var því á sjó og stýrði bátum. Hann vann líka á landi og við verslunarstörf.

Dætur hans Jóhanns

Pétur, bróðir Jóhanns, var kaupfélagsstjóri vestur á Bíldudal. Það varð úr að Jóhann fór til bróður síns og vann við kaupfélagið á virkum dögum. En svo var það hinn músiklipri Jóhann sem spilaði á harmónikuna um helgar og lék fyrir dansi. Og líf Jóhanns var ekki aðeins fjölbreytilegt hvað vinnu varðar heldur hafði áhrif á líf hans með margvíslegum hætti. Hann kynntist færeyskri stúlku á Bíldudal. Hún heitir Nicolina Susanna og er Bjarnason Hojgård og þau eignuðust dóttur 4. febrúar árið 1958. Hún fæddist í Færeyjum og heitir Sólrit og býr í Þórshöfn. Bjarni Berg er maður hennar. Sólrit er hjúkrunarfræðingur og hann tónlistarmaður. Þau eiga fjögur börn. Þau eru Runa, Ingmar, Björk og Tóki.

Nicolina og Jóhann bjuggu ekki saman og hún fór til Færeyja áður en dóttir þeirra fæddist og því varð langt milli Sólrit og föður hennar og samband komst ekki á fyrr en á fullorðinsárum hennar. Jóhann sendi Sólrit skeyti þegar hún var átján ára og sendandinn var pabbinn á Íslandi. Þaðan í frá uxu tengsl og með auknum samskiptum.

Jóhann tók saman við Halldóru Sveinbjörgu Gunnarsdóttur. Hún var frá Bíldudal. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband á þjóðhátíðardeginum 1964. Þau Halldóra og Jóhann eignuðust eina dóttur. Hún heitir Arnbjörg Linda og fæddist 27. september árið 1959. Linda er nálastungu- og grasalæknir og kennari í þeim fræðum. Börn hennar eru Halldóra, Yvonne og Irene. Halldóra og Jóhann skildu eftir liðlega tuttugu ára hjúskap.

Atvinna og störf

Jóhann var fjölhæfur og gat margt. Með Samvinnuskólapróf stóðu honum margar dyr opnar. Hann starfaði ekki aðeins við kaupfélagið á Bíldudal. Um tíma var hann kaupfélagsstjóri í Vestannaeyjum. Jóhann var oft á vertíðum á yngri árum, m.a. í Grindavík. Og útgerðin heillaði þá bræður Pétur og Jóhann svo að þeir gerðust útgerðarmenn og Jóhann var oft við stjórnvölinn á bátunum sem þeir gerðu út, 40-60 tonna bátum.

Svo fór Jóhann í land og rak frystihús um tíma við Súðavogi. Og Jóhann lærði þar með á alla þætti fiskveiða og fiskvinnslu og varð verðmætur starfsmaður með yfirlit og tækniþekkingu í útgerðar- og vinnslugeiranum. Jóhanni bauðst vinna í frystihúsi í Masachusetts í Bandaríkjunum. Hann fór utan árið 1979 til að miðla íslensku fiskvinnsluviti. Og vestra saug hann í sig það sem efst var á baugi, kynnti sér viðmið í menningu og nýjungar í tækni. Meðal annars hreifst hann af bílaþvottaaðferðum í Bandaríkjunum.

Þegar Jóhann kom heim um 1984 slitu þau Halldóra samvistir.

Jóhann flutti í fjölskylduhúsið í Bogahlíðinni. Þá var þar í húsinu Björg Björgvinsdóttir, jafnaldra Jóhanns. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku og kynntust að nýju, hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki sem seldi “heita potta.” Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005 er þau seldu reksturinn. Árið 2006 greindist Björg með krabbamein, náði heilsu um tíma en svo tók mein sig upp að nýju og ekki var við neitt ráðið. Björg lést árið 2012.

Myndirnar

Þetta eru nokkrar myndir úr lífi Jóhanns. Hvaða myndir lifa í huga þér og hvaða myndir hefur þú tekið af honum og vilt varðveita?

Manstu tímaskyn hans? Jóhann gat sprottið upp seint að kvöldi og farið í bíltúr!

Hann var ákveðinn og stefnufastur. Einu sinni varð eftir hjá honum bók sem hann gluggaði í: The easy way to stop smoking. Og hann tók efnið til sín og steinhætti að reykja, og hafði þó reykt mikið áður.

Manstu hvernig hann leit út? Fötin hans. Tengslin við hann? Manstu áherslu hans á frelsi manna og pólitískar skoðanir hans? Manstu eftir bókunum hans og um hvað hann talaði? Manstu eftir ferðum hans niður að höfn? Manstu eftir bílstjóranum, sem keyrði hratt og hve lipur hann var þrátt fyrir hraðann? Manstu tengsl hans við systkini hans og fjölskyldustíllinn?

Og manstu eftir ljósmyndaranum Jóhanni að beina linsu að þér? Nú beinir þú þinni lífslinsu að Jóhanni og skoðar myndirnar á þessum tímamótum. Hverjar eru góðar og hugnast þér? Þú heldur í þær, hinar sem eru síðri falla í gleymsku tímans. Farðu vel með myndasafnið og lærðu að vinna með það, ekki bara myndasafn í tölvum og albúmum – heldur myndasafn tilfinninga, afstöðu og innri manns. Lærðu að halda í það sem er gott og mikilvægt en gerðu upp við hitt. Í því er viskan fólgin. Hvað lærðir þú af Jóhanni sem var gott og getur dugað þér til lífs með öðrum?

Jóhann tekur ekki fleiri myndir, skoðar enga tölvu og færir ekkert á milli tækniveralda lengur. Hann er farinn inn í vinnsluminni himinsins – sem á sér engin takmörk og þar verður aldrei kerfishrun.

Svo er besti myndasmiðurinn Guð. Guð beinir allri sinni athygli að mönnunum og þar með Jóhanni, sér hann allan og vinnur með mynd hans. Og Guð horfir alltaf með elsku. Linsur hans eru linsur kærleikans. Og Guð beinir sjónum sínum að þér og horfir á þig með kærleiksaugum og yfirgefur þig aldrei.

Guð geymi Jóhann og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja hjá Veroniku og Ólafi í Urriðakvísl 4.