Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Guðrún Birna Þorsteinsdóttir – Dúna


DúnaDúna var heimakona í Neskirkju. Hún bjó í Vesturbænum frá því kirkjan var byggð og rataði í kirkjuna sína. Hún sótti kirkju, messur, bænastundir og fræðslustarf og studdi starf safnaðarins. Hún las upp fyrir eldri borgara og gerðist bílstjóri fyrir þau sem átt óhægt með að ganga til og frá kirkju. Dúna kom alltaf í Neskirkju með bros á vör og birtu í augum, með elskusemi, hlýju og glæsileika. Þegar Dúna kom varð allt heldur skemmtilegra og betra og þegar hún fór skildi hún eftir ofurlitla Cartier-ilmvatnslykt, notalegheit og þakklæti í huga okkar sem störfuðum í kirkjunni. Við þökkum fyrir alla þjónustu Dúnu, vinsemd hennar og elskusemi.

Upphaf

Guðrún (Anna) Birna Þorsteinsdóttir fæddist á Þingeyri 14. september árið 1936. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmunda Sigríður Guðmundsdóttir og Þorsteinn Jónsson, sem kallaður var Eyfirðingur. Þorsteinn fæddist árið 1883 en kona hans tæplega þretán árum síðar. Hún var Vestfirðingur en hann Eyfirðingur eins og viðurnefnið ber með sér.

Þorsteinn var skipstjóri og útgerðarmaður og vegna starfa hans bjó fjölskylda Dúnu fyrstu árin á Þingeyri en flutti svo til Reykjavíkur. Þar bjó Dúna síðan. Hún hóf skólagöngu í Miðbæjarskólanum og fór svo í hinn nýja Melaskóla. Síðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Verknáms. Þar naut hún góðrar menntunar og eignaðist góðar vinkonur og þær átttu skap saman – og ákafinn í náminu var svo mikill að þær jafnvel lokuðust einu sinni inni í Austurbæjarskóla og kalla þurfti út mannskap til að ná þeim út. Vináttu þessara kvenna naut Dúna til æfiloka. Eftir verknámið fór Dúna í eitt ár til náms í Bristol í Englandi og enn síðar í húsmæðraskóla í Holbæk í Danmörk. Hún lærði ekki aðeins hagnýt fræði og tungumál heldur var opin félagslega og tengdist fólki greiðlega. Vináttuböndin sem hún batt á þessum árum dugðu til lífsloka.

Þegar Dúna koma heim til Íslands eftir nám erlendis vann hún ýmis skrifstofustörf í Reykjavík. Hún vann um tíma á lögfræðistofu Einars Ásmundssonar og svo vann hún einnig á Hótel Borg. Hún var flugfreyja hjá Loftleiðum á sjötta áratugnum og var síðan móttökuritari á Domus Medica. Þá lagði Dúna sig eftir snyrtifræði og vann um tíma í snyrtivörudeild í apóteki.

Gunnar, Sigrún Magnea og fjölskyldan

Dúna og Gunnar - hjónavígslumyndGamli Garður var Dúnu og lögfræðinemanum, Gunnari I. Hafsteinssyni góður staður. Þar hittust þau fyrst á balli. Þau hrifust hvort af öðru og tóku upp samband. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni þann 25. júní árið 1960. Neskirkjupresturinn og rithöfundurinn Jón Thorarensen gaf þau saman. Þau hófu búskap á Seltjarnarnesi. Gunnar hélt áfram námi í lögfræðinni og eins og tíðkaðist á þeim árum hættu giftar konur að fljúga um heiminn þegar þær sögðu já við mannsefni sínu í kirkjunni. Dúna fékk þá vinnu í Reykjavík.

Þau Dúna og Gunnar keyptu sér íbúð á Víðimel skömmu eftir að hann lauk lögfræðinni árið 1963 og fluttu sig svo um set yfir á Meistaravelli til að geta verið í nágrenni við móður Dúnu sem þar bjó. Á Hagamel bjuggu þau Gunnar svo í nokkur ár og byggðu sér síðan einbýlishús í Skerjafirði þar sem þau hafa búið í 18 ár. Gunnar hefur starfað sem lögfræðingur og útgerðarmaður.

Þau Dúna og Gunnar eignuðust eina dóttur Sigrúnu Magneu. Hún er jólabarn, fæddist 25. desember 1973. Sigrún Magnea er leikskólakennari að mennt. Eiginmaður hennar er Benedikt Sævar Magnússon, byggingatæknifræðingur. Þau eiga fjórar dætur. Elst er Bergljót Soffía sem fæddist 27. maí 1998 og næst Inga Birna. Hún er vorstúlka, fæddist 10. apríl árið 2002. Freyja Dís fæddist árið 2005. Hún er líka fædd að vorlagi eða 8. apríl. Það eru því stutt á milli afmæla þeirra systra, bara einn dagur. Yngst systranna er Lóa Mjöll. Hún er fjögurra ára, fæddist 29. marz árið 2011.

Dúna hafði mikla gleði af ungviðinu i fjölskyldunni, talaði oft um dótturdætur sínar, kenndi þeim að biðja og var til staðar fyrir þær þegar hún hafði heilsu til. Hún miðlaði okkur prestum og starfsfólki kirkjunnar fréttum af þeim og afrekum þeirra. Og það var gaman að hlusta á hana segja sögur af þessum ungu konum sem hún batt miklar vonir við og syrgði að geta ekki fylgt eftir.

IMG_0212 fix (2)

Minningarnar

Hvrernig manstu Dúnu? Hvað kemur upp í hugann? Hún vakti athygli allra þeirra sem sáu hana. Svo smekkleg var hún og glæsileg. Húsmæðranám var hagnýtt en Dúna hafði allt í sér til að kunna að meta efni, snið, rými, liti, útlit og skipulag. Hún var smekkvís og vissi vel hvað við átti í hvert sinn. Hún var öðrum fremri að tengja saman liti.

Hvernig er heimili Dúnu? Þar eru engin stílbrot. Hús og heimili þeirra Gunnars í Skerjafirði er eitthvert það smekklegasta sem ég hef komið á. Dúna lagði alúð í að búa manni sínum og fjölskyldunni fagurt heimili. Fagurkerinn í henni naut sín til fulls við að koma myndum fyrir og sjá til að stólar og sófar væru rétt staðsett í rýminu. Hún hafði gleði af fallegum hlutum og í gegnum tíðina eignaðist hún fallega muni sem hún kom fyrir með næmum smekk. Jafnvel starfaparkettið á gólfinu er lagt með listfengi og ljóst að ekki hefur verið kastað hendi til nokkurs í húsi þeirra Dúnu. Og þegar hún hafði búið heimili sitt fagurlega sá hún til að fegurðin héldist og allt væri í röð og reglu innan stokks sem utan. Og þau Gunnar opnuðu hús sitt fyrir glöðu fólki og mannfundum.

Manstu have vel hún fylgdist með öllu í samfélaginu? Hún las dagblöðin svo vel að hún hafði gott yfirlit allra helstu mála og var þar með upplýst um hvað væri á döfinni. Hún las alls konar bækur. Það var því hægt að bera víða niður í samtölum við Dúnu.

Dúna hætti ekki að ferðast þó hún hætti að fljúga. Hún hafði gaman af að skoða heiminn. Þegar Gunnar hafði ekki tóm til að fara með henni fór hún með vinkonum sínum og fór einnig í skipulagðar hópferðir. Guðrún Karlsdóttir fór með Dúnu í miklar ferðir til Suður Afríku og Asíulanda. Vinir og vinkonur eru stoð í lífinu og Dúna átti í vinkonum sínum dýrmæta gleðigjafa. Og það er ástæða til að þakka vináttu þeirra sem var Dúnu mikilvæg í lífinu.

Manstu lífsafstöðu hennar? Hve þakklát hún var fyrir lífið og vildi miðla þakklæti, þeirri mikilvægu lífsafstöðu til afkomenda sinna og samferðafólks?

Manstu hve þolinmóðlega Dúna bar veikindi sín? Í áratugi átti hún við vanheilsu að stríða. Hún hafði ekki langt mál um baráttu sína. Þegar ég spurði um líðan hennar féllu nokkur vel valin orð, hún brosti svo ofurlítið og vék svo talinu að öðru.

Manstu viðkvæmni hennar? Það fór ekki fram hjá neinum sem þekktu Dúnu að hún var næm.

Manstu eftir áhuga hennar? Á þér, á því sem væri til gleði, á viðburðum í samfélaginu, á öllu því sem gæti létt lund, glatt og orðið til eflingar. Mér þótti vænt um að sjá hve natin Dúna var við öll þau sem hún gæti stutt og hjálpað. Ég heyrði af því að hún hefði verið sjálfboðaliði Rauða krossins um tíma. Hún var alltaf boðin og búin að lesa eða sinna einhverju sjálfboðastarfi í Neskirkju. Og það var hrífandi að sjá hve vökul hún var ef einhver þurfti aðstoð við að komast til og frá kirkju. Hún ók fólki vestur á Grandaveg eða upp í Þingholt. Allt gerði hún með þokka.

Manstu hve natin Dúna var við móður sína aldraða og hvernig hún sýndi hjartalag sitt í samskiptum við hana? Þessi afstaða til hinna öldruðu speglaðist vel í eldriborgarastarfinu í Neskirkju.

Inn í himin Guðs

Nú er hún farin. Við leiðarlok er vert að þakka Gunnari fyrir óbilandi stuðning hans við Guðrúnu í veikindum hennar og Sigrúnu Magneu og fjölskydu hennar hve vel þau héldu um hana til loka.

Dúna er farin inn í himininn. Hún kemur ekki lengur þurrkuðum blómum fyrir í vösum í stofunni sinni. Hún biður ekki lengur kvöldbænir með ömmubörnum og fer ekki framar með „Leiddu mína litlu hendi….” Augu hennar lifna ekki lengur af kátínu og skemmtilegheitum. Hún er farin af fallega heimilinu sínu og Gunnar er einn eftir. Dóttir, tengdasonur,  ömmudætur og ástvinir sjá á bak henni. Hún kveður nú líka Neskirkju endanlega og í síðasta sinn. Hún er horfin ykkur, öllum þeim sem unnu henni. Hvert fór hún? Dúna átti í hjarta trú á Guð.

Guðrún Birna Þorsteinsdóttir er farin með friði inn í veröld Guðs.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Guðrúnar Birnu Þorsteinsdóttur í Neskirkju 11. nóvember 2015. Bálför. Jarðsett í fjölskyldugrafreit í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju. Kistulagt í kapellunni í Fossvogi 9. nóvember.

Guðlaugur H. Jörundsson – minningarorð

Það var undursamlegt að sjá fingur Lauga fara fimlega yfir hljómborðið. Lag hljómaði, einbeittni einkenndi spilarann og gleðibros færðist yfir andlitið. Músíkin í Lauja snart okkur sem fengum að njóta. Tónlistin var sumpart lykill að sál hans og lífi. Hann vakti snemma athygli fyrir tónlistargetu og fór ungur til náms í tónlist. Og Laugi var fjölhæfur, í honum bjó listræn næmni sem fékk útrás með ýmsum hætti í samskiptum, handverki og gjafmildi.

Í módelsmíðinni samþættaði Lauji smekkvísi og smíðagetu. Módelin hans voru listasmíði sem löðuðu fram tilfinningu, ekki aðeins fyrir húsum eða mögulegum húsum, heldur líka fyrir honum sjálfum og lífinu. Módelin hans urðu til að fólk fékk vitund um hvernig form og útlit húsa yrði. Teikningar eru ekki öllum skiljanlegar en módel sýna afstöðu, hlutföll og útlit. Módel eru oft mikilvægir skilningsvakar og tilfinningahvatar. Lauji megnaði því að koma hinu ósegjanlega og nánast yfirskilvitlega í heim upplifunar. Og það þarf snilld til.

Lauji varð eins og meðalgangari milli hugarheims og raunheims. Með módelum hans byggði hann brýr milli heima. Það sem hafði verið hugsað og skissað fékk mynd meðal manna. Og ég efast ekki um að sumar byggingar voru byggðar vegna þess að Lauji hafði með líkönum sínum opnað leið fyrir skynjun og innsæi.

Módel vekja skilning, en líka tungumál og tónlist. Maðurinn er ekki einnar víddar heldur margra. Við látum okkur ekki nægja bara vatn og brauð. Við, menn, þurfum næringu á svo mörgum sviðum til að við getum höndlað hamingju og notið hennar. Þess vegna er til tónlist, ljóðlist, ritlist og myndlist. Þess vegna komum við saman til að syngja eða segja sögur. Þess vegna er til menning. Og þau okkar, sem eru músíkölsk á sviði trúarinnar, leitum í dýptir sálar og hlustum eftir tónlist himinsins. Við þráum að réttlæti ríki í heiminum, að fólk virði dýrmæti lífsins, fólks, allra. Við viljum að óréttur sé gerður upp og hið góða gildi – ef ekki fyrir mannlegum dómstólum – þá fyrir æðri og eilífum hæstarétti sem við köllum Guð. Við leitum að lífshamingju, þráum hið góða, viljum að lífið sé ekki bara mál tíma heldur vefur hamingju sem teygi sig inn í heim handan dauðans. Og þá erum við komin inn í himininn.

Ástvinur Lauja skrifaði í bréfi að himnaríki væri hægt að lýsa sem bestu tónleikum sem maður getur ímyndað sér. Er það ekki eitthvað fyrir Lauja – að vera á aðaltónleikunum, alfrjáls, alglaður – og það sem meira er – að hann fái sjálfur að músísera á þessum stórkostlega konsert, njóta alls innan frá og með allri næmni, gleði og unaði. Og svona lýsing á himni er ekki annað en ofurlítið orðamódel um lífið og veröldina sem Guð hefur skapað. Heimur trúarinnar er með því sniði. Guð elskar fólk og veröld. Saga Jesú Krists er frásögn um að Guð sættir sig ekki við sundrað mannkyn heldur þráir góð tengsl við alla menn og að allir fái notið lífs og komist á besta konsertinn. Trúir þú því? Viltu að Lauji lifi þá dásemd, fái notið alls sem hann hafði í sér – og með fullkomnu móti? Hann trúði því, ég trúi því einnig. Þú mátt fá þinn miða á þá tónleika líka – ef þú vilt.

Ætt og upphaf

En þá að músík mannlífs og dásemd náttúru við Steingrímsfjörð. Guðlaugur Heiðar Jörundsson var sumardrengur. Hann fæddist 12. ágúst árið 1936 og var því 78 ára þegar hann lést. Foreldrar Lauja voru hjónin Elín Sigríður Lárusdóttir og Jörundur Gestsson. Guðlaugur var yngstur þeirra systkina sinna. Ingimundur var elstur og hin voru Ragnar, Lárus, Guðfinna og Vígþór. Fóstursystir þeirra var Elenóra. Magnús var hálfbróðir Guðlaugs og samfeðra. Hann er látin. Vígþór einn lifir systkini sín.

Lauji fæddist á Hellu við Steingrímsfjörð. Heimilið var dugmikið menningarheimili og Hella var sem afleggjari himins í heimi. Lauji var alla tíð tengdur sínum stað og fólki og sótti ávallt heim í Helludýrðina. Elín sá um heimilisstörfin og Jörundur var – auk bústarfanna, hreppstjóri, hagyrðingur og halgeiksmaður og smíðaði báta. Meðal Strandamenn hafa um aldir verið góðir bátasmiðir og þjóðhagar. Lauji ólst upp við að hugur og hönd verða að vinna saman til að smíðisgripurinn yrði góður. Lauji lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Og svo þáði hann gamansemi í arf frá sínu fólki og sveitungum.

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Lauji menntun sína.

En svo kallaði tónlistin – drengurinn var músíkölsk kvika. Foreldrar hans afréðu að hann færi aðeins 12 ára gamll til náms í tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar nam hann auk þess að ljúka grunnskóla. Halldóra og Walter Knauf urðu honum ekki aðeins músíkforeldri heldur fóstruðu hann með nærfærni og elskusemi á Ísafirði.

Eftir að Lauji var útskrifaður úr Tónlistarskóla og hafði lokið bóknámi hafði hann atvinnu af tónlistariðkun. Hann spilaði ekki aðeins á piano og orgel heldur var einnig harmoníkuleikari. Lauji var um tíma kirkjuorganisti í Strandasýslu. Svo fór hann – að undirlagi Jónasar Tómassonar – til Siglufjarðar og var þar skólastjóri tónlistarskólans.

Á Siglufirði staldraði Lauji stutt við og fór uður. Tónlistin varð honum mikilvæg aukabúgrein. Hann hafði líka þörf fyrir að spila og músísera. Lauji var í hljómsveitinni Skuggum og þeir félagar voru öflugir tónlistarmenn, vönduðu til flutnings og sungu raddað sem er ekki sjálfgefið þegar einnig er leikið á hljóðfæri. Eftir að Lauji hætti í Skuggum spilaði hann fyrir sjálfan sig og Bíbí, fyrir veislugesti heima og í samkvæmum vina þeirra, ávallt auðfúsugestur og metinn fyrir hinar músíkölsku kærleiksgjafir.

Lauji sat ekki aðeins og spilaði annarra lög heldur samdi einnig tónlist. Og sumt af þessum lögum rötuðu síðan til annarra og sum þeirra hafa notið þeirrar gæðstimplunar að hafa verið síðasta lag fyrir fréttir!

Módelin

Svo var það handverkið. Eftir að hafa starfað um tíma hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík var Lauji ráðinn á teiknistofu Borgarverkfærðings. Þar vann hann með teikningar og hreifst m.a. af hangýtu gildi módela. Smáhúsadjásnin urðu til að hann fór til starfa á sérstakri módelvinnustofu Reykjavíkurborgar. Lauji stofnaði síðan eigin vinnustofu, smíðaði fjölda listilega smíðaðra módela, var samverkamaður arkitekta og fékk bestu meðmæli þeirra – eins og sést vel á kynningarblöðungi Módelstofu Guðlaugs H. Jörundssonar.

Lauji hafði vinnustofu í Bolholti og þar var slíkt safn af verkfærum til smíða að mörgum þótti sem þeir kæmu í himnaríki smíðanna.

Smíðavinnan var oft flókinn og reyndi gjarnan á Lauja að finna hæfileg efni, lýsa upp og leysa þrautir. Hann hafði þjálfast í nýta hluti við Helluströndina og á strönd Reykjavíkurheima lærðist honum að nýta ný efni og það sem rak á fjörur hans í nægtaheimum nútímans. Og hann var vandvirkur og valdi efnin vel. Lauji lokaði vinnustofu og fyrirtæki sínu árið 2004.

Bíbí

Lauji og BíbíOg svo var það Bíbí, Guðrún Valgerður Haraldsdóttir. Við, sem kynntumst Lauja á síðari árum, kynntumst líka konunni hans. Hann sóttist eftir að vera nálægt henni og fór aldrei langt án hennar. Og tengsl þeirra hrifu okkur vini þeirra og það var vermandi, vekjandi og hrífandi að fylgjast með hve góð þau voru í samskiptum og hve hlýjan í hjónabandinu var mikil og nándin ræktuð.

Þau Bibí og Lauji kynntust á balli Áttahgafélags Strandamanna í skátaheimilinu við Snorrabraut. Guðrún var þá sautján ára og sá þennan glæsilega og fallega mann og hreifst af. En svo fór hann út á land aftur – tíminn leið en svo var haldið annað Strandaball. Þá sá Bíbí hann aftur og reyndar stórfjölskyldu hans líka. Og ekki var það verra. Ættboginn hreif hana og hún átti eftir að verða vinur þessa fólks og njóta samvista við þau, bæði í Reykjavík og síðan á Hellu.

Og smekkmaðurinn og fagurkerinn Lauji mundi alla tíð eftir hvernig Bíbí var á Strandaballinu – ljóshærð þokkadís í himinbláum flauelskjól. Þau heilluðust af glæsileik og mannkostum hins, urðu blússandi ástfanginn og héldu trúlofunarveisla 7. Mars árið 1958. Hún fékk hann í afmælisgjöf þegar hún var átján ára. Þau gengu svo í hjónaband í Neskirkju 11. Júní árið 1960. Hann var dökkur og hún ljós – falleg, hrífandi hjón.

Alla tíð síðan var Bíblí engillinn hans Lauja. Hann var bæði blíðlyndur og rómantískur og tjáði greiðlega tilfinningar sínar til Bíbíar. Auk rósanna á föstudögum sem hann færði henni stráði hann rósablöðum orðanna yfir Bíbí og rómantík tónanna einnig.

Jólapakkarnir hans til hennar voru svo stórkostlegir að þeir rötuðu á forsíðu vikublaðs. Og að hann var Bíbí helgaður og hafði sagt já við hana var skýrt í bréfunum til hennar. Laugi hafði mjög einfaldan smekk gagnvart konu sinni, hann vildi bara að hún fengi það besta og að umbúnaðurinn yrði fagur. Alla tíð skrifaði hann til hennar: „Þinn eilífur Laugi.“ Og samband þeirra var samofið úr ást og tryggð af eilífðartagi og er eilíft.

Þau Bíbí og Lauji voru samhent og oftast sammála og vönduðu til alls sem þau höfðu í kringum sig og gerðu sér fallegt heimili. Eftir upphafssambúð í forstofuherbergi á Fornhaganum hjá foreldrum Bíbíar, Valdísi og Haraldi, sem Lauji tengdist vel og varð þeim sem hinn besti sonur og þau honum sem foreldrar. Þau Bíbí bjuggu síðan í Álftamýri áður en þau fengu sjávarlóð og byggðu við Bollagarða. Þar leið þeim vel, Lauji var nálægt sjónum, naut þess að vera í nábýli við litríkt og síkvikt lífríki – nánast eins og hann væri heima á Hellu. Og þau Lauji eignuðust vini í nágrönnum, buðu heim til sín stórum vinahópi, voru ávallt veitulir gestgjafar og lifðu fallegu og inntaksríku lífi.

Þau eignuðust ekki börn en urðu hins vegar mörgum nánir ástvinir. Sif og Auður Edda urðu þeim t.d. sem dætur – einkadætur eins og þau Bíbí orðuðu það. Og Klara og Tómas urðu afabörnin hans Lauja. Og mörg ykkar sem kveðjið í dag eru að kveðja einn af sínum nánustu. Guð geymi ykkur í sorgarvinnu ykkar.

Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju frá Vígþóri Sjafnar, Ashley og Bríma sem eru í Bandaríkjunum og geta ekki komið til þessarar athafnar.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Lauja? Manstu hve vandvirkur hann var – hversu mikið hann lagði á sig til að allt sem hann gerði mætti verða sem best? Hann vann kvöld-og næturvinnu til að tryggja að geta skilað verkum á tilsettum tíma og að allt væri eins vel úr garði gert og hægt var.

Og hann var með huga við að verka hans nyti lengi við. Og hann hafði auga fyrir lit, áferð og pensildráttum við málningarvinnu.

Manstu músíkina hans? Fegurðarskyn hans og stíláherslur? Hvernig hann umvafði aðra með blíðu sinni í hjúp tónlistar? Manstu fagurkerann?

Manstu náttúrubarnið í honum? Að fuglarnir hændust að honum og aðrir málleysingjar. Það voru ekki aðeins hundarnir þeirra sem urðu þeim hjónum náin. Jafnvel fuglarnir urðu honum sem vinir. Sömu endurnar komu ár eftir ár á pollinn á lóð þeirra Lauja. Þegar ég fór frá húsi þeirra hjóna nú í vikunni sat þröstur á grein við útidyrnar og horði á mig, fullkomlega rólegur og óhræddur. Það var gott að sjá til hans og merkja hve vel ræktaður hann var og eins og hann spyrði: Hvað er orðið af Lauja?

Manstu hve natinn Lauji var við ungviðið. Börn hrifust af honum, fundu traust hjá honum og hann tók því vel þegar litlar hendur laumuðust í lófa hans. Og æ síðan var hann vinur þeirra sem sýndu honum traust.

Manstu veiðimanninn Lauja? Þau Bíbí höfðu gaman af veiði, stundum fóru þau í laxveiði og Lauji var veiðinn. Á fyrri árum lögðust þau út við fjallvötn í Strandasýslu. Af þeim ferðum sögðu þau heillandi sögur með „súrreal“ ívafi að ættingjar komu jafnvel keyrandi á dráttarvél um langan veg til að færa þeim pönnukökur!

Manstu þegar Laugi fór að missa og að hann dró sig smátt og smátt í hlé og byrjaði að hverfa inn i himininn. En fallega konan í himinbláa kjólnum tryggði að hann gat verið vonum lengur heima. Þökk sé henni og þökk sé starfsfólki Fríðuhúss þar sem Lauji naut góðar aðynningar í eitt og hálft ár sem er þökkuð. Síðasta mánuðinn sem hann átti ólifaðan dvaldi hann svo í Sóltúni og naut þakkarverðrar hlýju.

Manstu hógværð hans, seiglu og glaðværð? Manstu hve skemmtilegur hann var, fyndinn og góður sögumaður? Manstu hve vænn hann var í samfélagi, jákvæður og blíðlyndur? Og að hann hafði í sér svo mikinn sjálfsstyrk að hann gat hrósað öllum. Manstu hve þakklátur hann var?

Og nú er Lauji farinn – horfinn inn í eilfífðina og tilfinningarnar vaka. Lauji spilar ekki aftur fyrir þig, þú séð hann aldrei framar fara fingrum um hljómborð og séð ekki ljúflegt brosið breiðast yfir ásjónu hans. Hann týnir ekki aðalber lengur af fullkomnu listfengi. Hann baðar hvorki þig eða Bíbí með kærleika sínum. „Guð er góður“ sagði Lauji gjarnan.

Já, hann er farinn inn í Hellu himinsins þar sem allt er gott, allt er heilt, stórkostleg músík hljómar, besti konsertinn. Þar er Guðlaugur H. Jörundsson í sínu fínasta pússi og í essinu sínu, altengdur og alglaður. Hann var vinur Guðs, vinur Jesú, skildi hvað páskajátning fornkirkjunnar merkir: „Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.“ Lauji var maður páskana og nú er hann horfinn inn í ljósabað á stórtónleikum lífsins. Þar er hann á Hellunni, glaður. Lof sé Lauja og lof sé Kristi. Og „Guð er góður.“ Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Minningarorð við útför í Neskirkju, 26. mars, 2015.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði, erfidrykkja á Hótel Sögu.

Óli Valur Hansson – minningarorð

Óli Valur Hansson
Óli Valur Hansson

Allt er vænt sem vel er grænt. Það er áhrifaríkt að horfa á opnu sálmskrárinnar og sjá liti og form gróðursins, sem myndar baksvið sálma og textanna sem sungnir eru við útför Óla Vals Hanssonar. Að lifa vel var verkefni hans og að efla lífið var vinna hans. Hann var þjónn lífsins og nú er hann farinn inn í gróðurreit himinsins og getur skemmt sér við það sem honum þótti gaman að gera – skoða lauf og handleika fræ. Hann getur skoðað himneska runna og plöntur. Hvert er hið latneska heiti lífstrésins? Latnínunafnasnillingurinn Óli Valur er nú í þeim fræðaranni.

skógarbotnÉg er vínviðurinn og þér eruð greinarnar, sagði Jesús Kristur. Óli Valur lærði snemma speki lífgjafarans frá Nasaret og skildi þann boðskap. Í lífinu gekk hann svo erinda þess fagnaðarerindis sem er grænt og vænt. Hann var trúr í öllu, smáu sem stóru. Þökk sé honum og lof.

Ætt og uppruni

Óli Valur Hansson fæddist í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Magdalenu Margrétar Eiríksdóttur, húsmóður (1884 – 1937), og Hans Wíum Bjarnasonar múrara og fjárbónda, (1888-1961). Hún var fædd á Álftanesi en hann var Skaftfellingur, frá Hruna á Brunasandi. Systkinahópur Magdalenu og Hans voru fjögur. Elst var Eydís. Hún fæddist árið 1917, náði háum aldri og lést árið 2008. Nils Einar, fæddist 1919 en lést ungur eða árið 1927. Óli Valur kom svo í heiminn í október árið 1922 og var því barn að aldri þegar bróðir hans lést. Guðrún Gyða fæddist árið 1925 og lést 2005. Margrét, móðir Óla Vals og þeirra systkina, féll frá árið 1937 svo áföllin í fjölskyldunni voru mikil. Hvaða afleiðingar höfðu missir bróður og móður á drenginn á Baldursgötunni? Þeirri spurningu verður ekki svarað en aðeins leitt að líkum að sálir voru markaðar.

Skóli, menntun og störf

Óli Valur sótti nám í hinn nýja og glæsilega Austurbæjarskóla. Hann lék sér á Skólavörðuholtinu, skemmti sér og söng í KFUM og hafði það falleg hljóð að hann tróð upp og söng einsöng í Gamla bíó. Hans, faðir hans, var bóndi að mótun og hélt sauðfé í bakgarðinum og sleit sig ekki frá búskapnum og bjó um tíma – á efri árum – í fjárhúsi sínu þegar hann hafði ekki lengur skyldum að gegna gagnvart börnum sínum. Það er lífsnatni í þessu fólki.

Óli Valur laut að blómum og jurtum og hneigðist til ræktunar og fékk snemma vinnu í samræmi við áhugann. Skömmu fyrir seinni heimstyrjöld, með stuðningi föður síns og fyrir hvatningu ræktunarmanna, fór Óli Valur – þá sautján ára – til náms í Danmörk. Hann hafði meiri áhuga á grænu víddinni en gráu hernaðarvíddinni. Þrátt fyrir stríð og fár í Evrópu náði Óli Valur að fara víða og markmið hans var að læra sem mest. Hann vann í Danmörk við garðyrkju og svo var hann ráðinn til starfa um tíma í stöð í Berlín. Hann sá nasíska forkólfa en hafði enga löngun til að ganga í SS-sveitirnar og þegar hann fór til Danmerkur aftur tengdist hann andspyrnuhreyfingu Dana.

Óli Valur stundaði nám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk prófi árið 1946. Þá fór hann heim til Íslands og tók að sér verkstjórn í þrjú ár á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar á Syðri-Reykjum í Biskupstungum sem var brautryðjendastöð. Árið 1949 varð Óli Valur kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins og var þar átta ár eða til ársins 1957. Þá varð hann garðyrkjuráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og var að til ársins 1985. Hann hafði eins og margir aðrir starfsmenn bændasamtakanna fyrst skrifstofu í búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina og síðar í Bændahöllinni við Hagatorg.

Vegna starfa síns ferðaðist Óli Valur um allt land, lagði á ráðin um ræktun, teiknaði fyrir bændur garða, skýrði út möguleika og kosti, efldi garðyrkjufólk, ráðlagði einstaklingum, hélt fyrirlestra fyrir almenning og m.a. í útvarpi, skrifaði greinar í blöð og tímarit – og hélt fram hinu græna fagnaðarerindi. Og þegar Óli Valur var búinn að koma í heimsókn í sveitir landsins var hugur í fólki og karlarnir voru jafnan sendir í kaupstað til að kaupa girðingarefni fyrir garða við bænadabýlin. Sagt var að vorið kæmi í sveitirnar þegar Óli Valur kom. Lummur voru bakaðar og veislur voru haldnar til heiðurs þessum forgöngumanni um íslenskrar garðyrkju. Einn bóndinn orkti svo um komu hans:

Kær er sá sem koma skal,

konurnar þekkja róminn.

Allar elska hann Óla Val

eins og fögur blómin.“

Óli Valur var mikill fræðari. Mér – eins og þúsundum annarra Íslendinga – eru útvarpserindi Óla Vals minnistæð. Óli Valur hélt fyrir almenning fjölda fyrirlestra um garðyrkju. Þá var hann ritstjóri búnaðablaðsins Freys um nokkurt skeið auk þess að ritstýra bókum um matjurtir og garðyrkju. Vert er að minna á að færslur um Óla Val í ritaskrá Gegnis eru 26!

Óli Valur lét víða til sína taka í græna heiminum en í öðrum veröldum einnig. Hann var t.d. öflugur frímerkjasafnari, var félagi í Félagi frímerkjasafnara og formaður þess um tíma.

Óli Valur hafði mikil, víðtæk og langvinn áhrif varðandi garðyrkju á Íslandi. Nokkrum dögum eftir andlát hans kom ég í garðyrkjubýlið Friðheima í Biskupstungum. Þar er á stóru fræðsluspjaldi minnt á að Óli Valur hafi ekki aðeins þjónað einstaklingum heldur hafi í starfi sínu hvattt garðyrkjubændur til dáða og lagt grunn að nútímagarðyrkju. Í Friðheima koma nú þúsundir íslenskra og erlendra ferðamanna, dást að ræktun og möguleikum garðyrkju á Íslandi. Og allir sem koma í þessa gróðurvin eru þar með einnig fræddir um að Óli Valur Hansson var aðalmaður í þróun garðyrkju á tuttugustu öld.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju frá Sambandi garðyrkjubænda. Garðyrkjubændur minnast hans með virðingu og þökk fyrir störf hans í þágu íslenskrar garðyrkju.

Meðfram störfum hjá Búnaðarfélagi Íslands starfaði Óli Valur um árabil hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins að tilraunum með matjurtir og berjarunna.  Þá vann hann hjá Blómamiðstöðinni og síðar Grænum Markaði frá 1985 til aldamóta. Hann þjónaði aukinni fjölbreytni íslensks gróðurs með því að fara í fræsöfnunarferðir, m.a. til Alaska og Kamtsjaka í Síberíu. Þær ferðir skiluðu miklu.

Óli Valur var mikill tungumálamaður, talaði dönsku svo lýtalaust að Danir heyrðu ekki á mæli hans að hann væri ekki landi þeirra. Óli Valur las þýsku, ensku og hollensku og svo var hann einnig mikill íslenskumaður og hafði ást á íslenskri tungu. Vert er að minna á að hann er höfundur nafna fjölda íslenskra skrautjurta og barðist gegn því að tekin væru upp hrá erlend plöntunöfn. Það eru því ekki aðeins garðyrkjumenn sem geta þakkað Óla Val heldur þjónaði hann íslenskri menningu með margvíslegum hætti.

Hjónaband

HjónÓli Valur og Emmy Daa Hansson (f. 31.8.1928 d. 11.11 1989) gengu í hjónaband 11. febrúar 1950. Þið sjáið hjónavígslumyndina aftan á sálmaskránni og glöggt má sjá hve glæsileg þau voru. Þau Emmy kynntust í Danmörku árið 1945 þegar hann var enn við nám ytra. Skömmu eftir að þau kynntust fór Óli Valur til Íslands. Hún beið eftir honum og sat í festum í langan tíma. Að lokum fór hún á eftir kærastanum til að skoða landið og aðstæður og þau gengu svo í hjónaband. En einfalt var hvorki fyrir hana né aðrar erlendar konur að hverfa frá stórfjöskyldunni ytra og aðlagast algerlega nýrri menningu, tungu og verekfnum.

Þau Emmy og Óli Valur gerðu með sér samkomulag, hann dró að og hún sá um heimili – og bæði stóðu við sinn hluta og hjúskapur þeirra var hamingjuríkur og farsæll. Þeim fæddust tveir synir. Rolf Erik fæddist í apríl árið 1956. Hann er tannlæknir. Kona hans er Herdís Sveinsdóttir og er prófessor í hjúkrunarfræði. Óttar er elsti sonur þeirra og kona hans er Sunna Símonardóttur og þau eiga tvær dætur. Nína Margrét er gift Björgvini Halldór Björnssyni og þau eiga einn son. Jakob er næstyngstur og sambýliskona er Margrét Ólöf Halldórsdóttir. Þau biðja fyrir kveðju til ykkar, en þau eru í Danmörk og komast ekki til þessarar athafnar. Jökull er yngsti sonur Rolfs og Herdísar.

Yngri sonur Óla Vals og Emmyar er Ómar Björn. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1959. Ómar er tannsmiður að mennt og einnig flugmaður og stundar viðskipti. Kona hans er Guðríður Anna Kristjánsdóttir lögfræðingur og tannlæknir. Þau eiga synina Óla Val og Björn Dúa.

Emmy lést frá fyrir aldur fram árið 1989. Óli Valur naut í sorg sinni sona sinna og fjölskyldu, var ungu kynslóðinni elskulegu afi, hafði lífsfró af vinnu sinni og naut að greina blöð og safna fræi af fallegum plöntum. Svo kynntist hann Áslaugu Valdemarsdóttur á níunda áratugnum og þau urðu nánir vinir þó þau rugluðu aldrei reitum. Í meira en tvo áratugi var Áslaug Óla Val elskuleg vinkona. Hann varð ömmubörnum hennar sem afi og hún amma afabörnum hans. Elskusemi hennar í garð Óla Vals er þökkuð.

Minningarnar

Hvernig var Óli Valur? Hvað þótti þér eftirminnilegt í fari hans, skemmtilegt eða mikilvægt?

Manstu ljúflyndi hans? Ég man have gaman var að koma í Búnaðarfélagið og hitta hann, kátan og með bros í augum. Það var eftirminnilegt hve hann tók öllum gestum vel – stórum sem smáum. Og samskiptanetið hans varð því mikið og stórt.

Varstu einhvern tíma vitni að því hve Óla Vali var fagnað þegar hann fór um sveitir landsins í fræðsluferðir? Manstu eftir erindum hans og greinum, bókum og ritum? Áttu kannski plöntu í garðinum þínum sem kom vegna frumkvöðlastarfs hans?

Manstu hve flott Óli Valur var klæddur og hve mikið snyrtimenni hann var.

Manstu hve ljúfur hann var í samskiptum, óáreitin og umburðarlyndur gagnvart ævintýrum annarra og þmt. afkomenda sinna? Svo var hann hógvær og vildi aldrei neitt láta fyrir sér fara.

Manstu hve minnugur Óli Valur var, hvað hann gat romsað upp jurtaheitum á latínu. Svo þekkti hann fólk á flestum bæjum á Íslandi.

Og manstu have gjafmildur hann var og að hann sagði hug sinn með blómum. Fordæmi hans eru fræ til spírunar í lífi þínu.

Óli Valur Hansson skilaði miklu dagsverki. Veröldin er betri, ríkulegri og gróðursælari vegna þess að hans naut við. Óli Valur færði fólki vorið. Nú er hann orðinn vormaður í eilífð Guðs og skemmtir sér yfir ríkidæmi lífsins. Hann er í lífríki Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskirkju miðvikudaginn 23. september, 2015. Bálför.

Gunnlaugur Kristjánsson – minningarorð

Gunnlaugur Kristjánsson
Gunnlaugur Kristjánsson

„Það væri þröngsýni að halda því fram, að í óravíddum himingeimsins séu ekki fögur veiðivötn og full af fiski. … Ég vona, að ég finni þennan elskulega mann aftur í löndum eilífðarinnar og þá helzt með stöng í hönd.” Þessa merkilegu himinsýn skráði veiðijöfurinn Björn J. Blöndal og á vel við þegar við kveðjum Gunnlaug Kristjánsson. Gulli kunni að veiða, veiddi með ákafa og gleði, eldaði bráðina, kryddaði með smjöri og góðum sögum og svo – eins og hendi sé veifað er hann farinn inn í himininn. Farinn hvert og á hvaða árbakka? Hvernig getur þú hugsað um hið ósegjanlega – Gulla í eilífðinni? Kemur ekkert veiðisumar eftir dimman og myrkan vetur? Óhugsandi. Okkur sem elskum vatn, líf í straumnum og fögnum geislum í gárum þykir eðlilegt að vænta þess að lífsins vatn sé veiðistöð, að við fáum að standa við strauminn og kasta á sporðamettaða strengi. Á þeim árbakka himinfljóts má Gulli vera. Skaparinn hefur gaman af lífi og ljósi. Lausanarinn hvatti fólk til að hyggja að dásemdum vallar og vatns og Andinn hefur húmor í bland við elsku.

Uppruni og ævistiklur

Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar árið 1956. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Bjarnason (27. 8. 1911, – 5. 2. 1992) og Mekkín Guðnadóttir (4. 5. 1920) bændur í Sigtúnum í Eyjafirði. Gunnlaugur var yngstur systkinanna. Eldri eru Bjarni Benedikt, sem fæddist árið 1944, Gunnar Árni kom svo í heiminn árið 1947 og Jón Guðni 1949. Sigrún fæddist árið 1954 og svo var Gulli síðastur í röðinni. Mekkín lifir og býr á Akureyri en Kristján lést árið 1992. Gunnlaugur, hinn yngsti, er nú látinn en systkinin lifa.

Bernskuheimilið var sveitaheimili og búskapurinn blandaður – um hundrað fjár í húsi og í fjósi voru milli tuttugu og þrjátíu gripir. Gulli lærði snemma að gera gagn. Hann var tápmikill, harðduglegur og vinnusamur. Hann var velkominn í heiminn og naut mikillar elsku í uppeldi. Gulli hóf skólagöngu í heimabyggð var snarpur og glöggur og fór fram fyrir jafnaldra í námi. Hann hleypti snemma heimdraganum og fór í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði. Þar var hann í tvö ár. Svo lá leiðin norður aftur og hann fór beint í fjórða bekk Menntaskólans á Akureyri. Lífið í MA var ævintýralegt og Gulli eignaðist vini og líka aðdáendur í skólanum. Hann var hrókur fagnaðar, uppátækjasamur, skemmtilegur og hrífandi. Hann var þá veislusækinn leiðtogi og æ síðan. Gulli lauk stúdentsprófi árið 1976. Svo skráði hann sig í Tækniskólann og lauk prófi í byggingatæknifræði árið 1981.

Fólkið hans Gulla

Gunnlaugur Kristjánsson eignaðist soninn Loga með skólasystur sinni Huld Ingimarsdóttur árið 1975. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband árið 1984. Leiðir þeirra skildu árið 1998. Logi er kvæntur Elísabetu Guðjónsdóttur og á með henni tvo syni, Daða og Sölva, sem er á fyrsta ári. Gunnlaugur eignaðist Halldór, yngri soninn, með Rósu Emilíu Óladóttur árið 1981. Hann eignaðist fjögur börn. Þau eru Ágúst Freyr, Elín Helga, Sölvi Thor og Emilía Ósk. Halldór lést árið 2012.

Seinni kona Gulla er Helga Sigrún Harðardóttur. Þau gengu í hjónaband árið 2005. Gulli gekk Írisi, dóttur Helgu Sigrúnar, í föðurstað og börnum hennar í afastað. Sambýlismaður Írisar er Ómar Freyr Sigurbjörnsson. Börn þeirra eru Helga Vala, Dagur og Lóa Björk.

Mér var falið að bera ykkur fjölskyldu Gulla, vinum og þessum söfnuði kveðjur. Skólafélagar í Reykholtsskóla og MA biðja fyrir samúðarkveðjur sínar til fjölskyldu og ættingja Gulla. Þá biðja Lísa og Kiddi fyrir kveðjur, en þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa útför. Þórný Linda Haraldsdóttir biður fyrir kveðjur og sömuleiðis Jakob Sævar Stefánsson.

Vinnan

Gunnlaugur Kristjánsson var dugmikill vinnuþjarkur. Ósérhlífni, áræðni, framsýni og óbilandi áhugi á skipulagsmálum, arkitektúr og byggingatækni gerði Gulla að eftirsóknarverðum stjórnanda í byggingabransanum. Hann starfaði hjá Ármannsfelli hf. og Aseta á árunum 1982 – 1987. Hann kom sér alls staðar vel í starfi, axlaði ábyrgð, var virtur fyrir getu og var treyst til stórræða. Gulli var tæknilegur framkvæmdstjóri hjá Álftarósi ehf. á árunum 1987 – 1999. Þá hóf hann störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Íslenskra aðalverktaka og gegndi því starfi til ársins 2007. Þá tók hann við stjórnartaumunum í Björgun og hefur m.a. stýrt námavinnslu félagsins úr sjó og vinnslu byggingarefnis auk hafnadýpkunum. Björgun hefur m.a. gegnt því Heraklesarverkefni að dýpka Landeyjahöfnina. Síðustu árin var Gunnlaugur einnig forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar.

Gulli kom með einum eða öðrum hætti að skipulagsþróun byggingarreita og uppbyggingu ýmissa stórbygginga s.s. Kjarnanum í Mosfellsbæ og Sundlauginni í Árbæ auk fjölmargra íbúðarhúsa. Hæst ber Hörpuna en sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV dró Gulli vagninn í Portus Group og stýrði hópi fagaðila sem í sameiningu unnu samkeppni um hönnun Hörpunnar, þess mikla djásns höfuðborgarinnar. Gunnlaugur hönnunarstýrði Hörpuframkvæmdunum til ársins 2007. Við eigum honum þökk að gjalda og hann var sjálfur stoltur af framlagi sínu við verðlaunahönnun Hörpunnar.

Gulli var skarpgreindur og sem farsæll leiðtogi lánaðist honum oftast að fá samstarfsaðila til samfylgdar – fólk með ólíkar hugmyndir og náði oftast skapandi sátt þó fyrirfram þætti mörgum óhugsandi. Ómögulegt var ekki til í orðabók Gulla. Hann fann yfirleitt leið til að láta mál ganga og hluti virka með áræðni, mikilli vinnu og framsýni.

Gulli var liðtækur bridgespilari á árum áður og mikill keppnismaður á þeim vettvangi. Tefldi hann gjarnan á tæpasta vað sem makker hans hafði getu til að meta og nýta.

Gulli var ástríðukokkur. Hann keypti alltaf besta hráefnið og gat í skyndi slegið upp veislu. Hann gantaðist með að hafa farið í veiði með gömlu vinunum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu og í stað þess að skrifað væri um afrek þeirra í tímaritið Veiðimanninn var skrifað um þau í tímaritið Gestgjafann. Hann hafði gaman af að elda með skemmtilegu fólki, veiddi það besta úr matargerðarlist heimsins, skildi að smjör hefur aldrei skemmt mat heldur bætt og skellti svo ótrúlegum nöfnum á réttina sína. Ég sá t.d. afar áhugaverða uppskrift hans í tímaritinu Vikunni undir hinu ógvænlega heiti: Lamb Al-Quaida – fyrir 4!

Matargerð Gulla var eins og tákn um líf hans. Gulli var veislusækinn dugmaður sem veitti samferðafólki sínu vel, bjó þeim það besta sem hann átti. Hann vildi öllum vel, þjónaði eins og hann gat og Gullagleðin hreif.

Helga Sigrún og Gulli

Gunnlaugur Kristjánsson - á hjónavígsludaginn.
Gunnlaugur Kristjánsson – á hjónavígsludaginn.

Helga Sigrún og Gulli hittust á nýársballi árið 2004 þar sem Helga Sigrún var veislustjóri. Gulli kom með útsjónarsemi úrinu sínu svo fyrir að Helga Sigrún fór óvart með það heim. Daginn eftir fékk hún sms skilaboð frá honum. Í þeim stóð: „Hæ, ég heiti Gulli. Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“ Þá vissi Helga Sigrún hvað klukkan sló og hve skarpur hann var. Hálfu ári síðar höfðu þau keypt saman íbúð, innréttað hana og flutt inn. Ári síðar gengu þau í hjónaband. Þau áttu síðan tíu undraár saman. Hann dáðist að konu sinni og umvafði hana, fór með henni um heiminn og naut sín í vinnu og einkalífi.

Gulli fékk heilsufarsaðvörun á síðasta ári og síðan þungt högg á þessu. Gulli greindist með krabbamein í febrúar 2015: „Föstudagurinn þrettándi, það hlaut að vera!“ lét hann hafa eftir sér. Svo tók við slagur við dauðann og sókn í líf. Hann komst í stutta veiðiferð í Norðurá sem varaði í nokkra tíma og brosti alla leið í bæinn, vindbarinn, lúinn, lerkaður og með mikla verki. Helga Sigrún vaktaði hann og studdi og Logi hlúði að föður sínum. Gulli sat gjarnan hljóður úti, hugsaði sitt og naut birtu í auga og vinds á kinn. Geðprýði og yfirvegun hans snart þau sem áttu við hann samskipti á þessu tímabili en símtöl, heimsóknir og kveðjur frá vinum og vandamönnum voru honum styrkur í baráttunni. Hann mat mjög hve systkini hans og vinir stóðu þétt með honum í veikindunum og var þakklátur fyrir stuðninginn.

Minningar og lífið

Nú eru skil. Hvers minnistu þegar þú hugsar um Gulla? Manstu ósérhlífni, glaðværð, kraftinn, húmorinn, greindina? Manstu umhyggju hans og vilja til að efla alla? Manstu áhugann á framkvæmdum og hinn skapandi huga hans? Manstu hve frjór hann var og marksækinn? Manstu getuna til að greina að aðalatriði og aukaatriði? Og hugsaðu alltaf um Gulla héðan í frá þegar þú ekur fram hjá Hörpunni eða ferð á tónleika. Þá nýtur þú hans, hugsjóna og verka.

Og nú er hann farinn. Hann er ekki á Sigtúnum heldur Guðstúnum. Hann ekur ekki lengur hratt og multitaskar á meðan. Hann vegsamar ekki lengur íslenskan landbúnað með því að löðra smjöri á pönnu og steikja ofursteik. Hann ávann sér tuttugupundaramerkið en þeir verða ekki fleiri silfurhreistraðir á bakkanum hjá honum heldur einhverjir ofurfiskar skv. húmor himsins eins og sést á baksíðu sálmarskrárinnar. Á himnum brotna engar stangir. Það er hörmulegt að Gulli skuli vera dáinn og farinn en það er heimsins hjálparráð að Guð opnar veröld himinsins og þú, ég og Gulli megum öll njóta. Guð dassar heilmiklum húmor yfir okkur, elskar og bjargar. Heimurinn er eins og Harpan – stórkostleg hönnun en himininn fullkominn. Gulla var ríkulega gefið í lífinu og er elskaður í eilífðinni.

Guð geymi Gunnlaug Kristjánsson og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Gunnlaugs í Hallgrímskirkju föstudaginn 11. september kl. 13. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Hörpunni.

Ísleifur Sumarliðason + 1926 – 2015

Ísleifur Sumarliðason
Ísleifur Sumarliðason

Hvað var það skemmtilegasta sem Ísleifur á Vöglum gerði? Börn hans urðu hugsi því margt kom til greina, margs að minnast á heimili, úr starfi skógarvarðarins í 38 ár og plöntuframleiðslu í áratugi.

Sáning í helgidóminum

Kannski var það þegar hann fór með fræpokana að sáningarreitunum til að sá. Þá urðu börnin að hafa hljótt um sig – ekki vera fyrir þegar Ísleifur varð samverkamaður skaparans, varð prestur í gjörningi sköpunarinnar, dreifði samviskusamlega trjáfræi í frjóa mold og í sléttum beðum. Augu hans horfðu yfir sáðbeðin, hendur hans og fingur dreifðu með agaðri natni mjúku fræinu svo það lagðist á spírunarstað í hæfilegri dreifingu. Og svo var jafnað yfir, vökvað og hlúð að.

Skógurinn varð helgistaður, Vaglir kórinn og sáðreiturinn altarið. Svo spíraði undir gleri í reitum. Fuglum var haldið frá og skepnum einnig. Illgresi var reitt burt og svo uxu upp fjarska lítil birkiskott, lerki, furuskinn, heggur eða einhverjar fáséðar tilraunaplöntur sem Ísleifur hafði löngun til að reyna að rækta undir misblíðum himni við brjóst landsins.

Myndin af sáðmanninum Ísleifi Sumarliðasyni er laðandi fögur. Hún dregur saman þræði í lífi hans, eðliskosti, upphaf og lífsstarf. Og hún tengir hann í sögu Íslands á 20. öld, framvinu samfélags, hugmyndir um hlutverk fólk í landinu, atvinnusögu og einnig menningarpólitík. En svo er sáðmaðurinn líka fulltrúi mannkyns í faðmlögum við náttúru, umhverfi og svo auðvitað við Guð, sem er “yfirskógarvörður” alheimsins.

Upphaf og mótun

Ísleifur Sumarliðason fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson. Nafn Ísleifs var vitjunarnafn eins og nafn föður hans. Fyrstu árin bjuggu foreldrar Ísleifs og Sigríðar, eldri systur hans, á Krossi við Akranes. Sumarliði var af fyrstu kynslóð skógfræðimenntaðra manna á Íslandi. Hann starfaði á árunum 1910-14 sem fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi. Sumarliði var ekki aðeins áhugamaður um að endurklæða landið ilmandi skógi heldur vildi stuðla að innri ræktun íslenskrar æsku og var í þeim efnum samverkamaður sr. Friðriks Friðrikssonar í KFUM og sá um starf félagsins á Akranesi. Vegna tæprar heilsu og veikinda foreldra Ísleifs fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar hann var á unglingsárum. Og móðir hans lést þegar Ísleifur var 18 ára.

Ísleifur hóf skólagöngu á Skaganum en hélt svo áfram í Ingimarsskóla þegar suður var komið. Í fríum og eftir að skóla lauk fékk Ísleifur vinnu við skógræktarstörf. Ræktin var í fingrum hans og sinni. Líf skógræktarfólks varð honum eðlilegur lífsháttur. Alla tíð – allt til enda – var leiðin að hjarta og huga Ísleifs greiðust með því að ræða um gróður og ræktun.

Ísleifur fékk á stríðsárunum vinnu í Múlakoti í Fljótshlíð sem varð til að hann ákvað að fara til náms í skógfræði í Danmörk. Sumarliði, faðir hans, hafði lært á Jótlandi en Ísleifur fór til náms á Sjálandi. Hann naut ekki aðeins Danmerkurtímans sem gleðilegs tíma heldur ferðaðist suður allt Þýskaland. Það var hans – og þess tíma – útgáfa af Interrail-ferð. Ísleifi ógnuðu afleiðingar styrjaldarinnar og ásýnd Þýskalands hafði djúp áhrif á hann.

Þegar Ísleifur hafði numið fræðin, notið danskrar menningar og – skv. því sem mér telst til orðinn skógfræðingur þjóðarinnar nr. 7 – var hann tilbúinn til starfa á Íslandi. Í ársbyrjun 1949 var Ísleifur ráðinn til að verða skógarvörður á Norðurlandi, með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Hlutverk hans var að vakta skóga á Norðurlandi. Víða voru kjarrsvæði og skógarleyfar sem þurfti ekki aðeins að vakta heldur einnig að verja til að þau lifðu. Hlutverk skógarvarðarins var ekki aðeins að girða heldur líka beita sér í samskiptum við fólk og þmt stjórnvöld til að vernda viðkvæm svæði, sjá til að umgengni við skógana yrði bætt og peningar yrðu til að manna stöðvar og starf.

Svo breyttist skógarvarðarstarfið á Vöglum. Ísleifur beitti sér fyrir uppbyggingu ræktunarstöðvar og umfangsmiklum tilraunum með tegundir og kvæmi sem hægt væri að nýta á Íslandi. Hann og starfsfólkið á Vöglum byggðu upp þekkingargrunn sem var hagnýtur við skógræktarstarf í landinu á seinni hluta tuttugustu aldar. Um 1980 voru á Vöglum framleiddar um 150 þúsund skógarplöntur árlega til plöntunar í Fnjóskadal eða annars staðar á Norðurlandi. Þessi framleiðsla kom til móts við aukin skóræktaráhuga landsmanna, þjónaði skógræktarfélögum og einnig mikilvirkustu skógræktarmönnum þjóðarinnar, sumarbústaðafólkinu. Merkilegar tilraunir voru gerðar við að greina hvaða tegundir hentuðu og við hvaða aðstæður.

Sigurlaug, börnin og Vaglir

Svo var það ástin. Hinn bráðungi skógarvörður á Vöglum var einhleypur þegar hann kom norður í veturinn í Fnjóskadal. Fyrst bjó hann á Skógum, sem er vestan ár. En svo kom vorið. Skógræktin var byggðarstólpi í dalnum og veitti mörgum atvinnu. Og Ísleifur réði fjölda fólks til starfa, m.a. Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni (f. 15. júlí 1931 – dóttir hjónanna á Skarði, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Jóns Jóhannssonar).

Og kannski var það fyrirsjáanlegt að fallegi Ísleifur og hin fallega Sigurlaug hrifust af hvoru öðru. Þau féllust í faðma og voru glæsileg hjón. Þau gengu í hjónaband 12. nóvember árið 1950. Hann fékk hana í afmælisgjöf – og sú gjöf var ein af stóru lífsgjöfum hans og til blessunar. Það voraði vel í lífi hans í Vaglaskógi og hjúskapurinn varð Sigurlaugu og Ísleifi ávaxtasamur. Þau eignuðust sjö börn. Elst er Sigríður Ingibjörg sem fæddist árið 1951. Síðan komu börnin eitt af öðru og þétt. Jón fæddist árið 1952, Jóhann Svavar tveimur árum síðar. Sumarliði Ragnar fæddist árið 1955 og Sigurður Örn ári síðar. Rúnar kom svo í heiminn árið 1962. Árið 1973 fæddist Guðmundur Einar, en hann lést aðeins tveggja ára.

Þau Sigurlaug og Ísleifur bjuggu á Vöglum í 38 ár. Heimili þeirra var fjölsótt. Það var m.a. áfangastaður erlendra skógræktarmanna sem komu víða að úr veröldinni. Svo var fjöldi fólks sem starfaði í skóginum, nokkrir allt árið og jafnvel einhverjir tugir yfir sumarið. Því var í mörg horn að líta og reyndi á hæfni og samstöðu þeirra hjóna. Þau nutu svo föður Ísleifs meðan honum entist aldur (+1965). Hann studdi son sinn og tengdadóttur í ýmsu m.a. með því að vera börnunum á Vöglum natinn afi sem miðlaði fjölskyldusögu, trú og gildum hins gamla Íslands.

Vaglaskógur var vegna skógræktar tengdur stórheiminum ekki síður en nærheimi. Skógarvörðurinn var ekki aðeins í góðri samvinnu við innlenda skógrækt heldur erlenda einnig. Fræsendingar komu um langan veg. Gestir komu færandi hendi og skógarvörðurinn eða þau Sigurlaug bæði ferðuðust um heiminn í vinnuerindum og oft í einkaerindum einnig. Á heimili þeirra Ísleifs mátti sjá minjagripi um heimsreisur þeirra og hve víða þau höfðu farið.

38 ár á Vöglum og svo þegar þau létu af störfum nyrðra voru þau reiðubúin að brjóta nýjan akur. Þegar þau höfðu lokað Vaglabænum í síðasta sinn hófu þau nýjan feril. Ísleifur og Sigurlaug fluttu árið 1986 suður í Mosfellsbæ. Þar keyptu þau hús og land og settu síðan upp gróðrarstöð sem þau ráku í tvo áratugi og framleiddu garðplöntur. Þau voru vön að starfa saman, nutu styrkleika hvors annars og gátu á eigin kostnað gert áfram tilraunir með gróður og í nýjum aðstæðum og á nýju svæði. Garðplöntusalan varð líka samastaður og jafnvel á stundum vinnustaður afkomenda þeirra hjóna. Þegar Ísleifur var áttræður og kona hans á áttræðisaldri var komið að nýjum skilum. Þau seldu hús og land og fluttu til Reykjavíkur. Ísleifur stríddi við vaxandi heilsuleysi síðustu árin og lést mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Þá höfðu þau Sigurlaug verið í hjónabandi í 65 ár.

Kveðjur hafa borist frá Frímúrum á Akureyri sem og frá systkinum í Nesi í Fnjóskadal.

Minningarnar

Hvernig manstu Ísleif Sumarliðason? Manstu dugnaðinn og vinnusemina? Hann var atorkumaður sem við munum eftir sem kynntumst honum. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður. Áhugamaður um samfélagsmál og þjóðfélagsmál og las mikið alla tíð. Hann opnaði huga gagnvart menningu heimsins. Ísleifur var málafylgjumaður, hafði skoðanir á flestu og var stefnufastur í mörgu. Hið innra bjó í Ísleifi næmni og meir lund sem kom betur í ljós þegar leið á æfina. Hann var heiðarlegur og raungóður. Ættingjar og sveitungar vissu að hægt var að leita til Ísleifs um stuðning af ýmsu tagi. Ísleifur var öflugur stjórnandi, hvatti fólk til dáð í kringum sig, börnin sín til mennta og nærsamfélag til dáða.

Hvernig manstu hann? Hvað kemur í huga þinn? Lyftu upp, farðu vel með og legðu frá þér með natni – eins og þegar lagt er til spírunar það sem er ætlað til lífs.

Sumarlandið

Og nú er komið að skilum. Maðurinn sem byrjaði æfina með því að búa á Krossi fer nú undir merki krossins inn í eilífðina. Meistarinn mikli frá Nasaret var áhugamður um gróður, benti á liljur vallarins, sagði sögur af garðyrkju og fólki í ræktunarstörfum. Það er skógrækt og lífrækt í þeim Jesú Kristi sem líkti sjálfum sér við tré. Og það tré tilheyrði lífinu. Svo ræddi hann líka um sáðmann sem fór út að sá og sumt fræið bar ávöxt og annað ekki. Það er sagan um okkur menn, líka Ísleif Sumarliðason. Hann gekk í helgidóm skógarins, sáði í frjóan jarðveg og fylgdist svo með spírun, lífvexti og ávexti. Guð á himnum horfði með áhuga og stuðningi til Ísleifs, fylgdist með lífi hans og ávöxtum verka hans og fjölskyldu. Og svo er boðskapur úr gróðrarstöð himins skýr: Ég er upprisan og lífið. Ný spírun í nýjum sáðreit eilífðar. Þar fer ekkert forgörðum því sú ofuræktunarstöð er fullgerð, er án hreta og laus við öll dýr og mein.

Guð geymi Ísleif í því sumarlandi. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 7. júlí, 2015. Erfidrykkja í Neskirkju og jarðsett í Guðfuneskirkjugarði.