Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Guðrún Nielsen + minningarorð

Glæsilegur eldhugi er horfinn inn í himininn. Minningar um Guðrúnu Nielsen hafa lifnað síðustu daga og það er heillandi að lesa fjölda greina um hana sem veraldarvefurinn geymir ágætlega og miðlar greiðlega. Bros konu á eftirlaunum blasir við á forsíðu tímaritsins Ung í anda, sögurnar um leikfimi í Ármanni laða, frásögur frá uppeldinu syðra og nyrðra, vinnuæfin hennar opinberast sem og þjónusta við þúsundir skólabarna. Og við starfslok hófst nýr tími í lífi hennar, virkni- og sigurför í þágu aldraðra og íþróttaiðkunar þeirra. Guðrún kom öldruðum á stjá og er einn af merkustu íþróttafrömuðum þjóðarinnar síðustu áratugi. Svo er hún farin inn á íþróttasvæði himinsins. Við getum ímyndað okkur hana taka nokkur charlestonspor eða ganga rösklega inn á eitthvert ofuríþróttasvæði, standa svo framan við hóp brosandi, geislandi vera sem hreyfa sig með þokka. Guðrún liðkaði, lífgaði og efldi – og við megum skynja himininn sem allt hið besta sem við höfum þekkt í þessum heimi og lífi.

Bernskan

Guðrún lifði langa æfi og naut inntaksríks og gjöfuls lífs. Þegar hún lést var hún 92 ára gömul og hún lifði lífinu lifandi allt til loka. Guðrún var sumarbarn, fædd­ist í Reykjavík þann 29. júlí 1923. Hún kom í heiminn þegar Ísland var hluti dansks konungsríkis, en varð borgari í sjálfstæðu íslensku ríki. Hún var hálf-dönsk því faðir hennar var danskur, frá Svendborg á Fjóni, en mamman úr Garðinum á Reykjanesi. Foreldrarnir voru Jörgen C. C. Niel­sen, bak­ara­meist­ari, og kona hans Guðrún Ó. Ólafs­dótt­ir Niel­sen. Börnin þeirra voru fimm og Systa – eins og hún var kölluð – var næstelst. Eftirlifandi eru Ólafur og Helga, en Soffía og Valdemar eru látin. Á bernskuheimilinu bjuggu einnig tvær uppeldissystur sem foreldrar Guðrúnar tóku að sér. Þær hétu Nanna og Helga og eru báðar látnar. Mannlífið var ríkulegt og fjörlegt. Mamman rak heimilið og pabbinn bakaði. Þau voru samhent, dugmikil og stefnuföst. Þau festu sér hús á Bergstaðastræti og voru einbeitt í að skapa fjölskyldunni góðan ramma og lífsviðurværi.

Bergstaðastaðstræti var á þessum árum hluti litríks hverfis Reykjavíkur, sem var eiginlega úthverfi nærri byggðarmörkum. Mikill fjöldi var í húsunum, börnin voru mörg, fyrirtæki voru rekin í herbergjum og kjöllurum og byggðin þandist út á þessum árum. Guðrún var sein til gangs en þegar hún var búin að ná sér af beinkröm frumbernskunnar var hún kvik, snögg og fljót – út lífið. Dugnaðurinn og persónueinkennin komu strax fram og Guðrún sagði sjálf kitlandi lykilsögu um sjálfa sig og stefnuna. Í anda sjálfsþurftarbúskapar tíðarinnar voru kartöflugarðar víða í Þingholtunum og hlaðnir steingarðar umhverfis til að varna aðgangi búfjár. Guðrún sá strax í görðunum ljómandi kennslutæki. Hún safnaði nágrannabörnunum saman í hóp, stillti þeim upp og notaði kartöflugarð sem sundlaugarígildi og steingarð sem bakka og svo kenndi hún öllum hópnum sundtökin og hvernig ætti að stinga sér af bakka út í laug! Hún sagði skemmtilega frá þessum bernskuæfingum kennaraefnisins við að koma öllum á stjá og til fjörlegra lífs. Og svo bætti hún við og kímdi. „Ég hef verið óþolandi.“ Guðrún lærði að þekkja styrkleika sína og getu og hafði líka húmor fyrir aðstæðum. Hún hafði í sér getu leiðtogans – eldhugans.

Norðrið rómantíska

Þegar tilboð barst að norðan um að Jörgen bakaði fyrir Akureyringa og Eyfirðinga ákváðu foreldrar Guðrúnar flytjast norður. Þar bakaði Jörgen í nokkur ár, fjölskyldunni leið vel, Guðrún hóf skólagöngu nyrðra sem hún minntist alla æfi með þakklæti og virðingu. Kennararnir voru hæfir og urðu sem lifandi fyrirmyndir um vegsemd og möguleika skólastarfs og kennslu. Guðrún sá Akureyri síðan í rómantísku ljósi og minntist þessara ára með þakklæti og tók með sér suður og fléttaði í eigið líf ungmennafélagskraftinn sem aldrei hvarf henni síðan.

Bergstaðastrætið að nýju og mótun

Og svo fóru þau öll suður aftur eftir ævintýrið norðan heiða – í húsið sitt við Bergstaðastræti. Þar var fjörlegt og skepnur, fuglar og svín, voru í garði. Það er meira að segja til bernskumynd af henni milli grísanna. Jörgen hélt áfram að baka brauð og kökur, Guðrún eldri stýrði heimilinu af skörungsskap og Guðrún yngri fór í Miðbæjarskólann og svo í gagnfræðaskóla. Hún lét til sín taka í barnahópnum, líktist föður sínum, varð dugmikil hannyrðakona, lærði að sníða, sauma, telja út og aga fegurðarskyn sitt svo að hún hafði alla tíð sterkar skoðanir á hvers konar fagurfræðilegum efnum. Og hún lærði að tengja anda og tilfinningar við hið snertanlega og kjólarnir hennar og hlutir urðu að sýnilegum og opnandi minningarlyklum. Þegar hún dró fram kjól eða einhvern mun komu sögurnar óhikað og minningarnar urðu ljóslifandi fyrir þeim sem nutu og heyrðu. Kennarar vita að pedagógísk hjálparmeðul eru góð og Guðrún notaði hluti til að minnast og opna eigin sögu og tjá eigin lífsreynslu.

Ármann, íþróttir, menntun – störf

Unglingsárin voru Guðrúnu gleðitími og gjöful. Hún var ekki aðeins virk í skóla og hverfi heldur heillaðist af fimleikum. Hún stundaði stíft æfingar í Ármanni og fór á fjöll á vegum þess félagsskapar um helgar. Hún tók þátt í að reisa Ármannsskálann, eignaðist fjölmarga félaga í störfum og við æfingar. Svo varð fimleikaiðkun ekki aðeins til að efla hreysti hennar líkamlega heldur varð félagsskapurinn að þroskavettvangi. Hún kynntist betur eigindum sínum og lærði m.a. að skilja eftir feimni. Og fimleikaiðkunin opnaði henni útlönd einnig og eftir að heimsstyrjöldinni lauk fór hún margar fimiferðir um Norðurlönd. Þar opnaðist henni heimur sem síðan var hennar heimaveröld og hún nýtti til starfs – og raunar alla æfi.

Jón Þorsteinsson íþróttafrömuður var glöggur á fólk og sá í Guðrúnu Nielsen konu framtíðar. Hann orðfærði við hana hvort hún gæti hugsað sér að læra til íþróttakennara. Spurningin varð sáðkorn í sálu Guðrúnar og hún fór austur á Laugarvatn, í Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún var útskrifuð sem íþróttakennari vorið 1945 og sótti síðar nám­skeið í Dan­mörku, Finn­landi og Svíþjóð. Hún fékk strax vinnu í grein sinni og starfaði sem íþrótta­kenn­ari við Laug­ar­nesskóla frá árinu 1945. Hún kenndi einnig við Íþrótta­skóla Jóns Þor­steins­son­ar og Sam­vinnu­skól­ann. Þá kenndi hún leik­fimi og dans hjá Ármanni og þjálfaði aðalalega stúlknaflokka. Hún stýrði sýn­ing­ar­flokk­um kvenna í fim­leik­um sem sýndu m.a. á Háloga­landi og Mela­velli, í Þjóðleik­hús­inu og við Arn­ar­hól á 17. júní. Auk þess fór hún með fim­leika­flokka í sýn­ing­ar­ferðir til Nor­egs, Hol­lands, Finn­lands og Dan­merk­ur. Guðrún varð heiðursfélagi í Ármanni. Guðrún hóf að kenna við Lauga­lækj­ar­skóla 1961 og kenndi síðar við Fjöl­brauta­skól­ann í Ármúla. Hún kenndi öll­um ald­urshópum íþrótt­ir, sund, dans og fim­leika.

Sjálboðastarfið – í þágu aldraðra

Þegar Guðrún hafði lokið skólakennslu, þau hjón höfðu fullklárað uppeldi barna og húsið í Lerkihlíð, og hún hafði orðið betri tíma hófst nýr kafli í lífi Guðrúnar Nielsen, sjálboðatíminn. Við starfslok sem skólakennari kynnti hún sér nýjar stefnur í íþróttum fyrir aldraða í Danmörku og vann svo að stofnun Félags áhugamanna um íþróttir aldraða, árið 1985, og var í fararbroddi í þeim málaflokki í aldarfjórðung. Þetta var hugsjóna- og sjálboða-starf. Hún varð brautryðjandi í nýrri hreyfingarbyltingu þjóðarinnar. Hún naut siðferðilegs stuðnings íþróttayfirvalda og síðar ofurlítinn fjárhagslegan stuðning stjórnvalda til að efna til átaks meðal Íslendinga sem voru komin til fullorðinsára. Á þriðja áratug var Guðrún einbeitt að koma fólki á stjá – aldrei of seint – sagði hún. Guðrún var sjálf fyrirmynd öðrum við hreyfingu, glæsileg og ungleg, sýndi og bar vitni um að máli skipti að iðka hreyfa sig og iðka íþróttir við hæfi. Og tímaritagreinarnar, viðtölin í fjölmiðlum, og dagblöðin tjá vel hve Guðrún geislaði í starfi og hafði áhrif á þúsundir – og varð til að bæta heilsu þjóðarinnar. Hvatningarstörf hennar við þessa þörfu byltingu fóru ekki fram hjá neinum sem létu sig lýðheilsu varða og Guðrún var vegna þessa sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2002. Það er vel og maklegt.

Hjúskapur og ástvinir

Svo var það ástalífið. 17. Júní var ekki bara sýningardagur Guðrúnar á stóra sviðinu. Hún dansaði sjálf og var svo heppinn að rata í fangið á Gunnari Guðröðarsyni (f. 1920, d. 2013), samkennara sínum í Laugarnesskóla, miklu prúðmenni og gáfumanni. Engum sögum fer af dansæfingum þeirra á kennarastofunni en dansinn þeirra á þjóðhátíðardeginum dró dilk á eftir sér. Þau dönsuðu sig inn í hjúskapinn. Þau voru bæði fullveðja, þroskuð, hæfileikarík og mótuð. Þau hófu hjúskap og héldu vel hjúskapartaktinn, stundum hratt og stundum hægt – allt til enda. Þau voru góð hjón. Gunnar lést fyrir tæpum þremur árum.

Þau Guðrún eignuðust tvö börn. Karl fæddist árið 1952. Hann er jarðeðlis­fræðingur og starfar hjá Íslenskum Orkurannsóknum. Bergrún Helga fæddist svo árið 1959. Hún er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá Marel. Hennar maður er Gunnar Pálsson, verkfræðingur. Dætur þeirra eru Halla (f, 1991) og Vaka (f. 1988). Sambýlismaður Vöku er Guðmundur Vestmann (f. 1987) og þau eiga dótturina Kríu (f. 2012).

Fyrst bjuggu þau Guðrún í Bólstaðarhlíð en svo fengu þau lóð í Lerkihlíð og byggðu þar fallegt parhús sitt og áttu heima þar til lífsloka beggja.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu? Hvað kemur upp í huga þinn? Manstu svipbrigði hennar og bros? Ef þú varst einn af þúsundum nemenda hennar manstu hve öflugur kennari hún var. Manstu kvikar hreyfingarnar? Manstu hve dugmikil og snar í snúningum hún var? Stakk hún þig einhvern tíma af á göngu? Það var ekki sjálfgefið að halda í hana og gildir einu hvort hún var þrítug eða áttræð. Undraðistu einhvern tíma hraða hennar? Hún var létt á sér og naut að hreyfa sig. Manstu stefnufestu hennar og geðstyrk? Manstu hve ákveðin hún var í flestum málum og marksækinn og fylgdi vel á eftir? Manstu viljann og einbeittnina?

Hvað gerði Guðrún fyrir þig sem þú getur nýtt og veitt áfram í eigin lífi og starfi? Manstu hve reglusöm hún var í öllum málum? Manstu iðjusemina og hve hún setti markið alltaf hátt? Og hefur þú einhvern tíma smurt júgursmyslum eða vaselín á auma öxl eins og Guðrún benti öllum að gera ef eymslin hömluðu? Manstu hve sókn Guðrúnar í líf og gáska var einbeitt og skýr – allt til hinstu stundar? Og manstu hve heitt hún elskaði fólkið sitt og beitti allri orku sinni í þeirra þágu? En svo átti hún líka orku og tíma aflögu fyrir íslensku þjóðina. Og manstu að hún tjáði, kenndi og sýndi langar og þokkafullar hreyfingar, sameinaði íþróttir og fegurð?

Skil og eilífð

Og nú eru orðin skil. Hún borðar ekki lengur á heimsmælikvarða eða dansar við Gunnar sinn. Hún syngur ekki fleiri gleðisöngva með Senjórítunum. Hún kennir engum framar að rísa upp úr stól eða flögrar um. Hún kallar ekki þúsundir saman til íþróttadags eða fer fimleikaferðir í veröldinni. Hún fer ekki framar í minningageymslurnar og nær í fallegan kjól sem hún saumaði og segir kitlandi ævintýrasögur um vel saumaða spjörina og tengdar minningar. Hún týnir engan arfa í garðinum sínum framar og nú er nýgræðingurinn farinn að stinga upp kollunum en hús- og garð-ráðandinn farinn. Guðrún stýrir ekki framar teygjum eða hóp að dansa “kónga” á göngubrú yfir fjölförnasta akveg landsins. Hún fer ekki lengur til Kanarí eða í leikfimi. Nú er það stærsta sviðið – himininn. Og þegar við hugsum um Guð og eilífð þarf að stækka alla hugsun og skýra hugtök. Trúmaðurinn opnar vitund og tíma og getur séð Guðrúnu Nielsen í stórum hópi þakklátra vina, sem hreyfa sig með þokka og löngum hreyfingum. Rún hennar er leyst, Guðrún er í mynd Guðs, þokkinn alger, gleðin óspillt, engin markmið of háleit eða fjarlæg og lofsöngurinn samstilltur í fimleik eilífðar.

Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í fegurð og ljósi himins.

Amen.

Við skil eru nokkur sem hafa beðið fyrir samúðarkveðjur til þessa safnaðar: Svava Egilsdóttir og Þorgerður Gísladóttir. Systkini Guðrúnar þakka samfyld, skemmtilegu samverustundirnar, kærleika og tryggð. Bergrún og Karl þakka Helgu Nielsen og Garðari, eiginmanni hennar, ómetanlega umhyggju þeirra í garð móður þeirra.

Bálför. Erfidrykkja í safnaðarheimili Háteigskirkju.

Minningarorð í við útför sem gerð var frá Háteigskirkju 21. mars, 2016.

Guðrún Valborg Finnbogadóttir +

Guðrún Valborg FinnbogadóttirKynslóðir koma og kynslóðir fara… hið stóra samhengi sem jólasálmurinn dregur upp. Konan sem var 11.12.13. var einu sinni barn. Hún lifði langa æfi og er nú horfin inn í Paradís með sigursöng.

Hvernig var hún? Minningar þyrlast upp þegar hugsað er til baka. Það var hrífandi að hlusta á sögur vel mælandi fólksins hennar Guðrúnar. Leiftrandi og litrík mynd varð til í mínum huga, mynd af konu sem hafði gaman af veiðum, hafði auga fyrir myndum, tók myndir og framkallaði einnig þegar fáar konur höfðu aðgang að myndavél, hvað þá lögðu fyrir sig í frístundum að ljósmynda og stækka. Guðrún hafði farið í reisu um Norðurlönd á fjórða áratug síðustu aldar þegar fár konur fóru út fyrir landsteina. Svo spilaði hún á píanó og tónlistin barst út á Njálsgötuna og blandaðist inn í borgarsynfóníuna.

Já, það eru jól, og vert að fagna að frelsari heimsins fæddur er. Og á þessum jólum kveður Guðrún Valborg Finnbogadóttir og vert og verðugt að þakka fyrir allt það sem hún var og gaf fólkinu sínu, ástvinum og samfélagi. Kynslóðir koma og fara og við njótum þess sem okkur hefur verið fært og skilum áfram til að nesta næstu kynslóð til hamingjugöngu og göngu til lífs.

Upphafið

Guðrún Valborg Finnbogadóttir var 11.12.13. – fæddist á fimmdegi klukkan ellefu fyrir hádegi þann ellefta desember árið 1913 og hafði náð 102 ára aldri þegar hún lést. Þegar Guðrún átti aldarafmæli, fyrir tveimur árum, sagði hún í dagblaðsviðtali að hún hafi vonast til að afmælisdagurinn yrði á fimmtudegi líka, sem varð reyndar ekki. Blóðforeldrar hennar voru Þuríður Jóhannesdóttir og Georg Finnsson. Foreldrarnir höfðu ekki tök á að hafa hana hjá sér og hún fór því til föðurömmu sinnar, Guðrúnar Snorradóttur. Amman var elskurík og þær yngri og eldri höfðu gleði af hvor annarri.

Þegar Guðrún gat ekki alið önn fyrir nöfnu sinni lengur stakk hún upp á við barnið að hún gerði tilraun að fara um tíma til systur sinnar, Sesselju Snorradóttur og Finnboga Finnbogasonar, sem voru barnlaus. Og Guðrún litla fór með aleiguna, koddann sinn. En tilraunin hjá Sesselju og Finnboga á Njálsgötu 27 tókst framar öllum vonum. Guðrúnu var tekið svo vel að hún fann sig fljótt heima og svo féll Guðrún amma frá og þá var ekki aftur snúið. Og Guðrún yngri fagnaði mjög þegar ljóst var að hún hefði eignast pabba og mömmu og mætti kalla þau þeim persónulegu nöfnum og ávarpa þau sem slík. Hún fagnaði mjög þeim áfanga sem mörgum þykja sjálfsögð gæði.

Glaðværð ríkti á heimilinu og þær Sesselja áttu skap saman. Efnin voru þokkaleg því húsbóndinn var skipstjóri á strandferðaskipinu Skaftfellingi, sem var happafleyta og vonar- og bjargarskip Skaftfellinga. Þau Sesselja báru Guðrúnu á höndum sér, veittu henni öryggi, leyfðu hæfileikum hennar að þroskast. Guðrún sótti skóla í Miðbænum, enda Austurbæjarskóli ekki orðinn til þegar hún var að vaxa upp á Njálsgötunni. Þegar hún hafði lokið barnaprófi fór hún í Kvennaskólann.

Þegar ljóst var að músík blundaði í Guðrúnu var tækifærið notað þegar hún var fermd og hún fékk píanó í fermingargjöf, fínt tékkneskt píanó sem varð slagharpa tónlistariðkunar Guðrúnar alla æfi. Hún sat fúslega og æfði sig á skölunum, fann gleðina í hljómaganginum, stóð sig vel í píanónáminu og varð handgengin tónlistarkennaranum Ingibjörgu Benediktsdóttur. Þær fór svo mikla reisu saman 1934 áður en óveðrið skall á með fullum þunga í stórnmálum Evrópu. Í minnum er haft að Guðrún var ekki bara með puttana á nótnaborðinu heldur einnig á myndavélinni. Hún tapaði reyndar vélinni á leiðinni en hafði það mikð fé milli handa að hún gat keypt sér nýja til að mynda það sem bar fyrir augu. Það eru því til myndir í fjölskyldunni af því Guðrún hafði áhuga á að taka myndir og framkalla. Myndirnar eru dýrmæti eru til fyrir eftirlifendur og kynslóðir framtíðar.

Sesselja, fóstra Guðrúnar, féll frá árið 1932 og fóstrinn Finnbogi kom í land. Fyrr og síðar var Guðrún natin við fósturforeldra sína og þegar húsmóðirin var látin hélt hún heimili fyrir Finnboga. Þótt aðstæður hafi ekki verið beinlínis gæfulegar þegar Guðrún kom í heiminn og henni hafi verið fleytt tvisvar til nýrra umsjónaraðila er saga uppvaxtar hennar gæfusaga. Hún fékk næði og stuðning til að þroska gáfur sínar og njóta. Gott samkomulag var við fjölskyldurnar í nágrenninu við húsið nr 27, svo gott að Njálsgötuþorpið fór jafnvel í skemmtiferðir saman.

Hermann og börnin

Svo kom Hermann Guðlaugsson inn í líf Guðrúnar. Þau kynntust í vinahóp og mublusmiðurinn ungi hreifst af Guðrúnu og hún af honum. Þau dönsuðu uppábúin á Borginni og dönsuðu til framtíðar. Þó ekki deildu þeir Finnbogi og Hermann pólitískum skoðunum virtu þeir hvorn annan og gáfu með samskiptum, orðum og jafnvel líka þögnum, yngri kynslóðinni innsýn í átaklínur stjórnmála. Þeir keyptu ólík blöð og smituðu með augnagotum, smáhlátri og viðbröðgum hvað var hvers og hvurs var hvað. Hermann efldi Finnboga til dáða og dreif hann með sér í vinnu á stríðsárunum sem varð honum og heimilislífinu til góðs.

Þau Hermann og Guðrún gengu í hjónaband á Þorláksmessu árið 1944. Sr. Jakob Jónsson, prestur í Hallgrímssókn gaf þau saman, líklega í stofunni heima hjá klerki. Breytingar urðu á mannlífinu í húsinu á Njálsgötu 27. Ungu hjónin fengu góða aðstöðu og Finnbogi afi færði sig um set í húsinu. Hjúskapurinn bar þann góða árangur að Finnbogi kom í heiminn árið 1945. Kona hans er Hansína Garðarsdóttir, Guðlaugur fæddist svo ári síðar eða 1946. Kona hans er Guðrún Sverrisdóttir. Sesselja fæddst svo árið 1950.

Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin tíu.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu og hvernig tengdist hún þér? Já, hún bjó hér í þessari sókn, Hallgrímssókn alla tíð. Á Njálsgötunni var hún frá fjögurra ára aldri og hátt í öld og þá fór hún nokkur hundruð metra og yfir á Droplaugarstaði árið 2009.

Guðrún var Rekjavíkurkona en líka mikil ferðakona. Þau Hermann voru samvaxin í að fara um og skoða Ísland. Guðrún hikaði ekki þegar þeim hjónum bauðst að kaupa bíl af breska setuliðinu. Og Bedfordinn var kannski ekki hraðskreiðasti bíllinn í bænum, en traustur og tryggur í fjölskylduferðunum og boddíið sem Hermann smíðaði á Beddann dugði vel.

Farið var árlega austur í Þingvallasveit í útilegu og veiðiskap. Svo festu þau Hermann sér liðlega fimmtíu fermetra grunn í landi Elliðakots ofan Reykjavíkur. Þar byggu þau sér sumarhús og nutu lífsins. Svo seldu þau það frá sér síðar og teygðu sig lengra og komu sér upp sumarhúsi við Meðalfellsvatn í Kjós. Þar undu þau sér við veiðar og landnemastörf og voru samhent. Ævintýralífið hentaði Guðrúnu vel og þau settu ekki fyrir sig að hafa bara eina kabyssu til hitunar og eldamennsku og þurfa að ná í vatn í lækinn. Þau áttu líka bát til veiða og þótti ekki verra þegar lax kom um borð og í pott.

Guðrún var skemmtileg mamma. Í henni bjó lífsgleði og gáski og hún var svo náttúruð að hún lagði sig eftir því sem hreif börn hennar. Hún var því hrifkvika heimilisins á Njálsgötu 27. Og af því hún vann heima var oft margt um manninn og við vinum barnanna var tekið. Hún setti börnin sín í forgang og gaf þeim veganesti til lífs. Svo spilaði hún “etíður og tunglskinslög” og gaf börnum sínum tilfinningu fyrir Chopin og Beethoven. Hún tengdi saman þrjár kynslóðir i húsi afans. Og sagan um húsið er frábærlega sögð í dásamlegri bók Finnboga Hermannssonar, Í húsi afa míns.

Hermann vann við iðn sína, húsgagnasmíði og vann lengstum hjá Reykjavíkurborg og smíðaði m.a. skápa og innréttingar í skóla borgarinnar. Þegar hann eltist og hætti vinnu hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurborgar settu þau hjón upp húsgagnaverslun, forngripaverslun, á Njálsgötunni og unnu bæði við að gera upp húsgögn og koma til nýtingar á ný. Og Guðrún var flínk í höndum og þau unnu vel saman í viðgerðum. Þegar heilsa Hermanns brast var Guðrún honum hin besta stoð. Hann lést árið 1997 og hún bjó áfram á Njálsgötunni og átti þar ágæt ár umvafin börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Á Droplaugarstöðum naut Guðrún í sex ár ágætrar aðhlynningar og eignaðist vini í hópi starfsfólks. Og starfsfólkið á Droplaugarstöðum sagði mér með blik í augum hve Guðrún var alltaf jákvæð og hve bjartsýni hennar og léttleiki hefði verið smitandi og haft góð áhrif á heimilisfólkið í kringum hana.

Saga Guðrúnar er sem örsaga Íslands síðustu hundrað árin. Hún mundi Kötlugosið 1918 og sá ösku frá gosinu á hvítum diski. Örlög hennar voru ráðin þegar nýja Ísland var að fæðast, sjálfstæðið að aukast. Hún fæddist á dönskum tima og tók dönsk orðatiltæki í arf. Þegar Guðrún var hundrað ára og minnist uppvaxtaráranna á Njálsgötunni sagði hún: „Þarna var gaman að vera í gamla daga. Þá voru engir bílar á götunni. Þetta var bara hestvagnar og hestar.“ Og svo bætti hún við. „Ég held að ég hafi haft góða lund, létta frekar. Þótti gaman að eitthverri vitleysu.“

Og nú er hún farin. Nú er lokið langri sögu. Fram, fram um víða – veröld og gistum. Já hún hafði getu til að fara ferðir, fór sínnar pílagrímaferðir. Konan 11.12.13. er komin í sína Paradís og með sigursöng. Þegar hún var að undirbúa hinstu ferðina var hún farin að hlakka til að hitta ástvini sína og hún hlakkaði líka til að hitta vinkonur sínar. Það er dásamleg afstaða að trúa að lífið sé ekki smátt heldur stórt, gott en ekki illt. Hún hafði reynslu af góðu fólki og að lífsferðin væri góð. Og Guðrún átti í sér trú á að lífið héldi áfram og góðs væri að vænta. Elífa lagið gleymist ekki – gleðisöngurinn. Njálsgata 27 var góð, og Himingata 27 er óefað góð líka. Þar er enginn deyfð eða drungi heldur góð soðning, fjör og músík. Og söngur himsins er um að Guð er góður, elskar og kemur til manna, er með mönnum, er frelsari sem heldur öllu til haga, umhyggjusamlega -eins og besta móðir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Í þeim boðskap og veruleika er rún Guðs. Guðrún er í góðum ranni.

Guð geymi hana og varðveiti. Guð geymi þig og gefi þér líf til blessunar.

Amen.

Jakob Guðmundsson á Árbakka í Austur Húnavatnssýslu hefur beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Hann bjó sem barn á Njálsgötu 36 og sagði mér hve oft Guðrún hefði kallað hann í eldhús og gaukað að honum og börnunum í hverfinu kökubita.

Minningarorð við útför Guðrúnar í Hallgrímskirkju 30. desember, 2015. Kistulagt sama dag. Bálför. Erfidrykkjan í Nauthól við Nauthólsvík.

Sigríður H. Þorbjarnardóttir – minningarorð

Sigríður ÞorbjarnardóttirFulltrúar heimsbyggðarinnar ræða fótspor og framtíðarskref í París. Sigríður Helga Þorbjarnardóttir var aldrei í vafa um að við menn bærum ábyrgð. Hún þekkti sitt eigið umhverfisspor og okkar allra. Hún var ábyrg – ekki aðeins gagnvart sjálfri sér heldur umhverfi sínu og verkefnum lífsins.

Á Tröllaskaga

Ég kynntist Siggu á Tröllaskaga í ágúst árið 1998. Reyndar hafði ég séð hana á röltinu í Vesturbænum en við urðum ekki málkunnug fyrr en í Ferðafélagshóp sem kannaði hina norðlensku Alpa. Sigga kom hýreyg í hús í Ytri-Vík á Árskógsströnd þar sem hópurinn gisti í skjóli Sveins í Kálfsskinni. Og enn bjartleitari var hún daginn eftir í morgunbirtunni, sólskininu, við Reistará þegar eftirvæntingarfullur hópur safnaðist saman, hugaði að gönguskóm, herti á stöfum og gegndi kalli fararstjóra Ferðafélagsins. Og þar var Sigga við hlið Helga Valdimarssonar, hins fararstjórans. Svo var lagt í hann, rölt upp hlíðar Kötlufjalls, sem er gott fyrstadagsfjall. Sigga vaktaði allan hópinn, gætti að þeim sem ráku lestina og sérhæfðu sig í Alpagöngulagi. Svo þegar upp var komið herti Sigga á, kátína hópsins jókst og gönguhrólfarnir innlifuðust unaði íslensks sumars. Svo var skokkað niður hrísmóa og heim í náttstað. Slegið var upp veislu. Og þetta voru dýrðardagar, stórkostlegar göngur og ríkulegt félagslíf. Sigga skáskaut augum á samferðafólkið, tók sposk þátt í fjörinu, kættist af einbeittri gleðisókn og safnaði rekasprekum í strandeld. Sigga varð fjallamóðir mín í þessari ferð og við erum mörg sem höfum notið leiðsagnar hennar, fræðslu og félagsskapar í bláfjallageimi. Þar naut hún sín vel, þar átti hún sér friðland, þar var musteri hennar – þar var himinn henni opinn.

Upphafið

Þegar Sigga var komin upp á toppana á Tröllaskaga sá ég hana líta til austurs. Þegar við vorum á Rimum benti hún til Grenivíkur: “Þarna fæddist ég – ég er þaðan,“ sagði hún og ljómaði. Já, Sigríður Helga fæddist á Grenivík -inn í vorið árið 1948, 13. maí. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Guðmundsdóttir og Þorbjörn Áskelsson. Anna var frá Nýjabæ í Kelduhverfi og var ljósmóðir og Þorbjörn var útgerðarmaður á Grenivík. Hún sá um að lífið fæddist og hann um að mannfólkið nyti fæðu. Báðum lánaðist vel.

Þorbjörn var frá Austari Krókum á Flateyjardalsheiði og hafði stofnað útgerðarfyrirtækið Gjögur tveimur árum áður en Sigríður fæddist. Þau Þorbjörn og Anna eignuðust sex börn. Elstur systkina Sigríðar er Guðmundur sem kvæntur er Auðbjörgu Ingimundardóttur. Njáll var næstur í röðinni. Hann er kvæntur Jónu Jónsdóttur. Laufey er gift Jóni Sigurðssyni. Guðbjörg er gift Jónasi Matthíassyni og Guðrún gift Guðmundi Sigurðssyni.

Fjölskylda, flutningur og nám

Dymbilvikan árið 1963 varð Íslendingum þungbær. Þá fórust á þriðja tug Íslendinga í slysum á hafi og á landi. Þorbjörn Áskelsson var einn þeirra. Hann var aðeins 58 ára þegar hann lést þegar Hrímfaxi fórst í flugslysi við Fornebu sem þá var aðalflugvöllur Oslo. Þorbjörn hafði tekið við nýjum fiskibát í Hollandi og var á heimleið. Fráfall hans breytti allri sögu fjölskyldunnar og Anna ákvað að selja Ægissíðu, fjölskylduhúsið á Grenivík, og flytja suður. En útgerðarfyrirtækið lifði áfram og varð í höndum ættingja Siggu Grenvíkingum mikið bjargræðisfélag. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að fráfall föður var öllum í fjölskyldunni mikið högg og unglingnum þungbært.

Sigríður hóf skólagöngu fyrir norðan og lauk fullnaðarprófi frá Barnaskólanum á Grenivík árið 1962. Hún flutti svo suður með fólkinu sínu og settist að í húsi á horni Tómasarhaga og Hjarðarhaga. Hagar og Melar urðu hennar vettvangur á unglingsárunum. Hún fór í Hagaskóla, eignaðist félaga sem hún naut síðan. Henni gekk vel í námi og fór svo í menntaskóla. Þá lá leið flestra þeirra sem fóru úr vesturbænum í framhaldsskóla í MR og þaðan varð hún stúdent.

Háskólanám, störf og félagsmál 

Sigga hafði alla tíð mikinn áhuga á öllum greinum nátturufræði og virti áhugasvið sitt. Hún innritaðist í BS-nám í líffræði sem þá var nýhafið í HÍ. Því námi lauk hún árið 1973 og fór síðan til Englands í mastersnám og útskrifaðist með M.Sc. próf í örverufræði frá háskólanum í Warwick í Englandi.

Sigga var í fyrstu bylgju líffræðinga á Íslandi og var svo lánssöm að hún fékk strax vinnu við hæfi. Nýúskrifaður meistarinn hóf störf hjá Guðmundi Eggertssyni, prófessor, við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og varð hans hægri eða vinstri hönd í rannsóknum og helsti samstarfsmaður. Sigga var ráðin sérfræðingur við Líffræðistofnun háskólans. Rannsóknir hennar lutu að erfðafræði bakteríunnar E. coli. Síðar rannsakaði hún hitakærar bakteríur og kuldavirk ensím.

Kennslustörf urðu hluti af starfsskyldum Siggu. Hún var ekki aðeins fjallamóðir margra heldur einnig fóstraði hún fjölda líffræðinema í fræðunum. Hún kenndi flestum líffræðinemum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands síðustu fjörutíu ár. Hún var því n.k. ljósa þeirra í fræðum og námsmamma.

Og af því henni mátti alltaf treysta til allra starfa var Sigga eftirsótt í félagsstörfum einnig. Hún var í stjórn Líffræðistofnunar háskólans um árabil og vegna áhuga á mannlegu inngripi í gang náttúrunnar hafði Sigríður huga við eðli og áhrif erfðabreytinga. Hún var í ráðgjafanefnd umhverfisráðuneytisins um erfðabreyttar lífverur. Sigríður tók virkan þátt í starfi Ferðafélags Íslands og var þar í stjórn árin 1992-2001 og hafði mótandi áhrif á nýsköpun í ferðatilboðum félagsins.

Minningar og þakklæti

Og þá er komið að minningunum um Sigríði Helgu Þorbjarnardóttur. Við hefðum viljað njóta hennar lengur, fara fleiri fjallaferðir með henni, njóta fleiri fræðslustunda og sjá hana hverfa, sadda lífdaga, inn í blóðrautt sólarlag ellinnar. Margir hafa sagt við mig að eitt að því ömurlegasta við að eldast sé að sjá á eftir vinunum. Og því yngri sem þeir eru – því dapurlegra. Sorgin er skiljanleg og tilfinningar funa í lifandi fólki. Ekkert okkar á þó tryggt að geta klifið alla tinda sem við viljum eða notið samfylgdar allra til enda.

Í stað þess að harma tindana sem við náum ekki – getum við í frelsi okkar umtúlkað lífsafstöðu. Ef við lifum í afstöðu skortsins missum við vini, líf, möguleika og vegtyllur og ölum á eftirsjá. En þroskuð lífsafstaða nær stóra tindinum því hún staldrar við hrifningu og elsku og nærir þakklæti. Líf í fyllingu elur þakklæti. Þökk er farsælli lífsháttur en hyggja skortsins.

Í stað þess að hugsa um allar stundirnar með Siggu sem við förum á mis við og syrgja þær – gerum við betur með því að þakka það sem hún var og gleðjast yfir því sem við nutum. Við getum hyllt hana og megum lofa hana í huga og sál fyrir það sem hún gaf okkur og var okkur, fjallamóðir, fræðari, vísindakona, traustur vinur, nærgætinn leiðsögumaður, lífsglöð og umburðarlynd frænka eða systir.

Verkefni þitt er að gera upp og leyfa Siggu að fara. Fyrir hvað viltu þakka og hvað getur þú lært af henni þér til lífs og eflingar? Getur þú rifjað upp einhverja dýrmæta minningu um hana? Manstu eftir þegar hún fór á hnén og skoðaði blómjurt með nákvæmni vísindamannsins og í bland við fagurkerann sem elskaði liti, fjölbreytni og lykt? Manstu hve tillitsöm hún var í samskiptum, traust og áreiðanleg, nákvæm og samviskusöm? Manstu að alltaf var hægt að treysta henni og því sem hún ætlaði sér að gera? Hún reyndi alltaf að standa við sitt.

Manstu eftir bernskuleikjum hennar, að hún sótti út í náttúruna, féll í hið risastóra fang landsins, hlustaði á hvísl í sumarþey, fann í lyngi hlé og leikvang í mjöll eða fönn vetrarins? Manstu að hún var snemma klettasækinn? Hún fór á bernskuárum vestur í Skælu og klifraði í klettum.

Og lífið í sjónum átti hug hennar einnig. Hún réri stundum út á víkina og skoðaði fiskana á grunnsævinu. Og hún var tengd Ægissíðu á Grenivík og keypti svo með ættmennum sínum húsið að nýju þegar það var falt.

Mantu tryggðina, fjallstyrka traustið í henni, – kyrrláta skaphöfn eins og hún átti kyn til? Sigga lét ekki þvæla sér eða draga sig í einhver gönuhlaup og mannlífsfen.

Manstu hve annt henni var um að fara vel með og skemma ekki? Manstu meðvitaða og agaða nægjusemi hennar? Sigga velti vöngum yfir umbúðum og matvælum, hvort hún ætti að kaupa þetta eða hitt af því hún tók siðferðilega ábyrgð alvarlega. Hún vissi að þó hún gæti ekki bjargað heiminum ein gæti hún lagt sitt af mörkum. Er það okkur til eftirbreytni.

Þekktir þú hiklaust þor Siggu þegar hún tók stefnu? Hún var t.d. óhrædd við vélar. Hún prílaði snemma upp á Farmal Cub og náði ágætum tökum á græjunni. Vissir þú að hún keypti sér skellinöðru þegar hún var í námi í Englandi? Þegar hún var að þjálfa sig í akstrinum endaði hún reyndar ofan í ruslagám. Sigga hló þegar hún sagði frá þeirri þeysireið og sjálfskaparvíti. Hún gat gert grín að sér.

Áhugasvið Siggu var vítt. Hún hafði breiðan áhuga á menningarmálum, var fjöl- og víðlesin, hlustaði á alls konar tónlist, hafði opin hug til ýmissa greina mannvísinda. Hún virti fegurðar- og sannleiks-leit manneskjunnar í litríkum heimi og fjölbreytilegri náttúru. Hún var alin upp við klassískt og íslenskt menningarlæsi. Manstu hvað Sigga sagði um gildi, heim og ábyrgð manna í umhverfismálum? Það var grundvallað á þeim gildum sem henni voru blásin í brjóst í foreldrahúsum og rímuðu við náttúrujákvæðni og mannást íslenskrar kristni.

Manstu hve Sigga var gætin en þó óhrædd á ferðum í faðmi íslenskra fjalla? Hún gekk og fór um landið sumar sem vetur og í öllum veðrum. Hún fór margar svaðilferðir og stundum sá ekki úr augum í vetrarbyljum en aldrei fór hún sér að voða. Manstu styrka nærveru hennar, stundum orðlausa en hlýja?

Skilin

Og nú er komið að skilum. Og nú hefur hún tekið sín skref – ekki í París heldur inn í Paradís. Þar er mesta og besta umhverfisvitundin og verndarelska, sem er fólgin í Guði. Þar mun Sigga finna sig heima. Við megum kveðja hana með þakklæti, þakka náttúrumömmu, ljósu í fræðunum, þakka nærgætni við ástvini, frænkur og frændur. Þakka fyrir brosið, hláturinn og verkin. Hún slær ekki lengur lúpínu í Skaftafelli, stiklar um Nepal eða Madeira,  smellir ekki á sig sandölum, né mun hún ganga yfir hálendið á skíðum. Hún ver ekki mosató í hættu eða melgrasskúf en við megum minnast hennar með því að verja náttúruna.

Þegar við föllum í fang Bláfjallageims í náttúrumusteri heimsins getum og megum við syngja þakkarsálma fyrir allt það sem hún var okkur og leyfa þeim að verða okkur brýning til að verja lífið, helga lífið með góðri umgengni og með óáreitinni festu Siggu, sem aldrei skemmdi heldur varði og gætti. Hún fer ekki framar norður í Ægissíðu á Grenivík. Nú er hún á tindinum, bendir yfir landið og brýnir okkur – nú er hún komin í Ægissíðu eilífðar.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Í Jesú nafni – Amen.

Ég hef verið beðin um að bera ykkur kveðju frá Önnu Birnu Jónasdóttur og fjölskyldu í Kanada.

Róbert og Jórunn Eyfjörð biðja einnig fyrir kveðju en þau eru erlendis.

Minningarorð við útför í Neskirkju, miðvikudaginn 2. desember, 2015, kl. 15.

Bálför. Erfidrykkja í Neskirkja. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Lífið sækir fram

Bolli GústavssonSr. Bolli Þ. Gústavsson hefði orðið áttræður 17. nóvember 2015. En hann féll frá árið 2008. Bolli hafði mikil áhrif á okkur öll sem kynntust honum, fjöllistamaður, hlýr og umhyggjusamur. Ég flutti minningarorðin við útför hans sem gerð var frá Vídalínskirkju 4. apríl, 2008. Ræðan er hér að neðan.

Bolli átti í sér gáfu hrifningarinnar. Svartir hrísfingur í fannbörðu kjarri Laufáshyrnu urðu honum hrifvaki, sem hann orti út af. Rökkurgjóla, sem strauk fjallskinn eða gáraði fjarðarspegilinn bylgjaði líka sálardjúp hans. Kolluhljóð eða ljóð úr barka ljóðasöngvarans Fischer-Diskau endurómuðu í hljómbotni hið innra. Hnyttin setning kallaði auðveldlega fram bjartan hlátur, sem svo barst um byggð og út yfir fjörð. Fólk sem tjáði, náttúra sem hrærðist, veröld sem söng átti fang í Bolla. Andi Bolla lyftist, fallega andlitið hans lifnaði og augun ljómuðu.

Gerningur lífsins

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesisποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Bolli var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, fann til og með fólki, lyftist upp af lífsvindum, endurmótaði eða speglaði, teiknaði áhrif eða sniðlaði texta til að skapa, vinna með lífinu – og þegar dýpst var skoðað -hrífast með í hinni miklu ástarverðandi Guðs. Lífið sækir fram, Bolli var allur opinn gagnvart himneskri póesíu í veröldinni.

Ætt og uppruni

Bolli Þórir Gústavsson fæddist á Akureyri 17. nóvember árið 1935. Í Bolla mættust bæði austur og vestur, hann átti ættir að rekja vestur á land og á Vestfirði, en líka austur um. Foreldrarnir voru Gústav Jónasson (1911-90) og Hlín Jónsdóttir (1911-73). Systkinin voru þrjú, Bolli elstur og Ingibjörg fæddist 1941. Á milli þeirra var ónefndur drengur, sem lést í frumbernsku.

Bernskuheimili Bolla var á Oddeyrinni og Akureyri var heimasvæði hans fram um tvítugt. Bærinn var ævintýraland fyrir börn og kjörlendi uppvaxtar eins og lesa má í minningabókinni, Vorganga í vindhæringi. Setulið hernámsáranna færði veraldarvandann á torg bæjarbúa. Allt hreif, kynlegir kvistir urðu gleðigjafar, kostulegar uppákomur kættu og voveiflegir atburðir hryggðu. Félagslífið var fjölbreytilegt, Gústav pabbi söng bassa í Smárakvartettinum, Róbert Abraham kom eins og músíkguð og galdraði Bach upp úr sænsku harmóníum. Leikfélagið lék og afi átti skemmu við húsið og vann þar, hitti karlana og Bolli hlustaði opineygur á. Hann var allur sem kvika.

Klerklegir tilburðir

Bolli var sérstakur og lærði snemma að orð skapa líf, græta, hugga og skemmta. Hann var kotroskinn og setti snemma kúrsinn hátt. Sagt er, að Bolla hafi verið vísað úr smábarnaskóla Elísabetar vegna þess að hann sagðist ætla að verða ríkisstjóri! Það þótti lítt gæfulegt hjá barninu.

Um flesta presta eru til sögur um klerklega tilburði í bernsku. Þegar Bolli var í sveit austur í Reykjadal og í Bárðardal og fóru sögur þar af messuhaldi hans. En stórkostlegast þótti Þingeyingum þegar Bolli, barnungur, fór að halda líkræður yfir sofandi vinnufólki, sem átti sér ekki ræðings hvað þá eftirmæla von í miðdagslúrnum. Engum sögum fór af að mönnum hefði orðið illt af ótímabærum minningarorðum. En miklum og góðum sögum fór síðan af líkræðum Bolla þegar hann var orðinn prestur! Það hefur enginn farið illa á því að æfa sig á Þingeyingum ef menn hafa þor til að krydda og draga fyrir egg.

Sr. Pétur

Skólaganga Bolla, allt til stúdentsprófs, var á Akureyri. Þegar í bernsku varð hann félagshæfur. Hann tók þátt í fjörmiklu skátastarfi í bænum. Sr. Pétur Sigurgeirsson varð prestur á Akureyri árið 1947 og bylti barna- og æskulýðs-starfi kirkjunnar. Bolli varð einn af drengjunum hans Péturs, sem hikaði ekki að fela unga fólkinu verk. Í Bolla sá hann mann orðsins og fól honum að verða ritstjóri æskulýðsblaðs kirkjunnar. Bolli bast presti sínum svo nánum vinarböndum, að annar sona hans varð ekki aðeins Bolli heldur líka Pétur og ber í nafni sínu nánd þeirra fóstra. Alla ævi voru þeir elskir hvor að öðrum og unnu vel saman. Báðir eru skuggalausir í lífinu, samband þeirra var flétta virðingar og samstöðu. Æskulýðsstarf kirkjunnar í Hólastifti, sumarbúðastarf á Vestmannsvatni og kirkjulíf á Norðurlandi naut samvinnu þeirra.

MA

Bolli varð einnig virkur í félagslífi Menntaskólans á Akureyri. Hann lék, ristýrði skólablaðinu og tók þátt í umræðum um pólitík, bókmenntir og listir. Rit- og drátthæfni hans fékk útrás, hann naut fjölþættra gáfna sinna og dró ekki af sér. Þegar skólafélagarnir voru að undirbúa stúdentsprófin sat Bolli við og teiknaði allan stúdentsárganginn í stúdentabókina Carminu 1956!

Guðfræðin

Húfunni fylgdi val um stefnu nám og líf. Bolli fór í guðfræðina, hreifst af klassíkinni, las bókmenntir, tók þátt í háskólapólitíkinni og kafaði í kirkjusöguna. Hann hreifst af kennurum sínum. Róbert Abraham kenndi sönginn og dýpkaði og þjálfaði virðinguna fyrir tónlistinni og líka himinvíddum messunnar. Glæsimennið og fagurkerinn Þórir Kr. Þórðarson kom eins og spámaður af Sínaískaga og opnaði heiminn hinum megin við hið kristna tímatal. Magnús Már opnaði Bolla kirkjusöguna. Gríska Nýja testamentið hans varð fullt af skissum, ef ekki af postulunum þá af kennurunum. Sigurbjörn Einarsson varð biskup, kirkjan var lifandi og Bolli fann til vaxandi prestsskaparhneigðar.

Sr. Bolli

Prófin voru mikilvæg en Bolli sagði, að mestu skipti hvernig maður stæði sig í þjónustunni. Hrísey var laus og Bolli var síðan vígður til þjónustu haustið 1963 og þau Matthildur fóru norður. Þetta var góður tími, líf þeirra sótti fram, póesía ástalífs lánaðist vel. Sr. Bolli varð góður sálnahirðir. Austan við álinn blasti Laufás við þeim í nærri þrjú ár, sem þau bjuggu í eyjunni.

“Laufás er minn listabær.

Lukkumaður er sá honum nær.”

Svo segir í ljóðbroti prests frá 17. öld. Og í Laufás fóru þau Matthildur svo, í land hamingjunnar og voru í aldarfjórðung. Þau bjuggu við barnalán, farælt kirkjulíf, elskulegt sóknarfólk, kartöflur, ástríki, æðarkollur, orðlist og gestkomur. Bolli teiknaði, orti, hló, tók öllum ljúfmannlega, fór aldrei í manngreinarálit, var bóngóður, andríkur, sundum alvarlegur, skemmtilegur og alltaf hrífandi.

Prestsþjónusta og fjölbreytileg störf

Embætti prests er til þjónustu. Í Bolla var vilji og geta til þeirra köllunar. Hann var einlægur trúmaður. Honum hafði verið innrætt mannvirðing þegar í bernsku. Hann mátti ekkert aumt sjá, nærri honum gekk þegar samferðamenn hans misstu og syrgðu. Í honum bjó djúp meðlíðan og hann gekk því við hlið þeirra, sem voru í fjallaklifri sorgarinnar eða settist niður við hlið fólks og var næmur sálgætir.

Hann var yfirburðapenni, glöggur guðfræðingur, réttlætiselskandi friðarsinni, vandvirkur, smekkvís í málnotkun og samdi því ekki aðeins áheyrilegar heldur áleitnar prédikanir. Í honum bjó mynd- og ljóð-sókn. Ræður hans voru því ekkert þurrmeti heldur leiftrandi. Og sláandi einkenni á textum Bolla, bæði ljóðum og greinum er hreyfing. Jafnvel kyrran í textum hans titrar. Kannski var það músíkin í Bolla sem olli. Hann var tónelskur, var gefin falleg söngrödd, lagði sig eftir tónskynjun og var því vel búinn til sönghluta helgiþjónustunnar.

Bolli lagði sig í líma við að þjóna öllum aldurshópum, líka börnum. Þau glöddust yfir gleði fræðarans, fundu að fagnaðarerindið er svo máttugt að boðberinn var sannarlega glaðasti maður barnamessunnar.

Í samskiptum, húsvitjunum eða þegar einhver átti bágt eða kröm lífsins var að sliga fór Bolli elskulega að fólki, bar virðingu fyrir erindi þess og allir fóru bættari og heldur glaðari frá hans fundi. Bolli kryddaði síðan allt sitt starf með teikningum, dró upp myndir af fólki, teiknaði fínlegar myndir af kirkjuhúsum og merkisstöðum, sem voru m.a. notaðar til að búa til platta. Kirkjur og söfnuðir hafa notið sölu þessara gripa til styrktar starfi sínu. Bolli tók mikinn þátt í starfi presta og alltaf var hann til að efla gleðina. Hann lagði alltaf til friðar. Honum líkuðu illa deilur og fór jafnvel frá mannfundum þegar honum þótti til ófriðar horfa.

Fjölbreytileg störf

Bolli þjónaði ekki aðeins Laufásprestakalli heldur líka inn í firði. Fnjóskdælir nutu oft þjónustu hans, líklega samtals í 7 ár. Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður í æskulýðssambandi kirkjunnar nyrðra, formaður prestafélags Hólastiftis, var einnig formaður Hólanefndar um tíma. Og eins og prestar jafnan starfaði hann í ýmsum lögmæltum nefndum og ráðum, sem varða fræðslu og verndarmál. Bolla var mjög umhugað um veg lista í samfélaginu og var um tíma formaður úthlutunarnefndar listamannalauna.

Kirkjuleg sýn

Söm er köllun presta, en Guði er annt um fjölbreytileika mannlífsins. Hæfni manna er notuð og hinar fjölbreytilegu gáfur Bolla nýttust vel heima í héraði, hinu norðlenska samfélagi og einnig í því, að Bolli lagði margt til menningar þjóðarinnar. Hann skrifaði ekki aðeins um þjóðlegan fróðleik, heldur lagði að kirkjulega sýn í pistlum og greinum, í útvarpi, tímaritum, Morgunblaðinu og bókum. Bolli hafði gaman að segja, að hann væri eini pokaprestur þjóðarinnar, því hann ætti svo marga kartöflupoka.

Einkavinurinn

Bolli lagði mikla vinnu í rannsókn á lífi og list sr. Björns Halldórssonar í Laufási. Björn varð “einkavinur” hans, eins og börnin hans sögðu gjarnan. Bolli ræddi um skáldprestinn svo mjög, að Hildur Eir hélt að þetta væri vinur pabba, maður á næstu grösum. Hún var orðin sjö ára þegar hún gerði sér grein fyrir að hlið himins höfðu löngu opnast sr. Birni og hann horfið þangað. Bolli hélt mjög upp á sálma einkavinarins og því syngjum við tvo þeirra í þessari athöfn.

Listprestur

Í prestsþjónustunni bar Bolli fólki huggun, líkn, gleðiboðskap, blessaði börnin, kenndi ungum og öldnum, hafði næma návist, var sínu fólki stoð og bróðir. Hann sinnti vel sínu heilaga prests- og prédikunarembætti. Skáldprestar, eins og Matthías Jochumsson, voru Bolla hugstæðir. Mér sýnist, að þrátt fyrir ljóðagerðina hafi hann þó ekki verið skáldprestur í venjulegri merkingu þess hugtaks. Bolli gegndi víðfeðmari þjónustu en skáldprestarnir. Hans prestsþjónusta var listræn. Í allt blés Guð honum anda listfengi, penninn teiknaði, litir leituðu arkar, greinarnar voru hrífandi og listin mettaði tilveru hans. Bolli hafði um margt aðra nálgun gagnvart störfum sínum en flestir prestar, hann horfði og brást við mörgu sem listamaður og var eiginlega listprestur. Það er sú einkunn sem hæfir hans prestsskaparhætti.

Í Hóla

Bolli var valinn til þjónustu vígslubiskups Hólastiftis. Þau Matthildur slitu upp tjaldhælana og fóru í vesturátt eins og Abraham og Sara forðum. Í áratug bjuggu þau á Hólum og herra Bolli þjónaði stiftinu með margvíslegum hætti. Verður sú þjónusta ekki tíunduð hér. Biskupsþjónusta naut hans eiginda og áunninnar hæfni. Og sýnilegt stórvirki biskuptíðar Bolla er Auðunarstofa, sem mun halda merki hans á lofti, Hólamanna og völunda hins merka húss. Auðunarstofa er tákn um metnað Bolla við uppbyggingu Hóla og samofna menningarlega og kirkjulega endurreisn.

Lífið er verðandi, lífið er póesía, en líf Bolla á sér fleiri þætti. Nú verður gert hlé á minningarorðum og áður en fjallað verður um heimili Bolla og aðra þætti lífs hans verður sungið um ástina, söknuðinn, landið fyrir norðan og stúlkuna. Þetta er söngur fyrir hana Matthildi.

(Nú andar suðrið sæla vindum þýðum…)

Matthildur

Þröstur minn góður. Það er stúlkan mín! Já hún heitir Matthildur og var á Garðsballi þegar hún heyrði þessa háu, björtu tenórrödd. Einhver var að syngja O Danny boy með þvílíkri innlifun, að hún gat ekki annað en runnið á hljóðið. Þegar hún kom nær sá hún mann standa upp á borði og gefa sig allan í sönginn. Hún hreifst og hann hefur eflaust fundið hrifninguna umlykja sig því þegar hann stökk niður kom hann til hennar, dansaði bara við hana allt kvöldið og sagði svo í balllok: “Þú átt að verða konan mín!” Þótt Bolli væri hrifnæmur var hann enginn veifiskati. Hann stóð við allar stóru yrðingar lífsins. Og þau féllu í fang hvors annars, elskuðu hvort annað – alltaf. Þau urðu sálufélagar. Ekkert hugsaði Bolli stórt eða lítið svo Matthildur hefði ekki veður af eða fengi lagt orð eða lit að. Flest ef ekki allt, sem einhverju máli, skipti fékk Matthildur að heyra eða sjá áður en smíðin var send út í lífið. “Hún er svo smekkvís” sagði Bolli með elsku í röddinni.

Þegar við hugsum til baka og minnumst Bolla er Matthildur þar líka. Embætti Bolla var tvenndarembætti. Starf hans hefði orðið allt annað ef Matthildar hefði ekki notið við. Hún stóð ekki aðeins fyrir Laufásbakaríinu, sem aldrei var tómt, heldur stóð neyðarvaktina með honum, var hans helsti áfallasálfræðingur, ráðhollur gagnrýnandi, kippti honum niður ef hann fór með tilfinningalegum himinskautum, hló hjartanlega þegar hann var fyndinn, sem hann var oft, lagði á ráðin í smáu sem stóru, studdi hann til allra góðra verka, veitti honum næði og rými til að hugsa og iðja. Og hún átti í sér kyrru, sem var Bolla mikilvæg. Matthildur kunni líka ráðdeild, sem var honum nauðsyn til að heimilislíf gengi upp, börnin nytu þess, sem þau þurftu og að öllum væri sómi sýndur, sem komu í bæ og á þann stað er þau sátu. Um Matthildi og Bolla má segja það sem sagt var um Hlín móður hans “…að hún hefði haft mannheill og yfirlætislausa ástúð á heimili sínu.” Þetta er fallega sagt.

Hjónaband og börnin þeirra Matthildar

Þau Bolli og Matthildur Jónsdóttir gengu í hjónaband í Háskólakapellunni 27. maí 1962. Þau eignuðust sex börn, fjórar stúlkur og tvo drengi. Börnin þeirra og tengdabörn eru: Hlín, hennar maður er Egill Örn Arnarson. Jóna Hrönn og hennar maður er Bjarni Karlsson. Gústav Geir er þriðji í röðinni og Veronique Legros er hans kona. Gerður var næst og hennar maður er Ásgeir Jónsson. Bolli Pétur er sá fimmti og hans kona er Sunna Dóra Möller og yngst er Hildur Eir og hennar maður er Heimir Haraldsson. Barnabörnin eru þrettán á fæti og fjórtánda í kvið. Það er mikil póesía í þessu fólki og barnalán.

Lífið í Laufási

Bolli hafði mikla gleði af sínu fólki, stellinu öllu. Hann var natinn faðir og hafði líka gaman af að búa þau til leikja. Frægir eru búningarnir, sem hann gerði á þau fyrir sýningar í Grenivíkurskóla, breytti Gústav Geir í fuglahræðu, Gerði í sjónvarp, Jónu Hrönn í spaðadrottningu, Hlín í peysufatakonu og Hildi í kartöflupoka. Bolli virkjaði börnin sín til starfa, blés þeim í brjóst trú á sjálf sig, æfði þau í að koma fram, fól þeim verkefni við hæfi og til þroska og leyfði þeim að fara með sér til mannfunda. En hann setti líka mörk. Þegar hann hafði lokið að hlusta á Dieter Fischer-Diskau lokaði hann grammófóninum og tilkynnti syni sínum, að Bubbi og Utangarðsmenn eyðileggðu nálina á fóninum! Á öllu eru einhver mörk.

Heimilislífið var jafnan fjörlegt. Heimilisbragurinn myndarlegur og glæsilegur og smekkvísin skilvís. Bolla þótti gott að byrja daginn rólega og með því að tala, ekki síst upp í rúmi. Á koddanum urðu stundum kátlegar orðræður. Hlátrar ómuðu um húsið, ungviðið kom oft hlaupandi, settist á stokkinn eða smokraði sér uppí og tók svo þátt í fjörinu. Það er kannski ekkert einkennilegt, að það er gaman hjá þessu fólki.

Listfengi Bolla naut sín líka heima. Það er yndislegt að hugsa um Bolla með svuntu og rjómasprautu og breyta marengstertu í borðlistaverk fyrir glatt fólk. Og kvöldvökurnar í Laufási urðu stórkostlegar skemmtanir, með glæsilegum atriðum barnanna og foreldrarnir klæddu sig uppá. En stundum fannst yngri kynslóðinni að fagnið væri helst til stórkostlegt og klappið of ýkt! En það var alltaf leikur í Bolla.

Gott líf og heilsutap

Bolla var annt um að lifa fallega. Hann sagði mér einu sinni, að til að lifa vel hefði hann, sem væri nú mikill nautnaseggur, lagt af margar nautnir. Einu sinni henti hann öllum fínu Dunhill-pípunum í Fnjóská. Það var dramatískt. Þegar hann tók vígslu stakk hann tappa í og drakk ekki áfengi. Hann barðist hetjulega við kalóríurnar og erfiðast þótti honum að hætta að taka í nefið.

Um aldamótin síðustu fór heilsa Bolla að bila. Þegar heilastarfsemin fór að skerðast lét hann af embætti, andlegt atgervi hans breyttist og meðvitund hvarf svo smátt og smátt. En aldrei hvarf honum hrifnæmið og elskan. Síðasta heila setningin hans í lífinu var: “Matthildur mín, ég sakna þín svo.”

Helgur og elskaður

Olga, erlendur hjúkrunarfræðingur á Landakoti, sagði þeim sem heimsóttu Bolla að hann væri helgur maður og svo hneigði hún sig fyrir honum. Svo andvarpaði hún líka og sagði: “Þetta hefur verið elskaður maður. Fólkið hans hugsar svo vel um hann.” Og starfsfólkið á Landakoti hugsaði líka vel um hann, fólkinu á deildum L4 og K2 skal þakkað.

Prédikun í lægingunni

“Heilagt englalið, kallar skáld til farar..”, sagði Bolli í ljóðinu Endadægri. Hann vissi, að himins dyr voru opnar og að hverju dró. Í heilsubrestinum þakkaði Bolli lífsgæði og hamingju lífsins og að allt væri yndislegt og ágætt. Andi hans hvarf inn í himininn. Í kröm sinni prédikaði Bolli kröftuglega trú og traust í æðruleysi, þakklæti til Guðs og manna.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir okkar bresti. Já Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs, að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Bolli Þórir Gústavsson búa og hrífast. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Líf Bolla var endurskin undursins. Guð geymi hann um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Amen.

Minningarorð um sr. Bolla Gústavsson, Vídalínskirkju, 4. apríl, 2008. Jarðsett í Laufáskirkjugarði.

Lífið sækir fram – Bolli Gústavsson

Sr. Bolli Þ. Gústavsson hefði orðið áttræður 17. nóvember 2015. En hann féll frá árið 2008. Bolli hafði mikil áhrif á okkur öll sem kynntust honum, fjöllistamaður, hlýr og umhyggjusamur. Ég flutti minningarorðin við útför hans sem gerð var frá Vídalínskirkju 4. apríl, 2008. Ræðan er hér að neðan.

Bolli átti í sér gáfu hrifningarinnar. Svartir hrísfingur í fannbörðu kjarri Laufáshyrnu urðu honum hrifvaki, sem hann orkti út af. Rökkurgjóla, sem strauk fjallskinn eða gáraði fjarðarspegilinn bylgjaði líka sálardjúp hans. Kolluhljóð eða ljóð úr barka ljóðasöngvarans Fisher-Diskau endurómuðu í hljómbotni hið innra. Hnyttin setning kallaði auðveldlega fram bjartan hlátur, sem svo barst um byggð og út yfir fjörð. Fólk sem tjáði, náttúra sem hrærðist, veröld sem söng átti fang í Bolla. Andi Bolla lyftist, fallega andlitið hans lifnaði og augun ljómuðu.

Gerningur lífsins

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Bolli var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, fann til og með fólki, lyftist upp af lífsvindum, endurmótaði eða speglaði, teiknaði áhrif eða sniðlaði texta til að skapa, vinna með lífinu – og þegar dýpst var skoðað -hrífast með í hinni miklu ástarverðandi Guðs. Lífið sækir fram, Bolli var allur opinn gagnvart himneskri póesíu í veröldinni.

Ætt og uppruni

Bolli Þórir Gústavsson fæddist á Akureyri 17. nóvember árið 1935. Í Bolla mættust bæði austur og vestur, hann átti ættir að rekja vestur á land og á Vestfirði, en líka austur um. Foreldrarnir voru Gústav Jónasson (1911-90) og Hlín Jónsdóttir (1911-73). Systkinin voru þrjú, Bolli elstur og Ingibjörg fæddist 1941. Á milli þeirra var ónefndur drengur, sem lést í frumbernsku.

Bernskuheimili Bolla var á Oddeyrinni og Akureyri var heimasvæði hans fram um tvítugt. Bærinn var ævintýraland fyrir börn og kjörlendi uppvaxtar eins og lesa má í minningabókinni, Vorganga í vindhæringi. Setulið hernámsáranna færði veraldarvandann á torg bæjarbúa. Allt hreif, kynlegir kvistir urðu gleðigjafar, kostulegar uppákomur kættu og voveiflegir atburðir hryggðu. Félagslífið var fjölbreytilegt, Gústav pabbi söng bassa í Smárakvartettinum, Róbert Abraham kom eins og músíkguð og galdraði Bach upp úr sænsku harmóníum. Leikfélagið lék og afi átti skemmu við húsið og vann þar, hitti karlana og Bolli hlustaði opineygur á. Hann var allur sem kvika.

Klerklegir tilburðir

Bolli var sérstakur og lærði snemma að orð skapa líf, græta, hugga og skemmta. Hann var kotroskinn og setti snemma kúrsinn hátt. Sagt er, að Bolla hafi verið vísað úr smábarnaskóla Elísabetar vegna þess að hann sagðist ætla að verða ríkisstjóri! Það þótti gæfulegt hjá barninu.

Um flesta presta eru til sögur um klerklega tilburði í bernsku. Þegar Bolli var í sveit austur í Reykjadal og í Bárðardal og fóru sögur þar af messuhaldi hans. En stórkostlegast þótti Þingeyingum þegar Bolli, barnungur, fór að halda líkræður yfir sofandi vinnufólki, sem átti sér ekki ræðings hvað þá eftirmæla von í miðdagslúrnum. Engum sögum fór af að mönnum hefði orðið illt af ótímabærum minningarorðum. En miklum og góðum sögum fór síðan af líkræðum Bolla þegar hann var orðinn prestur! Það hefur enginn farið illa á því að æfa sig á Þingeyingum ef menn hafa þor til að krydda og draga fyrir egg.

Sr. Pétur

Skólaganga Bolla, allt til stúdentsprófs, var á Akureyri. Þegar í bernsku varð hann félagshæfur. Hann tók þátt í fjörmiklu skátastarfi í bænum. Sr. Pétur Sigurgeirsson varð prestur á Akureyri árið 1947 og bylti barna- og æskulýðs-starfi kirkjunnar. Bolli varð einn af drengjunum hans Péturs, sem hikaði ekki að fela unga fólkinu verk. Í Bolla sá hann mann orðsins og fól honum að verða ritstjóri æskulýðsblaðs kirkjunnar. Bolli bast presti sínum svo nánum vinarböndum, að annar sona hans varð ekki aðeins Bolli heldur líka Pétur og ber í nafni sínu nánd þeirra fóstra. Alla ævi voru þeir elskir hvor að öðrum og unnu vel saman. Báðir eru skuggalausir í lífinu, samband þeirra var flétta virðingar og samstöðu. Æskulýðsstarf kirkjunnar í Hólastifti, sumarbúðastarf á Vestmannsvatni og kirkjulíf á Norðurlandi naut samvinnu þeirra.

MA

Bolli varð einnig virkur í félagslífi Menntaskólans á Akureyri. Hann lék, ristýrði skólablaðinu og tók þátt í umræðum um pólitík, bókmenntir og listir. Rit- og drátthæfni hans fékk útrás, hann naut fjölþættra gáfna sinna og dró ekki af sér. Þegar skólafélagarnir voru að undirbúa stúdentsprófin sat Bolli við og teiknaði allan stúdentsárganginn í stúdentabókina Carminu 1956!

Guðfræðin

Húfunni fylgdi val um stefnu nám og líf. Bolli fór í guðfræðina, hreifst af klassíkinni, las bókmenntir, tók þátt í háskólapólitíkinni og kafaði í kirkjusöguna. Hann hreifst af kennurum sínum. Róbert Abraham kenndi sönginn og dýpkaði og þjálfaði virðinguna fyrir tónlistinni og líka himinvíddum messunnar. Glæsimennið og fagurkerinn Þórir Kr. Þórðarson kom eins og spámaður af Sínaískaga og opnaði heiminn hinum megin við hið kristna tímatal. Magnús Már opnaði Bolla kirkjusöguna. Gríska Nýja testamentið hans varð fullt af skissum, ef ekki af postulunum þá af kennurunum. Sigurbjörn Einarsson varð biskup, kirkjan var lifandi og Bolli fann til vaxandi prestsskaparhneigðar.

Sr. Bolli

Prófin voru mikilvæg en Bolli sagði, að mestu skipti hvernig maður stæði sig í þjónustunni. Hrísey var laus og Bolli var síðan vígður til þjónustu haustið 1963 og þau Matthildur fóru norður. Þetta var góður tími, líf þeirra sótti fram, póesía ástalífs lánaðist vel. Sr. Bolli varð góður sálnahirðir. Austan við álinn blasti Laufás við þeim í nærri þrjú ár, sem þau bjuggu í eyjunni.

“Laufás er minn listabær.

Lukkumaður er sá honum nær.”

Svo segir í ljóðbroti prests frá 17. öld. Og í Laufás fóru þau Matthildur svo, í land hamingjunnar og voru í aldarfjórðung. Þau bjuggu við barnalán, farælt kirkjulíf, elskulegt sóknarfólk, kartöflur, ástríki, æðarkollur, orðlist og gestkomur. Bolli teiknaði, orti, hló, tók öllum ljúfmannlega, fór aldrei í manngreinarálit, var bóngóður, andríkur, sundum alvarlegur, skemmtilegur og alltaf hrífandi.

Prestsþjónusta og fjölbreytileg störf

Embætti prests er til þjónustu. Í Bolla var vilji og geta til þeirra köllunar. Hann var einlægur trúmaður. Honum hafði verið innrætt mannvirðing þegar í bernsku. Hann mátti ekkert aumt sjá, nærri honum gekk þegar samferðamenn hans misstu og syrgðu. Í honum bjó djúp meðlíðan og hann gekk því við hlið þeirra, sem voru í fjallaklifri sorgarinnar eða settist niður við hlið fólks og var næmur sálgætir.

Hann var yfirburðapenni, glöggur guðfræðingur, réttlætiselskandi friðarsinni, vandvirkur, smekkvís í málnotkun og samdi því ekki aðeins áheyrilegar heldur áleitnar prédikanir. Í honum bjó mynd- og ljóð-sókn. Ræður hans voru því ekkert þurrmeti heldur leiftrandi. Og sláandi einkenni á textum Bolla, bæði ljóðum og greinum er hreyfing. Jafnvel kyrran í textum hans titrar. Kannski var það músíkin í Bolla sem olli. Hann var tónelskur, var gefin falleg söngrödd, lagði sig eftir tónskynjun og var því vel búinn til sönghluta helgiþjónustunnar.

Bolli lagði sig í líma við að þjóna öllum aldurshópum, líka börnum. Þau glöddust yfir gleði fræðarans, fundu að fagnaðarerindið er svo máttugt að boðberinn var sannarlega glaðasti maður barnamessunnar.

Í samskiptum, húsvitjunum eða þegar einhver átti bágt eða kröm lífsins var að sliga fór Bolli elskulega að fólki, bar virðingu fyrir erindi þess og allir fóru bættari og heldur glaðari frá hans fundi. Bolli kryddaði síðan allt sitt starf með teikningum, dró upp myndir af fólki, teiknaði fínlegar myndir af kirkjuhúsum og merkisstöðum, sem voru m.a. notaðar til að búa til platta. Kirkjur og söfnuðir hafa notið sölu þessara gripa til styrktar starfi sínu. Bolli tók mikinn þátt í starfi presta og alltaf var hann til að efla gleðina. Hann lagði alltaf til friðar. Honum líkuðu illa deilur og fór jafnvel frá mannfundum þegar honum þótti til ófriðar horfa.

Fjölbreytileg störf

Bolli þjónaði ekki aðeins Laufásprestakalli heldur líka inn í firði. Fnjóskdælir nutu oft þjónustu hans, líklega samtals í 7 ár. Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður í æskulýðssambandi kirkjunnar nyrðra, formaður prestafélags Hólastiftis, var einnig formaður Hólanefndar um tíma. Og eins og prestar jafnan starfaði hann í ýmsum lögmæltum nefndum og ráðum, sem varða fræðslu og verndarmál. Bolla var mjög umhugað um veg lista í samfélaginu og var um tíma formaður úthlutunarnefndar listamannalauna.

Kirkjuleg sýn

Söm er köllun presta, en Guði er annt um fjölbreytileika mannlífsins. Hæfni manna er notuð og hinar fjölbreytilegu gáfur Bolla nýttust vel heima í héraði, hinu norðlenska samfélagi og einnig í því, að Bolli lagði margt til menningar þjóðarinnar. Hann skrifaði ekki aðeins um þjóðlegan fróðleik, heldur lagði að kirkjulega sýn í pistlum og greinum, í útvarpi, tímaritum, Morgunblaðinu og bókum. Bolli hafði gaman að segja, að hann væri eini pokaprestur þjóðarinnar, því hann ætti svo marga kartöflupoka.

Einkavinurinn

Bolli lagði mikla vinnu í rannsókn á lífi og list sr. Björns Halldórssonar í Laufási. Björn varð “einkavinur” hans, eins og börnin hans sögðu gjarnan. Bolli ræddi um skáldprestinn svo mjög, að Hildur Eir hélt að þetta væri vinur pabba, maður á næstu grösum. Hún var orðin sjö ára þegar hún gerði sér grein fyrir að hlið himins höfðu löngu opnast sr. Birni og hann horfið þangað. Bolli hélt mjög upp á sálma einkavinarins og því syngjum við tvo þeirra í þessari athöfn.

Listprestur

Í prestsþjónustunni bar Bolli fólki huggun, líkn, gleðiboðskap, blessaði börnin, kenndi ungum og öldnum, hafði næma návist, var sínu fólki stoð og bróðir. Hann sinnti vel sínu heilaga prests- og prédikunarembætti. Skáldprestar, eins og Matthías Jochumsson, voru Bolla hugstæðir. Mér sýnist, að þrátt fyrir ljóðagerðina hafi hann þó ekki verið skáldprestur í venjulegri merkingu þess hugtaks. Bolli gegndi víðfeðmari þjónustu en skáldprestarnir. Hans prestsþjónusta var listræn. Í allt blés Guð honum anda listfengi, penninn teiknaði, litir leituðu arkar, greinarnar voru hrífandi og listin mettaði tilveru hans. Bolli hafði um margt aðra nálgun gagnvart störfum sínum en flestir prestar, hann horfði og brást við mörgu sem listamaður og var eiginlega listprestur. Það er sú einkunn sem hæfir hans prestsskaparhætti.

Í Hóla

Bolli var valinn til þjónustu vígslubiskups Hólastiftis. Þau Matthildur slitu upp tjaldhælana og fóru í vesturátt eins og Abraham og Sara forðum. Í áratug bjuggu þau á Hólum og herra Bolli þjónaði stiftinu með margvíslegum hætti. Verður sú þjónusta ekki tíunduð hér. Biskupsþjónusta naut hans eiginda og áunninnar hæfni. Og sýnilegt stórvirki biskuptíðar Bolla er Auðunarstofa, sem mun halda merki hans á lofti, Hólamanna og völunda hins merka húss. Auðunarstofa er tákn um metnað Bolla við uppbyggingu Hóla og samofna menningarlega og kirkjulega endurreisn.

Lífið er verðandi, lífið er póesía, en líf Bolla á sér fleiri þætti. Nú verður gert hlé á minningarorðum og áður en fjallað verður um heimili Bolla og aðra þætti lífs hans verður sungið um ástina, söknuðinn, landið fyrir norðan og stúlkuna. Þetta er söngur fyrir hana Matthildi.

(Nú andar suðrið sæla vindum þýðum…)

Matthildur

Þröstur minn góður. Það er stúlkan mín! Já hún heitir Matthildur og var á Garðsballi þegar hún heyrði þessa háu, björtu tenórrödd. Einhver var að syngja O Danny boy með þvílíkri innlifun, að hún gat ekki annað en runnið á hljóðið. Þegar hún kom nær sá hún mann standa upp á borði og gefa sig allan í sönginn. Hún hreifst og hann hefur eflaust fundið hrifninguna umlykja sig því þegar hann stökk niður kom hann til hennar, dansaði bara við hana allt kvöldið og sagði svo í balllok: “Þú átt að verða konan mín!” Þótt Bolli væri hrifnæmur var hann enginn veifiskati. Hann stóð við allar stóru yrðingar lífsins. Og þau féllu í fang hvors annars, elskuðu hvort annað – alltaf. Þau urðu sálufélagar. Ekkert hugsaði Bolli stórt eða lítið svo Matthildur hefði ekki veður af eða fengi lagt orð eða lit að. Flest ef ekki allt, sem einhverju máli, skipti fékk Matthildur að heyra eða sjá áður en smíðin var send út í lífið. “Hún er svo smekkvís” sagði Bolli með elsku í röddinni.

Þegar við hugsum til baka og minnumst Bolla er Matthildur þar líka. Embætti Bolla var tvenndarembætti. Starf hans hefði orðið allt annað ef Matthildar hefði ekki notið við. Hún stóð ekki aðeins fyrir Laufásbakaríinu, sem aldrei var tómt, heldur stóð neyðarvaktina með honum, var hans helsti áfallasálfræðingur, ráðhollur gagnrýnandi, kippti honum niður ef hann fór með tilfinningalegum himinskautum, hló hjartanlega þegar hann var fyndinn, sem hann var oft, lagði á ráðin í smáu sem stóru, studdi hann til allra góðra verka, veitti honum næði og rými til að hugsa og iðja. Og hún átti í sér kyrru, sem var Bolla mikilvæg. Matthildur kunni líka ráðdeild, sem var honum nauðsyn til að heimilislíf gengi upp, börnin nytu þess, sem þau þurftu og að öllum væri sómi sýndur, sem komu í bæ og á þann stað er þau sátu. Um Matthildi og Bolla má segja það sem sagt var um Hlín móður hans “…að hún hefði haft mannheill og yfirlætislausa ástúð á heimili sínu.” Þetta er fallega sagt.

Hjónaband og börnin þeirra Matthildar

Þau Bolli og Matthildur Jónsdóttir gengu í hjónaband í Háskólakapellunni 27. maí 1962. Þau eignuðust sex börn, fjórar stúlkur og tvo drengi. Börnin þeirra og tengdabörn eru: Hlín, hennar maður er Egill Örn Arnarson. Jóna Hrönn og hennar maður er Bjarni Karlsson. Gústav Geir er þriðji í röðinni og Veronique Legros er hans kona. Gerður var næst og hennar maður er Ásgeir Jónsson. Bolli Pétur er sá fimmti og hans kona er Sunna Dóra Möller og yngst er Hildur Eir og hennar maður er Heimir Haraldsson. Barnabörnin eru þrettán á fæti og fjórtánda í kvið. Það er mikil póesía í þessu fólki og barnalán.

Lífið í Laufási

Bolli hafði mikla gleði af sínu fólki, stellinu öllu. Hann var natinn faðir og hafði líka gaman af að búa þau til leikja. Frægir eru búningarnir, sem hann gerði á þau fyrir sýningar í Grenivíkurskóla, breytti Gústav Geir í fuglahræðu, Gerði í sjónvarp, Jónu Hrönn í spaðadrottningu, Hlín í peysufatakonu og Hildi í kartöflupoka. Bolli virkjaði börnin sín til starfa, blés þeim í brjóst trú á sjálf sig, æfði þau í að koma fram, fól þeim verkefni við hæfi og til þroska og leyfði þeim að fara með sér til mannfunda. En hann setti líka mörk. Þegar hann hafði lokið að hlusta á Dieter Fischer-Diskau lokaði hann grammófóninum og tilkynnti syni sínum, að Bubbi og Utangarðsmenn eyðileggðu nálina á fóninum! Á öllu eru einhver mörk.

Heimilislífið var jafnan fjörlegt. Heimilisbragurinn myndarlegur og glæsilegur og smekkvísin skilvís. Bolla þótti gott að byrja daginn rólega og með því að tala, ekki síst upp í rúmi. Á koddanum urðu stundum kátlegar orðræður. Hlátrar ómuðu um húsið, ungviðið kom oft hlaupandi, settist á stokkinn eða smokraði sér uppí og tók svo þátt í fjörinu. Það er kannski ekkert einkennilegt, að það er gaman hjá þessu fólki.

Listfengi Bolla naut sín líka heima. Það er yndislegt að hugsa um Bolla með svuntu og rjómasprautu og breyta marengstertu í borðlistaverk fyrir glatt fólk. Og kvöldvökurnar í Laufási urðu stórkostlegar skemmtanir, með glæsilegum atriðum barnanna og foreldrarnir klæddu sig uppá. En stundum fannst yngri kynslóðinni að fagnið væri helst til stórkostlegt og klappið of ýkt! En það var alltaf leikur í Bolla.

Gott líf og heilsutap

Bolla var annt um að lifa fallega. Hann sagði mér einu sinni, að til að lifa vel hefði hann, sem væri nú mikill nautnaseggur, lagt af margar nautnir. Einu sinni henti hann öllum fínu Dunhill-pípunum í Fnjóská. Það var dramatískt. Þegar hann tók vígslu stakk hann tappa í og drakk ekki áfengi. Hann barðist hetjulega við kalóríurnar og erfiðast þótti honum að hætta að taka í nefið.

Um aldamótin síðustu fór heilsa Bolla að bila. Þegar heilastarfsemin fór að skerðast lét hann af embætti, andlegt atgervi hans breyttist og meðvitund hvarf svo smátt og smátt. En aldrei hvarf honum hrifnæmið og elskan. Síðasta heila setningin hans í lífinu var: “Matthildur mín, ég sakna þín svo.”

Helgur og elskaður

Olga, erlendur hjúkrunarfræðingur á Landakoti, sagði þeim sem heimsóttu Bolla að hann væri helgur maður og svo hneigði hún sig fyrir honum. Svo andvarpaði hún líka og sagði: “Þetta hefur verið elskaður maður. Fólkið hans hugsar svo vel um hann.” Og starfsfólkið á Landakoti hugsaði líka vel um hann, fólkinu á deildum L4 og K2 skal þakkað.

Prédikun í lægingunni

“Heilagt englalið, kallar skáld til farar..”, sagði Bolli í ljóðinu Endadægri. Hann vissi, að himins dyr voru opnar og að hverju dró. Í heilsubrestinum þakkaði Bolli lífsgæði og hamingju lífsins og að allt væri yndislegt og ágætt. Andi hans hvarf inn í himininn. Í kröm sinni prédikaði Bolli kröftuglega trú og traust í æðruleysi, þakklæti til Guðs og manna.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir okkar bresti. Já Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs, að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Bolli Þórir Gústavsson búa og hrífast. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Líf Bolla var endurskin undursins. Guð geymi hann um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

 

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Amen.

Minningarorð um sr. Bolla Gústavsson, Vídalínskirkju, 4. apríl, 2008. Jarðsett í Laufáskirkjugarði.