Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+ Þorleifur Stefán Guðmunsson +

Allir fasteignasalar þekkja eða kannast við Þorleif á Eignamiðlun. Hann lagði grunn að vinnutóli fasteignasala, forritinu hefur verið notað við útreikning lána og við sölu. Þau sem hafa unnið í þessum geira samfélagsins vissu að Þorleifur var ábyrgur og natinn. Honum mátti treysta. Ég heyrði nýlega sögu um að fasteignasali var fenginn til að meta fasteign svo hægt væri að bera saman við mat Eignamiðlunar. Honum var sagt að það hefði verið Þorleifur Guðmundsson sem mat. Þá sagði hann. „Ef Þorleifur á Eignamiðlun er búinn að meta, þá verður engu bætt við. Honum má treysta.“ Þetta er fögur umsögn samkeppnisaðila en túlkar afstöðu kollega Leifa til hans. Matið hans Leifa var eins konar hæstiréttur.

Ætt og uppruni

Leifi Þorleifur Stefán Guðmundsson fæddist í Keflavík 1. febrúar árið 1957. Foreldrar hans voru Guðmundur Helgi Gíslason og Guðfinna Jónsdóttir. Bæði voru úr Garðinum á Reykjanesi. Þar bjó Leifi fyrstu árin í blíðviðri og veðurbáli.

Leifi var yngstur í systkinahópnum. Eldri eru Marta, Ingibjörg Jóhanna, Jón og Sigrún. Þau komu í heiminn á sjö árum. Það var því oft mikið fjör í bænum á bernskuárum Leifa. Svo var líka fjöldi barna í Garðinum og Leifi var leiðtogi í barnaskaranum.

Leifi sótti skóla í heimabyggð en eftir landspróf fór hann í Menntaskólann á Laugarvatni. Hann flutti þar með að heiman og varð að treysta sjálfum sér og flétta eigið líf. Honum leið vel á Laugarvatni og bar æ síðan góðan hug til ML en þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 1977. Eins og Jón, stóri bróðir hans, hafði Leifi hug á raunvísindum og fór í líffræðina. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1981.

Líffræðin og Eignamiðlun

Leifi hafði burði, gáfur og getu til að verða góður líffræðingur. Og við hefðum alveg getað ímyndað okkur hann sem frábæran kennara eða öflugan rannsóknarmann í heimi fræðanna. En ævistarf hans varð á öðru sviði. Fyrst starfaði Þorleifur með námi hjá Íslenskum aðalverktökum. Svo hóf hann störf á fasteignasölunni Eignamiðlun í Reykjavík árið 1981 og starfaði við fasteignasölu óslitið til dauðadags. Leifi var sá lukkuhrólfur að vera sæll í starfi og vinnu alla tíð. Hann stóð alltaf með sínu liði í lífinu, í einkalífi, íþróttum og líka vinnulífi. Þegar hann hafði gengið til liðs við Eignamiðlun stóð hann með sínu fyrirtæki, vinnufélögum og verkefnum. Og alla daga var hann sæll í starfi og var í besta starfi í heiminum. Hann skemmti sér og vinnufélögunum með uppátækjum, en það var svona eins og að skilla á leiðinni að markinu, sækja fram og klára sölu. Og við sem fylgdumst með Leifa við að meta, sýna eða ráðleggja við fasteignaviðskipti gátum ekki annað en dáðst að honum. Hann var sérlega farsæll í starfi, kappsamur, marksækinn, ósérhlífinn, vinnusamur, glöggur, kátur og heillyndur. Hann var ávallt ákveðinn í að Eignamiðlun ætti alltaf að vera besta fasteignasalan á Íslandi. Því varð hann þessi frábæri fasteignasali og sómi Eignamiðlunar. Og við megum gjarnan muna að Leifi var á Eignamiðlun í liðlega 35 ár. Það er afar fátítt um menn af hans kynslóð og á hans aldri að hafa verið sælir á sama vinnustaðnum í svo langan tíma. Það sýnir festu hans, heillyndi og traust.

Leifi lauk námi til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala árið 2005 og kenndi nokkur misseri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann lauk prófi frá Matsmannaskóla Íslands og sat í stjórn Matsmannafélags Íslands frá árinu 2004.

Félagsmálamaðurinn

Leifi var sérlega hæfur í mannlegum samskiptum. Hann sótti í glaðan félagsskap og kom víða við sögu. Hann var félagi í Oddfellow-reglunni. Í Leifa bjó líka músk og í tónlistinni varð hann músíkfræðingur á áhugasviðum sínum. Leifi gat haldið lærða fyrirlestra um Peter Gabriel, Genesis, Sigurrós eða einhverja aðra músíkdýrð. Og vinur hans minnist að hann hafi ekki látið trufla sig þó gjaldmælirinn tikkaði ef hann var komin á flug við áhugasaman og Gabrielþyrstan leigubílstjóra. Leifi, sem hafði byrjað tónlistarnám, lærði á fullorðinsaldri að meta sitt eigið raddhljóðfæri og söng í Karlakór Grafarvogs frá stofnun kórsins.

Íþróttamaðurinn

Leifi hafði hreyfiþörf. Strax í bernsku sótti hann í hreyfingu og hvers konar íþróttir. Hann varð snemma stór og kröftugur og þegar hann þurfti að flýta sér með félögum sínum í Garðinu, skellti hann jafnvel einum félaganna á bakið til að sá drægi ekki úr hraða og yfirferð. Leifi stundaði alls konar íþróttir um æfina. Hann var ekkert að sýta ef engir vildu leika. Hann fór bara út á tún og þjálfaði sjálfan sig í alls konar markmannsskutlum. Leifi var m.a. markvörður meistaraflokks knattspyrnufélagsins Víðis í Garði á árunum 1977-1984 og þrátt fyrir allar annir og ómegð skellti hann sér á æfingar suður eftir. Svo var hann liðtækur körfuknattleiksmaður og keppti í meistaraflokki Íþróttafélags stúdenta í mörg ár. Og Leifi hafði gaman af því að geta státað af því að hafa keppt við Barcelona. Það eru ekki margir Íslendingar sem geta laumað slíku inn í karlaraupið. En það var reyndar í körfu en ekki á Camp Nou. Síðari árin æfði hann badminton með börnum sínum og vinum sér til heilsubótar.43

Púlarar og og YNWA

Svo er nú Liverpool sérstakur kapítuli. Og segja verður hverja sögu eins og hún er. Leifi byrjaði sinn feril með því að fylgjast með skyttunum í London, Arsenal. En svo kom hann til sjálfs sín og varð alheill púlari, stuðningsmaður Liverpool. Það er gaman að koma sjónvarpsherbergi Leifa í kjallaranum í Jakaselinu. Það er eins og helgirými, kapella. Margar gerðir af Liverpooltreflum eru þar, bolir af ýmsum árgöngum og áhugavert Liverpooldót. Hann, félagarnir og fjölskyldan fóru í ferðir á Anfield til að hvetja sína menn, hafa gaman, æpa og faðma og kannski stundum tárast svolítið. Svo var stuðningsmannahópur púlara svo elskulegur og rausnarlegur að láta klappa nafnið hans Þorleifs á stein og koma fyrir á Anfiled. Þar á hann bautastein svo lengi sem Anfield lifir. Púlararnir standa saman og ganga auðvitað líka saman. Það er áhrifaríkt og raunar stórkostlegt að hlusta á eða syngja You never walk alone. Og skammtstöfunin YNWA fer á krossinn á leiðinu hans Leifa.

73Nú fer að rofa til, Liverpool lofar góðu. Klopp er maður kraftaverkanna og trúarinnar. Grínarar annarra liða munu ekki halda lengur fram að YNWA standi fyrir setninguna: You never win away! Nú er runnin upp ný tíð. Og við sem sjáum nú á bak Leifa megum trúa að lífið sé skemmtilegt, alltaf séu nýir möguleikar, líka í handaheimi Guðs. Leifi, sem alltaf var í Liverpooltreyju – eins og þið sjáið dæmi um í sálmaskránni – er vísast kominn í glitrandi treyju og farinn að verja mark með himneskum púlurum. Lífið er ríkulegt og undursamlegt þeim sem þora að sjá meira en efnið, hafa næmni fyrir himneskum húmor og trúa gleðifréttum Guðs. Þess vegna þori ég að sjá Leifa í ljósi eilífðar, í nýrri treyju, en ég held að hann þurfi engan trefil!

Inga og hamingjan

inga-og-leifi-2Leifi var láns- og hamingjumaður í einkalífi. Inga var honum dásamlegur maki sem hann gat alltaf treyst, hafði húmor fyrir honum, studdi hann og styrkti. Hún var tilbúin að reka hið stóra heimili þeirra og Leifi kunni að meta sína frú. Það var vermandi að heyra hvernig Leifi talaði um hana Ingu sína. Í því er hann fyrirmynd börnum sínum, vinum og öllum eiginmönnum um hvernig ræktuð ást er í framkvæmd.1

Þau Inga sáu hvort annað hjá vinum og það var ekki logandi ást við fyrstu sýn, en eitthvað gerðist við aðra sýn og því betur sem þau horfðu á hvort annað þeim mun betur sáu þau manngæðin sem rímuðu svo vel hjá þeim. Og eldurinn þeirra skíðlogaði til hinstu stundar. Þau Þorleifur og Ingibjörg Sigurðardóttir gengu í hjónaband 6. ágúst 1983 og bandið þeirra trosnaði aldrei. Fyrst bjuggu þau í kjallaranum við Flókagötu, hjá foreldrum Ingu, þeim Audrey og Sigurði. Svo fóru þau um tíma inn í Hlíðar, í Eskihlíð 11.

Engjaselið

Þar á eftir tóku við hamingjuár í Engjaselinu. Þau Inga bjuggu í einstöku samfélags- og kraftaverkahúsi ef trúa má frásögum Leifa. Það var og er gaman að hitta Engjaselsfólkið á heimili Ingu og Leifa, svo djúp vinátta bast milli þessara barnafjölskyldna á spírunartíma í lífi þeirra. Konurnar urðu vinkonur og þær Engjaselssystur hittast enn. Karlarnir léku saman við börnin úti og Leifi spilaði við íbúana körfu úti á flöt. Svo áttu karlarnir sér sameiginlegt fyrirtæki. Þeir komu sér niður á stórkostlegar aðferðir við að vinna í getraunum. Þeir hittust á fimmtudögum og skemmtu sér við að fylla út seðlana. Og þegar félagarnir í Tippmilljónafélaginu höfðu unnið allt sem hægt var að vinna með góðu móti héldu þeir áfram að grínast og glensast. Og börnin urðu félagar í þessu góða og gjöfula húsi.

Börnin og afkomendur

Börn Þorleifs og Ingibjargar eru fimm.

Elstur er Sigurður James sem kom í heiminn í desember árið 1980. Kona Sigurðar er Ólöf Birna Margrétardóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg Soffía (2009), Stefán Daði (2011) og Margrét Birta (2013).

Elín, eina dóttirin í barnahópnum, fæddist í júlí árið 1984. Hennar maður er Pétur Rúnar Sverrisson. Þau eiga Ásdísi Ösp (2007) og Alexöndru Fjólu (2010).

Kári er tvíburabróðir Elínar. Bjarki er vormaðurinn í hópnum. Hann kom í heiminn í mars 1993. Og Bjartur rekur lestina. Hann er vetrarmaður eins og Sigurður og fæddist á nýju ári, í janúar, árið 1995.82

Þegar þessi stóri barnahópur Ingu og Leifa hafði sprengt af sér íbúðina í Engjaselinu festu þau kaup á Jakaseli 29 og fullgerðu. Þar varð mikil og góð mannlífshöll og miðstöð stórfjölskyldunnar. Þangað koma börnin frá útlöndum eða til fjölskyldufunda. Og þar ríkir andi Leifa og Ingu.63

Minningarnar um Leifa

Hvernig manstu svo Leifa? Manstu hve kátur hann var? Alltaf var stutt í sprellið. Í honum bjó elskulegur og áreitnislaus húmor. Hve mörg ykkar urðu fyrir glensi frá honum? Ég þori eiginlega ekki að biðja ykkur að rétta upp hendur – en margar gætu farið á loft!

Munið þið hve umtalsfrómur og tillitssamur Leifi var ávallt? Hann lagði gott til allra og hafð lag á að lægja öldur. Af því að hann var svo hlýr og góður fyrirgafst honum góðlátlegt símaat. Smáleikrit eða gleðisveifla varð til að efla vinnustaðamóralinn og hleypa kæti í vinahópinn og fjölskyldulífið.

Leifi efldi fólk. Hann hafði gott lag á börnum og hafði áhuga á fólki á öllum aldri. Mannvirðingin skilaði honum einstökum árangri í störfum í flókinni og krefjandi vinnu við fasteignakaup, þar sem höndlað er með æfitekjur fólks, lán þeirra eða ólán. Mannvirðing Leifa var ómetanlegur grunnur í starfi hans. Hann var alltaf ábyrgur, gerði eins vel og hann gat og vildi tryggja að fólk nyti réttra upplýsinga og kjara og gæti tekið upplýstar ákvarðnir í stóru málum lífsins.

Manstu eftir útvistarmanninum Leifa eða sumarbústaðakarlinum? Manstu eftir hve góður kennari hann var? Sérðu fyrir þér brosglottið hans Leifa? Manstu hve fljótur hann var að ljúka því sem hann vann við? Manstu hve gaman Leifi hafði af að taka hluti sundur, en kannski síður að setja saman þegar hann var búinn að skilja snilld gangverksins. Manstu eftir Leifa í miðahallæri í Liverpool? Manstu hve hugaður hann var? Manstu að Leifi sagði óhikað að hann hafði bestu vinnu í heimi? Manstu æðruleysi hans í lífinu og hvernig hann lengdi í lífi sínu með lífsafstöðu sinni? Manstu eftir hve snöggur Leifi var þegar fólk notaði málið markalaust? Að þau, sem sögðu að eitthvað væri ógeðslega gott, fengu strax spurningu hvort það væri virkilega svona vont! Manstu eftir Leifa á tónleikum og hve glaður hann gat orðið að fá óvænt miða á Peter Gabriel? Manstu hvað hann gat verið ráðagóður og ráðhollur? Jafnvel níu ára guttinn sagði örvæntingarfullri systur sem hafði lent í vondum málum: „Það er alltaf best að segja satt.“ Og það iðkaði hann síðan sjálfur.hjonavigsla

Garðsmaraþonið og Guðsengið

Og nú er hann farinn. Þegar Leifi var strákur í Garðinum var hann fullur af hugmyndum um möguleika lífsins og hvað hann gæti gert og afrekað. Hann heillaðist af afreksmönnum, t.d. mönnum sem gátu hlaupið maraþon. Og Leifi gat allt sem hann ætlaði sér – næstum allt. Pabbi hans hafði slegið túnið og var búinn að raka í garða. Leifi, sem átti hjól með hraða- og lengdarmæli hljólaði ysta hringinn á túninu og mældi nákvæmlega vegalengdina. Svo reiknaði hann hvað þyrfti að hlaupa marga hringi kringum túnið til að ná að hlaupa alla 42195 maraþonmetrana. Og af því að Leifi var leiðtogi barnanna í Garðinum fór hópur af krökkum með honum til að hlaupa Garðsmaraþonið mikla og í boði Leifa. Svo hljóp hópurinn af stað en þeir taka í kílómetrarnir þegar búið er að hlaupa einn eða tvo klukkutíma. Svo var aðeins einn eftir – Leifi langhlaupari. Systur hans báru í hann vatn og næringu og áfram hélt hann. Hann hætti ekki fyrr en hann hafði hlaupið rúmlega 42 kólómetrana. Þannig var Leifi. Hann hljóp til enda. Og nú er þessi mikli maraþonmaður gæðanna hlaupinn inn í eilífðina. Alltof snemma, alltof hratt og við sjáum á eftir honum inn á Anfield eilífðar. Það er sóun að Leifi skuli vera farinn, mikið harmsefni öllum sem honum tengdust.

Inga hans, börnin, systkinin, barnabörnin og allir vinirnir eiga ekki lengur í honum styrk, gleði og stuðning. En trúmönnum er gott að vita hann er á góðum leik, á góðum velli og í góðum hóp. Leifi skilur eftir sig stórkostlegar minningar – hversu ljúf-sárar sem þær eru við skilin. Og hann verður þar ekki einn – hann gengur ekki einn – því Guð gengur með okkur. Og því getum við sagt og sungið að við munum aldrei ganga ein.

Guð geymi Leifa og varðveiti þig og hjálpi þér til að njóta hvers dags, því allt er að láni úr eilífiðinni. Amen

Óli Rúnar Ástþórsson getur ekki verið við þessa útför og biður fyrir kveðjur sínar. Sömuleiðis hefur mér verið falið að bera ykkur kveðju frá Sossu og Margréti Sif í Gautaborg.

Bálför. Jarðsett í Sóllandi. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

+ Arthur Morthens +

HArthurver var eftirminnilegasta minningin um Arthur? Eitt svarið er: „Það var þegar hann kom í Kjósina frá Danmörku.“ Arthur var tvisvar á bernskuárum sendur til Danmerkur til lækninga. Þegar hann var tíu ára var hann ytra í marga mánuði. Hvorugt foreldranna gat verið hjá honum, en hann hafði stuðning af vænu dönsku hjúkrunarfólki og ættingjum í Höfn, sem töldu kjark í litla manninn. Allt varð Arthuri til náms og þroska. Ríkisspítalinn var honum ekki aðeins hjartalækningarstöð heldur fékk hann þar „krasskúrs“ í dönsku og varð að bjarga sér – engir túlkar voru á vakt. Loks var ferðalangsins að vænta heim eftir vel heppnaða dvöl. Foreldrarnir og strákarnir biðu í ofvæni eftir komu hans með betrumbætt hjarta. Hann átti að koma með áætlunarbílnum í Kjósina. Einn bræðranna hlakkaði svo til endurfundanna að hann hljóp á móti rútunni, sem stoppaði og sá stutti fékk að fara inn. Og hann sá Arthur eins og í upphöfnum ljóma – nálgaðist hann og fagnaði. En viti menn, Arthur var orðinn svo umbreyttur að hann talaði bara dönsku við bróður sinn. Reynslan var svo yfirþyrmandi að þetta var minningin sem hentist upp í vitundina þegar ég spurði um hvað væri eftirminnilegasta upplifunin um Arthur bróður. Það var þegar Arthur kom í Kjósina. Þetta er eiginlega himinmynd, Arthur farinn og kominn, umbreyttur, íslenskan farin en danskan komin, einhvers konar himneska sem hann talaði.

Í klassískum heimi var talað um hið mennska þroskaferli – exitus og reditus. Að fara – til að koma til baka með hið nýja, stóra og viskuna. Og nú er Arthur farinn, en kominn aftur með einhvers konar himnesku til okkar. Farinn inn í eilífðina – eins og af glettinni stríðni – undir dönskum himni en kominn með nýja skynjun til eflingar lífs okkar sem störum á bak honum. Til hvers lifir þú og hvernig?

Ævistiklur

Og þá er gott að rifja upp. Hvernig manstu Arthur? Hvað var hann, hvernig og af hverju? Hann var reykvískur – en líka danskur. Hann stundaði einnig nám í Noregi, var heimsborgari og fulltrúi mennskunnar í heiminum. Hann var nálægur en líka óræður, með sterkar festur en líka hreyfanlegur. Saga hans var margbrotin og í veru hans voru margir strengir ofnir.

Arthur fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948 en lést í Fåborg í Danmörku 27. júlí síðastliðinn. Móðir hans hét Grethe Skotte. Hún hafði yfirgefið stríðshrjáða Danmörku strax eftir að hernáminu lauk – ung kona sem heillaðist af því Íslandi sem Gunnar Gunnarsson hafði með bókum sínum kynnt á meginlandi Evrópu. Hún yfirgaf Láland, Kaupmannahöfn og stríðsgrafirnar og lagði upp í lífsferð sína og leit aldrei til baka. Hún blikkaði Guðbrand Kristinn Morthens í Alþýðuhúskjallaranum og þau urðu ástríðupar og lifðu stormasömu en ávaxtaríku lífi. Kristinn var ellefu árum eldri en kona hans og lifði meira en tveimur áratugum lengur en hún. Hún var dönsk, hann var hálfnorskur. Í sögu þeirra og sögu drengjanna speglast  eftirstríðsárasaga Íslands. Í upphafi voru þau á húsnæðisflakki en risíbúð á Barónsstíg varð upphafsreitur Arthurs. Þar var fjölskyldan þröngbýl þéttbýlisfjölskylda og stutt á milli fjölskyldumeðlimanna. Svo lá leiðin upp í Gnoðarvog, mikla mannlífshöll sem varð heimili Arthurs á unglingsárum.

Arthur var elstur í albræðrahópnum en Kristinn átti þrjú börn fyrir. Hjördís Emma fæddist árið 1936, Ágúst Rósmann kom í heiminn árið 1942 og Ævar síðan 1946. Sveinn Allan fæddist tveimur og hálfu ári á eftir Arthuri, árið 1951. Tolli kom í heiminn 1953 og Bubbi fæddist árið 1956. Bergþór rak svo á happafjörur fjölskyldunnar 1961 en hann fæddist árið 1959. Hann var bróðursonur Kristins og þau Grethe tóku honum opnum örmum þegar hann þarfnaðist fjöskyldu.

Íslandseign

Strákahópurinn varð í fyllingu tímans eign Íslendinga, almenningseign – svo dugmiklir, gjöfulir, lit- og tónríkir hafa þeir verið. Við höfum fylgst með þeim, heyrt sögur þeirra, söngva og mál, hrifist af þeim, hræðst angist þeirra, grátið með þeim og dáðst að krafti þeirra. Af hverju urðu þeir svona máttugir? Þeir bjuggu við kröpp kjör og stundum ófrið. Hrammur áfengis varð löngum lamandi. Pabbinn var oft fjarverandi. Mamman mátti hafa sig alla við, seldi Lálandsdjásnin og sneri saumavélinni hratt til að fæða og klæða hópinn. Og af því þeir voru algerlega utan við ætta- og klíkusamfélag Íslands gengu þeir ekki að neinu gefnu, áttu engar silfur- eða gullskeiðar í munni og fengu ekkert ókeypis. En það var ekkert verra að vita að ættmenni þeirra erlendis voru ekki lyddur. Og Arthur og Morthens-strákarnir urðu stólpar í þjóðlífi Íslendinga. Þjóðareign er margvísleg.

Þú ert stór maður

Arthur var fyrirburi og heilsuveill alla tíð. Hann varð sjálfur að ákveða sig til lífs og beita sig n.k. Munchausentrixum, stundum að draga sig upp á hárinu. Mamman sagði við son sinn, fíngerðan, nettan og lágvaxinn: „Þú ert stór maður. Þú ert ekki lítill maður – þú ert stór maður.“ Það var brýningin, veganestið allt frá bernsku. Þessi smái maður borinn til stórvirkja. Og til loka lífs lifði hann þannig. Engir erfiðleikar voru of miklir að ekki mætti sigrast á þeim. Kröpp kjör eða fötlun neitaði hann ekki leyfa að hamla. Arthur neitaði að óréttlæti sigraði réttlæti, mennskan skyldi ekki lúta fyrir ómennskunni og ómenningunni. Erfiðleikar urðu honum tækifæri fremur en óyfirstíganleg hindrun og reglan var einföld að ef sverðið væri stutt skyldi ganga skrefinu lengra.

Arthur gerði ýmsar tilraunir í námi og lífi. Sumt var óvænt. Hann þótti ekki líklegur til hamars og nagla en svo skráði hann sig í smíðanám hér næsta húsi á Skólavörðuholtinu og þrælaðist m.a. í bryggjusmíði við Snæfjallaströnd – og kvartaði aldrei.

Fólkið hans studdi Arthur með magvíslegu móti. Bræður hans, Allan og Tolli, gáfu honum nýru sem björguðu honum og bættu lífskjörin. Þökk sé þeim.

Ég veit að Steinunn tryggði að Arthur nyti alls þess sem heilsa hans leyfði. Þökk sé henni. Og vert er að nefna „strákana“ – hóp kærleikskarla – sem sóttu Arthur í hádegismat og óku honum heim í hverri viku – og jafnvel oft í viku. Í þeim öfluga og glaðsinna hópi, sem var einn af þeim kátustu í bænum, naut Arthur sín. Þökk sé ykkur vinum Arthurs.

Sá elsti og fyrirmyndin

Sem elsti sonurinn í stórum strákahópi – og stundum pabbalausum – var hann oft í hlutverki fræðarans. Hann miðlaði músík, hafði áhrif á hvernig fyrstu gítargripin hans Bubba urðu, túlkaði átök, gæði, og skyldur fyrir strákunum, varð fyrirmynd á flestum sviðum, aðstoðarmaður mömmunnar, fulltrúi menningardeiglunnar, hippinn, pólitíkus og stríðsmaður réttlætisins. Hann gerði sér grein fyrir að hann ætlaði ekki að saga allt lífið eða moka á Miklubrautinni og kveikti á andans perum sínum í Kennaraskólanum. Þar kom hann til sjálfs sín og naut hæfileika sinna og náms. Lífið var litríkt innan sem utan skóla. Hann kynntist ástinni, lífsbaráttu og eignaðist félaga. Einn Þorláksmessudag kom hann heim alblóðugur og hafði lent í götubardaga þegar hann mótmælti framgöngu Kanans í Víetnam. Mamman bað hann blessaðan að vera heima, en hann rauk upp og niður í bæ aftur þegar tekist hafði að hreinsa sár og binda um. Byltingin og baráttan yrði ekki að honum fjarverandi. Litli maðurinn var stór og hikaði ekki að hjóla í risana í veröldinni.

Grethe fór til Danmerkur til náms og unglingurin Arthur var allt í einu alábyrgur fyrir eldri bræðrunum. Saman urðu þeir að afla fjár til matar og lífs. Það var ekkert mulið undir þá.

Arthur útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann langaði að fara í Háskólann en svo var hnippt í hann og hann var beðinn að kenna í Keflavík. Þar starfaði hann sem kennari til 1978. Hann bryddaði upp á nýungum, hikaði ekki við kennslufræðilegar tilraunir og sló í gegn. Ýmsir undruðust hvað hann væri að fletja sig út fyrir krakkana í Keflavík. Arthur var spurður af hverju hann væri að hafa fyrir þessu pakki! En hann raðaði ekki fólki í undir- og yfirflokka. Fólkið sem hann þjónaði var einfaldlega alls konar en þó jafngilt – og þyrfti alls konar aðstoð og líka fjölbreytilegar aðstæður. Hann stóð með mennskunni og vissi að hann gæti stutt þau sem voru smá en þó stór. Það er mikill Jesús í sögunum um Arthur frá þessum tíma. Svo sneri hann til baka í bæinn. Arthur fékk kennarastöðu í Árbæjarskóla og naut sín í kraftmiklum og samheldnum kennarahópi. Í Árbænum starfaði hann frá 1978 til 84.

Með kennslustörfum í áratug aflaði Arthur sér dýrmætrar reynslu og náði yfirsýn sem hann vann úr allar götur síðan. Hann gekkst við köllun sinni og hélt til náms í Osló í sérkennslufræðum. Arthur lauk sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló árið 1985 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1987. Með þroska og menntun var hann síðan ráðinn til skrifstofu fræðslumála í Reykjavík. Hann var sérkennslufulltrúi á árunum 1988 til 1991 og síðan forstöðumaður kennsludeildar til 1996. Þá voru málefni grunnskólans flutt til sveitarfélaganna og Arthur var ráðinn forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann næstu tíu árin og var síðan ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar frá 2006 til 2012. Þau sem nutu þjónustu Arthurs muna og þakka lipurð, natni, áhuga og skapandi velvilja hans í störfum.

Vert er og að minna á og þakka fyrir félagsstörf Arthurs. Hann var einn af stofnendum Barnaheilla 1989 og var við stjórnvöl samtakanna árum saman. Hann hafði alla tíð sterkar skoðanir varðandi stjórnmál og þróun íslensks samfélags. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stétt sína í Kennarafélaginu, var virkur í Alþýðubandalaginu, varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og um tíma formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur.

Hjúskapur

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir, kennari. Þau kynntust í Kennaraskólnum, hófu hjúskap saman í Keflavík og gengu í gegnum súrt og sætt, í námi, störfum og lífi í meira en tvo áratugi. Þau skildu. Sigríður býr í Svíþjóð. Hún kvaddi Arthur í Danmörk í útförinni í Svendborg og biður fyrir kveðju til þessa safnaðar. Sonur þeirra Sigríðar og Arthurs er Ólafur Arnar. Hann starfar sem tölvunarfræðingur. Kona Ólafs er Halldóra Sigtryggsdóttir, leikskólakennari. Þau eiga þrjú börn: Petru Ósk, Harald Inga og Örnu Sigríði.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður. Þau hófu sambúð árið 1997 og Arthur varð þremur dætrum hennar natinn stjúpi. Dæturnar eru Helga, Anna og Halla Tryggvadætur. Dætur Helgu og Jóns Þórs Péturssonar eru Rán og Saga. Synir Önnu eru Arnlaugur og Hallgrímur Guðmundarsynir. Halla á soninn Johann með sambýlismanni sínum, Frederik Anthonisen. Jón Þór, Pétur tengdafaðir Helgu, sem og Fredrik geta ekki verið við þessa athöfn. Þeir eru gæta smáfólksins erlendis en bera ykkur kveðjur sínar.

Arthur hafði alla tíð áhuga fólki. Hann fylgdist vel með ástvinum sínum, fagnaði með þeim, sótti skólaviðburði þeirra, vakti yfir lífi þeirra og framvindu fjölskyldunnar, lék við ungviðið, ræddi mál sem brunnu á þeim, datt í alls konar hlutverk skv. þörfum þeirra, hikaði ekki við leik og að spinna furðusögur, breytti jafnvel rúmi sínu í leiksvið ef kátínusækið barn hafði löngun til. Hann settist á gólf ef lítinn kút vantaði leikfélaga. Jafnvel máttfarinn afi hikaði ekki þegar líf smáfólksins krafði.

Ástvinirnir hafa misst mikið. Guð geymi þau í sorg þeirra og eftirsjá og styrki þau til að leyfa stórvirkjum Arthurs að lifa, til að lífið verði ríkulegt og stórt.

Mörgum hefur Arthur kynnst um æfina og mörg kveðja. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Hildi Ellertsdóttur í Svíþjóð.

Eilífðin

Nú Arthur er farinn inní eilífðina. Hann skilur eftir miklar sögur. Hann fór einn í skipi frá Íslandi til Danmerkur þegar hann var á fimmta ári. Hvernig var slík ferð tilfinningaríku barni? Stór, lítill maður. Fram fram um víða veröld. Hann ólst upp í þeytivindu Reykjavíkur og fjölskyldu Kristins og Grethe. Verkefnin voru mörg, að brotna ekki, halda stefnu, glíma við Bakkus, þora að setja tappann í. Þora að halda í festurnar, gildin, standa með því rétta til að sveigja kerfi í þágu fólks og gefa öllum möguleika. Aldrei á niðurleið. Arthur var alltaf á uppleið. Æfingar, heyrn, sjón, gleði – alltaf í plús jafnvel þótt fokið væri í flest skjól. Borinn til stórvirkja eins og allt hans fólk. Og við segjum takk. Takk Arthur fyrir að vera svona stór, glaður, kíminn, hugmyndaríkur, elskulegur og áhugasamur.

Hann er horfinn inní eilífðina. Já, kynslóðirnar koma og fara líka – við erum öll pílagrímar. Hvernig ætlar þú að verja lífinu? Hvað var það sem Arthur kenndi þér? Þitt hlutverk er að lifa vel – og lifa með öðrum og í þágu annarra – iðka hið góða líf. Það er gleðihljómur í grunni tilverunnar – sagan er saga til friðar. Boðskapur óspilltrar kristni er að við erum öll börn friðar og til þroska. Stór.

Guð geymi Arthur og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016. Bálför. Duftker jarðsett í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

Arthur Morthens fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948. Hann lést í Faaborg í Danmörku 27. júlí 2016. Foreldrar Arthurs voru þau Grethe Skotte Morthens, f. 18.3. 1928 á Lálandi í Danmörku, d. 30.1. 1982 og Guðbrandur Kristinn Morthens, f. 18.10. 1917 í Reykjavík, d. 4. desember 2002. Systkini Arthurs eru Hjördís Emma Morthens, f. 26.10. 1936, Ágúst Rósmann Morthens, f. 7.1. 1942, Ævar Guðbrandsson, f. 28.9. 1946, Sveinn Allan Morthens, f. 10.6. 1951, Tolli Morthens, f. 3.10. 1953, Bubbi Morthens, f. 6.6. 1956 og Bergþór Morthens, f. 24.8. 1959.

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir kennari, f. 20.11. 1952. Sonur þeirra er Ólafur Arnar tölvunarfræðingur, f. 26.2. 1974. Kona hans er Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólakennari, f. 28. 8. 1975. Þeirra börn eru Petra Ósk, f. 27.1. 1999, Haraldur Ingi, f. 4.6. 2003 og Arna Sigríður, f. 20.1 2006.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður, f. 26.5. 1961. Hennar dætur og fósturdætur Arthurs eru Helga Tryggvadóttir læknir, f. 21.7. 1982, gift Jóni Þór Péturssyni þjóðfræðingi, f. 27.11. 1979. Þeirra dætur eru Rán og Saga, f. 9.8. 2015. Anna Tryggvadóttir lögfræðingur, f. 24.11. 1984. Synir hennar og Guðmundar Arnlaugssonar eru Arnlaugur, f. 17.1. 2009 og Hallgrímur, f. 25.4. 2012. Halla Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.2. 1988, í sambúð með Frederik Anthonisen sjúkraflutningamanni, f. 28.12. 1986. Sonur þeirra er Johann, f. 6.10. 2015.

Arthur ólst upp í Reykjavík, fyrst á Barónsstíg og svo í Vogahverfinu. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló 1985 og Cand. Paed. Spes. frá sama skóla 1987.

Arthur kenndi við Barnaskóla Keflavíkur 1973 til 1978 og Árbæjarskóla 1978 til 1984. Hann var sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur 1988 til 1991 og forstöðumaður kennsludeildar frá 1991 til 1996. Þegar málefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaga árið 1996 varð Arthur forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann í tíu ár. Síðustu starfsárin var hann ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eða frá 2006 til 2012.

Arthur var einn af stofnendum Barnaheilla 1989, varaformaður samtakanna 1989 til 1991 og formaður frá 1991 til XXXX. Arthur var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og formaður stjórnar SVR frá 1994 til 1996. Þá gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Kennarasamband Íslands og Alþýðubandalagið.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst og útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016.

Friðrik Adolfsson – minningarorð

Friðrik og Kjartan, sonur hans, voru um tíma samstúdentar í tölvunarfræði í Háskólanum. Þeir hittust í skólanum – það var skemmtilegt – sátu svo saman á sunnudögum, stunduðu dugnaðarlega kaffidrykkju, reyktu mikið og unnu saman dæmin, kepptu stundum um hvor væri á undan, fóru svo í skógarferðir út fyrir verkefnin, voru saman, hlógu, hugsuðu, tengdust – eignuðust tíma, sem er gjarnan kallaður gæðatími. Þetta líkaði Friðriki, að vera með fólkinu sínu, vinna að verðugu og erfiðu verkefni og geta blandað í hlátur og gleði.

Þrautir og lausnir

Hvernig er hægt að leysa þraut, hvernig er hægt að stilla hluti, þætti og víddir saman svo lausn finnist og verkefnið gangi upp? Friðrik var maður hinna flóknu verkefna í lífi og starfi, maður sem leitaði stöðugt lausna, lagði ómælt á sig til að tengja og uppskar eins og hann sáði og vann.

Foreldrar og heimili

Friðrik Adolfsson fæddist 6. júní. Hann var sumarbarn og fæddist á síðustu dögum dansks konungsdæmis á Íslandi, árið 1944. Nokkrum dögum eftir fæðingu hans varð Ísland svo lýðveldi. Foreldrar hans voru Adolf Guðmundsson, yfirkennari, (07.07. 1917, d. 26.08. 1965) og kona hans, Guðríður Oktavía Egilsdóttir, kennari (10.01 1920). Hún lifir son sinn og bróðirinn einnig. Hann er Þórður Adolfsson.

Faxaskjólið

Foreldrar Friðriks byggðu hús í Faxaskjóli 26. Þangað flutti fjölskyldan þegar Friðrik var á þriðja ári og þar var hann þegar hann var á Íslandi. Hann fór í Melaskóla eins og aðrir krakkar í hverfinu. Þegar Adolf fór til náms í Kiel fór fjölskyldan með. Friðrik var þar einn vetur í skóla, lærði þýsku, lærði að meta þýskt samfélag og þennan vetur var lagður grunnur að hinni “þýsku” framtíð hans, ekki aðeins varðandi verkfræðina, heldur líka menningu, mótun og hjúskap. Hann lærði meira að segja að dreyma á þýsku.

Fjölskyldan hélt svo heim frá Kiel, heim í Faxaskjólið og Friðrik fór eftir gagnfræðaskóla í MR, naut menntaskólatímans við nám og gleði og eignaðist vini, sem dugðu honum til ævigöngunnar.

Háskólanám

Friðrik varð stúdent frá MR árið 1964 og nam síðan mælingaverkfræði í Braunschweig í Þýskalandi og lauk fyrri hlutanum 1967 og síðan prófi í mælingaverkfræði frá Karlsruhe 1976. Friðrik bjó í Þýskalandi í yfir áratug, nam og vann. En svo þegar hann var búin með verkfræðina fór hann heim með allt það nýjasta í fræðunum.

Með snilli hins lausnamiðaða í farteskinu hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum, var svo um tíma verkfræðingur hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Starfaði svo hjá Forverk og frá 1994 vann hann sjálfstætt, sem byggingaverkfræðingur og síðustu árin hjá Íslenskum fyrirtækjum.

Hjúskapur

Friðrik giftist þann 30. ágúst 1977 Miriam Rubner leikskólakennara (04.07. 1949). Börn þeirra eru Agla Jael Rubner; Kjartan Jónatan Rubner og Egill Moran Rubner. Sonur Kjartans og Sigríðar Ásdísar Jónasdóttur er Dagur Benjamín Rubner, sem var afa sínum sólargeisli í lífinu. Friðrik og Miriam skildu. Sambýliskona Friðriks síðustu ár var Elke Herrel, sálfræðingur. Friðrik Adolfsson varð bráðkvaddur á heimili sínu í Faxaskjóli 5. apríl síðastliðinn.

Kæra fjölskylda þið hafið misst mikið. Nú er tekið fyrir allt það, sem þið áttuð í vonum. Lífsbókinni hans er lokað, en felið Friðrik elskufaðminum stóra, Guði. Þar allt gott, þar ganga málin upp, þar eru stærstu verkefnin stórfengleg. Þökk sé ykkur fyrir ástríki, umburðarlyndi, þolgæði og allt það, sem þið hafið verið Friðriki.

Þekkingaröflun

Fróðleikssókn, hagræðing og þekking er einkenni hinnar opnu mennsku. Í Orðskviðum Gamla testamentisins segir: „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ Orðskv. 18.15

Aflar – leitar þekkingar. Hvernig var Friðrik? Hvernig manstu hann? Þú átt þínar minningar og farðu vel með þær. Mundu eftir dýrmætum í samskiptum og leyfðu hinu að fara, jafnvel leka niður í gólf kirkjunnar. Ég man, að augu Friðriks leiftruðu þegar hann kom í nýja safnaðarheimili Neskirkju. Hann horfði í kringum sig, las allt fljótt og snögglega, hús, fólk og mál. Það var gaman að vera með honum og upplifa snerpu hans, spuna og sköpunarmátt.

Friðrik var blíðlyndur fjölvíddarmaður. Hann var öflugur í flestu sem hann gerði, gat tölvulaust leyst þá flóknu þraut og reiknisdæmi að setja upp mælingalíkan þegar Vestfjarðagöng voru á hönnunarstigi. Tölvurnar í Karlsruhe staðfestu svo reikning hans. Friðrik var eðlilega spenntur þegar komið var að síðustu sprengingunni fyrir vestan. Allt var rétt og verkið gekk upp.

Jarðbinding

Flókin verkefni voru Friðriki ögrandi gleðigjafar. Hann, sem var mikill tilfinningamaður og stundum að springa af innri glóð, var líka afar jarðbundinn. Hann gat skilið skapandi listamenn, sem fóru með himinskautum í hugarflugi, en vissi manna best að hugmyndir yrðu ekki að veruleika, hversu flottar sem þær væru, nema hægt væri að jarðbinda, allt væri rétt mælt og í samræmi við lög og reglur.

Verkfræðingurinn týndi sér þó ekki í hinu praktíska eða tölunum heldur. Hann tengdi allt til enda, gat auðveldlega gert við tækin, hvort sem það voru nú bílarnir hans eða barnanna. Úr tveimur ónýtum þvottavélum bjó hann svo til eina nothæfa! Hann hafði gaman af að taka í sundur það, sem ekki gekk, finna veiluna, gera við og setja svo saman. Hann íhugaði stöðugt, hvernig væri hægt að bæta hönnun tækja og tóla, hvernig væri hægt að bæta nýtingu græjanna og hvernig væri hægt að breyta þannig að þær yrðu betri.

Friðrik var alla tíð opinn fyrir nýjungum. Þegar hann fékk eitt af bernskutólum tölvutímans, Hewlett Packard-tölvu í fangið í fyrsta sinn, varð hann sem barn og gleymdi stað og stund og hvarf inn í heima undra og stórmerkja. Alla tíð hreifst hann af tæknilegum nýjungum og hafði því afstöðu og opinn huga hins unga manns.      

Listfengi

Í tæknihyggju blandaði hann síðan næmi, fegurðarskyni og mannvitund. Friðrik var góður ljósmyndari. En hann var ekki á kafi í ljósmyndun tækniundra. Hann tók ekki síður myndir af fólki. Hann hafði áhuga á mannlífi, sá fólk, kunni að meta hið kúnstuga og litskrúðuga líf.

Friðrik var það, sem heitir á kjarngóðri íslensku, greindur. Eðli greindar er, að kunna að taka hluti rétt í sundur, og það merkir að greina. En það er ekki nóg að kunna að rífa hlutina í sundur ef menn geta ekki sett saman að nýju. Snillin kemur best í ljós þegar menn geta sett hluti, atriði, mál svo saman að nýtt tæki, ný merking eða ný hugsun verði. Friðrik megnaði að sjá lausnir í flóknum málum, setja saman þannig að nýtt varð til. Hann hafði áhuga á skapandi hugsun.

Gildin og lífið

Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar – það gerði Friðrik alla ævi. Hann var opinn, hafði opin eyru og augu. Hann hafði sín grunngildi, var alinn upp í gildaarfi sr. Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM, sem hafði fóstrað Adolf, föður hans.

Friðrik Adolfsson var heillyndur, heiðarlegur, trúfastur og réttsýnn. Hann var ekki fullkominn fremur en við hin. Hann var sér sárlega meðvitaður um sprungurnar hið innra, gerði sér alveg grein fyrir eigin beyglum, reyndi að höndla tilfinningaglóð og tókst betur eftir því sem árin liðu. Síðustu árin varð hann æ uppteknari af grunngildunum og fjölskyldu sinni. Hann hafði ekki aðeins unun af að reikna dæmin með syni sínujm, heldur vildi helst fá að vera sem mest með börnunum.

Verkefni, vandkvæði eða þrautir voru ágætt tilefni til samvista og samveru. Þegar einhver þurfti einhvers með var hann mættur. Einu gilti hvort það var að skipta um þak eða ditta að einhverju smálegu.

Undrið og opnun

Maðurinn er mikið undur og lífið er okkur flestum flókin gáta. Öll erum við kölluð til að vinna úr arfi og aðstæðum, innri glóð og ytri kröfum. Við erum hluti flókins en heillandi vistkerfis. Friðrik vissi vel um ólíkar hugmyndir og hefðir, var óhræddur að tengjast fólki, sem hafði annan bakgrunn en hann sjálfur. Hann þorði það, sem við erum öll kölluð til í nútíma, að ganga á vit fjölbreytileika, læra af öðrum, halda því besta úr eigin hefð og ranni en þola og þora að opna.

Í trúarefnum, í náttúrunni, í lífinu er fjölbreytileiki, sem getur verið til góðs og eflt. En svo eru á samskiptum fólks, í samskiptum þjóða, í átökum einstaklinga og innan í okkur sjálfum veilur, vandkvæði, afbrot og áföll, sem er hægt að kalla ýmsum nöfnum. Friðrik hefði eflaust haft gaman af að ræða um hvernig væri hægt að ímynda sér Guð sem vísindamann.

Hinn lausnamiðaði Guð

Hvernig átti að mæla fyrir vestan ef allir hefðu verið búnir að gefast upp? Jú, Friðrik hefði farið sjálfur, gengið í verkið ef allt hefði verið komið í strand. Þannig er koma Jesú Krists túlkuð í veraldarsamhengi. Guð er lausnaleitandi vera, sem er annt um þennan fjölskrúðuga heim. Veröldin, sem þraut eða gáta, sem ekki var hægt að leysa öðru vísi en með því að Guð kæmi sjálfur, ekki til að mæla eða búa til módel heldur til að laga og tengja, gera heilt það sem brotið var og beyglað.

Við kveðjum öflugan mann í dag sem þorði að skoða, leitaði þekkingar, leitaði visku. Hann hefur lokið sínum mælingum, er hættur að reikna og mun ekki keppast við börn sín í reiknisnerpu. En reikniævintýrið heldur áfram því heimurinn er ekki lokað kerfi, heldur með víddum og því sem nefnt er eilífð. Treystið því, að sál Friðriks lifi, andi hans fái notið fallegra lausna, sem taka fram öllum reiknimódelum og mælingakerfum, ganga algerlega upp og eru líka falleg og skemmtileg. Þannig er Guð.

Neskirkja, apríl 2006.

Þorsteinn Magnússon + minningarorð

„Þorsteinn kemur í dag“ var oft sagt í Neskirkju því Þorsteinn nýtti sér aðstöðu í safnaðarheimilinu fyrir ferðafundi. Svo kom Þorsteinn síðdegis, kom snemma til að tryggja að borðum væri hentuglega raðað, tækin væru í lagi til að þjóna ferðarundirbúningi sem best. Svo þegar Þorsteinn var viss um að allt væri tilbúið rölti hann fram á Torg. Hann horfði glettnislega á okkur, tók kveðju vel og var sem einn af starfsmönnum á mannlífstorgi Neskirkju. Og stundum röbbuðum við um hvert hann stefndi sínu fólki. Svo komu ferðafélagarnir, hann fagnaði þeim og allur hópurinn fór til sinna starfa. Stundum kíkti ég inn í stofuna til að fylgjast með þegar ævintýraferðirnar voru undirbúnar. Ég dáðist að hve skipulagður Þorsteinn var, hve allt var grandskoðað og hve natinn hann var við að byggja upp eftirvæntingu, tilfinningu og þekkingu. Þorsteinn vann þakklátt starf og ferðafrömuðurinn sinnti mikilvægri þjónustu.

Ferð í tíma

Við menn erum ferðalangar í tíma og heimi. Kynslóðir koma og kynslóðir fara, allar sömu æfigöng, segir í sálmi Matthíasar. Við eigum okkar upphaf, meðgjöf sem eru gáfur okkar og gjafir himins. Svo spilum við úr svo sem okkur er unnt – í samskiptum við fjölskyldu okkar og samstarfsfólk. Vegur í tíma og svo eru lyktir – hlið æfivegarins. Hvaða leið förum við og hvert stefnum við? Við getum sem hægast talið að lífið sé ekkert annað en efnaferlar og spilverk hins efnislega. En við getum líka leyft hinum djúpu spurningum að vitja okkar. Hvert er inntak lífs og merking lífs einstaklinga? Jesús Kristur minnti á að við erum á vegi lífs. Hann sagði líka að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið. Öll göngum við til enda lífs, öll endum við í hliði himins. Þar erum við ein en líka í mikilli hópferð mannkyns – og ég held alls lífs. Nú fylgjum við Þorsteini Magnússyni í hinstu ferð hans. Hinn mikli ferðarfrömuður var tilbúinn.

Æfi og upphaf

Hvernig byrjaði ferðin hans Þorsteins? Hann var Reykvíkingur og fæddist 17. október árið 1933. Faðir hans var Magnús Þórðarson, Reykvíkingur og aldamótamaður. Móðir Þorsteins var Helga Gísladóttir, sem ólst upp á Akri við Bræðraborgarstíg. Hún var fjórum árum eldri en faðir hans og lifði til ársins 1980. Systkinin voru fimm. Elstur var Hörður, síðan kom Margrét og svo Þóra Guðríður. Þorsteinn var fjórði í röðinni og Bjarni Þorkell yngstur. Öll eldri systkinin eru látin en Bjarni Þorkell lifir þau.

Þorsteinn var ekki bara Reykvíkingur heldur líka Vesturbæingur. Hann var barn að aldri þegar fjölskyldan settist að í húsi við Víðimel og við þá götu bjó hann mestan hluta æfinnar. Þar var var grunnstöð heimsferðagarspins. Þorsteinn fór, eins og krakkarnir í hverfinu í Miðbæjarskólann en þegar Melaskóli var tekinn í notkun sótti Þorsteinn skóla þangað. Stríðsárin voru umbreytingartími og Þorsteinn sá allar umbyltingarnar í hverfi og borg. Miklir herkampar urðu til á Högum og Melum og herinn setti mark á líf fólks. Systkinin fóru í sveit á sumrin austur í Hrygg í Flóa til móðursystur Þorsteins.

Eftir fullnaðarpróf og fermingu – eins og hann orðaði það sjálfur – fór Þorsteinn í Verzlunarskólann sem hafði mikil og mótandi áhrif á hann. Hann varð stöðugt dugmeiri námsmaður og blómstraði í Verzló og var þakklátur fyrir skóla, nám og veru þar. Það eina sem hann gat alls ekki lært var að læra að reykja undir tröppunum! Hann tók þátt í félagslífi skólans og var treyst til verka og uppátækja. Hann stofnaði m.a. tækniklúbb í skólanum og svo grínaðist Þorsteinn með að hann hafi m.a.s. verið dómari í fegurðarsamkeppni! Til þess verða menn að hafa gott auga og sans.

Magnús Þórðarson, faðir Þorsteins, sigldi á England öll stríðsárin og komst lífs af. Fjölskyldunni hafði því vel til hnífs og skeiðar á þessum árum. Magnús hélt svo áfram á sjónum en fórst árið 1951. Hann tók út á jólum þetta ár. Fráfallið breytti algerlega kjörum fjölskyldunnar en móðir og börn áttu í sér festu, andlegan styrk og samstöðu og studdu hvert annað til náms og lífs. Þorsteinn stóð sína fjölskylduvakt og studdi fólkið sitt ríkulega.

Þorsteinn varð stúdent frá Verzlunarskólanum árið 1955 og lauk viðskiptafræði frá HÍ árið 1963. Meðfram námi kom hann víða við sögu í vinnu og náði mikilli yfirsýn og aflaði sér dýrmætrar reynslu sem gagnaðist honum með margvíslegum hætti. Hann vann í heildverslun Magnúsar Kjarans, hjá Skrifstofuvélum og hjá Iðnmálastofnun. Svo fór hann að kenna í Verzló og síðar við HÍ. Hann starfaði einnig hjá Stjórnunarfélagi Íslands, Bréfaskóla SÍS og Tækniskólanum. Þá kenndi hann við Bankamannaskólann og var skólastjóri hans í áratug.

Margir kölluðu eftir sérfræðiþekkingu hans, m.a. Seðlabankinn, Tryggingastofnun og Þjónustumiðstöð bókasafna. Þá var hann prófdómari og eftirsóttur fyrirlesari. Og þar sem Þorsteinn var dugmikill og skilvís verkmaður var sóst eftir störfum hans í ýmsum félögum og var m.a. í stjórnum Hagfræðingafélagsins, Félags verslunarkennara, Giktafélags Íslands og Grikklandsvinafélagsins. Þá stundaði Þorsteinn ritstörf og gaf út bækur á kennslusviðum sínum. Öll þessi störf og verk bera vitni elju og áhuga hans.

Maríumenn og ferðirnar

Svo var hann ferðamaður og ferðagarpur. Þorsteinn hafði brennandi áhuga á löndum og lýðum og sóttist eftir að vera með fólki sem horfði í kringum sig til að skoða heim og mannlíf. Meðal þeirra voru Maríumenn, ferðahópur ungra karla, sem líklega fékk nafn úr kvæði eftir Sigurð Þórarinsson, sem hin eldri þekkja og hafa sungið hástöfum í rútuferðum og tjaldútilegum. Maríumenn voru einu sinni á ferð í Mosfellssveit og komu þar að sumarbústað Sambands Íslenskra Samvinnufélaga. Þeir vissu ekki að þar voru fyrir ungar dömur sem höfðu fengið bústaðinn lánaðan. Hlutverkunum var snúið við. Þeir báðu Maríurnar ekki að koma inn heldur leyfðu þær þessum kurteisu sveinum að vera. Í bústaðnum á Reykjum var Þórdís Þorgeirsdóttir. Hún sá festuna í ferðagarpinum og að hann væri traustsins verður. Hann horfði á hana og hún á hann – og svo skoðuðu þau göngulagið, ferðataktinn og allt gekk upp. Þau gengu í hjónaband hér í Neskirkju þann 23. október 1961.

20100526-222838Þau voru ekki eins en þau urðu eitt og áttu í hinu sálufélaga. Þorsteinn var ekki allra, en treysti konu sinni fullkomlega og saman hafa þau átt ferðafélaga til lífs. Þeirra ástar- og hjúskaparsaga var góð. Og það var ekki sjálfgefið að Þorsteinn gæti farið frá heimili og börnum í allar utanlandsferðirnar sem hann stýrði. Líklega voru þær á annað hundrað og samtals nokkur ár að lengd. En Þórdís stóð með sínum manni í öllum verkum hans og áhugamálum. Og hún styrkti hann, studdi hann og í henni átti hann stoð – líka í veikindunum – og til hinstu stundar. Lof sé henni.

Svo komu börnin, Þórrún Sigríður, Þórný Ásta og Þórður Geir.

20160406-210116Þórrún Sigríður fæddist í febrúar 1962. Hún er kennari og maður hennar er Reynir Sigurðsson. Börn þeirra eru Þórdís, Helga María, og Reynir Tómas.

Þórný Ásta kom í heiminn í september 1966 og hún á soninn Sólmund Erni.

Þórður Geir fæddist í maí 1969. Hann er rannsóknarlögreglumaður og kona hans er Ana Martha Helena. Þau eiga Klöru Maríu Helenu og í fyrra hjónabandi átti Þórður með Björgu Loftsdóttur soninn Þorstein Mána. Allt þetta fólk átti sér miðstöð á Víðimel 65. Þar gerðu þau Þorsteinn og Þórdís afar smekklegt og fallegt heimili. Og Þorsteinn átti grunntraust í konu sinni og festu í heimili sínu. Og afkomendurnir nutu ríkulega.

Þorsteinn var barngóður, miðlaði fúslega fróðleik sínum til síns fólks, hafði áhuga á viðfangi og verkum barna og afkomenda sinna, fylgdist eins vel með og hann gat, var þeim skjól og gladdist þegar hann gat gert þeim gagn og greiða. Og hann gekk jafnvel úr rúmi til að tryggja afabarni gott skjól.

20160423-181453Fararstjórinn

Og svo voru það allar ferðirnar. Þorsteinn bar í sér forvitni um lífið. Hann fór um veröldina til að skoða, skilgreina og fræðast um líf, menningu, stjórnunarhætti, músík, stríð, uppbyggingu, niðurrif, allt þetta sem gerir sögu manna svo dapurlega en líka hrífandi. Fræðarinn, kennarinn, sem allir báru virðingu fyrir, naut sín líka í ferðum heimsins. Þorsteinn hóf fararstjórn sína um miðjan sjöunda áratuginn. Svo varð til ferðafélagið Garðabakki, sem var eiginlega flétta úr Garðabæ og Eyrarbakka – með stefnu á útlönd. Það er merkilegt að skoða bókahyllurnar á skrifstofu Þorsteins. Þar er risa-ferðabókasafn. Hann undirbjó ferðirnar vel, las allt sem hann náði í, varð afburðafróður um lönd, landshagi, sögu og samtíð. Og sérfræðingur á mörgum sviðum og m.a. á margslunginni sögu Rómverja og síðari alda Evrópusögu. Þorsteini lánaðist að flétta fræði sín og hugðarefni saman og gat sem hægast – hvar sem hann fór – tengt mannlíf við verslun, sem varð honum hjálp við að setja upp vef þeirrar menningar sem hann sótti heim og fræddi íslenska ferðalanga um. Í ferðum var Þorsteinn allt í senn fararstjóri, leiðsögumaður, kennari en líka nemandi. Hann hafði í sér vaxtargetuna.  Löndin sem Þorsteinn sótti heim um dagana voru fleiri en löndin sem hann hafði ekki komið til. Og það er gríðarlega stór hópur fólks sem hefur notið leiðsagnar hans, þjónustu, umhyggju og fræðslu. Með Þorsteini er horfinn einn öflugasti ferðafrömuður Íslendinga á síðustu áratugum.

20091030_999_51Nú er Þorsteinn farinn hinstu ferð inn í himininn. Hvernig manstu hann? Manstu fróðleiksgetu hans og kennsluhæfni? Manstu Þorstein með hljóðnemann í rútu? Vissir þú að þegar hann var á ferð með hópa erlendis fór hann oft á fætur fyrir dagrenningu til að skoða gönguleiðir og velja þær sem best hentuðu hóp og aðstæður? Og svo í dagslok settist hann yfir bækurnar til að undirbúa næsta dag.

Hvaða minningar spretta fram í huga þér um Þorstein? Hann var umtalsfrómur, talaði vel um aðra, orðvar, bar virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. Þorsteinn var æðrulaus, jafnlyndur, geðgóður, skapstilltur, umburðarlyndur og stefnufastur. Manstu einlægni hans og heillyndi?

Hann mat tónlist og svo var hann matgæðingur. Manstu hljóðláta glettnina? Manstu hve góða nærveru hann hafði? Honum þótti miður að fólk bölvaði og ragnaði. Hann vildi fremur efla fólk með tali en hafa illt fyrir því.

Hvað hreif þig mest í fari hans? Manstu hve fróðleiksfús hann var? Manstu kvikmyndaáhugamanninn Þorstein? Manstu leiðtogahæfni hans ogótrúlega þekkingu hans, hvort sem var á verslunarháttum Íslendinga til forna eða á nýrri tíð, stríðssögu Evrópu eða Kaupmannahafnarsögu?

20100703_999_41Og nú er þessi pílagrímur menningarinnar farinn. Hann ræðir ekki lengur verslunarhætti í fornöld, mál véfréttar í Delfí, fer ekki framar á tónleika með Kristni Sigmundssyni eða gælir við barnabörnin sín. Nú er það eilífðin. Hann er farinn á undan ykkur – og gott ef ekki til að skipuleggja eilífðarreisur. Við þekkjum ekki eilífðarlandið – en Þorsteinn hvarf inn í páskaljóma lífsins og upprisunnar. Páskar eru stóra ferðasagan um að Guð opnar lendur lífsins í eilífðinni. Dauðinn dó og lífið lifir. Góð ferðaskrifstofa það sem býður slíkar ferðir. Þorsteinn Magnússon er í þeim félagsskap – Garðabakka eilífðar Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, í Colorado í Bandaríkjunum biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag heldur getið þið gengið fram í lok athafnar og signt yfir kistuna hans Þorsteins. Skipulagið verður að þið gangið fram kirkjuna með veggjum og þegar þið komið að kistunni kveðjið þið og gangið síðan fram og út miðgang kirkjunnar. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsetning duftkers verður síðar og jarðsett í Sóllandi.

Minningarorð í útför Þorsteins Magnússonar, sem gerð var frá Neskirkju, 8. apríl, 2016, kl. 13.

Stefán Karlsson – handritafræðingur

Stefán var í París. Hvað gerir maður í þeirri borg? Jú, aðalskoðunarefni hans var ekki turn, Frúarkirkja eða latínuhverfi heldur skinnhandrit! Hjarta Stefáns tók kipp, hann sá kunnuglega hönd. Atburðarásin varð eins og í byrjun einhverrar DaVincískrar spennusögu. Leitin að höfundinum var hafin, tímasetning væri kannski möguleg og dökk bók á safni í París myndi kannski eignast ritara, frændgarð og ríkulega framtíð. Stefán hringdi heim í samstarfsmann sinn, nú skyldi farið í skrifborðið hans, miðskúffuna hægra megin. Kíkja þyfti í kompu, þessa með brúnu teygjunni! Þar væru dæmi, sem hann hafði skrifað upp, lyklar, sem gætu rofið innsigli tímans, tengt fortíð og framtíð, birt þræði milli Parísar nútímans og miðalda Íslands. Stefán var að opna rit, birta og nefna höfund.

Biblia og rit

Í síðustu bók Biblíunnar, þeirri litríku Opinberunarbók Jóhannesar segir: “Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft. og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það, sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður át meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður var svo heillaður af orðkyngi, að hann byrjaði guðspjall sitt með íhugun um orð, reyndar Orðið, sem veruleika lífsins. Við upphaf veraldar voru engin ónytjuorð, heldur máttarorð. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins. Guð sagði og það varð sem sagt var, poesis heimsins, gjörningur sköpunar. Við enda Ritningarinnar er bóknálgun til íhugunar. Í forsæti himins er innsiglað rit, sem á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers? Hvað verður opinbert?

Uppruni og ættmenni

Stefán Karlsson fæddist á Belgsá í Fnjóskadal 2. desember árið 1928 og lést í Kaupmannahöfn 2. maí síðastliðinn, 77 ára að aldri. Foreldrar hans voru Jónasína Soffía Sigurðardóttir og Karl Kristjánsson, bændur á Belgsá. Þegar Stefán var aðeins fimm mánaða gamall fórst Karl í snjóflóði. Móðirin brá búi og flutti til systkina sinna og móður á Akureyri. Í fjölskylduhúsi við Oddeyrargötu bjuggu þau síðan saman eins og stórfjölskylda í sveit. Reyndar sváfu þau ekki í baðstofu, en karlarnir sváfu samt saman í herbergi og konurnar í öðru. Jónasína og sonur hennar fengu þó skonsu fyrir sig. Stefán var eina barnið á heimilinu og naut ríkulegrar athygli og elsku margra. Hann lærði strax í bernsku að best gekk þegar konurnar, stúlkurnar, voru vinir hans. Alla tíð var hann elskulegur og því elskaður.

Móðurbróðir hans giftist ekki fyrr en á miðjum aldri og Stefán átti því tvo karlhauka í horni þrátt fyrir föðurmissinn. Félagslífið heima var ríkulegt, vinafólk fjölskyldunnar kom í heimsókn. Flest voru einhleyp svo Stefán hafði lítil kynni af hvernig hjónalíf væri iðkað. En sögur og fortíð helltust yfir hann. Auðvitað varð Stefán kotroskinn í þessum sérstæða hópi fullorðinna. Hann fékk að vera barnið, en skyn hans var teygt inn í fortíðina. Kannski er í þessu að leita skýring á, hvers vegna Stefán varð tvenna æsku og alda, síungur en þó forn.

Skólar og vinna

Stefán sótti skólana á Akureyri, var afburða námsmaður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948 og hóf síðan nám í Kaupmannahöfn. Meðfram námi stundaði hann kennslu í viðbót við mælingavinnu á hálendinu og önnur störf. Stefán var stundakennari við sinn gamla menntaskóla einn vetur. Annan vetur kenndi hann í Samvinuskólanum. Hann var starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, fyrst lausráðinn árið 1957, frá 1962 sérfræðingur og bjó og starfaði í Höfn til 1970. Hann lauk magistersnámi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1961.

Stefáni leið vel í Kaupmannahöfn. Aðstæður til starfa voru góðar, menningarlífið var örvandi, stúdentapólitík varð æ meira spennandi, Jón Helgason og kollegar í fræðunum góðir. Stefán lagði sín þugnu lóð á vogarskálar í slagnum um handritin og var afar þarfur. Hann hefði eflaust getað hreiðrað um sig ytra, en Ísland átti sína króka og stafkróka. Stefán varð sérfræðingur og fræðimaður við Handritastofnun Íslands, sem síðar varð Stofnun Árna Magnússonar, árið 1970 og hélt þeirri stöðu til 1994 þegar hann tók við af Jónasi Kristjánssyni, sem forstöðumaður stofnunarinnar og prófessor við heimspekideild. Þeirri stöðu gegndi Stefán til ársins 1998 er hann hætti fyrir aldurs sakir. En grúskinu hélt hann áfram með dugnaði til lokadags.

Fræðimaðurinn

Stefán var víðfeðmur, þolinmóður og nákvæmur fræðimaður. Hann las hendur afar vel, var skarpskygn, sá smáatriði og sérkenni höfunda og varð eins og Indiana Jones í grafhýsi höfundarlausra handrita. Stefán náði oft að gefa slitrum og ritum nýtt líf, stundum nýtt samhengi, upplýsa skrifara og tímasetja með vissu. Það er dálítið guðlegt hlutverk. Þegar skoðaðar eru aldursgreiningar norrænna handrita, sem gerðar hafa verið síðustu áratugina kemur í ljós að nafn Stefáns Karlssonar kemur oft við sögu. Hann var meistari.

Stefán skrifaði mikið alla tíð um málsögu, íslensk handrit og texta. Hann gaf út mikilægt safn fornbréfa, fornskjala, frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, eða til 1450. Hann var m.a. sérfræðingur í biskupasögum og vann á síðari árum að sögum hins sæla Guðmundar góða Arasonar.

Hin ábúðarmikla ritaskrá Stefáns Karlssonar verður ekki þulin hér. En fyrir hönd íslenskrar kristni skal Stefáni að leiðarlokum þökkuð elja hans við að greina og skýra hina kristnu hefð. Ritgerðir hans um málfar trúar og Biblíu eru merkar og ýmsar smáritgerðir hans ekki aðeins faglega góðar, heldur líka líflegar og kætandi. Mörgum hefur Stefán hjálpað og m.a. orðið okkur klerkum til skilnings. Það er ekki lengra en tveir mánuðir síðan að ég var að vinna að prédikun um skírn og vildi tengja við verndun vatns. Mig rámaði í miðaldatengingu á Jesúskírn og vatnshelgun veraldar en mundi ekki hvar ég hefði lesið. Margrét Eggertsdóttir upplýsti svo, að Stefán hefði auðvitað líka skrifað um þetta efni.[i] Svo rataði vísdómur Stefáns í prédikun á sunndegi í föstuinngangi.

Stefáni var ekki sama um gildi og því skrifaði hann um merkileg mál, sem tengjast lífinu. Hann hefur framselt í hendur okkar verkfæri, sem varða ekki aðeins heim fræða heldur líka hvernig við eigum að axla ábyrgð, líka gagnvart náttúru.

Stefán var gerður að heiðursdoktor bæði við Háskóla Íslands og  Kaupmannahafnarháskóla. Mat hann þann sóma mikils. Margir aðrir vildu heiðra hann og sæma orðum og medalíum, en Stefán endursendi orðurnar en með elskulegum skýringabréfum. Yfirdrepsskapur var honum fjarri og prjál sömuleiðis.

Hjúskapur og afkomendur

Stefán kvæntist Helgu Ólafsdóttur árið 1958. Í Helgu eignaðist hann vin og félaga. Hún tengdi hann við tímann og uppfærði m.a. stúdentinn í honum. Þrátt fyrir að hann væri fertugur varð hann sem tvítugur í stúdentavorinu upp úr ‘68. Þau Helga voru samstiga í að leyfa rauðsokkunum að dansa fyrstu sporin í kjallaranum á Ásvallagötunni. Sokkarnir tipluðu upp stigana, enda bæði jafnréttissinnar.

Stefán og Helga eignuðust dótturina Steinunni. Leiðir þeirra Helgu greindust í sundur og þau skildu eftir tveggja áratuga hjónaband. Stefán var Steinu sinni natinn faðir. Hann hefur líklega verið óvenjulegur karl af sinni kynslóð því hann vaknaði til dótur sinnar á nóttunni til að gefa henni þegar hún var á pelaaldri. Auðvitað las hann fyrir hana, burstaði tennur í smáskrikjandi stúlku og eldaði fyrir hana þegar hún var á skólaaldri.

Stefáni var umhugað um hag dóttur sinnar, sóttist eftir að vera með henni, fagnaði tengdasonunum, Tryggva Þórhallssyni og síðar Arthuri Morthens. Hann tók á móti dótturdætrum sínum opnum örmum og huga, þeim Helgu, Önnu og Höllu, hýsti þær, þegar þess þurfti með, kenndi þeim þegar þær vildu, fór með þær í álfaferðir í land sitt og skóg í Fnjóskadal, skemmti sér við sögur þeirra og kætti þær með gríni og gleðiefnum.

Afaelska Stefáns var þó ekki markalaus. Þegar innrásin í Írak hófst bjuggu stelpurnar hjá honum. Hann keypti fyrir þær það,  sem þær vildu. Þegar bomburnar sprungu í Bagdad var Stefáni nóg boðið og hætti að kaupa kók fyrir þær. Það voru skilaboð, sem hann sendi Bush, en kannski ekki síður þeim. Það skiptir máli hvað maður er og hvernig í veröldinni. Stelpurnar urðu bara þaðan í frá að sætta sig við Egils-appelsínulímonaði.

Nú er brosið hans afa stirnað og fræðasjór þeirra er farinn. Þær sjá á bak afa sem var margt; ungæðingslegur vitringur, íhaldsamur byltingamaður, jólasveinn á jólum, skógarmaður á sumrum, heimsborgari í Höfn og alltaf sjarmör.

Veitull höfðingi

Vegna skapfestu og persónueiginda var Stefán gjarnan kjörinn til stjórnunartarfa í þeim félögum, sem hann sinnti, á Akureyri, í Kaupmannahöfn, í fræðafélögum og líka á vettvangi menningarmála og stjórnmála.

Stefán var mannblendinn og veitull höfðingi. Réttlætiskenndin í brjósti hans var rík og hann hafði góða vitund um ábyrgð sína sem borgara. Hann tók fús þátt í umræðum um þjóðmál. Sósíalistinn mótmælti með elskulegum hætti, þegar honum þótti mikilvægan málstað að verja eða brjóta yrði réttlætinu leið.

Þrátt fyrir annir veik hann sér aldrei undan ef einhver þarfnaðist hans, ef fræðaráða væri þörf, ef einhver var óviss um lestur, ef spurt var um hvar heimilda væri helst að leita eða hvaða þræði væri vert að rekja. Ef Stefáni þótti einhver fara villur vega í fræðum skaut hann vísifingri og löngutöng undir gagnauga, renndi augum upp og andmælti hógværðarlega: “Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt.” Svo nuddaði hann dósirnar sínar, kom með betri skýringu og var að lokum komin inn úr dósunum.

Ef erlenda gesti skorti húsaskjól eða skapa þurfti huggulegan fagnað var gestgjafinn Stefán tilbúinn. Mörgum bauð Stefán heim um dagana, margir komu í tjaldið hans í Þórðarstaðaskógi og fengu bjór úr læk. Mörgum kenndi hann fræðin bæði í Kaupmannahöfn og síðan á Íslandi, var natinn og gjafmildur kennari.

Stefán hleypti fjöri í samkomur, ef ekki vildi betur þá lagði Stefán til að dansaður yrði færeyskur hringdans, sem hann stjórnaði svo sjálfur. Stefán var elskaður velgerðarmaður og mentor margra, sem voru honum samstiga fræðum og félögum. Því staldrar fólk við í dag, um víða veröld, til að þakka og votta Stefáni virðingu sína. 

Lífsbókin

“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” Hvað er lífið? Hvað fer leynt, hvað er opinbert? Stefán sótti inn í hin innsigluðu vé til að efla þekkingu. Hann sótti í lífsgleðina og sótti lífsmátt. Hann sótti í mannfélag og vildi réttlæti. Hann var hreinskiptin en jafnframt á dýptina og varð aldrei algerlega séður. Hann var skemmtilegur og kúnstugur, en svo var þó eitthvað meira. Stefán var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð.

Hverju skiluðu rannsóknarferðirnar og bækurnar Stefáni? Visku og innsýn. Hann var vökumaður fræða, þjóðar, réttlætis, menningarlegrar reisnar og einstaklinga. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum handritum og bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Hver er maklegur að opna? Er lífi Stefáns með öllu lokið eða er það við nýtt undursamlegt upphaf, – nýtt afrit, lýst og skreytt framar öllu því sem þetta líf getur leyft okkur að skygnast inn í? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings vegna þess að sá, sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verðugur opnað hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem allir höfundar finnast, párið raðast upp í himneskt kerfi, þar sem réttlæti og bræðralag ríkir og líka á rauðum sokkkum, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.

Nýtt líf

Fyrir skömmu hringdi sölukona tímaritafyrirtækis í Stefán og vildi selja honum áskrift að einhverju áhugaverðu tímariti. Nei, hann hafði ekki áhuga á Gestgjafanum þótt hann væri gestrisinn kokkur. Nei, glanstímaritin vöktu enn síður áhuga hans. Svona til að ljúka samtalinu sagði Stefán stúlkunni góðlátlega, að hann væri nú þannig innréttaður, að hann læsi helst ekkert sem væri yngra en frá árinu 1500! Hann hélt, að þá væri málið afgreitt. En stúlkan sá við honum og sagði hjartanlega: “Ja, hérna, er ekki kominn tími til að þú gerist áskrifandi að Nýju lífi”? Þetta þótti Stefáni fyndið og hló þegar hann sagði söguna.

Lífsbók Stefáns er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap páska, að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, færir til betri vegar, er sjálfur stephanos, sigursveigur lífsins, nýtt líf.

Snillingur, sem með stafkrók tengir saman skinnbók í París, rit í Höfn og Reykjavík getur skilið þörf fyrir höfund að baki náttúrubókinni, höfund að baki réttlætissókn mannabarna, hlýju að baki elskudrama biblíusafnsins.

Pár veraldarinnar, lífsins, er stórkostlegt. Kristnir menn trúa, að höfundurinn heiti Guð og hafi komið fram, birst, í honum, sem skrifaði í sand og gekk síðar fram úr grjótinu. Þá var innsiglið rofið og bókin opnuð. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Góður Guð blessi minningu öflugs rannsóknarmanns, ljósmóður höfunda, liðsmanns lífsins – og gefi dóttur, barnabörnum, afkomendum og ástvinum líkn í sorg – og okkur öllum mátt til að sækjast eftir sveig sem er til lífs. Amen.

Bálför. Jarðsett í Illugastaðakirkjugarði í Fnjóskadal. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð flutt 4. maí 2006. 

[i] Stefán Karlsson, “Greftrun Auðar djúpúðgu” sem birtist í afmælisriti til Kristjáns Eldjárns Minjar og mennti , 1976, 481-88.