Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+ Bjarni Bragi Jónsson +

Bjarni Bragi fór inn í Greyhound-rútu í Kaliforníu, bauð góðan daginn og kom sér vel fyrir. Svo hófst ferðin og Íslendingurinn hreifst svo af öllu sem skynfærin færðu til heilans að hann stóð á fætur og byrjaði að syngja. Og allir í rútunni heyrðu og einn kallaði: „Hey, listen to the tenor.“ Þetta er heillandi mynd. Gestakennarinn í Pomona-College svo snortinn af undri veraldar að hann söng. Og þannig þekkjum við mörg Bjarna Braga Jónsson, hæfileikamann, tilfinningaríkan snilling sem hló, orðaði viðburði lífsins, túlkaði en stundum þurfti hann bara að syngja. Og börnunum hans þótti þetta ekki smart þegar þau voru yngri. Einu sinni barst söngur Bjarna Braga í sumarblíðunni um austurhlíðar Kópavogs. Og krakkarnir hættu leik og sperrtu eyru: „Er þetta pabbi þinn?“ Svörin komu seint og ógreinilega. Og svo þegar hagfræðingur Seðlabankans kom inn í strætó á leið í vinnuna bauð hann auðvitað góðan daginn. En börnum hans þótti tryggara að fara á afasta bekkinn og hafa hægt um sig því fyrr en varði hafði Bjarna Braga lánast að hleypa farþegunum í umræðu um stórviðburði í pólitíkinni. Og ef tilfinningin var rétt breyttist strætó á leið úr Kópavogi niður í bæ í ómhöll á hjólum. Tilfinningar kalla á söng. Og Bjarni Bragi var þeirrar gerðar að hann leyfði tilfinningum heimsins að hríslast um sig. Og við sem kynntumst honum þökkum litríki hans, gáfur, afrek, húmorinn, snilld, djúpsækni, þor og elskusemi. Í öllu var hann stór – var hástigssækinn – eins og hann orðaði það sjálfur.

Upphafið

Bjarni Bragi Jónsson var sumardrengur, fæddist á Kárastíg 8. júlí 1928 og hefði því orðið níræður sl. sunnudag. Foreldrar hans voru Jón Hallvarðsson, síðar sýslumaður í Stykkishólmi og hæstaréttarlögmaður, og Ólöf Bjarnadóttir, húsmóðir og síðar iðnverkakona í Reykjavík. Bjarni Bragi var næst-elstur systkina sinna. Baldur var tæplega tveimur árum eldri. Sigríður fæddist árið 1931 en Svava 1932. Nú eru þau öll látin.

Í óbirtri ævisögu Bjarna Braga segir fjörlega frá litríkum uppvexti við Skólavörðuholtið, flutningi til Vestmannaeyja og síðan í Stykkishólm. Lögfræðingurinn, faðir hans, var yfirvaldið í Eyjum og síðan sýslumaður í Hólminum. Hvernig skólast manneskjan? Hvað mótar okkur? Í þessum minningum dregur hann saman hvernig hann mótaðist af umhverfi, mikilli ættarsögu, glímunni við aðstæður og einstaklinga og breytingar. Það þarf ekki að lesa lengi eða langt til að sjá að áhugasvið Bjarna Braga var víðfeðmt. Han skrifaði merkilegan texta um eðli minninga, sem sýnir sálfræðifærni hans. Svo eru þessi skrif um mannlíf á Skólavörðuholti, í Eyjum og Stykkishólmi svo ríkuleg að aðeins þeirra vegna er ástæða til að gefa út. En það sem hreif mig mest er hve ærlegur og afslappaður – í hispursleysi sínu – Bjarni Bragi var í söguritun sinni. Hann skrifaði óhikað um lesti sína sem kosti og um vonbrigði eins og sigrana. Og gæfu fjölskyldunnar lýsti hann jafn vel og að peningar tolldu ekki við föður hans. Þannig sögur eru betri en fegrunarsögur og söguritarinn nýtur virðingar fyrir þroskaða túlkun og heilindi.

Bjarni Bragi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1947. Hann var alla tíð mikill og öflugur námsmaður en mér kom á óvart að hann hafði skipt um deild í MR, fór úr máladeild í stærfræðideild. Það sýnir þor hans, mörg áhugasvið sem kölluðu og löngun til fjölfræða. Svo var hann alla tíð félagslega opinn og virkur. Og hann var inspector scholaeí MR, sem er æðsta virðingarstaða nemenda í skólanum. Síðan hófst viðburðaríkur náms- og vinnuferill heima og erlendis. Bjarni Bragi lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ árið 1950, stundaði framhaldsnám við Háskólann í Cambridge í Englandi árin 1957-59. Og hann fór í lengri og skemmri náms- og kynnisferðir til ýmissa alþjóðlegra hagstofnana. Bjarni Bragi var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS og síðan í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands. Hann var í fimm ár ritstjóri tímaritsins Úr þjóðarbúskapnum, síðan ráðgjafi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, deildarstjóri og síðan forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hagfræðingur Seðlabanka Íslands, aðstoðarbankastjóri og síðast hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnarinnar þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1998. Þá var Bjarni Bragi stundakennari í mörg ár við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Og svo söng Bjarni Bragi ameríska söngva í Greyhound-rútunni þegar hann var gistiprófessor við Pomona College í Bandaríkjunum árið 1964.

Bjarni Bragi skrifaði fyrr og síðar mikið um efnahagsmál og farsæla stjórn þeirra. Þegar árið 1962 fór hann að ræða um að besta leiðin til að stýra íslenskum fiskveiðum væri að koma á auðlindagjaldi. Það myndi hafa gæfulegar efnahagslegar afleiðingar og stuðla að heilbrigði atvinnulífs. Árið 1975 hélt hann frægt erindi um auðlindaskatt, iðnþróun og efnahagslega framtíð Íslands og Seðlabankinn gaf út bæði á íslensku og dönsku.[i] Í baksýnisspeglinum virðist ljóst, að betur hefði tekist í fjársstjórn og fjármálum þjóðarinnar ef ráðum Bjarna Braga hefði verið fylgt.

Virkur í félagsmálum

Bjarni Bragi var alla tíð leiðtogi. Hann sló gjarnan í glas á mannfundum, hélt mergjaðar og túlkandi ræður. Svo var hann mjög klár uppistandari og rífandi skemmtilegur á mannfundum. Hann hreif fólk með sér og var því gjarnan kallaður til ábyrgðar og stjórnar. Á æskuárum var hann vinstrimaður og það er fyndið að lesa hans eigin frásögn um ákafa hans í málum heimsbyltingarinnar. Hann segist hafa safnað klisjum og verið vinsæll vestur á Snæfellsnesi og þmt við eldhúsborðin í sveitum landsins. Þar hafi hann slegið um sig. Einu sinni voru þeir Árni Pálsson, síðar prestur í Kópavogi, á frívaktinni í vegavinnunni. Bjarni Bragi var alla tíð vinnuþjarkur og þegar hann sleppti skóflunni settist hann inn í tjald með hvorki ómerkari bók en stjórnarskrá Sovétríkjanna og með formála Stalíns. Og þar sem hann sat og lærði þennan kommúníska jús greip galgopinn Árni bókina af borðinu og hljóp vel bússaður út í miðja á. Þar stóð hann, hélt bókinni yfir vatninu og hótaði að láta hana detta. Bjarni Bragi þaut á eftir honum og vélaði hann í land með köstum og orðum. En þó hann bjargaði bókinni og yrði formaður Æskulýðsfylkingarinnar tókst honum aldrei að verða eðlislægur marxisti heldur þorði að breyast og endurskoða gildi, fræði og líf. „Ég reyndi að sjóða … einhvern almennan hugsjónavelling …“ sagði hann. En Sovétbókin og fræðin flutu þó frá Bjarna Braga í flaumi tímans. Þegar hann fór að rýna í hagtölur og kynnist atvinnulífinu færðist hann frá vinstri bernskunnar til hægri fullorðinsáranna. Bjarni Bragi skipti algerlega yfir í pólík og var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann var mjög virkur félagslega alla ævi og jafnan í fremstu röð. Rotary-klúbburinn í Kópavogi naut löngum krafta hans. Hann var formaður Stofnunar Sigurðar Nordal á árunum 1993-99. Og Bjarni Bragi var syngjandi leiðtogi og mörgum eftirminnilegur þegar hann tróð upp og jafnvel tvistaði og söng „Þegar hnígur húm að Þorra.“ Svo söng hann í ýmsum kórum, m.a. Pólýfónkórnum í nær tuttugu ár og sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir kórinn. Bjarni Bragi söng svo sinn svanasöng í Hljómi – kór eldri borgara hér í Neskirkju. Þau hjón voru þar í góðum hópi. Það var gaman að vera á skrifstofunni í safnaðarheimilinu og hlusta á félaga Bjarna Braga – og þau hjónin líka – þenja raddirnar og kalla fram sálma lífsins.

Fjölskylda

Og þá er komið að Rósu og fjölskyldu. Þau voru hátt uppi þegar þau kynntust í Hvítárnesi á Kili. Bjarni Bragi efndi til hálendisferðar Æskulýðsfylkingarinnar og þar var Rósa Guðmundsdóttir með í för og systur hennar einnig. Rósa hefur alla tíð séð gullið í fólki og heillaðist af þessum káta og fjölfróða syngjandi formanni. Tilhugalífið var stutt og þau Bjarni Bragi og Rósa gengu í hjónaband árið 1948 þegar hann var 19 ára og hún 18. Þau voru því búin að vera hjón í 70 ár þegar Bjarni Bragi fór inn í ómhús eilífðar. Heimili þeirra Rósu og Bjarna Braga var hamingjuríkt. Þau stóðu alla tíð þétt saman, studdu hvort annað og virtu. Og það var hrífandi að sjá hve hrifinn Bjarni Bragi var af Rósu sinni, sem endurgalt tilfinningar hans og gætti hans og styrkti allt til enda.

Barnalán þeirra Bjarna Braga og Rósu

Þau Rósa nutu nutu barnláns. Jón Bragi var elstur, fæddist árið 1948. Hann var frumkvöðull eins og hans fólk, var ekki aðeins afburða kennari í efnafræði, prófessor við Háskola Íslands heldur höfum við mörg notið hugvits hans í notkun þorskafurða í smyrslum frá Pensími, sem hann stofnaði. Bjarni Bragi minnti son sinn gjarnan á að móðir hans hafi verið hans fremsti stuðnings- og sölu-aðili í upphafi. Fyrri kona Jóns Braga var Guðrún Stefánsdóttir og seinni kona hans var Ágústa Guðmundsdóttir. Jón Bragi varð bráðkvaddur árið 2011. Þeir feðgar og nafnar voru nánir, báðir fjölfræðingar og skoðuðu flest mál sjálfstætt. „Ef ég þarf eitthvað get ég alltaf leitað til pabba“ sagði Jón Bragi.

Olöf Erla, fæddist árið 1954. Hún er keramikhönnuður og kennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hennar maður er Sigurður Axel Benediktsson. Bjarni Bragi var stoltur af listfengi dóttur sinnar og fagnaði vegtyllum hennar heima og erlendis. Hann kynnti hreykinn dóttur sína með þeim orðum, að hún væri heimsfrægur keramiker og meistari í listfræði. Hann hafði ekki aðeins gleði af samskiptum við hana, heldur virti verk hennar og studdi hana.

Gumundur Jens er yngstur þeirra systkina, fæddist árið 1955. Hann er lyfjafræðingur. Kona hans er Ásta Hrönn Stefánsdóttir. Hann var giftur Guðrúnu Steinarsdóttir en þau skildu. Síðar bjó hann með Vigdísi Sigurbjörnsdóttir sem féll frá árið 2012. Þegar Guðmundur vitjaði Bjarna Braga á sjúkrastofnun kynnti hann nærstöddum son sinn svo, að Guðmundur spilaði á öll hljóðfæri og syngi allar raddir! Það þótti söngvaranum, pabbanum, stórkostlegt og aðdáunarvert.

Börn þeirra Rósu og Bjarna Braga fóru í æsku með þeim um heiminn, voru með þeim í Cambridge, París og Oslo og eitt þeirra í Kaliforíu. Þau nutu útsýnar og glímdu við fjölbreytilegar aðstæður í skólum, menningu, pólitík, félagsefnum og fjölskyldu. Og svo var Bjarni Bragi alltaf opinn og til í að miðla. Hann var góður, ögrandi kennari og vænti þess að ungviðið reyndi á sig. Hann gaf þeim mikla forgjöf í skák þeegar þau voru að byrja, jafnvel helming leikmanna sinna. En hann vænti þess að þau gerðu sitt besta og kættist þegar hann fann í þeim sóknarhug. Og í Bjarna Braga áttu þau og barnabörnin alltaf keppnismann sem hægt var að virkja. Hann vildi blása þeim hástigssókn í brjóst.

Heimilislífið var glaðvært. Bjarni Bragi studdi Rósu í námi og störfum og mat mikils kennslustörf hennar. En hann gætti þess vel að greina að trúnaðarmál í bankanum og heimalífið. Þegar gengisfellingar dundu reglulega yfir íslenskt samfélag spurði Rósa hann einhvern tíma af hverju í ósköpunum hann hefði ekki sagt frá að fella ætti gengið. Það hefði nú verið hentugt að geta keypt eldavél eða búshluti. Þá hló Bjarni Bragi hjartanlega og sagði að það mætti hann ekki. Og þannig var hann gagnvart fólkinu sínu, vinnunni og veröldinni – heiðarlegur, ábyrgur og siðlegur. Á heimili Bjarna Braga var ekki hægt að merkja yfirvofandi gengisfellingu.

Við tímamót hef ég verið beðinn að bera ykkur kveðju Bjarna Braga Jónssonar yngri og Hólmfríðar unnustu hans. Þau eru í Sviss og geta ekki verið við þessa athöfn í dag. Ennfremur biðja Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir fyrir kveðjur.

Minningar

Hvernig manstu Bjarna Braga Jónsson. Manstu hve skemmtilegur hann var? Oft fyndinn en alltaf hnyttinn! Djarfur ræðumaður. Manstu vinsemd hans og glettnina, áhugann og duginn? Manstu hve góður hagfæðingur hann var? Manstu einbeitni hans, að hann gat lesið námsbók um leið og hann var á kafi í barnableyjum. Manstu íslenskuhæfni hans? Svo var hann konungur minningagreinanna. Vissir þú að að Bjarni Bragi magnaði alla ungu hagfræðingana þar sem hann var, umgekkst þá sem jafningja og hvatti til dáða. Hann var ekki aðeins veitull í fræðasamhenginu heldur líka sem kollegi. Manstu ættfræðiáhuga Bjarna Braga og víðfeðma og langsækna þekkingu á tengslum og ættum. Og hann var ekki lengi að rekja saman ættir og ekki höfðu við fyrr kynnst á sínum tíma en hann var búinn að tengja. Manstu hve vel Bjarni Bragi var að sér í tónlist og hvernig músíkin liðaðist í öll fræði og kryddaði allt líf? Hann söng Schubert í Vín og ameríska og jafnvel skoska slagara í Kaliforníurútu. Manstu fræðafang hans, hve vítt það var? Mér þótti skemmtilegt að tala við Bjarna Braga um guðfræði. Hann var gagnrýninn trúmaður og við vorum hjartanlega sammála um bókstafshyggju og trúarlega grunnfærni. Hann var vel lesinn og lagði sig eftir helstu straumum og stefnum í guðfræði rétt eins og öðrum greinum. Og á fyrri parti ævinnar velti hann vöngum yfir hvort hann hefði átt að verða við hvatningu sr. Jakobs Jónssonar í Hallgrímskirkju um að læra til prests því þjóðin þyrfti besta fólkið í prestastétt. Svo var Bjarni Bragi sinn eiginn lögfræðingur, hann kunni að leita að og lesa lagatexta. Manstu hve reglusamur hann var? Sástu einhvern tíma fjölskyldumyndabækurnar og hve vel þær voru gerðar og í þær raðað? Manstu hagyrðinginn Bjarna Braga og orkti hann jafnvel um þig? Hann ljóðaði jafnvel til dóttur sinnar einu sinni í útför og bað um að hún gerði duftkerið hans. Og þessa vel sniðluðu bón má sjá aftan á sálmaskránni. Og við henni verður orðið. Austfirska smáblómið við hlið vísunnar er verk Rósu. Manstu hve opinn og spurull Bjarni Bragi var? Spurði hann þig einhvern tíma hvernig gengi í ástalífinu? Stundum setti hann fílterarna til hliðar til að tala sem beinast og greiðast! Og manstu hestamanninn á Seljum á Mýrum? Manstu vininn Bjarna Braga og hve vel Rósa og hann ræktuðu vini sína?

Og nú er hann farinn – til fundar við Jón Braga, systkini, foreldra og ástvini. Bjarni Bragi var stórkostlegur. Var hann gáfaðasti maður Íslands eins og einn samferðamanna sagði um hann? Það er mikil samkeppni um sigur í þeirri keppni. En Bjarni Bragi var í landsliðinu. Nú er söngurinn hans er hljóðnaður í tíma en ómar í eilífð. Þökk sé honum – fyrir kærleika hans, verk, hugsjónir, fólkið hans. Þökk sé fyrir hagfræðina, kátínuna, dans, ræður, kímni, – Já þökk fyrir Bjarna Braga Jónsson. Guð geymi hann í sönghúsinu, þar sem allt gengur upp, ekki þarf að greiða leigu fyrir kvóta og allt er í hástigi. Þar er bara söngur.

Í Jesú nafni – amen.

Útför frá Neskirkju föstudaginn 13. júlí 2018. Bálför. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu.

[i]http://www.visir.is/g/2018180719712/minning-u

+ Haukur Bergsteinsson +

„80 ára og heldur uppá 1500 sjósund með því að synda sjósund við Nauthólsvík í Reykjavík.“ Þetta var yfirskriftin á fréttavef á vefnum fyrir einu og hálfu ári síðan. Haukur hafði að venju farið í Nauthólsvík, hitt félaga sína og vini. Svo fór hann í sjóinn og synti tvö hundruð metra. „Það er stórkostleg tilfinning“ sagði hann fréttamanninum og upplýsti að hann hefði byrjað sjósund vorið 2008. Hann hefði langað til að athuga hvort hann gæti farið í svo kaldan sjó og hefði byrjað á því að fara í sjóinn í eina mínútu. En svo hefði tíminn lengst og hann hefði farið að skrifa hjá sér þegar hann hefði farið í sjóinn og líka hvert hitastigið væri. Og svo var hann búinn að synda 1500 skipti þegar blaðamaðurinn ræddi við hann.[i]Já, Hauki fannst það dásamlegt tilfinning. Fjöldi Íslendinga og fólk um allan heim fer í kalt vatn, kaldan sjó, sér til heilsubótar.Og áður en yfir lauk hafði Haukur farið í sjóinn 1708 sinnum, fundið fyrir flæði adrenalínsins í líkamanum, fundið viðbrögðin, kuldan, en naut líka hinnar sterku upplifunar eftir sundið, þegar vellíðanin flæðir um æðar, vöðva, sinar og húð. Og samfélagið er glatt í lauginni.

Vatn fyrir lífið

Ylströndin og Nauthólsvík eru fyrir lífið og miðla lífsmætti og lífsnautn til notenda sinna. Og baðferðirnar eru til hressingar og gott samfélag verður í þeim hópi sem sækir í sjóinn. Og svo hefur verið um allar aldir að vatnið heillar, nærir, eflir, stælir og skapar tengsl og samfélag. Og vatn markar upphaf og endi. Meira segja Jesús Kristur sótti í vatn þegar hann byrjaði starfsferil sinn. Hann fór að ánni Jórdan. Jóhannes skírði hann og þar með hófst ferli eða vegferð sem hefur haft áhrif á heimsbyggðina síðan. Kristnum mönnum frumkirkjunnar þótti þessi vatnssókn Jesú merkileg og tóku mark á henni. Síðan eru skírnarlaugar í kirkjum heimsins. Við hliðina á kistunni hans Hauks er fagur skírnarfontur Leifs Breiðfjörð sem minnir á þessa vatnssókn kristinna manna um aldir. Og fontar kirknanna, líka þessarar kirkju, minna á að Guð nærir og elskar mennina, leyfir okkur að njóta vatnsins, gefur okkur vatn til að baða okkur í. Og við þiggjum lífið að gjöf frá Guði. Vatnið er ævarandi tákn um að við lifum, megum lifa, erum elskuð og getum elskað. Við erum lauguð, sækjum í laugun og svo megum við – þegar þar að kemur – njóta lífsins á Ylströnd eilífðar.

Upphafið

Haukur Bergsteinsson fæddist inn í vorið árið 1936. Hann fæddist 5. maí. Foreldar hans voru mikið dugnaðar- og afreksfólk. Móðir hans var Margrét Auðunsdóttir, verkakona og verkalýðsleiðtogi í Reykjavík. Faðirinn var Bergsteinn Kristjónsson, kennari á Laugarvatni. Bæði voru Sunnlendingar. Margrét var Skaftfellingur, frá Eystri-Dalbæ í Landbroti í Vestur Skaftafellssýslu. En Bergsteinn var Árnesingur, frá Útey við Laugarvatn. Þau Margrét og faðir Hauks bjuggu ekki saman og Haukur var eina barn Margrétar. Börn Bergsteins og yngri hálfsystkin Hauks eru eru: Sigríður, Hörður, Kristín, Áslaug og Ari.

Skóli, vinna, hjúskapur og dætur

Haukur sótti skóla í Austurbæjarskóla. Hann bjó í nágrenni Skólavörðuholtsins, við Barónsstíg og Bergþórugötu. Svo fylgdist með uppbyggingunni á Holtinu, líka hvernig sprengt var fyrir kirkjukjallaranum og síðan byggt. Hvernig herinn byggði í kapp við íbúana og tók yfir hluta Skólavörðuholtsins. Drengurinn óx til manns og þegar hann hafði aldur til fór hann í Iðnskólann hér á holtinu og lærði málmsteypu og vann við iðn sína um tíma. Haukur var alla tíð opinn og sótti í aukna menntun og reynslu. Og hann réð sig á norsk farskip og sigldi um öll heimsins höf og náði að skoða veröldina og kom í allar heimsálfur. Hann var kannski á undan sínum tíma því sum skipin sem hann var á voru farþegaskip og hann náði því að krúsa um heiminn. En þessar ferðir breyttu ekki aðeins heimssýn hans og afstöðu til veraldarinnar heldur einnig atvinnu því Haukur veiktist af berklum í Afríku. Hann kom heim og fór á Vífilsstaði sér til heilsubótar. Á hælinu kynntist hann fyrri konu sinni og eftir veruna þar breyttist atvinna hans. Haukur gekk að eiga Málfríði Steinsdóttir og eignaðist með henni dæturnar Margréti og Agnesi. Margrét var fædd 17. apríl árið 1964. Hún var barnlaus og lést árið 2010. Agnes fæddist nákvæmlega tveimur árum á eftir systur sinni, eða 17. apríl, 1966. Hennar maður erÞórir Borg Gunnarssyni. Börn Agnesar eru Sara Borg Þórisdóttir og Haukur Borg Þórisson. Haukur og Málfríður skildu.

Haukur var natinn faðir og sinnti dætrum sínum vel. Og svo var hann á Norðurlandaferð með dætrunum og Margréti móður sinni. Hún hafði samband við Landsýn og spurði hvort einhverjar norðurlandaferðir væru á dagskrá ferðaskrifstofunnar. Já, þá var Samkór trésmiðaað taka þátt í móti í Oslo og Haukur og fjölskylda gætu fengið að fara með. Svo fóru þau af stað í dásamlega ferð. Og í Samkórnum var Ragna Guðvarðardóttir, úr Fljótum í Skagafirði, Ragna gerði sér grein fyrir að þessi Haukur var góður við dætur og mömmu. En hún hugsaði svo ekki meira um hann. Síðar hittust þau og þá gerði hún sér grein fyrir að þessi Haukur var ekki eins mikið unglamb og hún hugði og þau felldu hugi saman, gengu í hjónaband og voru búin að búa saman í nær fjóra áratugi.

Haukur mat Rögnu sína mikils, vináttuna við hana, hæfileika hennar og getu, sem hann dáði. Og þökk sé Rögnu fyrir hve gott heimili hún bjó Hauki og virti þarfir hans og uppátæki. Og studdi hann og styrkti allt til enda.

Vinnan

Þegar Haukur hafði náð sér af berklunum á Vífilsstöðum varð hann að breyta um vinnu. Hann vann um tíma við bensínafgreiðslu en fór svo í skóla að nýju. Hann lærði tækniteiknun og síðar landmælingar í Tækniskólanum. Og þá opnuðust honum dyr hjá Vegagerðinni. Hann hóf störf þar árið 1973 og átti farsælan feril þar yfir þrjátíu ár. Haukur fór víða um land og mældi fyrir vegastæðum, hljóp um fjöll með tæki, setti niður punkta og mældi. Við breytingar hjá Vegagerðinni varð Haukur hluti af Reykjanes-teyminu og kom að öllum framkvæmdum á því svæði. Þegar hann hafði rétt til að láta af störfum hætti hann opinberum störfum, en var ekki tilbúinn að hætta allri vinnu og var ráðinn til Vífilfells. Ekki er nú víst að sykur og safinn sem framleiddur var hjá Vífilfelli hafi verið áhrifavaldur, en það var mikill kraftur í starfsmannafélaginu og m.a. voru stunduð hlaup. Haukur hafði gengið mikið en aldrei stundað regluleg hlaup. En þau urðu honum gleði- og hreystigjafi. Haukur tók þátt í ýmsum hlaupum og rann mislöng skeiðin, m.a. hálft maraþon árið 2008, þá á áttræðisaldri.

Sjósundið og heilsurækt
Hlaupin voru Hauki heilsurækt og lífgjafi þegar hann greindist með krabbamin árið 2005. En þegar hann fékk svo lungnamein varð Haukur að hætta að spretta úr spori. Þegar ein leið lokast geta aðrar opnast – ef fólk er opið og þorir að breytast. Haukur hafði fyrr orðið að breyta í lífinu, breyta um starfsvettvang og hafði glímt við breyttar hjúskaparaðstæður. Þegar lungun voru orðin veil vissi hann að hann yrði að bregðast við og vinna að heilsurækt sinni. Þá gerði hann tilraunina með sjóbað. Og böðin, trúin á gæði þeirra og góður félagsskapur varð honum til eflingar. Haukur var mikils metinn heiðursfélagi í söfnuði sjóðbaðsfólksins. Það var sérstök heiðursstaða hans að fá heitt súkkulaði í heita pottinn í dýrlegum glæsibolla sem bara útvaldir nutu. Morgunblaðið birti einu sinni mynd af Hauki vera skenkt í bolla og þið getið gúglað Hauk á vefnum og skoðað myndirnar – þá sjáið þið skemmtilegheitin.

Og ef sjóböðin minna á skírn minna þessar skenkingar á kirkjulega altarisgöngu. Þegar Haukur gat ekki lengur skokkað tók hann til við fjallgöngur. Hann gekk á Hvannadalshnúk þegar hann var sjötugur, sem tjáir hve vel hann var að manni þrátt fyrir rosalega krabbameinsmeðferð. Síðar gekk hann á Heklu, fór yfir Fimmvörðuháls og gekk Laugaveginn úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Og oft fór hann á Esjuna og hundurinn Bubbi rölti stundum með honum. Og Haukur fór jafnvel einn á gamlárskvöldi til að geta – frá besta mögulega sjónarhorni – notið ljósadýrðar kvöldsins. Svo gekk hann á skíðum yfir Drangafjökul. Heilbrigð sál í hraustum líkama. Haukur vissi, að hann gat stuðlað að heilsubót og varð lengri og betri lífdaga auðið en annars hefði orðið. Haukur vissi um heilsumátt ofurfæðis og þau Ragna týndu á hverju hausti mikið af bláberjum til að eiga í heilsudrykki vetrarins, sem Haukur gerði af þekkingu og list.

Minningarnar

Félagarnir í sundinu sakna vinar síns. Og vogin sem hann gaf Nauthólsvík og Ylströndinni minnir nú alla á að heiðursfélaginn Haukur er farin í nýjar laugar. Nú eru skil, minningarnar mega gjarnan þyrlast upp í vitundina. Hvernig manstu Hauk Bergsteinsson. Manstu hve bóngóður hann var, greiðvikinn og umburðarlyndur? Keyrði hann þig einhvern tíma heim úr samkvæmi eða skaust með þig eitthvað? Manstu dansæfingar hans eða línudans? Manstu hve viljugur hann var að bæta við sig í námi eða sækja námskeið? Hann lærði skriðsund á síðari árum og bætti sig í öðrum greinum sunds. Hann var framúrskarandi í sínum aldurshópi og þegar hann keppti vann hann oftast til verðlauna (eins og sjá má á mynd í sálmaskránni). Haukur efldi tungumálakunnáttu sína og hikaði ekki við að læra nýtt tungumál. Hann fór á matreiðslunámskeið til að læra að elda handa elskunni sinni. Svo var hann allan daginn að búa til veislu og elda og Ragna beið uppi þar til henni var boðið til dýrlegrar máltíðar. Manstu hvað Haukur var opinn gagnvart nýungum t.d. í bílamálum. Hann keypti metagas-bíl og síðan rafmagnsbíl. Manstu hve þolinmóur og elskulegur hann var við ungviðið? Manstu reglusemi og vanafestu Hauks? Manstu allar húfurnar sem hann safnaði sér og hafði gaman af að hengja upp í forstofunni í Bræðratungunni? Og vissir þú að hann sá lengi um heimasíðuna sem Íþróttafélagsið Gló hélt úti? Manstu orðatiltækin hans? Manstu seigluna, nákvæmnina, vandvirknina og þolgæið? Og manstu hve umtalsfrómur hann var?

Dauðinn dó og lífið lifir. Nú er hann farinn, hann mælir ekki fyrir fleiri vegarstæðum, hleypur ekki á fjöll framar eða telur kjark í krabbameinssjúka. En minningin um hann lifir og fyrir honum er vel séð. Og himinvegurinn var vel mældur og frábærlega vel hannaður. Leið þess vegar var til lífs. Jesús sagði: Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Sú kristilega vegagerð var góð, sá sannleikur réttur og lífið gott. Nú er Haukur kominn alla leið og kannski farinn í sjósund eilífðar, á Ylströnd himinsins. Þú mátt leyfa honum að fara. Í þeirri dýrðarveröld er eitthvert himneskt stell borið fram og Hauki er boðið.

Guð geymi Hauk Bersteinsson í eilífð sinni, styrki Rögnu, Agnesi, Maríu, maka þeirra og afkomendur. Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Kistulagning í Hallgrímskirkju kl 11,30 – útför kl. 13 mánudaginn 16. júlí. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Nauthól að athöfn lokinni.

[i]http://gostaygo.is/80-year-old-icelander-celebrates-1500th-ocean-swim-at-nautholsvik-beach-reykjavik/

+ Hulda Valtýsdóttir +

Hulda Valtýsdóttir var eiginlega alls staðar – og hafði áhrif á okkur. Hún var fjölhæf, dugmikil og hrífandi. Hún bar í sér þroskaða menningu, beitti sér með dug og vinsemd og kom afar mörgu til leiðar. Líf hennar var heillandi. Þegar við stöldrum við og hugsum um Huldu er eins og hún hafi snert öll – og líka öll okkar æfiskeið og lífsvíddir. Hún kom svo víða við sögu. Flest íslensk börn hafa notið hennar í leikverkunum og barnabókunum, sem hún þýddi. Þýðingar hennar eru orðnar klassík og hluti þjóðmenningar, sem ekki rýrnar heldur er sívirk. Hulda stýrði ásamt systur sinni afar vinsælum barnaþætti í útvarpi og gaf út barnabækur. Eldra fólkinu þjónaði hún með skrifum sínum, ekki síst í Morgunblaðinu. Hún var vörður hinna stóru málefna, gilda, gæða og lista sem vörðuðu allt samfélag þjóðarinnar. Reykvíkingar njóta verka hennar og vökullar íhygli í stjórn borgarinnar. Og margt eigum við henni að þakka í þeim efnum. Hún fleytti framtíðinni inn í samfélag sitt með því að þora að ræða opinberlega stóru málin með hispurslausum hætti og þar eru umhverfismál – og þar með talin skógrækt – í öndvegi. Og eldri borgarar nutu hennar. Henni treyst fyrir úthlutun fálkaorðunnar sem formanni orðunefndar. Hulda kom við sögu allra.

Þjónað í þágu lífsins

Af hverju var var áhugi hennar svo víðfeðmur? Mér þótti merkilegt að koma í stórkostlegt Sólheimahús þeirra Gunnars og Huldu, sem hann teiknaði, þau hönnuðu og byggðu sér. Þar hlustaði ég á dætur Huldu segja frá móður þeirra og öðrum ástvinum segja litríkar og elskulegar sögur. Þá skildi ég að það voru gæðin í foreldrum hennar og fjölskyldu sem skiluðu Huldu menningu, mannsýn, ást til náttúrunnar og samhengi í tilverunni. Hún var hæfileikarík og vann vel úr.

Hvað gerir okkur gott? Það er spurning hefur fylgt okkur mönnum frá upphafi. Viturt fólk hefur alla tíð vitað að við höfum áhrif. Grískt spakmæli kennir að friður og velsæld ríki þegar gamalt fólk sáir trjáfræum þrátt fyrir að það muni aldrei njóta skugga þeirra trjáa, sem það sáir til. Marteinn Lúther var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði á morgun. Svarið var einfalt – fara út og planta eplatré í dag. Skógræktarmenn hugsa ekki um skyndigróða heldur hugsa eins og kristinn maður – í öldum. Hin eiginlegu gæði varða ekki aðeins augnabliksfullnægju, heldur eru í hinu stóra og mikla, fagra og víðfeðma, langa og lífseiga. Mannlíf í auðn er ekki gæfulegt, en ríkulega klætt land og iðandi lífheimur er til góðs fyrir fólk. Lífríki er gott en lífleysa vond. Þá klassík, mannsýn og heimssýn fékk hún í arf í foreldrahúsum. Hún hafði í sér gæðin til að miðla áfram. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ – segir í Fjallræðunni.

Upphaf og fjölskylda

Hulda Steinunn Valtýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september árið 1925. Hún var dóttir hjónanna Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Kristínar Jónsdóttur, listmálara. Þau voru bæði frumkvöðlar og risar á sínum sviðum. Um bæði hafa verið skrifaðar glæsilegar og upplýsandi bækur.[1]Þau voru eyfirsk að uppruna. Kristín fæddist á því fallega Arnarnesi við Eyjafjörð. Þar var menningarheimili. Valtýr bjó bernskuárin á Möðruvöllum – þar sem faðir hans kenndi við Möðruvallaskóla. Skemmtilegar sögur eru um bernskutengsl Kristínar og Valtýs því Arnarnesfólkið átti kirkjusókn til Möðruvalla og sótti þangað messur. Valtýr var ungur þegar hann hreifst af Kristínu. En sagt var að hann hefði einu sinni hrint henni niður af öskuhaug. Hann var þó kurteis ungsveinn og bauð henni upp í dans og dansaði við hana á sokkaleistunum. Ekki af eftirsjá vegna gjörningsins á öskuhaugnum heldur fremur vegna hrifningar á stúlkunni. Dansinn var ávísun á síðari kynni. Þau Kristín og Valtýr fóru um veröldina í sitt hvoru lagi en endurnýjuðu kynnin í Kaupmannahöfn, töluðu sig til ástar, gengu í hjónaband og urðu og voru afar náin og samhent alla tíð. Kristín og Valtýr byggðu húsið á Laufásvegi 69 og þar átti Hulda heima til fullorðinsára. Og í bókunum um þau Valtý og Kristínu, í minningargreinum og minningum vina er skýrt tjáð að heimilislífið á Laufásveginum var skemmtilegt og heimilið var opið. Listamenn þjóðarinnar áttu í þeim vinsemd og frábæran skilning – eins og Gunnlaugur Scheving orðaði það. Áhugafólk um stjórnmál kom þar og ólíkar skoðanir voru ekki aðeins leyfðar heldur óskað eftir öflugum skoðanaskiptum. Þar var hressilega rætt um listir og stjórnmál, jarðrækt og bókmenntir, blaðamennsku, búskaparhætti og þjóðsögur. Þetta var klassík heimilisins en nútíminn bankaði líka sá dyr. Pólitíkin varð stundum sem aðalkrydd máltíða og Hulda lærði að lesa í flóknar aðstæður, hlusta á gagnstæð viðhorf, horfa á mál frá mörgum hliðum, íhuga næmt og túlka skýrt.

Systurnar voru tvær. Helga var eldri og var kunn fyrir leikhússtörf sín. Huldunafnið kom upprunalega úr vitrun Stefáns á Möðruvöllum, afa Huldu.[2]Þegar Hulda fæddist tók eldri systirin hinni nýju systur með gleði. Af myndum úr fjölskyldualbúmunum má sjá að þær systur voru nánar og deildu kjörum. Þær áttu hægt með að vinna saman alla tíð og útvarpsþættir þeirra á sjötta og sjöunda tug liðinnar aldar eru mörgum í fersku minni. Helga lést árið 1968, aðeins 44 ára gömul.

Skóli, störf og baráttumál

Hulda hóf skólagöngu í Landakotsskóla og þaðan fór hún í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1945. Strax í bernsku hafði Hulda mikinn áhuga á lífinu á ritstjórn Morgnblaðsins. Hún byrjaði að sendast fyrir blaðið meðan hún var enn í grunnskóla. Síðar varð hún ritari föður síns og varð svo blaðamaður á Morgunblaðinu. Hulda skrifaðium margvísleg efni fyrir Morgunblaðið, þ.m.t. Lesbókina, og ritaði fasta pistla. Umhverfis- og menningar-mál voru henni hugleikinn. Frá 1989 til 2005 sat Hulda í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og var varaformaður stjórnar frá 1989 til 1995. 

Hulda var afkastamikil í þýðingarstörfum og verk hennar höfðu mikil áhrif. Hún þýddi barnasögur og leikrit, m.a. sögurnar um Bangsímonog leikritin Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus,auk fleiri sígildra verka sem Helga systir hennar las í útvarpi.

Í foreldrahúsum lærði Hulda að pólitík gat verið harðvítug og orðið ágeng fjölskyldulífinu. En hún brást vel við kalli til starfa í borgarmálum þegar eftir var leitað. Hulda sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1982 til 1986. Og það er gaman að sjá mynd af fyrsta borgarstjórnarfundinum eftir kjörið. Hulda var í flottum kjól og bar af öllum að glæsileik. Umhverfis- og menningarmál voru Huldu hugleikin sem og málefni ungu kynslóðarinnar. Hún vildi að hagsmunir barna væru virtir og rödd þeirra fengi að hljóma. Hulda var formaður umhverfismálaráðs og fyrsti formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur. Í þeim störfum tengdist hún mörgum erlendum gestum. Og Yoko Ono og Erró urðu vinir hennar sem og ýmsir umhverfisverndarsinnar. Hulda leit á þessa málaflokka hafna yfir flokkspólítík. Og það er merkilegt að sjá hve skeleggar greinar hennar voru um þau mál og hve ákveðið hún lyfti umræðu um stóru málin og siðferðisgildin á æðra plan.

Í uppvexti lærði Hulda að meta gildi skógræktar. Foreldrar hennar vildu klæða land og efla lýð. Hulda beitti sér í málefnum skógræktar og var formaður Skógræktarfélags Íslands frá 1981 til 1999. Hún var einnig formaður framkvæmdanefndar um landgræðsluskógaátakið Ár trésins, sat í stjórn Landgræðslusjóðs og í stjórn Rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Hulda var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún var sæmd stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að skógræktarmálum. Í öllum störfum og stjórnum var Hulda styrk, velviljuð og framfarasinnuð.

Gunnar og fjölskyldan

Svo var það Gunnar Hansson. Hann var á leið austur Laufásveginn, hafði fengið bíl lánaðan og var á rúntinum. Gunnar var með glöggt auga, sá glæsilega unga menntaskólastúlku ganga vestur Laufásveginn. Og hann var snöggur, tók u-beygju og sveigði upp að gangstéttinni þar sem Hulda var. Renndi rúðunni niður og sagði: „Going my way?“ Hulda hafði húmor fyrir svona öflugum herramanni, settist inn í bílinn – og hann ók hennar leið. „Going my way!“ Síðan var hans vegur hennar vegur og hennar leið hans leið. Þau áttu erindi saman allt lífið. Þau voru bráðung er þau kynntust en ástin logaði og lifði. Gunnar fór vestur um haf til að læra arkitektúr enda var ekki annað í boði á stríðsárunum en Ameríkuför. Þau settu upp hringana í sitt hvorri heimsálfuni og kunnu alveg að stilla klukkurnar – en uppsetningarhátturinn var skondinn. Svo kom Gunnar til baka þegar hann hafði lokið áfanganum sem hann ætlaði sér. Þau Hulda gengu í hjónaband, hann fékk vinnu í sínu fagi og hún vann á Morgunblaðinu. En svo vildu þau fara utan saman og Gunnar vildi bæta við sig. Þau voru í Kaupmannahöfn um tíma og síðar í Þrándheimi í tvö ár. Gunnar stúderaði, Hulda sá um ungviði og kynnti sér norræna menningu, viðmið, skógrækt og umhverfisvitund ytra. Hún fór heim og Gunnar varð eftir, lauk náminu og kom svo.

Hulda og Gunnar eignuðust þrjár dætur: Kristínu, Helgu og Hildigunni. Hulda lætur einnig eftir sig tvo tengdasyni, Michael Dal, eiginmann Helgu og Ásgeir Haraldsson, eiginmann Hildigunnar, en eiginmaður Kristínar var Stefán Pétur Eggertsson og lést árið 2013. Barnabörnin eru sex; Hulda, Gunnar, Eggert, Eva Kristín, Gunnar Steinn og Ragnheiður Steinunn. Langömmubörnin eru fimm; Stefán, Pétur, Steinunn Hildur, Jón Grétar og Birkir Michael. Mikill samgangur var einnig við börn Helgu – Kjartan, Kristín, Stefán og Björn voru heimagangar í Sólheimum.

Þau Hulda og Gunnar héldu saman veg lífsins. Það var jafnræði með þeim. Þau voru samrýmd, töluðu og hlógu saman. Þau deildu áhugamálum, náttúru Íslands, fjölmiðlun, menningarmálum og laxveiðar. Þau ferðuðust víða og veiddu saman.  Gunnari þótti nóg um hve fiskin Hulda var og hélt fram að hún þyrfti ekki annað en skrúfa frá krana þá væri kominn lax á færi hjá henni! En hann lagaði maðkinn fyrir Huldu sína – og taldi ekki eftir sér. Gunnar lést fyrir aldur fram árið 1989.

Minningarnar

Hvaða minningar koma upp í huga þinn þegar þú minnist Huldu. Manstu brosið hennar? Hvernig hún horfði á þig og fólk? Manstu hve vel hún las átök og hve laginn hún var að leysa hnúta? Manstu að hún var varkár? Kvaddi hún þig einhvern tíma og bað þig að fara varlega? Manstu að Hulda vildi gjarnan, að fólk hefði skoðun, þyrði að tjá hana og tæki sér stöðu í baráttumálum? En hún vildi þó ekki að neinn byggði sitt mál á sleggjudómum eða hæpnum forsendum. Manstu hve vel Hulda mat börn og að hagur þeirra væri metinn? Manstu eftir Huldu í landgræðsluferð upp á hálendi Íslands? Fórstu einhvern tíma á menningarviðburð með henni – jafnvel til að hlusta á Derrida? Manstu gæða- og gæsku-siðfræði og mannsýn Huldu?

Skil og eilífð

Og nú er komið að skilum. Hulda skrifar ekki framar á Olivetti-ritvélina sína kraftmikinn pistil um náttúrvernd, menningarverðmæti eða mikilvægi listar. Hún þýðir ekki framar erlend gæðastykki fyrir íslenskar fjalir. Hún tekur ekki þátt í annarri bylgju skógræktar á íslandi, kolefnisbindingarbylgjunni. Hún les ekki framar Kierkegård og spáir hvernig tilvistarspekin rann inn í afbyggingaraðferð póst-modernismans. Hún býður ekki framar erlenda listamenn velkomna inn í menningarheim Íslendinga. Eða laumar að okkur, að enginn viti hvað býflugurnar hugsa! Hún gefur ekki pólitíkinni framar mennska ásýnd, hlý augu og góða dómgreind. Hún brosir ekki framar við börnum fjölskyldunnar, blómum vallarins, fiskfullum veiðihyl eða birtu daganna. Hún er farin inn í ljósheim eilífðar. Sólheimarnir eru enn til, minningarnar varpa birtu yfir líf okkar hinna. Hulda var alls staðar, hafði mikil áhrif. En svo heldur lífið áfram. Guð er alls staðar og Hulda er engill þess lífmagns. Og það er svo okkar að lifa vel, varðveita gildin, berjast fyrir öllu því mikla og góða sem Hulda vissi að skipti máli. „Dvel ég í draumahöll og dagana lofa … “ Guð geymi Huldu Steinunni dóttur Valtýs og Kristínar. Guð geymi ykkur öll og styrki.

Amen.

Útför frá Dómkirkjunni 16. maí kl. 13. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Iðnó.

Ágrip

Foreldrar Huldu voru Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins og Kristín Jónsdóttir, listmálari. Systir Huldu var Helga, leikkona, d. 1968. Hulda giftist 27. júlí 1946 Gunnari Hanssyni, arkitekt, f. 19. febrúar 1925, d. 6. janúar 1989. Foreldrar Gunnars voru Hans Þórðarson, stórkaupmaður, og Guðrún Sveinsdóttir, húsfreyja, í Reykjavík. Hulda og Gunnar bjuggu að Sólheimum 5, í húsi sem Gunnar teiknaði. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Kristín, f. 4. mars 1947. Hennar maður var Stefán Pétur Eggertsson, d. 8. janúar 2013. Þeirra börn eru: Hulda, f. 1972, gift Pétri Þ. Óskarssyni. Börn þeirra eru Stefán, f. 2002, og Steinunn Hildur, f. 2007. Dóttir Péturs er Aðalheiður Ósk, f.1993. Gunnar, f. 1976, kvæntur Örnu Björk Jónsdóttur. Þeirra synir eru Pétur, f. 2007, og Jón Grétar, f. 2010. Eggert, f. 1977, kvæntur Anabel Baxter. 2) Helga, f. 31. ágúst 1953. Hennar maður er Michael Dal. Dóttir þeirra er Eva Kristín, f.1985, gift Atla Erni Sverrissyni. Þeirra sonur er Birkir Michael, f. 2015. 3) Hildigunnur, f. 18. apríl 1957. Hennar maður er Ásgeir Haraldsson. Þeirra börn eru: Gunnar Steinn, f. 1986, sambýliskona hans er Sara Sigurlásdóttir. Ragnheiður Steinunn, f. 1990, sambýlismaður hennar er Brynjar Þór Guðbjörnsson. Dóttir Ásgeirs er Tinna Laufey, f.1975, gift Sigurði Gylfa Magnússyni. Hennar sonur er Pétur Bjarni Einarsson, f.  2002.

[1]Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði um list og æfi Kristínar Jónsdóttur og gerir grein fyrir upphafi, bernskuheimili hennar í Arnarnesi, fjölskyldubrag og heimilislífi, tengslum við Möðruvallaheimilið og síðan menntun Kristínar heima og erlendis. Svo skrifar hann ítarlega um list hennar. Bókin gefur gott samhengi fyrir list og líf Kristínar og tengir vel við bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson. Það er mjög ítarleg og vönduð heimildavinna sem Jakob hefur unnið. Ég á Aðalsteini og Jakobi þökk að gjalda fyrir þeirra merku rit sem ríma ágætlega.

[2]Frá þessu segir Jakob F. Ásgeirsson mjög skemmtilega í bókinni um Valtý Stefánsson.

+ Inga Jóelsdóttir +

Við erum komin saman til að kveðja Ingu – og þakka fyrir líf hennar,gott líf. Hún var kærleiksríkur og umhyggjusamur kvenskörungur. Hún fagnaði fólki, lífi og láni. Við þessi skil getum við þakkað – eins og eitt barna hennar sagði: Við getum þakkað fyrir gott líf hennar. Og við megum gjarnan lifa í þakklæti fyrir það sem við fáum að njóta. Lífið er fullt af undrum Skaparans sem gefur veröld – og líf. Okkar er að bregðast við og bera okkar ávexti í lífinu. Inga tók á móti því sem henni var rétt, vann fallega úr, bar ríkulega ávexti á langri ævi. Við þökkum og megum leyfa því sem Inga var og tjáði okkur að hvetja okkur til að lifa vel.

Fjölskylda og upphaf

Inga fæddist á Stokkseyri 24. apríl árið 1922. Foreldrar hennar voru Guðríður Ingvarsdóttir og Jóel Jónasson, bæði Árnesingar. Þau eignuðust fimm börn. Inga var elst og svo komu Ásgeir, Jóel Bachman, Guðríður og Jónasína. Þau eru nú öll látin, og sú elsta fór síðust inn í heiðríkju himinsins.

Guðríður og Jóel, foreldrar Ingu, héldu sig við ströndina. Þau fluttu frá Stokkseyri og í Leiruna suður með sjó. Mamman sá um heimilireksturinn og pabbinn var útvegsbóndi og sinnti ýmsum öðrum störfum og var m.a. kyndari á skipum. Inga ólst upp við stóran himinn, stórt land og stórt haf. Hún lærði á hinar miklu víddir. Þegar hún hóf skólagöngu voru engir skólabílar til að létta börnunum lífið. Inga gekk fimn kílómetra leið yfir móa og mela í skóla í Garði í Gerðum. Engu skipti hvort það var í blíðu eða stríðum stórviðrum – börnin fóru í skóla. Og auðvitað óku stundum bílar á milli og börnin lærðu fljótt að greina á milli hvort það væru góðu mennirnir eða hinir sem fóru hjá. Því góðu mennirnir leyfðu göngugörpunum að fljóta með, tóku þau upp í og óku þeim áleiðis.

Inga lærði snemma að lesa og var til fyrirmyndar í námi og tengslum. Þær voru nánar móðir hennar og hún. Mamman treysti henni og meðal annars ábyrgð á stækkandi systkinahóp. Hún var elsta barnið alla tíð og getan og kunnáttan skilaði sér í rekstri heimilis þeirra Björns síðar meir. Inga var vön að gera gagn og fór fljótt að vinna fyrir sér og sínum utan heimilis. Hún var um tíma í Keflavík en fór svo til Reykjavíkur og bjó á Hverfisgötu.

Björn og hjúskapurinn

Svo var það Björn Guðjónsson. Saga Ingu og Bjössa var og er hrífandi saga. Þau hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér! Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og gamansamaur. Hann sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin voru, að Björn vildi sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið. Og alla tíð vissi hann að besti maturinn var heima – hjá henni Ingu hans. Í Ingu átti hann sálufélaga.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð úr Fjallræðu Jesú áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband 11. desember 1942 – tæplega tveimur árum eftir appelsínuviðburðinn – og nutu hjúskapar næstu 66 árin – eða þar til Björn lést 30. nóvember árið 2008. Þeirra saga var gæfusaga. Þau voru gott par, góð hjón og báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru, tóku tillit til hins, skoðana, hugðarefna og gleðiefna. Á heimili þeirra átti hamingjan heima. Og við megum gjarnan hugsa um hvað þau gerðu í samskiptum til að rækta gleði og lán daganna. Þegar þau greindi á gerðu þau upp sín mál og sólin settist ekki á ágreining þeirra. Hjúskapur þeirra var hreinskiptin og gleðilegur. Og börnin þeirra höfðu það veganesti í eigin hjúskap og fjölskyldulíf.

Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur húsið á Ægisíðu 66. Þau fluttu inn fyrir jólin árið 1956 og þar bjuggu þau Inga síðan og með sama fólki alla tíð. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.

Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert var elstur og hans kona Steingerður Steindórsdóttir. Þorvarður lést í desember 2013. Fyrri maki hans var Hrafnhildur Marinósdóttir. Næst í barnaröð Ingu og Björns var Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar maður er Jóhann Hafþór Þórarinsson, fyrri maki hennar var Þórður Eiríksson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.Inga og Björn vissu að þau voru lukkufólk. Afkomendur þeirra eru 41 og Inga talaði opinskátt um barnlán sitt og fjölskyldugleði sína.

Þegar saman fer elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Heimilið var ríki Ingu. Hún bjó ekki aðeins börnum sínum og bónda öruggt skjól heldur einnig systkinum sínum, stórfjölskyldu og vinum. Allir voru alltaf velkomnir á heimili hennar. Alltaf bakaði Inga fyrir helgarnar, enginn gerði boð á undan sér og öllum voru opnar dyr. Svo var allt til enda. Fólkið þeirra Ingu sótti á heimilið við Ægisíðuna og barnabörn og afkomendur lærðu leiðina til þerra Ingu. Hún var límið í fjölskyldunni. Móðir hennar lést fyrir aldur fram árið 1957. Fráfall hennar var Ingu mikið áfall en hún stækkaði kærleiksfangið og gætti stórfjölskyldunnar.

Þegar börnin Ingu uxu úr grasi og um hægðist fór hún að vinna utan heimilis að nýju. Alls staðar var hún vel liðin og metin. Um tíma vann hún í greiningarstöðinni í Kjarvalshúsinu á Seltjarnarnesi og um tíma í mötuneyti á Raunó, Raunvísindastofnun Háskóskólans. Það voru allir ánægðir með grjónagrautinn hennar Ingu og þó fólk reyndi að líkja eftir og setti í vellinginn smjör og vanilludropa náðist aldrei hennar bragð. Inga kunni slow foodog sousvidesíns tíma og eldaði með kærleika.

Minningarnar

Hvernig manstu Ingu? Manstu tillitið hennar? Manstu hvernig saltfiskurinn entist hjá henni? Hún bara bætti fiski í pottinn ef fleiri komu en hún hafði upprunalega búist við. Manstu félagshæfni hennar? Manstu hve hún hafði gaman að ferðast, innan lands og utan? Og manstu ljóðaáhuga hennar? Hún meira að segja sótti ljóðanámskeið og las ljóð listavel fyrir margmenni. Skáldin hennar Ingu voru Jónas, Einar Ben, Davíð og svo var henni hugstæður Guðmundur skólaskáld.

Inga var varkár með eld í lífinu. Alla tíð þótti henni erfitt að horfa á brennurnar á gamlárskvöldi. Ástæðan var að fjölskylda hennar missti heimili sitt í bruna. Inga var tíu ára þegar Bakkakotshúsið í Leiru brann til grunna. Hún hafði farið inn í Keflavík með móður sinni og þegar þær komu til baka stóð fjölskyldan úti við brennandi húsið. Pabbinn hafði stokkið inn í eldinn til að tryggja að allir væru komnir út. Húsbruninn og heimilismissirinn var mikið áfall, fjárhagslega og tilfinningalega. Eldurinn settist í sál Ingu og hún gætti æ síðan vel að því að tryggt væri að eldur næði ekki að kveikja út frá sér. Húslaus fjölskylda Ingu reyndi síðan að gott fólk var tilbúið að veita þeim húsaskjól. Inga mótaðist af þessari lífsreynslu og hennar hús var ætíð opið öllum þeim er þurftu skjól, hjartahlýju og næringu. Í því sem öðru voru þau Inga og Bjössi samstiga.

Manstu hve Inga hafði góða stjórn á sjálfri sér, verkum sínum og heimili. Hún smitaði reglusemi sinni til síns fólks. Hún var kát og félagslynd og reglusöm. Hún reyndi aðeins einu sinni að keyra bíl – og það fór nærri því illa. Hún vildi ekki gera neinum skaða og valda slysum. Björn, bóndi hennar, gantaðist með að hann hefði nú misst margan sopan því Inga hafði ekki bílpróf! Börnin hennar Ingu nutu festu hennar og öryggis. Inga hvatti börnin sín til menntunar og dáða í lífinu.

Inga var fólkinu sínu fyrirmynd – líka um hvernig vinna má með áföll og bregðast við þeim. Hún fékk krabbamein fyrir tuttugu árum. Tók vandanum með æðruleysi og komst frá þeim hildarleik. Hennar stíll var ekki að gefast upp heldur mæta hinu mótstæða með skapstillingu. Og hún tapaði ekki húmornum. Þó hún þyrfti að gæta að fæði sínu vegna blóðsykurs og blóðfitu stakk hún gafli sínum í feitan kjötbita og sagði með glettni í augum: „Úr einhverju verður maður nú að deyja!“

Inga naut langrar æfi. Hún var elst í systkinahópnum en lést síðust syskinanna. Langt líf er ekki sjálfgefið og Inga lifði hátt í öld. Það er þakkarvert. Síðustu tvö árin bjó hún á Grund við Hringbraut. Hún flutti ekki dótið sitt þangað því hún var eiginlega alltaf á leiðinni heim á Ægisíðu. Ástvinir þakka fyrir umhyggju starfsfólksins á Grund.

Nú kemur Inga ekki framar heim í Ægisíðu 66. Inga verður lögð til hinstu hvílu í Gufuneskirkjugarði. Þar eru leiði manns hennar og sonar. Nú er Inga farin inn í himininn til fundar við þá. Hún var trúuð og má fagna með sínum í heiðríkjunni þar sem allt er gott. Hún þarf ekki að velja appelsínuna á undan Bjössa því þau verða samstillt efra – eins og á ströndinni við Skerjafjörð. Þar verður allt gott. Himininn stór, hafið ljúft og strönd eilífðar er góð Ægisíða.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.
Amen

Minningarorð í Neskirkju 16. mars 2018. Kistulagning kl. 9,30 og útför kl. 11. Erfidrykkja var í safnaðarheimili kirkjunnar. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Æfiágrip

Inga Jóelsdóttir fæddist á Stokkseyri 24. apr. 1924. Hún lést 3. mars síðasliðinn á nítugasta og sjötta aldurári. Foreldrar hennar voru hjónin Guðríður Ingvarsdóttir( f. Stokkseyri 30.apr. 1900 dáinn í Keflavík 2. júlí 1957) og Jóel Jónasson (f. í Hákoti í Flóa 12. sept. 1894 d. í Rvík. 8. júní 1988) bændur í Bakkakoti í Leiru og síðar í Kötluhóli í sömu sveit en bæði voru ættuð úr Árnessýslu. Inga fluttist ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur á Hverfisgötu100A og myndaði við það fólk ævilöng vinatengsl. Þaðan fluttist litla fjölskyldan suður í Leiru og ólst hún þar upp ásamt systkinum sínum. Hún var elst á eftir komu Ásgeir, Jóel Bachmann, Guðríður og Jónasína, öll látin. Hún gekk í Gerðaskóla, fimm km leið, og lauk barnaprófi þaðan. Hún var í vist í Keflavík og þar gekk hún í kvöldskóla svo tók skóli lífsins við og ýmiss konar námsskeið. Hún kom til Reykjavíkur, dvaldi hjá föðurbróður sínum  og fór að vinna á Kleppsspítala. Á þeim tíma kynntist hún mannsefni sínu sem var Björn Guðjónsson  f. 11.11 1921 d. 30. nóv. 2008 sonur hjónanna Guðrúna V. Guðjónsdóttur og Guðjóns Bjarnasonar. Þau giftu sig 11. des. 1942 og hófu búskap á Bjarnastöðum á Grímsstaðaholti og byggðu svo á Ægisíðu 66 og bjuggu þar æ síðan.

Börn þeirra 1) Þorvarður Ellert f. 5. mars 1943 d. 18. des. 2013.

 Eftirlifand maki Steingerður Steindórssdóttir.

Fyrri  maki Hrafnhildur Marinósdóttir d. 1986

Sigrún Björk f. 21. des 1945, maki Örlygur Sigurðsson

Guðrún Gerður f. 31maí 1947 sambýlismaður Jóhann Þórarinsson

Fyrri maki Þórður Eiríksson d. 2000

Guðjón Jóel f. 10. febr. 1959, maki Helena Þuríður Karlsdóttir

Ásgeir f. 25 mars 1960, maki Kristín Jónsdóttir

Barnabörnin eru tólf, langömmubörnin tuttugu og eitt og þrjú langalangömmubörn.

Helga Guðmundsdóttir +

„Og svo dönsum við dátt þá er gaman meðan dagur í austrinu rís. Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Þeir eru fallegir verðlaunaskildirnir sem Helga fékk fyrir dans. Og hún var góður og alhliða dansari. Hún kunni vel samkvæmisdansa og fékk verðlaun fyrir. Og svo voru suður-amerísku dansarnir. Hún kunni cha cha cha, rúmbu, samba og salsa. En svo kunni Helga líka tango sem er ekki á allra færi að útfæra með stæl. En hún fór yfir dansgólfið með þokka og lagði sitt til dansstjórnarinnar. Það þarf fimi, tilfinningu, góða líkamsvitund og vilja til að dansa vel. Helga hafði í sér getuna til að æfa sporin, þola æfingarnar og opna tilveruna fyrir takti, sveiflum, hljómum og öllum hinum sem voru á gólfinu. Og hún hélt áfram að bæta við og hafði gaman af ýmsum dansstílum, líka línudans, dansinum sem gengur víða undir nafninu square dance. Helga var m.a.s. í hópi sem dansaði þennan skemmtilega dans í kvikmyndinni Fúsi. Hún á sér því líka framhaldslíf í heimi kvikmynda.

Dans í lífinu. Líf með hreyfingu, líkamsfærni, fegurð hreyfingar, samstilling margra á stóru sviði fótmenntarinnar. Dans er eins og tákn fyrir allt hið fjölþætta sem við menn gerum. Við erum einstaklingar í hóp. Við verðum að taka tillit til annarra svo við hvorki rekumst á eða stígum ofan á tær eða fætur annarra. Það er eittvað heillandi við hinar öguðu hreyfingar og samhæfingu allrar manneskjunnar í flæði fjöldans. Við erum ekki aðeins stór efnishlunkur heldur verur margra vídda, með heyrn, sjón, tilfinningar og útlimi sem þarfnast samhæfingar. En svo eru alltaf einhver mörk á takti, rými, möguleikum, skynjun og færni. Hvað svo? Hvað er meira, hver er merking alls þess sem við gerum, erum, iðjum og hugsum? Þar mætum við stóru spurningum lífsins.

Jesús svaraði spurningum Tómasar um veginn og lífsferðina: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Þar var taktur lífsins skilgreindur, samhengi og hvernig má vera og lifa. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ævistiklur

Helga var fædd í Reykjavík 23. febrúar árið 1942. Hún var eina barn hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1920 – 2003) og Guðmundar Gestssonar (1914-93). Mamman var af Snæfellsnesi, frá Efri-Hlíð í Helgafellssveit, en pabbinn frá Miðdalskoti í Kjós. Móðir Helgu var heimavinnandi og Guðmundur var bifreiðastjóri. Helga átti annað nafn framan við Helgunafnið. Hún var nefnd og skírð Sigríður Helga en notaði Helgunafnið.

Helga var Reykjavíkurdama. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Skipasundi, sem þá var líflegt og barnmargt úthverfi Reykjavíkur. Síðar fluttu þau í Hlíðargerði í Smáíbúðahverfi og þar var Helga á unglingsárunum. Helga bjó í foreldrahúsum við skýran og ákveðinn aga. Helgu gekk vel í skóla enda vel gerð, vel gefin, iðjusöm og ákveðin. Þegar hún hafði lokið skólagöngu fór hún að svipast um eftir vinnu. Að ráði varð að hún réðist til Mjölkursamsölunnar. Hún vissi að þar væri góður vinnumórall því faðir hennar vann hjá fyrirtækinu. Helgu leið vel á vinnustað og Mjólkursamsalan var vinnustaður hennar í mörg ár. Vinnufélagarnir voru glaðværir og gott samstarfsfólk. En svo langaði Helgu að breyta til og fór til sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríus. Þar vann hún síðan í nokkur ár. Eftir það lá leið hennar aftur til baka til Mjólkursamsölunnar og vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar. Helga vann svo á síðari árum einnig við þrif á skólahúsnæði Framtíðarinnar sem heitir Framvegis, miðstöð símenntunar.

Svo kom Guðmundur Vilbergsson hlaupandi inn í líf Helgu. Hún hafði farið með Þóru, vinkonu sinni á ball í bænum og þær voru á leið heim. Þær ætluðu að ná í leigubíl og sáu bíl álengdar í miðbænum. En svo vildi til að Guðmundur og Eggert Ólafsson, vinur hans, höfðu líka verið á balli og voru á heimleið. Og Guðmundur tók á rás til að ná leigubílnum og Eggert kom skokkandi á eftir. Svo þegar Guðmundur var búinn að festa sér bílinn komu stúlkurnar  – fremur brúnaþungar yfir þessum skorti á herramensku þeirra félaga. En á henni var þó enginn þurrð því þeir buðu dömunum að láta aka þeim heim. Og bílferðin var skemmtileg, þær heilluðust og létti reiðin yfir Guðmundarhlaupinu. Þær gerðu sér grein fyrir að þessum körlum var ekki alls varnað. Og svo urðu þau vinir, síðan pör og svo hjón.

Guðmundur var glæsilegur tveggja metra maður. Þau Helga voru flott par, bæði hávaxin og vel að manni. Þau gengu í hjónaband 11. apríl árið 1970. Guðmundur var rafvélavirkjameistari og rak með bræðrum sínum fyrirtækin Segul og Skipaljós. Þau Helga og Guðmundur bjuggu fyrstu árin í Vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi og héldu svo enn vestar og keyptu hús á Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Helga bjó þeim Guðmundi stílhreint og fagurt heimili. Síðar, þegar Helga var orðin ekkja, flutti hún í Tjarnarmýri, sem er líka á Nesinu. Og síðustu árin bjó hún við Dalbraut. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg.

Þau Helga og Guðmundur studdu hvort annað, fóru víða, höfðu ánægju af ferðalögum innan lands sem utan. Þau nutu samvistanna við fólkið þeirra. Helga hafði samband við ættmenni sín. Og svo fór hún með Guðmundi sínum í margar ferðir norður á Skaga. Þar áttu Guðmundur og bræður hans jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi, stunduðu þar veiðar og nutu unaðar norðlenskrar sumarbirtu og fagnaðar stórfjölskyldunnar. Bræður Guðmundar og fjölskyldur þeirra urðu Helgu mikilvægir. Þökk sé þeim, frænkum og ættmennum Helgu, sem og vinum þeirra fyrir alúð þeirra í garð Helgu fyrr og síðar – ekki síst þegar hún var orðin ekkja. Guðmundur var vinamargur og Helgu lét vel að vera með vinum hans og taka þátt í félagslífinu sem þeim tengdist. Guðmundur varð fyrir heilablóðfalli á miðjum aldri og féll frá fyrir 23 árum, eftir alvarleg veikindi. Fráfall hans var æviskuggi Helgu síðan. Ljósið féll aldrei yfir allan skuggann. 

Minningarnar um Helgu

Og svo eru minningarnar. Hvernig manstu Helgu? Sástu hana dansa? Manstu fatastílinn hennar Helgu? Manstu að hún hugsaði vel um móður sína sem bjó hjá henni síðustu árin? Og vissir þú að hún var náin föður sínum? Manstu hve umtalsfróm Helga var? En hún gat líka alveg sagt skoðun sína? Hún hafði skýrar hugmyndir um margt og sagði óhikað hug sinn ef sá gállinn var á henni: „Ég hefði nú haft þetta öðru vísi.“ Helga hafði áhuga á fólki og spurði um hagi þess og hvað væri að frétta ef hún átti tal við ættingja. Hún fylgdist vel með og hafði jafnan góða yfirsýn varðandi ættfólk sitt. En svo var Helga einnig hlédræg um eigin líðan og hugsanir og fáir áttu greiða leið að innstu tilfinningum hennar eða þönkum. Hún var tengd en líka utan seilingar. Það kom einnig fram í félagstengslum hennar. Hún vildi ekki lokast inni eða vera lengi á hverjum stað. Best lét henni að stjórna eigin ferðum, geta verið ef henni þótti svo, en geta líka farið af stað ef hún fékk útþrá. Helga var sjálfstæð, gat alveg dansað í takt við alla í kringum sig. En hún vildi líka geta ákveðið sinn eigin danstakt, farið sinna eigin ferða, verið eins og hún vildi. Hún var sjálfstæð, þorði, gat og vildi.

Manstu spilakonuna Helgu? Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku. Hún var öflugur vistspilari og sótti gjarnan þangað sem fólk kom saman til að spila. Og félagsvistin var góð félagsleg viðbót við dansinn og reyndi vel á heilann. Það þarf útsjónarsemi, félagslegt innsæi og snerpu til að vera leikinn vistspilari.

Og manstu að hún vildi hafa líf sitt og fjármál á hreinu og í góðri reglu? Og manstu hvað hún gat hlustað vel? Manstu hve Helga hafði gaman af að klæða sig upp?

Himininn

En nú er Helga farin. Hún fær sér ekki framar nýjan bíl sem örugglega hefur varadekk. Hún ekur ekki hingað og þangað til að hitta sitt fólk. Hún dansar ekki línudans í kvikmynd og gerir enga slemmu framar. 23 ára aðskilnaði þeirra Guðmundar er lokið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – og himininn er opinn. Nú hefur Helga dansað veginn inn í eilífðina – til fundar við fólkið sem hún elskaði. Henni er fagnað og boðið strax á stóra dansgólf himinsins. Nú sveiflast hún í tangó eilífðar með Guðmundi sínum. Og það er gott. „Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Guð geymi Helgu og Guð geymi þig.

Amen.

Björk og Jón Arnar geta ekki verið við þessa útför og hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar sem hér eruð í dag og kveðjið Helgu.

Minningarorð við útför Helgu í Fossvogskirkju 8. desember, 2017. Kistulagning og útför sama dag. Erfidrykkja í Perlunni. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.