Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli

Sigurður Árni Þórðarson útskrifaðist úr Guðfræðideild Háskóla Íslands um leið og ég. Hann kynnti sig strax sem skarpur námsmaður, mikill trúmaður og góður félagi.

Hann hefur aflað sér góðrar menntunar sem nýtast mun vel í þeirri þjóðfélagsrýni sem biskup, andlegur leiðtogi þjóðarinnar, hlýtur að ástunda. Margþætt lífsreynsla hans sem prestur, sem skólamaður og sem manneskja eykur innsýn hans í lífið og gefur honum einnig aukinn styrk og þroska.

Sigurður Árni er viðræðugóður og hlýr persónuleiki sem á gott með hlustun. Hann er mikill unnandi íslenskrar náttúru, er vel máli farinn og hefur glöggt auga fyrir menningarstraumum, íslenskum sem erlendum.

Hann hefur tekist á við fjölbreytileg verkefni í störfum sínum og komið óbrotinn út úr þeim erfiðleikum sem hann hefur mætt í einkalífi sínu. Að þessu samanteknu og fleiru sem minna máli skiptir sé ég í Sigurði Árna góðan leiðtoga sem ég treysti vel til þess vandasama hlutverks að leiða mína kæru kirkju fram á veginn.

Haraldur Ólafsson, prófessor emeritus og fyrrv. alþingismaður

: 233 × 274Ég kynntist fyrst séra Sigurði Árna Þórðarsyni á ráðstefnu í Skálholti fyrir allmörgum árum. Hann stýrði þar umræðum og vakti athygli mína fyrir sköruglega fundarstjórn, vandað málfar og hæfileika til að ræða málin af yfirvegun og sanngirni. Svo liðu árin og allt í einu var hann orðinn sóknarprestur minn. Þá kynntist ég honum á ný, ef svo má segja. Prestarnir við Neskirkju hafa verið samtaka um að gera safnaðarstarfið fjölbreytt og aðlaðandi. Það eru ekki aðeins guðsþjónustur og hin venjulegu embættisverk sem einkenna starfið í kirkjunni. Alla daga virðist sem eitthvað sé þar á seyði til gagns, gamans og uppbyggingar fyrir unga sem aldraða. Þar eð ég ólst upp á kirkjustað er ekki að undra þótt ég kunni vel að meta veitingarnar í safnaðarheimilinu eftir hverja messu.

Kristin kirkja hefur um þúsund ára skeið verið samofin þjóðlífi landsmanna, hvort heldur hún var undir páfa eða evangeliskum biskupum, hvort sem hún var háð konungsvaldi eða afskiptum stjórnmálamanna.  Hvað sem líður trúarkenningum, mismunandi afstöðu til helgisiða og hvort menn tala um þjóðkirkju, kirkjuna sem stofnun, íslenska kirkju, hina evangelisk-lútersku kirkju, þá er hún ein áhrifamesta stofnun landsins og biskupar hennar áhrifamiklir fulltrúar íslenskrar menningar og þjóðlífs. Ég treysti séra Sigurði Árna sérstaklega vel til að sinna því vandasama embætti. Hann kann þá list að ræða erfið mál af yfirvegun, ræður hans bera vitni djúpri virðingu fyrir starfi sínu og hann nálgast dægurmálin af óttaleysi og segir meiningu sína af hreinskilni og án vafninga. Kirkjan mun þurfa að taka á með öðrum lýðræðislegum öflum landinu við að byggja upp gott og sanngjarnt samfélag hér á landi. Það er alls ekki svo að allt sé hér í kaldakoli. Síður en svo, en gott samfélag er alltaf í mótun. Ég veit að séra Sigurður Árni yrði sem biskup öflugur liðsmaður þeirra afla sem munu halda áfram að móta gott samfélag á Íslandi.

Steindór Haraldsson, kirkjuþingsmaður

Það er mér sönn ánægja að lýsa yfir stuðningi mínum við dr. Sigurð Árna Þórðarson vegna framboðs hans til biskups Íslands.

Við Sigurður Árni erum búnir að þekkjast síðan við vorum ungir menn og með okkur var alltaf góður kunningsskapur. Þegar nýtt kirkjuþing kom fyrst saman eftir síðustu kirkjuþingskosningar vorum við þar báðir í hópi nýrra kirkjuþingsmanna. Það kom fljótlega í ljós að mér fannst auðvelt og ánægjulegt að vinna með Sigurði Árna. Hann tekur mjög vel rökum en er engu að síður mjög stefnufastur.

Við höfum tekist á um málefni og engan þekki ég sem betra er að vera ósammála en Sigurði Árna. Hann tekur umræðum málefnalega og talar rökvíst og vel sínu máli. Hann er vammlaus maður og er hvers manns hugljúfi. Mér líkar vel við í fari Sigurða Árna hversu vel hann skynjar þarfir kirkjunnar á landsbyggðinni og gerir sér grein fyrir ólíkri stöðu og þörfum kirkju í dreifbýli og þéttbýli.

Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson heitinn, fyrrverandi prestur minn hér á Skagaströnd, hefði sagt að Sigurður Árni væri góðum gáfum gæddur, trúmaður góður og mjög hæfur til biskupsdóms. Ég er líka sannfærður um að Sigurður Árni er sá kandídat í íslensku kirkjunni sem allir geta verið mjög sáttir við. Ég tel það nauðsynlegt fyrir Þjóðkirkjuna að nú verði valinn biskup sem er maður sátta og samlyndis eins og Sigurður Árni er. Eins og ekki síður er hans framtíðarsýn mjög í takt við umræðuna um jafnrétti og opna stjórnsýslu.

Ég veit að dr. Sigurður Árni Þórðarson hefur kjark og dug til að takast á við þær nauðsynlegu breytingar í kirkjunni okkar, sem verða að eiga sér stað í nánustu framtíð.

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju Akureyri

Ég skrifa þennan pistil sem einstaklingur og djákni sem styður biskupsframboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, prests í Neskirkju. Mér þykir vænt um að mega og geta skrifað stuðningspistil sem þennan, því ég er þess fullviss að biskupskápan muni klæða Sigurð Árna sérstaklega vel, ef við sem styðjum hann, gerum það á opinskáan, heiðarlegan og umfram allt málefnalegan hátt.

Allt frá því að ég kynntist Sigurði Árna fyrst fyrir rúmum aldarfjórðungi hefur það heillað mig í hans fari að hann vill læra að gera betur, telur sig ekki fullkominn, né yfir það hafinn að taka gagnrýni. Þannig hef ég upplifað Sigurð Árna sem nokkuð lausan við hroka. Því þykja mér orð hans þegar hann talar um þetta trúverðug. Í prédikun fyrir átta árum sagði hann:

Hvað einkennir hinn sjálfhverfa og hrokafulla? Jú, hann eða hún sækir í að vera miðja gæðanna. Annað einkenni er að hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þar, sem eitthvað fer aflaga kemur hinn sjálfhverfi sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. (http://tru.is/postilla/2004/10/hroki-au%C3%B0mykt )

Ég minnist nokkurra góðra samtala sem við áttum þegar við störfuðum saman í Skálholti um það leyti sem Sigurður Árni hvarf þaðan til starfa sem fræðslustjóri á Þingvöllum. Við ræddum um eigin breyskleika og hve mikilvæg þörfin væri að við lærðum að líta í eigin barm og spyrja hvar við gætum bætt hegðun okkar og viðhorf. Þessi samtöl þóttu mér góð og einlæg. Þau rifjuðust upp fyrir mér aftur þegar ég las prédikun Sigurður fyrir fimm árum síðan, þar sem hann sagði m.a.:

Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Margir eru svo sjálfhverfir, að raunveruleg brot geta þeir ekki viðurkennt heldur reiða fram skýringar á aðstæðum sem ollu, reyna að forðast að axla ábyrgð og kenna alltaf öðru eða öðrum um. (http://tru.is/postilla/2006/12/salarthrif-og-idrun )

Þetta er Sigurður Árni eins og hann birtist mér, maður sem er reiðubúinn að axla ábyrgð, maður sem sér sig í stærra samhengi, maður sem sækist eftir hinu gagnrýna samtali, ekki til að breyta öðrum, heldur til að bæta sjálfan sig. Orð hans í prédikun frá síðasta hausti þykja mér styðja þessa sýn mína á hann:

Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullum þunga og ekki hvika í gagnrýnni skoðun. En enginn skyldi fara offari og aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar. (http://tru.is/postilla/2011/09/folk-og-folk )

Það er þessi næmni sem heillar mig við Sigurð Árna. Hann fer hvergi offari, hann elskar til loka og lykta, kemur ástúðlega fram við hvern þann sem til hans leitar og er samferðamaður af heilum hug. Vegferð hans er lituð af þeirri fjölbreytni sem sköpun Drottins hefur upp á að bjóða. Sú fjölbreytni er honum gjarnan yrkisefni í pistlum og prédikunum sínum. Þegar ég les og hlusta á texta hans og horfi á hann tjá sig, skil ég að hér er á ferðinni einstaklingur sem hefur safnað visku í sarpinn. Um þetta skrifaði hann m.a. svo fallega í prédikun fyrir níu árum:

Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við heyjum vel, söfnum kunnáttusamlega og ekki aðeins einhæft til að veturinn verði bærilegri. Í því er viska lífsins fólgin að við söfnum ekki aðeins hinum magaræna og efnislega, heldur auð sem dugar þegar áföllin verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kannski er það fremur – hver er það þá sem stendur þér nærri? ( http://tru.is/postilla/2003/09/vetrarkostur )

Sjálfur svarar Sigurður Árni víða þeirri spurningu á hreinskiptin hátt og ætti engum að dyljast að hann hefur valið Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Af dýpt og einlægni hefur hann líka vitnað um átök sín við skaparann og nýja sýn á vegferð hins trúaða. Um þetta sagði hann í prédikun árið 2004:

Mín lífsglíma skóp algerlega nýja sýn gagnvart Guði. Ég lærði að forgangsraða. Ég lærði að Guð er ekki fjarlægur heimssmiður, ekki löggjafi á himnum sem skipar þér þetta eða hitt, reynir að siða þig eins og krakka eða sendir út í heiminn einhverjar klisjur um að við eigum ekki að stressa okkur. (http://tru.is/postilla/2004/09/slaka%C3%B0u-a-engar-ahyggjur )

Í mínum augum er Sigurður Árni mannasættir. Mér þykir mikilvægt að í biskupsstól sitji einstaklingur sem nær að taka á þeim málum sem upp kunna að koma í kirkjunni á hverjum tíma af einurð, dugnaði og með hugarfari sem flokkar ekki fólk í ,,við og hinir“. Sá sem kynnir sér texta Sigurðar Árna sér fljótlega að kærleiksrík sýn hans á manneskjuna er í anda frelsarans frá Nasaret sem lét ekki hin ósýnilegu landamæri milli þjóðfélagshópa aftra sér. Ég veit að Sigurður Árni talar frá hjartanu þegar hann segir:

Elskið útlendingana var og er boð Guðs. Menn eru börn Guðs, hafa gildi, óháð upphafi, fæðingarstað, kynþætti og þjóð. Elskið – elskið útlendinginn, munaðarleysingjann og ekkjuna. Sem sé elskið öll þau, sem eru á útkantinum, þau sem eru utan miðju samfélagsins. Elskið þau, sem eru valdalaus eða vanvirt, eru án samfélagsgæða, auðlegðar og frægðar. (http://tru.is/postilla/2006/01/elskid-thvi-utlendinginn )

Í þessum pistli hef ég leyft mér að lofa þann ágæta mann sem Sigurður Árni er. Væntanlega þykir einhverjum pistillinn væminn, jafnvel að ég skjóti yfir markið. Bið ég þá hinn sama um að láta Sigurð Árna ekki gjalda fyrir væmnina í mér, heldur einfaldlega að hafa samband við hann sjálfan og spyrja hann spjörunum úr. Það er auðvelt að muna netfangið hans: s@sigurdurarni.is

P.S. Við Sigurður Árni heilsumst gjarnan með orðinu ,,frændi“ en vert er og rétt að hér komi fram að við erum skyldir í sjötta og áttunda lið, þ.e. sameiginlegir áar okkar eru Sigfús Jónsson og Sigríður Halldórsdóttir sem gengu í hjónaband 25. september 1760 og bjuggu síðast sem leiguliðar Hólastóls á Melum í Svarfaðardal.