Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Sigurður Ægisson, sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Þegar herra Karl Sigurbjörnsson biskup lýsti því yfir 12. nóvember síðastliðinn að hann myndi láta af embætti um sumarið 2012, renndi ég í huganum yfir þá kandídata sem mér fannst til greina koma sem eftirmenn hans á stóli. Og þetta endurtók sig næstu daga. Niðurstaðan varð ávallt hin sama. Eitt nafn stóð upp úr, eða öllu heldur gnæfði yfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur undanfarið verið í miklu róti, að ekki sé fastar að orði kveðið, sterkir vindar um hana nætt, og þarfnast nauðsynlega einhvers sem getur komið henni burt úr þeim ólgusjó, hratt og örugglega, rétt kúrsinn og siglt fleyinu áfram, mót komandi tímum.

Ég tel dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju í Reykjavík, vera rétta manninn í verkið. Það byggi ég á yfir 30 ára kynnum mínum af honum. Aldrei hefur neinn skugga borið þar á. Það hefur verið gott að leita til hans, jafnt í gleði sem raun. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, alltaf hreinn og beinn. Og er umhyggjusamur og hollráður.

Hann fylgist vel með umræðu líðandi stundar, er næmur, vökull og réttsýnn. Og guðfræði hans og lífsskoðun er öfgalaus, víðfeðm, björt og hlý. Eins og hann sjálfur.

Sigurður Árni hefur allt það til að bera sem prýða má þann hirði sem verið er að leita að.

Hann tók áskorun minni og fjölmargra annarra og gefur kost á sér. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli

Sigurður Árni Þórðarson útskrifaðist úr Guðfræðideild Háskóla Íslands um leið og ég. Hann kynnti sig strax sem skarpur námsmaður, mikill trúmaður og góður félagi.

Hann hefur aflað sér góðrar menntunar sem nýtast mun vel í þeirri þjóðfélagsrýni sem biskup, andlegur leiðtogi þjóðarinnar, hlýtur að ástunda. Margþætt lífsreynsla hans sem prestur, sem skólamaður og sem manneskja eykur innsýn hans í lífið og gefur honum einnig aukinn styrk og þroska.

Sigurður Árni er viðræðugóður og hlýr persónuleiki sem á gott með hlustun. Hann er mikill unnandi íslenskrar náttúru, er vel máli farinn og hefur glöggt auga fyrir menningarstraumum, íslenskum sem erlendum.

Hann hefur tekist á við fjölbreytileg verkefni í störfum sínum og komið óbrotinn út úr þeim erfiðleikum sem hann hefur mætt í einkalífi sínu. Að þessu samanteknu og fleiru sem minna máli skiptir sé ég í Sigurði Árna góðan leiðtoga sem ég treysti vel til þess vandasama hlutverks að leiða mína kæru kirkju fram á veginn.

Haraldur Ólafsson, prófessor emeritus og fyrrv. alþingismaður

: 233 × 274Ég kynntist fyrst séra Sigurði Árna Þórðarsyni á ráðstefnu í Skálholti fyrir allmörgum árum. Hann stýrði þar umræðum og vakti athygli mína fyrir sköruglega fundarstjórn, vandað málfar og hæfileika til að ræða málin af yfirvegun og sanngirni. Svo liðu árin og allt í einu var hann orðinn sóknarprestur minn. Þá kynntist ég honum á ný, ef svo má segja. Prestarnir við Neskirkju hafa verið samtaka um að gera safnaðarstarfið fjölbreytt og aðlaðandi. Það eru ekki aðeins guðsþjónustur og hin venjulegu embættisverk sem einkenna starfið í kirkjunni. Alla daga virðist sem eitthvað sé þar á seyði til gagns, gamans og uppbyggingar fyrir unga sem aldraða. Þar eð ég ólst upp á kirkjustað er ekki að undra þótt ég kunni vel að meta veitingarnar í safnaðarheimilinu eftir hverja messu.

Kristin kirkja hefur um þúsund ára skeið verið samofin þjóðlífi landsmanna, hvort heldur hún var undir páfa eða evangeliskum biskupum, hvort sem hún var háð konungsvaldi eða afskiptum stjórnmálamanna.  Hvað sem líður trúarkenningum, mismunandi afstöðu til helgisiða og hvort menn tala um þjóðkirkju, kirkjuna sem stofnun, íslenska kirkju, hina evangelisk-lútersku kirkju, þá er hún ein áhrifamesta stofnun landsins og biskupar hennar áhrifamiklir fulltrúar íslenskrar menningar og þjóðlífs. Ég treysti séra Sigurði Árna sérstaklega vel til að sinna því vandasama embætti. Hann kann þá list að ræða erfið mál af yfirvegun, ræður hans bera vitni djúpri virðingu fyrir starfi sínu og hann nálgast dægurmálin af óttaleysi og segir meiningu sína af hreinskilni og án vafninga. Kirkjan mun þurfa að taka á með öðrum lýðræðislegum öflum landinu við að byggja upp gott og sanngjarnt samfélag hér á landi. Það er alls ekki svo að allt sé hér í kaldakoli. Síður en svo, en gott samfélag er alltaf í mótun. Ég veit að séra Sigurður Árni yrði sem biskup öflugur liðsmaður þeirra afla sem munu halda áfram að móta gott samfélag á Íslandi.

Steindór Haraldsson, kirkjuþingsmaður

Það er mér sönn ánægja að lýsa yfir stuðningi mínum við dr. Sigurð Árna Þórðarson vegna framboðs hans til biskups Íslands.

Við Sigurður Árni erum búnir að þekkjast síðan við vorum ungir menn og með okkur var alltaf góður kunningsskapur. Þegar nýtt kirkjuþing kom fyrst saman eftir síðustu kirkjuþingskosningar vorum við þar báðir í hópi nýrra kirkjuþingsmanna. Það kom fljótlega í ljós að mér fannst auðvelt og ánægjulegt að vinna með Sigurði Árna. Hann tekur mjög vel rökum en er engu að síður mjög stefnufastur.

Við höfum tekist á um málefni og engan þekki ég sem betra er að vera ósammála en Sigurði Árna. Hann tekur umræðum málefnalega og talar rökvíst og vel sínu máli. Hann er vammlaus maður og er hvers manns hugljúfi. Mér líkar vel við í fari Sigurða Árna hversu vel hann skynjar þarfir kirkjunnar á landsbyggðinni og gerir sér grein fyrir ólíkri stöðu og þörfum kirkju í dreifbýli og þéttbýli.

Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson heitinn, fyrrverandi prestur minn hér á Skagaströnd, hefði sagt að Sigurður Árni væri góðum gáfum gæddur, trúmaður góður og mjög hæfur til biskupsdóms. Ég er líka sannfærður um að Sigurður Árni er sá kandídat í íslensku kirkjunni sem allir geta verið mjög sáttir við. Ég tel það nauðsynlegt fyrir Þjóðkirkjuna að nú verði valinn biskup sem er maður sátta og samlyndis eins og Sigurður Árni er. Eins og ekki síður er hans framtíðarsýn mjög í takt við umræðuna um jafnrétti og opna stjórnsýslu.

Ég veit að dr. Sigurður Árni Þórðarson hefur kjark og dug til að takast á við þær nauðsynlegu breytingar í kirkjunni okkar, sem verða að eiga sér stað í nánustu framtíð.