Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Þórdís Ívarsdóttir, sóknarnefnd Neskirkju og kennari

Það eru næstum 10 ár síðan ég fór að venja komur mínar í Neskirkju með börnin mín.  Fljótt fundum við hvað það er gott að koma þangað, þar ríkir góður andi og gott starf er unnið þar.  Sigurður Árni hefur með sinni góðu nærveru, áhuga  og næmni átt stóran þátt í að efla og auðga starfið í Neskirkju.  Ég treysti Sigurði Árna til að efla og opna þjóðkirkjuna verði hann biskup. Hann yrði góður leiðtogi kirkju í sókn.

Þórdís Ívarsdóttir í sóknarnefnd Neskirkju og kennari í Melaskóla.

Flosi Kristjánsson, Menntasviði Reykjavíkur

Kynni mín af Sr. Sigurði Árna ná aftur til þess tíma er ég var skólastjórnandi í Vesturbæ og börn hans voru í Hagaskóla.

Ég hef fylgst með honum í starfi við Neskirkju, sem er mín sóknarkirkja, og veit af reynslunni að þar fer maður sem á gott með að ná til breiðs hóps sóknarbarna, bæði þeirra sem sleppa aldrei úr messu og þeirra sem koma sjaldnar. Hann talar beint til safnaðarins og varpar fram spurningum sem fólk þarf að svara og getur auðveldlega fundið svör við.

Hef þegið frá honum góð ráð, ábendingu sem var ekki patentlausn heldur leiðsögn um skref sem þyrfti að taka. Sr. Sigurður Árni hefur í sér hirðis-gen og leysir vel af hendi sitt starf sem hlustandi og ráðgjafi. Svona mann þurfum við í forystu kirkjunnar á nýrri öld.

Hannes Örn Blandon, sóknarprestur Laugalandsprestakalli, Eyjafirði

Það mér ánægjuefni að ganga fram á ritvöllinn til að veita sr. Sigurði Árna til Biskups Íslands. Sr Sigurð hef ég þekkt lengi af góðu einu. Við kynntumst í deildinni forðum og greindu menn glöggt að þar fór snemma efnilegur guðfræðingur. Sigurður gerðist síðan farsæll prestur ef ekki vinsæll án þess að verða populisti. Þá er hann aukinheldur einn doktor sem ekki mun skaða. Sr Sigurður er góður ræðumaður, flytur lýsandi og skírar predikanir, er ágætur brúarsmiður í forbífarten ekki sakar að hann kann að vera skemmtilegur í leiðinni.

Hann er alþýðlegur og heimsborgari í senn ekki ósvipaður dr Þóri Kr. heitnum og er ekki leiðum að líkjast. Mildur en fastur fyrir, kann að vera orthodox án þess að vera um of en jafnframt óvenju liberal sem gamall kfummari.

Ég trúi því að hann búi yfir þessum mjúku stjórnunarhæfileikum er nú reynir á á erfiðum tímum. Ég treysti þessari fallegu sál fyir hinu stóra embætti biskups Íslands og tel að ekki verði ónýtt að hvíla í faðmi hans og þá meina ég auðvitað hinum kirkjulega faðmi.

Með frómum óskum.

Hannes Blandon

Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, stjórnmálafræðingur

Þegar ég kynntist Sigurði Árna fyrst var hann mannsefni Elínar vinkonu minnar. Síðan þá hef ég notið þess að fylgjast með þeim feta veginn saman og fann fljótlega vin í Sigurði Árna. Óhjákvæmilega sækja ýmsar spurningar á hugann þegar vinur manns tekur þá ákvörðun að bjóða sig fram til krefjandi þjónustu við almenning. Mikilvægustu spurningarnar snúa að því hvort sú ákvörðun sé til heilla fyrir hann sjálfan og þá hvort hún sé til heilla fyrir þjóðina. Báðum spurningum þarf að svara játandi til að geta með góðri samvisku óskað þess að vinurinn sé kallaður til þjónustunnar. Nú þegar Sigurður Árni hefur líst sig reiðubúinn til biskupsþjónustu hef ég spurt mig þessarra spurninga og svarað þeim játandi. Ég sé hann ekki einungis vel reiðubúinn heldur líka vel nestaðan af hæfileikum, þroska og reynslu sem gerir hann kjörinn til forystu innan þjóðkirkjunnar. En ákvörðun Sigurðar Árna hefur líka fengið mig til að íhuga hvers ég vænti af biskupi Íslands og hvernig ég sjái vininn uppfylla þær væntingar. Eftirfarandi eru þau atriði sem ég kýs að draga sérstaklega fram varðandi þær væntingar:

  • Þjónustulund og gestrisni eru mikilvægar eigindir þess sem þjónar og dýrmætar þeim sem af þiggur. Sigurður Árni býr yfir þeim eigindum í ríkum mæli.
  • Biskup þarf að finna sterkt til samhygðar með fólki. Hann þarf að hafa innsýn í þau innri átök sem fólk þarf að glíma við hvort sem er á vettvangi vinnustaða, heimila eða hins opinbera. Lífsreynsla og prestsþjónusta Sigurðar Árna hefur skilað honum nauðsynlegri hluttekningu með fólki.
  • Biskup þarf að eiga hreinskiptið og innihaldsríkt samtal við þjóð sína. Sigurður Árni er vel lesinn, fylgist vel með samfélagsmálum og á auðvelt með að tjá hugsanir sínar bæði í ræðu og riti. Prédikanir hans sem hann notar oft til að spegla málefni líðandi stundar, eru bæði lifandi og áhugaverðar.
  • Biskup þarf að get óhikað rætt málefni sem tekist er á um í samfélaginu. Sigurður Árni býr yfir slíkri áræðni eins og sést m.a. í því hvernig hann hefur á undanförnum árum tjáð stuðning sinn við samkynhneigða og þolendur kynferðisofbeldis. Þá hefur hann einnig talað skýrt fyrir jafnrétti kynjanna.
  • Síðast en ekki síst á þjónusta biskups að vera fólgin í því að blása mönnum í brjóst bjartsýni og trú á lífið. Sigurður Árni býr yfir þeirri blöndu af hrifnæmi og einlægni sem til þarf. Hann á auðvelt með að sjá fegurðina í lífinu og umhverfinu. Þar eru töluð orð og skrifuð ekki einungis kölluð til vitnis, heldur ljósmyndir hans sem ná að fanga augnablikin – stað og stund – á listrænan og fallegan hátt.

Eftir íhugun veitist mér létt að óska íslensku þjóðinni þess að hún fái notið biskupsþjónustu Sigurðar Árna Þórðarsonar.

Sigurður Ægisson, sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Þegar herra Karl Sigurbjörnsson biskup lýsti því yfir 12. nóvember síðastliðinn að hann myndi láta af embætti um sumarið 2012, renndi ég í huganum yfir þá kandídata sem mér fannst til greina koma sem eftirmenn hans á stóli. Og þetta endurtók sig næstu daga. Niðurstaðan varð ávallt hin sama. Eitt nafn stóð upp úr, eða öllu heldur gnæfði yfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur undanfarið verið í miklu róti, að ekki sé fastar að orði kveðið, sterkir vindar um hana nætt, og þarfnast nauðsynlega einhvers sem getur komið henni burt úr þeim ólgusjó, hratt og örugglega, rétt kúrsinn og siglt fleyinu áfram, mót komandi tímum.

Ég tel dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju í Reykjavík, vera rétta manninn í verkið. Það byggi ég á yfir 30 ára kynnum mínum af honum. Aldrei hefur neinn skugga borið þar á. Það hefur verið gott að leita til hans, jafnt í gleði sem raun. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, alltaf hreinn og beinn. Og er umhyggjusamur og hollráður.

Hann fylgist vel með umræðu líðandi stundar, er næmur, vökull og réttsýnn. Og guðfræði hans og lífsskoðun er öfgalaus, víðfeðm, björt og hlý. Eins og hann sjálfur.

Sigurður Árni hefur allt það til að bera sem prýða má þann hirði sem verið er að leita að.

Hann tók áskorun minni og fjölmargra annarra og gefur kost á sér. Það er sannarlega fagnaðarefni.