Við höfum þekkt Sigurð Árna og umgengist í nokkur ár, en það var ekki fyrr en hann skírði son okkar og við fluttum á Melana að við kynntumst honum almennilega. Sigurður Árni er hlýr og hjálpsamur maður, eins og góðum presti sæmir. En hann er ekki bara prestur. Nálgunin er ekki síður heimspekileg. Guðsþjónusta hans miðar að skilningi á tilverunni og stöðu mannsins í henni. Þó trúarlegu gildin séu ávallt í forgrunni eru ræður hans lausar við skrúðmælgi og tilgerð; Svipa meira til samtals en predikunar. Áherslan er lögð á inntakið en ekki formið. Þannig á boðskapur hans erindi við fólk og hefur raunverulega merkingu. Með samprestum sínum hefur honum tekist að byggja upp opið og lifandi samfélag í kringum Neskirkju þar sem allir fá tækifæri til að hlúa að trúnni og rækta sinn innri mann.
Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir
Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.
Valborg Þóra Snævarr, hæstaréttarlögmaður, Seltjarnarnesi
Ég varð afskaplega glöð þegar ég heyrði af framboði dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar til biskups og varð að orði að það væri besti kostur sem ég gæti hugsað mér. Ástæða þess er viðsýni hans, fordómaleysi, hlýja og gáfur. Þetta skynjar maður sterkt strax við fyrstu viðkynningu. Gæska, en jafnframt virðuleiki, streymir frá manninum.
Ég kynntist Sigurði Árna persónulega er hann annaðist útför föður míns, prófessor Ármanns Snævarr, en það var ósk hans að Sigurður Árni fylgdi sér síðasta spölin og héldi utan um hópinn sinn við þær erfiðu aðstæður. Voru þeir vinir góðir og ríkti gagnkvæm virðing þeirra á milli, þrátt fyrir all nokkurn aldursmun. Varð Sigurður við þeirri beiðni þrátt fyrir að vera í námsleyfi á þessum tíma. Allir sem viðstaddir voru athöfnina höfðu á orði hversu ljúfmannlega, fallega en jafnframt virðulega presturinn kvaddi hinn látna og veitti styrk þeim sem syrgðu.
Fjölskyldunni reyndist hann einstaklega vel undir þessum kringumstæðum. Sjálf átti ég erfitt í sorg minni og leitaði ítrekað til hans – stuðningur hans var mér ómetanlegur og ég tel mig hafa kynnst kostum hans afar vel á þessum tíma.
Það er mín bjargfasta trú að íslenska þjóðin þurfi mann eins og Sigurð Árna í forystusveit, mann sem hefur þá eiginleika til að bera sem hann hefur. Kirkjan á að koma inn sem sterkur aðili til uppbyggingar þjóðarinnar á erfiðum tímum og þá þarf nýja menn, með nýja hugsun – framsýni, víðsýni og fordómaleysi að leiðarljósi. Ég er sannfærð um að dr. Sigurður Árni er sá maður og get tekið undir hvert orð í stefnuskrá hans í tilefni biskupskjörs.
Sigurvin Jónsson, æskulýðsprestur og stundakennari við Háskóla Íslands
Ég kynntist dr. Sigurði Árna Þórðarsyni fyrir 6 árum þegar ég hóf störf í Neskirkju við Hagatorg. Sigurður Árni hefur á þessum árum verið mér fyrirmynd í starfi, uppspretta fræða, náinn vinur og öflugur hvetjandi leiðtogi. Á okkar fyrsta fundi fór Sigurður að hrósa mér fyrir bjart yfirbragð og hláturmildi og man ég að viðbrögð mín við hóli hans voru blendin. Mér þótti hálft í hvoru óþægilegt að vera hrósað á þennan hátt en leyfði mér að trúa einlægni orða hans. Mér hefur lærst af samstarfi okkar og vináttu að þessi fyrstu viðbrögð Sigurðar, að draga fram það jákvæða í mínu fari og nefna það, eru honum eðlislæg. Leiðtogastíll Sigurðar Árna felst í því að hlusta á og greina fólkið sem er honum samferða, að laða fram það besta í samstarfsfólki sínu með því að lyfta upp kostum þeirra og hjálpa því að láta galla sína ekki þvælast fyrir.
Ég tel að dr. Sigurður Árni sé kallaður til að verða biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Sú sannfæring mín byggir á mörgum þáttum en ég vil draga fram þrennt sem ég tel að muni verða kirkju og þjóð til heilla.
Framsýnn.
Sigurður Árni er framsýnn leiðtogi. Hugmyndir hans um framtíð kirkjunnar byggja á mannvirðingu og elsku. Hann hefur djúpan skilning á því að framtíð þjóðkirkjunnar veltur á því hvernig kirkjan sinnir börnum, unglingum og ungum fjölskyldum. Öflugt æskulýðsstarf og barnakórastarf dregur fjölskyldur til kirkjunnar og kallar ungt fólk til að láta sig kirkjuna varða. Sem biskup mun Sigurður Árni reynast málsvari æskulýðsstarfs innan kirkjunnar. ,,Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar (SÁÞ)“
Fræðimaður.
Dr. Sigurður Árni er mikilsvirtur fræðimaður á sviði guðfræði, öflugur greinandi og framúrskarandi fræðari. Aukið menntunarstig þjóðarinnar kallar á að fyrir kirkjunni fari maður sem hafi getu til og áhuga á að fjalla um guðfræði og samfélag á öllum sviðum umræðu. Kirkja og háskóli eiga samleið og til að kirkjan geti átt í öflugu og lifandi samstarfi við háskólasamfélagið þarf kirkjan á fræðimanni að halda. Sem guðfræðingur er dr. Sigurður Árni óhræddur við að takast á við ögranir nútímafræða og óþreytandi í að draga fram það besta sem íslensk kirkjuhefð hefur fram að færa.
Fráskilinn.
Sem sálgætir og prestur nálgast Sigurður Árni fólk af djúpstæðri visku. Viska hans er sprottinn af þeirri eftirsóknarverðu reynslu að hafa unnið sig farsællega úr vonbrigðum og áföllum lífsins. Sigurður Árni ber ekki yfirbragð þess sem aldrei hefur reynt erfiðleika og leyfir sér því að setja sjálfan sig á háan hest gagnvart öðrum. Þvert á móti mætir hann fólki í erfiðum aðstæðum sem jafningi og vinur og vinnur starf sitt af mikilli fagmennsku. Það hef ég sjálfur reynt og orðið margoft vitni að á okkar vinnustað.
Þau hjón, Elín Sigrún og Sigurður, eiga fallegt heimili og þar eru gestir umvafðir hlýju og kærleika. Heimilið ber þeirra fegurstu kostum vitni. Fuglafóður og ávaxtatré í garðinum bera vott um djúpa virðingu fyrir náttúru og umhverfisvernd, listaverk þeirra og bækur veita innsýn í menningarþorsta, leikföng á stangli sýna að þar er rými fyrir börn og gestrisni þeirra endurspeglar sanna mannelsku.
Ég styð dr. Sigurð Árna Þórðarson til biskupsþjónustu.
Gréta Björgvinsdóttir
Þegar nafn Sigurðar Árna Þórðarsonar var nefnt í sambandi við biskupskjör hugsaði ég með mér; “ Já, hann hefur svo sannarlega það sem til þarf í það embætti: sanngjarn, heiðarlegur og fylginn sér. Svo er hann mjög nærgætinn og hjartahlýr“.
Það er svolítið sérstakt hvernig okkar kynni komu til og ég trúi ekki á tilviljanir. Fyrir um 8 árum missti ég pabba minn. Stuttu síðar skruppum við hjónin í vetrarsólina á Kanaríeyjum. Í sömu ferð voru þau Sigurður og Elín, í sama tilgangi, sorgarúrvinnslu eftir móðurmissi beggja. Mér er það minnisstætt þegar við settumst saman í matsalnum á hótelinu, þreytt og tætt eftir flugið og fórum að spjalla saman. Þannig hófst okkar vinskapur.
Sigurður Árni er þolinmóður maður og hlustar vel. Það fékk ég að reyna þegar ég þurfti nauðsynlega á hjálp að halda með erfið mál sem ég hafði glímt við allt of lengi. Þá kynntist ég prestinum og sálgæsluhæfni vinar míns. Þetta var fyrir nokkrum árum og ég er honum svo innilega þakklát fyrir þá hjálp sem hann veitti mér þarna. Það var ekki skyndilausn heldur varanleg niðurstaða.
Það er tæpast hægt að tala um Sigurð án þess nefna Elínu. Þau eru samrýnd hjón, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það vita þeir sem þau þekkja. Þau eiga fallegt hjónaband og styðja hvort annað. Með eindæmum hláturmild og gott að vera í kring um þau. Svo má ég til með að nefna það hér að mér finnst alltaf svo ljúft þegar menn tala fallega um móður sína og eiginkonu. Ég kann að meta það.
Hörður Áskelsson, organisti og kantor Hallgrímskirkju
Sem organisti hef ég margsinnis tekið þátt í helgihaldi með séra Sigurði Árna Þórðarsyni, bæði við messur og aðrar athafnir. Það er mér ljúft að segja frá því hve ánægjulegt það samstarf hefur verið í hvívetna. Sigurður Árni er jákvæður, opinn og hvetjandi í öllu samstarfi, hann er næmur á hið listræna, hefur góðan skilning á gildi og hlutverki tónlistarinnar. Hann er einlægur stemningsmaður og gefur mikið af sér til að helgihaldið nái að grípa þátttakendur, eitthvað sem leggur grunn að skapandi og góðu samstarfi prests og organista. Í prédikuninni tekst honum að blanda saman fræðandi útleggingu á Ritningunni og grípandi skírskotun til samtímans, sem höfðar sterkt til áheyrandans. Í prestsþjónustu sinni við skírnir, hjónavígslur og jarðarfarir er Sigurður til fyrirmyndar. Hann leggur sig fram um að setja sig vel inn í aðstæður fólksins sem í hlut á, er ósérhlífinn og gefur öllum þann tíma, sem þeir framast þurfa.
Það sem ég met mest í fari Sigurðar er sá hvetjandi áhugi sem hann sýnir samstarfsfólki sínu og skjólstæðingum, hve hann er góður hlustandi, hreinskilinn og hreinskiptinn í öllum samskiptum.
Sigurður starfaði sem prestur við Hallgrímskirkju haustið 2003. Áður hafði hann starfað sem söngvari í Mótettukór Hallgrímskirkju undir minni stjórn. Í preststíð sinni við Hallgrímskirkju tók hann virkan þátt í listastarfi Listvinafélags Hallgrímskirkju með hugmyndaríkum tillögum á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar.
Ég tel séra Sigurð Árna Þórðarson hafa þá hæfileika, menntun, reynslu og mannkosti sem nauðsynleg eru til að gegna embætti Biskups Íslands. Hann mun í því starfi njóta ýmissa eðliskosta sinna sem eru m.a.: Trúarsannfæring, hæfni í mannlegum samskiptum, skipulagsgáfur, leiðtogahæfileikar, traust til samstarfsaðila (kann að treysta öðrum fyrir verkefnum), hreinskilni, hreinskiptni, myndugleiki, kímnigáfa, verkgleði, hrósgleði og mikil útgeislun í helgiþjónustu. Með séra Sigurði myndi þjóðkirkjan fá góðan biskup.