Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Magnús Lyngdal Magnússon, aðstoðarforstöðumaður Rannís

Sigurður Árni Þórðarson er ákaflega vandaður maður; góðgjarn, réttsýnn og traustur. Ég kynntist honum fyrir um það bil 15 árum þegar við sungum saman í Mótettukór Hallgrímskirkju og fékk strax mætur á honum. Við ræddum gjarnan saman um aðskiljanlega hluti – stóra og smáa – og ég fann strax að þar fór reyndur og lífsglaður maður sem var óhræddur við að velta upp álitamálum og ræða þau af skynsemi og yfirvegun, jafnt út frá eigin brjósti og um leið með því að hlusta á innlegg og reynslu annarra. Ég tek það fram að ég er ekki skráður í þjóðkirkjuna en hún er auðvitað stærri hluti af sögu okkar og samfélagi en svo að hún skipti mig ekki máli. Ég tel einmitt að mannkostir Sigurðar Árna muni nýtast vel við að endurvinna traust og stöðu kirkjunnar í samfélaginu; það verkefni verður ekki auðvelt en ég treysti fáum betur til að leysa það farsællega en Sigurði Árna Þórðarsyni.

Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson, sóknarprestar

Nú eru framundan á næstu dögum biskupskosningar hjá Þjóðkirkjunni. Þetta eru mikil tímamót, margt gott fólk gefur kost á sér og er ástæða til að fagna yfir þeim áhuga.

Við hjónin höfum tekið þá ákvörðun að styðja dr. Sigurð Árna Þórðarson prest í Neskirkju. Við höfum þekkt Sigurð Árna áratugum saman. Hann var æskulýðleiðtogi og foringi í KFUM starfi sem Bjarni sótti sem unglingur, einnig var hann heimilisvinur í Laufási á bernskuheimili Jónu Hrannar þegar hann var þjónandi prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Í gegnum tíðina höfum við síðan sem kollegar átt marga snertifleti í starfinu og átt ótal innihaldsríkar samræður um kirkju, trú og samfélag. Þar höfum við lengi skynjað að við eigum sameiginlega kirkjusýn með sr. Sigurði Árna. Hann leggur jafnan áherslu á að kirkjan sé fólk af holdi og blóði sem vill einfaldlega vera samferða Jesú Kristi á lífsveginum. Í hans augum er kirkjan ekki valdastofnun heldur mannlífstorg þar sem enginn er yfir annan settur heldur lúta öll einum Guði og koma saman til þess að þekkja hvert annað betur og vera samfélagi sínu til góðs. Sigurði Árna Þórðarsyni er umhugað um að kirkjan sé þátttökukirkja þar sem hver og einn hafi hlutverk og kjarkur fólks í lífsbaráttunni sé efldur.

Það er hvílandi að vera samvistum við Sigurð Árna því hann er ekki valdsins maður og hefur þann hæfileika að íhuga góð ráð og hlusta með virkum hætti.

Kirkjan í landinu hefur farið í gegnum margvíslegar raunir á undanförnum árum á sama tíma og safnaðarstarf í landinu hefur staðið með meiri blóma en jafnan í sögunni. Það segir manni það að þótt mannanna verk geti verið skeikul þá heldur heilagur andi Guðs áfram að starfa og vekja fólk til góðra verka.

Nú er brýnt að fá biskup sem er góður hirðir og manna sættir til þess að sá fræjum mildi og samstöðu. Sigurður Árni á til að bera langþróaða umhyggju og skilning á mannlífinu, hann er reynsluríkur í persónulegu lífi, sjóaður prestur og sálgætir og frábær prédikari og guðfræðingur.

Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll að þjóðkirkjan finni nú trúverðuga samleið með þjóðfélaginu og sem aldrei fyrr þarf íslenskt samfélag á prédikurum að halda sem minna þjóðina á ábyrgð einstaklingsins og virðinguna fyrir mannréttindum og öllu sem lifir með smekkvísum og umhyggjusömum hætti. Þar vitum við af langri reynslu að Sigurður Árni er farsæll og fundvís á leiðir, teljum við hann fremstan meðal jafningja í þeim góða hópi sem nú gefur kost á sér til embættis biskups Íslands og hvetjum kjörmenn til þess að kjósa hann.

Birt á Hjónabloggi þeirra Jónu Hrannar og Bjarna á eyjan.is.

Tinna Guðjónsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur og nemi í HÍ

Meðal fólks um þrítugt er mikil umræða um hvort rétt sé að segja sig úr þjóðkirkjunni og hvort rétt sé að láta skíra barnið sitt til kristinnar trúar. Jafnvel verður ungt fólk sem ekki vill skrá sig úr þjóðkirkjunni fyrir þrýstingi frá hópi sem er mjög hlynntur úrsögnum úr þjóðkirkjunni. Því tel ég að í nútímasamfélagi sé sérstaklega mikilvægt að hæfur maður veljist í biskupsembættið.

Eitt af því sem einkennir Sigurð Árna er hve mikils hann virðir skoðanir annarra. Ég hef orðið vitni að því hvernig hann hlustar með athygli og ég trúi að hann geti átt samræður um trúmál á jafningjagrundvelli við hvern þann sem við hann talar. Hann er víðsýnn og fordómalaus og einn þeirra sem stóð að opnun heimasíðunnar www.einhjuskaparlog.is. Sigurður Árni er mikill mannvinur. Ég hef séð að börn finna það líka og treysta honum og bera virðingu fyrir honum. Og hann ber virðingu fyrir þeim. Hann er svo heppinn að eiga börn á öllum aldri og hefur einstakt lag á að ræða af virðingu við börn og fólk á öllum aldri. Ég sá það skýrt þegar ég fylgdist með honum stjórna fjölmennri barnamessu nú í desember.
Ég hef fylgst með honum annast útfarir náinna ættingja minna og það gerði hann einstaklega vel. Það veitir syrgjendum ró að virðing og hlýja einkenni starf prestsins sem annast útförina.

Fyrst og fremst hef ég trú á að Sigurður Árni sé traustsins verður og geti eflt starf þjóðkirkjunnar og snúið starfi þjóðkirkjunnar úr vörn í sókn.