Kirkjan, eins og margar aðrar stofnanir samfélagsins, gengur gegnum umbrot, uppbrot og uppgjör. Hún hefur alltof lengi verið þolandi aðstæðna í stað þess að skapa sér eigin framtíð. Kirkjan þarf framsýnan leiðtoga sem leiðir hana af öryggi inn í nýja tíma. Kirkjan þarf leiðtoga sem þekkir aðstæður og þarfir fólks um allt land. Ég hef þekkt Sigurð Árna frá barnæsku. Ég trúi því að hann sé þessi leiðtogi.
Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir
Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.
Sesselja Thorberg, hönnuður
Fyrir um áratug fluttum við hjónin í Vesturbæinn. Okkar leið lá í messu í Neskirkju. Við fengum hlýjar og góðar móttökur og Sr. Sigurður Árni tók okkur opnum örmum. Það var að mörgu leiti fyrir hans tilstuðlan að við ákváðum að mæta reglulega í messu. Öll umgjörð í Neskirkju er svo notaleg, starfsfólkið er yndislegt og söfnuðurinn einstaklega vinalegur. Sr. Sigurður hefur séð um skírn, fermingu, giftingu og uppherslu hjá okkar fjölskyldu. Sr. Sigurður gefur sig allan í starfið, er fullur eldmóði og hefur mikinn áhuga á því sem hann tekur sér fyrir hendur í starfi. Hann er til sóma fyrir Neskirkju og starfstéttina.
Sr. Sigurður er hugsjónamaður, kemur vel fyrir og er samkvæmur sjálfum sér. Sr. Sigurður klárar verkið. Fólki líður vel í kringum Sr. Sigurð og ber traust til hans.
Þannig persónu vil ég sjá sem biskup Íslands.
Þórhallur Sigurðsson, arkitekt
Góður vinur minn Sigurður Árni hefur ákveðið að bjóða sig fram til biskupsþjónustu. Ég kynntist Sigurði Árna og Elínu eiginkonu hans fyrir 5 árum síðan, sem nágrönnum á Tómasarhaganum og foreldrum Ísaks og Jóns Kristjáns sem þá voru í leikskóla með syni mínum. Kunningsskapur varð að vináttu.
Þær eru ófáar stundirnar sem fjölskyldur okkar hafa eytt saman, heima fyrir og að heiman, og rætt um allt milli himins og jarðar, trúarbrögð, kreppu, fótbolta, siðferði, barnauppeldi, matargerð og önnur mikilvæg málefni. Þessar samverustundir hafa gefið mér góða mynd af manneskjunni Sigurði Árna, Elínu og börnunum. Sigurður Árni býr yfir þeim eiginleikum sem ég tel að biskup í nútímasamfélagi eigi að búa yfir. Hann er opinn, jákvæður, hlýr og gott ef ekki eilítið róttækur.
Það er deginum ljósara að þjóðkirkjan þarf að endurnýja sjálfsmynd sína þannig að hún endurspegli það nútímasamfélag sem hún er hluti af. Ef kirkjan hefur hug á að styrkja tengsl sín við þorra þjóðarinnar verður hún að vilja og þora að sækja fram á við með opnu hugarfari. Ég tel að Sigurður Árni hafi ekki bara viljann og þorið heldur einnig getuna til að leiða það verðuga verkefni.
Sigurður Árni lætur sig varða fólk og samfélag, hann er til staðar. Hann spyr áleitinni spurninga og einn ríkasti mannkostur hans er að hann hlustar. Að spyrja og hlusta er í mínum huga það sem á að standa efst á blaði í starfslýsingu verðandi biskups. Sigurður Árni lætur til sín taka þar sem þess er þörf og ber þátttaka hans í samfélagsumræðunni þess glöggt vitni. Hann er í góðu jarðsambandi sem verður að teljast ótvíræður kostur hjá kirkjunnar manni.
Ég veit að Sigurður Árni er reiðubúinn til þess að takast á við þau krefjandi verkefni sem kirkjan á Íslandi stendur frammi fyrir. Ég vona að kirkjan sé reiðubúin fyrir Sigurð Árna.
Sr. Guðni Þór Ólafsson og Guðrún Lára Magnúsdóttir
Það er jákvætt skref að sr. Sigurður Árni Þórðarson hefur gefið kost á sér í biskupskjöri 2012. Það er líka svo margt jákvætt við manninn Sigurð Árna. Við hjónin höfum kynnst því vel af eigin raun að hann er mörgum góðum kostum búinn til starfa fyrir kristni í landinu. Góðir leiðtogahæfileikar, samfara sjálfsgagnrýni, hógværð og næmni á annað fólk og líðan þess. Hann hefur fjölþætta reynslu af starfi fyrir kristnina í sveit og borg og í stofnunum kirkjunnar, og hefur farnast vel á þeim vettvangi.
Sigurður er maður sem lætur mann finnast að það sé hlustað á mann, og við erum þeirrar skoðunar að hann eigi erindi í þetta embætti. Við höfum oft séð að hann á auðvelt með að hafa frumkvæði, laðar fólk til samstarfs og uppbyggilegra verka og hlúir að því sem horfir til góðs í umhverfinu, bæði með uppörvun og bæn.
Við makamissi, sem við bæði höfum gengið í gegnum, var hann annar þeirra presta sem leitað var til, og vó þar þyngst sú nærgætni í samfylgd sem honum hafði tekist að sýna sem vinur í reynd. Að öllum öðrum ólöstuðum, sem við erum þakklát fyrir. Þá liðveislu leysti hann vel af hendi og gerir enn, að segja má.
Makinn hefur líka stórt hlutverk í þessu embætti, og þar er Elín Sigrún Jónsdóttir valin kona í sessi. Mannkostamanneskja og full af gleði og áhuga á því sem hún vinnur að. Fylgin sér í þeim verkum sem hún tekur sér fyrir hendur.
Nú höfum við hlaðið miklu lofi á þau hjón, en enn má bæta við og benda á þau eru góðir gestgjafar og afbrags kokkar. Hefur Nessöfnuður og fleiri fengið að njóta þess með svokölluðum Biblíumáltíðum, sem þau hafa boðið til í safnaðarheimili kirkjunnar. Þetta er nefnt sem dæmigert framtak og lýsandi fyrir það sem að ofan er sagt. Við viljum að sr. Sigurður Árni verði næsti biskup.
Inga Rós Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar
Sigurði Árna kynntist ég fyrst þegar hann tók sæti í stjórn Kirkjulistahátíðar sem fulltrúi biskups árið 2001. Hann kom strax fram með ferskar hugmyndir og var tilbúinn að gefa bæði tíma sinn og mikla vinnu í að þær gætu orðið að veruleika.
Á þeirri hátíð skipulagði hann Málþing um kirkjuarkitektúr ásamt Kristjáni Vali Ingólfssyni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Málþingið var tvískipt- Rýmið í kirkjunni og Íslenskar kirkjur í samtíð og sögu og var boðað til þingsins til að ræða gerð, tilgang og skipan kirkna og hönnun nýrra íslenskra kirkna. Þetta glæsilega málþing bauð upp á 13 fyrirlestra og var Arne Sæther, einn helsti ráðgjafi norsku þjóðkirkjunnar í kirkjuarkitektúr gestur hátíðarinnar. Sigurður Árni flutti sjálfur fyrirlestur undir yfirskriftinni Heilagur, heilagur en hvar?
Kirkjulistahátíð átti því láni að fagna að hafa Sigurð Árna aftur í framkvæmdastjórn hátíðarinnar 2003 og settu hugmyndir Sigurðar Árna sterkan svip á þá hátíð.
Hæst stendur hin metnaðarfulla dagskrá Passíusálma+, sem Sigurður Árni skipulagði og hafðí umsjón með. Þar fékk hann 15 íslensk ljóðskáld til að yrkja í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar, en hugleiðingar um gildi sálmanna og lífsmátt þeirra í samtíð okkar var aðalviðfangsefni skáldanna. Eftirfarandi skáld tóku þátt í Passíusálma+ og fluttu eigin ljóð: Matthías Johannessen, Sigurbjörg Þrastardóttir, Hjörtur Pálsson, Baldur Óskarsson, Kristján Valur Ingólfsson, Andri Snær Magnason, Þórarinn Eldjárn, Vilborg Dagbjartsdóttir, Sigurður Pálsson, Þóra Jónsdóttir, Jón Bjarman, Ísak Harðarson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Kristján Þórður Hrafnsson og Ingibjörg Haraldsdóttir.
Passíusálma+ féll í svo góðan jarðveg, að dagskráin var endurtekin á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju ári síðar og hefur verið rætt um að gefa ljóðin út síðar.
Annar stór dagskrárliður á Kirkjulistahátíð 2003 naut góðs af hugmyndaauðgi Sigurðar Árna, þegar hann tók þátt í að skipuleggja málþingið Trúlega Bergman, sem haldið var í samvinnu við Deus ex cinema og Kvikmyndasafn Íslands. Trúlega Bergman dagskráín var þrískipt, þar sem rætt var um trúarstef í kvikmyndum Ingmars Bergmans og kvikmyndir hans sýndar, en fyrirlesarinn Maarit Koskinen, einn frægasti Bergmanfræðingur heims var heiðursgestur málþingsins. Sigurður Árni var þar meðal umræðustjóra málþingsins, sem tókst afar vel.
Þá kom Sigurður Árni einnig með ferskan blæ inn í tónlistarandaktir hátíðarinnar.
Frábærir skipulagshæfileikar og smitandi áhugi Sigurðar Árna réðu miklu um hve vel tókst að koma metnaðarfullum hugmyndum í framkvæmd. Hjónin Elín Sigrún og Sigurður veittu hátíðinni ómetanlegan stuðning með óeigingjörnu vinnuframlagi, metnaði fyrir hönd hátíðarinnar, víðsýni, gleði og uppörvun til allra sem tóku þátt. Ánægjulegt samstarf við Sigurð Árna fyrir Kirkjulistahátíð lagði grunn að vináttu sem styrkst hefur með ári hverju.
Það er trú mín að íslenska þjóðkirkjan eigi eftir að ganga inn í vor endurnýjunar undir styrkri handleiðslu Sigurðar Árna í starfi Biskups Íslands.