Dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju býður sig fram til embættis biskups Íslands. Ég styð það framboð heilshugar og hef þannig trú á þeim mæta manni til að leiða þjóðkirkjuna í ólgjusjó nútímans. Ég kann vel við áherslur frambjóðandans hvað snertir barna-og ungmennastarf innan kirkjunnar. Það er mikilvægt starf. Dr. Sigurður er málsnjall og hugsandi maður og býr yfir röggsemi og mýkt í senn. Hann hefur því að mínu mati alla burði til að leiða fólk saman kirkjunni til heilla og blessunar.
Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir
Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.
Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn
Mikið var ég glöð þegar Sigurður Árni Þórðarson sagði mér að hann ætlaði að bjóða sig fram til þjónustu sem biskup Íslands. Ég tel að sá ágæti maður Sigurður Árni hafi svo margt fram að færa fyrir kirkjuna okkar, hann er vel lesinn eins og sagt er og horfir til framtíðar. Það sem kirkjan þarf er leiðtogi sátta og sameiningar með ríka réttlætiskennd og í það verkefni er Sigurður Árni vel hæfur. Síðast en ekki síst er hann afskaplega hlýr maður sem veitir fólki og málefnum fulla athygli. Ég treysti Sigurði Árna til þeirrar mikilvægu og vandasömu þjónustu sem biskup Íslands gegnir.
Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn.
Fjóla Haraldsdóttir, djákni í Lágafellskirkju
Framundan eru tímamót í þjóðkirkjunni þegar kosið verður til embættis biskups Íslands. Kirkjan þarf á öflugum, hæfileikaríkum og sterkum trúarleiðtoga að halda. Hún þarf líka leiðtoga sem hefur metnað til góðra verka og vilja til að laða fram það besta úr þeim mannauði sem í kirkjunni býr. Að mínu mati, hefur sr. Sigurður Árni þessa leiðtogahæfileika.
Ég styð sr. Sigurð Árna í embætti biskups Íslands, því ég trúi að viðmót hans, hæfileikar, orðsnilli, skilningur og metnaður skili þjóðkirkjunni því sem hún þarf til að vaxa og eflast um ókomna tíð.
Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri
Við sem látum okkur annt um kirkjuna lítum nú til þess að tímar endurnýjunar eru framundan. Kirkjan mun á næstunni velja sér biskup til forystu. Einvalalið lærðra og leikra hefur kosningarrétt , m.a. formenn sóknarnefnda sem fulltrúar okkar óbreyttra kirkjugesta, prestar og ýmsir aðrir starfsmenn kirkjunnar.
Við sem ekki erum á kjörskrá ættum samt að láta okkur málið varða, taka málefnalega afstöðu til frambjóðenda og segja kjörmönnunum okkar hug.
Sigurður Árni Þórðarson er sprenglærður í guðfræði og heimspeki, víðsýnn og vel að sér, málefnalegur og hneigður til samræðu frekar en kappræðu, með skemmtilegri ræðumönnum og góður sálusorgari. Hann hefur fitjað upp á margvíslegum nýjungum sem sóknarprestur og beitt sér fyrir breyttum starfsháttum kirkjunnar. Þeir sem vilja geta gengið úr skugga um ég fer ekki með neitt fleipur með því að lesa pistla hans í Fréttablaðinu og ýmis skrif hans á heimasíðu kirkjunnar. Honum er lagið að gera flókna hluti einfalda og hefur þann kost að setja hugsun sína fram á mannamáli. Hann hefur einnig verið í hópi guðfræðinga sem mjög hafa látið þjófélagsmál til sín taka í kjölfar bankahrunsins. Hann hefur einnig látið framtíð kirkjuskipunarinnar til sín taka og verið skeleggur fulltrúi á kirkjuþingi.
Gunnar M .Sandholt
Sauðárkróki
Ursula Árnadóttir, sóknarprestur Skagaströnd.
Við Sigurður Árni vorum vinnufélagar í tæp þrjú ár. Ég fékk tækifæri til að kynnast honum vel og fylgjast með daglegum verkefnum hans. Ég speglaði sjálfa mig í störfum hans því í mér blundaði draumur um sama starfsvettvang. Störf hans hafa verið mér ómetanlegur og lærdómsríkur skóli. Viðmót hans við sóknarbörn sín og skjólstæðinga sína verður mér ævarandi fyrirmynd. Djúp virðing og umvefjandi kærleikur gagnvart öllum manneskjum lýsir þeim samskiptum best.
Sigurður Árni hefur einstaklega góða nærveru. Hann hefur einstakan hæfileika til að vinna traust fólks og fá það til að leggja sig fram. Ég sá það marg oft að hann býr yfir mikilli tilfinningagreind sem geri honum kleift að stjórna við erfiðar aðstæður, hann á gott með að tjá sig, hafa áhrif og njóta virðingar. Ég tel hann, vegna aldurs og ævisögu, búa yfir það mikilli lífsreynslu að hann þekki sjálfan sig vel, eigin tilfinningar og viðbrög við álagi. Þess vegna hefur hann góða stjórn á sjálfum sér og aðstæðum t.d. í erfiðum og viðkvæmum viðræðum.
Í daglegu amstri sem og erfiðum aðstæðum er Sigurður Árni alltaf jákvæður, hvetjandi, styrkjandi og styðjandi. Hann mun bæta sambönd og samskipti innan þess stóra samfélags sem hann býðst til að leiða. Ég tel að það muni verða til mikillar gæfu að þiggja það boð.
sr. Ursula Árnadóttir sóknarprestur Skagaströnd.