Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri

Við sem látum okkur annt um kirkjuna lítum nú til þess að tímar endurnýjunar eru framundan.  Kirkjan mun á næstunni velja sér biskup til forystu. Einvalalið lærðra og leikra hefur kosningarrétt , m.a. formenn sóknarnefnda sem fulltrúar okkar óbreyttra kirkjugesta, prestar og ýmsir aðrir starfsmenn kirkjunnar.

Við sem ekki erum á kjörskrá ættum samt að láta okkur málið varða, taka málefnalega afstöðu til frambjóðenda og segja kjörmönnunum okkar hug.

Sigurður Árni Þórðarson er sprenglærður í guðfræði og heimspeki, víðsýnn og vel að sér, málefnalegur og hneigður til samræðu frekar en kappræðu, með skemmtilegri ræðumönnum og góður sálusorgari. Hann hefur fitjað upp á margvíslegum nýjungum sem sóknarprestur og beitt sér fyrir breyttum starfsháttum kirkjunnar. Þeir sem vilja geta gengið úr skugga um ég fer ekki með neitt fleipur með því að lesa pistla hans í Fréttablaðinu og ýmis skrif hans á heimasíðu kirkjunnar.  Honum er lagið að gera flókna hluti einfalda og hefur þann kost að setja hugsun sína fram á mannamáli. Hann  hefur einnig verið í hópi guðfræðinga sem mjög hafa látið þjófélagsmál til sín taka í kjölfar bankahrunsins. Hann hefur einnig látið framtíð kirkjuskipunarinnar til sín taka og verið skeleggur fulltrúi á kirkjuþingi.

Gunnar M .Sandholt
Sauðárkróki

Ursula Árnadóttir, sóknarprestur Skagaströnd.

Við Sigurður Árni vorum vinnufélagar í tæp þrjú ár.  Ég fékk tækifæri til að kynnast honum vel og fylgjast með daglegum verkefnum hans. Ég speglaði sjálfa mig í störfum hans því í mér blundaði draumur um sama starfsvettvang.  Störf hans hafa verið mér ómetanlegur og lærdómsríkur skóli.  Viðmót hans við sóknarbörn sín og skjólstæðinga sína verður mér ævarandi fyrirmynd.  Djúp virðing og umvefjandi kærleikur gagnvart öllum manneskjum lýsir þeim samskiptum best.

Sigurður Árni hefur einstaklega góða nærveru.  Hann hefur einstakan hæfileika til að vinna traust fólks og fá það til að leggja sig fram.  Ég sá það marg oft að hann býr yfir mikilli tilfinningagreind sem geri honum kleift að stjórna við erfiðar aðstæður, hann á gott með að tjá sig, hafa áhrif og njóta virðingar.  Ég tel hann, vegna aldurs og ævisögu, búa yfir það mikilli lífsreynslu að hann þekki sjálfan sig vel, eigin tilfinningar og viðbrög við álagi.  Þess vegna hefur hann góða stjórn á sjálfum sér og aðstæðum t.d. í erfiðum og viðkvæmum viðræðum.

Í daglegu amstri sem og erfiðum aðstæðum er Sigurður Árni alltaf jákvæður, hvetjandi, styrkjandi og styðjandi.  Hann mun bæta sambönd og samskipti innan þess stóra samfélags sem hann býðst til að leiða.  Ég tel að það muni verða til mikillar gæfu að þiggja það boð.

sr. Ursula Árnadóttir sóknarprestur Skagaströnd.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Leiðir okkar Sigurðar Árna hafa legið saman af og til síðustu 8 árin, fyrst við fermingarundirbúning dóttur okkar hjóna og síðar í gegnum góða og trausta vini. Síðustu tvö árin höfum við setið saman á kirkjuþingi og átt þar gott samstarf.

Maður þarf ekki að umgangast Sigurð Árna lengi til að sjá að þar fer maður með afburða gáfur sem óhræddur er að fylgja sannfæringu sinni. Hann býr einnig yfir þeim góða eiginleika að hlusta af virðingu á skoðanir annara og taka tillit til þeirra.

Ég styð biskupskjör Sigurðar Árna vegna þess að ég treysti því að hann hafi burði til að leiða kirkjuna í því mikilvæga hlutverki að sætta þjóð og kirkju og jafnframt til að leiða stærstu fjöldahreifingu landsins út úr því sjálfskipaða hlutverki að vera best geymda leyndarmál Íslands.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri HÍ

Við Sigurður Árni kynntumst í Mótettukórnum fyrir allmörgum árum en kórinn og allt það góða fólk sem þar hefur sungið, undir stjórn Harðar Áskelssonar, hefur lengi verið stór hluti af mínu lífi. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Margréti Láru, fyrir rúmum sex árum kom því ekki annað til greina en að fá Sigurð Árna til að skíra. Hann var þá orðinn prestur í Neskirkju, kirkjunni okkar hér í Vesturbænum. Ég vildi skíra heima og Sigurður Árni tók að sjálfsögðu vel í það, enda alltaf boðinn og til þjónustu reiðubúinn. Athöfnin var afslöppuð og falleg undir hans handleiðslu með undirleik og söng fyrrum kórfélaga.

Ég kynntist svo Sigurði Árna enn betur fyrir nokkrum árum þegar ég leitaði til hans eftir erfið veikindi sem nú eru að baki. Hann var mér ekki bara sálusorgari, heldur traustur og sannur vinur. Hann var alltaf til staðar þegar ég þurfti á honum að halda, tók mér svo sannarlega opnum örmum og gerir enn. Hann hlustaði með athygli og áhuga – og leiddi mig með umhyggju sinni og hlýju í gegnum óttann og sársaukann. Og takið eftir – hann hlustaði – og það er afar dýrmætur kostur fyrir mann í hans stöðu! Það sem mér þótti líka afar vænt um var hvernig hann fylgdist með mér úr fjarlægð  og þannig kom svo augljóslega í ljós einlægur áhugi hans á öðru fólki – honum  er ekki sama um náungann.

Fyrir rétt tæpum mánuði skírði Sigurður Árni yngri dóttur mína, Þórunni Helenu. Athöfnin fór sem fyrr fram hér heima – alveg dásamleg sem og þegar frumburðurinn var skírður enda á Sigurður Árni  auðvelt með að láta fólki líða vel í kringum sig. Hann er afslappaður, yfirvegaður, hlýr, glaðlegur og glettinn. Útgeislun hans og kímnigáfa fær fólk, jafnt trúaða sem ótrúaða, til að hrífast með svo ég tali nú ekki um ánægju hans af og þátttöku í flutningi fallegrar tónlistar. Þrátt fyrir að Sigurður Árni væri ekki búinn að bjóða sig fram til biskups voru langömmurnar, aldursforsetarnir í skírnarveislunni, vissar um eitt: Þessi ljúfi, röggsami og brosmildi prestur ætti að verða biskup!

Sigurður Árni er maður trúarinnar en hann er jafnframt maður efans – og það gerir hann svo skilningsríkan og umburðarlyndan gagnvart skoðunum, hugmyndum og pælingum annarra um lífsins fílósófí.  Í spjalli okkar um allt milli himins og jarðar, svo ekki sé talað um tilveru og tilvist mannsins, tilfinningar hans og samskipti, fann ég hversu fordómalaus hann er og  tilbúinn að skilja og virða afstöðu annarra. Sá eiginleiki nýtist vel í biskupsþjónustu.
Sigurður Árni er líka að vissu leyti róttækur eins og sjá má í pistlum hans í Fréttablaðinu. Hann nálgast menn og málefni á heimspekilegan hátt og telur kirkjuna langt í frá yfir  gagnrýni hafna. Það er án vafa góður eiginleiki og þannig sjónarmið skipta sköpum fyrir framtíð kirkjunnar hér á landi, svo ekki sé talað um embætti biskups.

Þjóðkirkjan stendur á tímamótum og samfélagið krefst breytinga. Framtíðarkirkjan er Sigurði Árna efst í huga og hann vill beita sér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Það þarf að endurnýja hugmyndafræði og áherslur kirkjunnar í samræmi við nútímasamfélag. Ef kirkjan ætlar að halda velli þarf að styrkja tengslin við þjóðina og í forystu þarf að vera maður, eins og Sigurður Árni, sem er tilbúinn og þorir að horfast í augu við gagnrýni og hlusta á gagnrýnisraddir undanfarinna ára og  áratuga með opnu hugarfari.

Sigurður Árni er  lipur og hæfur í mannlegum samskiptum. Það ásamt menntun hans, reynslu og síðast en ekki síst fordómaleysi og kímnigáfu, er gott veganesti í embættisstól biskups Íslands. Hver veit nema langömmurnar hafi haft rétt fyrir sér í skírninni á fögrum sunnudegi þann 15. janúar síðastliðinn – allavega á Sigurður Árni erindi í embætti biskups Íslands. Þar tel ég að yrði svo sannarlega réttur maður á réttum stað!

Valdimar Tómasson, kirkjuvörður og meðhjálpari Neskirkju

Undirritaður hefur starfað við Neskirkju sem meðhjálpari og kirkjuvörður um nokkurra ára skeið. Vorið 2004 kom sr. Sigurður Árni til starfa í Neskirkju. Það fyrsta sem ég tók eftir var sú heiðríkja sem ásjóna hans ber vott um. Allt í hans fasi svo tært og hreint. Viðmótið af sama meiði, alúðlegt, tignarlegt og innilegt, allt í senn.

Engan mann hef ég hitt sem leggur jafn mikið upp úr því að vita hvernig manni líður. Hann er mjög góður hlustandi. Við samræður um eigin líðan skapast mikil nánd og opnar vel fyrir öll tjáskipti. Honum er þessi áhugi eðlislægur. Hann kann líka manna best að hrósa og draga fram það besta í fari manns.

Sr. Sigurður er vel menntaður, vel gefinn, hefur víðtæka reynslu,  er fagurkeri og hamingjumaður í sínu einkalífi.

Það eru gerðar miklar kröfur til biskups Íslands, en ég tel sr. Sigurð Árna fremstan meðal jafningja og óska honum góðs gengis á þeirri braut sem hann hefur ákveðið að feta.

Valdimar Tómasson.