Sr. Sigurði Árna kynntist ég fyrst er hann kom til náms í guðfræði í HÍ þar sem ég var fyrir. Minnist þess hve vinsamlega hann heilsaði mér sem kunningja og aðspurður hvaðan hann þekkti mig var svarið að hann hefði séð mig á gangi fyrir utan skólann.
Við áttum svo góðar stundir saman í Kristilegu stúdentafélagi t.d. við útgáfu Kristilegs stúdentablaðs og við ýmis tækifæri þar sem guðfræðinemar áttu samleið. Hef svo fylgst með honum í gegnum árin. Las t.d. doktorsritgerð hans af mikilli athygli þar sem hann af glöggskyggni rýnir í íslenskar trúarhefðir.
Síðar urðum við samstarfsmenn í vinnunni við safnaðaruppbyggingu á tíunda áratugnum þegar Sigurður Árni var framkvæmdastjóri verkefnisins, sem starfsmaður Biskupsstofu, en undirritaður í safnaðaruppbyggingarnefndinni og sem formaður hennar í nokkur ár.
Margt kemur til að ég sé Sigurð Árna Þórðarson fyrir mér sem góðan biskup á erfiðum tímum. Ég þekki hann sem mikinn heilindamann og ljúfmenni í öllum mannlegum samskiptum. Mann með hæfileika til að laða það besta fram í fólki og leyfa hugmyndum þess og kröftum að njóta sín. Jafnframt sem hugsjónamann og mikinn dugnaðarfork sem á gott með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í ræðu og riti.
Enn eykur það traust mitt á Sigurði Árna sem biskupsefni hve fjölbreytta og dýrmæta starfsreynslu hann hefur og hve kunnugur hann er aðstæðum bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík og þjónustu kirkjunnar á ólíkum vettvangi. Og ekki spillir staðgóð menntun.
Sigurður Árni hefur verið mjög virkur í umræðunni um málefni kirkjunnar á undanförnum árum og opinn fyrir nýjungum án þess að vanmeta góðan arf. Frá því er ég kynntist honum hefur hann verið vakandi fyrir þörfum þeirra sem höllum fæti standa og metið meira að standa vörð um þjóðfélagslegt réttlæti en að láta berast með straumnum.
Vigfús Ingvar Ingvarsson
fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum