Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Himintungl yfir heimsins ystu brún – Jón Kalman Stefánsson

Við héldum suðræn bókajól, flugum til Sevilla skömmu fyrir hátíðina. Við tókum með okkur bunka af bókum en lítið af fötum. Við fórum svo suður til Cadiz og fengum í húsaskiptum lánað dásamlegt hús. Þar skiptumst við svo á að lesa bækurnar en létum föt hvers annars vera. Ég var sá þriðji á heimilinu að lesa hinmintunglbókina hans Jóns Kalmans. Tilhlökkunin óx því ég heyrði reglulega áhugaverðar upphrópanir: Þvílíkur texti; það ilmar af þessum blaðsíðum; snilld; skemmtileg efnistök. Ég byrjaði svo að lesa hina mögnuðu sögu um Pétur prest, Dórótheu, mannlíf og manndráp, menntun, lífsafstöðu, siðferði og siðklemmur fólks á Íslandi á 17. öld. Ég var sammála mínu fólki um bókargæðin. Í himingtunglbókinni eru engar klisjur eða þunnildi. Það eru engar menningarlegar grynningar heldur er sagan frábærlega skrifuð, um tengsl og manngildi, um rosamál fortíðar sem hafa augljósar skírskotanir til samtíma okkar, átaka og áfalla í samskiptum hópa og þjóða.

Persónusköpun bókarinnar er sterk. Prestar hafa gjarnan verið tuddar og hrottar í íslenskum bókum og kvikmyndum en Pétur prestur er góðmenni. Hann er glöggur og vel að sér, menntaður vinur orða, fræða og mannvinur. Hann skráir sögu eigin lífs, þjónustu, viðburða í héraði, landi og heimi, baráttu í starfi og líka í djúpum sálar. Jón Kalman uppteiknar gæskuríkan hæfileikamann sem reynir eftir megni að þjóna sem best mönnum og Guði, kirkju, yfirvöldum og lífinu. En þó klerkur sé klókur og vel meinandi er hann hrifnæmur og í texta Jóns Kalmans er enginn hörgull á hrífandi konum sem koma fyrir augu klerksins. Augu hans hvarfla til og hjartað fylgir. Jón Kalmann lýsir líka fleiri prestum og þeir spegla aðrar víddir og m.a. þjónkun við vald. Guðstrú bókarinnar er alls konar og trúarlífið þar með rétt eins og í nútímanum. Gott hjá Jóni Kalman.

Konurnar í bókinni eru sérlega áhugaverðar og ekki síðri en karlmyndirnar. Sterkust, litríkust og ásæknust er persóna Dórótheu bústýru á Meyjarhóli, prestssetrinu. Hún er eins og fjallkonan sjálf, lífströll elskunnar. Stórkostleg kona, réttnefnd guðsgjöf, og ein áhugaverðasta kvenímynd íslenskra bókmennta. Allar elskukonur og ástkonur Péturs eru ólíkar og litríkar, engar dúkkulísur heldur máttugar konur sem verða að hafa fyrir lífinu, lífsfyllingu og hamingju. Þær bregðast við verkefnum lífsins með ólíku móti. Annars ágæt kona Ara í Ögri beitir hótunum þegar veldi karls hennar er ógnað. Vald spillir og bókin er almennt valdgagnrýnin. Biskupsembætti er líka beitt í þágu samfélagsfriðar frekar en í þágu sannleika og manngildis. Karlmyndirnar eru fjölbreytilegar líka, valdsmennirnir eru ekki einsleitir heldur margreytilegir. Bændur eru líka mismunandi í afstöðu, þroska, siðferði og hegðun. Tuddarnir eru auðvitað þarna á ferð en líka góðmenni og lífgjafar. Mannlífið á Íslandi 17. aldar var engu litdaufara en samfélag okkar tíma. Húmor og mannúð stýrir penna Jóns Kalmans.

Sögusviðið er útnárasamfélag nærri hafísnum. En samfélag undir ystu brún fór ekki á mis við menningu, tískubylgjur eða fræðastrauma heimsins. Í lágum húsum voru stórmál rædd, fréttir af Galileó og sólmiðjukenningu voru til skoðunar í vetrarmyrkrinu. Bækur bárust ekki aðeins frá Kaupmannahöfn, heldur líka sunnan úr löndum. Grísk og rómversk klassík var endursögð og túlkuð á bæjunum. Alls konar tungumál hljómuðu og stærðfræðiþrautir af meginlandi Evrópu voru leystar af klókri konu í kokkhúsi á Ströndum. Útjálkabyggð var í góðum og skapandi tengslum við framvindu tímans. Það er því ekki einangrað samfélag heimskunnar sem Jón Kalmann lýsir heldur sprelllifandi, þyrstandi mannfélag eftir þekkingu, fræðslu, fegurð, siðviti og menntun. Vissulega voru til sjálfskipaðir eftirlitsmenn valds og rétthugsunar í samfélaginu sem reyndu að slaufa vaxtarbroddum lífs. En máttur orðs og framtíðar verður ekki haminn af dragbítum. Ritskoðun heimskunnar lýtur sannleika. En lærdómur kostar fórnir – ekkert er ókeypis. Mér þótti heillandi að njóta samfélagslýsingar Jóns Kalmanns, auðvitað stílfærðri en hrífandi og nærandi.

Mér þótti líka áhugavert hvernig Pétur prestur, viðmælendur hans sem og lærdómsmennirnir sem hann hafði samband við íhuguðu eðli hins ritaða máls, hvernig niðurritun breytir gangi lífs og sögu. Skráð saga gengur erinda sannleika. Baskarnir voru drepnir af kappi en ekki forsjá. En drápin voru skrásett og þar með varð von til að mennirnir nytu meiri réttar og sanngirni en annars hefði orðið ef allt hefði verið þaggað niður og valdsmennirnir hefðu fengið að ráða túlkun og skilgreiningu atburða. Sannleikur er ekki eign valdsins.

Hlutverk máls og ritunar er sérstakt og áberandi í þessari bók Jóns Kalmans og kitlar alla sem hafa áhuga á skilgreiningum menningar, hlutverki guðstrúar og áhrifum á siðvit og merkingarmótun  kerfa menningar. Ég var hugsi en mun ekki frekar skrifa um það mál að sinni en freistandi er að greina skrif Jóns Kalmans um orð og trú, gildi og Guð í þessari bók. Ein spurningin eða íhugunin er þessi: Er hægt að snúa merkingu þess að „orðið varð hold“ yfir í að skráning skapi líf? Sleppa öllu hinu yfirjarðneska og túlka svo að efnisgerningur skapi lífið? Er ritlist inntak guðstrúar og réttlætis? 

Við ræddum einstaka útfærslur og snúninga í flækju Jóns Kalmans í jólagóðviðrinu suður við Gíbraltarsund. Málfar bókarinnar er eðlilegt, vísar til eldri málheima en er ekki óþægilega fyrnskuskotið. Við ræddum um hinn meditatíva flæðistíl bókarinnar. Gekk hann upp þessi valhoppandi hugrenningastíll sem Pétur prestur notar, hvattur áfram af Dórótheu, bústýru sannleika og lífs? Flæðistíllinn hefur sína kosti og sjarma en fælir líka frá þau sem þarfnast skýrrar söguframvindu. Stíllinn gengur almennt upp en það eru hnökrar á honum. Og ýmsum smáatriðum hefði mátt sleppa í lokatexta. Mér sýnist að gagnrýninn yfirlesari hefði grisjað út t.d. óþarfa tímaskekkjur. En ég kvarta ekki yfir smælkinu og nefni ekki anakrónismana sem breyta ekki heildaráhrifum. 

Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnað rit um lífsbaráttu og siðklemmur, áleitin bók um siðferði, pólitík, átök, ást, grimmd og samsekt. Ekki bara bók um 17. aldar viðburði heldur verkefni okkar sem nú lifum. Hvernig tökum við á móti útlendingum og flóttafólki sem vegna áfalla lenda á okkar strönd? Erum við einfeldningar valdsaðila og lélegs réttrúnaðar? Erum við jafnvel handbendi úrelts hugsunarháttar? 

Himintungl yfir heinmsins ystu brún er bókmenntaafrek ársins og ætti að veita bókmenntaverðlaunin ársins. Fimm stjörnu bók. 

Jón Kalman Stefánsson, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.

 

La Vita é bella – lífið er dásamlegt

Ástin og líf á stríðstíma. Það er meginstef kvikmyndarinnar La Vita é Bella. Guido, ungur gyðingur heillast kennslukonuni Dóru í ítölsku þorpi. Hún er af öðrum menningarhópi en hann og flest verður til að hindra samskipti og tilhugalíf þeirra. En með hugviti og uppátækjum tekst söguhetjunni að bræða hjarta konunnar og leysa þau félagslegu höft sem meina þeim að eigast. Tilhugalífið er efni fyrri hluta myndarinnar og einkennist af farsakenndri og nánast súrrealískri atburðarás. Síðan er skipt um gír og ný saga hefst. Guido og Jósúa, fimm ára afkvæmi ástarinnar, eru sendir í fangabúðir nazista. Dóra heimtar að fara með þeim. Þar reynir faðirinn að fela drenginn svo honum verði ekki fargað. Pabbinn gerir sitt besta til að breyta hryllingsaðstæðum í leik svo veran verði þeim feðgum bærilegri. Guido lýgur til lífs, jafnvel á leið til eigin aftöku skemmtir hann syninum. Móðir og sonur komast af úr hildarleiknum.

Trotsky á að hafa sagt, þegar hann beið eftir aftökusveitinni, að lífið væri samt dásamlegt. Þaðan kemur heiti myndarinnar. Í samræmi við það er boðskapur myndarinnar, að gáskinn sé sterkari en drunginn, lífið sterkara en dauðinn og vonin máttugri en svartnættið. Hið persónulega í myndinni er ávirkt og hvíslar að áhorfendum boðskapnum að hamingjan sé heimafengin hvernig sem aðstæður fólks séu.

Guido í myndinni er Jesúgervingur. Lokaorð drengsins í myndinni vísa til fórnar föður hans svo hann mætti lifa. Þar með er ákveðin túlkun gefin um að sagan sé saga um fórn. En faðirinn dó ekki fyrir syndir annarra eða í stað annarra. Guido er fyrst og fremst lausnari í því að vera farvegur lífs, gáska, gleði og hamingju. Alls staðar þar sem Guido fer er líf og fjör. Hann er samkvæmur sjálfum sér og tekur ekki þátt í þrönghyggju dauðans, stjórnmálum húmorslausra fasista. Aldrei tekst honum betur upp en þegar þeir og þeirra nótar eru viðfangið. Hann er farvegur viskunnar, líka í samskiptum við lækninn Leibnitz, sem er blanda af formhyggju og flótta frá lífinu (Silenzio). Í myndinni er lögð áhersla á að Guð þjóni mönnum en sé ekki þræll þeirra. Góður þjónn eigi að vera sjálf sín en ekki senditík manna. Þjónsboðskapur myndarinnar vísar í þjónsmynd spádómsbókar Jesaja.

Í kvikmyndinni er líka vísað til Exodusstefja þó þau séu ekki unnin ítarlega. Sonurinn ber nafnið Jósúa sem var nafn leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar á leið til landsins fyrirheitna. Móse leiddi hina fornu hebrea út af þrælahúsi Egypta og að landmærum Palestínu en hann dó áður en hann komst alla leið (lokakaflar 5. Mósebókar og Jósúabók). Guido er að sínu leyti í hlutverki Móse en sonurinn kemst alla leið, sbr. síðustu myndskeið myndarinnar. Starfi Guido er þá í anda lögmáls gleðinnar og skapandi elsku. Nafn söguhetjunnar gæti verið túlkun á guðsheitinu (sbr. Godot hjá Beckett).

Vegna bjartsýni og gleðisóknar eru upprisutákn skýr í myndinni. Þrátt fyrir ferð um dal dauðans í útrýmingarbúðunum komast drengurinn og móðir hans af. Drengurinn bíður þess í ruslatunnu að hörmungar gangi yfir. Hermenn með hund rétt við tunnuna minna á hermenn við gröf Jesú. Svo þegar þeir voru flúnir kom litli maðurinn fram úr gröf sinni, upprisinn þvert á allar aðstæður. Og hann hlaut sigurlaun sín í samræmi við orð föðurins. Hann náði hann öllum 1000 stigum sem kallast á við 1000 ára ríki Hitlers. Mórallinn eða boðskapurinn er einfaldur. Lífið býður upp á mun stórkostlegri kraftaverk og undur en hinir lítilþægu gera sér grein fyrir.

Vegir, götur og leiðir eru mikilvæg tákn í myndinni um mannlíf og hvernig manneskjan þeytist áfram og verður fyrir óvæntum viðburðum. Hið grínaktuga myndmál myndarinnar varpar spurningum til áhorfenda á hvað leið þeir séu. Allir fara eitthvað og orð Jesú koma í huga sem djúpstef myndarinnar: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Myndin byrjar á bílferð tveggja félaga um unaðslega sveit í Toscana. Bremsurnar bila og þeir félagar geisast stjórnlaust niður krókótta brekkuvegi og hendast inn í bílalest höfðingja í opinberri heimsókn. Benigni í hlutverki Guido hamast við að benda fólki að víkja frá. Það misskilur og heldur að hann sé að veifa þeim og fólkið fagnar. Atriðið vísar í Einræðisherrann, kvikmynd Chaplins. Skömmu síðar er Guido svo á fleygiferð á hjólinu sínu og lendir á draumadís hans á þorpstorginu. Hjólreiðar á formúluhraða eru algengar og lyktar jafnan í upphöfnu sprelli. Lestin liggur til dauðans og síðasta ferðin var með skriðdreka.

Gluggar og rýmisop þjóna lykilhlutverkum í myndinni og eru tákn breytinga. Dóra kom fljúgandi út um guggaop á hlöðu í myndarbyrjun. Lykill Maríu flýgur alla myndina úr gluggum. Guido flúði skelfilegan sendiboða um skólaglugga eftir að hafa dansað borðfyrirlestur fyrir skólakrakka. Gluggi heimilis hjónanna spannar tímabreytingu fimm ára. Gluggi tónlistar er opnaður í fangabúðum til að miðla vitnisburði um lífið. Hetja er nöppuð við glugga og aflífuð í kjölfarið. Drengurinn horfir á föður sinn um ruslatunnuop stíga gæsagang á leið til aftöku. Gluggarnir eru gjarnan uppmúraðir í fangabúðunum. En gluggar eru einnig leið fyrir ljós og að það sem mönnum virðist ekki hægt að komast í gegnum er oft lítið annað en skilrúm sem má ryðja burt. Möguleikarnir eru oft fleiri en fólk vill skilja. Borðhald er mikilvægt í myndinni og vísar í borðhald Biblíunnar, bæði í túlkun Gt og Nt. Tónlist Piovani er ekki flókin en afar vel útsett og með kostulegum blæ. Offenbach stendur alltaf fyrir sínu.

Þetta er góð mynd, fyrir þau sem hafa gaman af meðvituðu sprelli og löngun til að elska lífið.

Málmhaus

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.

Lena Rós Matthíasdóttir, prestur í Grafarvogskirkju

Heyrir, sér, veit og skynjar!

Í nærveru góðs leiðtoga finnur þú til mikilvægis þíns og upplifir tengsl sem þú þarft ekki að hafa fyrir að mynda.  Ástæðan er sú að leiðtoginn sem heyrir þig, sér þig, þekkir þig og skynjar persónu þína, býr yfir þeirri eðlislægu löngun að vilja kynnast þér og leggur sig fram um það af fyrra bragði.  Góður leiðtogi er gæddur þessum fallegu eiginleikum.

Kynni mín af Sigurði Árna Þórðarsyni, haustið 1995 bar einmitt að með þessum hætti.  Ég hugleiddi þá hvað það væri sem hann hefði og mig skorti, en sem ég vildi svo gjarna tileinka mér.  Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar, þegar ég hafði hlotið vígslu og leiðir okkar lágu oftar saman, að ég áttaði mig á því að það voru einmitt þessir eiginleikar.  Góður leiðtogi hefur nefnilega áhuga á fólki og leggur sig fram um að kynnast því.

Guðfræðin sem Sigurður Árni ber fram í orði og á borði endurspeglar einnig þessar hliðar hans.  Ég kalla hana guðfræði skynjunarinnar, því hún er svo ljóðræn og myndræn en um leið einföld og líkamleg. Hún heyrir, sér, veit og skynjar.  Í gegnum tíðina hef ég lagt mig fram um að lesa ræður hans, en það hefur verið mér góð leiðsögn í predikun á ,,mannamáli“ og hjálpað mér að upplifa Guð með fingurgómum, í sjón, heyrn og bragðlaukum, svo eitthvað sé nefnt.  Góður leiðtogi byggir brú milli hins upptekna nútímamanns og Guðs.

Í Sigurði Árna finn ég leiðtoga sem hefur tamið sér vakandi núvitund.  Með lífsreynslu sinni, menntun og starfi hefur hann tamið sér einbeitta athygli gagnvart því sem að baki er jafnt og því sem er framundan.  Þennan eiginleika hans merki ég í samtali um heimilisguðrækni, skírnaruppfræðslu og æskulýðsmál.  Góður leiðtogi er hugrakkur og vinnur framtíðarsýn sinni veg á líðandi stundu í órjúfanlegu samhengi við fortíðina og upprunann – Jesú Krist.

Ég treysti Sigurði Árna Þórðarsyni til að vera fremstur á meðal jafningja í félaginu okkar, Þjóðkirkjunni.

Sigurður Sigurðarson

Sr. Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, er mikill kennimaður, sómamaður og ljúfur í eðli sínu. Hann er margfróður enda víðlesinn.

Ekki aðeins er hann góður prestur heldur þekkir vel til um allt land, hefur ferðast og gengið á fjöll og ann náttúru landsins rétt eins og títt er um þá sem þekkja hana af eigin raun.

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að kynnast sr. Sigurði Árna og Elínu konu hans. Eftir þau kynni tel ég hann nafna minn verða góðan biskup þó svo að ég hafi það nú ekki beinlínis á takteinum hvernig góður biskup á að vera. Veit þó það að hvur setur mark sitt á það starf sem hann gegnir og viss er ég um að eðlislægir kostir Sigurðar eru slíkir að hann mun verða embættinu til mikils sóma.

Þó Sigurður sé drengur góður á hann sér betri hlið og það er hún Elín Jónsdóttir, kona hans. Hún er mikill skörungur, skarpgreind og eins og maður hennar, víðlesin og margfróð.

Þau Sigurður og Elín kynntust fyrir algjör tilviljun í fjallaferð með Ferðafélagi Íslands. Þá var eins og æðri máttarvöld hefðu tekið sig til og fært þau saman. Þó hér hafi verið stiklað á heldur háfleygan hátt um þau skötuhjú verður þá að fylgja með að þeim fylgir engin mærð eða vella. Þau eru hláturmild, hafa gaman af græskulausu gamni og ekki síst taka þau sig mátulega hátíðlega.

Mikið væri nú gaman að breyta svolítið til og fá nýja kynslóð í embætti biskups, helst náunga eins og Sigurð Árna, mann sem hlustar og skilur og getur fært kirkjuna nær þjóðinni. Þá yrði breyting sem skiptir máli. Persónulega held ég að biskupskjör sé ekki spurning um kynferði heldur mannkosti.

http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1230631/