Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Lena Rós Matthíasdóttir, prestur í Grafarvogskirkju

Heyrir, sér, veit og skynjar!

Í nærveru góðs leiðtoga finnur þú til mikilvægis þíns og upplifir tengsl sem þú þarft ekki að hafa fyrir að mynda.  Ástæðan er sú að leiðtoginn sem heyrir þig, sér þig, þekkir þig og skynjar persónu þína, býr yfir þeirri eðlislægu löngun að vilja kynnast þér og leggur sig fram um það af fyrra bragði.  Góður leiðtogi er gæddur þessum fallegu eiginleikum.

Kynni mín af Sigurði Árna Þórðarsyni, haustið 1995 bar einmitt að með þessum hætti.  Ég hugleiddi þá hvað það væri sem hann hefði og mig skorti, en sem ég vildi svo gjarna tileinka mér.  Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar, þegar ég hafði hlotið vígslu og leiðir okkar lágu oftar saman, að ég áttaði mig á því að það voru einmitt þessir eiginleikar.  Góður leiðtogi hefur nefnilega áhuga á fólki og leggur sig fram um að kynnast því.

Guðfræðin sem Sigurður Árni ber fram í orði og á borði endurspeglar einnig þessar hliðar hans.  Ég kalla hana guðfræði skynjunarinnar, því hún er svo ljóðræn og myndræn en um leið einföld og líkamleg. Hún heyrir, sér, veit og skynjar.  Í gegnum tíðina hef ég lagt mig fram um að lesa ræður hans, en það hefur verið mér góð leiðsögn í predikun á ,,mannamáli“ og hjálpað mér að upplifa Guð með fingurgómum, í sjón, heyrn og bragðlaukum, svo eitthvað sé nefnt.  Góður leiðtogi byggir brú milli hins upptekna nútímamanns og Guðs.

Í Sigurði Árna finn ég leiðtoga sem hefur tamið sér vakandi núvitund.  Með lífsreynslu sinni, menntun og starfi hefur hann tamið sér einbeitta athygli gagnvart því sem að baki er jafnt og því sem er framundan.  Þennan eiginleika hans merki ég í samtali um heimilisguðrækni, skírnaruppfræðslu og æskulýðsmál.  Góður leiðtogi er hugrakkur og vinnur framtíðarsýn sinni veg á líðandi stundu í órjúfanlegu samhengi við fortíðina og upprunann – Jesú Krist.

Ég treysti Sigurði Árna Þórðarsyni til að vera fremstur á meðal jafningja í félaginu okkar, Þjóðkirkjunni.

Sigurður Sigurðarson

Sr. Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, er mikill kennimaður, sómamaður og ljúfur í eðli sínu. Hann er margfróður enda víðlesinn.

Ekki aðeins er hann góður prestur heldur þekkir vel til um allt land, hefur ferðast og gengið á fjöll og ann náttúru landsins rétt eins og títt er um þá sem þekkja hana af eigin raun.

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að kynnast sr. Sigurði Árna og Elínu konu hans. Eftir þau kynni tel ég hann nafna minn verða góðan biskup þó svo að ég hafi það nú ekki beinlínis á takteinum hvernig góður biskup á að vera. Veit þó það að hvur setur mark sitt á það starf sem hann gegnir og viss er ég um að eðlislægir kostir Sigurðar eru slíkir að hann mun verða embættinu til mikils sóma.

Þó Sigurður sé drengur góður á hann sér betri hlið og það er hún Elín Jónsdóttir, kona hans. Hún er mikill skörungur, skarpgreind og eins og maður hennar, víðlesin og margfróð.

Þau Sigurður og Elín kynntust fyrir algjör tilviljun í fjallaferð með Ferðafélagi Íslands. Þá var eins og æðri máttarvöld hefðu tekið sig til og fært þau saman. Þó hér hafi verið stiklað á heldur háfleygan hátt um þau skötuhjú verður þá að fylgja með að þeim fylgir engin mærð eða vella. Þau eru hláturmild, hafa gaman af græskulausu gamni og ekki síst taka þau sig mátulega hátíðlega.

Mikið væri nú gaman að breyta svolítið til og fá nýja kynslóð í embætti biskups, helst náunga eins og Sigurð Árna, mann sem hlustar og skilur og getur fært kirkjuna nær þjóðinni. Þá yrði breyting sem skiptir máli. Persónulega held ég að biskupskjör sé ekki spurning um kynferði heldur mannkosti.

http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1230631/

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Ég styð sr. Sigurð Árna Þórðarson í kjöri til Biskups Íslands. Vegna þess að:

  • ég treysti honum til að hlusta á raddir fólksins í söfnuðum landsins
  • ég treysti honum til að hlusta á raddir þeirra sem starfa í kirkjunni
  • ég treysti honum til þess að leiða kirkjuna okkar og kirkjustarf inn í nýja tíma
  • ég treysti honum til þess að geta farsællega tekið á erfiðum málum sem upp kunna að koma
  • ég treysti honum til þess að verða ötull liðsmaður allra þeirra sem vilja færa gleði og góðan starfsanda i kirkjuna okkar
  • ég treysti honum til þess að leiða biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.

Þess vegna kýs ég sr. Sigurð Árna Þórðarson sem næsta Biskup Íslands.

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

http://www.visir.is/til-studnings-sigurdi-arna/article/2012120419979

Inga Rún Ólafsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingsfulltrúi.

Við erum stödd á lokaspretti kosningabaráttu um kjör til biskups Íslands. Það voru margir kallaðir, en nú standa eftir tveir útvaldir, sem kjósa þarf á milli.

Sigurður Árni Þórðarson hefur sett fram skýra framtýðarsýn í 7 liðum um málefni þjóðkirkjunnar. Framtíðarsýn sem lýsir einlægum vilja til þjónustu og sátta við fólkið í landinu, og einnig hugrekki til breytinga og framfara í skipulagi og starfi þjóðkirkjunnar. Ég tilheyri þeim stóra hópi leikmanna sem er tilbúin að styðja framgang hennar undir forystu Sigurðar Árna, sem biskups Íslands.
Þann tíma sem kosningabaráttan hefur staðið yfir, hefur verið aðdáunarvert  að fylgjast með því hvernig Sigurður Árni hefur hagað kosningabaráttu sinni, með dyggum stuðningi eiginkonu sinnar, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur.

Það fer ekki framhjá neinum sem þau hitta, hversu frábært teymi er þar á ferð. Eldhugar sem keppa að settu marki með kristna trú, jákvæðni, fagmennsku og virðingu  að leiðarljósi.
Þeir myndu segja í Múmíndal, Tove Jansen,  að Sigurður Árni og Elín séu fólk sem „byggjandi er nýlendu með“.  Ef hugleitt er hvað felst í því að byggja upp nýlendu, þá er varla hægt að hugsa sér meira traust eða hrós á nokkurn mann en það sem í þessum orðum felst. Já, þeir vita sínu viti í Múmíndal og þar vinna menn saman í kærleika.

Kristin trú er ný á hverjum degi. Í dag er tími og tækifæri til að byggja nýlendu framtíðarkirkjunnar. Treystum Sigurði Árna þórðarsyni til að leiða það verkefni í Guðs nafni og kjósum hann biskup Íslands.

Sigríður Haraldsdóttir, landfræðingur

Ég kynntist Sigurði Árna Þórðasyni fyrst að einhverju marki þegar ég gekk til liðs við Kór Neskirkju árið 2005.  Sem formaður kórsins til nokkurra ára hef ég átt samskipti við prestana og aðra starfsmenn Neskirkju.  Við Sigurður erum auk þess nágrannar, eigum jafnaldra syni og síðast en ekki síst þá jarðsöng hann föður minn fyrir fáeinum árum.

Í samskiptum  mínum við Sigurð Árna hef ég kynnst mörgum af hans góðu kostum.  Hann er einstaklega jákvæður, óspar á hrósið og tekst þess vegna afar vel að hvetja fólk í kringum sig til góðra verka.  Þessu höfum við í kórnum fengið að kynnast því Sigurður Árni segir bæði okkur og söfnuðinum sem sækir Neskirkju hversu mikils hann metur okkur og okkar framlag  til safnaðarstarfsins og messuhaldsins.  Þá sýnir hann starfi okkar virðingu á ýmsan hátt m.a. með því að sækja tónleika kórsins.  Þannig eru prestarnir og starfsfólkið í Neskirkju.

Sigurður Árni hefur miklu að miðla og gerir það í ræðu og riti og í samtölum við fólk.  Hann er næmur á aðstæður og leggur sig fram um að hlusta og kalla eftir skoðunum fólks.  Hann sér það einstaka og jákvæða í orðum og athöfnum manna en kann jaframt að glíma við erfiðleika og ágreining og leiða fram sættir.

Það dylst engum sem hlustað hafa á Sigurð Árna í prédikunum að hann hefur gott vald á íslenskri tungu og leggur mikla rækt við tungumálið.  Slíkt ber vitni um hversu vænt honum þykir um móðurmálið og hversu mikilvægt honum finnst að  sýna því virðingu og nýta það með sem bestum hætti til þess að koma hugsunum sínum og boðskap á framfæri.

Persónuleiki, menntun, starfsreynsla og lífreynsla gera það að verkum að Sigurður Árni er kjörinn til þess starfs sem hann nú býður sig fram til.  Að mínu mati er einn af hans allra mikilvægustu eiginleikum að hann er sannur jafnréttissinni hvort sem það snýst um jafnrétti karla og kvenna eða jafnrétti ýmissa hópa í samfélaginu.  Þetta einkenni Sigurðar Árna ásamt getu til að miðla málum og leiða til sátta eru eiginleikar sem gætu skipt sköpum fyrir íslensku þjóðkirkjuna.