Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Skírnarfontur Hallgrímskirkju

Mér þykir alltaf jafn skemmtilegt að skíra börn. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og kærleika foreldra og ástvina. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar og guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang.

Skálar skírnar

Í heimaskírnum er tekin fram besta skál heimilisins, oft kristalsskál eða vandaður hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina, gætt að hitanum og svo er hún borin þangað sem athafnirnar eru, oftast í stofunni. Þetta eru fallegar skálar og hafa tilfinningagildi í fjölskyldum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar.

Svo eru skírnarskálarnar í kirkjunum mismunandi líka. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Fontar í kirkjum hafa oft verið gefnir. Í Neskirkju í Reykjavík er t.d. fagur skírnarfontur Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og kona Þórs bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn var kominn í heiminn var hann fyrsta barnið sem skírt var í Neskirkjufontinum.[i] Fonturinn er dýrgripur. Dómkirkjufonturinn sömuleiðis. Og við getum farið um borg og land og uppgötvum þá að fontarnir eru listaverk sem hæfa undraathöfn veraldar.

Vertu Guð faðir, faðir minn

Skírnarfontur Hallgrímskirkju er dýrgripur líka. Hann er gefinn af kvenfélaginu og velunnurum. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í fontinum og myndar friðarboga og jafnvel fleiri en einn. Þegar bjart er sést líka letur bæði á dökka fletinum á fontinum og líka þeim ljósa.

Á blágrýtishlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar: „Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.“ Það er við hæfi að klappa bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann – á hverjum degi og hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Guðstengsl eru nándartengs.

Trú og skírn

En svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa biblíuvers í gegnum þykkan kristalinn. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Versið er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Orð eru í guðspjalli dagsins. Skírnarfontur Hallgrímskirkju er fontur uppstigningardags. Það er vel. Uppstigningardagur er stórdagur kristninnar þó hann hafi í vitund fólks ekki sömu stöðu og jól og páskar. En á þessum degi eru mergjaðir og máttugir textar fluttir. Textar um Guð, komu Guðs og að Guð er á ferð í þágu lífsins. Það er eins og uppstigningardagur tjái umfang hins kristna erindis gleðinnar, sé eins og summudagur jóla, páska og hvítasunnu.

Postuli Jesú

Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð, Guðjón Samúelsson og Andrés Narfi Andrésson eru helstu sjónlistarmenn Hallgrímskirkju. Ef Bach er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, unnið við prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn. Mér þótti heillandi að sjá skissur Leifs og hvernig hann vann undirbúningsvinnuna. Ákveðið var að kristallinn yrði steyptur í Tékklandi af miklum kristalssnillingum, vinum Leifs og Sigríðar, konu hans. Tékkarnir töldu vandalítið að steypa, en annað kom á daginn. Stykkin voru svo stór, að þau sprungu í kælingunni og efasemdir vöknuðu um að hægt væri að steypa svo stór stykki. En þegar búið var að lengja kælitímann í þrjá mánuði gekk verkið loks upp og hægt var að setja stykkin saman. Úr varð þetta listaverk og uppstigningardagsundur sem fonturinn er.

Nánd Guðs

Sá sem trúir og skírist – þar er tvenna lífsins. Mun hólpinn verða – það merkir að vera Guðs, búa með Guði og njóta allar blessunar tíma og eilífðar. Þessi boðskapur brosir við öllum þeim, sem koma í kirkjuna og liðast inn í sauma og vitund skírnarbarnanna sem eru ausin vatni. Þetta rifjum við upp í dag og minnum okkur á þennan uppstigningardag.

Erindi við allan heiminn

Það er fögnuður og lífsnánd í sálmum dagsins sem við syngjum. Og það er gleði í Biblíutextunum einnig. Áhersla uppstigningardags er ekki á yfirskilvitlegan viðburð, að Jesús hvarf sjónum manna, steig upp í himininn. Biblían beinir aldrei sjónum út úr heimi heldur inn í hann. Áherslan er ekki á töfra heldur gæsku og hamingju. Textar dagsins fjalla um að allur heimurinn má fá að heyra og njóta að Guð elskar. Hin mikla sýn lexíu dagsins úr Daníelsbók varðar að Guð hefur allt vald. Í pistlinum, hinni dramatísku sögu úr Postulasögunni er ljóst, að Jesús er ekki fjarlægur andi sem bara gufaði upp. Jesús Kristur var og er lifandi vera, sem borðaði með fólki, hafði ekki hugsað sér að reisa lítið konungsríki á hjara veraldar heldur vera lífgjafi öllum heimi, sínálægur, síverandi með fólki og heiminum sem Guð elskar. Og Jesús segir að boða eigi ekki aðeins mannkyni heldur öllu sköpunarverkinu gleðifréttirnar.

Dagur uppstigningar varðar að framtíðin er ekki lokuð heldur opin. Og að Guð gefur gæði, gildi og stefnu fyrir lífið. Svo er það okkar að játa þessa djúpu heims- og mannsýn kristninnar og þora að leyfa gildum og gæðum og hamingjumálum að vera forgangsmál okkar.

Gengur af himni geislabrú í gegnum jarðardal

Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans, sjá litadýrð brotins ljóss. Og friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Þannig er kærleikur kristninnar, hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.

Áðan sungum við sálm Rósu B. Böndal nr. 169 í sálmabók. Í fyrsta versi sálmsins segir, sem túlkar fontinn en líka inntak uppstigningardags:

Ljómi Guðs veru líður nú

um landsins fjallasal.

Gengur af himni geislabrú

í gegnum jarðardal.

Amen.

Uppstigningardagur 21. maí, 2020.

Sannleikur, vald og samviskan

Ég er með hugann við Grikkland. Þetta er Grikklandsárið mitt því ég ætlaði að fara til Aþenu eftir mánuð, út í eyjar, til Serifos, Rhodos og kannski líka til Delfí. En það verður engin Grikklandsferð, alla vega ekki þetta árið því við ferðumst innan húss og innan lands. En í stað ferðar fór ég í bókarreisu og rifjaði upp eina af Grikklandsbókum mínum. Þetta er bókin The Double Tongue. Hún er um algera breytingu, þegar heimur endaði og ný veröld varð til. Sagan er um mannlíf í Grikklandi fyrir meira en tvö þúsund árum og mannlífið var þá á fleygiferð rétt eins og á okkar tímum. Bókin fjallar um sannleika. Valdamenn vilja láta sannleikann þjóna sér en ekki öfugt. Sumir ljúga algerlega fyrirhafnarlaust og telja sannleika. Og þannig hefur það verið á öllum tímum. Þegar fólk vill umbreyta sannleikanum sér í hag verður til lygi og allt verður skælt.

Sannleikurinn vék fyrir valdinu

Þegar spekingurinn og Nóbelskáldið William Golding féll frá árið 1993 var hann að skrifa bók um völvu í Delfí. Bókin var svo gefin út þrátt fyrir, að hún væri ekki fullgerð frá hendi höfundar. Þetta er heillandi bók og segir sögu stúlku, sem varð völva, meðalgangari Guðs og manna, prestur sem flutti boðskap af hæðum. Stúlkan ólst upp á höfðingjasetri í Grikklandi. Golding lýsir vel hvernig valdabarátta og hrossakaup stýrðu, að hún en ekki einhver önnur stúlka var send til uppeldis og þjálfunar í helgisetrinu Delfí. Síðan er rekstri véfréttarinnar lýst, hvernig boðskapinn þurfti stöðugt að búa út svo hann hugnaðist valdhöfum, Rómverjum eða grískum höfðingjum. Öllu átti að hagræða til að tryggja rekstur véfréttarinnar. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og rétt orðfæri. Véfréttin var ekki lengur tengill himins og jarðar heldur PR-miðstöð, spunastofa stjórnmála og hagsmuna þess tíma. Veröldin reynir alltaf að toga himininn niður. 

Völvan unga varð að læra og horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, hrein trú og heilindi væru lúxus, sem aðeins glóparnir geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, en var þó stöðugt í baráttu við eigin samvisku annars vegar og forstjóra véfréttarinnar hins vegar. En dagar Delfí voru taldir, mæliglas þess tómt, guðleg návist horfin og boðskapurinn af hæðum enginn.

Er til vald sannleikans?

Hvernig reiðir anda Guðs af í framvindu lífsins? Trúariðnaður er óvinur guðlegs anda og valdapot eyðir lífi. Völvan sagði skilið við svikamylluna. Hún fór með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar réð hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði þekkingu á yfirborðslegum trúariðnaði og hafði enga löngun til að reisa Delfíguðum altari. En þrátt fyrir sögu sína hafði hún ekki misst trúna á, að guðlegur máttur væri til. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: „Hinum óþekkta Guði.“

Hið góða getur spillst

Þessi saga um trú og bisniss er gild fyrir alla tíma. Það sem er byggt upp af heilindum og trúmennsku getur rotnað með tímanum – og innan frá. Fyrirtæki sem verða til í krafti vits, gilda og gæða eru stundum eyðilögð vegna græðgi, valdapots, stjórnmála eða mannvonsku. Trúarhreyfingar og kirkjuhreyfingar vaxa fram en geta síðan rotnað þegar hugur stjórnenda er meira við jörð en himinn, efni en anda, vald en vit.

Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en lífhvatar Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Hinum ókunna Guði

Völvan í Delfí, fullþroska og búin að fá nóg af lygi og prettum trúariðnaðarins, fór til Aþenu og reisti óþekktum Guði altari. Samkvæmt 17 kafla Postulasögunnar í Nýja testamenntinu fór Páll um Aresarhæð og sá þar altari reist ókunnum Guði. Og lagði út af þessu altari í predikun sinni. Hinn ritsnjalli William Golding spann sögu sína um guðsdýrkun í Delfi, sem brást, að sögu kristninnar. Sagan opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat ekki lengur spunnið blekkingarvef í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður.

Á sannleikurinn að þjóna mönnum – eða öfugt?

Síðan hafa ölturu verið byggð um allan heim. Kristnin breytist í kirkjur, hreyfingar og stofnanir. Og þegar stjórnendur vilja láta sannleikann fremur þjóna sér en öfugt þá er saga Golding lýsing á vandanum. Öll musteri og kirkjur eru kölluð til að þjóna sannleika. Við eigum ekki að týna trúnni í rekstri, fjármálum, byggingum og skipulagi. Við megum aldrei láta trúariðnað – né nokkurn annan iðnað – yfirtaka líf kirkjunnar. Hvað er sannleikur og hver er sannleikans megin? Guð elskar og skapar líf.

Góður andi

Hvað er þessi andi sem Jesús talaði um? Jú, það er sannleiksandinn, huggarinn, sem er sendur. En andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var líka að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar og einnig kitlaði íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar sjúkur er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar við vorum mótuð í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk Andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.

En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús sagði, að hann sendi Andann, huggarann. Opinberun Guðs er ekki lokið. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. En vissulega er ekki nóg að róta sem mest í lífinu, hamast sem ákafast. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm.

1. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama – Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki.

2. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.

3. Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.

Sannleiksandinn er kominn og spyr um trú og traust. Viljum við heyra og skilja sannleikann um okkur? Jesús er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn er kominn.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Meðfylgjandi mynd er af efsta hluta verks Leifs Breifjörð sem nefnist Dýrð, vald, virðing. Glugginn er yfir kirkjudyrum Hallgrímskirkju. 

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

 

Fossandi vín og miklu betri veislur

Rúrí framdi eftirminnilegan gjörning hér í Hallgrímskirkju fyrir fimmtán árum. Myndskeiðum af fossum Íslands var varpað á alla veggi, súlur og hvelfingar kirkjunnar. Kirkjan umbreyttist í fossaheim. Við, sem vorum í kirkjunni, urðum sem fossbúar, í margföldum Dettifossi í margföldu Jökulsárgljúfri. Ofurdrunum gljúfurrisans var varpað með hátölurum um allt rýmið og blandaðist orgelþrumum kirkjunnar. Hávaðinn var rosalegur.

Gjörningurinn fyllti skilningarvit, huga og líkama reynslu, sem var marga daga að setjast til. Kirkjurýmið er alla daga náttúrutengt en varð allt í einu annað en ég hafði áður upplifað. Vatnaveröld heimsins var í kirkjunni. Tilfinningin fyrir heilagleika var sterk. Þessi mikla kirkjan hafði orðið eitt með náttúrunni, vatn og andi voru eitt. Í þessari samþættun birtist kraftur, eitthvað stórfenglegt kom og fyllti okkur sem vorum svo lánsöm að lifa þessa stund. Tilfinningin fyrir hinu ríkulega fyllti sálina. Guðsvitund er ekki aðeins tengd hinu smágerða heldur líka hinu rosalegasta. Kirkjuskipið var sem steinker fyllt lífsgæðum. Við urðum fyrir hrífandi vímu sem greip og umbreytti. Mér varð þetta vitjun – Guðskoma.

Krísan í Kana

Hjónavígslusagan í Kana er saga af veislu og bruggaranum Jesú. En hvað er aðalatriði þeirrar sögu? Var það, að töframaður var uppgötvaður? Nei. Vissulega er þetta oft nefnt fyrsta kraftaverkið. Jesús var að byrja starfsferil sinn. Í Kana var hann prívatpersóna á ferð með mömmu og vinum. Þetta var fjölskylduveisla. Svo verður þessi pínlega sena, að veislukosturinn er búinn. Allir sómakærir veisluskipuleggjendur hræðast slíkt og reyna að fyrirbyggja að svo verði. María, Jesúmóðirin, kom hlaupandi og sagði syni sínum að nú væri illt í efni, vínið væri búið. Jesús spurði: “Hvað kemur það mér eða þér við?” En María bjó svo um hnúta að Jesú yrði hlýtt, ef hann gerði eitthvað í málum. María var áhrifavaldur.

Góður bruggari er nákvæmur í mælingum og þjónarnir fylltu mikil steinker – og hvert kerald tók um hundrað lítra. Þau voru ekki bara tvö eða þrjú heldur sex. Engin veit um fjölda veislugesta, né hvað menn voru búnir að drekka mikið áður en allt kláraðist. En það er nú ólíklegt, að veislugestir hafi verið búnir að svolgra meira en hálft tonn af áfengi! En nú voru kerin fyllt og undrið varð.

Drykkjuprédikun?

Hvað þýðir svona texti? Getum við lært eitthvað af honum? Í kjallara þessarar kirkju er öflugt AA og Al-Anon starf. Er boðskapurinn hér uppi í hróplegri andstöðu við stefnuna niðri? Er Jesús í Kanasögunni meðvirkur barþjónn? Nei, málið er dýpra en svo yfirborðsleg túlkun.

AA menn hafa aldrei haldið fram, að áfengi væri djöfullegt, heldur að misnotkunin væri vond. Vissulega voru þau til sem mislíkaði, að Jesús væri glaður og til í gleðskap. Hann var uppnefndur vínsvelgur og gleðimaður. Sagan fjallar um annað og mikilvægara en vín og notkun þess. Aðstæðurnar í Kana eru, að gleðiríkur viðburður er á barmi skandals. Hjónavígsla er jafnan stórkostlegasta veisla hvers samfélags. Við þekkjum hversu ægilegar afleiðingarnar geta orðið, ef samkvæmi er illa undirbúið eða einhverjir bregðast í skipulaginu. Í guðspjallinu er ekki um neinar smáreddingar að ræða, ekki hlaupið í næstu hús til að sníkja dreitil hér og lögg þar – eða hringt í “góða bíla.” Nei mörg risaker, stórar steinþrær. Þetta finnst mér einna hnyttnast í textanum.

Áherslan er, að þegar allt er í rugli, er lausn Jesú ekki hæfileg heldur stórkostleg og handan við allt, sem brúðkaup í litlu þorpi þarfnaðist. Hvað merkir það? Jú, þegar tími Jesú kemur eru engar smáskammtalækningar, heldur yfirdrifin gnægð. Jóhannesi guðspjallamanni var í mun, að minna fólk á að Jesús er Guð hins mikla, ofurveruleikinn í smáheimi manna. Í guðspjallinu er tjáð vissan um að Jesús ætti erindi við alla, ekki bara Gyðinga heldur líka Grikki, allt mannkyn. Því minnir ritari guðspjallsins á, að Jesús getur breytt vatni í vín rétt eins og Bakkus í grískri goðafræði. En Jesús er meiri en vínguðinn. Einkenni veraldar Jesú er hann býr til mikið magn og líka það besta. Hjá honum fara magn og gæði saman. Jesús er ekki aðeins mikill, heldur undur lífsins, skapandi höfundur sem opnar framtíð. Þarna eru skilaboðin. Vínþurrð er tákn um smæð og vanda en víngjöfin í textanum vísar til anda Guðs, sköpunar Guðs, lausnar Guðs, komu sjálfs Guðs.

Erum við í boðinu í Kana?

Kemur þetta þér við? Á þessi vínveisla erindi við þig? Já vegna þess, að ólánsveislan í Kana er sena um líf okkar, tákn um hvað við erum og upplifum, sem einstaklingar, en líka sem hópar, kirkja, þjóðir og menningarfylkingar.

Öll lendum við í Kanakreppunni á einn eða annan hátt. Hefur einhver tíma orðið óhapp eða skandall í þínu lífi? Verða ekki slys og áföll í samfélögum, sem enginn hafði búist við eða séð fyrir? Í pólitík, efnahagslífi, samskiptum þjóða og meðferð náttúrunnar koma óhjákvæmilega tímar þegar vínið er búið og veislan hljóðnar. Ekkert áfall er svo stórt, að Guð geti ekki skapað kraftaverk í miðri ógninni. Engin sorg er svo djúp, að hann megni ekki að lýsa í afgrunn myrkursins. Engin náttúrvá er svo megn, að Guð sé ekki nálægur með bæði hjálp, hönd og huggun. Engin siðógn eða trúarglíma kirkjunnar er svo slæm, að vínþurrð verði í Guðsríki! Engin átök menningarheima er án vonar um, að kraftaverkið verði. Engin kreppa í samskiptum trúarbragða er svo slæm, að hinn mikli víngerðarmaður eigi ekki nóga andagift til að halda samkvæminu á floti.

Gnótt guðsríkisins

Þetta er það sem Jóhannes vill segja með því að skvetta yfir okkur úr kerunum. Textinn er um skömm, áfall og svo hins vegar um nánd og gjörning Guðs. Í krafti hvers lifum við? Jesústarfið opinberar, að lífið er meira en hið smáa og aðkreppta. Lífið er stórkostlegt, yfirfljótandi gæði og möguleikar.

Þegar þú hefur tæmt alla möguleika, aðstæður eru hörmulegar, þú ert niðurfallin eða hrapaður í gímald einsemdar, depurðar og áfalls, þá er tími kraftaverksins kominn. Það er kallað á máli kristninnar að dauðinn eó en lífið lifir – að Jesús Kristur er upprisinn – að við búum í ríki Guðs þrátt fyrir að við séum í þessum heimi.

Stærri veisla – meira flóð

Þegar vatnsflóðið steyptist um alla Hallgrímskirkju opnaðist fyrir mér, að auðvitað megum við alla daga að lifa í þeim veruleika, að Guð kallar okkur til meiri og stærri veislu en við höfðum ímyndað okkur. Kirkjuskipið er mikið, kirkjurnar eru steinþrær guðsríkisins. Anda er þörf og máttur Guðs er í boði. Af sjálfri sér og brjóstviti sínu er kirkjan ekkert annað en smáskrall, sem þarf kraftaverk til að umbreyta í veislu himinsins. Náttúran er stór og mikil, en þó aðeins ofurlítill daggardropi í þeim stórsjó sem elska og undur Guðs er. Ástin og unaður í samskiptum er aðeins stroka í því stórfaðmlagi og ástaleik sem Guðsríkið er.

Á neðri hæð kirkjunnar berjast menn gegn áfenginu en á efri hæðinni er mælt með að Jesús breyti vatni í vín! Rónarnir koma óorði á brennivínið, við á lífið, en ofangæðin fossa úr stórkeröldum himinsins fyrir alla og á öllum hæðum jafnt. Áföll eru hluti lífs í þessum heimi. Öll partý enda í vandræðum ef Jesús er ekki boðinn. Öll mannleg skipan, siðferði, samskipti og líf munu spillast og ekki ná hæðum nema í samskiptum við þennan, sem á svo mikil gæði að gefa að engin botn er á. Lífsveislan verður ekki góð nema honum sé boðið. AA mennirnir skilja þennan boðskap. Það er ekki svo ólík prédikunin efra og neðra, vegna þess að við erum í sama boði – í Kana – og vitum hver blessar stóru kerin.

Amen

Just a few words on the sermon. The story in John 2 tells about the miracle in Kana. Jesus was starting out his mission but he was with his family in a wedding. The wine was out. So, as the story goes, his mother pushed Jesus and asked him to do something about it. And finally with twists and turn Jesus solved the issue. What to do with the story? We should meditate the meaning. And there are many shades of meaning but the essential is that the human life should not be a poor one but overflowing with joy. We are created for the good life. God wants us to enjoy life. And this concerens everything, the human, life of endangered nature of the globe. The story has meaning for us all, also on the personal level. Is your feast coming to close or are you willing to open up?

Hallgrímskirkja 19. janúar 2020.