Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)

Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

Skírnarfontur Hallgrímskirkju

Mér þykir alltaf jafn skemmtilegt að skíra börn. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og kærleika foreldra og ástvina. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar og guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang.

Skálar skírnar

Í heimaskírnum er tekin fram besta skál heimilisins, oft kristalsskál eða vandaður hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina, gætt að hitanum og svo er hún borin þangað sem athafnirnar eru, oftast í stofunni. Þetta eru fallegar skálar og hafa tilfinningagildi í fjölskyldum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar.

Svo eru skírnarskálarnar í kirkjunum mismunandi líka. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Fontar í kirkjum hafa oft verið gefnir. Í Neskirkju í Reykjavík er t.d. fagur skírnarfontur Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og kona Þórs bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn var kominn í heiminn var hann fyrsta barnið sem skírt var í Neskirkjufontinum.[i] Fonturinn er dýrgripur. Dómkirkjufonturinn sömuleiðis. Og við getum farið um borg og land og uppgötvum þá að fontarnir eru listaverk sem hæfa undraathöfn veraldar.

Vertu Guð faðir, faðir minn

Skírnarfontur Hallgrímskirkju er dýrgripur líka. Hann er gefinn af kvenfélaginu og velunnurum. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í fontinum og myndar friðarboga og jafnvel fleiri en einn. Þegar bjart er sést líka letur bæði á dökka fletinum á fontinum og líka þeim ljósa.

Á blágrýtishlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar: „Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.“ Það er við hæfi að klappa bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann – á hverjum degi og hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Guðstengsl eru nándartengs.

Trú og skírn

En svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa biblíuvers í gegnum þykkan kristalinn. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Versið er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Orð eru í guðspjalli dagsins. Skírnarfontur Hallgrímskirkju er fontur uppstigningardags. Það er vel. Uppstigningardagur er stórdagur kristninnar þó hann hafi í vitund fólks ekki sömu stöðu og jól og páskar. En á þessum degi eru mergjaðir og máttugir textar fluttir. Textar um Guð, komu Guðs og að Guð er á ferð í þágu lífsins. Það er eins og uppstigningardagur tjái umfang hins kristna erindis gleðinnar, sé eins og summudagur jóla, páska og hvítasunnu.

Postuli Jesú

Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð, Guðjón Samúelsson og Andrés Narfi Andrésson eru helstu sjónlistarmenn Hallgrímskirkju. Ef Bach er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, unnið við prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn. Mér þótti heillandi að sjá skissur Leifs og hvernig hann vann undirbúningsvinnuna. Ákveðið var að kristallinn yrði steyptur í Tékklandi af miklum kristalssnillingum, vinum Leifs og Sigríðar, konu hans. Tékkarnir töldu vandalítið að steypa, en annað kom á daginn. Stykkin voru svo stór, að þau sprungu í kælingunni og efasemdir vöknuðu um að hægt væri að steypa svo stór stykki. En þegar búið var að lengja kælitímann í þrjá mánuði gekk verkið loks upp og hægt var að setja stykkin saman. Úr varð þetta listaverk og uppstigningardagsundur sem fonturinn er.

Nánd Guðs

Sá sem trúir og skírist – þar er tvenna lífsins. Mun hólpinn verða – það merkir að vera Guðs, búa með Guði og njóta allar blessunar tíma og eilífðar. Þessi boðskapur brosir við öllum þeim, sem koma í kirkjuna og liðast inn í sauma og vitund skírnarbarnanna sem eru ausin vatni. Þetta rifjum við upp í dag og minnum okkur á þennan uppstigningardag.

Erindi við allan heiminn

Það er fögnuður og lífsnánd í sálmum dagsins sem við syngjum. Og það er gleði í Biblíutextunum einnig. Áhersla uppstigningardags er ekki á yfirskilvitlegan viðburð, að Jesús hvarf sjónum manna, steig upp í himininn. Biblían beinir aldrei sjónum út úr heimi heldur inn í hann. Áherslan er ekki á töfra heldur gæsku og hamingju. Textar dagsins fjalla um að allur heimurinn má fá að heyra og njóta að Guð elskar. Hin mikla sýn lexíu dagsins úr Daníelsbók varðar að Guð hefur allt vald. Í pistlinum, hinni dramatísku sögu úr Postulasögunni er ljóst, að Jesús er ekki fjarlægur andi sem bara gufaði upp. Jesús Kristur var og er lifandi vera, sem borðaði með fólki, hafði ekki hugsað sér að reisa lítið konungsríki á hjara veraldar heldur vera lífgjafi öllum heimi, sínálægur, síverandi með fólki og heiminum sem Guð elskar. Og Jesús segir að boða eigi ekki aðeins mannkyni heldur öllu sköpunarverkinu gleðifréttirnar.

Dagur uppstigningar varðar að framtíðin er ekki lokuð heldur opin. Og að Guð gefur gæði, gildi og stefnu fyrir lífið. Svo er það okkar að játa þessa djúpu heims- og mannsýn kristninnar og þora að leyfa gildum og gæðum og hamingjumálum að vera forgangsmál okkar.

Gengur af himni geislabrú í gegnum jarðardal

Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans, sjá litadýrð brotins ljóss. Og friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Þannig er kærleikur kristninnar, hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.

Áðan sungum við sálm Rósu B. Böndal nr. 169 í sálmabók. Í fyrsta versi sálmsins segir, sem túlkar fontinn en líka inntak uppstigningardags:

Ljómi Guðs veru líður nú

um landsins fjallasal.

Gengur af himni geislabrú

í gegnum jarðardal.

Amen.

Uppstigningardagur 21. maí, 2020.

Sannleikur, vald og samviskan

Ég er með hugann við Grikkland. Þetta er Grikklandsárið mitt því ég ætlaði að fara til Aþenu eftir mánuð, út í eyjar, til Serifos, Rhodos og kannski líka til Delfí. En það verður engin Grikklandsferð, alla vega ekki þetta árið því við ferðumst innan húss og innan lands. En í stað ferðar fór ég í bókarreisu og rifjaði upp eina af Grikklandsbókum mínum. Þetta er bókin The Double Tongue. Hún er um algera breytingu, þegar heimur endaði og ný veröld varð til. Sagan er um mannlíf í Grikklandi fyrir meira en tvö þúsund árum og mannlífið var þá á fleygiferð rétt eins og á okkar tímum. Bókin fjallar um sannleika. Valdamenn vilja láta sannleikann þjóna sér en ekki öfugt. Sumir ljúga algerlega fyrirhafnarlaust og telja sannleika. Og þannig hefur það verið á öllum tímum. Þegar fólk vill umbreyta sannleikanum sér í hag verður til lygi og allt verður skælt.

Sannleikurinn vék fyrir valdinu

Þegar spekingurinn og Nóbelskáldið William Golding féll frá árið 1993 var hann að skrifa bók um völvu í Delfí. Bókin var svo gefin út þrátt fyrir, að hún væri ekki fullgerð frá hendi höfundar. Þetta er heillandi bók og segir sögu stúlku, sem varð völva, meðalgangari Guðs og manna, prestur sem flutti boðskap af hæðum. Stúlkan ólst upp á höfðingjasetri í Grikklandi. Golding lýsir vel hvernig valdabarátta og hrossakaup stýrðu, að hún en ekki einhver önnur stúlka var send til uppeldis og þjálfunar í helgisetrinu Delfí. Síðan er rekstri véfréttarinnar lýst, hvernig boðskapinn þurfti stöðugt að búa út svo hann hugnaðist valdhöfum, Rómverjum eða grískum höfðingjum. Öllu átti að hagræða til að tryggja rekstur véfréttarinnar. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og rétt orðfæri. Véfréttin var ekki lengur tengill himins og jarðar heldur PR-miðstöð, spunastofa stjórnmála og hagsmuna þess tíma. Veröldin reynir alltaf að toga himininn niður. 

Völvan unga varð að læra og horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, hrein trú og heilindi væru lúxus, sem aðeins glóparnir geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, en var þó stöðugt í baráttu við eigin samvisku annars vegar og forstjóra véfréttarinnar hins vegar. En dagar Delfí voru taldir, mæliglas þess tómt, guðleg návist horfin og boðskapurinn af hæðum enginn.

Er til vald sannleikans?

Hvernig reiðir anda Guðs af í framvindu lífsins? Trúariðnaður er óvinur guðlegs anda og valdapot eyðir lífi. Völvan sagði skilið við svikamylluna. Hún fór með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar réð hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði þekkingu á yfirborðslegum trúariðnaði og hafði enga löngun til að reisa Delfíguðum altari. En þrátt fyrir sögu sína hafði hún ekki misst trúna á, að guðlegur máttur væri til. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: „Hinum óþekkta Guði.“

Hið góða getur spillst

Þessi saga um trú og bisniss er gild fyrir alla tíma. Það sem er byggt upp af heilindum og trúmennsku getur rotnað með tímanum – og innan frá. Fyrirtæki sem verða til í krafti vits, gilda og gæða eru stundum eyðilögð vegna græðgi, valdapots, stjórnmála eða mannvonsku. Trúarhreyfingar og kirkjuhreyfingar vaxa fram en geta síðan rotnað þegar hugur stjórnenda er meira við jörð en himinn, efni en anda, vald en vit.

Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en lífhvatar Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Hinum ókunna Guði

Völvan í Delfí, fullþroska og búin að fá nóg af lygi og prettum trúariðnaðarins, fór til Aþenu og reisti óþekktum Guði altari. Samkvæmt 17 kafla Postulasögunnar í Nýja testamenntinu fór Páll um Aresarhæð og sá þar altari reist ókunnum Guði. Og lagði út af þessu altari í predikun sinni. Hinn ritsnjalli William Golding spann sögu sína um guðsdýrkun í Delfi, sem brást, að sögu kristninnar. Sagan opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat ekki lengur spunnið blekkingarvef í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður.

Á sannleikurinn að þjóna mönnum – eða öfugt?

Síðan hafa ölturu verið byggð um allan heim. Kristnin breytist í kirkjur, hreyfingar og stofnanir. Og þegar stjórnendur vilja láta sannleikann fremur þjóna sér en öfugt þá er saga Golding lýsing á vandanum. Öll musteri og kirkjur eru kölluð til að þjóna sannleika. Við eigum ekki að týna trúnni í rekstri, fjármálum, byggingum og skipulagi. Við megum aldrei láta trúariðnað – né nokkurn annan iðnað – yfirtaka líf kirkjunnar. Hvað er sannleikur og hver er sannleikans megin? Guð elskar og skapar líf.

Góður andi

Hvað er þessi andi sem Jesús talaði um? Jú, það er sannleiksandinn, huggarinn, sem er sendur. En andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var líka að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar og einnig kitlaði íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar sjúkur er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar við vorum mótuð í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk Andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.

En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús sagði, að hann sendi Andann, huggarann. Opinberun Guðs er ekki lokið. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. En vissulega er ekki nóg að róta sem mest í lífinu, hamast sem ákafast. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm.

1. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama – Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki.

2. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.

3. Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.

Sannleiksandinn er kominn og spyr um trú og traust. Viljum við heyra og skilja sannleikann um okkur? Jesús er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn er kominn.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Meðfylgjandi mynd er af efsta hluta verks Leifs Breifjörð sem nefnist Dýrð, vald, virðing. Glugginn er yfir kirkjudyrum Hallgrímskirkju.