Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Bandaríkin, Ísland, Guðsríkið

Í dag höldum við hátíð í Hallgrímskirkju. Við göngum að borði Drottins. Fyrsta altarisgangan eftir meira en árshlé, raunar hlé í meira en fimmtán mánuði. Svo er líka þjóðhátíðardagur vinaþjóðar okkar vestan hafs. Textar messunnar varða guðsríkið. Íhugunarefni dagsins eru gildi, menning Íslands, Bandaríkjanna og Guðsríkisins. Það er merkileg þrenna. Öll jarðnesk ríki þarfnast heilbrigðrar gunnfestu og skipulags til góðs fyrir fólk. Guðsríkið er fyrirmynd um viðmið.

Er til nokkur góður maður?

Mér eru Bandaríki Norður Ameríku kær. Eftir guðfræðipróf frá HÍ stundaði ég framhaldsnám í Tennessee, sem er eitt af suðurríkjunum sem eiga sér mikla og marglita sögu. Mér þótti vera gefandi og heillandi. Eftir fyrsta veturinn vestra kom kom ég heim í sumarfrí og átti tal við konu hér í borginni. Hún vissi af námslandi mínu, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: „Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var frá hjartanu, heiðarleg og alls ekki sögð í gamanskyni eða af kaldhæðni. Henni var alvara. Konan hafði sterkar skoðanir í pólitík, á fólki og þjóðum. Hún var raunverulega sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri illt og vegna gerðar hins ameríska samfélags væru íbúarnir skemmdir því samfélagið væri kerfislega spillt og íbúarnir þar með líka. Ég furðaði mig á fordómunum og ákvað að svara viðmælanda mínum. En rök mín breyttu engu. Það var engin leið til að fá konuna til að breyta klisjuhugsun sinni.

Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum? Spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín reglulega þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Hún er tákn um einfeldningshátt sem því miður margir temja sér og rækta með sér. Jú, það er eðlilegt og nauðsynlegt að gefa sér forsendur í lífinu en vondar og vitlausar forsendur ala klisjur, fordóma og ofstæki. Og í krafti rangtúlkunar verða til falsfréttir, hleypidómar, ótti, vond pólitík, einangrunarhyggja og múgæsing. Afkvæmi slíkrar afstöðu eru mannhatur, ofbeldi, kúgun, manndráp og stríð.

Er til nokkur góður maður? Fordómar sem búa til slíkar spurningar búa í fólki sem dæmir aðra ranglega. Einstaklingar, hópar, félagasamtök, kynþættir, trúarhópar og öðru vísi fólk og jafnvel heilu þjóðirnar eru flokkuð í betri og verri, normal og ónormal, gott og vont. Til verður andstæðan við og þið.

The Declaration of Independance

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna rifja ég upp spurninguna um meinta illsku Ameríkana. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Ekkert samfélag er fullkomið, hvorki hið bandaríska né íslenska. En margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Sjálfstæðiyfirlýsingin er klassík, eitt af djásnum Bandaríkjanna og líka heimsmenningarinnar. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er uppspretta yfirlýsingarinnar og skjalið túlkar kristin grunngildi og mannréttindi sem heilbrigður átrúnaður túlkar og styður.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er magnað plagg sem fjallar um gildi og frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Þegar stjórnvöld bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda er skilgreind og viðurlög brota stjórnvalda ákveðin. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Þessa visku megum við gjarnan taka til okkar, læra af.

Viskurof

Sjálfstæðisyfirlýsingin er viðmið og stefnuvaki bandarískar menningar. Í menningarhefð okkar Íslendinga er líka hliðstæð mannsýn og lífsleikni sem við þurfum að rækta og njóta. Viskan er ekki síst tjáð í trúarhefðinni. Í íslenskum trúarritum okkar er kennt að við séum ekki bara óháðir einstaklingar sem lifum bara fyrir eigin þarfir og langanir heldur séum við meðlimir stórfjölskyldu. Hlutverk okkar er ekki að belgja okkur ekki út heldur virða samspil, kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Sú hófstillingarhugsun er líka tjáð í þjóðsögunum. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum kristninnar eins og Passíusálmum er að við séum tengslaverur og ættum að sjá hlutverk okkar í stóru samhengi við náungann og Guð. Þá farnast okkur vel. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama. Jákvæð mannhugsun er tjáð í klassík Bandaríkjanna og Íslands.

Erindi lestranna

Þá að Biblíutextum sem eru bæði á íslensku og ensku í ljósrituða sálmayfirlitinu. Í dag er vísað í stóru málin. Lexían varðar að fólk er kallað út úr hinu þrönga samhengi og til hins stóra. Kall Guðs varðar að fara pílagrímaferð til nýrrar tilveru. Þegar Guð kallar reynir á hugrekki: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera.“ Hver þorir að slíta sig í burtu, fara?

Þetta var kall þeirra sem fóru frá heimaslóð til að flytjast til Íslands á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Og staða þeirra sem fóru til Bandaríkjanna á sinni tíð til að setjast þar að. Það þarf mikið þrek og hugrekki til að bregðast við boði um að taka sig upp og fara inn í nýjar aðstæður og til nýrrar tilveru. Stef lexíunnar er síðan endurunnið í pistilinum sem varðar að efla nýtt samfélag þar sem alls konar og ólíkt fólk er leitt saman. Hið nýja og óvænta verður þegar Guð kallar fólk frá hinu gamla, hinu hefðbundna, líka fordómum og til hins nýja. Til verður samfélag á grundvelli nýrra gilda, nýrrar mannhugsunar og nýrrar samfélagshyggju. Guðspjallið dregur svo saman að guðsríki Jesú Krists er hið nýja mannfélag elskunnar, samheldni, virðingar og kærleiksríkrar umhyggju. Í guðspjallinu er farið að baki fordómum. Hið illa má og þarf að hverfa. Illa anda, þ.e. hvers konar illsku og mannskemmandi afstöðu, þarf að kveða burt. Í endurvinnslu guðsríkisins skal hið illa fjarlægt. Segja skal skilið við það sem eyðileggur mannvirðingu, virðingu fyrir lífinu, fyrir öðrum. Guðstrú kallar fólk til virðingar fyrir sköpun Guðs, samfélögum, öðru fólki og eigin lífi.

Hver er vinsemd þín?

Og þá er komið að þér og vinsemd þinni. Hver eru gildi þín og hvernig bregst þú við þeim sem eru þér ólík og koma að utan? Ertu til í að leyfa fólki að njóta sannmælis? Ríkir í þér mannvinsemd, sjálfsvinsemd og lífsvinsemd? Slík vinsemd er tjáning trúar á Guð sem elskar fjölbreytni. Eru í þér fordómar um að þau sem ekki hugsa eins og þú séu annars flokks? Er komið að endurskoðun? Þarftu að endurskoða klisjur þínar, jafnvel fordóma um þitt eigið sjálf og persónu? Þarftu að heyra kall lexíunnar að þú þurfir að halda í merkilegra ferð sem Guð kallar þig til? Þarftu að leyfa Guðs góða anda að næra vinsemd þína til eigin lífs, eigin sjálfs, til annarra, samfélagsins, heimsins sem við búum í og náttúrunnar sem umvefur þig með svo ljúflegu móti?

Guðstrú varðar að stækka tilveru okkar. Guð er ekki handbendi og málsvari hins smáa, héraðs, menningar eða þjóðar. Guð er skapari heimsins, sem kallar okkur til að virða sköpun sína, náttúruna, annað fólk. Við erum ekki kölluð til klisjulegrar einfeldni heldur til virðingar fyrir grunngildum, góðu samfélagi, friði og réttlæti. Köllun okkar allra er að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum fulltrúar Guðs í heimi. Okkar hlutverk er að þjóna fólki vegna þess að það er lífsafstaða trúmannsins að gera öðrum gott því Guð vill þessum heimi gott.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Velferð Bandaríkjanna og lífsgæði á Íslandi eru háð því að við iðkum mannvirðingu. Við erum kölluð til að vera borgarar Guðsríkisins, abyrgir fulltrúar ríkis Jesú Krists. Amen.

Prédikun í messu í Hallgrímskirkju 4. júlí 2021. Fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Myndina af drengjunum tók ég fyrir sex árum. Hattarnir og hálsfestin voru gjöf sendiherra BNA en drengirnir Guðsgjöf. 

Lexía: Fyrsta Mósebók 12.1-4a
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum.

Pistill: Rómverjabréf 16.1-7
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.

Guðspjall: Lúkasarguðspjall  8.1-3
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Sigurbjörn Einarsson

Sigurbjörn Einarsson fæddist 30. júní 1911. Er Sigurbjörn söguleg samtíð? Er samtíð okkar bættari að njóta íhugunar hans, sálma, guðfræði og afstöðu? Já, um það er ég sannfærður. Ég tengdist Sigurbirni þegar í bernsku. Hann bjó með Magneu sinni og fjölskyldu í húsi rétt hjá húsi minnar fjölskyldu við TómasarhagaHann hafði tíma fyrir okkur smáfólkið í götunni. Ekki man ég okkar fyrsta fund, en mér skilst að Sigurbjörn hafi stoppað þar sem ég var að leik á holóttum Tómasarhaganum. Ég horfði upp á þennan góða granna og spurði kotroskinn eins og börnum er einum lagið„ Hvað heitirru?” Hann svaraði: Ég heiti Sigurbjörn og er stundum kallaður biskup. En hvað heitir þú?” Og ég svaraði í sömu mynt. Ég heiti Sigudur Ádni en er oftast kallaður Litli!” Þetta þótti Sigurbirni skondið og sagði frá orðaskiptum heima og sagan kom svo til mín áratugum síðar. En ég er viss um að Sigurbjörn hefur ekki sjálfur sagt að hann væri kallaður biskup. Sagan hefur líklega verið löguð til í frásögn til að búa til innrím eða samhverfu. Við Sigurbjörn tengdumst sem sé snemma og tengsl okkar rofnuðu aldrei. Hann kom og kona hans í fermingarveislu mína og þau gáfu mér áritaða fermingarbiblíu sem er mér kær og ég notaði í mörg ár. Við áttum síðan margvísleg tengsl allt til lífsloka Sigurbjarnar. Ég leitaði t.d. til hans þegar ég hóf kyrrðardagastarf í Skálholti á sínum tíma og átti í honum hollan og heillyndan ráðgjafa.

Í Skálholti fylgdist ég nokkur ár með mannakomum er ég bjó þar. Þegar margmenni var á staðnum fundu börnin hvert annað, kollega- og vinahópar sömuleiðis og prestarnir skutu á prestafundum. Allir vildu njóta Sigurbjarnar, hann var svo skemmtilegur. En svo fór jafnan að það var sem hann gufaði upp. ´”Hvert fór Sigurbjörn, biskup?” spurði fólk. Hann rölti engan stofugang á milli hópanna. Nei, hann fór þangað sem börnin voru. Þar var hægt að ganga að honum vísum. Alltaf snart mig þessi barnavirðing hans. Mér fannst hann prédika með orðlausri, hlýrri nánd erindi Guðs til mannabarna. Atferli sýnir innri mann. Sigurbjörn var þar sem manneskjan var grímulaus, þar sem mannssálin var opin og heiðríkja himinsins fékk tiplað meðal mannabarna á jörðinni. Við getum lært margt af Sigurbirni, þetta líka.

Fræðimaðurinn

Sigurbjörn hafði metnað til náms og naut góðrar menntunar, var flestum víðfeðmari hvað fræðin varðar. Hann var öflugur málamaður, frábær ritskýrandi, aflaði sér víðtækrar og líka djúptækrar þekkingar í klassískum fræðum, trúarbragðasögu, trúfræði, heimspeki og hugmyndasögu og svo auðvitað öllum hinum kennimannlegu og þjóðlegu fræðum, sem nýtast mega presti. Um listrænu þarf ekki að fjölyrða, hún var honum gefin og hann iðkaði hana alla ævi.

Prédikunarháttur

Stefjavinnsla einkennir predikanir Sigurbjarnar. Hann dró gjarnan út eitt meginstef og sniðlaði með handbragði listamannsins. Dægurmál speglaði hann í biblíutextum, ræddi siðferðileg úrlausnarefni, höfuðkenningar kristninnar o.s.frv. en aldrei þó þannig, að rammi textans springi eða týndist. Hinar tematísku predikanir voru engar tilraunir með þanþol trúar eða tilheyrenda. Þær voru biblíulegar, töluðu úr heimi trúarinnar, Guðsreynslu Ritningarinnar.

Sigurbjörn færði hinn biblíulega heim til samtals við samtíma sinn og hélt þeirri samræðu árangursríkri, vegna þess hversu vel hann fótaði sig í báðum heimum. Hann reyndi sannleik trúarinnar á Jesú. Predikanir hans voru fluttar af sannfæringu þess, sem hefur verið höndlaður og meinti það, sem hann sagði.

Guð og flóttamaður

Tvö meginstef voru í ræðum Sigurbjarnar: Guð og maður. Manninum lýsti hann gjarnan sem flóttamanni frá eigin skynsemi, samvisku, köllun og þar með Guði. Sigurbjörn dró þessa flóttamenn saman í samnefnaranum þú og ég. Hann sagði:

„Er Guð þá ekki sæll, hinn ríki, voldugi konungur alheimsins? Nei, ekki á meðan þú ert ekki sæll, ekki á meðan hann vantar þig, ekki á meðan hann, Guð þinn og Faðir, er þér ekki annað en nafn, óljós grunur, reikul þrá – á meðan er Guð hryggur, hryggur yfir þér. Það er fylgst með þér úr himnunum.”

Í prédikunum minnti Sigurbjörn á, að mannshjartað sé svipað nú og fyrr, í gleði, synd og sælu, ást og hatri. Móðirin lætur eins að barni sínu, elskhuganum er líkt innanbrjósts og fyrir öldum, morðinginn, þjófurinn, sælkerinn, svíðingurinn og kúgarinn eru áþekkir innvortis. Við fæðumst ekki með hátíðlegri hætti en áar okkar og eddur. Á banasænginni erum við í sömu sporum og þau. Bílar, tækni og tannburstar breyta engu um hver við erum. Þetta dró Sigurbjörn allt upp  – Guð er og maðurinn á enga flóttaleið frammi fyrir þeim altæka veruleika.

Gefast upp – ávinna allt

Ræður Sigurbjarnar eru öflugir kastarar, sem beint var að hvers konar hrófatildri mannanna. Predikanirnar opinbera sjálfumgleði og hroka. Sigurbjörn benti á hið skýra viðmiðið og að Guð bjóði mönnum að ávinna allt, hamingju, tilgang, sanna mennsku – trúa á Guð. Þar með voru mannlýsingar Sigurbjarnar ekki sálfræði, túlkunarfræði, meðferðaraðferð eða heimspekikenning heldur kristindómur, persónuleg játning um hvað reyndist honum, já milljónum fyrr og síðar, lausn alls vanda, tjáning þess að Guð elskar og leitar allra – að Guð gefst ekki upp og svíkur aldrei.

Mál og stíll

Prédikanir Sigurbjarnar eru málfarsundur. Hann lék sér með nýyrði, splæsti vel saman óvænt efni og úr óskyldum merkingarheimum og hefðum. Meitlaðar setningar og hlýjar orðstrokur sóttu svo inn í tilheyrendur og lesendur. Andstæður, sem Sigurbjörn dró oft fram, voru gjarnan í bland við íróníu. En hann var ekki kaldhæðinn þótt hann greindi og tjáði hið kostulega og stundum ógnvænlega. Andstæður glenna upp augu manna gagnvart hinu ótrygga lífi og hæpinni stöðu. Sigurbjörn prédikaði:

„ …allt, sem eftir oss liggur í hinum sýnilega heimi, týnist með kulnuðum eða logandi hnetti út í tómið, með jörð, sem hefur lokið ætlunarverki sínu og verður köld og dimm og líflaus eyðistjarna á öræfaslóðum geimsins, eða blossar upp og hverfur samstundis. En yfir oss hvílir annað og meira en hverfulleiki duftsins, sem vér lifum í og fæðumst og nærumst af. Yfir oss hvílir auglit hins eilífa og orð hins eilífa í náð og í dómi.”

Líkingar og umræðuefni Sigurbjarnar komu oft á óvart og voru hnittin eða fyndin.  

„Líf flestra manna er líkast kirkjusvefni. Þeir sofa þangað til sagt er “amen”. Þá hrökkva þeir upp. En þá er um seinan að heyra eilífðarboðskapinn og taka á móti blessuninni frá Drottni. Þannig vaknar margur þá fyrst, þegar dauðinn nálgast og segir sitt amen yfir lífi þeirra.”

Slíkur texti skemmtir, en undir var djúpur hylur myrkrar alvöru. Aðferðin var hin sama og í Vídalínspostillu, kímni er beitt, sem opnaði og íhugun vaknaði. 

Sálgæsluprédikun

Einkennandi stílbragð predikana Sigurbjarnar er notkun “ég” og “þú” fornafnanna. Saga Jesú er ekki forn saga, heldur saga um fólk allra alda, um þig. Dæmi úr heimi Biblíunnar, sagnir af kraftaverki, af stjórnmálum eða vandkvæðum urðu allt í einu innanhúsmál þitt, varða samskipti þín við maka þinn, börn, stöðu þína, best földu leyndarmál þín og grafin gull hjarta þíns. Predikun Sigurbjarnar varð svo áleitin vegna þess að hann beindi ræðu í farveg einkasamtals tveggja vina. Prédikanirnar þjónuðu því sálgæsluhlutverki. Þær hafa elst vel, eru orðnar klassík, sem megna að upplýsa lífsbaráttu okkar og trú nú og áfram.

Skilaboðin frá Guði

Frá upphafi og alla tíð vissi Sigurbjörn Einarsson, að hlutverk hans væri „að flytja skilaboðin frá Guði.” Hann var sjálfur holdgervingur þess elskuboðskapar. Hann fann ekki aðeins okkur litlu börnin, heldur var okkur ásjóna Guðs. Hann var ekki aðeins verið kallaður biskup, heldur opin sál sem lifði í grímulausu heiðríkju himinsins og því góður hirðir, helgur maður. Ég mat Sigurbjörn meira en flesta aðra menn. Ég sakna hans en blessa minningarnar um hann á þesum 110 ára afmælisdegi hans. Hann var fæddur 30. júní 1911. 

Myndirnar meðfylgjandi. Gunnar Salvarsson tók þessa frábæru svart-hvítu mynd. Gunnar bjó í bernsku í nágrenni okkar Sigurbjarnar, á Tómasarhaga 7. Hina myndina tók ég þegar Sigurbjörn kom í heimsókn á heimili mitt, ásamt Rannveigu, dóttur hans, og Bernharði Guðmundssyni. Sigurbjörn sat við hlið smásveinsins Jóns Kristjáns, sem fann fyrir nánd og friði.

Bjössi og samherjar lífsins

Þegar ég ólst upp á Grímstaðaholtinu var á vorin mikið fjör við Þormóðsstaðafjöruna við Ægisíðu. Þar voru bátar grásleppukarlanna. Björn Guðjónsson var kóngurinn á svæðinu. Íbúar í Vesturbænum könnuðust við Bjössa og allir krakkar á Grímsstaðaholtinu þekktu hann. Við, smáfólkið, sóttum í fjölbreytilegt lífið við ströndina, skoðuðum kuðunga og iðandi fjörulífverur og veiddum fisk. Stundum synti torfa af stórufsa upp í fjöruna þar sem þurrkhjallur Björns var. Það var gaman að veiða ufsann á stöng því hann var svo sprettharður. Trillukarlarnir skildu veiðihug barnanna og gáfu beitu. Þeir voru flestir vinsamlegir en Björn var þeirra fremstur. Hann var sækóngurinn í heimi okkar barnanna, glæsilegur eins og Hollywoodstjarna, hélt sig vel og var sómi stéttar sinnar. Báturinn hans var alltaf hreinn og kofinn hans sérlega snyrtilegur. Björn var mildur höfðingi í sinni verstöð. Hann var glettinn og elskulegur við yngri sem eldri og sannur mannvirðingarmaður. Skapfestan kom vel í ljós þegar á einhvern var hallað. Þá var Björn strax kominn við hlið þess sem að var sótt eða var minni máttar. Einu gilti hvort til hans komu börn, útigangsmenn eða þjóðhöfðingi. Allir nutu sömu ljúflyndisglettninnar, en hinir fátæku nutu hins vegar sérstakrar viðskiptavildar og verðið til þeirra var stundum talsvert neðan við þekkt kílóverð. Björn þekkti ekki aðeins umhyggjusiðfræði kristninnar, heldur iðkaði hana í lífinu og í samskiptum við fólk. Hann var „grand” í lífinu og stærstur í samskiptum. Hann var samherji í samfélagi.

Í róður

Af því mér þótti Bjössi heillandi og traustins verður spurði ég hann ein sinni þegar ég var ellefu ára hvort ég mætti fara á sjó með honum. Hann tók spurningunni ljúflega en lofaði engu fyrr en foreldraleyfið væri veitt. Og pabbi og mamma treystu Birni Guðjónssyni og öllu hans fólki. Róðurinn með Bjössa var eftirminnilegur dýrðardagur. Góðmiðin við Staðarboða út af Álftanesi gáfu vel. Skipstjórinn var fumlaus. Meðan hann dró netin og skellti inn hrognkelsum og rauðmaga, fylgdist hann með skýjafari, blikum á lofti og lífi í sjó. Hann skýrði líka verkin fyrir hásetanum, talaði um sker og boða, benti mér á hnísu í sjónum og sagði frá þaraþyrsklingi, sem hann sá í djúpinu og hélt örfyrirlestur um hvernig þarinn skilaði kviðlit fiskjarins. Það var helgi í manninum og lotningarverð elska í starfi hans.

Dagur sjómanna

Á sjómannadegi hugsa ég gjarnan til sjómannanna sem ég þekki og hafa haft áhrif á fólk og mótað umhverfi sitt. Margir sjómenn hafa verið fyrirmyndir eins og Björn var mér. Sjómennirnir sem fólkið þeirra og fjölskyldur hefur verið lykilfólk í mótun velferðarsamfélags Íslands. Við minnumst líka þeirra sem farið hafa í hafið og íhugum afleiðingar fyrir ástvini þeirra og menningu þjóðarinnar. Við erum flest komin af fólki sem hefur sótt sjóinn. Báðir afar mínir voru sjómenn meðfram fjár- og kúabúskap. Fjölskylda konu minnar hafði lifibrauð af sjósókn. Sjómenn eru í flestum íslenskum fjölskyldum og höggvin hafa verið skörð í þær flestar. Algengt var fyrrum að þegar vermenn fóru á vertíð kvöddu þeir ástvini sína eins og þeir færu að heiman í síðasta sinn og ættu aldrei eftir að sjá þá aftur. Í stærstu sjóslysum aldanna fórust svo margir að hlutfallstollurinn var meiri en mannfall herþjóða í stríðum. Slagur Íslendinga var við haf og æðandi náttúruöfl. Í þeirri glímu varð til slitsterk trú og tenging við allt það mesta, besta og stærsta, Guð.

Kirkjuskipin

Trú og sjór tengjast. Aðalrými kirkna eru kölluð kirkjuskip. Og svo eru í ýmsum kirkjum skip sem svífa yfir höfðum fólks, oftast trébátar, annað hvort smækkaðar útgáfur af árabátum eða seglskipum. Skipin eru oftast fagrir gripir og völundarsmíð. Fallegar skútur, skonnortur og sú tegund skipa sem þekkt voru á fyrri öldum, en ég hef aldrei rekist á kafbát í kirkju, ekki smækkaða útgáfu af herskipi, togara eða fraktara. Þrátt fyrir alla sjómennsku Íslendinga eru skip þó ekki eins algeng í kirkjum okkar eins og víða erlendis. Guðjón Samúelsson skoðaði vel Grundvigskirkjuna áður en hann teiknaði Hallgrímskirkju og í hinu einfalda og stílhreina rými þess hrífandi guðshúss er fagurt skip svífandi. Þessi skip í kirkjum heimsins eru ekki sett upp á sjómannadögum. Þau eru þarna allt árið. Þau eru tákn. Og minna ekki aðeins á að Guð gefur fæðu og það sem við þörfnumst til lífsgæða. Þau minna líka á að Jesús var veiðimaður og lærisveinar hans líka. “Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar”, sagði Jesús. Veiðisögurnar af Jesú varða að tryggja líf, bæta það og efla. Veiðiskapur þeirra var í þágu manna, veiða menn til lífsbjargar og lífsgæða. Veiðskapur guðsríkisins.

Guð – líka á kantinum

Í guðspjalli sjómannadagsins er greint frá björgun Jesú. Hann er vakinn til að bjarga mönnum. Í pistli dagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula og frasögnin er um björgun. Páll var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Já, gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin í borgunum sem hann kom til og talaði um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari, sem veitti aukna réttarvernd, var Páll sendur til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himinsins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunar-orð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði. Sagan er björgunarsaga.Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhóli, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru margrétta máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heiminn birtast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri. Sagan um Pál er björgunarsaga og björgunin tengd við trú, siðvit og Guð.

Björgunin

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sá lausnina, leysti vandann og talaði máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í þessari sögu um Pál er það fanginn sem bjargaðiþeim sem gættu fanganna. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er ekki bara efst heldur líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks, náttúru og lífs.

Samherjar lífsins

Í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. En sjómenn allra alda hafa ekki aðeins veitt fisk til næringar heldur líka verið ábyrgir björgunarmenn, þjónar samfélags síns. Ég minntist Björns Guðjónssonar áðan. Hann dró ekki aðeins fisk úr sjó heldur var líka öflugur félagi í samtökum smábátaeigenda. Hann lagði ekki aðeins fisk við dyr þeirra sem höfðu lítið milli handa og í búri. Hlutverk hans var stórt, að þjóna öðrum og gegna kalli mennskunnar. Hann var sem tákn samstöðu, samheldni og samvinnu. Björn bjargaði fólki og var eiginlega heil björgunarsveit í sjálfum sér, alltaf á vakt og til reiðu. Þegar hann sá, að ungmenni voru að leika sér á Hrakhólmum, sem eru sker við Álftanes, fór hann stóran krók til að tryggja að þau flæddi ekki á skerjum. Hann bjargaði þeim og kom þeim á þurrt. Krakkarnir á Grímsstaðaholti fleyttu kössum og flekum á flot og svo tók útfallið þessi fley og krakkana með. Oft bjargaði Björn börnum af flekum á floti, sem stefndu til hafs.

Mannbjörgin

Já, í dag er sjómannadagur. Sjómenn róa helst ekki á sjómannadegi. Skipin eru í höfn og sjómenn gleðjast í landi. Á slíkum dögum vitjaði Björn Guðjónsson ekki heldur neta sinna utan einu sinni. Hann var ekki í rónni þegar hann vaknaði, fann kallið hið innra, ræsti út son sinn sem ekkert skildi í karlinum. En í þetta sinn skyldi róið. Ekki höfðu þeir lengi farið þegar þeir komu að skútu á hvolfi. Kaldir menn voru á kili og í bráðri lífshættu. Þeir feðgar björguðu þeim um borð í trilluna og komu í hlýju og til lífs. Lengra fóru þeir Björn og sonur hans ekki þennan daginn. Erindi þeirra var lokið þann daginn því fólki var bjargað. Veiðskapur guðsríkisins, samherjar lífsins. Engra neta var vitjað þennan dag, en sá sem heyrir kallið þvert á kerfi og reglur veit hvenær á að fara út þrátt fyrir hefðbundin mótrök. Björn Guðjónsson vaktaði lífið. Hann útdeildi gæðum lífsins meðal sinna og samferðamanna. Hann var mannbjörgunarmaður og lukkumaður í lífinu. Og þannig hefur verið með sæfarendur aldanna og þannig eiga allir sjómenn að vera og hegða sér. Við megum njóta gæða sem Guð gefur en hlutverk okkar er að deila gjöfunum með öðrum eins og Björn gerði – vera lífsbjörgunarmenn – blessun fyrir aðra. Þannig er besta sjómennskan.

Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.

Dýrð sé Guðiföður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda – Amen.

To those of you not speaking Icelandic: Today is a day for the rememberance of the Icelandic fishermen and fishing in Icelandic waters. Fishing has been of utmost importance for our country and more and more we realize how important it is to take good care of the blue planet. I did tell personal youth stories abaout a fisherman who bcame my friend and benefactor. I did learn important lessons for life from him. He was not only devoted to fish but to make sure the wellfare and safety of his neighbors. Not working only for his own good but for the benefit of the whole. We are members of a nexus, society, nature, universe, God. You go from the church today with blessing – and be a blessing to others.

Þriðja textaröð sjómannadags:

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn.

Pistill: Post 27.13-15, 20-25

Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka. Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

2021 Sjómannadagurinn. 6. júní. Hallgrímskirkja.

Meðfylgjandi mynd tók ég við Skerjafjörðinn og sést yfir til Bessastaða og Álftaness. Skvettan til hægri á myndinni kom frá sel sem stakk sér. 

Músík sálarinnar

Á kirkjuhurð Hallgrímskirkju standa orðin: „Komið til mín.“ Þar stendur ekki farið – heldur komið. Og koma til hvers? Ávarpið er persónulegt. Það er Jesús sem segir. „Komið til mín.“ Hann er uppspretta lífs, heimsljós, vinur og verndari sem talar. „Komið til mín“ eru hvatningarorð hans til allra manna og fyrirheit um tengsl. Yfir dyrunum er vers Hallgríms Péturssonar úr 24. Passíusálmi og með fagurri stafagerð Leifs Breiðfjörðs. Þetta merkilega dyraávarp er svona:

„Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.“

Þessi magnaða kveðja er til íhugunar og mótunar. Í dag er bænadagur og líka mæðradagur. Það er mesta happ allra manna að eiga góðan föður og góða móður. Og á mæðradegi er gott að rifja upp og íhuga hvað mæður gerðu og gera. Svo er kirkjan kristnum móðir eins og segir svo fallega í sálminum sem við syngjum í dag.

Á bænadegi koma mömmuminningar í minn huga. Mamma kenndi mér að tala við Guð sem vin og sem móður. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers fyrir kvöld- og morgunbænir. Hún kenndi mér að leggja fram lífsefnin fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

En heyrir Guð? Ég velti vöngum yfir Guðshlustuninni. Þegar ég var barn ræddum við mamma stundum um hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði allt. Hafði Guð kannski mörg eyru og hvernig væri svarað? Væri eitthvað kerfi í svörunum? Væri þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum hvers og eins? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega og brugðist væri við öllum smáatriðum í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en líf okkar væri best og fegurst ef það væri ein samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig, að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Ég trúði þessu því mamma lifði í samræmi við trú sína. Bæn og ábyrgð fóru saman. Hennar kristindómur var sömu ættar og Hallgríms Péturssonar, að trú væri ekki tæki í þágu manns sjálfs heldur ástartengsl við uppsprettu lífsins sem við mættum rækta í þágu allra. Trú og verk, orð og æði færu saman. Tengsl við Guð hefðu afleiðingar til góðs fyrir aðra. Heit bæn er ástarkveðja og beinist að heimi ekkert síður en himninum.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum móður minnar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu, átti hún daginn og stundirnar og gat nýtt tímann í samræmi við eigin þarfir og langanir. Þá las hún skáldsögur, ljóð, frásögur og alls konar bókmenntir. Hún var kona orðanna. Svo las hún líka í Biblíunni góða stund og síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var farin til Guðs á undan henni, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði það, var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri. Hún umvafði alla ástvini og fyrirbænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn. Þetta var guðsþjónusta mömmu og allir dagar voru bænadagar.

Það var heillandi að hlusta á gamla konuna biðja fyrir ástvinum sínum. Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Þegar við, fólkið hennar, rötuðum í vanda í lífinu bar hún hann fram fyrir Guð. Þegar allt gekk vel og við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig orðfært við Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að nefna við Guð. Ef einhvern hefur undrað árgæska nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Þegar mammna var á tíræðisaldri fékk hún tappa í heila og minnið hvarf að mestu. En trúin hvarf þó ekki eða samræðan við Guð. Í kjarna mömmu var músík sálarinnar, söngurinn um Guð og samtalið við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur og fer í kjarnann. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín Sigrún, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði hátt og skýrt: “Amen!” Meira sagði hún ekki. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur sem lokaorð í beinu samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífsins. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen og þá dó hún. Þegar amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar með ástarkveðju og iðju. Líf sem er bænalíf og endar með amen er gott líf.

Þetta þykir mér gott að rifja upp á bænadegi og til íhugunar fyrir okkur við byrjun nýs tíma í starfi Hallgrímskirkju. Ung kona hringdi í mig á föstudag til að panta kirkjuna fyrir hjónavígslu í haust. Hún vildi fá að ganga í hjónaband í kirkjunni því “Hallgrímskirkja er frábær“ sagði hún. Og við vorum sammála. Skömmu fyrir guðsþjónustuna áðan voru ferðamenn frá New York sem töluðu fjálglega um hve falleg kirkjan væri. Já, hún er hrífandi, björt og stílhrein. Kirkjan er líka gott ómhús fyrir söng og margar gerðir tónlistar. Listaverkin heilla einnig í þessum ljósmusteri. Stórkostleg verk Leifs Breiðfjörðs hrífa og margir staldra við Kristsstyttu Einars Jónssonar. Kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Hallgrímskirkja er fallegt hús því hún er hlið himins. Og slíku húsi tilheyrir list fyrir augu, eyru, munn, nef og sál. Hallgrímskirkja er stórstaður í borgarlandslaginu, jafnvel einkenni borgarinnar og lógó ferðamennskunnar. Hallgrímskirkja teiknar sjónarrönd Reykjavíkur. Þegar farið er yfir ferðasíður heimsins kemur í ljós að kirkjan er heimsótt sem kirkja. Stórmiðillinn the Guardian felldi þann úrskurð að kirkjan væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. Hingað hefur fólk komið til að fá gott samband, inná við, út og upp. Tugir milljóna ferðalanga lífsins hafa fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra. Þeir hafa náð sambandi við himininn. Og þannig hús á þessi kirkja að vera, staður til að tengja.

Kirkjan er oss kristnum móðir. „Komið til mín“ segir Jesús og Hallgrímur bætir við:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma …

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.

Íhugun á bænadegi og alþjóðlegum mæðradegi. 

Brauðið dýra og önnur brauð

Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir metfé. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér! 
 
Hljóðskrá prédikunar í Hallgrímskirkju 14. mars er að baki þessari smellu.
 
Textinn er svo hér að neðan. 2021 14. mars.
Fjórði sunnudagur í föstu.
 

Faðir minn var bókamaður og aðdáandi Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Hann hafði einfaldan smekk í jólagjafamálum sem létti líf okkar fjölskyldunnar. Hann óskaði sér alltaf bókar eftir Laxnes. Jóladagana sat hann svo glottandi og kumrandi yfir kúnstugum sögum frá stílmeistaranum og orðhaganum í Gljúfrasteini.

Ein jólin fékk hann Innansveitarkrónikuna sem lá lengi á borðinu við hlið lestarstóls pabba. Ég kíkti svo í hana. Í bókinni er merkileg saga sem var reyndar gefin út sér, umrituð og lagfærð lítillega. Það er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var vinnukona prestsins í Mosfelli. Henni var treyst til að fara með brauðdeig í seyðslu á hverasvæði í Mosfellsdal. Brauðferðirnar voru ábyrgðarmál og jafnvel hættulegt starf vegna hitans á þessu svæði risabökunarofns. En Guðrún tók upp seydda brauðið þegar það var fullbakað og kom nýju deigi fyrir. Sagan segir að þegar hún hafði eitt sinn tekið upp stórt brauð var komin þoka þegar hún ætlaði heim. Hún var svo dimm að Guðrún villtist og var týnd í þrjá sólarhringa. Hún fór víða um Mosfellsheiði með stóran brauðhleifinn. Að lokum komst hún heim og fólki til furðu hafði hún ekki borðað af brauðinu. Þegar hún var spurð af hverju svaraði hún: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Sem sé, hún braut ekki brauðið til að nærast. Rigningarvatnið var það eina sem hún setti upp í sig á þesari löngu göngu. Af hverju bar hún fæðuna en notaði hana ekki sér til styrktar og lífs? Hún var jafnvel búin að krafsa erfðaskrá sína í moldarbarð þar sem hún lagðist fyrir svo ljóst var að hún var hrædd um líf sitt. En hún borðaði ekki brauðið. Var ástæðan þrællyndi, blind hlýðni við reglur? Nei, það var siðferðisstyrkur. Guðrún bar virðingu fyrir verkefni sínu, skyldum sínum, vera trú því sem henni var trúað fyrir. Halldór Laxnes hafði eftir Guðrúnu: „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Enginn hefði álasað Guðrúnu að hafa matarlaus og vegna svengdar borðað brauðið á þessari löngu villuför. En það gerði hún ekki. Það var ekki í samræmi við siðferði hennar, vinnuafstöðu, skyldusýn og lífsafstöðu. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Innrætið skiptir sem sé máli.

Sagan um brauðið dýra varðar lífsafstöðu og rímar við áherslur í textum dagsins. Hvað er satt? Hvað er mikilvægt? Hver er lífsafstaða okkar? Er mikilvægt að tileinka sér siðferði eða er bara best láta reka stefnulaust? Þessi látlausa en litríka saga úr Mosfellssveit lýsir afstöðu og siðferði. Að konan skyldi ekki í hungri sínu kroppa úr brauðinu er ótrúlegt. Sagan er eins og dæmisaga úr safni Jesú. Atburðarásin er ydduð og ótrúleg svo tilheyrendur geri sér grein fyrir að boðskapurinn sé mikilvægur og eftirtektarverður. Og hver er hann? Siðferði – mikilvægi þess að axla ábyrgð, láta ekki eigin hag eða græðgi stjórna öllu. Heilindi.

Í siðferðisglundroða og sýndarsiðferði sýnist mörgum skylda að reyna að ná brauðunum, athyglinni, peningum, völdum og viðhlægjendum. Þá er sannleikurinn ekki við völd né heldur siðferði. Ekki þarf lengi að skygnast um í vestrænum samfélögum til að sjá að sjálfhverfir lukkuriddarar sæki í gæðin. Tveir síðstu áratugir hafa á Vesturlöndum verið blómatími hinna sjálfhverfu sem vilja gleypa allt. Það er fólkið með sjálfsástarröskun, narcissistarnir siðblekktu. Þegar fólk er ekki meðvitað um aðsóknina vandast málið og margt fer illa í rekstri peningastofnana, fyrirtækja og samfélaga þegar þeir ná tökunum. Sjáflhverfungarnir með sjálfsástarröskunina leita í valdastofnanir, stjórnmál og peningastofnanir. Norskir vinir mínir hafa sagt mér að þar í landi sé reiknað með að siðblekktir eða siðblindir menn séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar. Af því að sjálfhverfungar reynialltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð sé nauðsylegt að beita síunarkerfum í ráðningum og stífu eftirliti. Sjálfhverfungarnir borða alltaf allt brauðið og skila engu úr ferðum lífsins. Þeir koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra.

Í dag er brauðdagur í kirkjuárinu. Á fjórða sunnudegi í föstu er minnt á brauð lífsins. Brauð var og er tákn um líf. Kirkjur eru brauðhús. Í kirkjuhefðinni er talað um brotningu brauðs. Jesús var veislukarl og útdeildi brauði til næringar. Í miðju kirkna heimsins er borð sem kallar fólk til samfélags, samtals og veislu. Textar dagsins varða brauðið á því borði og tjá áherslumál Jesú og þar með lífsafstöðu trúmanna. Brauð í Gamla testamentinu var forsenda að áherslur Jesú á brauð lífsins skildust. En Jesús talaði sumt í gátum og annað í dæmisögum til að opna vitund fólks fyrir hvað skipti máli, til hvers lífið væri, hvernig fólk gæti lifað og notið lífsgæða. Við erum minnt á að svengd fólks í vanda er mætt með næringu. Daglegt brauð er eiginlega daglegt kraftaverk. Fólk í vanda í lexíunni og skipverjar í nauðum í pistlinum fá mat, von og þeim var bjargað. Jesús byggði á reynslu þúsunda kynslóða og minnum úr hebresku samfélagi þegar hann talaði um brauð lífsins. Hann setti sjálfan sig í tákn- og raunsamhengi sveltandi fólks, skildi þorsta og svengd, lífgaði, veitti von og blessaði. Boðskapur hans var skýr, hann væri kominn frá Guði til að næra og gefa það sem fólk og heimur þarfnast til að geta notið lífsins.

Í kirkjulífi COVID-tímans er ekki hægt að brjóta brauðið. Bið er á að altarisgöngur hefjist að nýju. Sóttvarnarástæður eru ástæðan. En hlutverk kirkna er óbreytt. Það er að verja líf, vernda fólk og efla til lífsgæða. Þrátt fyrir að við brjótum ekki brauð og göngum ekki til altaris getum við svo sannarlega íhugað boðskap Jesú um brauð og líf. Í djúpi tímans, vestrænnar menningarinnar og pólitík er vaxandi skilningur á að ekkert samfélag og ekki heldur lífríkið þolir yfirráð sjálfhverfunganna. Æ fleiri skilja að ráð þeirra eru til dauða. Sannleika um lífið þarf að verja og siðferði verður að ráða för.

Í vikunni hreifst ég eins og margir aðrir af viðtölum við Harald Þorleifsson og lífsafstöðu hans. Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir mikla fjármuni. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér. Af hverju? Jú, vegna þess að þau vildu borga skatt af söluhagnaðinum á Íslandi. Ísland hefði gert Haraldi kleyft að menntast og hann hefði notið góðs heilbrigðiskerfi sem þjónaði honum vel í heilsuvanda hans. Íslenskt samfélag og stofnanir þess höfðu gert Haraldi kleyft að komast þangað sem hann er í dag. Sem sé þakklæti, ábyrgð, siðferði og þroskuð lífsafstaða. Hann hefði getað látið hagnaðinn hverfa, étið allt brauðið og ekki skilað neinu til uppeldissamfélags síns. En hann var trúr skyldum sínum og borgaði til uppeldissamfélags síns. Þetta er að vera samfélagslega ábyrgur. Og í vikunni urðum við vitni að frábæru verkefni sem Haraldur beitir sér fyrir. Hann er að rampa Reykjavík. Haraldur er í hjólastól og veit af eigin reynslu að bæta þarf hjólastólaaðgengi til að fólk komist með þokkalegu móti inn í fyrirtæki og verslanir. Haraldur fer ekki aðeins í brauðferðir sínar á hverasvæði heimsins heldur kemur úr ferðinni með brauð, ekki bara eitt heldur mörg.

Jesús Kristur reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur með því að útdeila brauði og gæðum. Ölturu í kirkjum minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig. Hinn kristni boðskapur er að allir megi njóta gæða. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. En boðskapur texta dagsins varðar ekki bara að fá að borða góðan mat heldur njóta hamingju, frelsis, mannréttinda og framtíðar. Brauð lífsins merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt og gæðatengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði. Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Jesús Kristur frelsar líf, nærir og blessar. Og Guðrún Jónsdóttir axlaði ábyrgð sem er í samræmi við þroskaða samfélagssýn. Haraldur Þorleifsson sýndi siðvit og manndóm til fyrirmyndar. Við getum ekki sem einstaklingar bjargað heiminum en getum þó öll fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs. Að Jesús sé brauð lífsins og næring skilgreinir veröld okkar og lífsgæði. Við erum friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Við erum brauðberar Guðs. Amen

Fyrri ritningarlestur: 2 Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Seinni ritningarlestur: Post 27.33-36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“