Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ

Guð er Bónus

Veistu hvaða ljóðabók hefur verið söluhæst síðustu árin. Það er sálmabók þjóðkirkjunnar. Þar finna allir örugglega eitthvað við hæfi og sér til gagns. En þó margt sé í sálmabókinni er alveg áreiðanlegt, að þar auglýsir ekkert fyrirtæki á Íslandi. Ekkert stórfyrirtæki hefur komið að óbeinni auglýsingu í einhvern sálminn, ekki flugfélög, útgerðarfélög, verslunarkeðja eða stórfyrirtæki. En þó engar séu auglýsingarnar eða nafn kostunarfélags er þó eitt íslenskt fyrirtæki nefnt í einum sálmi sálmabókarinnar, fyrirtæki sem margir versla við og sumir í hverri viku ársins. Hvaða fyrirtæki, hvaða verslun, skyldi vera nefnd í sálmbók þjóðkirkjunnar? Meira um það síðar.

Faðir smásögunnar

Jesús er frægur fyrir margt. Hann var kunnur fyrir virðingu fyrir utangarðsfólki. Hann var alræmdur í sjálfhverfu karlaveldissamfélagi fortíðar fyrir að virða manngildi kvenna, útlendinga, barna og erlendra hermanna setuliðs. Hann varð frægur fyrir frábærar ræður, merkilega siðfræði, guðstraust, leiðtogahæfileika, spekiorð og djúpsæknar bænir. Svo er hann auðvitað kunnastur fyrir að hegða sér allt öðru vísi en dauðum mönnum var og er skylt og tamt. Hann fylltist lífi efir að hafa legið í gröf sinni í meira en sólarhring. Flest sem Jesús sagði var í frásögur færandi. Eitt af því, sem mörgum yfirsést, er hve frábær smásagnahöfundur hann var. Líkingasögurnar, sem hann sagði, eru auk alls annars bókmenntaperlur, sem enginn bókabéus lætur fram hjá sér fara.

Þrúgur tíndar

Saga dagsins er ein af þessum dásemdarsögum. Aðstæðurnar voru þær, að vinir Jesú, sem fylgdu honum, voru að velta vöngum yfir launum sínum og spurðu áleitinna spurninga eins og: Heyrðu Jesús. Hvað græði ég nú á öllu þessu brölti með þér, öllu veseninu, fjarri einfaldri hamingju venjulegs fólks? Þeir voru reyndar skynugir og vissu, að fé og frami var ekki á launamiða guðsríkisins. En hvað var það þá? Til að svara Pétri og hinum vinunum sagði Jesús þeim sögu um víngarðseigandann. Það var komið að uppskerutíma, sem er reyndar stórkostlegur tími á öllu Miðjarðarhafssvæðinu, þegar stórir flotar af fólki halda út á akrana til að týna þrútin berin. Ég hef upplifað slíka hátíð í Toscana á Ítalíu og hef séð hve gleðin er mikil, bros í augunum og alvöru hátíð. Réttarstemming í íslenskum sveitum jafnast við slíkt. Líka þegar okkar lið í íþróttum ná á toppinn. Jesús segir frá því, að víngarðseigandinn hafi ráðið til sín vinnufólk á mismunandi tímum, þá fyrstu í dögun, síðan fleiri þremur tímum síðar. Þannig hélt hann áfram allan daginn og þeir síðustu komu til starfa um það leyti sem verkum dagsins lauk. Þeir fyrstu fengu loforð um ákveðið og eðlilegt dagkaup, sem þeir voru fullsáttir við. Svo var byrjað að borga laun í verklok. Þeir, sem síðastir komu, fengu óskert dagkaup og þá þótti þeim sem fyrr komu útlitið gott og ímynduðu sér, að þeir hlytu að fá margfalt kaup á við þá, sem síðastir komu. En þegar allir höfðu fengið sitt kaup voru allir með sömu upphæð í hendi. Þá byrjaði möglið og þeir, sem höfðu puðað daglangt, þótti að þeir hefðu verið órétti beittir.

Órétti beittir?

Víngarðseigandinn tók eftir bullandi reiðinni og spurði hvort þeir hefðu ekki fengið það, sem um var samið? Jú, þeir viðurkenndu það. En þeir voru bara ósáttir við, að hinir hefðu fengið jafn mikið en hefðu þó unnið minna. Hver getur ekki sett sig í spor mannanna? Samanburður er meginþáttur allra kjarasamninga. Það er í samræmi við almenna réttlætisvitund, að laun eigi að vera í hlutfalli við vinnuframlag. En víngarðseigandinn fór allt öðru vísi að, minnti á að hann ætti þetta fé og mætti borga hinum síðustu jafn mikið og hinum. Hann væri ekki að brjóta neina kjarasamninga þótt hann borgaði þeim meira en þeir hefðu unnið fyrir. „Ég er góður” sagði hann. Svo kom hið áleitna en torskilda, að hinir síðustu verði fyrstir.

Það eru til ýmsar skýringar á merkingu sögunnar. Tilgangur Jesú væri að gera upp við forréttindahyggju samferðamanna sinna. Hann vildi benda þeim á, að þeir sem hefðu lengi verið samferðamenn Guðs í veröldinni fengju ekki neinn aukabónus í himnaríki vegna tímalengdar. Þau, sem hefðu slegist í hópinn á síðustu stundu, væru jafnmiklir Guðsvinir og hin, sem hefðu verið það alla ævi. Trúarleg stéttaskipting er ekki til í kenningu Jesú. Forréttindamenn í himnaríki eru ekki til þó menn vilji gjarnan búa til virðingastiga þar líka og verða trúarleg yfirstétt eða kirkjueigendafélag.  Virðing, laun og gildi eru öðru vísi í hinu andlega ríki en í veröldinni. Stéttakerfi er ekki hægt að varpa yfir á himininn. Ekkert kvótakerfi þar eða kvótakóngar. Menn eiga enga kröfu á hendur Guði. Verk okkar, líferni, vitund okkar um eigin gæði verða ekki yfirfærð yfir í himneskan gjaldmiðil. Það er ekkert veðkall til á hendur Guði og lífeyrissjóði eða eigum við að segja lífernissjóði himinsins. Við byggjum ekki upp kröfugerð og útborgun hinum megin eins og við byggjum upp lífeyri hinum megin við starfslok okkar. Þetta benti siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther á og öðrum betur.

Laun himins

Hvað segir þá sagan? Smásöguhöfundurinn Jesús kunni að segja sögu á mörgum plönum og hana er hægt að túlka í ýmsar áttir. Gagnvart Símoni Pétri í samningahrotu um eilífðarumbun er svarið skýrt. Laun himinsins eru söm og jöfn fyrir alla. Engu skiptir hvort menn hoppa á eilífðarvagninn snemma eða seint, allir ná sama marki. Þetta voru mikilvæg skilaboð í frumkirkjunni. Menn skyldu ekki setja sig á háan hest þótt þeir hefðu snemma orðið fylgjendur Jesú. Þetta varðar síðan alla kirkjumenn. Broddur Jesú er gegn kirkjueigendum allra tíma. Enginn er yfir annan settur þegar eilífðarlaunum er útdeilt, allir eru jafnir. Síðan er líka elskudjúp í þessari sögu. Enginn er of seinn eða útilokaður frá guðsríkinu hvar svo sem menn hafa verið, hvað sem þeir hafa gert og hversu djúpt þeir hafa sokkið. Í sögum Jesú er djúp og einbeitt umhyggja gagnvart fólki. Enginn er settur hjá, guðsríkið er allra.

Menn hafa löngum velt vöngum yfir hverjir komist til Guðs, hverjir verði hólpnir. Hvað verður um óskírt barn sem deyr? Margir hafa grátið yfir þeirri spurningu. Hvað verður um þau, sem tilheyra öðrum trúarbrögðum? Spurningar af þessu tagi eru margar. Þegar við svörum er mikilvægt, að við stöldrum við og spyrjum okkur hvers konar Guð við trúum á og hvers konar Guð Biblían túlkar og Jesús Kristur birtir okkur. Dæmisagan um gjafmilda bóndann er um Guð, sem útdeilir jafnt þeim sem koma seint og hinum sem koma snemma. Við getum séð í henni og ýmsum öðrum sögum Jesú túlkun á elskuríkum Guði, sem er mun stærri og meiri en smáguð ættbálks eða þjóðar eða guðfræðilegrar einsýni eða bókstafshyggju. Sá Guð er skapari alls sem er, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss, brunnur fegurðarinnar, forsenda manngildisins, hinn mikli húmoristi, sem skapar litríka fjölvíddaveröld og elskar þig heitt og ákaflega.

Upprisa allra – vonarmál trúmannsins

Kristinn maður, sem trúir á slíkan stórguð, hlýtur að vona ákveðið, að allir megi njóta himinvistar, óháð ætt, uppruna og fyrri störfum! Það er ekki til nein kirkjuleg dogma, kenning, um að allir hljóti óhjákvæmilega að komast til himins, en kristin kirkja biður hins vegar fyrir upprisu allra. Múslimum, hindúum, kristnum, trúlausum og trúarveikum mætum við með þeirri bæn til Guðs, að Guð geymi hann, hana, já okkur öll. Þetta er hin vonarríka afstaða. Þetta er líka ástæða þess, að maður sem tekur Jesú Krist alvarlega getur ekki leyft sér að trúa því að heimur fari versnandi, að allt fari á versta veg, að öllu fari aftur, að lífið sé leiðinlegt. Kristindómur bannar mönnum ekki að gagnrýna og greina milli góðs og ills. En kristnin bannar mönnum, að loka augunum fyrir fegurð, möguleikum, nýsköpun og gleði og að Guð er frábær.

Afstaða hins óvænta

En hvernig var með íslenska fyrirtækið, sem er nefnt í sálmabókinni? Áður en gátan er leyst er þarft að við hugsum um hvað einkennir Jesú Krist, sögur hans, afskipti af fólki og veru hans. Hann var maður hins óvænta. Hann hegðaði sér oftast öðru vísi en búast hefði mátt við. Hann bar ekki bara virðingu fyrir þeim, sem nutu almennrar virðingar, heldur bar líka óvænt virðingu fyrir þeim, sem voru fyrirlitnir. Allir menn áttu möguleika í samskiptum við Jesú. Hann var meistari hinna óvæntu endaloka í smásögum sínum. Sneri jafnan uppá sögurnar og jafnvel á hvolf. Sögur hans enda gjarnan með óvæntu móti eins og brandarar. En hnykkurinn eða snúningurinn í lokin var það, sem Jesús vildi að yrði mönnum til íhugunar og yrði til að menn hugsuðu mál sín að nýju, afstöðu, trú og siðfræði. Jesús sagði ekki aðeins sögur hins óvænta heldur var slíkur sjálfur. Upprisa hans var ótrúleg, hið algerlega óvænta en alveg í samræmi við allt sem hann var og sagði. Allt var þetta til að opna líf fólks, efla það og bæta.

Bonus – Guð

Þá er komið að fyrirtækinu sem nefnt er óvænt í sálmabókinni, söluhæstu ljóðabók ársins. Það er ótrúlegt nokk – bonus. Það er satt, að bonus kemur raunverulega fyrir í sálmi sem að vísu er á latínu. Þar segir

Confitemini Domino
quoniam bonus.
Confitemini Domino.
Alleluia!

Og þýðingin er svona:

Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor,
því þú ert góður.
Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor.
Hallelúja!

Ég spurði Jóhannes Jónsson sem stofnaði Bónus hvort hann vissi að Bónus teygði anga sína inn í sálmabók þjóðkirkjunnar? Hann viðurkenndi hissa, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir að ítök Bónuss væru svona gífurleg. Það væri ekki skrítið, að stjórnmálamenn yrðu smeykir þegar jafnvel sálmabókin væri farin að boða bonus! En hvað merkir bónus í hinu trúarlega samhengi? Það er ekki bara kjarabót, sérstakt happ, lottóbónus eða launaplús, heldur merkir það góður. Guð er bónus, Guð er góður. Þess vegna er þakkað í sálminum. Sjálfsagt er að þakka ef verslunin Bónus býður lægsta verðið. En það eru ekki eiginlegu bónusarnir. Það er meira segja ekki hinn eiginlegi bónus lífsins að hækka launin. Það er ekki bónus heldur réttlætismál að laun séu góð. Bónus lífsins, hver er hann? Hann verður ekki keyptur í neinni búð. Kristinn maður veit að bónusinn er Guð og sálmurinn í sálmabókinni segir að Guð sé góður. Guð á fleiri ráð en við þekkjum. Lífeyrissjóður himinsins er ekki gulltryggður heldur guðstryggður, sem er betri öðrum tryggingum. Meginstarfsregla þess sjóðs er gjafmildi. Greiðslur eru ekki samkvæmt innlögn heldur umhyggju Guðs og þörf manna. Guð hefur sjálfur lagt allt til hins mikla sjóðs, lífið í Jesú Kristi, sem er höfuðstóllinn sjálfur. Guð er gjafmildur, gefur lífið, af því að Guð er bonus, Guð er góður. Engir peningar, engar kjarabætur, enginn hagnaður þessa heims er nokkuð í samanburðinum við þann bónus, það er bónus lífsins.

A-röð Lexía: Jer. 9.23-24. Pistill: 1Kor. 9.24-27. Guðspjall: Matt. 20.1-16

Ert þú jólasveinn?

Er aðventan ónýt? Það sem áður var tími ögunar og eftirvæntingar er orðinn nautnatími. Fólk er ekki eins upptekið undirbúningi jóla heldur að gera vel við sig. Er það ekki í lagi? Það er enginn kristileg eða kirkjuleg nauðsyn að aðventan sé tími föstu og dempaðrar gleði? Tímar breytast og áherslur líka. Aðventan þarf ekki að vera fjólublá og langdregin þjáningartíð. Aðventutíminn má vera tími gleði, til að kveða dýrt, hugsa nýjar hugsanir og teygja sig inn í framtíðina. En þegar menning breytist – og mennirnir þar með – er skynsamlegt og jafnvel lífsnauðsynlegt að henda ekki – tapa ekki mikilvægum sögum, stofnum í menningunni, siðviti eð viskuhefðum.

Í textum dagsins er lögð áhersla á réttlæti. Von um frið er tjáð. Þegar trúmenn tala um vanda er hjálp Guðs einnig færð í tal. Endir heims er endir ófriðar og réttlæti Guðsríkis er í nánd. Um aldir hefur það merkt að við gætum okkar á því sem spillir. Erindið er persónlegt og menningarlegt – að við hjálpum Guði – alla vega leyfum Guði að búa til góðan heim, frið og réttlæti. Og aðventutími Íslendinga hefur um aldir verið tiltektartími í hinu ytra og innra til að taka sem best á móti undri jólanna. Til að þjóna hlutverki tiltektar aðventunnar urðu til sögur, atferli, áherslur og svo hefðir. Í dag skoðum við merkilegan þátt í hefð okkar Íslendinga til að tala um aðventu og dýpri rök hennar og tákn.

Ertu jólasveinn?

Margir hópar koma í kirkjurnar á aðventutímanum. Fyrir nokkrum árum tók ég á móti leikskólabörnum og fór þá í messuskrúða til að fræða börnin um kirkjuliti og hlutverk klæðanna sem prestur skrýðist í helgihaldinu. Lítil stúlka kom til mín þar sem ég stóð í skrúðanum. Hún horfði upp og niður og mældi mig allan út og spurði svo full trúnaðartrausts: „Ert þú jólasveinn?” Hún gerði sér grein fyrir, að jólasveinar gætu verið mismunandi og kannski væri þessi skrýddi karl einn af jólasveinunum. Hún var ekki alveg viss hverju húmn ætti að trúa. Já, aðventutími er líka tími jólasveinanna – og okkar.

Mismunandi jólasveinar

Hefur þú einhvern tíma hugsað um hvaða hlutverki jólasveinar gegna og hvað þeir merkja? Við þekkjum mismunandi tegundir, íslenska og erlenda – þessa mólituðu innlendu og rauðu erlendu. Svo eru til skandinavískir nissar og ýmsar aðrar útgáfur. Þeir eiga sér sína sögur og upphaf. Heilagur Nikulás (sánkti Kláus), upphaflegi jólasveinninn, bjó í Tyrklandi. Svo eru til keltneskir jólasveinar og svo eru rætur sumra hefðanna í vættaátrúnað og fleiri menningardjúpum. En hvaða hlutverki þjóna íslensku jólasveinar? Hver er merking þeirra? Og ekki síst – hver er merkingin sem við hefðum gott af að íhuga og hugsa? Geta jólasveinar orðið okkur til íhugunar og visku á aðventutíð og í aðdraganda jóla? Já og íslensku jólasveinarnir eru áhugaverðari en flestir hinna rauðuklæddu og erlendu – ekki síst vegna þess, að þeir eru eins og kennsludæmi. Þeir eru þegar dýpst er skoðað tákn og dæmi fyrir uppeldi og mótun. Hlutverk þeirra er kannski fyrst og fremst að kenna okkur eitthvað um lífið, ógnir og tækifæri. Þeir eru víti til varnaðar í lífsleiknináminu.

Gefa eða stela?

Hið fyrsta sem við megum taka efir er að hinn hvítskeggjaði og rauðklæddi Coca-Cola-Kláus er gjafmildur, gefur gjafir. En gáfu íslenskir jólasveinar í gamla daga eitthvað? Nei, þeir gáfu ekki heldur stálu. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsækni sem gerir þá svo merkilegt og spennandi íhugunarefni til að hjálpa okkur að hugsa á aðventu.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta.” Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Jesús sendi t.d. lærisveina sína tvo og tvo saman í ferðir. Það er hið eðlilega. En jólasveinarnir eru ekki í erindagerðum fagnaðarerindisins. Þeir komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Þeir voru afætur og óheillakarlar sem þjónuðu sundrungu – syndinni.

Hverjir voru fyrstir? Það voru Stekkjarstaur og Giljagaur. Og hvað gerðu þeir? Þeir réðust að skepnunum, en þær voru lífsgrundvöllur fólks, undirstaða atvinnulífsins. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði skepnum og vinnufólki illt. Þegar sveinarnir höfðu ráðist að útvörðum heimilisins, skepnunum, fóru þeir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin urðu fyrir vonskunni, því Askasleikir stal innansleikjum sem dýrum voru ætlaðar. Mannfólkið varð fyrir beinum árásum: Hurðarskellir hindraði svefn vinnulúinna manna.

Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi þessi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkraveröld, táradalur, heldur staður vona, vegna þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Hinn gamli heimur ljóslítilla torfbæja er vissulega að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu. Aðsteðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt og þarfnaðist sífelldrar baráttu og aðgæslu til að öryggi yrði tryggt. Með það í huga megum við skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum – í skepnuhjörðina, í mat og lífsbjörg fólks. Jólasveinarnir eru því eiginlegar ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þurfi vel að dýrum, passa þurfi mat og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt til að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn. Eru þetta ekki allt sístæð viðfangsefni, vernda dýr gegn dýraníðingum, tryggja mat, velferð fólks og gæta að ofbeldisseggjum og siðblekktu eða siðskertu fólki? Hvað er raunverulega til að bæta samfélag og efla hamingju einstaklinganna?

Trúði fólk tilveru jólasveinanna? Tók fólk þessar sögur bókstaflega? Voru afar okkar og ömmur – gengnar kynslóðir – voru þau kjánar? Nei, engu meiri kjánar en við. Þau vissu vel, að sögurnar um skrítnu sveinana voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þau notuðu sögurnar til uppeldis og þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli. Þau vissu og skildu að þetta voru kennslusögur, áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra. Það tók ekki sögurnar um jólasveina bókstaflega heldur fremur alvarlega. Eins og við ættum að temja okkur gagnvart öllum klassísku stórsögum heimsins – ekki bókstaflega heldur skoða á dýptina.

Er jólasveinn í þér?

Aðventan er ekki ónýt þó breytt sé. Verkefni allra að mannast er sístætt þó rammi sé nýr og aðstæður séu aðrar en áður. Hvernig reynist fólk sem á að gæta samfélagsins og á að gæta þinna hagsmuna? Hvernig stjórna þau, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er einhver, sem reynir að plata þig á þessum sölutíma í aðdraganda jóla? Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér? Ert þú jólasveinn?

Við, Íslendingar, eigum merkilega spekisögu fyrir undirbúninginn – fyrir andlega vinnu aðventunnar. Okkur sést jafnvel yfir raunsæi þessara sagna í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hverjir reyna að eyðileggja afkomu fjölskyldu þinnar, ná fjármunum, hamingju, heilsu og svifta þig og þína gleði?

Aðventa – tími væntingar. Aðventan er til undirbúnings jólanna. Við megum gjarnan fara að baki ati og ásýnd og tala um hið djúpa og mikilvæga. Við getum notað tímann til að greina vonda jólasveina hið ytra sem innra. Jólahaldi tengist fleira en gjafir. Jólasveinarnir eru tákn um að hætt er við þjófnaði – að margir reyna að stela tíma þínum, rósemd, gleði, friði, lífshamingju þinni. Þá gildir að velja vel og rétt.

Hvað gerir þú á jólum? Hverjum tekur þú á móti? Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós? Sem trúmaður hefur þú frelsi til að velja. Í því er ríkidæmi þessa lífs og ábyrgðarmál okkar manna fólgið. Guð gefi þér og þínum gæfu til visku á aðventu og síðan gleðileg jól – að Jesúbarnið komi til þín, gefi þér ljós og verði þér leiðarljós í lífi og dauða.

Hugleiðing 5. desember 2021. Annar sunnudagur í aðventu.

Meðylgjandi mynd tók ég af flugveifu á Reykjavíkurflugvelli í blíðviðrinu 4. des. 2021. Jólasveinsmyndina tók Árni Svanur Daníelsson og myndina fékk ég af myndasíðu þjóðkirkjunnar á Flickr.

Alger krísa

Vísindamenn heimsins hafa á síðustu árum orðið dómsdagsspámenn. Yfir 99% þeirra vísindamanna sem skrifað hafa um lofstslagsvá halda fram að menn séu ábyrgir fyrir ofurhitnun jarðar og afleiðingar hafa verið og verða hrikalegar fyrir lífríkið. Eigum við að hræðast og fara í keng? Í dag er dómsdagur! Vissulega ekki dómsdagur náttúrunnar eða heimsendir af Hollywoodtaginu en biblíutextarnir eru um dóm og endalok lífsbrenglunar. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar og dómsdagur verður ekki umflúinn! En dómsdagur kristninnar varðar ekki ragnarök eða fjöldadauða. Dómsdagur trúarinnar er mun merkilegri, betri en líka ágengari. Hann er núna! Hvað merkir það? Af hverju er dómsdagur? Eru textar dagsins kannski bara tjáning á fornum heimsslita- eða dauðakvíða, áhugaverðir en þó túlkun á úreltri hugmyndafræði? Kemur dómsdagur Biblíunnar okkur við?

Kirkjuárið og tímamót

Þá er það inngangurinn. Já, sunnudagurinn í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Kirkjuárið byrjar á öðrum tíma en almanaksárið. Það á sér allt annan hjartslátt en tímatakt klukkunnar eða dagatalningar ársins sem lýkur við áramót. Einingar og inntak þess tíma sem nú endar varðar ekki sekúndur eða mínútur og er ekki mælanlegur með úrum, tölvum og símum. Tími kirkjuársins varðar hinn djúpa andardrátt og hjartslátt lífsins. Tíminn sem nú endar varðar tengsl við það djúp lífsins sem við köllum Guð.

Þessi dagur er eiginlega gamlársdagur kirkjuársins. Við tímaskil er þarft og hollt að meta og skoða hvernig við lifum, hvað við erum og gerum. Það mat er hraðpróf sjálfsins, skoðun eigin sálar og lífs. Hallaðu þér því aftur, láttu fara vel um þig og spyrðu þig vinsamlega og nærfærið: Hvað hefur reynst þér erfiðast? Á liðnum dögum, mánuðum og ári? Hvernig hefur þér liðið? Hvað var þér erfiðast í vinnunni? Hvað sleit þér mest í tengslunum við ástvini þína, foreldra, börn, maka og vini? Hvað snart þig eða skók þig harkalega? Og þá getum við spurt meginspurningar á dómsdegi kirkjuársins: Hver er krísan í lífi þínu og hvernig bregstu við henni?

Krísa og dómur

Orð skipta máli og merking þeirra. Saga orða er oft lykill að merkingu þeirra og tengingum. Í flestum vestrænum málum er orðið krísa kunnulegt og notað og vísar gjarnan til áfalla og erfiðleika. Á enskunni er það orðið crisis, á þýskunni og norðurlandamálunum Krise. Orðið er notað í margs konar samhengi. Við tölum stundum um „krísu-stjórnun” og mörg eru sérmenntuð í slíkum fræðum. Þegar allt er í volli hjá okkur finnst okkur við vera í krísu. Svo eru peningakrísur, sálarkrísur, pólitískar krísur og heilsufarskrísur. Það er enginn hörgull á krísum. Enginn sleppur alveg við áföll og raunverulegar krísur reyna skelfilega á, skadda og jafnvel deyða.

Eitt mikilvægasta orðið sem er notað í Nýja testamentinu um dóm og að dæma er gríska orðið krisis. Vegna hins biblíulega upphafs og áhrifa kristni í heiminum hefur orðið borist um heimsbyggðina. Merking orðsins er fjölbreytileg. Krisis merkir ekki aðeins að fella dóm, heldur einnig að velja á milli kosta. Orðið varðar mat og jafnvel líka að hætta við eitthvað, breyta um stefnu og taka jafnvel u-beygju í lífinu!

Í dómssal er ekki til siðs, að dómarinn fari í eitthvert Pollyönnukast og segi við hinn dæmda: „Já, ég sé að þú hefur gert upp þín mál, hefur tekið út mikinn þroska síðan þú framdir glæp þinn. Ég sleppi þér við fangelsisvistina og gef þér tækifæri til að byrja upp á nýtt og bæta fyrir brot þín.” Svo kumpánlegt réttarfar búum við ekki við í köldum heimi skilvirks réttarríkis. Eftir málaferli er dómur felldur í venjulegum réttarhöldum. Þar á ekkert að vera óljóst og á milli vina. Þar er annað hvort sýkna eða sekt. En dómari getur auðvitað metið eitthvað til refsilækkunar. Dómarinn hefur ekki siðbótarhlutverki að gegna, heldur ber aðeins að dæma í ljósi þess sem fram hefur komið í réttarhaldinu og á grundvelli gildandi laga og réttarhefðar.

En réttlæti Guðs er annað en lagakerfa mannheima. Guð er ekki ofurdómari sem í fullkominni réttvísi sinni bíður aðgerðalaus eftir þér við lok æfi eða tíma og dæmir þig sekan eða saklausan. Guð heldur ekki á þessum frægu vogarskálum réttarfarsins og vegur réttlæti, gildi og gæði fólks. Réttur Guðs er annar en manna. Guð bíður ekki eftir ákveðnum tíma fyrir dómsuppkvaðningu heldur er persónulegur, sýnir frumkvæði, kemur og beitir sér. Guð er pró-aktívur. Að vita margt um réttarfar heimsins er ekki til skilningsauka um dómsdag og réttlæti Guðs.

Í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls er tjáð að sumir menn kæmu ekki til dóms heldur slyppu algerlega við hann. Jesús segir að við göngum frá dauðanum til lífsins og komum ekki til dóms. Eru þá í Biblíunni tvenns konar dómar eða skýrist málið ef við skoðum betur hvað það merkir að Guð dæmi? Skilningurinn á orðinu krisis hjálpar við að leysa gátuna. Krísa, þ.e. dómur Guðs er ekki aðeins það að dæma í eilífðarmálum, heldur ekki síður að hjálpa okkur núna, aðstoða okkur til að taka okkur á, ákveða að taka sinnaskiptum, efla okkur í lífsleikni og reyna að gera gott úr ástandi okkar – krísu okkar. Við skiljum líkinguna af Guði sem dómara best þegar við hugsum um, að Guð hjálpi okkur til góðs í raunverulegum aðstæðum lífsins, leiðbeini okkur, styðji okkur þegar við brjótum af okkur, erum að skilja við maka okkar eða verðum fyrir fjárhagsáfalli eða krísu í vinnunni. Jesús talar um dóm sem endurnýjun fólks og í tengslum við hann sjálfan.

Dómsdagur er þegar menn viðurkenna að Jesús sé lífgjafi þeirra og taka skrefið frá dauðanum til lífsins. Dómsdagur er þá ekki aðeins framtíðarviðburður heldur í núinu og varðar þennan dag og okkur öll. Dómsdagur Jesú merkir, að í tengslum við hann verður öllum kreppum snúið til góðs, ef við viljum horfast í augu við vanda okkar og að Guð kallar okkur til góðra viðbragða. Allt sem áður íþyngdi er leitt til betri vegar. Það sem við gerðum og sáum eftir er fyrirgefið. Það sem við botnuðum ekki í og var okkur til ills er endurunnið til góðs. Krísan í Kristssamhengi merkir þá, að það sem var vont verði betra. Að vera í krísu hjá Kristi er að mega fara „yfir um” og til lífsins! Á hverju augnabliki kemur Guð og er kominn. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar.

Skiladagur eilífðar

En hvað þá um hinsta tíma? Gerir presturinn lítið úr honum og dómsdegi? Ber að skilja þessa íhugun dagsins eins og útvatnaða tilvistarspeki og að kostur okkar sé að lifa í tómhyggjuhugrekki gagnvart dauða og tilgangsleysi. Nei. Öll verðum við að standa skil á lífi, verkum, hugsunum og gjörðum. Við eigum að lifa svo að við mætum uppgjöri. Það er eiginlega nauðsyn svo hægt sé að gera upp hið illa sem ekki er hægt af mönnum og mannlegu dómsvaldi. Þess vegna hafa sjáendur allra alda talið framhald lífsins í eilífðinni nauðsyn. Öllum ber að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt „dómi“ með hreina samvisku. Í postullegu trúarjátningunni játum við, að Jesús muni dæma lifendur og dauða.

Dómsdagslýsingar

En hvernig það verður hafa menn skiptar skoðanir. Það er eðlilegt. Mikilvægt er að muna að hugmyndir okkar um dómsdag eru mjög tengdar forsendum og jafnvel fordómum. Sögulegt efni litar líka hvernig við skiljum eða hvort við tökum dómsdag alvarlegan. Margir afskrifa hann sem skemmtilegt en úrelt rugl. Áhugamenn um tónlist þekkja dómsdagssálminn Dies Irae, dies illa… sem sr. Matthías Jochumsson þýddi með Dagur reiði, dagur bræði… Lýsingar dómsdags eru í bókmenntum fornaldar og miðalda næsta rosalegar og tónsnillarnir hafa notað dramað í sálumessum. Listamenn aldanna hafa málað stórkostlegar dómsdagsmyndir, um hvernig hinir óguðlegu eru dæmdir til hryllingsvistar og hinir hólpnu leiddir inn í dýrð ljóssins. Þetta eru rosalegar krísur en menn eiga ekki að trúa þeim bókstaflega.

Svo eru auðvitað allar heimsslitakvikmyndir Hollywood tilbrigð við dómsdagsstef. Þó við höfum gaman af drama, litagleði og hugarflugi kvikmynda, listaverka og tónverka er efamál að dómsdagur Guðs verði í samræmi við lýsingarnar. Þetta eru tjáningar á tilfinningum en ekki hlutlægar eða vísindalegar lýsingar á viðburðum á krossgötum tíma og eilífðar. Textar Opinberunarbókar Jóhannesar eru eins og litríkar skyggnur, tilfinningaþrungin túlkun dómsdags og framtíðar. Við þurfum vissulega að að taka þessar tjáningar alvarlega, en þó ekki bókstaflega. Okkar er að greina merkingu að baki táknmáli.

Dómsdagsspár eru ekki lengur aðeins viðfang listamanna eða spámanna. Raunvísindamenn hafa tekið við af sjáendum fortíðar að spá fyrir um alvöru dómsdaga. Þar er krísa sem hvetur til að mannkyn, þjóðir, hópar og einstaklingar horfist í augu við ábyrgð okkar. Við búum framtíð börnum okkar og afkomendum. Við höfum ekki leyfi til loka eyrum, augum og vitund okkar. Guð kallar til ábyrgðar en þó ekki til kvíða, angistar eða þjáningar. Áhersla Biblíunnar er að Guð er Guð og að maðurinn hefur ráðsmennskuhlutverki að gegna.

Dómsdagur núna

Lærðu að sjá krísurnar í lífinu sem aðstæður sem þarf að taka á og leyfa að verða til góðs. Guð sendir þér ekki áföll til að reyna þig. Guð stendur með þér í krísunum og þær geta orðið til vaxtar og þroska. Guðshjálpin er raunverulegur kraftur til að breyta ógn í tækifæri, krísu í vaxtarmöguleika. Dómsdagurinn er dagur möguleika en ekki dagur reiði og bræði. Hin kristna dómshugsun hjálpar okkur til að skilja betur að við megum breyta öllu, hætta að dæma aðra og dæma fremur okkur sjálf til lífs og ábyrgðar. Niðurstaðan er að dómsdagur merkir að Guð stendur með þér og hjálpar þér að stíga frá dauðanum til lífsins – núna og líka um alla eilífð. Dómsdagur er nú því Guð kemur. Svo endar gamla árið og aðventan hefst sem tími eftirvæntingar og vona. Til hamingju með dóminn. Til hamingju með nýjan tíma og gjöfult líf.

Síðasti sunnudagur kirkjuársins.

Mynd SÁÞ

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins.