Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Ofbeldi í borginni

Ofbeldi í borginni hljóðskrá
DSC03022Má bjóða þér til Parísar? Má bjóða þér til London? Viltu koma til Rómar? Ég er meðlimur í alþjóðlegum húsaskiptasamtökum og allt frá jólum hefur rignt inn tilboðum um skipti á húsakynnum. Í gærkvöldi kom tilboð um lán á húsi á Bretagne og annað um lán á íbúð í Barcelona. Ég hef fengið tilboð um að fara til Namibíu og búa þar í höll. Margir Danir vilja líka gjarnan koma til Íslands, fá húsið okkar lánað og bílinn líka og bjóða eigið hús og bíl á móti. Svisslendingar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar hafa í löngum bunum sent húsaskiptabeiðnir – einnig Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Svo eru líka mörg tilboð frá ýmsum stöðum í Ísarel. Við – fjölskylda mín – spyrjum okkur hvort við ættum að fara eitthvað þetta árið? Langar mig eitthvað út í heim?

Og þá að þér – ætlar þú eitthvað? Ætlar þú kannski í stórborgarferð? Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa og vekja athygli á ýmsum möguleikunum og tilboðum. Til hvers að fara? Kannski höfum við enga löngun til að fara til útlanda. En líf okkar er samt ferðalag og sú reisa – og fólksins okkar – skiptir okkur mestu máli.

Fastan er ferðalag        

Í dag er ferðadagur. Kirkjutextarnir sem lesnir eru í messum þjóðkirkjunnar beina huga okkar að ferðalagi. Það er raunar borgarferð, en samt koma ekki við sögu neinar þotur, hótel eða skip. Ferðin sem er að hejfast er föstuferð Jesú til höfuðborgarinnar Jerúsalem.

Til að marka upphaf þessarar ferðar eru haldnar veislur um hinn vestræna heim og þann hluta sem er undir áhrifum af kristnu tímatali. Við föstuupphaf skemmtir fólk sér víða þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Á Íslandi byrjar föstuundirbúningurinn með messuhaldi þessa sunnudags sem er í föstuinngangi, svo kemur bolludagurinn og sprengidagurinn sem tengjast föstuupphafinu. Á öskudeginum gengur svo sjö vikna fastan í garð og börnin klæðast alls konar furðubúningum. Við megum gjarnan nota tækifæri og kynna börnunum af hverju allur þessi viðbúnaður við upphaf föstutímans og föstuferðarinnar.

Upp til Jerúsalem

Á öskudeginum hefst Jesúferðin og ganga kirkju hans til Jerúsalem. Sú ferð hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti um aldir.

Margar passíur eru til og Passíusálmarnir eru ein útgáfan. „Upp, upp mín sál“ er meginstef þeirra sálma. Og Jesús segir í texta dagsins að nú sé ferðinni heitið upp – upp hvert? Jú, til Jerúsalem sem er hátt uppi – í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Og til að undirbúa fjallaferðina heldur Jesús fararstjóri fund með tólf vinum. Og litla Jesúklúbbnum þykir ferðaplanið spennandi.

En frásögn af fundinum er bæði undarleg og skelfileg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en það er eins og ferðarfélagarnir skilji ekkert eða séu í bullandi afneitun. Þeir eru með hugann við annað en það, sem Jesús segir þeim. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft blinda trú á að þessi stórkostlegi ræðusnillingur, spekingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig – og þá líka – út úr öllum hugsanlegum klípum. Og því virðast þeir ekki hlusta. Þeir tóku ekki eftir þessum rosalega texta sem Jesús vísaði til, skildu ekki að í borginni yrði Jesús fyrir skipulögðu einelti og einbeittum manndrápsvilja. Náðu ekki að Jesús var sér meðvitaður um hættuna en lét ekki eigin hag ganga fyrir heldur sá hlutverk sitt í stærsta mögulega samhengi.

Alger hörmung

Fararstjórinn er alveg skýr og lýsir með ákveðnu móti: Hann verði fangelsaður og misþyrmt, hann verði niðurlægður og síðan tekinn af lífi. En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.” Fólk á erfitt með ofbeldi.

Ef ég hefði heyrt svona kynningu hjá fararstjóra ferðaklúbbs hefði ég þverneitað að fara með. Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði hinu versta, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Einelti er hræðilegt, hvers konar ofbeldi er andstyggilegt. Stöldrum við.

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn í messuupphafi. Krossburðurinn minnir á hvað kirkjan er og hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn og blasir við okkur alla messun og túlkar líf. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú.

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Á fyrri tíð var tilgangur föstunnar ekki að pína sjálfan sig með því að halda við sig í fæðu, heldur til að skerpa hina andlegu sjón.

Á föstutímanum förum við í fjallgöngu með Jesú. Það er tími ferðalags með Jesú. Hann var ekki handtekinn fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur einhvern tíma á ferðinni, en pínan hefst ekki fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang og kristnin er ekki og á ekki að vera píslarsækinn. Kristnin er fremur veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, illsku eða gæskuskorti. Á föstunni megum við staldra við kraftaverk lífsins. Fastan er fremur tími til að skoða starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú og spegla eigið líf í spegli hans, sögu hans. Sú saga er um að lífið er dramatísk ferð, sem endar ekki dauða heldur lífi.

Hver Guð er
Hvernig er hægt að nota þennan föstutíma framundan? Hann er ferðatími fyrir hinn innri mann og endurnýjun mennsku og menningar. Vissulega er hægt að minnka mat og drykk. Við hefðum flest gott af! Og sumir leggja það á sig sem erfitt er – opna ekki netið, tölvupóstinn eða facebook og halda sér frá netinu í heilan sólarhring! Það getur verið ein tegund föstu ef aðgerðin varðar að fara ofurlítinn spotta á uppleið föstunnar.

Borgartilboðið Jerúsalem 2013 er fyrir alla. Við erum ekki kölluð til að fara hættuför til dauða heldur leyfa föstusögu að verða stórsögu sem við tengjust. Jesúsagan er ekki bara um hóp ferðafólks á afmörkuðum stað eða tíma, heldur saga um heiminn, mannkyn og Guð. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til okkar manna og vilja til að ganga með okkur á öllum vegum okkar. Það er saga um makalausa guðsför um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér. Allar smásögur okkar koma síðan saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi og páskasögu. Það er um að lífið er þrátt fyrir allt gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, skemmtilegt og mikilfenglegt.

Það er ferðasaga Guðs, sem smásögur okkar eru hluti af. Á föstu er sögð ofursagan um samspil lífs og dauða, Guðs og heims. Sú erkisaga skiptir öllu máli. Ferðatilboðin eru fjölmörg. Borgarreisur eru í boði. Húsaskipti líka. En merkilegasta ferðin er ferðin upp og mega ferðast með besta mögulega ferðafélaganum sem völ er á ? Fastan er að hefjast – ferðin er að byrja. Hvert ætlar þú?

Amen

Prédikun í Neskirkju á sunnudegi í föstuinngangi, 10. febrúar, 2013.

Textaröð: B

Lexía: Jes 50.4–11


Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Pistill: 1Kor 1.18-25


Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.

Guðspjall: Lúk 18.31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Þú í kviku tíma

„Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar – um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.“ Þetta er lýsing Haraldar Matthíassonar, fræðimanns og kennara á Laugarvatni. Líkingar, dæmi og sögur eru oft hjálplegar til dýpri skilnings á hinu torskilda. Stundum verða samlíkingar til að skerpa innsæi og jafnvel efla lífsleikni.

Börn vilja gjarnan flýta sér að verða fullorðin. Hugsaðu til þinnar eigin bernsku. Beiðstu eftir því að eldast? Unglingarnir hegða sér oft og klæða sig eins og þau séu að falla á tíma og þau megi ekki bíða með að verða fullorðin. Og þau kútveltast stundum í asanum. Þegar komið er á miðjan aldur kemst oft meira jafnvægi á í lífi fólks. Það er þá sem hægt er að horfa út um hliðarrúðurnar. En þegar fólk eldist horfir það gjarnan til baka. Er bara gott að horfa til baka þegar aldur og elli færast yfir? Eru kannski fleiri kostir – jafnvel lífsnauðsynlegir?

Tímavídd og saga

Söguafstaða Ísraelsmanna varð til þegar spámenn Gamla testamentisins komu fram. Fram að því var þjóðin upptekin af glæstri fortíð, horfði til baka og gekk afturábak. Saga þeirra, tími þeirra, var fortíðin. Framtíðin var þeim sem lokuð. Horft var til Móse og brottfarar af Egyptalandi, Abrahams og til glæstrar fortíðar.

Er þetta ekki skiljanlegt? Er ekki skemmtilegast að hugsa til einhvers stórkostlegs sem er liðið? Gallinn er að þá er erfitt að hugsa um og opna fyrir framtíðina. Spámenn ógnuðu þessum skilningi. Þeir sögðu margt óþægilegt, felldu dóma um afbrot leiðtoga, mein og sýkingar einstaklinga, hvöttu til iðrunar, til trúar og raunsæjis. Þeir gerðu upp hrunið. Þeir prédikuðu Guð sem hjálpaði einstaklingum, hópum og þjóð. Það dugar ekki lengur að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka. Það er ekki aðeins til fortíð og nútíð. Það er líka til framtíð: Þjóð sem í myrkri gengur mun sjá mikið ljós. Snúðu við, snú þú ásjónu þinni til framtíðarinnar. Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig er það?

Saga Íslendinga og Ísraela er um margt lík og viðbrögð einstaklinga sammensk. Á erfiðleikaöldum horfðu Íslendingar til baka til gullaldar. Nú horfir þjóð hvorki til baka né til framtíðar og lifir í fortíðar- og framtíðarlausu núi. Er það gæfulegt og ábyrgt? Um þjóðarstefnu eða menningarþróun Íslendinga verður ekki rætt í kvöld.

Beinum fremur sjónum að hinu þrengra sviði þínu, fjölskyldu þinnar og nærsamfélags. Hvar ertu stödd eða staddur í lífinu? Horfir þú bara fram eða lítur þú til hliðar og út um hliðarrúðurnar í lífinu? Eða snýrðu til baka, og horfir á lífið þeytast hjá, skilur ekkert af hverju allt verður svona hratt en þú hægur eða hæg? Ertu við afturrúðu lífsins? Hvernig horfðir þú á ævileið þína? Hvernig lifir þú? Hvernig hugsar þú, hræðist þú framtíðina?

Fólk sem þolir tímann, þorir að viðurkenna víddir tímans – fortíð, nútíð og framtíð – uppgötvar nýjar víddir í Guði. Veröldin verður undursamlegri og flóknari en áður og Guð verður lifaður með fjölbreytilegra og róttækara móti en einfaldur náttúruguð. Betri skilningur á flækju veraldar dýpkar og bætir guðslifun trúmannsins.

Og hvað svo?

Nú eru tímaskil og nú er tækifæri til að lifa með nýju móti. Þú þarft ekki lengur að draga fortíðina á eftir þér. Nú máttu sleppa, núllstilla. Hætt er við að þú endurtakir glöp fortíðar ef þú snýrð þér ekki fram á veginn. Fortíð og nútíð eru gild en framtíðin líka. Þú þarft ekki að lifa í eftirsjá hins gullna tíma fortíðarhamingju. Hamingjan bíður eftir þér á næsta ári hver svo sem aldur þinn er! Nútíðin er ekki heldur eina vídd tímans. Og þú mátt gjarnan lifa í krafti framtíðar með von og væntingu til hins opna og mögulega. Það er ekki aðeins þarft og gefandi heldur líka trúarlega rétt. Framtíðin er þér opin. Vegna hvers? Vegna þess að Guð opnar, leysir, hjálpar og gleður.

Hugsaðu eitt ár fram í tímann. Hvað dreymir þig að verði orðið eftir eitt ár? Hugsaðu strax nú á þessari stundu um drauminn þinn, markmið þitt. Hverju viltu sleppa? Hvað má fara? Þú mátt jafnvel hugsa stórar hugsanir. Hvað heftir þig og gerir þér gramt í geði. Er það vinnan, sjálfsvitund þín, fólkið þitt á heimilinu, maki eða makaleysi, veikindi eða húsnæði? Hvernig getur þú unnið með vandann? Hvað þarf að gera upp? Hvernig er raunstaðan og svo þegar þú snýrð þér til framtíðar: Hver er þrá þín? Og hvað viltu að verði? Nú er tækifæri að endurskoða allt og opna fyrir framtíðina, sem er jafnframt að opna fyrir Guði.

Í lok þessa aftansöngs getur þú gengið fram og tendrað ljós og skilið eftir ljósin þín við altarið. Þú mátt skilja eftir þjáningu og sorgarefni, vonbrigði og erfiðleika hér í kirkjunni. Svo þiggur þú fararblessun við kirkjudyr: „Góður Guð varðveiti þig á öllum vegum þínum.“ Farðu með þá blessun. Jesús Kristur verður með þér allar stundir, á öllum leiðum og styrkir þig til opinnar framtíðar þar sem allt breyttist í blessun um síðir.

Amen

Hugleiðing við aftansöng á gamlársdag 2012.

Lexía:  Slm 90.1-4, 12

Bæn guðsmannsins Móse.

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Guðspjall:  Lúk 13.6-9

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

Stóra upplifunin

Sunnudagurinn í dag er tvíbentur dagur sem er hvorki né – hvorki jól né nýár. Upprifin tilfinning aðfangadagsins er að baki og skaup og spaug gamlárskvölds, með tilheyrandi bombum, ekki enn komið. Sunnudagur sem er hvorki né – er þó líka bæði og – því það eru jól, heilög jól. Og enn ekki komið óflekkað nýtt ár með nýja möguleika og því engin vonbrigði heldur. Þetta er sérkennilegur dagur – og ljómandi að nota hann til íhugunar, setjast niður og hugsa. Lesa áfram Stóra upplifunin