Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Sigur?

IMG_1276Litur dagsins er svartur. Altarisklæðið er svart og stólan dökk. Engin ljós brosa við okkur á altarinu og jafnvel kirkjuklukkurnar þegja á þessum degi. Allt er sorginni markað.
Hin opinbera saga mannkyns hefur löngum verið saga sigurvegara. En hvað er sigur? Þegar litið er yfir tíma og sögu sést að ytri sigrar eru skammvinnir, að glanshúðin er skæni, að margir sigurvegarar umhverfast í böðla. Þegar í ytri sigri er upphaf ósigurs.

Um stóra sigra eru til margar frásagnir en um sigur í ósigri er sagan fáorðari. Ekki vegna þess að slíkir sigrar hafi ekki verið unnir heldur er torveldara að koma auga á þá. Skýrasta sagan um sigur í ósigri er píslarsaga Jesú Krists. Ósigur Jesú virtist alger. Hann var hæddur, hrakinn og hýddur. Undirbúningur krossfestingar var skelfilegur. Í fornum heimildum er þess getið að húðstrýking hafi jafnvel orðið mönnum að aldurtila, svo hrottaleg var hún og gekk nærri mönnum. Það er skýring þess að Jesús var ekki látinn ganga undir krossi sínum allt til aftökustaðar á Golgatahæð. Hann var of máttfara vegna hýðingar.

Á þessum bænadögum hef ég staldrað við afstöðu og æðruleysi Jesú. Konurnar í mannþrönginni grétu yfir lægingu og meðferð hans. Jesús gaf til kynna hvernig hann túlkaði písl sína: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér en grátið yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar.” Hann vildi enga vorkunnsemi. Jesús Kristur áleit ekki sjálfan sig sigraðan mann og túlkaði ekki píslarferil sinn sem tap. Hann vissi að ósigur eða læging í hinu ytra skiptir minnstu og engum sköpum heldur sá sigur sem ekkert fær grandað. Og köllun Jesú var ekki sjálfhverf eða sjálfmiðuð. Hann leitaði ekki eftir vinsældum, aðdáun eða frægð. Allur ferill hans og þjónusta var mótuð af innri köllun og tengslum hans við Guð, föður. Jesús gerði sér fullkomlega grein fyrir að það sem virtist vera sigur valdhafa Jersúsalem var alger ósigur þeirra. Það skýrir æðruleysi hans.

Íhugum framvinu píslarsögunnar. Hvergi muntu greina hinn hráða og kúgaða Jesú Krist sem sigraðan mann. Hann féll fram í grasgarðinum og þá var hann barn í bæn til föður. Þaðan í frá var stefnan mótuð og hann kvartaði aldrei heldur birtist í honum eða skein af honum yfirvegun og ró sigurvegarans. Eitt sérstæðasta og merkilegasta einkenni píslarsögnnar er að Jesús tjáir hvergi nokkurn vanstyrk eða bregst við með æsingi sem einkennir þau sem verða fyrir ofbeldi eða lenda í hryllilegum aðstæðum. Hvergi skeikar ró, tign og festu, sem einkennir þann sem á í sér sigur. Frammi fyrir ráðinu og Pílatusi svaraði Jesús með skýrleik og einurð. Orð hans voru stutt og engum orðum ofaukið, ekki smáorði. Hver setning var sem meitluð á stein. Jafnvel þögn hans var yfirveguð og æpandi. Engu hæðnisorði svaraði hann, hver sem í hlut átti.

Einu orðin sem gætu virst tjá uppgjöf eru orð Jesú á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ En þegar grannt er skoðað er þó enginn uppgjöf í þessum orðum. Þau eru tilvitnun í 22. Davíðssálm sem var túlkaður sem spádómur um Messías. Jesús Kristur þekkti efni sálmsins og skildi píslarför sína sem uppfyllingu hans. „…þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur. Ég get talið öll mín bein, þeir horfa á og hafa mig að augnagamni. Þeir skipta með sér klæðum mínum, kasta hlut um kyrtil minn.“

En þrátt fyrir hörmungarlýsingu sálmsins lýkur honum með sigurtjáningu Guðs sem snýr ósigri í sigur, læginu í upphafningu. Þetta skildi Hallgrímur Pétursson rétt. Í 41. Passíusálmi segir:

Enginn skal hugsa, að Herran þá

hafi með efa og bræði

hrópað þannig né horfið frá

heilagri þolinmæði,

syndanna kraft og kvalanna stærð


kynnir hann oss, svo verði hrærð

hjörtun frá hrekkja æði.

Í hinu ytra virtist ósigur Jesú alger. Vinirnir voru flúnir, hann sjálfur smánaður. Hermenn og lýðurinn gerðu hróp að honum. Af hverju hjápar Guð þér ekki? Hvar er Guð nú? Jafnvel annar ræningjanna á krossinum – nærri dauðastundinni – spottaði hann. En það var ekki ásýnd heldur innri veruleiki sem stýrði för Jesú Krists. Jesús lifði og var í algerri samsemd með lífi og veruleika Guðs. Hann var fullkomlega innlifaður að Guð væri með honum, tæki sporin með honum á leiðinni, bæri krossinn og yrði fyrir hæðnisglósunum. Hann væri í föðurnum og faðirinn í honum. Vegna samsemdarinnar brotnaði Jesús ekki hið innra. Þessi líftengsl föður og sonar er lykill skilnings píslarsögunnar og raunar páskanna og hins kristna dóms. Píslarsagan verður ávirk vegna hinnar algeru guðsnándar sem Jesús lifði í og var honum eðlileg og eiginleg.

Páskarnir eru sigurhátíð þegar sigur lífsins á dauðanum opinberast. En föstudagur er dagur píslar og dauða. Í miðri þjáningunni leynist sigurinn. Jafnvel við dauðastund tjáir Jesús manninum sem var honum til hliðar og við megum gjarnan heyra þann boskap „Í dag skaltu vera með mér í paradís.“ Við megum lifa í þeirri guðsnánd og allt lífið þjálfast í þeirri innlifun. Þar eru allir litir lífsins, lífið í fyllingu.

Amen.

Íhugun í Neskirkju föstudaginn langa, 29. mars, 2013.

Lífið mætir dauðanum

Emil NoldeFyrr í kvöld var stór hópur af fólki í safnaðarheimilinu og naut skírdagsmáltíðar. Það var vel lyktandi, bragðgóð fjölréttamáltíð sem bar með hráefnum sínum og samhengi vitni um skírdagsmáltíðir aldanna. Jesús Kristur bauð til borðs og máltíðar þegar hann bjóst við dauða sínum. Gagnvart dauða koma kristnir menn saman til samfélags, veislu. Lífið mætir dauðanum.

Og svo er líka máltíð í kirkjunni. Jesús er við borðið, er sjálfur lífið. Á aðfangadegi dauðadags njótum við samfélags, veislu – og lífið mætir dauðanum.

Útburður og nakið borð

Í lok þessarar athafnar berum við út úr kirkjunni alla gripi, ljósastjaka, biblíu, handbók, sálmabók, bikara,  brauðhús, dúk, þerrur – allt það sem er á altarinu. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Af altarinu verður allt tekið, myrkur tæmingar leggst að. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Það er of einfeldningslegt að túlka píslarsöguna aðeins sem réttarmorð í fornöld. Píslarsaga Jesú Krists er lykilsaga og varðar allt líf og alla menn. Hún varðar sköpun Guðs og þar með menn. Hvers konar óréttlæti er þáttur píslarsögunnar, hernaður gegn náttúrunni er líka af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Þegar við leyfum hinu illrætta að vera þá er lífi spillt.

Píslarsagan er ekki aðeins saga um vonda menn fyrir nær tveimur árþúsundum, sem voru illir í garð eins manns. Hún er fremur saga um okkur öll, líka möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum, eigum að vera og erum kölluð til. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka í hermönnum, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði orð lífsins. Við erum ekki aðeins Íslendingar heldur líka Gyðingar, við erum öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs – en samt líka lærisveinar sem er boðið til lífs í heilagleika. Júdas býr í okkur öllum – en líka Jesús Kristur.

Bæði og…

Þegar við berum allt af altarinu viðurkennum við, að í okkur býr möguleiki sem í ákveðnum aðstæðum er hægt að beita og misnota. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða. Þegar við menn viðurkennum stöðu okkar og hið eiginlega ríkisfang er Adam nálægur og ábyrgur.

Heilagur…

Í messulok verða fimm afskornar rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn sára Jesú en líka meina heims og manna. Gróa sárin – verða páskar? Kemur lausnin heims og þín? Páskarnir eru að baki písl, líf eftir dauða.

Þegar okkur er boðið til borðs Jesú hljómar boðskapur hans um að hann sé brauð og bikar lífsins. Þegar við göngum til borðs Jesú viðurkennum við að hann gefur líf, talar orð lífsins, er lífið sjálft. Við játum að heimurinn er góður og í góðum höndum, að vonin er sterkari en hið vonda, að lífið er sterkara en myrkrið. Við borðið mætir lífið dauðanum.

Guð geymi þig þessa bænadaga, varðveiti þig og veiti þér líf gegn dauða.

Amen

Íhugun í skírdagsmessu í Neskirkju 28. mars, 2013.

Hvað er falleg kirkja?

Síðustu fjórtán árin hafa verið gefnar út bækur um friðaðar kirkjur Íslands. Nú eru þegar komnar út tuttugu bækur og margar eru í gerðinni. Þetta eru vandaðar bækur sem öflugir og kunnáttusamir fræði- og listamenn hafa skrifað og unnið af mikilli alúð. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Bækurnar eru hafsjór fróðleiks um guðshúsasögu þjóðarinnar sem er jafnframt mikilvægur þáttur menningarsögu Íslendinga.

Á árinu 2012 komu út tvö bindi um friðaðar kirkjur í Reykjavík og þar er fjallað m.a. um Neskirkju. Þar kemur vel fram – og sagan er sögð talsvert ítarlega – að á undirbúnings- og byggingartíma kirkjunnar hafi mörgum þótt kirkjan ljót og ókirkjuleg. Margir töluðu með niðrandi hætti um teikningar og Ágúst Pálsson arkitekt. Byggingunni var fundið flest til foráttu og hæðst að þeim sem vildu og lögðu á sig mikla vinnu til að hún yrði byggð.

Hvað finnst okkur um kirkjubyggingar almennt? Hvað er ljót kirkja og hvað er falleg kirkja?

Kirkjulegt

Þau sem koma í Neskirkju hafa stundum sterkar skoðanir á húsinu. Kona sem kom í kirkjuna í fyrsta sinn leit í kringum sig og sagði við mig: ”Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.”

Skömmu síðar stóð ungur drengur við kórtröppurnar og horfði fram í ósamhverfa kirkjuna og sagði hugsi: ”Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.” Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg – þetta ”á að vera” – væri hún þar með ekki falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og kirkjulegt skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll við viðmið.

Neskirkja á afmæli á þessum degi. Hún 56 ára í dag. Þegar kirkjur eru vígðar fæðast þær til ákveðins hlutverks í þágu Guðs og manna. Vígsludagur er kirkjudagur og pálmasunnudagurinn er því ávallt hátíðardagur í okkar söfnuði.

Smurningin í Betaníu

Í guðspjalli dagsins er sagt frá nafnlausri konu. Hún var í veislu í Betaníu sem var stutt frá Jerúsalem. Þessi kona kom með rándýr smyrsl, reyndar svo fágæt og stórkostleg að þau kostuðu árslaun. Þetta var no-name-tegund þess tíma. Jesús Kristur var göngumaður og það var þakkarvert að smyrja fætur ferðamanna. Fætur þeirra voru gjarnan sprungnir og lúnir. Smyrsl gerðu þeim gott.

En ekki voru allir sáttir við að dýrmæti væru notuð á tær og hæla. Nöldurhópurinn sem var á staðnum og sá til varð æfur yfir að konan skyldi nota öll dýru smyrslin og sóa þeim á einn mann. Það var nú reyndar væluefni kvörtunardeildarinnar. Meðal Gyðinga var tíminn fyrir páska tími hjálparstarfs. Þá var vaninn að verja fjármunum til fátækra. Jesús vissi það vel og náði að skerpa mál guðsríkisins og forgang í lífinu með því að minna gagnrýnendur á að fátækir yrðu alltaf til í heiminum en hann ekki.

Það verða alltaf til einhverjir setja ómaklega út á. Gagnrýni er mikilvæg en tapar gildi ef hún er nöldur. Hvað skiptir máli, hvað er mikilvægt? Og guðspjallið réttlætir að gríðarleg verðmæti væru notuð til að smyrja Jesú sem setur reyndar þessa smurningu í hið stærsta samhengi guðsríkisins. Jesús var á leið til Jerúsalem og vissi að hann væri í bráðri lífshættu. Því leyfði hann þennan smurningargjörning. Hann leyfði að hann yrði smurður vegna dauða – og hann samþykkti líka að hann yrði smurður því þannig fóru menn með kónga. En hann var ekki pólitískur kóngur. Guðsríkið varðar ekki stjórnun heldur líf. Erindi höfundar kristninnar varðaði ekki félagslegt valdabrölt. Hlutverk hans og erindi var að veita málum Guðs brautargengi, frelsa heiminn frá vitleysu og illsku. Nöldrararnir hugsuðu efnislega, peningalega og smæðarlega, en Jesús brást við í anda hinna stærstu gilda – Guðs. Hvað er fallegt og af hverju?

Gagnrýnendum þótti konan hegða sér illa, framferði hennar væri ljótt og andstyggilegt. En það sem var aðalmál smurningarinnar var að konan tilbað Jesú Krist. Hún gerði sér grein fyrir að hann væri mikilvægari en allt annað í veröldinn, vermætari en öll auðlegð mannanna. Þess vegna smurði hún. Það var jáyrði hennar við himninum og lífinu. Hún átti í sér elsku til Jesú Krists, hún trúði að hann væri hinn útvaldi sem Guð sendi. Hún smurði hann til að hann sléttaði allar hrukkur heimsins. Hvað er fagurt – ef ekki það?

Fegurð fólks

Hvað er falleg kirkja? Þeirrar spurningar var spurt á sínum tíma þegar Neskirkja var byggð. Og alltaf kvikna álíka spurningar þegar hugað er að búnaði, rými og húsagerð, líka listsýningum. Sýning Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá verður opnuð á Torginu eftir messu í dag. Það er sýning sem höfðar til fegurðarskyns okkar, tilfinninga og skynjunar og laðar fram íhugun. Æðakerfi landsins, blá-hvítlituð ský og blúsaðar pípur hafa alla vega náð að kalla fram spurningar í mér um hið samhengi lífs í landi okkar.

Í gær voru tvær fjölmennar fermingarathafnir hér í kirkjunni. Fimmtíu fermingarbörn gengu fyrir altarið og sögð sitt já. Kirkjuhúsið hélt vel um þennan mikilvæga viðburð í lífi þeirra og fjölskyldna þeirra. Þetta voru athafnir þrungnar tilfinningum og bænum. Og það er í því samhengi sem fegurð kirkju verður best lifuð.

Föstutíminn er ætlaður tiltekt og hreingerningu. Pálmasunnudagur er dagurinn fyrir álagspróf sálarinnar. Sjáum við rétt, heyrum við raddir himins, erum við tengd því sem mestu máli skipti? Erum við í lagi? Við getum ákveðið að brjóta hin dýrmætu ker okkar. Það merkir að bera fram sjálf okkur og það sem skiptir okkur máli fram fyrir Guð, gefa Jesú Kristi dýrmæti okkar og halda engu eftir.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt. Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En þegar Guð horfir á okkur erum við jöfn og stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn.

Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í vitund fólks í hverfinu og hefur notið velvilja. Stór hópur þjónar kirkjulífinu og gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Mér þykir Neskirkja falleg kirkja, en stórkostlegust er kirkjan vegna fólksins sem sækir kirkjuna, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar.

Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Neskirkja – fyrsta nútímakirkjan á Íslandi – er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. En fegurð Neskirkju verður endanlega skilgreind af öðru en ytri ásýnd, sem þó er mikilvæg líka. Neskirkja er fallegt hús því hún er hús Guðs sem er í sköpun sinni og meðal manna, meðal okkar. Það er fegurðin í fyllingu sinni.

Amen

Hugleiðing í Neskirkju á pálmasunnudegi, 24. mars, 2013. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957.

Gína á stalli?

EvrópufániAf hverju er fáni Evrópu blár? Og af hverju er stjörnuhringur á þeim fána? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Hvað minnir fáninn á og af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Er einhver saga og minni að baki? Já svo sannarlega, fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er eiginlega skilgetið afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu móður Jesú Krists. Evrópufáninnn er líkist fjölda Maríumynda – en mínus María. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu.

Guðskoman boðuð

Í dag er boðunardagur Maríu, ofurkonu í menningarsögu Vesturlanda. María hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og margslungin.

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og sumar myndirnar sýna?

Skiptir María máli? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins.

Maríuhlutverkin

Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir t.d. föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins

Við hrífumst og getum innlifast helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki – María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María meðal manna

Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við ættum að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María megi stíga af stalli og taka þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum og tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. María þarf ekki að vera þar og í því hlutverki – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum og þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna fyrirmyndarhlutverki. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem lesin voru úr Passíuálmunum áðan. “María, drottins móðir kær, 
merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Amen

Boðunardagur Maríu, 5. sd. í föstu, 17. mars, 2013

Lexía:  1. Sam 2.1-10

Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill:  Róm 8.38-39

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 1.46-56

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

 

María, drottins móðir kær,

merkir guðs kristni sanna:

Undir krossinum oftast nær

angur og sorg má kanna.

Til hennar lítur þar herrann hýrt,

huggunarorðið sendir dýrt

og forsjón frómra manna.

HP-PSS 37,6