Í dag er Skálholtshátíð og í ár eru fimmtíu ár liðin frá vígslu Skálholtskirkju árið 1963. Og þar sem Jesús segir í guðspjallinu frá húsabyggingum kemur í huga saga sem ég heyrði um byggingu Skálholtskirkju. Ég segi þá sögu, spegla hana líka í guðspjallinu og svo verða Skálholtsstef tilefni til að hugsa um okkur, grunn okkar og hlutverk. Skálholt er eins og táknstaður um líf okkar og getur orðið okkur sannleiksspegill. Lesa áfram Skálholtsjárnið
Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir
Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=
Óskaganga á Helgafell
Skammt frá Stykkishólmi er hið forna höfuðbýli Helgafell. Sveitin umhverfis fær nafn af staðnum. Í Helgafelli var klaustur af Ágústínareglu frá árinu 1184, sömu reglu og Marteinn Lúther tilheyrði. Norðan bæjar og kirkju er fagurlega mótað Helgafellið, sem rís þokkafullt upp úr flatlendinu umhverfis og er líka fagurt að sjá frá sjó.
Á tvo vegu er fellið bratt en auðvelt að klífa það frá vestri og suðri. Norðan við kirkjuna er afgirt og greinilegt leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, kunnustu skvísu Laxdælasögu. Þaðan er auðvelt að ganga upp á fellið og að svonefndri kapellu. Sagan segir að hún sé rúst helgistaðar – væntanlega munkanna í klaustrinu. En byggingin gæti allt eins hafa verið skýli varðmanna sem fylgdust með umferð manna en kannski líka búpenings.
Göfgun og gönguhvati
Menn hafa löngum gefið ferðum sínum tilgang og reynt að göfga verk og daglegt atferli og séð í lífinu dýpri merkingu. Svo hefur verið gert við leiðina frá Helgafellskirkju og leiði Guðrúnar og upp á fellið. Hún varð að óskaferð, eins konar pílagrímsferð eða leið fyrir persónulega kyrrðargöngu.
Sagan segir að ef rétt sé farið að megi óska sér þrenns í þessari ferð. Til að vænta megi uppfyllingar óska eru skilyrðin að signt sé yfir leiði Guðrúnar, síðan verði gengið í algerri þögn upp stuttan stíg á fellið, ekki sé litið aftur á leiðinni og förumaðurinn snúi síðan í austur þegar upp er komið og beri fram óskir sínar með góðum huga.
Óskaganga
Fyrr í þessari viku fór ég í þessa pílagrímsgöngu með konu minni og yngri drengjum. Það var gaman að útskýra fyrir strákunum hvers konar ganga þetta væri, gera grein fyrir kröfunum sem gerðar væru fyrir göngumenn, hvers eðlis óskirnar gætu verið, hvað maður þyrti að gera á leiðinni og hvað maður mætti ekki gera. Ekki væri leyfilegt að tala, kvarta, spyrja, masa, hlægja eða gráta – ekki mætti horfa á annað en leiðina, hugsa um óskirnar með góðum huga, reyna að hreinsa þær þannig að þær væru raunverulega mikilvægar og maður gæti sjálfur unnið að því eða hjálpað til að þær rættust.
Síðan var hægt að tala um helgistaðinn, bænastaðinn, kirkjustaðinn, bænaiðju munka – sem synir mínir kölluðu nunnukalla á síðasta ári – en hlægja nú að því orði. Þeir og kona mín voru sammála um skilmála, aðferð og tilgang. Svo krossuðum við yfir leiðið, gengum í þögn og með hæfilegu millibili í góðviðri, með fuglasöng í eyrum, ilm jurta og sjávar í nösum og fundum fyrir örum hjartslætti í brjósti. Við orðuðum óskirnar í kyrru hugans og stóðum svo í kapellunni efra, horfðum í austur og bænir flugu í nafni Föður, Sonar og heilags Anda. Svo var þögnin rofin.
Merking óskagöngu
Hvað merkir svona ferð? Hvers eðlis er bera fram óskirnar? „Er þetta satt pabbi?“ spurðu drengirnir og ég skýrði út fyrir þeim eðli þjóðsagna, hlutverk þeirra, merkingu og hvað væri hvað? Er Helgafell töfrastaður, er þar styttra í svarstöð himins en annars staðar? Ef maður klúðrar einhverju rætast þá ekki óskirnar og snúast jafnvel í andhverfu sína? Ef maður lítur óvart aftur eða gleymir að signa yfir leiðið er þá ferðin til einskis eða jafnvel ills? Svona spurningar eru þarfar og mikilvægt að ræða. Einu gildir á hvaða aldri maður er. Svona spurningar eru mennskar og mikilvægar.
Saga gefur
Hvert er eðli og tilgangur þjóðsögu? Í þessari sögu er hægt að merkja að atferli leiðir til íhugunar og hreinsunar, að bænir eiga sér ytra form, að göngur hafa fengið dýpri skýringu, endurtúlkun og göfgun, að frátekin staður og guðsmenn hafa kallað á vitund um hið heilaga og skýringaþykkni. Og svo lifir saga um dásemd, möguleika, mikilvægi, merkingu og tilgang. Þjóðsögur eru ekki aðeins skemmtisögur heldur má fara inn í þær og skilja erindi þeirra á dýptina og hlusta eftir boðskap þeirra. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur vinsamlega – leyfa þeim að tjá gildi, dýpri mál, hlutverk og möguleika sem geta haft svo mikil áhrif að líf okkar breytist. Saga gefur, veitir fyrirmyndir, miðlar visku og styður því líf.
Guð kallar
Ytri skilyrðin voru okkur hinum fullorðnu ekki aðalatriði eða forsenda að óskir rættust. Ég rölti með mínu fólki upp á Helgafell í fullri vissu um að ég þyrfti ekki að lúta þrældómi aðferðar heldur væri annað mikilvægt. Aðferðirnar væru tæki til að opna djúp. Göngu og atferli væri ætlað að opna fyrir möguleika, kalla fram nýjar hugsanir, við mættum hlusta eftir djúpröddum hjartans sem er tjáning Guðsandans. Allt sem skiptir máli í lífinu krefst einhverrar fyrirhafnar. Guð er ekki utan við veröldina heldur talar í gegnum raunveruleika lífsins, hvort sem það er nú í golu í hríslum og blábergjalyngi, fuglasöng eða samskiptum við fólk. Guð kallar til lífs og vaxtar.
Pílagrímaganga – samfylgd Guðs og manns
Helgafell er vissulega áhrifaríkur sögustaður, vermireitur bókmennta og minnir á átakanlega ástarsögu Laxdælu. Helgafell er kirkjustaður, samkomustaður safnaðar til að biðja og syngja Guði lof. En svo gerir göngusagan Helgafell einnig að vettvangi pílagrímagöngu. Það er því hægt að nota staðinn til að gera upp mistök og sorgarefni og stafla þeim í grjótvegg kapellunnar efra og skilja þar eftir það sem miður fer og má hverfa í lífi fólks. En í staðinn koma gjafir Guðs til góðs.
Og til hvers eru pílagrímagöngur, eingöngur, kyrrðargöngur? Þær eru til að vinna með merkingu mannlífs, lífs okkar mannanna. Þær eru til að skilja við það sem dregur úr fólki gleði og lífskraft – allt sem splundrar okkur og sundrar sambandi við sjálf okkur og Guð. En þær eru líka til að kalla okkur til sjálfra okkar, leyfa þrá okkar að koma fram, dýpstu löngun okkar að hrópa til sjálfra okkar, leyfa óskum okkar að fljóta upp í vitundina og taka flugið til hæða. Pílagrímagöngur verða gjarnan til að við vöknum til að Guð fái talað við okkur. Þegar svo verður fyllumst við krafti til endurnýjunar. Þá fara bænirnar að rætast og við lifnum og eflumst.
Textar dagsins eru ferðatextar fyrir lífið. Og hverjum mætum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu á leið okkar? Guði. Það var vitnisburður ferðamannsins Páls sem lenti á sínu Helgafelli. Það var reynsla vina Jesú sem urðu vitni að því að veröldin er mikið Helgafell sem Guð á og gefur okkur til búsetu og líflistar.
Tilgangsferðir og trú
Á leiðinni ofan af fjallinu hjöluðu drengirnir mínir. Þeir höfðu beðið bænir sínar og tjáð óskir sínar og við hin eldri einnig. Þjóðsaga og helgisaga höfðu orðið okkur til góðs. Við höfðum fundið til helgi lífsins á Helgafelli. Sumarferðirnar eru ekki aðeins ferðir út í buskann heldur ferðir með ríkulegum tilgangi. Ég hafði ekki skipulagt pílagrímagöngu þennan dag, hún kallaði okkur til sín, kom okkur á óvart. Og við nutum hennar og hún hafði áhrif á okkur öll. Lífið er dásamlegt og þegar við leyfum ævintýri dýptanna að vitja okkar verður lífið skemmtilegra og eiginlega marglaga undur og óvæntir viðburðir til að gleðja og kalla til dýpta. Og það besta er að óskirnar rætast. Sumarferðir og kannski allar lífsleiðirnar mega verða okkur Helgafellsgöngur. Við megum bera fram óskir í góðum huga og þá göngum við inn í ósk Guðs, sem ann okkur mest og er okkur bestur.
Amen
Íhugun í Neskirkju 30 júní 2013
Réttir verðmiðar
Tvö hundruð ár eru liðin frá fæðingu guðfræðingsins og heimspekingsins Sören Kirkegaard. Hann fæddist í maí 1813, skrifaði mikið á stuttri æfi og hafði mikil áhrif á vestræna menningu og hefur enn. Hann var ekki sjómaður en setti sig í spor sæfarans og þegar hann talaði um trú og Guðsafstöðu þá líkti hann því við að leggja á djúpið – á sjötíu þúsund faðma dýpi. Samkvæmt honum og raunar fylgdi hann Jesú Kristi í því: Lífsverk fiskimannsins og trúmannsis á sér innrím og líkindi. Í dag langar mig að miðla viskusögu sem Sören Kirkekgaard bjó til. Hún fjallar ekki um fiskveiðar en hvað merkir þessi saga? Sagan er svona:
Víxlun
Nótt eina brutust þjófar inn í skartgripaverslun. Í stað þess að stela dýrgripunum víxluðu og rugluðu þeir öllum verðmiðum. Því vissi enginn með vissu næsta dag hvort rétt væri merkt. Ódýru skartgripirnir höfðu skyndlega hækkað í verði og hinir dýrustu eitthvað verðbreyst. Og það makalausa var að hinir efnaminni gátu allt í einu keypt dýrgripi fyrir lítið fé en hinir fjársterku keyptu jafnvel glingur á okurverði. Glópagullið var dýrt en dýrmætin voru á kostakjörum. Þau sem töldu sig vera að kaupa vandaða dýrgripi keyptu drasl.
Hvað vakti fyrir höfundinum með svona sögu? Auðvitað er þetta kennslusaga og til íhugunar. Hún merkir að við menn eigum stundum erfitt með að greina hvað er mikilvægt frá hinu sem er lítilfjörlegt. Við ruglum oft gildum, víxlum miðum, grípum hið ómerkilega og sjáum ekki dýrmætin. Kierkegaard er ekki einn um að minna okkur á víxlmerkingar. Spekingar aldanna og allra menningarhefða hafa löngum bent á hið sama og hvatt menn til að róa á djúp gilda, trúar, speki og gæsku. Jesús Kristur talaði oft um hvað skipti fólk og líf máli og hvað ekki. Hvað setjum við í forgang, hvað þykir fólki eftirsóknarvert? Hver eru raunveruleg og varanleg gildi og hver ekki?
Og guðspjallssaga dagins er um að fólk geri ekki gull að guði sínum, rugli ekki merkimiðum lífsins. Og í smásögu Jesú í guðspjalli dagsins – sem er systursaga Kirkegaardsögunnar – segir Guð við hinn sjálfsörugga og sjálfsánægða auðmann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“
Eiga eða vera
Einn af þeim sem lærði af Sören Kierkegaard – stóð í þakkarskuld og hefð hans og naut þar með spekinnar – var sálgreinirinn Erich Fromm. Ég las á sínum tíma bók hans Að eiga eða vera. Bókarheitið gefur vel til kynna til efni ritsins. Fromm greindi á milli tvenns konar afstöðu eða veruleikanálgunar manna. Annars vegar er sókn fólks í eignir og að verða ríkt. Það fólk vill eiga – vera eignafólk. Hins vegar er sú lífsafstaða sem ekki er upptekin af eignasókn og eignahyggju, heldur því fremur að vera og þá óháð ytri verðmætum eða eignum. Vera eða eiga: Þetta eru stórflokkar sem við menn flokkumst í. Við sem einstaklingar tilheyrum flest báðum en í mismiklum mæli eða hutföllum.
Eignahyggjan snýst um efnisleg gæði og það sem eignarrétturinn getur tryggt. Grundvöllur eignarhyggjunnar er jafnan græðgi og aðferð hennar árásargirni samkvæmt Fromm. Veruhyggjuna segir hann hins vegar grundvallaða á elsku og aðferð hennar er að deila reynslu og samþætta krafta einstaklinga.
Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir, að eignahyggjan sé drottnunargjörn en veruhyggjan samráðsleitandi, eignahyggjan leiti að skýru og þrepskiptu valdi en veruhyggjan hvetji til aðildar sem flestra til ákvarðana og valda. Af þessari einföldu skiptingu má draga mjög róttækar ályktanir. Frumástæðu mengunar og hernaðar gegn náttúrunni taldi Fromm fundna í eignarhyggjunni, sem engu eirði fyrr en búið væri að brjóta og ná nokkru valdi á.
Fjársjóður og hjartað
Það er einföld ástæða þess, að Kirkegaard og Fromm eru tilkvaddir sem vitni í erfðamáli guðspjalls á þessum sunnudegi. Kristnin kennir að líf sem snýst um eigur og ytri gæði leiðir ekki aðeins til tortímingar einstaklinga heldur einnig mannfélags. Og kristnin er ekki ein, boðskapur Jesú á sér samhljóm í Islam, Gyðingdómi einnig, norrænni speki og öðrum viskuhefðum einnig.
Þegar ytri gæði ráða hug og sókn fólks mun allt líða og bera skaða af, samfélag, þjóðfélag, verkmenning, já líka náttúran. Allt flekkast. Fyrsta boðorðið varðar þetta ofurmál. Hver meginafstaða fólks er varðar annað hvort heilsu og heill eða bölvun í heimi og mannfélagi. Siðferði og líf fólks er háð hver afstaðan er.
Er ástin til lífsins það sem einkennir þig, hefur þú smekk fyrir djúpferðum og fiskar þú á dýpi eða heldur þú þig bara á grunnsævi í öllum efnum? Ef eignasóknin nær að stjórna fólki og ráða er afleiðingin víxlun merkimiða, haldið fram hjá Guði. Þegar menn ætla að ná valdi á og sölsa undir sig hverfur auðmýkt gagnvart undri veraldar sem trúarhefðirnar kenna til Guðs.
Eiga – vera – trúa
Jesús benti, á að menn gætu ekki þjónað mörgum herrum. Mammon þolir ekki annað en að vera miðjan í vitund og lífi aðdáenda sinna. Hlaupamaðurinn, sem kom til Jesú til að afla stuðnings í erfðabaráttu, hafði gleymt sér á hlaupum eftir eignum. Jesús hafði aldrei neitt á móti fjármunum sem slíkum heldur var umhugað um innri heilindi, innræti fólks og frumafstöðu. Francis Bacon tjáði jesúlega afstöðu þegar hann orðaði svo hnyttilega að auðævin væru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Skáldið Einar Benediktsson minnti á: “Hver laut sínum auði var aldrei ríkur/ Öreigi bar hann purpurans flíkur.” Í Sólarljóðum segir “margan hefur auður apað.” Alþýðuviskan minnir á, að á líkklæðunum séu engir vasar – speki sem var notuð í nýliðinni kosningabaráttu!
Jesús minnir okkur á að illa sé komið fyrir eignamanni sem á engin hlutabréf eða höfuðstól á himnum. Með hliðstæðum hætti segir Fromm: „Ef ég er það sem ég á og missi það, hvað er ég þá?“ Hann bætti við: „Á nítjándu öldinni var vandinn sá að Guð væri dauður. En á tuttugustu öldinni var vandinn að maðurinn væri dauður!“ Verkefni okkar á okkar tíma – 21. öldinni – er að lágmarka skefjalausa eignahyggju sem deyðir, en efla veruhyggju og líka trúna. Vegna hvers – vegna lífsins.
Aurasál og aðalgæðin
Sören Kierkegaard skrifaði: „Ef ég myndi óska mér einhvers myndi ég ekki óska mér auðs og valda heldur að ég skynji djúpt möguleika… …Ánægjutilfinning er hverful en möguleikar valda engum vonbrigðum. Hvaða vín freyðir eins fagurlega, ilmar svo vel eða hrífur eins stórkostlega og möguleikinn.“
Stöðugt er verið að víxla gildum – verðmiðum í samfélagi okkar. Okkar er að staldra við og meta sjálf, hugsa sjálf, taka sjálf ákvarðanir um hvað skipti máli. Okkar er að halda út á sjötíu þúsund faðma djúp eigin sálar og meta hvernig veiðiskapur okkar skuli vera, hver lífsgæði okkar við viljum halda í. Í samfélagi okkar er veiðiskapur stundaður og hann á að vera til heilla og í þágu allra. Þegar þú verður veiddur eða veidd upp úr trolli lífsins, hvaða merkimiða færðu þá. Það er ekki gott að þá verðir þú merktur sem heimskingi. Reyndar er á okkur strikamerki skírnarinnar. En látum ekki glepjast af glingrinu. Það er nú raunar æviverkefni og varðar útgerð til lífs.
Amen.
Prédikun í Neskirkju 2. júní 2013.
Textaröð: B
Lexía: Mík 6.6-8
Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.
Pistill: 1Tím 6.17-19
Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.
Guðspjall: Lúk 12.13-21
Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum. “ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé. “ Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“
Skot í mark
Sumardagurinn fyrsti, kosningar og messudagur hafa fléttast saman. Í dag er Sara Karítas skírð og svo gifti ég hér í kirkjunni eftir hádegið á fimmtudeginum og allt hefur orðið að fléttu í mínum huga.
Sumardagurinn fyrsti er gjafadagur á mínum heimili. Drengirnir mínir fengu boga í sumargjöf. Boginn er fallegur, leðurbryddaður, úr góðum viði og fer vel í hendi. Drengirnir voru spenntir og fengu úthlutað skotsvæði. Ég hreifst af spenningi þeirra og vildi miðla þeim hvernig á boga er haldið, hvernig líkama er beitt, hvernig ör er haldið við streng og hvernig hún á að liggja. Bogmennska er list. Bogfimi þarfnast þjálfunar, spenna þarf boga hæfilega svo örin fljúgi rétt og í passandi sveig. Þegar skotið er um langan veg þarf að áætla fall örvarinnar miðað við fjarlægð og skotstyrk. Þessi viska bernskunnar rifjaðist upp við að kenna skottæknina.
Á fyrsta skotdegi voru drengirnir þó ekki tilbúnir til mikils náms. Þeir vildu helst bara skjóta og var alveg sama um skotstíl og tækni. Í upphafi var ekki þörf á mikilli kennslu heldur að taka þátt í gleðinni. Þjálfun, ögun og framfarir koma seinna og smátt og smátt. Nú, nokkrum dögum síðar, eru þeir tilbúnir til að læra ný trix og sjá bogmennsku í nýju ljósi. Þeir hafa gert sér grein fyrir takmörkum sínum og bætt skotmennskuna með því að læra og taka leiðbeiningum.
Markhittni verður ekki nema með æfingum, elju og þolinmæði. Bogfimi er líka mál hins innri manns og hvernig þessum tækjum er beitt gagnvart lífi og í umhvefi. Þetta skilja þau sem stundað hafa af kappi einhvera íþrótt eða agaða list. Að skjóta er lítið mál, að skjóta nærri marki er meira mál en að hitta í mark oft og reglulega er mál ögunar og samstillingar anda og líkama. Og þetta er baksvið umræðu um guðspjall og kosningar.
Í kjölfar kosninga
Dagurinn eftir kjördag. Við erum mörg búin fara “í kjósina” – eins og ferð á kjörstað er kölluð á mínu heimili – og skjóta okkar atkvæði í kassann í kjörklefanum. Þar vorum við ein og x-uðum í samræmi við okkar samfélagslestur, mark og mið. Í kjörklefanum vorum við ein en í úrslitum erum við þjóð. Við erum aðilar að vali og leggjum okkar til og skrifum okkar x en síðan er unnið úr samkvæmt lögum og leikreglum hefðarinnar.
Guðspjallstexti dagsins er hnyttinn og við hæfi á sunnudegi eftir kosningar. Í textanum segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður.“ Kjósendur hafa útvalið – sett x-ið. Nú eru komin úrslit. Þau ber að virða. Markmið stjórnmála og þar með kosninga er að skipa málum og stjórn í samræmi við réttlæti og hlutverk fulltrúa almennings er að þjóna vilja fólks. Stjórnmálamenn eru þjónar. Aðferðin er að almenningur í landinu velur fulltrúa sína en það eru ekki stjórnmálaöflin sem eiga að velja sér Ísland.
Í guðspjallstexta þessa 4. sunnudags eftir páska er speki og hafdjúp visku sem hentar á tímanum að baki kosningum. Og hentar reyndar alltaf því boðskapurinn er: Elskið hvert annað. Niðurstaða, erindi og boðskapur kirkjunnar á þessum degi er elska, umhyggja og þjónusta. Og Jesús lagði meira segja svo mikla áherslu á ástina að hann minnti á hina algeru þjónustu sína. Hann væri tilbúinn að fórna sér, öllu, – líka lífinu. Lífið sjálft er hið mesta dýrmæti og þegar fólk er tilbúið að fórna lífinu verður ekki sterkar elskað.
Elska og þjónusta
Skiptir afstaða fólks í þjónustustörfum máli? Fólk getur gegnt opinberum störfum og lokið ýmsum verkum þó það hafi í sér litla umhyggju og sé jafnvel í nöp við þá sem það starfar fyrir. Fólk getur líka misskilið hlutverk sitt eða reynt að umbreyta því í annað en það er.
Stjórnmálastarf er þjónustustarf en ekki starf yfirráða. Það er starf í þágu samfélags og réttlætis þess. Embættisstörf eru störf í þágu annarra en ekki störf sem veita heimild til að stjórna stjórnunar vegna. Markmið ráðuneyta og opinberra stofnana er ekki að stýra málum eða til að veita embættismönnum möguleika til að láta ljós, snilli, og visku sína skína sem skærast. Hlutverk hins opinbera er stuðla að réttlæti, fara að lögum og hlýta vilja almennings í landinu og ganga erinda hans. Og það er ekki aðeins í skotæfingum ungsveina sem marks er misst. Svo er einnig í pólitík, í störfum hins opinbera, já hvarvetna þar sem fólk er – að skotið er fram hjá marki.
Því er ábending Jesú svo mikilvæg – boðið um elsku. Þjónustan verður ekki alger nema elskan stýri og móti. Elskan, kærleikurinn, þjónustuviljinn gerir kraftaverk í þjónustustarfi. Í nýjum stjórnarsáttmála ætti að vera elskuákvæði. Ráðherrar eiga að elska fólk í landinu en líta ekki á það sem stjórnviðfang. Stjórnvöld eiga að beita sér fyrir að samfélagi séð þjónað með kærleika og réttlæti að leiðarljósi. Ég óska eftir að næsta ríkisstjórn verði elskuleg stjórn – ástarstjórnin 2013-17.
Ungt fólk gekk fyrir altarið á fimmtudag og sagði já og svo kysstust þau hjartanlega. Þau eiga ástina í hjarta og sambandið blómstrar. Sara Karítas var borin að skírnarlauginni áðan og Guð segir sitt stjóra elskujá. Hún er elskuð og velkomin. Og það skiptir máli hvernig líf þessa fólks er og hverngi það lifir og fer með líf sitt.
Skotmennskan
Þegar ég fór að aðstoða skotmennina ungu og skoða bogfimi þeirra kom í ljós að þeir vildu vel, reyndu að skjóta vel. En þeir kunnu ekki bogfimi. Þeir gerðu mistök og uppgötvuðu að þeir gætu lært af öðrum sér til eflingar. Drengirnir verða kannski ekki jafnokar Kyoto-bogmanna, meistara bogfiminnar. En mér er í mun að mínir karlar læri að skjóta eins vel og þeim er fært, læri að samstilla hug og hönd, læri siðfræði bogmennskunnar og þar með gæti að því að meiða aldrei og særa aðra með ógætilegum skotum. Bogmennskan er ögunarmál. Svo er einnig um pólitíkina og samfélagsmál. Það verður ekki sátt í landinu ef stjórnvöld starfa ekki í anda umhyggju og réttlætis. Stjórnvöld eiga að hitta í rétt mark. Ef ekki – fer illa, eins og dæmin sanna í pólitík og samfélagsrekstri áratuganna.
Missa marks eða hitta
Gríska orðið að syndga, drýgja synd, er hamartía, άμαρτία. Það orð kemur upprunalega úr máli íþróttanna en rataði í heimspekirit t.d. Aristótelesar og einnig í Nýja testamentið. Hamartía merkir að skjóta fram hjá. Að syndga er að hitta ekki og vera misheppnaður. Þegar menn gera mistök í lífinu brenna menn af. Í einkalífinu, í vinnu og í samfélagi klúðrum við stundum málum og skorum ekki. Þá daprast lífslán og lífsgæði skerðast. Í pólitík er hægt að skjóta illa fram hjá, þá verður óréttlæti og hrun. Í stjórnsýslu er hægt að skjóta fram hjá þegar þjónustan verður ekki í samræmi við lög og réttlæti og tapar ástinni. Í einkalífinu getur þú syndgað þegar þú bregst þér eða öðrum, gerir rangt eða aðhefst ekki þegar þér er skylt. Í huganum missir þú marks, syndgar, þegar þér tekur rangar ákvarðanir.
Kosningar veita tilefni til ígrundunar um þjóðarkúltur og lífshætti. Þegar menn hitta ekki í afstöðu og samskiptum við aðra menn fer illa. Það er hamartía, skortur á fagmennsku og klúður. Verst er þegar menn halda fram hjá sjálfum sér og tapa þar með tengslum við Guð og lífið.
Í lífi og samfélagi gerum við oft mistök, tökum rangar ákvarðanir og pönkumst í röngum málum. Við gerum tilraunir sem mistakast og skjótum jafnvel langt frá markinu. Hvað er til ráða: Elskið, elskið, elskið. Þar er hin sanna pólitík, sanna bogmennska, samfélagssalvi og til blessunar. Ástin lifi – því hún er frá Guði. Skot og mark.
Amen
28. apríl, 2013 – 4. sunnudagur eftir páska.
Fjórði sunnudagur eftir páska (Cantate)
Textaröð: B
Lexía: 5Mós 1.29-33
Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.
Pistill: 1Jóh 4.10-16
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
Guðspjall: Jóh 15.12-17
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.
EXIT
Við útgang þessar kirkju er grænt flóttaleiðarmerki. Á því er mannvera á hlaupum – þar er líka ör fyrir stefnu og ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru í í flugvélum, skipum og öllum opinberum stofnunum. Þau eru græn á Íslandi og í fjölmörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. EXIT stendur á mörgum þeirra. Þessum stefnuvitum er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Exitmerkin eru vegvísar. Það er við hæfi að íhuga exit, útleið á gleðidögum eftir páska.
Skottlok
Ég var sjö ára gamall og var að leik með nokkrum börnum á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna og við létum tilleiðast. Spennandi ævintýraleiðangur hafinn. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og sögðu mér að ég ætti að klifra upp í skottið – sem ég gerði. Þá skelltu þeir aftur skottlokinu. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út.“ En strákarnir hlógu og svo heyrði ég að þeir fóru, skelltu bískúrshúrðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran, áður hafði ég verið úti, undir berum himni frelsis og gleði. Þarna var ég strand í myrkrinu og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki var í myrkrinu, engin leið og ógerlegt að opna læsinguna á skottlokinu og ekki tókst að spyrna því upp. Þunga þanka setti að mér, dauðahræðslu. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt. Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina, sem ég gerði reyndar.
Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom strákur sem opnaði skottið skömmustulegur og hljóp svo í burtu. Ég brölti úr fangelsinu og út í frelsið. Og mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamlegt og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun.
Innlokun
Mörg ykkar hafið upplifað eitthvað hliðstætt og þekkið hve skelfing innlokunar getur orðið mikil. Sonur minn, sjö ára, læstist inni í ljósritunarherbergi kirkjunnar í fyrra, skreið út um glugga og bjargaði sér. Hann varð hræddur en svo var hann svo óheppinn að læsast inni á klósetti í skólanum nokkrum dögum síðar. Síðan hefur hann verið smeykur við lása, lokur og flóttaleiðalaus rými.
Innilokun er óþægileg, getur verið hræðileg og valdið fólki djúptækum sálarskaða. Amerískur prédikari spurði einu sinni: „Hvað er það hræðilegasta við helvíti?“ Og svo þagði hann stundarkorn en svaraði sjálfum sér: „Þar er engin flóttaleið, engin útleið, ekkert exit.“ Já, það er hnyttin lýsing á hinu djöfullega – að það sé lokaður veruleiki (ég minni á leikrit Sartre um það stef). Innlokun er andstæða lífsins.
Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni – en hann var ekki einn. Hann var fulltrúi allra manna. Hann var hinn annar Adam. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Það er víddarhugsun trúartúlkunarinnar.
Hvað um þínar lokur?
Og nú máttu gjarnan huga að þínu lífi. Hvað hefur dregið þig niður og orðið þér til tjóns? Hver eru óttaefni þín, efasemdir? Hvað hræðistu mest og hvað fyllir þig vanmætti eða vonleysi? Það getur verið vinnuharka líka eða ástarsorg, ofbeldi eða dauð hringlandi daganna. Þetta eru þínar grafir.
Stundum líður fólki eins og í þeim séu engar flóttaleiðir, engin útleið, – öll sund lokuð og stór skriða fyrir hellismunnanum. Myrkrið sest að í sál og lífi og lífið byrjar að veiklast og fjara út.
Opnist þú
En páskar eru nýtt upphaf. Undrið varð, hellisloku var velt frá, loftið streymdi inn, ljósið líka. Það sem var lífleysa varð fæðingarstaður lífsins. Það sem var án útleiðar var allt í einu komið í tengsl og samband. Jesús Kristur braut leið úr lífleysu og opnaði öllum leið úr hafti hellisins. Það er víddarhugsun trúarinnar – allt er opnað.
Grænu flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð – þegar áföll verða og ógnir dynja yfir. Það á að vera hægt að fylgja þeim og finna leið út úr ógninni. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg?
Kirkjan og trúin benda á Jesú Krist sem veginn út úr vanda. Hann er leið möguleikanna. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn, ekkert vinnupuð er honum framandi og ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er þér við hlið í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar, í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi þér þegar þú dettur, tekur á móti þér þegar þú hrasar og lyftir þér upp í birtuna þegar þig vantar mátt.
Vegvísir til lífs
Og það er eiginlega krossinn sem er græna merki lífsins. Leið krossins er ekki aðeins leið dauðans og þjáningar heldur leið til lífs. Jesús Kristur var í lokaðri gröf og myrkri dauðans en sprengdi sér leið út og til birtunnar. Hann hefur opnað leið og dyr. Krossinn er leið lífsins. Í þessari kirkju er græna flóttamerkið öðrum megin og krossinn á móti. Bæði merkin mikilvæg og við hæfi.
Jesús Kristur opnar og vísar veg og er fyrirmynd um hvernig við getum lifað í hans anda og með hann sem fyrirmynd. Við megum vera öðrum förunautar frá vonleysi til vonar, frá myrkri til ljóss, frá sorg til lífsgleði. Hlutverk okkar er að standa með fólki og lífi, staðið með þeim sem standa tæpt, varið þau sem órétti eru beitt og gengið erindi verndar náttúru og góðra samfélagshátta.
Grænu merkin í opinberu rými eru stefnuvitar fyrir fólk í hættu og út úr vanda þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Krossinn bendir á leið þótt allt sé í rúst. Þegar þér líður illa og að þér sé þrengt er þó von því Jesús sprengdi klungur dauðans, leysti fjötra og opnaði leið. Leið lífsins er betri en dauðans. Þá er hægt að syngja með fullri einurð og djúpri merkingu: Ég á líf.
Nú eru gleðidagar, í guðsríkinu er grillað á strönd vatnsins. Og meistarinn er hér, við erum laus úr skottinu, allar heftandi lífslokur mega falla. Nú eru nýir möguleikar, gleðidagar.
Amen.
Hugvekja í Neskirkju, 1. sunnudag eftir páska, 7. apríl, 2013.