Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Er Guð að leika sér að veröldinni?

augaHaustfasta er að hefjast í Neskirkju. Annað kvöld byrjar fjörutíu manna hópur föstu og mun breyta lífsrútínunni í tíu daga. Þeirra bíður merkileg vegferð, sem mun hafa áhrif á innra líf þessa fólks ekki síður en maga og húð. Þau axla ábyrgð á sjálfum sér, borða grænmeti og ávexti, hreyfa sig, neyta áfengis áfengis né drekka kaffi og njóta lífsins. Svo setur fólk sér markmið og býr til venjur sem má síðan nota áfram. Þátttakendur láta ekki aðra skilgreina líf sitt, hamingju, mat, drykk og verk, heldur axla ábyrgð á eigin velferð, rækta fólkið sitt og hið góða líf. Og þessi haustfasta Neskirkju er í samræmi við svonefndan meistaramánuð sem líka er hafinn og miðar að hollustu. Við erum kölluð til að vera meistarar í eigin lífi.

Já, það er hollt fyrir okkur að fara yfir forgangsmálin, endurraða og jafnvel endurræsa. Hvernig er með ástamálin þín og ástvini? Hefur þú tíma fyrir þau? Hvernig gengur þér að rækta sambandið við þann sem alltaf elskar þig – Guð? Svo er það líðan í vinnunni. Þarf eitthvað að gera í þeim málum? Hvernig er með heilsuræktina? Hver ber ábyrgð á næringunni þinni, fæðunni? Þú mátt gjarnan axla ábyrgð á þér og því sem til þíns friðar heyrir.

En svo eru það stærstu málin. Hver ber ábyrgð á þeim og heiminum? Hverjum er það að kenna þegar flóðbylgjur bana þúsundum? Er Guði að kenna þegar snjóflóð falla á bæ og margir deyja? Hver ber ábyrgð á blóðbaðinu í Sýrlandi, dauða sjö þúsund barna og hundrað þúsund almennra borgara? Er Guð kannski líka dólgur?

Fyrr í haust sat ég með fermingarungmennum hér í Neskirkju og ræddi við þau um ábyrgð manna og eðli Guðs. Skoðanir þeirra eru um margt ólíkar hugmyndum foreldra þeirra, hvað þá hugmyndum afa og ömmu. Unglingarnir í Vesturbænum hafa heilnæman skilning á mörkum ábyrgðar og þau kenna ekki Guði lengur um sjúkdóma, slys, hamfarir og hrylling. En hvaða hlutverki gegnir Guð þá?

Guðsafstaða á Íslandi er að breytast, hvernig fólk hugsar um Guð og áhrif Guðs og tengsl við heiminn. Eldri kynslóð Íslendinga er líklegri til að trúa, að almætti Guðs merki að ekkert verði án þess að Guð ákveði og framkvæmi. En yngri guðstrúarmenn hafa aðrar hugmyndir. Hvað gerir Guð og hvað ekki?

Dramatexti


Guðspjallstexti dagsins er um ábyrgð en líka um óvænta útkomu. Hann er dramatískur, nánast eins og plot eða grunngerð kvikmyndar. Þarna eru nægilega margar persónur til að mynda fléttu; blindur maður og svo hópur, sem yfirheyrir meistarann frá Nasaret. Þeir vilja fá hann til benda á sökudólginn, sem hafi valdið blindu mannsins sem hafði ekkert séð frá fæðingu.

Það var erfitt að stinga upp í Jesú en nú gerði hann hlé á orðum sínum og tók til gerða sinna. Og þá var útkoman yfirleitt önnur en fólk átti von á. Jesús var ekki handalaus orðabelgur. Orð og atferli fóru saman í lífi hans. Textinn lýsir drullumallaranum Jesú, sem bleytti leir með munnvatni og klíndi svo í hamin augu mannsins. Svo fór hinn blindi til að þvo sér – og þetta er allt eins og í góðu handriti.

Vantrúa vildu ekki trúa að blindur gæti séð – og Jesús notaði tækifærið til að lýsa yfir að hann væri sjálfur heimsljósið – sá sem skilur á milli lífs og dauða, sjónar og blindu. Fléttan er skýr varðandi tilgang mannlífs og ferla heims. Að Jesús laut að leir jarðar vísar til sköpunar varaldar. Í gjörningnum fólst að máttur Jesú er guðsmáttur sköpunar heimsins. Orð hans og verk hafa áhrif – til hvers? Til góðs.

Hver veldur?


En slysin, áföll og hamfarir? Hver ber ábyrgð á þeim? Margir samtímamanna Jesú álitu að ef einhver væri fatlaður, ætti í erfiðleikum eða byggi við fátækt mætti sjá í því refsingu Guðs vegna einhvers brots.

Viðræðufélagar Jesú notuðu dæmi af hinum blinda til að hanka Jesú: „Hver veldur blindu mannsins?“ Þeir gera ráð fyrir aðeins tveimur kostum. Að maðurinn hafi sjálfur gert eitthvað rangt og því orðið blindur. Eða að foreldrar hans væru sek í einhverju og því hafi refsingin komið niður á afkvæmi þeirra.

En Jesús neitar svo lokuðu orsakakerfi og einföldu guðsstraffi – tilveran sé flóknari og Guðstengslin djúptækari og merkilegri en svo. Guð hegðar sér ekki eins og handrukkari. Og Guð er ekki heldur eins og meðvirkur pabbi veifandi vísakorti til að redda unglingi úr klúðri.

Jesús einbeitti sér ávallt að því að hjálpa mönnum að endurræsa, öðlast betri tengsl við Guð og menn. Ég held, að við þurfum að henda burtu fordómum okkar og vitja þessar Jesúspeki. Það gerir unga fólkið í íslensku samfélagi – snýr frá úreltri trúarkenningu og túlkar vel og skynsamlega. Og þau miðla okkur mikilvægum skilningi á tengslum Guðs og manna, skapara og heims.

Vísindin og trúarskýringar


Hvernig eigum við að skýra böl og áföll? Jú, slys verða og mörg hafa af slysni valdið blindu – sinni eða annarra – eða af vangá öðrum örkumlun. Við erum ábyrg og gerðir okkar hafa afleiðingar. Við þekkjum líka flest harmsögur um gáleysi sem valdið hefur þjáningu og slysum. En það er ekki það sem Jesús vildi benda á í texta dagsins, heldur að Guð sprengir eða opnar kerfi orsaka og afleiðinga. Guð er ekki leppur í ferli og við eigum ekki að nota Guð sem vísindalega skýringu. Það eru aðeins bókstafstrúarmenn af forvísindalegu tagi sem einfalda svo barnalega. Og það er í raun guðlast að smætta Guð. Það eru hættulegir menn sem nota Guð til að lemja fólk og kremja og slíkir menn eru ekki á Guðs vegum.

Nei, Guð setur ekki fingur á hengjur svo snjóflóð æði af stað og valda dauða fjölda fólks. Guð pikkar ekki í frumur í fólki svo krabbamein myndast. Það er ekki Guð, sem sendir engil á vöggudeildina til að taka nýfædd og ómálga kornabörn.

Hvað þá? Ef Guð veldur ekki, hver eru þá tengsl Guðs við veröldina? Við getum talað um þau með a.m.k þrenns konar hætti.

Alveldið


Í fyrsta lagi er það alvaldskenningin, sem gerir ráð fyrir, að Guð sé orsök eða valdur alls, góðs og ills. Þessi kenning er raunar óhugnanleg og gengur sem betur fer ekki upp vegna þess að þar með er frelsi gert útlægt og tilveran – og menn þar með – verða leiksoppar einhverra geðþóttaduttlunga guðanna. Slík kenning er ekki kristindómur. Guð er ekki í rússneskri rúllettu með fólk og líf – leikur sér ekki að veröldinni.

Hönnuðurinn


Í annan stað er klukkusmiðskenningin um, að Guð hafi skapað heiminn en síðan dregið sig í hlé, sett úrverkið saman, skellt í það rafhlöðu en snúið sér svo að öðru. Þetta er hönnunarútgáfa guðsmyndarinnar. Hún er góð svo langt sem hún nær en gleymir alveg umhyggju Guðs og ástríki.

Frelsistengsl

Þriðja kenningin er frelsiskenningin um að Guð hafi vakandi áhuga á veröldinni, hafi skapað mönnum frelsi og gefið þeim vilja. Þessi Guð hafi alls ekki dregið sig í hlé, en vilji heldur ekki taka af mönnum sjálfræði.

Ég aðhyllist þessa síðustu útgáfu því hún rímar við myndina af Jesú guðspjallanna, er í samræmi við elsku hans og virðingu fyrir mönnum og lífi. Jesús var meistari í að hvetja menn til að losna við það neikvæða í lífinu, lifa í frelsi og gleði.

Mín skoðun er, að Guð valdi ekki hamförum heims en Guð sé þó nærri öllum þeim sem lifa góða daga en líka þeim sem líða og syrgja. Guð skapar forsendur gæða og reynir að hafa áhrif til góðs, ekki með því að grípa inn í þegar illa stefnir, heldur með því að leggja til góðar leiðir, gefa samhengi og benda til vegar.

Meistarinn Jesús biður um að menn hætti að láta fortíð og nútíð læsa sig inni. Hann kallar fólk úr fjötrum og til framtíðar. Hvað heftir þig? Úr hverju þarftu að losna? Hvað dreymir þig um að þú megir reyna, upplifa, verða og geta?

Erindi Jesú býr til nýjan heim fyrir þig. Þú þarft ekki að vera föst og fastur. Þú mátt, getur og nýtur styrks.

Andstæðurnar


Við, menn, spyrjum um orsakir, en Jesús um ávöxt. Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka – Jesús opnar. Menn læsast – Jesús leysir. Menn blindast en Jesús opnar lífssýn. Menn lokast í viðjum fortíðar og nútíðar en Jesús kallar úr framtíð. „Losaðu þig, slepptu, opnaðu, þorðu að vera, leyfðu þér að verða.“ Ábyrgðin er skýr en útkoman óvænt þegar Guð fær að elska.

Guð vill ekki vera brúðuleikstjóri heimsins, heldur vera vinur þinn og ástmögur veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur vill vera þér andlegt fang til hjálpar. Guð gefur þér frelsi hins elskandi vinar og skapar þér vonarveröld til framtíðar.

Hver er blinda þín? Leirkaka Jesú í nútíma megnar að opna lífið, losa höftin. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Hvernig viltu nota þennan mánuð til að vinna með stóru málin og dýptir þínar. Meistarinn kallar þig til meistara.

Amen

Upptaka RÚV á messunni í Neskirkju er að baki þessari vefslóð: http://www.ruv.is/sarpurinn/gudsthjonusta-i-neskirkju/06102013-0

B-röð 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Lexían; Sl.30.1-6


Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér
og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn,
ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju,
lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans,
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur,
en gleðisöngur að morgni.

Pistillinn: Fil 4.8-13


Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.

Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það. Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Guðspjallið: Jh 9.1-11


Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.

Mannsins vegna…

photo

Hljóðskrá að baki þessari smellu.

Fyrst er það upphafsspurning? Hver ykkar sem sitjið í kirkju í dag teljið að þið séuð alfrjáls í öllum efnum? Hver ykkar eru bundin af einhverju, þrælar einhvers, undir ofurvaldi einhvers? Leyfðu spurningunni um frelsi eða helsi að hvíla í hugskotinu – eða bak við betra eyrað í einhverjar mínútur.

Frelsisdrama

Á þriðjudaginn sátum við þrjú saman á Torginu í safnaðarheimilinu. Ég var farinn að huga að prédikunartexta dagsins og hugsa um hvað hefði forgang í lífi okkar. Í guðspjallinu minnir meistarinn á að hvíldardagurinn sé fyrir manninn en ekki öfugt. Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna. Við spyrjum um hvort sé á undan hænan eða eggið. Hvað er fyrst – hvað er mikilvægast og hvað setjum við í efsta sæti, í forgang?

Guðspjöllin segja frá ýmsum gerningum og andófi Jesú gegn þrældómi samfélags síns og presta vegna öfgafullrar helgidagalöggjafar. Jesú líkaði ekki og barðist gegn að settar væru óþarfa skorður um líf fólks sem ekki þjónuðu hamingju og hagsmunum þess. Hvort á manneskjan að þjóna formi eða formið að þjóna mönnum? Erum við þrælar einhvers í stað þess að njóta lífsins? Og enn og aftur má spyrja: Ertu frjáls eða þræll? Eða kannski frjáls í sumu og hamin í öðru? Jesús stóð alltaf með frelsinu. Hann var ekki aðeins frelsispostuli sem breytti menningarsögunni. Hann var og er frelsisguð sem gefur og vill að veröldin njóti. Hið kristna drama er frelsisdrama.

Ryðja burt hindrunum

Þegar við ræddum frelsi og helsi á Torginu komu tvær ungar konur til okkar. Þær höfðu fengið sér súpu og við heyrðum að það var gaman hjá þeim – þær hlógu svo hjartanlega. Mér varð að orði að það væri ánægjulegt að þær fögnuðu svona vel í kirkjunni. Þær tóku athugasemdum vel og sögðu að lífið væri svo skemmtilegt og engin ástæða til annars en að gleðjast. Önnur þeirra bætti við að það væri svo mikilvægt að ryðja því úr vegi því sem eyðileggur gleði í lífinu. Svo kom í ljós að þær höfðu verið að tala á líkum nótum og við sessunautar mínir höfðu verið að ræða við okkar borð. Lífið er dásamlegt, skemmtilegt og má vera það. En hvað hindrar, hvað eyðileggur lífsgleðina og veldur okkur vandkvæðum og blettar hamingjuna? Þetta var það sem Jesús glímdi við á sínum tíma. Þetta er verkefni allra kynslóða, allra manna – að greina ógnir frelsis og velja í frelsi það sem eflir og gleður. Erindi Jesú og líf hans var fólgið í að leysa fjötra, ryðja burt hindrunum, opna líf fólks til lífshamingju. Allt sem deyfir lífsgæðin þarf að hverfa.

Og Jesús sagði: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.“

Ertu frjáls? Þegar ég las lexíu, pistil og guðspjall þessa sunnudags fannst mér þeir leggja áherslu á leiðina frá hinu vonda til hins góða, frá helsi og til frelsis.

Lífsgæðalanghlaupið

Þrældómur fólks, menningar og þjóða getur verið með mismunandi móti. Eitthvað í menningu og samfélagsskipan getur valdið mismunun, kúgun, spillingu og mengun. Það getur líka verið eitthvað innra með okkur. Við getum verið matarfíklar, hömluð af áfengissókn eða lyfjasókn. Helsið getur verið sjálfsdýrkun og einhverjar sálarbeyglur. Í okkur getur búið mein – andlegt eða líkamlegt – sem við getum ekki eða höfum ekki náð að vinna með og losna við. Svo er hægt að týnast í fangelsi hluta og eigna. Sumir detta í lífsgæðalanghlaupinu. Aðrir eru þrælar ásýndardýrkunar og gera allt til að koma sér upp klisjumynd hins flekklausa sýndarveruleika. Þessi atriði – og önnur – geta orðið okkur vont yfirvald, ok sem Jesús talaði um. Þetta geta verið okkar “hvíldardagar” sem gefa enga hvíld, enga lífshamingju. En þessir persónulegu þrælapískarar eru ekki náttúrulögmál sem við þurfum að búa við og lúta. Berð þú ábyrgð á eigin lífi eða fær einhver annar eða annað að stjórna þér? Ertu frjáls?

Endurnýjun

Í tvær vikur hef ég tekið þátt í námskeiði sem hefur haft mikil áhrif á mig. Ég hef fastað. Fyrir hálfum mánuði kom hópur saman í heimahúsi á Tómasarhaga til að fræðast um mat og áhrif á líkamann og síðan hófst fastan. Þetta er ekki strangur kúr til að megrast heldur til að hreinsa og endurnýja líkamann. Maturinn er góður og engin er svangur. Við borðum ríkulega af grænmeti og ávöxtum en látum kjöt, fisk, kaffi, sykur og hveiti alveg vera.

Margt kom mér á óvart á þessari föstu. Ég hélt ég ætti erfitt með að láta kaffið vera og hina fæðuflokkana líka. En svo var ekki. Mér kom líka á óvart hve líkaminn brást vel við, að orkubúskapurinn breyttist og krafturinn varð meiri en áður. Svo breyttist ég hið innra líka. Ég notaði tækifærið til að vinna með mitt innra líf, líka hið tilfinningalega, vinnulega og félagslega. Og ýmsir fjötrar féllu.

Tveir flokkar fæðu – frumfæði og líkamsfæði

Föstustjórinn okkar, Margrét Leifsdóttir, hélt vekjandi íhuganir um samspil fæðu og annarra þátta lífsins og minnti á að líkamsfæðan er aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem eru okkur nauðsynjamál. Hún talaði um primary food og secondary food, grunnfæði og líkamsfæði. Hver er grunnfæða, frumfæðan? Ekki fiskur eða kjöt heldur aðalmál lífshamingjunnar: Í fyrsta lagi tengsl við fólkið okkar og ástvini. Í öðru lagi hreyfing – við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga. Svo er þriðji þátturinn vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn – og að mínu viti sá mikilvægasti – er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars. Frumfæða mennskunnar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt – og líkamsfæðan er svo hin fæðuvíddin. Hana þarf að vanda jafnvel og frumfæðuna.

Helsi eða frelsi

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? Eða vinnulífið? Hvernig er með fæðumálin þín – er kannski hægt að bæta þann þátt? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju. Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum? Form eða inntak, helsi eða frelsi. Hefur einhver lagt á þig ok?

Þrældómur er ekki lögmál. Þú þarft ekki að fylgja forskriftum annarra, hefðar eða kerfa. Þú þarft ekki að láta auglýsendur, framleiðendur, stórfyritæki eða almenningsálit stjórna þér. Hver stjórnar þér? Ertu við stjórnvöl í þínu eigin lífi eða ertu háður eða háð og undir ofurstjórn einhvers? Þú ert valdur og völd að hamingju þinni. Grunnfæða og líkamsfæða eru nærri en þú mátt velja. Og svo er Guð nær en hugur þinn, reiðubúinn að taka þátt í samtali, stuðningi og samvistum – gleði þinni. Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Þú getur rutt úr vegi hindrunum og verið frjáls af því Guð er máttur frelsis. Þú getur af því þér er gefið allt sem þú þarft til þess lífs. Mannssonurinn er herra hvíldardagsins, frumfæðu, líkamsfæðu – alls sem er.

Amen

Prédikun í Neskirkju 22. september 2013, 17. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B-textaröð.

Lexían; Jes. 1. 16-17

Þvoið yður, hreinsið yður.

Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum.

Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!

Leitið þess, sem rétt er.
Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður.
Rekið réttar hins munaðarlausa.
Verjið málefni ekkjunnar. 

Pistillinn: Gal. 5. 1-6

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Guðspjallið: Mark. 2. 14-28

Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?

Jesús svaraði þeim: Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.

Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.

Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?

Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.

Núllstilla og endurræsa

Marta og MaríaSjónvarpstæki og tölvur á mínu heimili eru tengdar við háhraðanet í jörðu og tækin háð því neti. Einstaka sinnum kemur fyrir að sjónvörp ná ekki neinu merki og skjáirnir eru dauðir og tölvurnar virka ekki. Þegar svo varð á mínu heimili í fyrsta sinn var ljóst að eitthvað var að. Ég hringdi í fyrirtækið sem ég hafði keypt þjónustu hjá og leitaði ráða. Svarið var einfalt: „Prufaðu að slökkva á græjunni Lesa áfram Núllstilla og endurræsa