Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Guð hvað?

IMG_6643Ég er búinn að bjóða fólkinu mínu, konu minni, börnum og tengdasyni til Ísraels á næsta ári. Við förum til Betlehem, Nasaret, að Genesaretvatni, til Masada og einnig til Jeríkó. Við munum skoða liljur vallarins sem verða væntanlega í öllum regnbogans litum í Galíleu og upp á Golanhæðum. Við munum busla í Dauðahafinu og ganga píslarveg – via Dolorosa – Jesú í Jerúsalem.  Lesa áfram Guð hvað?

Móðir, faðir, vinur – Guð

blessi þig bróðrVertu Guð faðir, faðir minn / í Frelsarans Jesú nafni / Hönd þín leiði mig út og inn, / svo allri synd ég hafni.

Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað þýðir það og hvernig getur slíkt orðið? Jesús tala um föðurtengsl í guðspjalli dagsins. Hallgrímur Pétursson ljóðar svo fallega bænaversið, sem við biðjum gjarnan í messum, einnig í heimahúsum, með börnum og fullorðnum, gamalmennum og deyjandi. Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað merkir það?

Hvaða minningar áttu um mömmu og pabba? Staldraðu við og hugsaðu til baka. Hvaða mynd kemur strax í hugann af móður þinni? Hver er mynd þín af honum pabba þínum? Hugsaðu aftur um viðbrögð þín núna. Hvað tilfinningar vakna? Eru það hlýjar elskutilfinningar eða blendnar tilfinningar, jafnvel kuldi í garð annars þeirra eða beggja? Er einhver biturleiki eða sorg í þeirra garð, kannski líka hræðsla? Eða vanknar innan í þér sumarbjört gleðitilfinning, heit gleði og þakklæti?

Afstaða til foreldra er margþátta flétta af ýmis konar og jafnvel ólíkum tilfinningum mennskunnar. Og foreldrafstaða hefur mjög mikil áhrif á afstöðu fólks til Guðs. Ef þú átt vonda reynslu af öðru foreldrinu áttu vísast í erfiðleikum með Guðsímynd þína og tengslin við Guð. Það er þekkt að ef foreldrar hafa beitt börn og maka ofbeldi þá eiga börn ofbeldisfólksins í erfiðleikum með að hugsa um og ímynda sér Guð sem föður eða móður. Mæður rétt eins og feður geta lemstrað og marið tengsl. Þegar svo er komið er nauðsynlegt að nýta sér elskuímyndir einhverra annarra til að tákna hið guðlega í lífinu – t.d. ömmu, afa, fóstra eða stjúpu.

Íslenskar fjölskyldur eru ekki einfalt kjarnakerfi heldur oft raðfjölskyldur og þar koma við sögu svo margir, sum sem efla vöxt og þroska, en önnur sem hindra eða særa. Því er mikilvægt að við stöldrum við til að skoða hver við erum og undir hvaða áhrifum.

Pabbi
Hvað er minn faðir? Hver er mín móðir? Eiginlega eru þær spurningarnar um hvað ég er – hvað þú ert.

Í guðspjalli dagsins talar Jesús um samskipti sín og föðurins himneska. Við fáum ofurlitla innsýn í hvernig hann upplifir Guð föður – og hvernig hann er eða bregst við sem sonur. Allt er mér falið af föður mínum – sem sé þeir deila öllu … enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn. Gagnkvæmnin er bæði alger og eðlileg á milli þeirra.

Þessi tilfærðu orð Jesú standa í samhengi bænahalds. Jesús talaði við Guð og var ekki hljóður eða bíðandi í þeirri samveru. Jesús ræktaði sambandið við þann sem hann þekkti að því einu að vera honum góður og gjöfull faðir. Alla ævi tamdi Jesús opinská tengsl og tal við Guð, talaði frá hjarta til hjarta. Allt sem kom upp í lífsbaráttu Jesú – sem jafnframt var glíma hans við ógnvænlegt hlutverk – bar hann fram fyrir föður sinn, talaði hjartans mál sín. Jesús vissi vel til hvers orð og verk gætu leitt. Hvert orð hans var vegið og gæti leitt til dauða hans sjálfs og þeirra, sem fylgdu honum í fullkomnu trausti. Samtal Jesú var því mjög þrungið.

Jesús ávarpaði föðurinn með heitinu Abba. Það er sama nafnið og börn alls heimsins umla í frumtilraunum til að ávarpa heiminn og þau nánustu heima. Þegar Jesús talar við Guð er hann ekki aðeins að tala við frumkraft himingeimsins eða lífsmátt jarðar, heldur að tala við sinn besta vin sem er stórkoslega góður: Elsku, góði pabbi minn!

Afstaða barnsins
Jesús gerði ekki lítið úr viti, dómgreind og andlegri skerpu þegar hann segir að faðirinn himneski hafi ekki opinberað spekingum og hyggindamönnum viskuna, heldur smælingjum. Það er upplýsandi og hollt að skoða gríska textann að baki guðspjallinu. Það sem þýtt er með smælingjum er sama orðið og notað er um börn. Sem sé Guð kemur til barnanna, til þeirra sem eru minni máttar – til þeirra sem eru tilbúin að opna huga og líf fyrir undri lífsins. Jesús hafði reynsluna af að hyggindamennirnir báru fyrir sig alls konar fyrirvörum og undanslætti. Klókar konur og karlar munu alltaf finna sér undanbrögð og sjálfhverfar leiðir. En Jesús leggur áherslu á að við menn erum manneskjur, að við þörfnumst hlýju, trausts og erum nándarverur. Við erum börn inn í okkur – í því er fegurð okkar fólgin og möguleikar einnig. Við ættum að viðurkenna það eðli okkar og gæta að því að láta ekki klókindi afvegaleiða okkur.

Og svo snýr Jesús sér til allra mannabarna og segir: „Komið til mín, ég mun veita ykkur hvíld.“ Þessu kalli hans hafa menn hlýtt um aldir, fallið í faðm hins góða sonar, hins góða föður, horfið í hinn hlýja fjölskyldufaðm himinsins.

Móðir, faðir, vinur og lífgjafi
Í guðspjalli dagsins er talað um föðursamband Jesú. En Biblían er ekki kynlega einsýn! Mótunarlíf og reynsla fólks er ekki aðeins bundin hinu föðurlega, heldur einnig hinu móðurlega. Á þessum degi þegar kirkjan íhugar frumtengslin og faðerni þar með – er móðerni ennfremur til skoðunar. Lexía dagsins er í spádómsbók Jesaja. Þar eru brjóst til að sjúga og hvíla við í velsæld. Þar er hossað á hnjám og boðið til burðar á mjöðminni. Það er hið kvenlega myndmál sem einnig er notað til að virkja tilfinningar og skilning fólks á guðlegum veruleika. Samhengi fólks í öllum myndum verður til að menn skilji samhengi sitt og tengsl við Guð betur.

Mamma og pabbi
Ég var svo lánsamur að eiga góða foreldra og jákvæð tengsl við þau. Þau höfðu bæði mikil áhrif á mig og lögðu bæði vel til míns þroska og persónumótunar.

Þegar móðir mín var var orðin háöldruð gerðist eitthvað í höfði hennar. Skerpan fór og það sem hún sagði var ruglingslegt. Rannsóknir sýndu að tappi hafði farið í heilann og skammtímaminnið brenglaðist. Það var átakanlegur tími að horfa á bak góðri dómgreind hennar, uppgötva að hún mundi ekki lengur hvað var hvað og hver var hvurs. Ár og áratugir verptust og brengluðust í gríðarlegum tímagraut. Ég sat hjá henni, hlustaði og hugsaði um þessa konu og hvað væri einkenni persónu hennar. Hún var ekki lengur aðeins þessi yndislega mamma, einbeitt í uppeldi, staðföst í lífinu og rismikil í skoðunum. Varnir hennar voru farnar og dómgreindin gölluð en þá fengum við, ástvinir, að sjá betur kjarna hennar. Þegar við misstum hana frá okkur sem persónu, þá sáum við betur persónudýpt hennar. Þegar varnarhættir hennar voru farnir og ættingjarnir komu í heimsókn breiddi hún út faðminn og fagnaði svo innilega að við upplifðum óflekkaða og hreina elsku. Þegar minni og varnir hurfu – hvað var þá eftir? Það var ástin hrein. Þá uppgötvaðist hve ævirækt hennar í samskiptum við Guð skilaði henni ást ellinnar. Bænir hennar um að hún mætti vera Guðs barn var svarað með undursamlegri elsku líka í elli hennar. Þegar sorgin nísti okkur vegna þess að persóna hennar brenglaðist var gott að upplifa að kjarni hennar, innræti hennar var elska – af því að hún ræktaði elskuna alla ævi, kunni að biðja: Vertu Guð faðir, faðir minn…og naut þess síðan sjálf á ævikvöldi.

Guðstengsl þín
Hver er mynd þín af pabba og mömmu? Það eru myndir sem hafa mótast af reynslu þinni af þeim, góðri eða vondri. Ef þú átt bága reynslu af öðru hvoru þeirra muntu draga hana með þér allt lífið og inn í samskipti þín við Guð. Ef þú hefur átt trausta bernsku, traust í foreldrum í hvívetna áttu festu í þér til að ganga inn í Guðssambandið. Ef faðir eða móðir voru fjarlæg þér í bernsku verður Guð þér fjarlægur og erfiður. Ef þú naust elsku getur þú betur skilið elsku himinsins.

Hver er minning þín um tengsl við foreldra? Svarið við þeirri spurningu áttu innan í þér. En lyftu þessum minningum upp, vegna þess að nú er þér boðið til nýrra tengsla, nýrra samskipta. Jesús býður þér að ganga inn í Guðstengsl sín, læra að tala við Guð sem elskuveru, Guð sem föður, Guð sem móður, Guð sem vin. Þú mátt fella klókindi þín og fordóma um Guð, gera upp við reynslu fortíðar og bernsku og ganga algerlega inn í nýtt samband við Guð. Þú mátt vera barn Guðs. Þar er aðeins elska sem stendur þér til boða – en aðeins ef þú vilt.

Lof sé þér sem ert Guð faðir, móðir og elska. Amen.

Neskirkja, 17. nóvember, 2013

Textaröð: B

Lexía: Jes 66.10-13
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Pistill: Opb. 15.2-4

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Guðspjall: Matt. 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Málmhaus

málmhaus„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Amen

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.

Til lífs

Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Minnstu þeirrar kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk, án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja, sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Í því er blessun fólgin í brigðulli gæfu tímans.

Vertu varkár í viðskiptum, því veröldin er full af vélráðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á engi tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það, er tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum, svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjáflsstjórn, en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð, hver sem verk þín hafa verið

eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

(Snörun sáþ á heilræðabálki. Heimildir greinir á um aldur og uppruna)

Er Guð að leika sér að veröldinni?

augaHaustfasta er að hefjast í Neskirkju. Annað kvöld byrjar fjörutíu manna hópur föstu og mun breyta lífsrútínunni í tíu daga. Þeirra bíður merkileg vegferð, sem mun hafa áhrif á innra líf þessa fólks ekki síður en maga og húð. Þau axla ábyrgð á sjálfum sér, borða grænmeti og ávexti, hreyfa sig, neyta áfengis áfengis né drekka kaffi og njóta lífsins. Svo setur fólk sér markmið og býr til venjur sem má síðan nota áfram. Þátttakendur láta ekki aðra skilgreina líf sitt, hamingju, mat, drykk og verk, heldur axla ábyrgð á eigin velferð, rækta fólkið sitt og hið góða líf. Og þessi haustfasta Neskirkju er í samræmi við svonefndan meistaramánuð sem líka er hafinn og miðar að hollustu. Við erum kölluð til að vera meistarar í eigin lífi.

Já, það er hollt fyrir okkur að fara yfir forgangsmálin, endurraða og jafnvel endurræsa. Hvernig er með ástamálin þín og ástvini? Hefur þú tíma fyrir þau? Hvernig gengur þér að rækta sambandið við þann sem alltaf elskar þig – Guð? Svo er það líðan í vinnunni. Þarf eitthvað að gera í þeim málum? Hvernig er með heilsuræktina? Hver ber ábyrgð á næringunni þinni, fæðunni? Þú mátt gjarnan axla ábyrgð á þér og því sem til þíns friðar heyrir.

En svo eru það stærstu málin. Hver ber ábyrgð á þeim og heiminum? Hverjum er það að kenna þegar flóðbylgjur bana þúsundum? Er Guði að kenna þegar snjóflóð falla á bæ og margir deyja? Hver ber ábyrgð á blóðbaðinu í Sýrlandi, dauða sjö þúsund barna og hundrað þúsund almennra borgara? Er Guð kannski líka dólgur?

Fyrr í haust sat ég með fermingarungmennum hér í Neskirkju og ræddi við þau um ábyrgð manna og eðli Guðs. Skoðanir þeirra eru um margt ólíkar hugmyndum foreldra þeirra, hvað þá hugmyndum afa og ömmu. Unglingarnir í Vesturbænum hafa heilnæman skilning á mörkum ábyrgðar og þau kenna ekki Guði lengur um sjúkdóma, slys, hamfarir og hrylling. En hvaða hlutverki gegnir Guð þá?

Guðsafstaða á Íslandi er að breytast, hvernig fólk hugsar um Guð og áhrif Guðs og tengsl við heiminn. Eldri kynslóð Íslendinga er líklegri til að trúa, að almætti Guðs merki að ekkert verði án þess að Guð ákveði og framkvæmi. En yngri guðstrúarmenn hafa aðrar hugmyndir. Hvað gerir Guð og hvað ekki?

Dramatexti


Guðspjallstexti dagsins er um ábyrgð en líka um óvænta útkomu. Hann er dramatískur, nánast eins og plot eða grunngerð kvikmyndar. Þarna eru nægilega margar persónur til að mynda fléttu; blindur maður og svo hópur, sem yfirheyrir meistarann frá Nasaret. Þeir vilja fá hann til benda á sökudólginn, sem hafi valdið blindu mannsins sem hafði ekkert séð frá fæðingu.

Það var erfitt að stinga upp í Jesú en nú gerði hann hlé á orðum sínum og tók til gerða sinna. Og þá var útkoman yfirleitt önnur en fólk átti von á. Jesús var ekki handalaus orðabelgur. Orð og atferli fóru saman í lífi hans. Textinn lýsir drullumallaranum Jesú, sem bleytti leir með munnvatni og klíndi svo í hamin augu mannsins. Svo fór hinn blindi til að þvo sér – og þetta er allt eins og í góðu handriti.

Vantrúa vildu ekki trúa að blindur gæti séð – og Jesús notaði tækifærið til að lýsa yfir að hann væri sjálfur heimsljósið – sá sem skilur á milli lífs og dauða, sjónar og blindu. Fléttan er skýr varðandi tilgang mannlífs og ferla heims. Að Jesús laut að leir jarðar vísar til sköpunar varaldar. Í gjörningnum fólst að máttur Jesú er guðsmáttur sköpunar heimsins. Orð hans og verk hafa áhrif – til hvers? Til góðs.

Hver veldur?


En slysin, áföll og hamfarir? Hver ber ábyrgð á þeim? Margir samtímamanna Jesú álitu að ef einhver væri fatlaður, ætti í erfiðleikum eða byggi við fátækt mætti sjá í því refsingu Guðs vegna einhvers brots.

Viðræðufélagar Jesú notuðu dæmi af hinum blinda til að hanka Jesú: „Hver veldur blindu mannsins?“ Þeir gera ráð fyrir aðeins tveimur kostum. Að maðurinn hafi sjálfur gert eitthvað rangt og því orðið blindur. Eða að foreldrar hans væru sek í einhverju og því hafi refsingin komið niður á afkvæmi þeirra.

En Jesús neitar svo lokuðu orsakakerfi og einföldu guðsstraffi – tilveran sé flóknari og Guðstengslin djúptækari og merkilegri en svo. Guð hegðar sér ekki eins og handrukkari. Og Guð er ekki heldur eins og meðvirkur pabbi veifandi vísakorti til að redda unglingi úr klúðri.

Jesús einbeitti sér ávallt að því að hjálpa mönnum að endurræsa, öðlast betri tengsl við Guð og menn. Ég held, að við þurfum að henda burtu fordómum okkar og vitja þessar Jesúspeki. Það gerir unga fólkið í íslensku samfélagi – snýr frá úreltri trúarkenningu og túlkar vel og skynsamlega. Og þau miðla okkur mikilvægum skilningi á tengslum Guðs og manna, skapara og heims.

Vísindin og trúarskýringar


Hvernig eigum við að skýra böl og áföll? Jú, slys verða og mörg hafa af slysni valdið blindu – sinni eða annarra – eða af vangá öðrum örkumlun. Við erum ábyrg og gerðir okkar hafa afleiðingar. Við þekkjum líka flest harmsögur um gáleysi sem valdið hefur þjáningu og slysum. En það er ekki það sem Jesús vildi benda á í texta dagsins, heldur að Guð sprengir eða opnar kerfi orsaka og afleiðinga. Guð er ekki leppur í ferli og við eigum ekki að nota Guð sem vísindalega skýringu. Það eru aðeins bókstafstrúarmenn af forvísindalegu tagi sem einfalda svo barnalega. Og það er í raun guðlast að smætta Guð. Það eru hættulegir menn sem nota Guð til að lemja fólk og kremja og slíkir menn eru ekki á Guðs vegum.

Nei, Guð setur ekki fingur á hengjur svo snjóflóð æði af stað og valda dauða fjölda fólks. Guð pikkar ekki í frumur í fólki svo krabbamein myndast. Það er ekki Guð, sem sendir engil á vöggudeildina til að taka nýfædd og ómálga kornabörn.

Hvað þá? Ef Guð veldur ekki, hver eru þá tengsl Guðs við veröldina? Við getum talað um þau með a.m.k þrenns konar hætti.

Alveldið


Í fyrsta lagi er það alvaldskenningin, sem gerir ráð fyrir, að Guð sé orsök eða valdur alls, góðs og ills. Þessi kenning er raunar óhugnanleg og gengur sem betur fer ekki upp vegna þess að þar með er frelsi gert útlægt og tilveran – og menn þar með – verða leiksoppar einhverra geðþóttaduttlunga guðanna. Slík kenning er ekki kristindómur. Guð er ekki í rússneskri rúllettu með fólk og líf – leikur sér ekki að veröldinni.

Hönnuðurinn


Í annan stað er klukkusmiðskenningin um, að Guð hafi skapað heiminn en síðan dregið sig í hlé, sett úrverkið saman, skellt í það rafhlöðu en snúið sér svo að öðru. Þetta er hönnunarútgáfa guðsmyndarinnar. Hún er góð svo langt sem hún nær en gleymir alveg umhyggju Guðs og ástríki.

Frelsistengsl

Þriðja kenningin er frelsiskenningin um að Guð hafi vakandi áhuga á veröldinni, hafi skapað mönnum frelsi og gefið þeim vilja. Þessi Guð hafi alls ekki dregið sig í hlé, en vilji heldur ekki taka af mönnum sjálfræði.

Ég aðhyllist þessa síðustu útgáfu því hún rímar við myndina af Jesú guðspjallanna, er í samræmi við elsku hans og virðingu fyrir mönnum og lífi. Jesús var meistari í að hvetja menn til að losna við það neikvæða í lífinu, lifa í frelsi og gleði.

Mín skoðun er, að Guð valdi ekki hamförum heims en Guð sé þó nærri öllum þeim sem lifa góða daga en líka þeim sem líða og syrgja. Guð skapar forsendur gæða og reynir að hafa áhrif til góðs, ekki með því að grípa inn í þegar illa stefnir, heldur með því að leggja til góðar leiðir, gefa samhengi og benda til vegar.

Meistarinn Jesús biður um að menn hætti að láta fortíð og nútíð læsa sig inni. Hann kallar fólk úr fjötrum og til framtíðar. Hvað heftir þig? Úr hverju þarftu að losna? Hvað dreymir þig um að þú megir reyna, upplifa, verða og geta?

Erindi Jesú býr til nýjan heim fyrir þig. Þú þarft ekki að vera föst og fastur. Þú mátt, getur og nýtur styrks.

Andstæðurnar


Við, menn, spyrjum um orsakir, en Jesús um ávöxt. Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka – Jesús opnar. Menn læsast – Jesús leysir. Menn blindast en Jesús opnar lífssýn. Menn lokast í viðjum fortíðar og nútíðar en Jesús kallar úr framtíð. „Losaðu þig, slepptu, opnaðu, þorðu að vera, leyfðu þér að verða.“ Ábyrgðin er skýr en útkoman óvænt þegar Guð fær að elska.

Guð vill ekki vera brúðuleikstjóri heimsins, heldur vera vinur þinn og ástmögur veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur vill vera þér andlegt fang til hjálpar. Guð gefur þér frelsi hins elskandi vinar og skapar þér vonarveröld til framtíðar.

Hver er blinda þín? Leirkaka Jesú í nútíma megnar að opna lífið, losa höftin. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Hvernig viltu nota þennan mánuð til að vinna með stóru málin og dýptir þínar. Meistarinn kallar þig til meistara.

Amen

Upptaka RÚV á messunni í Neskirkju er að baki þessari vefslóð: http://www.ruv.is/sarpurinn/gudsthjonusta-i-neskirkju/06102013-0

B-röð 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Lexían; Sl.30.1-6


Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér
og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn,
ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju,
lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans,
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur,
en gleðisöngur að morgni.

Pistillinn: Fil 4.8-13


Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.

Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það. Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Guðspjallið: Jh 9.1-11


Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.