Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Ég er Guð

storstavalt_logo_NY_130Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur urðum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.

God’s chosen – God’s frozen

Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.

Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.

Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!

Orðin tíu

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.

Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.

Lögin verða til

Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!

Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.

Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.

Íslensk saga og orðin tíu

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?

Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.

Út fyrir endimörk alheimsins

AmeríkukafteinninnÍ dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda. Nú lýkur jólatíð trúartímans – gleðiskeiðinu – og svo hefst brátt níu vikna fastan. Fagnaðartími á enda og föstutími fyrir páska hefst. Það er eins í kirkjuárinu og raunveruleikanum – tími gleði og sorgar faðmast.

Texti dagsins er um reynslu þriggja manna af ótrúlegum viðburði sem þeim var þó bannað að segja frá – fyrr en löngu seinna. Þeir urðu vitni að einhvers konar breytingu? En hvað þýddi sú skekjandi upplifun sem þeir urðu fyrir? Vinir Jesú vissu ekki hvernig þeir ættu að skilja atburðinn og gátu því ekki skýrt hann heldur. Og meistarinn bannaði þeim að tala um reynslu sína. Fólkið sem hitti Jesú velti vöngum yfir hver hann væri og furðureynsla á fjalli jók spurningaflóðið. Var Jesús Kristur kannski ofurhetja?

Ofurhetja og þrá sálardjúpa
Hefur þú einhvern tíma séð ofurhetjukvikmynd? Áttu einhverja DVD-diska með Súperman, Batman eða Spiderman? Talsvert safn er á mínu heimili og í sjónvarpsflakkaranum. Hvað merkja þessar myndir og hvernig eigum við að skýra tilurð þeirra?

Þegar á bjátar í samfélögum fólks þrá menn lausn. Í kreppum vaknar þörf fyrir ofurhetjur. Í menningarefni síðustu áratuga hafa sprottið fram margar ofurhetjur í tímaritum og kvikmyndum. Það er beint samhengi milli kreppu og viðbragða, stríða og andlegrar leitar. Svo var í seinni heimstyrjöldinni og styrjöldum síðustu áratuga. Súperman er ekki alveg nýr – hann er nærri áttræður!

Ímyndunarafl fólks er frjálst og ofurhetjunnar tjá eða túlka þrá að einhverjir leysi vanda fólks og þjóða, einhverjir tryggi öryggi og efli réttinn. Þegar stjórnmálamenn bregðast, fjármálakúnstir takast illa og tæknilausnir reynast fals þarfnast fólk samt lausnar á vandanum. Ofurhetjurnar – held ég – tjá þessar þarfir – eru táknmyndir þeirra.

Það er umhugusunarvert, að draumaverksmiðjurnar í Ameríku hafa framleitt ofurhetjumyndir í sérstaklega stórum skömmtum síðasta áratuginn. Af hverju? Jú, spenna í menningu, stjórnmálum, efnahagsmálum, óreiða í samskiptum þjóða og óljós framtíð gruggar upp í menningu og líka sálarbotnum og tilfinningum fólks. Því megum við gjarnan staldra við og spyrja um hvað hjálpar og hvernig.

Fyrirmyndir og ofurhetjur
Allar kynslóðir leita sér að hetjum. Kraftasæknir hafa alltaf gert sér ímyndir og í öllum menningarsamfélögum og trúarhefðum. Grettir, Gunnar á Hlíðarenda og Jón Páll voru kraftahvatar. En mennskar kvikmyndastjörnur, körfuboltasnillingar, Leo Messi og Ronaldo eru annars eðlis en Súperman. Leikarar og íþróttamenn njóta ekki yfirnáttúrulega krafta þó máttugir séu. Ofurhetjurnar eru ekki venjulegar mennskar verur sem hafa orðið frægar, heldur annarrar gerðar en menn. Í þeim búa ofurmennskir kraftar, sem eru handan þess sem fólk getur vænst í raunheimi. Hvað merkja Ben Ten, Hermione Granger, Catwoman, Harry Potter og fleiri í hinu skrautlega hetjugalleríi sögubóka og kvikmynda?

Foreldrar eru þrábeðin og jafnvel grátbeðin um búninga, Batmanskykkjur, Ninjufötu, Súpermanmerki og Spidermangrímu. Það er beinskeyttur bisniss á bak við þetta allt.

Munur Jesú og ofurhetjunnar
Og þá komum við að fjalli furðunnar, fjalli ummyndunar Jesú. Er einhver munur á ofurhetjunni og Jesú Kristi? Eða er Jesús Kristur kannski ofurhetja? Nei, það er alger munur á Jesú Kristi og ofurhetjum fyrr og síðar.

Fyrsta og mikilvægasta aðgreiningin er, að Jesús var og er raunverulegur maður, sem var til og söguheimildir greina frá. En ofurhetjur hafa aldrei verið til – þær eru tilbúningur.

Í öðru lagi: Jesús lagði ekki áherslu á ofurkrafta sína eða vakti athygli á þeim. Verk hans þjónuðu fólki í raunverulegum aðstæðum og voru ekki unnin á svig við veruleika þess. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega, skilja inntak, en stoppa ekki bara við ásýnd.

Í þriðja lagi er eðli lífs og eðli hins trúarlega. Markmið Jesú var að opna veröld fólks og leyfa því að lifa og skilja líf sitt í stærra samhengi en smáveröld eigin nafla. Hann vildi koma fólki til skynjunar eða skilnings á að Guð væri nærri venjulegu fólki og raunverulegu lífi. Jesús hvatti ekki til heimsflótta, heldur þess að taka þátt í lífinu og njóta þess. Guð vill að við séum samverkamenn hans í því að bæta og fegra heiminn. Við erum ekki kölluð til óra og trúarflótta. Því er trú aldrei tengd ofurhetjum.

Ofurhetjur örva ímyndunarafl og þjóna ævintýraþörf fólks. Og við erum öll börn að við höfum þörf fyrir öryggi, að einhverjir hjálpi okkur þegar við lendum í vanda.

Ofurhetjur eru tákn, tjá djúpsetta þrá, en leysa hana ekki. Jesús, hins vegar, er ekki tákn um þarfir fólks, heldur sýnir hvernig vandinn er leystur og hvað leið er fær. Hann er lausn vandans.
Ofurhetjur koma ekki fyrir í raunveruleikanum, en það gerir Jesús Kristur hins vegar. Veruleiki hans er veruleiki heimsins, fólks – okkar allra.

Ofuhetjurnar tjá óskir dulvitundar, en Jesús er veruleiki lífsins. Hetjurnar eru tákn djúpsins og neyðaróps sálarinnar en Jesús er svar lífsins.

Hetjur hvunndagsins
Þegar sonur minn var fimm ára laumaði hann sér eina nóttina upp í rúm okkar foreldranna. Við vöknuðum þennan morgun við að hann tautaði með sjálfum sér: „Ég vildi að pabbi væri ofurhetja.” Mamma hans, sem er snögg til, svaraði honum að bragði: „Hann er ofurhetja.” Þá hló drengurinn og foreldrar hans síðan með honum og við glaðvöknuðum við hlátrana. Það er skemmtilegt að vakna með hlátrasköllum. Drengurinn skildi hvað mamma hans meinti, náði alveg þessari kúrsleiðréttingu hennar og svaraði brosandi: „Það er alveg rétt, mamma mín.”

Og þar með var búið – með ofurlitlum húmor og sveiflu – að hjálpa honum að setja ofurhetjuna upp á snaga, í samhengi, koma ofurhetjutýpinni fyrir á réttum stað. Pabbar eru auðvitað ekki súperman eða spiderman, en þjóna sínu hlutverki samt í raunheimi myrkfælni, óttaefna, skólanáms, fótbolta, kvikmyndam, glímu við félaga og systkini. Og pabbar eru flestir og oftast mun betri í þeim efnum en nokkrar hetjur í bókum eða á skjánum. En ofurhetjur gegna samt hlutverki að vera sýnileg tákn um þrá og drauma undirmeðvitundar. Jesús gegnir hins vegar öðrum og mikilvægum hlutverkum.

Eitt af mikilvægu lífsverkefnum er að iðka lífsgreindina skarplega, læra eigin hlutverk og hvorki smætta né mikla þau hlutverk, sem maður sjálfur og mismunandi hlutar manns gegna. Allt hefur sinn tíma og hlutverkin eru mörg. Inn í það mál spinnast síðan ævintýri, sjálf, heimili, ástvinir og Guð.

Ummyndun Jesú
Hvað gerum við þá við söguna af ummyndunarfjallinu? Þú þarft ekki að taka söguna bókstaflega, heldur máttu gjarnan taka hana alvarlega. Sagan af ummyndunarfjallinu er n.k. krýningarsaga. Hún á sér bókmenntalegar, pólitískar og trúarbragðafræðilegar hliðstæður í sögum um þegar menn urðu kóngar í hinum forna heimi. Jesús var krýndur og þar með gefið hlutverk. Týpurnar í ummyndunarsögunni eru nokkrar og gegna túlkunarhlutverki og leiðbeina við skilning. Móses er fulltrúi laga, boðorða og upphafs sögu hebrea og gyðinga. Jesús tekur við keflinu af Móse og verður því löggjafi nýs tíma. Svo eru þarna Elía, fulltrúi spádómshefðarinnar, sem tjáir að Guð leiðir fólk og heim áfram. Jesús tekur við því hlutverki líka og er boðberi þess, að Guð muni bæta og lækna.

Lærsveinarnir eru fulltrúar manna á öllum öldum. Ummyndunaratburðurinn felst ekki í að ofurhetja verður til og allur vandi er leystur með einhverju djúpsálarlegu afreki eða ofsalegum sigri á myrkri og vonsku. Ummyndunarfjallið er ekki aðeins tákn um hið einstaka, heldur altæka og venjulega líka.

Ummyndun Jesú og líf okkar
Við erum alltaf á ummyndunarfjallinu – á hverri stund í lífinu, í siðklemmum okkar, í samskiptum okkar við fólk, í vinnunni, í æviverkefninu – að lifa. Við erum raunar alltaf í námunda við þennan Jesú og við getum snúið málinu algerlega við líka: Hann er alltaf hjá okkur – í öllum aðstæðum okkar.

Við höldum áfram alla ævi að vera eins og börn. Við þráum hið góða, óttumst hið versta, upplifum krísur og áföll. Við vonumst líka til á fullorðinsárum og gamals aldri, að ofurhetja taki okkur upp og reddi okkur. En þannig er lífið ekki. Lífið er ekki leið skyndilausna og yfirborðstækni. Ofurhetjurnar tjá djúpsetta þrá í okkur. Guð tekur vissulega eftir þeim tilfinningum en kemur ekki eins og hetja heldur sem barn, vinur, mennsk vera, nágranni og vinnufélagi. Guð kemur í hinu venjulega en síður í hinu ofsalega. Ummyndunarfjall okkar getur verið í hinu sérstaka en þó helst á heimilum okkar, í vinnu og í samskiptum við ástvini okkar og venjulegt fólk. Í því samhengi kemur Jesús ekki með látum, heldur í rauntengslum. Ummyndunarsagan er um að Guð er með fólki á lálendi lífsins, í lautum reynslunnar og á hátindum upplifunnar. Guð er alls staðar þegar menn vilja leyfa hinu guðlega að lifa. Þá verður lífið mennskt og þar með guðlegt.

Ummyndunarsagan er um krýningu og það er merkilegt mál að Guð tjáir mönnum hvers eðlis veröldin er. En það verður enginn krýndur í þínu lífi, nema þú viljir. Þig dreymir ofurhetjur – en hver er hjá þér þegar þú vaknar? Er það ofurhetjan. Nei, það er Guð einn sem er hjá þér – í hversdagsleikanum, í kreppum, en líka á hátíðum – alltaf þegar þú þarft á að halda. Guð einn. Amen.

Hallgrímskirkja, 25. janúar, 2015. Síðasti sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Áhrifasaga Jesú og ofurhetjurnar – mín túlkun: Ég tel að skoða megi alla ofuhetjuhefð í menningu Vesturlanda sem áhrifasögu Jesú. Margt af einkennum og djúpþáttum ofurhetjuhefðarinnar og ofurhetjanna má rekja til Jesúsögunnar. En mér virðist ekki vera hægt að skýra Jesú út frá ofurhetjum heldur aðeins öfugt.

 

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Guðlastarinn Jesús Kristur?

grid-cell-18468-1382382792-14Mér þykir dapurlegt þegar fólk missir stjórn á skapi sínu og hellir úr skálum reiði sinnar, æpir ókvæðisorð til fólks, hvort sem það er innan ramma fjölskyldunnar eða á almannafæri. Mér var í bernsku uppálagt að gæta orða minna og það var í sama anda sem afinn í barnabókinni Salómon svarti sagði við drenginn: „Vandaðu málfar þitt drengur minn.“ 

Á veraldarvefnum bulla margir landsmenn okkar, hella sér yfir aðra og tala niðrandi til fólks. Þar er stór hópur sem talar iðrandi um Guð, hnjóðar í trúarlegt atferli, lastar trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smánar trúarefni með ýmsum hætti. Ef ríkissaksóknari hefði ekki annað þarfara að gera væri hægt að sækja marga til saka. Sem betur fer eltir embættið þó ekki kjánaskap þessa reiða fólks.

Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Sumt af skætingi í garð trúar og trúarefna á sér rætur í slæmum smekk og/eða lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman! Og sumt af þeim aur, sem skvett er í garð trúarhugmynda, á sér baksvið í vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð vondra uppeldisaðila, ofbeldismanna eða slæmra fulltrúa trúar. Það sem sýnist vera guðlast er oft tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku. Trúmenn ættu ekki að reiðast særðu fólki.

Guðspjall dagsins vekur spurningar um guðlast. Lögfræðingar samtíma Jesú töldu að hann guðlastaði. Um það var löggjöf Gyðinga býsna skýr og lagaskýringar ljósar. Það var á hreinu hvenær menn fóru yfir strikið, gerðu eitthvað eða sögðu sem Guði væri ekki þóknanlegt. Allir vissu að það væri guðlast að setja sig í sæti Guðs. Og lagaspekingar hins gyðinglega samfélags töldu að Jesús ögraði, væri guðlastari og “brotaviljinn” væri svo ítrekaður, að að sækja yrði hann til saka. Því var hann líflátinn. Guðlast og líflát hafa löngum farið saman. Jesús gerði uppreisn gegn guðlastslöggjöf síns tíma. Jesús ögraði kerfi trúar og samfélags síns tíma.

Niðrandi tal um Guð

Hvað er þetta guðlast? Nokkur orð um sögu og félagsvídd guðlastsins. Orðabókin skýrir merkinguna, að guðlast sé að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Um aldir hefur verið reynt að sporna við bölvi fólks með því að benda á að ragnið væri brot á fyrsta og öðru boðorðinu. Hugtakið guðlast hefur því löngum verið túlkað sem óvirðulegt, niðrandi tal um Guð.

Guðlast var alvarlegur glæpur meðal hinna fornu Hebrea. Í þriðju Mósebók 24.16 er sagt að sá er fremji guðlast skuli grýttur. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. Englendingar afnámu t.d. ekki dauðarefsingu vegna guðlasts fyrr en á sautjándu öld og Skotar ekki fyrr en á þeirri átjándu.

Mér sýnist flestir sagnfræðingar séu sammála um, að þessi refsiharka hafi ekki verið vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna stjórnmála og valdamanna. Árás á trúargildi var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi samfélag og stjórnvöld. Trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var ekki aðeins það að ráðast á trúarefni, heldur ekki síður að lasta valdstjórn eða mikilvæga þætti samfélagsins. Guðlast var eiginlega þjóðarlast. Guðlast var óbeint níð um samfélag og ekki liðið þess vegna. Refsingin var alltaf hörð og oft dauði. Þetta er mikilvæg og merkileg samfélags- og þjóðfélagsvídd guðlastsins. Enginn skyldi því halda að guðlast hafi bara verið grín.

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer lagt af dauðarefsingar við ógætilegu hjali. Við njótum nú mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið fram átakalaust. Og allir skyldu gera sér grein fyrir að þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.

Íslenskt guðlast

Þá ofurlítið um lögfræðina. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði, sem úrskurða þá athöfn refsiverða, sem smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags (125 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940). Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti sem m.a. er kenndur er við tímaritið Spegilinn. Í Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Af dómsorðunum má líka ráða, að það sé refsiverð háttsemi að grínast með kjarnaatriði tiltekinnar trúar eða trúfélaga.

Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað í ritmiðlum, á netinu, flutt í útvarpi eða í sjónvarpi, sem hefur verið handan hins siðlega. En fleiri dómar hafa þó ekki gengið í guðlastsmálum – mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt dómar væru felldir varðandi guðlast. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef grínistar, uppstandarar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og allra síst hefði Guði verið sómi sýndur. Að dæma menn fyrir guðlast bætir ekki guðsdýrkun eða samfélag.

Af hverju?

Í sálgæslu hef ég oft séð inn í heima þjáningar. Einkenni margra brotinna fjölskyldna og líðandi einstaklinga er tóm eða skortur. Ég var lengi að átta mig á hvers eðlis vöntunin væri, af hverju markaleysi margra væri svo skefjalaust, af hverju allt flyti, af hverju allt væri leyfilegt með óumflýjanlegum endi óhamingju og áfalla. Aðstæður fólks eru vissulega mismunandi og verða ekki skýrðar með einföldum hætti, en mér sýnist einkenna líf margra að þau skorti gildi, tilfinningu fyrir að til er dýpri réttur en einstaklingsrétturinn eða/og máttur hnefans. Sumt af þessu fólki, sem hefur ekki lært að gera greinarmun á réttu og röngu, að greina mikilvæg gildi frá yfirborðsgildum, hefur ekki hlotið djúpa elsku sem veganesti bernskunnar og skilur ekki muninn á spennu og ást, aga og frelsi, grunnþörfum og yfirboðsþáttum, inntaki og yfirborði.

Af hverju hafa hæðir og lægðir lífsins flast út í lífi svo margra? Niðurstaða mín er, að heilagleikinn hafi horfið úr lífi of stórs hluta samfélagsins, vitundin um að til eru gildi sem hafa gildi handan hagsmuna einstaklinga – gildi sem eru æðri einstaklingum. Í trúarsamhengi merkir það að til er Guð, sem vill að við umgöngumst lífið sem heilagar gjafir, en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Þegar Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum rýrni gildin, daprist munur góðs og ills, siðgreind fólks veiklist og þar með verði flest eða allt leyfilegt. Kannski er þá aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingins. Þegar einstaklingshyggjan ríkir rýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur, sem ekki má takmarka. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi – limbói, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða gildi, sem allt annað verði að lúta. Mér sýnist að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks og samfélags.

Hvað er þér heilagt, hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Þar er hið trúarlega í lífi þínu! Ef þú hefur ekkert af slíku er hætt við að margt og jafnvel allt fari á flot. Allir verða þá viðfang samkeppni, allir á bullandi siglingu á sjó eigin langana, reyna að fróa eigin sjálfi og duttlungum.

Tala, gera – vera

“Hann guðlastar” hugsuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði: Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp? Jesús var hnyttinn og spurði hvort væri auðveldara að orða fyrirgefningu eða lækna. Og þar sem Jesús læknaði manninn snarlega var komið að hinni spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlegur! Gagnvart Jesú springa allir lagabókstafir um guðlast. Hann setur sig í Guðssætið. Hvort það er réttlætanlegt eða ekki er til sérstakur dómu. Það erum við sem fellum dóm. Guðlastaði Jesús eða ekki? Guðlöstum við eða ekki? Hundeltum ekki þau sem guðlasta. Hugum fremur að guðlastinu í okkur sjálfum og hvort við heyrum orð Jesú um fyrirgefning og lækningu.

Amen

  1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Neskirkju, 26. október, 2014.

Í liðinni viku keypti Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lénið www.guðlast.is og sagði í því sambandi að fólk hefði ekki rétt til að móðgast ekki orðum annarra. Ég er Helga Hrafni sammála, fólk ber ekki skilyrðislaus réttur til að móðgast ekki í almannarýminu! En ég held að hann misskilji tilgang 125. greinar hegningarlaganna og of tengda einstaklingum. Löggjöf varðar dýpri rök en vernd einstaklinga, rökin varða fremur samfélag og hið opna rými, jákvæð þjóðfélagsgildi og m.a. að hatursorðræða sé ekki leyfileg. Á Íslandi eru – sem betur fer – orðasóðar ekki hundeltir og þeim refsað.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Vistspor

Umhverfisspor í GautaborgVið vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín – og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt – nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum – eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki – hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt

Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin

Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta – var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki

Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs

Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

  1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast.
  2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis.
  3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig.
  4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn – greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar.
  5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni.
  6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan

Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim – heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014