Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.

Mannaborg – Guðsborg

Mannaborg - Guðsborg
Mannaborg – Guðsborg – mynd SÁÞ

Listsýning Rósu Gísladóttur í forkirkjunni og á Hallgrímstorgi nefnist Borg Guðs. Það hefur verið gjöfult að skoða og íhuga þessa sýningu. Borg Guðs – heitið minnir á rit Ágústínusar kirkjuföður, kastalaborgir miðalda og rómantískar draumborgir 19. aldar bókmennta. Og minnir líka á þann rismikla sálm Marteins Lúthers: Þú Guð, ert borg á bjargi traust.

Verk Rósu eru fjölbreytileg. Á einum veggnum er gullglansandi helgiskrín sem vekur margar spurningar. Síðan eru tvær svífandi, samsettar himinborgir eða helgiheimar hangandi í loftinu. Þessar upphöfnu veraldir hafa hrifið ferðamennina sem príla upp tröppur til að skoða og taka myndir.

Annars vegar er tvenna klausturs í Armeníu og bæjarins á Keldum á Rangárvöllum. Nokkrir Armenar komu í heimsókn í kirkjuna fyrir skömmu og spurðu óðamála hvað þetta ætti eiginlega að þýða að setja líkan klaustursins, sem þau þekktu svo vel, með þessum ókunna bæ. Þeir róuðust þegar þeir fengu að vita að ermskir (armennskir?) guðsmenn hefðu komið í kirkjuerindum til Íslands fyrir öldum.

Hinum megin gangsins er þrenna stíliseraðra helgihúsa, mosku og sýnagógu í Berlín og Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þessi samsetta þrenna minnir á sameiginlega rót fléttu trúarbragða gyðingdóms, Islam og kristni. Öll hafa sprottið úr hinum hebreska átrúnaði og ritum.

Þegar fólk hefur beðið eftir að komast í lyftuna upp í turn hefur sýningin orðið mörgum þeirra dásamleg uppljómun. Það eru forréttindi að standa í röð með svo elskulega krefjandi listaverk allt í kring.

Spegillinn

Eitt verka Rósu er úti og fyrir framan kirkjuna. Það er hringspegill sem fólk gengur að og sér sjálft sig og alveg sama hvernig það hreyfir sig, sjálfsmyndin er þarna. Eins og Guð væri að horfa: „Þarna ertu, ég sé þig, þú ert fyrir augliti mínu, ég er þér svo nærri sem þú vilt, eða fjarri sem þú óskar.“ Marteinn Lúther notaði setninguna Coram Deo til að minna okkur menn á að við værum alltaf fyrir augum Guðs, frammi fyrir ásjónu Guðs. Og ein bóka Sigurbjarnar Einarssoar, sem einu sinni þjónaði þessum söfnuði, heitir Coram Deo – fyrir augliti Guðs.

Sýning Rósu hefur vakið þanka um návist hins guðlega í lífi fólks, spurningar um hvað geti verið og sé borg Guðs og hvernig. Ég gleðst þegar listaverk vekja viðbrögð en er hvað þakklátastur þegar þau kveikja tilvistarspurningar, bæta í menningarvefinn og stækka veröld fólks.

Fólk á ferð

Fólk kemur í þessa kirkju og sækir landið heim. Íslendingar eru á ferð um land og heimsbyggð. Fólk er á ferð. Söngsveinar, drengir, frá Fjóni í Danmörk koma til að gleðja okkur með söng sínum. Í samræmi við ferðagleði tímans er á dagskrá þessa messudags ferðatexti úr Nýja testamenntinu. Jesús er á ferð til Jerúsalem. Við heyrum lýsingu einhvers sem hafði orðið vitni að biblíulegu uppþoti í ferðahóp Jesú. Ferðafélagarnir höfðu ólíkar skoðanir. Jesús tjáði stefnu sem Pétur, vinur hans, var ósamála. Pétur skammaði m.a.s. Jesú og vildi umsnúa honum. Og hvað var svona skammarlegt? Ekki að Jesús væri á ferð til borgar Guðs, Jerúsalem, heldur ferðarerindið. Jesús talaði um að hann að myndi deyja.

Það var sú dauðastefna sem gekk fram af Pétri. Hann vildi skiljanlega Jesú fremur lífs en látinn. Hann batt vonir sínar við menningarlegan, trúarlegan og pólitískan frama Jesú og skildi hlutverk hans sínum skilningi og vænti mikils. Því bæði reiddist hann og hræddist ferðaplan Jesú Krists. Orð Jesú um að hann færi til borgarinnar til að láta lífið taldi Pétur ekki aðeins lélegan húmor, heldur óábyrgt tal.

Vík burt Satan

Pétur var allt í einu kominn í hluverk fjölmiðlaráðgjafa sem bannaði aðalmanninum að tala frjálst. Jesús var á leið til borgar Guðs með dauða í huga og hjarta – en Pétur var hornóttur og skömmóttur. Viðbrögð Jesú eru mikil og hann segir við sinn besta vin og félaga: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Pétur – þessi sem Jesús útvaldi til að verða hornsteinn heimskirkjunnar – er allt í einu kominn í hlutverk djöfulsins – orðinn hið illa. Það er rosalegt, sjokkerandi og íhugunarvert. Eigum við að afskrifa þetta sem pirring Jesú? Var hann bara í örgu skapi og skeytti sér á þeim sem næstur var? Eða var annað og meira að baki?

Ég held ekki að Jesús hafi allt í einu álitið að Pétur væri djöfullinn. Ég held ekki heldur að hann hafi verið fúll og skeytt skapi sínu á vini sínum. Ég álít að þetta hafi verið ígrunduð setning og afstaða, sem varðar ekki einn karl í fornöld heldur líka okkur sem erum á ferð í þesari kirkju öldum síðar, alla ferðalanga sem hingað koma, öll þau sem horfa á Guðsborgarverk Rósu, mannabörn heimsins. „Vík frá mér Satan“ er setning sem á við okkur öll, er eins og sjónskífa Rósu úti fyrir kirkjunni. Við erum fyrir ásjónu Guðs. Viltu vera á réttum vegi? Tekur þú sönsum?

Möguleiki til djöfulskapar

Satan er ekki goðsöguleg vera sem sprettur einstaka sinnum fram í vondu fólki. Við þurfum að temja okkur lifandi sýn varðandi hið illa og veruleika þess. Goðsagan er óþörf en mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir möguleika okkar allra til ills. Satan er tákn, safntákn fyrir allt það sem hindrar líf, gæsku, gleði, hamingju og trú fólks í þessum heimi. Ég get orðið Satan þegar ég set sjálfan mig í gegn Guðs góða vilja og að fólk og líf fái notið sín. Þú getur orðið Satan þegar þú horfir of smátt á sjálfa þig eða sjálfan þig, vilt ekki njóta þess góða sem Guð gefur þér alla daga, hindrar hið góða vegna eigin hags, þegar þú vilt ekki horfast í augu við að Guðsríkið skiptir mestu máli í öllu lífi, öllum heimi – líka þínum.

Val okkar alla daga

Við höfum tilhneigingu til að einfalda orð og verk Jesú Krists og taka einfeldningslega því sem hann sagði. Við gleymum oft að orð hans skírskota til lífs allra manna á öllum öldum, líka mín og þín. Erindi hans í texta dagsins varðar ekki aðeins Pétur í líki örvæntingarfulls fjölmiðlafulltrúa, heldur þig í þínum aðstæðum. Viltu hlusta á erindi Guðs við þig? Ef þú hugsar smátt, vilt bara þínar aðferðir, skilur of þröngt – ertu í svo alvarlegum aðstæðum að þær eru djöfullegar. Við getum í afskiptaleysi eða eigingjörnum aðgerðum orðið Satan í lífi fólks. Hið illa er ekki goðsöguvera heldur lifnar í sjálfhverfu fólks og öllum smásálarskap eða hroka. Guð er Guð lífsins en hið djöfullega eyðir lífi. Guðsborgin er borgin þar sem lífið fær að blómstra.

Verkin hennar Rósu eru hvatar til menningarlesturs og sjálfskoðunar. Orð Jesú eru vakar til lífs. Þú getur gotið augum til listaverkanna, horft á þig í speglinum og skellt skollaeyrum og látið þig litlu varða. Þú getur einnig afskrifað orð Jesú sem pirring og fýlutal – en þá ferðu jafnvel á mis við lífið og þitt eigið sjálf. Má bjóða þér að horfa, hlusta og upplifa hið merkilegasta?

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Þannig mælir Jesús Kristur. Lifir þú í Guðsborginni eða aðeins í mannaborg? Það er hin róttæka spurning hvers dags í lífi okkar.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, 5. júlí, 2015.

Textar fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð. Textaröð B.

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn: Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér. Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg skaltu vera munnur minn. Þá leita menn til þín en þú mátt ekki leita til þeirra. Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg til að verjast þessu fólki. Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig því að ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Dans, týndir synir og hrútar

Mynd Þorsteins JósepssonarVeisluglaumurinn í Reykjavík í nótt var ekki aðeins í miðbænum eða við skemmtistaðina. Þúsundir efndu til hátíða vegna háskólaútskrifta. Tilefni fyrir fjölskyldur að koma saman og gleðjast yfir áföngum og sigrum. Á öllu stór-Reykjavíkursvæðinu var fagnað og gleðin ríkti víðast frá því um kvöldmat og fram að miðnætti. Prúðbúið fólk var á ferð. Taktföss dansmúsík, hlátrar og hávær samtöl bárust um hverfið mitt í kvöldkyrrðinni. Það var ánægjulegt að upplifa fögnuðinn og glaumurinn rímaði algerlega við veislusögu guðspjallsins. Þegar ég lagði höfuð á koddann hugsaði ég um fólkið sem var að fagna.

Bræður í vanda

Jesús sagði sögu um fagnandi fjölskyldu. Saga dagsins er um ungan mann og fjölskylduveislu. Maðurin fór óvenjulega leið, neyddi föður sinn til að láta sig fá arfinn fyrirfram. Hann lifði svo hátt en klúðraði þó fjármálum sínum. Hann eignaðist viðhlægjendur meðan hann átti peninga. En svo þegar auðurinn var búinn blasti hryllilegur raunveruleikinn við. Þegar maðurinn hafði ekki annað en svín fyrir augum varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum. Þegar hann viðurkenndi það var hann á leið heim í öllum skilningi.

Þrír kallar

Heima var hinum alræmda syni fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara puðaði heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúðin með eldri bróðurnum. Veisla fyrir ruglukollinn var meðvirkni. Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar eða fólk sem „týnist“ af einhverjum ástæðum. Svo eru hin sem ekki lenda í neinu verulega vondu en klúðra þó einhverju. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki týndur í útlöndum heldur týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni og hafði tapað tengslum við ástvini sína. Þegar fólk er týnt verður misskilningur. Þekkir þú svona fjölskyldulíf?

Meginstefið

Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver ólátabelgurinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan? Og sagan sé meira á dýptina?

Hinar yfirdrifnu sögur Jesú

Jesús Kristur var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir spennuparið. En svo sprengir Jesús jafnan sögur sínar með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús kallaði tilheyrendur sína til vits og guðsskilnings. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en ekki umbuna fyrir vitleysuna. Það eru lélegir uppeldishættir. Og iðrun og vilji til bóta er forsenda jarðnesks uppgjörs.

Miðjan í sögunni er faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sprengir þó allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski Faðir. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalaus ást sem umvefur allt og alla.

Hrútar

Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Hvenær er maður týndur? Ertu á réttri leið, aflar lífspuðið þér hamingju?

Ég sá í vikunni hina verðlaunuðu og lofuðu kvikmynd Hrúta og naut þess eftir sýninguna að tala við leikstjóra myndarinnar með nokkrum félögum, vinum og kollegum. Myndin segir frá bræðrum sem höfðu týnst hvor öðrum og tapað samskiptum þótt þeir byggju á hlið við hlið í Bárðardal. Ég mæli með Hrútum. Hún er blessunarlega laus við klisjur og ristir djúpt. Í henni eru engar ódýrar lausnir heldur er sögð ávirk og átakanleg saga. Þetta er saga um fólk og rofin samskipti. Svona fólk þekkja flestir því sagan á sér hliðstæður í öllum fjölskyldum og samfélögum heimsins. Og Hútarnir eru ein útgáfa af Biblíusögunni um týnda syni (reyndar áhugavert að máta fleiri sögur Biblíunnar við myndina, t.d. sögurnar um Kain og Abel, Jakob og Esaú o.fl.).

Hver er týndur?

Ertu týndi sonurinn, dóttirin? Er komið að viðsnúningi, iðrun, heimgöngu. Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast.

Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og greint mistökin. Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú ert búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. Veislufólkið, fjölskyldurnar, sem héldu partí í gærkvöldi eru eins og annað fólk heimsins. Þau vilja fagna og njóta lífsins. Allt þetta fólk leitar hins góða lífs, en í flestum fjölskyldum er fólk sem er villuráfandi. Systur, bræður, systkin, foreldrar, fjölskyldur í Palestínu, Bárðardal, Drammen og Þingholtunum geta klúðrað lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum riðurotuð og týnd megum ganga í okkur, taka sinnaskiptum, snúa við og halda heim. Guð býður nýja möguleika. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Prédikun í Hallgrímskirkju 21. júní, 2015.

Þriðji sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían; Jes. 64. 3-8

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjörir slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Pistillinn: 1 Tím 1.12-17

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lúk. 15. 11-32

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.

 

Söngur þjóðar

IMG_5363Árið 1874 heimsótti konungur Dana Ísland til að fagna með Íslendingum á afmæli þúsund ára byggðar í landinu og til að afhenda frelsisskrá. Þá var haldin þjóðhátíð á Íslandi. Innblásin af skilum tímans orktu skáldin ljóð og hátíðakvæði.

En skáldprestinum Matthíasi Jochumssyni var ekki gleði í huga þegar kóngur kom. Honum og þjóð hans var margt mótdrægt. Hann hafði misst mikið í einkalífi sínu og var dapur raunamaður. Í lægingunn leitaði hann að einhverju til að lyfta sér upp á vængi morgunroðans, upp til trúar á land og framtíð. Þjóð hans var á tímamótum og leit til baka við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og einnig fram á veg. Hvaða stef gætu hjálpað og orðið til eflingar? Matthías fletti Biblíunni sinni og las enn einu sinni í sálmasafninu í hjarta Gamla testamentisins sem kennt er við Davíð konung. Í 90. sálmi fann hann bæn guðsmannsins Móse. Og bænin tók hug hans. Í þessum gullsálmi segir:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf

frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, því versin urðu skáldinu til hressingar og eflingar og hann fékk frá þeim innblástur, andagift, til að semja sálm, Lofsöng, sem var svo sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið sem er raunar tónverk. Síðar varð svo þessi lofsöngurað hinum rismikla þjóðsöng Íslendinga.

Samhengið

Matthías vissi vel að trúarlegt samhengi allrar sögu þjóðar, hópa og einstaklinga væri aðeins eitt, frumuppsprettan sjálf og takmark allrar sögu. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til … ert þú, ó Guð.” Þetta eru ekki glamuryrði fyrir hátíðarstund, heldur niðurstaða lífsreynslu einstaklinga og kynslóða. Hvert er haldreipið í myrkri og flókinni sögu, hvar hjálpin í hallæri, hvar sorgarléttir við dánarbeð og hvar skjól í lífsbyljunum? Hvar annars staðar en hjá gjafara allra gæða, sem réttir fram hendur áður en kreppir að.

“Frá eilífð til eilífðar ertu þú, ó Guð.” Guð hefur gefið þér – okkur öllum – fortíð, samhengi, áa og eddur, sögu til að lifa við og af, uppbyggingu kynslóða, heimaslóðir, uppvaxtaraðstæður en síðan óslökkvandi lífsþorsta, sem hefur orðið til að einstaklingar og fólk í þessu landi hafa fundið leið í gegnum kreppur.

Gjafir tímans og lífs

Það er Guð, sem gefur þér ástina til maka og barna, umhyggju, jarðargróða og viðurværi. “…þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.” Það er stórt samhengi og uppteiknað með fjöllum, heimi, þúsundum ára og afturhvarfi mannabarna í duftdyngju árþúsunda.

Þegar einstaklingshyggja vex, hið stóra samhengi menningar, þjóða og ættboga rofnar og fátt er annað eftir en hinn eini í einstaklingsleit í smáheimi sínum hljómar þessi texti hins stóra samhengis. Boðskapurinn er að þú ert ekki einn eða ein heldur hluti heildar. Þú ert ekki einn þinnar gerðar heldur hlekkur í stórri keðju ættar og kynslóða. Líf þitt er ekki aðeins þitt eigið heldur í tengslum og samhengi. Gegn sjálfhverfingu einstaklingsins talar hið víða sjónarhorn og stóra samhengi Guðs og eilífðarinnar.

Aðhaldið, stuðningur menningarinnar og félagsmótun kynslóðanna er ekki lengur sjálfsagt og einhlýtt samhengi uppvaxandi kynslóða. Ísland er ekki lengur eyland í menningarlegu tilliti, ekki lengur afkimi meðal þjóðanna. Nú erum við beintengd og nettengd inn í viðburði og vef veraldar.

Viskan

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Hvernig getur þú öðlast viturt hjarta? Hvað er að vera vitur? Þú mátt vita að þú hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sögu og samtíð. Þú ert mikilvægur og mikilvæg gagnvart fólkinu þínu. Þú hefur hlutverki að gegna við uppeldi og við að gæta réttlætis í samfélaginu. Þú hefur mótttöku- og gestgjafahlutverki gagnvart nýbúum samfélags okkar. Þú ert vökumaður náttúrunnar og gagnvart stjórnum og þjónum samfélags. Guð kallar til réttlætis, til samfélags, til eðlilegrar dreifingar lífsgæða.

Og trúin

En hið stærsta samhengi og hið dýpsta einnig er samhengi trúarinnar. Ágústínus kirkjufaðir minnti á, að hjarta mannsins væri órótt uns það hvíldi í friði Guðs. Þú getur hlaupið í lífinu og unnið allan heiminn, en þó verið manna fátækastur og örmust ef þú ekki tekur mark á dýptum þínum. Svo er um þjóð okkar einnig. Hún getur átt “allan heiminn” en verið skínandi fátæk ef innri auður er rýr.

Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóða. Og samhengi alls er Guð sem færir allt til betri vegar. Guð gefur allt, gefur þér gáfur, eignir, forsendur og samhengi. Guð getur líka gefur frið. Guð þínn sem er athvarf frá kyni til kyns.

Íhugun í Hallgrímskirkju, 17. júní, 2015, kl. 16.

Trúir þú á Guð?

trúHvað áttu mörg andartök eftir af þessu lífi? Andartökin eru vegna lífsins, nauðsynleg lífi manna og þegar lífi lýkur verða síðustu andartökin. Í prestsstarfinu hef ég kynnst fólki sem hefur kviðið þeirri stundu að finnast það vera kafna. Sum hafa sagt mér að þau óttist meira tilfinningu andnauðarinnar en því að lífið fjari út. Hvaða afstöðu hefur þú gagnvart dauða og málum eilífðar og trúar?

Jerúsalemferðin

Jesús var á leið til loka. För hans til Jersúalem er erindi dagsins. Síðustu andartök hans. Hann glímdi við erindi sitt, hlutverk í lífinu og trú sína. Við förum okkar ferðir. Jerúsalemgöngur eru okkar líka. Og ekkert okkar víkur sér undan lífslokum. Hvað gerist þegar þú tekur síðustu andartök þín? Er lífið þér þá búið? Áttu þér framhald eftir dauða eða trúir þú ekki að til sé framhaldslíf, eilíft líf?

Hljóðgangann og 640

Á listahátíð í ár var merkilegt leikverk flutt, Engram, sem var svonefnd hljóðganga um Hallgrímskirkju. Ég var svo lánsamur að njóta þeirrar áhrifaríku hljóðgöngu. Þau sem sóttu sýninguna fóru ekki í leikhús heldur komu í anddyri kirkjunnar. Þar fengum við heyrnartól og vorum beðin að setjast aftast í kirkjunni sunnanmegin og bíða raddar í heyrnartólunum. Við settumst öll niður innan um alla ferðalanga veraldar. Við vorum einn hópur af mörgum. Svo var þarna líka stór hópur stúdentsefna Kvennaskólans sem voru að æfa skólaslit. Við biðum átekta í sætum okkar, drógum djúpt andann, fundum til kyrrðar í kirkjunni en líka eftirvæntingar. Við vissum að við myndum verða leikendur í þessari sýningu og óvíst hvað við ættum gera, vera inni eða úti, upp í turni eða segja eitthvað frammi fyrir öðrum.

Svo byrjaði rödd að tala, blíð og hlý. Við fengum strax að vita að við tækjum þátt í ferðalagi – engu venjulegu ferðalagi heldur síðusta hluta æfinnar. Svo drógumst við inn í sögu sem varð brátt okkar saga og gerðum okkur grein fyrir að við ættum stuttan tíma eftir ólifaðan. Og ónotatilfinning hríslaðist um mörg okkar þegar okkur var sagt að við værum að deyja. Við ættum aðeins 640 andardrætti eftir. Hvað er það langur tími? Hjartað fór að slá hraðar. Síðan var áleitin saga sögð og við urðum hluti þeirrar sögu og höfðum hlutverkum að gegna í framvindunni.

Handritið var algerlega aðlagað kirkjuhúsinu og kirkjunni var vel lýst. Okkur var vísað út um neyðardyrnar á suðurveggnum í miðju kirkjuskipinu. Við fórum öll út og tókum þátt í gjörningi sunnan kirkjunnar. Svo var okkur boðið að fara út á Hallgrímstorg. Sögumaður hljóðleiksins lýsti fyrir okkur ferðamönnunum umhverfis okkur og við fengum að vita að andartökum okkar fækkaði. Saga sem sögð var grópaðist í sálina og við fundum til djúprar samsemdar með söguhetjunum sem við fylgdumst með. Tvö hundruð andardrættir eftir.

Við héldum áfram þessari undarlegu för mót endi og dauða, fórum á steinasvæðið norðan við Leifsstyttuna og þar áttum við aðeins þrjátíu andardrætti eftir. Svo var komið að lokum. Þegar við áttum eftir nokkra andardrætti vorum við beðin að snúa okkur að kirkjunni. Þegar við tókum síðustu andartökin skein sólin við okkur vinstra megin við turnspíruna. Við fundum fyrir hlýju sólarglennunnar, fyrir síðustu lífsmörkunum og svo tókum við síðasta andartak lífsins. Þar með var öllu lokið.

Þeirri reynslu verður ekki lýst og ekki heldur framvindu og fléttu sögunnar. En ég – og mörg önnur – upplifðum dauða og síðan upprisu. Reynslan var mögnuð – og ég gekk inn í kirkjuna þakklátur fyrir lífið og dýrmæti þess, undur og blessun. Ég var þakklátur fyrir að líf mitt er líf með Guði. Ég trúi á Guð sem umfaðmar okkur menn á lífsgöngu, gefur okkur andartök og er inntak lífs í lofti og loftleysi. Hvað gerir þú við andartökin sem þú átt eftir af lífinu? Hvernig leið þér þegar ástvinur þinn lést og þú heyrði síðasta andartakið?

Trúir þú?

Þegar dauðinn sækir að fólki opnast oft sálargáttir. Vitund fólks opnast gjarnan og vert er að virða hugsanir og tilfinningar gagnvart dauða. Samtöl við syrgjandi fólk rista oft djúpt og sum eru á himindýptina og alltaf lærdómsrík. Mörg eftirminnileg samtöl hef ég átt við fólk sem þoldi og þorði að glíma við eigin ótta, virti vonir sínar og spurði stórra spurninga. Eitt sinn ræddi ég við konu sem í skugga vinarmissis talaði um trú sína, sorg og líf. Allt í einu beindi hún orðum sínum að mér og spurði: „Trúir þú á Guð?“

Þegar ég er spurður þessarar spurningar lít ég svo á að fólk sýni mér tiltrú og traust til að tala um dýpstu hjartans mál. Trúarspurningin er eðlileg og flestir fara einhvern tíma á æfinni yfir eða meta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð. Þegar fólk hugsar um afdrif látinna ástvina og vill tala við prestinn um þau mál er ekki einkennilegt að spurningin hljómi. En hvort ég, presturinn, trúi á Guð kemur mér þó samt alltaf svolítið á óvart. Svarið er margmetið og margyfirfarið já. En ekkert er sjálfgefið í málum átúnaðar. Trú er gjöf, trú varðar tengsl og trú er traust. Menn geta bilað og brotnað og ég get líka tapað trausti og tengslum við Guð. En ég get ekki verið prestur kristinnar kirkju ef ég tapa trúnni, tengingu við Guð. Ég myndi segja af mér prestsþjónustu ef ég missti trúna. Guðssamband er ekki fasteign eða fasti heldur lifandi samband.

Ástarsamband

Ég skýrði út fyrir konunni að trú væri í mínu lífi ástarsamband, ástalíf og kærleikssamskipti. Ást getur dvínað og trú getur horfið rétt eins en ást í tengslum getur líka dafnað og trú getur styrkst. Trúin er samband lifandi aðila við annan rétt eins og ástin er lífssamband. Og konan spurði: En biður þú? Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir t.d. óhugsandi að tala ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Og þannig lifi ég trú sem hin dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín, nær en andartök mín eða hjartsláttur. Guð er inntak vitundar minnar, en líka máttur efnahvarfa og líkamsstarfsemi minnar. Anda Guðs upplifi ég alls staðar, ekki aðeins í ferlum náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni.

Svona upplifi ég og túlka veruleika Guðs – og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Og efinn og trúin eru í mér nánar systur og vinir. Efinn, kraftmikil gagnrýni og háskólanám urðu mér veganesti til að gera upp það sem mér sýnist úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er að mínu viti ekki mál og því síður vandamál trúarinnar. Trúmenn nútíma fagna nútímavísindum, ekki til að trúa blint heldur trúa vitlega. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð með Guði. Biblíuna þarf að lesa með köldum en frjálsum huga og trúarlærdóma þarf að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki óbreytanleg og verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því á að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum og opnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi valdi því ég tek mark á Jesú Kristi. Ég trúi honum og fylgi honum. Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. En Guð stressar sig örugglega ekki yfir óvitaskap okkar manna – held ég – þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð.

Til lífs
Konan spurði mig um trú mína. Jesús Kristur stefnir til Jerúsalem. Ferðamennirnir og sóknarfólkið í Hallgrímskirkju vill góðar ferðir í lífinu og spyr um tilgang lífsins. Allir anda en mæta að lokum dauða. Og mig langar til að spyrja þig um trú þína á þinni vegferð. Hvernig er trú þín eða vantrú? Þegar þú missir ástvin þinn, hvernig túlkar þú för hans eða hennar? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Nú áttu nokkur andartök eftir af lífi þínu. Og mátt æfa þig í að taka síðasta andartakið. Hver ertu? Trúir þú að einhvern tíma ljúki lífi þínu? Hver verður þú þá? Hverju trúir þú? Trúir þú á Guð?

Hallgrímskirkja, 2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 14. júní, 2015, B-röð.

  1. sd. e trin. Textaröð: B

Lexía: Okv 9.10-12
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31

Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62

Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.