Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Liverpool, Klopp og lífsviskan

Í gær var ég að vinna í prédikun dagsins. Tíu ára gamall sonur minn beygði sig yfir tölvuna þegar hann sá að ég var að skrifa um fótbolta, las lengi, horfði svo á mig og sagði: “Þetta er góð ræða hjá þér pabbi minn!“  Hann hefur gaman af knattspyrnu, iðkar hana og veit mikið um fótboltafræðin. Og í dag ætla ég að ræða um áhugamál hans og þeirra bræðra.

Knattspyrna hefur ekki verið meginefni íhugana í kirkjum landsins og kemur ekki við sögu í messum hvern sunnudag. En boltaíþróttir eru mikilvægar í lífi nútímafólks, tengja saman þjóðir og hópa og eru fremur til friðar en ófriðar. Þær vekja áhuga á fólki frá öðrum svæðum, borgum og menningu. Knattspyrnusamtök vinna að ýmsum góðum málum t.d. er respect-virðingarátak FIFA til að innblása fólki mannvirðingu, að láta engan gjalda fyrir útlit, bakgrunn, lit eða eigindir. Ég tala um fótbolta í dag – ekki til að mæra eða hælast af íslensku landsliðum kvenna og karla sem bæði eru frábær – heldur til að íhuga lífið og hvað er til eflingar. Í dag er það fótbolti og guðsríkið en skoðunarefnið gæti allt eins verið blak, körfubolti og handbolti – raunar allar íþróttir – því kristinn boðskapur fjallar um allt fólk og veröldina.

Season of salvation

FourFourTwoÍ ágústbyrjun kom inn á mitt heimili tímaritið FourFourTwo sem er knattspyrnutímarit. Forsíðan var óvenjuleg og minnti á steindan glugga, helgimynd í kirkju. En í stað postula og engla eru á myndinni fótboltakarlar sem eru frægir fyrir fleira en siðprýði og hetjulund. Á myndinni eru líka Arsene Wenger þjálfari Arsenal í London, þáverandi Liverpool-stjóri, Brendan Rogers, Wayne Rooney úr Manchester United og Vincent Kompany úr City. José Mourinho, einn skrautlegasti knattspyrnustjóri heims, er á miðju myndarinnar eins og Jesús en þó í lakkskóm, með bindi og í jakkafötum. Margar helgimyndir hafa púka einhvers staðar til að minna á að lífið er ekki bara leikur á himneskum blómavelli. Það er m.a.s. púki á Hallgrímsmyndinni yfir aðaldyrum þessarar kirkju. Sepp Blatter, FIFA-forsetinn, er á tímaritsmyndinni í hlutverki hins illa enda aðalleikari í langdreginni spillingarsögu FIFA. Welcome to the Season of Salvation. Velkomin til tíma lausnarinnar, tíma frelsisins. Eða hvað?

Trúlegu skot fótboltans

Þessi forsíða varð umtöluð í knattspyrnuheiminum og þótti ýmsum sú besta í langan tíma. Fótboltinn skýst ekki aðeins inn í peningaveröldina og tískuheiminn heldur yfirtekur boltamenningin líka ýmis ritúalhlutverk trúarbragðanna. Trúarlífsfélagsfræðingarnir hafa löngum bent á að í atferli leikmanna og áhorfenda séu trúarvíddir og boltamenningin þjóni ýmsum þörfum fólks, t.d. að tilheyra hópi, samhengi og þiggja skilgreiningu um hlutverk sín. Og boltinn gegnir uppeldishlutverki einnig því hetjurnar verða mörgum fyrirmyndir um hegðun og afstöðu. Boltasiðferðið verður viðbót eða jafnvel viðmið grunnuppeldis.

Útaf

Það er ekkert öruggt í boltanum. Síða fótboltablaðsins í ágúst er orðin úrelt. Brendan Rogers – sem þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Swansea og vildi fá hann með sér til Liverpool þgar hann fór þangað -var sagt upp. Honum var hent út, settur út af “sakramentinu” – sýnt rauða spjaldið. Hann þótti ekki nógu góður því Liverpool hefur tapað og tapað og er mun neðar á stigatöflunni en púlarar (stuðningsmenn Liverpool) sætta sig við. „You never walk alone“ er slagorð Liverpool en nú gengur Rogers aleinn og yfirgefinn. Mourinho í Chelsea er hugsanlega á útleið og hinir jafnvel líka.

Celebrity-menningin

Helgimynd fótboltans í ágústblaðinu varð mér til íhugunar. Það er ekki rétt að fótboltahetjurnar hafi geislabaug sem verðlaunaskjöld eldskírnar, sigurlaun í úrslitaleik lífsins. Hetjunum á takkaskónum er hampað um stund meðan þeir hafa töfra í tánum og þjóna hlutverki í liðinu sínu en svo er þeim kastað út. Ef þeir eru “góðir” í boltanum eru sjaldnast gerðar til þeirra miklar vistmunalegar, menntunar-, félagslegar eða siðferðilegar kröfur enda hefur komið í ljós að margar stjörnurnar í boltanum hafa brennt illa af í vítaskotum einkalífsins.

Íþróttahetjurnar hafa orðið hluti celebrity-meningarinnar. Fótboltastjörnurnar eru í hópi fræga fólksins. Menningararvefur vestrænna samfélaga hefur breyst. Áhersla á dyggðir hefur dvínað og siðferðisgildunum hefur verið skotið út af. Þetta á við um meginskyldur, aðalreglur lífs, mennsku og trúar, að við berum ábyrgð á hverju öðru, velferð annarra, menningargildum og samfélagi. Þessi siðgildi skiljast illa eða ekki. Hetjur í trúarlegum, samfélagslegum, pólitískum og menningarlegum skilningi eru týndar en fræga fólkið er komið í staðinn. Celebrity-menningin er umbreyta viðmiðum og er sett í staðinn fyrir siðmenningu eða flæðir inn í götin sem myndast í gildaflæði. Fræga fólkið getur orðið fyrirmyndir í ýmsu en sjaldnast sem þroskaðar fyrirmyndir um hvað við eigum að gera í siðferðisklemmu, gagnvart flóttamönnum í neyð, í nánum samskiptum fjölskyldu og áföllum eða gagnvart dauða.

Árni Guðjón var skírður áðan. Hvað haldið þið að foreldrar hans og fjölskylda vilji helst gefa honum sem nesti til ævinnar? Það sem reynist honum best. Hann mun alast upp í samhengi og menningu sem haldið er fram í samfélagi og vefmiðlum og foreldrarnir vilja að hann mannist vel og hafi gott innræti, menningu og menntun til lífs.

Hvernig afstaða og iðkun

Textar dagsins fjalla um tengsl fólks. Við erum minnt á hetjuna Rut í bók sem ber nafn hennar. Hún var flóttamaður sem þorði að velja hið erfiða en siðferðilega fagra. Í dauðanum valdi hún lífið. Hún var hetja og því dýrlingur. Í pistlinum er fjallað um að gera hið rétta, iðka hið góða sem alltaf er í krafti Guðs og vera þar með skínandi ljós og fyrirmynd meðal fólks. Í guðspjallinu er svo sjónum beint að mismunandi viðbrögðum fólks. Þar eru tveir en ólíkir synir. Annar segir já þegar pabbi hans bað hann en gerði þó ekkert. Hann sem sé sveik. Hinn sagi nei við pabbabeiðninni en framkvæmdi þó það sem beðið var um. Líf fólks er líf gagnvart öðrum, atferli okkar hefur áhrif á aðra og varðar gildi, sannleika, traust eða vantraust. Við erum alltaf í tengslum og iðkum annað hvort hið góða eða vonda. Og yfir okkur er vakað. Allt sem við gerum eru tengsl við grunn lífins, það sem við trúmenn köllum Guð. Jesús sagði að það sem við gerðum hinum minnstu systkinum gerðum við honum.

Klopp og Guð

Áfram með fótboltann. Brendan Rogers var rekinn frá Liverpool og er aleinn og yfirgefinn. Og af því celeb-menningin gleypir siðinn er söngur Liverpool úreltur: You never walk alone. Svo var Jürgen Klopp ráðinn í hans stað. Hann er kraftaverkamaður sem gerði Borussia Dortmund að stórkostlegu liði í Þýskalandi og heimsboltanum. Af hverju skilar hann liðum lengra en aðrir? Það er vegna þess að Klopp byggir á gildum en ekki yfirborðshasar, virðir mennsku spilaranna en ekki bara töfra í tánum, leggur upp úr að allir vitji þess sem innra býr og spili með hjartanu.

En af hverju þessar íþróttafréttir í messu? Hvað kemur Klopp kirkju við? Það er vegna þess að Guð er aðili að fótbolta Klopp. Hann var spurður um hvort fótboltaguðinn hefði snúið baki við honum. Klopp skrifaði og talaði um að hann tryði ekki á fótboltaguð heldur alvöru Guð. Við menn værum í frábærlega góðum höndum Guðs sem væri stórkostlegur. Sá Guð elskaði okkur, með kostum okkar en líka göllum og hefði gert okkur ábyrg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Guð héldi ekki á okkur sem strengjabrúðum. Við værum sjálf ábyrg fyrir því sem við værum og gerðum. Við menn yrðu að skora okkar eigin mörk í lífinu.

Knattspyrnan hjá Klopp er ekki kristilegri heldur en í hinum liðunum – heldur er afstaða hans til mannlífs og annara hið áhugaverða og skilar að mínu viti jákvæðri mannsýn, hvatningu og ástríðu. Sem drengur í Svartaskógi var hann alinn upp við eflandi tengsl við Guð. Mamman kenndi honum bænir og amman fór með hann í kirkju sem hann sækir. Hann tekur tíma á hverjum degi til að vitja sjálfs sín og biðja sínar bænir. Síðan hefur hann lifað í stóra neti guðstrúarinnar og ræktaðri mannvirðingu. Sem þjálfari nálgast hann leikmenn sem mannverur en ekki aðeins vöðvavélar, að allir leiti hamingju og merkingar í áföllum og gleði lífsins. Nú festa hundruðir þúsunda aðdáenda Liverpool trú sína við Klopp en Klopp festir trú sína við meira en sjálfan sig.

Árni Guðjón, ferðamennirnir og þú í þínum verkum, gleði og sorgum, fótboltabullurnar og öll hin sem hafa engan áhuga á tuðrum, – öll reynum við að lifa hamingjuríku lífi. Hvað dugar best; celeb eða siður, lúkkið eða viskan? Ætlar þú að segja já eða nei í lífinu? Hvað ætlar þú gera? Já er best í lífinu og siðvit í samræmi við það já.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 18. október, 2015.

Lexía: Rut 2.8-12

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:

„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Pistill: Fil 2.12-18

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar. Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Guðspjall: Matt 21.28-32

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“

Hvað á ég að gera?

Himinsýn - mynd Þorsteins Jósepssonar
Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Prestur og leigubílstjóri dóu og stóðu í röðinni við Gullna hliðið. Klerkur sá að engillinn, sem tók á móti leigubílstjóranum afhenti honum gullstaf, fallega skikkju og veislumat. Leigubílstjórinn varð hissa og hélt fagnandi inn í himininn. Hann hafði fremur átt von á vandræðum við hliðið en ekki að hann yrði verðlaunaður. Presturinn gekk fram en fékk ekki sömu höfðingjamóttökur. Honum voru fenginn tréstafur, einfaldur kyrtill og brauð og vatn. Presturinn fyrtist við og spurði pirraður: „Heyrðu mig nú engill. Hvernig stendur á þessu og hvers á ég að gjalda? Ég hef alla ævi stritað í kirkjunni – en hann, þarna á undan mér, hefur ekkert gert annað en aka bíl og er frægur fyrir ofsaakstur.“ Engillinn svaraði honum. „Við spyrjum nú um árangurinn í lífi fólks. Þú hefur verið í kirkjunni, það er rétt. En ef þú hugsar til baka verður þú að viðurkenna að fólkið dottaði oftast þegar þú fluttir stólræðurnar. Það var ekki mikið sem sat eftir en þegar þessi maður sat við stýrið og keyrði sinn leigubíl, upphófst trúaratferli hjá hverjum einasta farþega. Í ökuferðunum báðu farþegarnir bænir – já og án afláts!“

Svarið er athylgisvert og klerkur hugsar sitt. Hefur engillinn í sögunni rétt fyrir sér? Er dómurinn á himnum árangurstengdur? Er spurt um hvað við höfum gert – afrekað í lífinu – þegar komið er að uppgjöri lífsins?

Guðspjallið

Maður kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum sem fylgdi Jesú jafnan en var tilbúinn til að læra af honum. Nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf? Hvað á ég að gera?

Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri með fermingarbörn í tíma. „Hver er góður? Jú Guð. Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki, að svindla ekki á öðrum og virða foreldra þína.“ Og maðurinn skilkdi og kunni allt og sagði eins og satt var. „Ég hef gætt alls þessa.“ Jesús horfði á manninn með elskusemi og samúð og vissi að hann passaði sig í öllu sem hann gerði. Og svo bætti Jesús Kristur við og þar kom Salómonsdómurinn: „Eins er þér vant – bara eitt sem vantar upp á: Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.“ Hljóp maðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann sneri örvæntingarfullur frá. Skýringin í guðspjallinu er að hann hafi átt miklar eignir.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég komist inn? Við skiljum alveg engilinn í Gullnahliðssögunni. Við árangurstengjum.

Ef stjórn og forstjóri í fyrirtæki skila ekki hagnaði eða klúðra málum er farið að velta vöngum yfir að skipta út og síðan er fólk rekið þegar illa gengur. Eins og hjá Volkswagen í síðustu viku. Þar voru óheilindi opinberuð sem koma til með að kosta fyrirtækið svo mikla fjármuni að það verður beiglað og fer jafnvel á hausinn. Stjórnendur stýrðu Volkswagen út af.

Við viljum alls ekki að lífeyrissjóðurinn sem við greiðum í sé rekinn með halla, heldur að ávöxtun þeirra sé góð og haldi til elliára. Við viljum – þegar við leggjum á okkur mikið erfiði í einhverju – að við getum notið árangurs. Og við getum alveg samþykkt að þegar sjóðir veita styrki til verkefna að þá sé þegar við upphaf gefin markmið sem unnið er að og síðan metið hvernig hafi tekist til. Allt nútímasamfélag okkar á Vesturlöndum snýst æ meira um hvernig peningalegar forsendur eru gefnar og afleiðingar og árangur mælist.

Allt sem hindrar

Hvað á ég að gera? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Og Jesús horfði á hinn unga, heiðarlega og ríka mann og benti á eina veika blett hans: „Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt.“

En af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki? Var hann á móti því að fólk færi vel með? Nei, svo sannarlega ekki – nema að það yrði til að hindra fólk í Guðstrúnni, hindra fólk á leið hamingjunnar. Svo einfalt er það. Ef það er eitthvað, sem hindrar þig í að vera Guðs, lifa Guði, fylgja Jesú, er það eitthvað sem þú þarft að losa þig við.

Verkmennið

Hvað á ég að gera? spurði hann. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins.

Á þetta við um okkur og aðstæður okkar? Athafnakapp á liðinni öld varð til að fræðimenn fóru að tala um nútímamanninn sem homo faber – verkmenni. Erum við of önnum kafin? Er þjóðfélag okkar fremur vinnustaður en samfélag? Við hömumst í vinnu til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðar aðstæður. En svo komumst við að því á einhverjum dimmum haustdegi lífsins að hamingjan er gufuð upp, heilsan farin og lífið brenglað. Við hömumst í vinnu til að komast áfram og svo uppgötvum við að vinnan er leiðinleg og vinnugleðin þverr. Við gefum maka okkar hluti þar til við uppgötvum að hann eða hún vill bara ást, tíma og samfundi.

Vera eða gera

Við hömumst við að gera en gleymum oft að vera. Að vera er aðalmál lífsins. Hamingjan er ekki í hasarnum heldur að vera. Og að vera er að lifa í samræmi við það besta í sjálfum sér, bregðast við erli daganna með jákvæðni, opna vitundina gagnvart lærdómi í öllu því sem lífið færir okkur, hinu þægilega en líka hinu erfiða (per ardua ad astra er forn viska). Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna.

Að vera er verkefni allra manna og á sér þar með trúarlega vídd. Jesús minnir á að köllun mannsins er að fylgja honum, trúa honum. Viljum við það? Viljum við vera – vera Guðs? Eða viljum við kannski fremur hafa veröldina eins og kjörbúð og veljum bara og stingum því í körfu okkar sem okkur hugnast best? Að vera í Jesúskilningi er það að velja Guð og taka afleiðingum þess.

Gera eða að vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og þar með allra trúmanna. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Lúther, eins og allir hinir siðbótarmennirnir, hafnaði algerlega þeirri slæmu kenningu að maðurinn þyrfti að gera þetta og gera hitt til að þóknast Guði og tryggja himnaförina. Það var Jesús Kristur sjálfur sem gerði allt sem þurfti. Það þurfti ekki að gera neitt í lífinu eða dauðanum – ekkert annað en að vera Guðs. Það er valið mikla. Það er val ástarinnar, það er lífsins val. Það er val Guðs. En skiptir þá engu hvað við gerum. Jú svo sannarlega. Öllu máli skiptir að hafa röðina rétta og hún er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn.

Hvort viltu vera eða gera?

Prédikun í Hallgrímskirkju 4. október, 2015, 18. sd. eftir þrenningarhátíð.

Líf eftir dauða?

Trúirðu að foreldrar þínir og ástvinir lifi eftir dauðann? Hvert ferð þú þegar þú deyrð? Ferðu til Guðs eða eitthvað annað eða bara ekki neitt? Telur þú að lífið slokkni þér endanlega þegar þú tekur síðasta andvarpið og þú sameinist bara moldinni eftir greftrun og framhaldslíf þitt sé minning ástvina og efnið í moldinni? Og ekkert meira en það?

Skelfilegt?

Fyrir rúmlega einni öld síðan var maður á ferð austur í Skaftafellssýslu. Karlinn var slompaður á hestbaki. Hann kom að stóru fljóti og ætlaði yfir. Ekki tókst þó betur til en svo, að hann datt af baki og í ána. Samferðamönnunum tókst að ná manninum upp úr vatninu, en þegar hann var kominn á þurrt hafði hann misst meðvitund. Farið var með manninn heim í næsta bæ. Blaut fötin voru dregin af honum og svo var honum skutlað upp í rúm í hvítmálaðri stofu á bænum. Allt í einu bárust skerandi skelfingaróp úr rúminu í stofnni. Heimamenn spurðu: „Hvað er að, hvað er að?“ Karlinn lét af ópunum og svaraði stjarfur: “Þegar ég vaknaði í þessari hvítu stofu varð ég svo hræddur – hræddur um að ég væri dáinn og kominn til himins. Þess vegna æpti ég.”

Skaftfellskum heimildarmanni mínum fannst hlálegt, að maðurinn skyldi vera svona skelfdur yfir vera kominn inn í himininn.

Ertu hræddur eða skelfd? Við himininn eða við dauðann? Svo getum spurt okkur um hvaða mynd menn gera sér af himneskum vistarverum. Eru þær hvítar eða annars litar?

Systkinin í Betaníu
Systkinin í guðspjallssögu dagins bjuggu í þorpinu Betaníu og höfðu tilefni til að endurskoða hugmyndir sínar um líf og dauða. Lasarus, bróðir hinna frægu systra Maríu og Mörtu, dó. Jesús hafði vitað af dauðastríði vinar síns en flýtti sér þó ekki. Þegar hann kom loks var nályktin megn. Marta var Jesú reið og ávítaði hann: „Ef þú hefðir verið hér, væri hann ekki dáinn.“ Síðan kemur þetta kostulega samtal þar sem Marta, sem er fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og lækninga, talar á svig við Jesú, sem var með hugann við allt öðru vísi lækningar en syrgjandi systirin. Jesús beindi sjónum að því, sem er að baki sjúkrablæjum og líkklæðum, já veröldinni allri. Beint inn í kjarnann, að því sem öllu skiptir og svo kom hin altæka yrðing: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji.“ Og þar með er tvennan ljós, annars vegar maður og hins vegar Guð-maðurinn. Marta var á slóðum tímans en Jesús var með hugann við hvernig eilífðin hríslast inn í atburði tímans. Marta slengdi upp mynd hins hversdagslega vísdóms en Jesús lyfti upp tjöldum eilífðar.

Elífa lífið
Hvernig hugsar þú um eilífa lífið? Einstaklingsmiðaðir gera sér einstaklingsmiðaðar myndir. Aðrir taka túlkunum og myndum, sem umhverfið hefur þegið í arf og gera að sínum. Það eru hefðbundnar eða hefðartengdar myndir. Og þar kennir margra ólíkra túlkana, sem eru tilraunir til skilnings og tjáningar. Semítar, íbúar á því svæði sem nú er Írak og Sýrland og víðar í Austurlöndum nær, gerðu sér dapurlega mynd af dauðraríkinu og þær hugmyndir höfðu áhrif á trú hinna fornu Hebrea. Egyptar gerðu rosalegar dauðamyndir, sem eru síst eftirbátar hryllingsmynda nútímans. Stríðshetjur í norðri vildu gjarnan halda leikum áfram í Valhöll. Bændur aldanna hafa séð í hringrás ársins mynd endurlífgunar. Indjánarnir töluðu um hinar eilífu veiðilendur. Spíritistískir yfirstéttar-Bretar á 19. öld þráðu himnaríkistúrisma, að ferðast um í veröldum himnanna þegar þeir dæju. Aðkrepptir múslimar vonuðu fangbragðasælu og kvennafjöld í þægilegu hitastigi handan mæranna miklu. Hvað þráir hinn svangi? Auðvitað að framtíðarlífið verði matarríkt. Hinn kaldi eða brenndi að hiti í dauðaríkinu verði bærilegt. Hinn auðmýkti þráir hásætið, hinn niðurlægði þráir hefnd. Hinn myrti og píndi, að réttlætið sigri. Þetta eru vonarmyndir og þær eru tjáning á þrá fremur en lýsingar á himni. Við hugsum og trúum í ljósi aðstæðna og reynslu. Og svo kallar hver tími og þarfir á nýjar nálganir. Tölvuvæðingin er dæmi um tækni, sem getur opnað nálgun og nýja himintúlkun. Nútíma tölvufólk getur skilið himininn sem ofurgerð vefs, sem sálirnar flakka á. Tölvunördinn getur varpað vonum sínum inn í sýndarheima, sem væru án nokkurra takmarkana og bandvíddarteppu. Allt vonarvísanir en ekki raunlýsingar. Hver er kjarni málsins?

Trúir þú þessu?
Systkinin í Betaníu vissu hvað kennimenn Gyðinga höfðu að segja um eilífðina. Sumir gyðinglegir trúflokkar gerðu ekki mikið úr framhaldslífi. Aðrir kenndu, að maðurinn lifði áfram. Marta trúði, að bróðir hennar mundi rísa upp á efsta degi. En Jesús var ekki upptekinn af því að uppfræða um eilífð, heldur tengja tíma og eilífð. Hann sagði einfaldlega: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyji.“ Og svo spurði hann Mörtu þeirrar spurningar hvort hún tryði þessu. Þá kemur játning hennar, sem hugsanlega á sér einhverja stoð í guðsdýrkun safnaðar frumkristninnnar: „Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Síðan vaknaði Lasarus. Í þeim gjörningi braust eilífa lífið inn í tímann og staðfesti trú Mörtu.

Sálarspeglar og manngildi
Jesús sá manneskjurnar að baki ásýnd þeirra og grímum. Hann lét aldrei ímyndir fólks blekkja sig eða hugmyndir þess rugla sig og aldrei kenningar þess flækja sig. Hann lagði lífsvísdóm í brjóst fólks, hann miðlaði siðviti og kenndi bænir. Hann sagði sögur um lífið – en svo kom hið sértæka, algera og altæka. Hann sagðist ekki aðeins vera fulltrúi eilífa lífsins, kennari í ferðafræðum himinsins eða gúrú í andlegum æfingum. Og það merkir að hann væri ekki aðeins vegvísir heldur vegurinn sjálfur. Hann væri ekki áttaviti eilífðar, heldur væri hann sjálfur upprisan og lífið. Þar skilur á milli kristni og annars átrúnaðar. Jesús Kristur er ekki draumur hins fátæka, ekki hitastillir hins brennda eða kalda, ekki dyravörður mustera munúðarinnar og ekki netþjónn sálarvers handanverunnar. Hvað þá? Hann sjálfur  er lífið, sjálfur leiðin. Í þessu er fólgin krafan um guðdóm og ávarpið til þín um trú.

Trúir þú þessu? spurði hann Mörtu. Sú spurning er jafngild núna og hann beinir henni til þín? Trúir þú þessu? Þú, sem átt bróður eða barn sem deyr, vini sem hverfa, maka sem fellur frá og foreldra sem deyja. Þú hverfur um síðir líka. Hver er ferðaleið þín og markmið? Trúir þú þessu, sem Jesús segir? Það skiptir máli hvaða mynd þú gerir þér af eilífa lífinu, hverju þú trúir og hverjum þú vilt treysta á leiðinni. Hver er þinn sannleikur, vegur og líf?

Frummyndin
Við gerum okkur myndir af lífi og eilífð. Er kannski ástæða að fara að baki bæði einstaklingsmyndum og líka menningarmyndum og inn í djúpmyndir, sem varða Guð?

Jesús opnaði algerlega nýja himinmynd og leiðina þangað með ummælum sínum: „Ég er upprisan og lífið.“ Í honum er eilífa lífið. Í því felst, að hann segir sig sjálfan vera frummyndina – hina eiginlegu mynd Guðs, sem við megum hverfa inn í og lifa í.

Guð stressar sig ekki yfir hvaða hugmyndir eða ranghugmyndir við gerum okkur. Guð leysir upp blekkingar þínar en heldur í þig – sér þig renna saman við frummynd Jesú Krists. Þegar Guð horfir á þig sér Guð þig í gegnum Jesú, sem segir enn: „Ég er upprisan og lífið.“ Hann segir, að hann sé frummyndin eina, sem allar myndir eru kópíur af. Getur þú játað með Mörtu? „Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Amen

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. september, 2015, 16 sd. e. þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían er úr Davíðssálmum

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.

Páll postuli skrifar í Filippíbréfinu:

..lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa. Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Guðspjall: Jóh 11.19-27
Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.

Mannaborg – Guðsborg

Mannaborg - Guðsborg
Mannaborg – Guðsborg – mynd SÁÞ

Listsýning Rósu Gísladóttur í forkirkjunni og á Hallgrímstorgi nefnist Borg Guðs. Það hefur verið gjöfult að skoða og íhuga þessa sýningu. Borg Guðs – heitið minnir á rit Ágústínusar kirkjuföður, kastalaborgir miðalda og rómantískar draumborgir 19. aldar bókmennta. Og minnir líka á þann rismikla sálm Marteins Lúthers: Þú Guð, ert borg á bjargi traust.

Verk Rósu eru fjölbreytileg. Á einum veggnum er gullglansandi helgiskrín sem vekur margar spurningar. Síðan eru tvær svífandi, samsettar himinborgir eða helgiheimar hangandi í loftinu. Þessar upphöfnu veraldir hafa hrifið ferðamennina sem príla upp tröppur til að skoða og taka myndir.

Annars vegar er tvenna klausturs í Armeníu og bæjarins á Keldum á Rangárvöllum. Nokkrir Armenar komu í heimsókn í kirkjuna fyrir skömmu og spurðu óðamála hvað þetta ætti eiginlega að þýða að setja líkan klaustursins, sem þau þekktu svo vel, með þessum ókunna bæ. Þeir róuðust þegar þeir fengu að vita að ermskir (armennskir?) guðsmenn hefðu komið í kirkjuerindum til Íslands fyrir öldum.

Hinum megin gangsins er þrenna stíliseraðra helgihúsa, mosku og sýnagógu í Berlín og Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þessi samsetta þrenna minnir á sameiginlega rót fléttu trúarbragða gyðingdóms, Islam og kristni. Öll hafa sprottið úr hinum hebreska átrúnaði og ritum.

Þegar fólk hefur beðið eftir að komast í lyftuna upp í turn hefur sýningin orðið mörgum þeirra dásamleg uppljómun. Það eru forréttindi að standa í röð með svo elskulega krefjandi listaverk allt í kring.

Spegillinn

Eitt verka Rósu er úti og fyrir framan kirkjuna. Það er hringspegill sem fólk gengur að og sér sjálft sig og alveg sama hvernig það hreyfir sig, sjálfsmyndin er þarna. Eins og Guð væri að horfa: „Þarna ertu, ég sé þig, þú ert fyrir augliti mínu, ég er þér svo nærri sem þú vilt, eða fjarri sem þú óskar.“ Marteinn Lúther notaði setninguna Coram Deo til að minna okkur menn á að við værum alltaf fyrir augum Guðs, frammi fyrir ásjónu Guðs. Og ein bóka Sigurbjarnar Einarssoar, sem einu sinni þjónaði þessum söfnuði, heitir Coram Deo – fyrir augliti Guðs.

Sýning Rósu hefur vakið þanka um návist hins guðlega í lífi fólks, spurningar um hvað geti verið og sé borg Guðs og hvernig. Ég gleðst þegar listaverk vekja viðbrögð en er hvað þakklátastur þegar þau kveikja tilvistarspurningar, bæta í menningarvefinn og stækka veröld fólks.

Fólk á ferð

Fólk kemur í þessa kirkju og sækir landið heim. Íslendingar eru á ferð um land og heimsbyggð. Fólk er á ferð. Söngsveinar, drengir, frá Fjóni í Danmörk koma til að gleðja okkur með söng sínum. Í samræmi við ferðagleði tímans er á dagskrá þessa messudags ferðatexti úr Nýja testamenntinu. Jesús er á ferð til Jerúsalem. Við heyrum lýsingu einhvers sem hafði orðið vitni að biblíulegu uppþoti í ferðahóp Jesú. Ferðafélagarnir höfðu ólíkar skoðanir. Jesús tjáði stefnu sem Pétur, vinur hans, var ósamála. Pétur skammaði m.a.s. Jesú og vildi umsnúa honum. Og hvað var svona skammarlegt? Ekki að Jesús væri á ferð til borgar Guðs, Jerúsalem, heldur ferðarerindið. Jesús talaði um að hann að myndi deyja.

Það var sú dauðastefna sem gekk fram af Pétri. Hann vildi skiljanlega Jesú fremur lífs en látinn. Hann batt vonir sínar við menningarlegan, trúarlegan og pólitískan frama Jesú og skildi hlutverk hans sínum skilningi og vænti mikils. Því bæði reiddist hann og hræddist ferðaplan Jesú Krists. Orð Jesú um að hann færi til borgarinnar til að láta lífið taldi Pétur ekki aðeins lélegan húmor, heldur óábyrgt tal.

Vík burt Satan

Pétur var allt í einu kominn í hluverk fjölmiðlaráðgjafa sem bannaði aðalmanninum að tala frjálst. Jesús var á leið til borgar Guðs með dauða í huga og hjarta – en Pétur var hornóttur og skömmóttur. Viðbrögð Jesú eru mikil og hann segir við sinn besta vin og félaga: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Pétur – þessi sem Jesús útvaldi til að verða hornsteinn heimskirkjunnar – er allt í einu kominn í hlutverk djöfulsins – orðinn hið illa. Það er rosalegt, sjokkerandi og íhugunarvert. Eigum við að afskrifa þetta sem pirring Jesú? Var hann bara í örgu skapi og skeytti sér á þeim sem næstur var? Eða var annað og meira að baki?

Ég held ekki að Jesús hafi allt í einu álitið að Pétur væri djöfullinn. Ég held ekki heldur að hann hafi verið fúll og skeytt skapi sínu á vini sínum. Ég álít að þetta hafi verið ígrunduð setning og afstaða, sem varðar ekki einn karl í fornöld heldur líka okkur sem erum á ferð í þesari kirkju öldum síðar, alla ferðalanga sem hingað koma, öll þau sem horfa á Guðsborgarverk Rósu, mannabörn heimsins. „Vík frá mér Satan“ er setning sem á við okkur öll, er eins og sjónskífa Rósu úti fyrir kirkjunni. Við erum fyrir ásjónu Guðs. Viltu vera á réttum vegi? Tekur þú sönsum?

Möguleiki til djöfulskapar

Satan er ekki goðsöguleg vera sem sprettur einstaka sinnum fram í vondu fólki. Við þurfum að temja okkur lifandi sýn varðandi hið illa og veruleika þess. Goðsagan er óþörf en mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir möguleika okkar allra til ills. Satan er tákn, safntákn fyrir allt það sem hindrar líf, gæsku, gleði, hamingju og trú fólks í þessum heimi. Ég get orðið Satan þegar ég set sjálfan mig í gegn Guðs góða vilja og að fólk og líf fái notið sín. Þú getur orðið Satan þegar þú horfir of smátt á sjálfa þig eða sjálfan þig, vilt ekki njóta þess góða sem Guð gefur þér alla daga, hindrar hið góða vegna eigin hags, þegar þú vilt ekki horfast í augu við að Guðsríkið skiptir mestu máli í öllu lífi, öllum heimi – líka þínum.

Val okkar alla daga

Við höfum tilhneigingu til að einfalda orð og verk Jesú Krists og taka einfeldningslega því sem hann sagði. Við gleymum oft að orð hans skírskota til lífs allra manna á öllum öldum, líka mín og þín. Erindi hans í texta dagsins varðar ekki aðeins Pétur í líki örvæntingarfulls fjölmiðlafulltrúa, heldur þig í þínum aðstæðum. Viltu hlusta á erindi Guðs við þig? Ef þú hugsar smátt, vilt bara þínar aðferðir, skilur of þröngt – ertu í svo alvarlegum aðstæðum að þær eru djöfullegar. Við getum í afskiptaleysi eða eigingjörnum aðgerðum orðið Satan í lífi fólks. Hið illa er ekki goðsöguvera heldur lifnar í sjálfhverfu fólks og öllum smásálarskap eða hroka. Guð er Guð lífsins en hið djöfullega eyðir lífi. Guðsborgin er borgin þar sem lífið fær að blómstra.

Verkin hennar Rósu eru hvatar til menningarlesturs og sjálfskoðunar. Orð Jesú eru vakar til lífs. Þú getur gotið augum til listaverkanna, horft á þig í speglinum og skellt skollaeyrum og látið þig litlu varða. Þú getur einnig afskrifað orð Jesú sem pirring og fýlutal – en þá ferðu jafnvel á mis við lífið og þitt eigið sjálf. Má bjóða þér að horfa, hlusta og upplifa hið merkilegasta?

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Þannig mælir Jesús Kristur. Lifir þú í Guðsborginni eða aðeins í mannaborg? Það er hin róttæka spurning hvers dags í lífi okkar.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, 5. júlí, 2015.

Textar fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð. Textaröð B.

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn: Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér. Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg skaltu vera munnur minn. Þá leita menn til þín en þú mátt ekki leita til þeirra. Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg til að verjast þessu fólki. Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig því að ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?