Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Kristur er upprisinn

LífSprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?

Öryggi

Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.

Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.

Hátíð lífs

En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?

Kúbudeilan og móðursvör

Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!

Afstaða til lífsins

Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.

Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?

Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.

Textaröð: A

Lexía: Slm 118.14-24

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Þinn Jesús?

táningurinn JesúsMenn hafa leitað að Jesú um aldir. Sumir hafa fundið Jesú en aðra hefur Jesús fundið. En allir sem verða vinir Jesú túlka samskiptin með einhverjum hugmyndum, lýsingum og nokkrir síðan með kenningum um hver hann sé og hafi verið. Og nálgun fólks og kenningar eru með ýmsum hætti og hver samtíð þráir og túlkar ákveðin tengsl í samræmi við þarfir. Eitt sinn var það ímyndin af siðvitringnum sem hreif. Í annan tíma var það kraftaverkamaðurinn eða orðsnillingurinn. Í sumum kirkjuhefðum var lögð áhersla á fórnarhlutverk og endurgjald hins krossfesta, í öðrum á upprisuljóma páskanna. Kristur, hinn stríðandi konungur, höfðar til sumra einstaklinga, hópa og tíma. Mjúklátur mildingurinn er öðrum nærstæðari. Stundum hefur Jesús verið í mynd andófsmannsins og sósíalistarnir sáu í honum fyrsta kommúnistann, jafnréttisaktívistar skapandi frelsispostula og bróður hinna kúguðu og fátæku. Ó, Jesú bróðir besti. Myndir Jesú Krists eru margar. Hver er mynd þín af Jesú? Hvers leitar þú? Hvað hefur áhrif á þína Jesúmynd? Eru það þarfir, samfélagsstraumar, menningarviðhorf eða eitthvað djúptækt í þér? Ertu til í að hitta hann?

Fermingarstrákurinn Jesús

Guðspjallstexti fyrsta sunnudags eftir þrettánda fjallar um leit, margþætta og margvíslega leit. Fyrir það fyrsta voru María og Jósef að leita að Jesú. Reyndar er kostulegt, að það hafi tekið þau a.m.k. heilan dag að uppgötva að hann væri týndur. Margar skýringar eru til um af hverju þau voru svona sein að átta sig á stöðunni. Var Jesús vanur að týnast og kom alltaf aftur? Þau sneru við og voru svo þrjá daga að leita að strák. Að finna Jesú getur verið tímafrekt!

Jesús var orðinn 12 ára og bar eins og jafnöldrum hans að fara til Jerúsalem til að taka þátt í manndómsathöfn, hliðstæðu fermingar í okkar hefð. Jórsalaferðin var undirbúin og farin. Jesúfjölskyldan komst klakklaust á leiðarenda og sveinninn hefur gengið í gegnum ritúalið.

Síðan heimferð, konur og börn fóru gjarnan á undan körlunum, hvort sem það hefur verið vegna þess að þeir fóru hraðar yfir – eða að þeir höfðu einhver aukahlutverk umfram hin. Kannski voru þeir bara að skemmta sér! Við getum ímyndað okkur, að foreldrar Jesú hafi treyst strák, hafa haldið, að hann væri á heimleið, allt þar til þau María og Jósef hittust á leiðinni. Þá kom í ljós að hann var týndur og þau neyddust til að snúa við. Leitin hófst.

Jesús týndur

Hvernig lýsir maður eftir drengnum Jesú þegar hann týndist? Hvað gæti best lýst honum svo þau sem hefðu séð til hans kveiktu á perunni og seegðu? „Já, það er einmitt strákurinn sem ég sá.“ Tólf ára gutti, engin barnastjarna í Palestínu og því algerlega óþekktur. Ekki hafa þau sagt, að hann væri frelsari heimsins eða að hann væri mannssonurinn. María hefur ekki vogað sér að segja frá, að þegar hann hafi fæðst hafi harðstjórinn Heródes orðið svo hræddur, að hann hafi látið deyða alla nýbura á svæðinu sunnan Jerúsalem. Ekki hafa þau sagt, að hann væri herkonungurinn Messías. Það hefði sent þau beina leið í fangelsi Rómverja.

Væntanlega hafa þau bara lýst venjulegum unglingsslána, íhugulum og spyrjandi. Þau hafa kannski óttast að búið væri að limlesta hann eða jafnvel myrða. Allir foreldrar geta sett sig í þeirra spor, ímyndað sér kvíðann. Í hverju hafði hann lent? Hvað hafði komið fyrir? Hafði hann gert eitthvað af sér?

Þau hafa farið á lögreglustöðina. Nei, enginn hafði rekist á hann. Þau þekktu leitandi hug hans og hafa vonast til, að hann kynni að laðast að guðsmönnunum og því farið í musterið. Viti menn, sat ekki Jesús þar eins og prútt fermingarbarn, spurði greindarlega, reyndi fræði þjóðar sinnar, ræddi álitaefni í trú og siðferði og vildi svör! Saga dagsins er því ekki morðsaga eða saga um aula vikunnar, heldur heillandi þroskasaga um skarpan ungling í leit að svörum við rosalegum spurningum. Hvað hann borðaði og hvar hann svaf vitum við ekki. Síðar minnti hann á, að matur hans var nú að gera vilja þess, sem sendi hann. Og mannsonurinn væri heimilislaus og ætti engan höfuðhvílustað.

Leit Jesú að eigin sjálfi

Hvað ræddi unglingurinn við fræðimennina? Hann vildi skýringar, ekki aðeins á pólitík eða menningarmálum, á trúarlegum skyldum, heldur á enn róttækari málum, hver hann sjálfur væri. Jesús óx örugglega ekki upp með einhverja barnatrúarvissu um, að hann væri Messías, frelsari heimsins, læknirinn besti, ljós heimsins, brauð veraldar o. s. frv. Hann bjó í smiðshúsi í Nasaret, reyndi að fá botn í hvað grunurinn í djúpum hugans merkti, hvað upphaf hann hefði og hvernig hann gæti brugðist rétt við í upplifunum, af hverju máttur hans stafaði og hvað hvötin merkti. Kannski hefur mamman talað við hann um reynslu sína og vangaveltur. Kannski hefur Jósef líka rætt málið og frændfólkið minnt á sérstakar aðstæður í frumbernsku. Svo hefur lífsreynslan bætt í sjóðinn.

Hann vildi svar við meginspurningunni: Hver er ég? Til hvers lifi ég og hvert er hlutverk mitt í lífinu? Guðsmennirnir gátu veitt honum sértæk svör um ákveðin atriði, en hann varð sjálfur að vinna úr efninu, og marka stefnu sem vörðuðu sjálf hans, þetta sem við getum kallað sjálfsskilning og þar með lífsstefnu. Jesús átti val, naut algers frelsis. Heillandi saga um ungan mann í leit að lífsstefnu.

Foreldrar fundu – en unglingur Guð

Meðan foreldrarnir leituðu að unglingnum var Jesús að leita að sjálfum sér. Þau fundu tryggan og góðan son, en hann fann Guð hið innra, í sjálfum sér. Svör hans við spurningum foreldranna virðast harkaleg en skiljanleg, þegar guðsvitund Jesú og vitund um hlutverk og köllun er höfð í huga. Nokkra þætti í sjálfsvitund Jesú getum við greint í ræðum hans. Á henni byggir síðan íhugun guðfræðinga og trúmanna um allar aldir.

Þegar við förum yfir guðspjöllin sjáum við, að sagan um unglinginn í musterinu er eina bernskufrásagan um Jesú. Engin önnur saga frá æsku Jesú og unglingsárum er til. Jólasöguna og upphafssöguna þekkjum við og næst á eftir henni kemur svo þessi musterisferð og leitin að Jesú. Síðan ekkert annað fyrr en meira en löngu síðar, þegar Jesús byrjaði starf sitt með formlegum hætti. Við eigum því enga ævisögu Jesú í guðspjöllunum. Til að fá fyllri mynd verður að leita í aðrar heimildir utan Biblíunnar, s.s. Tómasarguðspjall. En margir hafa efast um heimildagildi þess og annarra rita um Jesú, þ.e. utan Biblíunnar.

Jesúveruleikinn

Guðsvitund Jesú var ríkuleg, en hann hafði meiri áhuga á lífsiðkun en að skilgreina sjálfan sig fræðilega. Hann hafði minni áhuga en miðaldaguðfræðingar á frumspekilegum skilgreiningum. Við vitum ekki hvað María sagði honum. Enginn Biblíufræðingur mun halda fram að Betlehemsatburðirnir séu lýsandi sagnfræði. Allt er þetta á sviði táknmáls.

Sjálfsvitund helstu jöfra menningarsögunnar er eitt og hugmyndir fylgjenda stundum aðrar. Sjálfsvitund Jesú er um margt greinanleg, en þó er margt á huldu.

Björgin góða

Forsenda þess, að við getum gengið inn í guðsreynslu og innlífast guðsveru Jesú, er að við viðurkennum okkar eigin leit, sem er æviverk, förum í musterið með honum, göngum inn í angist hans og líka traust. Er Jesús forgöngumaður, vinur þinn, bróðir sem heldur í hendi þína?

Hver er Jesús? Jesús er í húsi föður síns. En finnur þú hann þar? Þú finnur hann ekki í fræðunum um hann. Ég get útlistað kenningarnar um hann, en aðeins þú getur farið og fundið hann, lifandi persónu. Að trúa er persónulegt mál, það að hitta Jesú og verða vinur hans. Það gerir enginn annar fyrir þig.

María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim, við leitum að ákveðnum Jesú, en svo mætir okkur annar. Þar er viskan, þegar við gerum okkur grein fyrir, að við finnum annan en við leitum að. Jesús er meira en ímynd okkar af honum, líka annað og meira en ímynd guðfræðinnar um aldir. Mannleg orðræða og lýsingar spanna aldrei það sem er guðlegt.

María og Jósef spurðu hvort menn hafi séð Jesú. Spurningin í nútíð okkar varðar ekki hvar hann er, heldur hvort og hvernig hann lifir meðal okkar og í okkur. Líf okkar varðar hvort við erum vinir Jesú Kristi og leyfum honum að vera Guð í okkur. Algert frelsi, algert val. Gildir fyrir alla, mig og þig.

Prédikun í Hallgrímskirkju 9. janúar, 2016.

Lexía: Slm 42.2-3

Eins og hindin þráir vatnslindir

þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,

hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Pistill: Róm 12.1-5

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.

Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Guðspjall: Lúk 2.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Ó, Guð vors lands – hvar?

ljóskrossÓ, lands vors Guð. Hver og hvar er hann? Ertu í sambandi við þann Guð sem hefur tímaflakk á valdi sínu? Hverjir lofa hið heilaga nafn? Er það til einhvers? Og hvað munu þúsundir Íslendinga syngja í Frakklandi þegar landsleikir Evrópumótsins byrja? Lofsöng til Guðs! Og þeir munu leggja allt í sönginn og líka í leikinn. En hvað með trúna og stöðu hennar í samfélagi okkar. Trúin er ekki dauð heldur sækir fram – og Guð heldur áfram að elska þig og allan heim – hvaða afstöðu sem þú hefur.

Trúin á innleið

Kirkjusókn um þessi jól var víða mjög mikil. Hallgrímskirkja er stór helgidómur en í guðsþjónustum á aðfangadagskvöldi var stemming í kirkjunni, hvert sæti skipað og margir stóðu – og mál starfsfólks að aldrei hafi jafn margir komið og þessi jól. Ekki veit ég hve stór hluti þjóðarinnar sótti í kirkjur Íslands á þessari hátíð, en víða var aukning á kirkjusókn miðað við undanliðin ár. Fólk í jólaboðum spurði af hverju koma svona margir í kirkju? Er kannski aukinn trúaráhugi meðal þjóðarinnar? Er trúin á innleið í samfélaginu en ekki útleið?

Molnun – samstaða

Í samtölunum í skírnarveislum, fjölskylduboðum og jafnvel erfidrykkjum í liðinni viku hafa viðmælendur mínir teiknað upp fyrir mér breytt Ísland. Að allt fljóti – segja þau – fólk segi skilið við hefðbundnar hugmyndir um stjórnmál, menningarmál og trúmál. Æ stærri hluti Íslendinga sé á breytingaskeiði hugmyndanna. Þeim fjölgi sem segi skilið við hefðbundna flokka, stofnanir og hugmyndakerfi. Kirkjan verði fyrir sömu breytingum. Hafi einhvern tíma verið til einsleit menning Íslendinga sé hún að baki og  merkingarkerfi og menning Íslendinga hafi brotnað í marga mola.

Einn sagði:  „Kirkjusóknin vex því hluti þjóðarinnar stendur með kristni og fólk gerir sér grein fyrir gildi trúar og kristinnar siðfræði.“ Ein var á því að andstæðurnar yrðu meiri í samfélagi okkar. Sá hópur stækkaði sem berðist gegn trú, en hinn hópurinn efldist líka sem gerði sér grein fyrir að trú væri svo mikilvæg einstaklingum og samfélagi að slá yrði skjaldborg um líf hennar. Er menningin brotin og aðeins eftir menningarkimar sem ekki tala saman heldur berjast um völd og áhrif.

Trú: Samtöl og umfjöllun

Mér kom reyndar ekki á óvart að kirkjusókn myndi aukast því á þessu ári sem er að líða hef ég heyrt í svo mörgum sem hafa tjáð samstöðu um trú og gildi í samfélagsbreytingum. En ég hef líka hlustað á fólk tjá andstöðu við trú og orðað efasemdir um kirkjuna. Ég hlusta, ræði málin og deili helst ekki við fólk um trú því það rímar illa við mannvirðingu kristins manns. Ég hef líka þjónað mörgu fólki á árinu sem hefur ekki farið í felur með guðleysi sitt. Það er ákvörðun í hvert sinn að óska skírnar barns og foreldrar ekki alltaf sammála. Og útför í kirkju er ekki sjálfsögð.

Mér virðist ákveðin breyting hafi orðið í borgarsamfélaginu. Í samtölum í tengslum við athafnir, kemur í ljós að æ færri fela hugmyndir sínar. Þau sem eru ekki guðstrúar ræða oft afstöðu sína til trúar við prestinn. Trú eða trúleysi eru ekki lengur feimnismál og í öllum fjölskyldum eru ólíkar skoðanir og trúarhugmyndir. Skoðanafrelsi er mannfélaginu dýrmætt og þarf að verja. Tjáningarfrelsið er gull samfélags.

Samfélagsmiðlarnir

Umræður um trúmál hafa aukist á samfélagsmiðlunum. Sumt sem þar er sagt er af viti, annað léttvægt. Nokkur hella úr koppum yfir kirkju og trú og ljóst að sumt af því er óuppgerð reiði vegna einhvers annars en kirkju. Almennt er til bóta að trú og umræður um átrúnað hafi verið leyst úr viðjum hafta og þmt. tabúa. Að ræða um trú á forsendum kirkju eða átrúnaðar þjónar ekki sjálfkrafa Guði. Guð er óbundinn og frjáls og við eigum að leyfa okkur frelsi í trúarhugsun okkar. Marga hef ég heyrt gagnrýna þjóðkirkjuna en ekki þar með hafna trú eða Guði. Og þarft er að greina á milli kirkjustofnunar og trúar. Hver stofnun og mannlegt fyrirtæki gerir mistök sem á að gagnrýna. Þjóðkirkja er ekki hafin yfir gagnrýni, ekki frekar en dómstólar, Alþingi, sveitarstjórnir, hreyfingar og fyrirtæki. Þjóðkirkjan á ekki að fara í vörn, þarf að bæta starf sitt og breytast eins og hinar hreyfingarnar og stofnanir samfélagsins. Kristin guðfræði hefur alla tíð kennt af raunsæi að menn séu sjálfhverfir og breyskir. Trúmenn eru jafn ófullkomnir og aðrir menn. Lifandi kirkja sem vill þjóna fólki í framtíð fagnar því rýni til gagns.

Út úr almannarýminu?

En svo eru hins vegar til árásir á trú og guðstengsl sem hafa ekki með skynsemi eða raunveruleika að gera. Vaxandi hópur samfélagsins hefur óþol gagnvart hinu trúarlega, fer á límingunni þegar trú kemur við einhverja sögu. Mikið hefur verið rætt um samskipti kirkju og skóla á liðnum misserum. Tilgangur margra þeirra sem hafa hæst er að ýta málum trúar út af stóra sviði almennings og inn á litla svið heimilis og einkalífsins. Trú sé eins og kynlíf, það eigi bara að iðka innan vébanda einkalífsins. Það er auðvitað rétt að trú er mjög persónuleg en hún er þó allt annars eðlis en kynlíf og mun aldrei lúta líkum reglum. Trúin leitar alltaf inn á torg mannlífsins vegna þess að trú er samfélagsleitandi, leitar til margra. Trú verður aldrei ýtt inn fyrir dyr og glugga hins einkanlega því eðli trúar er samfélagsskapandi. Þegar reynt er að þrengja að trú sprengir hún af sér fjötra og teygir hendur til fólks.

Í íslenskri kristni hefur um aldir verið alið á mannvirðingu. Passíusálmar, Vídalínspostilla, hugvekjubækurnar og sálmarnir kenna fólki að virða aðra og bera hag þeirra og samfélags fyrir brjósti. Siðfræði kristninnar hefur kennt í þúsund ár að menn eigi að virða mannhelgi hvers manns. Eitt af því gæfulegasta og gleðilegasta í samfélagi Íslendinga síðasta áratuginn er að nú ríkir sátt meðal okkar um að virða kynhneigð fólks. Það er vel því allir eiga að njóta manngildis og öllum á að sýna mannvirðingu. En þegar kynhneigð fólks er virt er stækkandi hópur sem gerir gys að, tortryggir og hæðist að trúhneigð fólks og trúariðkun. Þegar tabúin losna varðandi kynhneigðina er hópur að reyna að þrengja að trúnni og troða inn í skáp þöggunar. Það er sorglegt því engum líður vel í skápum. Samkynhneigðu fólki leið ekki vel þar. Trúmenn – og allt heilbrigt fólk – óskar eftir mannvirðingu en ekki mannfyrirlitningu, marglitu samfélagi en ekki einlitu, opnu en ekki þröngu.

Trúin í lífinu

Á árinu 2016 munum við ekki aðeins vinna, borða, elska, kjósa og elta fótbolta í Frans. Við munum búa við hernað, hermdarverk, flóttafólk og líka fólk með óþol gagnvart trú. Við munum sem einstalingar og hópar taka skref og jafnvel ákvarðanir um mörk trúar, hvar trúin má vera og hvernig hún eigi eða geti blandast samfélagsvefnum. Við getum lagt niður eða eytt trúarstofnunum en enginn einræðisherra heimsins eða menningarafl megnar að útrýma trú. Það er virðing við trú að reyna hana með rökum en mannfyrirlitning að reyna að ýta henni út af rönd samfélagsins. Flestir heilbrigðir menn leita að lífsdýptum og margir finna engan frið fyrr en í tengslum við þann mátt sem trúmaðurinn kallar Guð.

Á lokadegi ársins gleðst ég yfir hversu víða er talað um trú og hve margir vilja ræða um hvað er gilt og hvað er úrelt. En þegar rætt er um framtíð íslensks samfélags með aukinni menningarlegri fjölbreytni, fjölgun innflytjenda til landsins og æ meiri blöndun, er mikilvægt að taka upplýst gæfuskref. Við gerðum mistök í efnahagsmálum sem leiddu til hruns. Og við höfum ekki efni á að gera menningarleg misstök með því að ana fram af samfélagslegri einfeldni. Allir verða að beita sér með viti og yfirvegun í málum menningar og trúar. Hið mikilvæga er að viðurkenna að trú gefur einstaklingum stað, gildi og stefnu, áttvísi í veröldinni. Og slíkir leita inn í almannarými með siðvit sitt og afstöðu. Trú er mál torgsins.

Opna – loka – torgþrá – skápur

Viljum við menningarlega einsleitni? Viljum við banna erlendu fólki að koma til landsins? Einangrunarhyggja er ekki til gagns. Það er til farsældar að íslenskt samfélag megi njóta hins besta úr menningu heimsins en afar mikilvægt að skera burt hið illa, hvort sem það er innlend vitleysa eða erlend. Mannvirðing er mikilvæg og mannfyrirlitningu á ekki að líða.

Við höfum tvo kosti hvernig við viljum skipa trúmálum okkar í framtíðinni. Annar kosturinn er að þrengja að hinu trúarlega og ýta iðkun hennar inn á svið einkalífsins. Ef trúnni er hins vegar þrengt í skápa samfélagsins, henni haldið í gettóum, elur hún bókstafshyggju, þröngsýni og þegar verst lætur ofbeldi. Trú og trúariðkun þarf að vera hægt að skoða og skilgreina.

Hinn kosturinn er að virða torgþrá trúar og sókn hennar inn í almannarýmið. Trú þarf að fá að dafna í almannarýminu til að þroskast með heilbrigðu móti. Trú leitar alltaf inn í miðju samfélags og menningar. Trú getur vissulega lifað á jaðrinum. En vegna þess hve umbreytnadi, lífsfyllandi og gefandi Guðsnándin er mörgum sækir trúin í mannlífsmiðjuna. Í trú er fólginn kraftur til góðs. Í almannarýminu er hægt að tala um trú, greina hana og gagnrýna til góðs, rökræða hana, grínast með hana og gleðjast yfir fjölbreytni hennar og lífsgæðum.

Flóttamenn koma til okkar með ólíka menningu, trú og siði. Hvað viljum við gera þessu fólki? Viljum við búa til skápa, menningarkima, sem eru aðgreindir og lokaðir frá öðrum kimum íslensks samfélags?

Heimsbyggðin verður æ tengdari. Átök í Asíu og Afríku hafa bein áhrif í París og Reykjavík. En það er okkar eigið val er hvort við veljum að lifa sem opið, gagnrýnið samfélag eða lokað og aðþrengjandi þjóðfélag. Hvort er betra? Hvort hentar lífi og fólki betur?

Söngur þjóðar

Svo eru áramót. Við syngjum þjóðsönginn og á stóru stundum Íslands. Þessi mikli söngur þjóðarinnar opnar gáttir og víddir til dýrðarsmáblóma landsins, til ofurfléttu tíma og sólkerfa. Guð vors lands og lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Sú trú verður ekki lokuð í skáp heldur leitar hún út í víðerni náttúru, mannheima, alheims. Guð kemur til þín sem trúir á Guð, vilt trúa á Guð, finnur fyrir guðlegri nánd í náttúrunni og upplifir eitthvað dásamlega guðlegt í lífinu.

„Með Jesú byrja ég, með Jesú vil ég enda.“ Guð geymi þig á nýju ári og varðveiti þig, heima, á torgum, í áhorfendastúkum, skólum, búðum, í vinnu og samskiptum og gefi þér trú og mátt til að lifa í mannvirðingu og sátt við þitt eigið sjálf, fólkið þitt, heimsbyggðina og Guð.

Guð gefi þér gleðiríkt ár.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju við áramót. Aftansöngur 31. desember, 2015. Hljóðsrká fra´RÚV er aðgengileg um tíma á bak við þessa smellu.

Heillakarlinn Jósef

Owen Jones - Jósef dreymir
Þegar fólkið þitt spyr þig heima á eftir: “Hvernig var í messunni í kirkjunni?” þá getur þú svarað: “Það var alger draumur!” Jú, vegna þess að í dag íhugum við drauma í fornöld, draum Guðs og svo þinn eigin draum. Hver er hann? Hvað dreymir þig?

Jósef kemur í ljós
Við þekkjum aðalfólkið í jólasögunni, Maríu, hirðana, englana og svo auðvitað sjálft Jesúbarnið. Og kannski eru það María með barnið í fanginu sem við sjáum fyrir okkur þegar hugur leitar inn í gripahúsið á jólum, inn í helgisöguna. Af öllum kirkjuferðum, jólasamverum, söngvum, sálmum og helgileikjum hefur síðast inn hverjar eru aðalpersónurnar og hverjar ekki. Í dag hugum við að einum sem er oftast í bakgrunni jólasögunnar. Það er heillakarlinn Jósef. Þó hann sé næstum ósýnilegur er vert að beina sjónum að honum.

Hvers konar karl var hann? Og getum við eitthvað lært af honum? Er hann fyrirmynd og til að læra af? Það var Jósef sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna næturkælunni að komast að því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar hún bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum en við vitum ekkert um hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í guðspjöllunum. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna
Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann er maðurinn á bak við konuna. Hann rataði siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósep hafði karlmannslundina í lagi.

Draumar Jósefs
Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til og aðrir einfaldari hefðu gert.

Svo dreymdi hann í Betlehem að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það vera maníukast að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði neitað að hlaupa svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Hann var tengdur djúpum og gildum og þorði að fara gegn almenningsálitinu.

Svo fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap og hlýddi þó það kæmi honum illa. Hann lagði í ´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að fara heim í þorpið í Galíleu (og stoppa ekki á Jerúsalemsvæðinu, nefnt Júdea í Nt.).

Fjórir draumar sem höfðu áhrif og urðu til að vernda líf og velferð fjölskyldu hans og þar með vernda uppvöxt Jesú Krists.

Draumafyrirmynd
Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru vissulega María og Jesús. En vert er að gæta að og taka eftir hinum trausta Jósef. Hann er flottur. Ég met mest hversu tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann sinnti eins og milljarðar fólks fyrr og síðar öllum hinum hversdagslegu skylduverkum eins og við hin – en hann átti í sér vilja og getu til að axla ábyrgð í vondum aðstæðum, efla þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumur Guðs
Draumar eru dýrmæti. Á jólum megum við gjarnan vitja stærsta draums veraldar, sem er stærri en okkar eigin draumur. Hver er hann? Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið var Guð að birta elskugerð veraldar, túlka drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig veröldina varða, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draums þíns
Jósef tók mark á draumum sínum. Hver er þinn draumur. Hvert er hlutverk þitt, hvað gerir þú til að lifa vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?”

Vegna þess að Jósef tók mark á draumum sínum bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Á hverjum jólum vitjar hann þín og spyr þig um leið þína og lífssamhengi. Nærvera Jósefs á öllum jólum er hljóðlát spurning um þinn draum, gleðiefni þín og köllun þína.

Þú mátt vita, að Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – draumur um lífshamingju. Jósef þorði – leyfðu draumi Guðs um þig að rætast. Það er draumur til lífs.

Amen

Íhugun á 2. degi jóla, 26. desember, 2015

Textaröð: A – Lexía: Jes 9.1-6

Sú þjóð, sem í myrkri gengur,

sér mikið ljós.

Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna

skín ljós.

Þú eykur stórum fögnuðinn,

gerir gleðina mikla.

Menn gleðjast fyrir augliti þínu

eins og þegar uppskeru er fagnað,

eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.

Því að ok þeirra,

klafann á herðum þeirra,

barefli þess sem kúgar þá

hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.

Öll harkmikil hermannastígvél

og allar blóðstokknar skikkjur

skulu brenndar

og verða eldsmatur.

Því að barn er oss fætt,

sonur er oss gefinn.

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,

hann skal nefndur:

Undraráðgjafi, Guðhetja,

Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Mikill skal höfðingjadómurinn verða

og friðurinn engan enda taka

á hásæti Davíðs

og í ríki hans.

Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,

héðan í frá og að eilífu.

Vandlæting Drottins allsherjar

mun þessu til vegar koma.

Pistill: Tít 2.11-14

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

Guðspjall: Matt 1.18-25

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.