Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Sjónskerpa og Biblían

Nú er orðið hægt að kaupa nýja og bætta sjón. Mörg hafa kastað gleraugunum og sum endanlega, losnað við að hreinsa kámug glerin og sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum. Leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra síðustu árin. Sögurnar um augnbætur sem ég hef heyrt eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru mörg sem hafa ekki fengið þá sjón sem þau þráðu. En þó er árangur aðgerðanna augljós. En framfarir í augnlækningum eru miklar og margir njóta. Leysiaðgerðir byggja á tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur líka í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýji skilningur og þegar best lætur hin nýja sjón.

Í dag er Biblíudagur. Af hverju skyldi klerkur vera að tala um augnlækningar? Hvað hafa undur í læknisfræði að gera með slíkan dag? Jú, sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt. Rétt og góð fræði geta gert kraftaverk. Það er einmitt það sem gildir í biblíumálunum líka.

Árnalestur

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku sem las Biblíuna sína reglulega og af alúð. Hann hét Árni Þorleifsson og bjó á Sjafnargötu hér sunnan kirkjunnar. Hann var vinur foreldra minna og vann við smíðar hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um Árna og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og hann kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur smíðað, lesið blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við sömdum um að ég skyldi verða honum augu. Ég fór til hans vikulega og las fyrir hann. Stundum vildi hann að ég læsi úr dagblöðum eða tímaritum en oftast að ég læsi upp úr Biblíunni. Þetta var ekki einhliða þjónustustarf gagn vart honum. Ég fékk innsýn í líf merkilegs manns og líka trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum en áfram lifði vitundin um trúarlíf manns sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar. Hann hafði leyft Biblíunni að móta sig og ég fékk innsýn í að öflug glíma við Ritninguna getur áorkað miklu og mótað persónudýptir fólks. Árni var heilagur maður. Ég uppgötvaði að öflugur biblíulestur getur skapað engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni hafði lesið allar sextíu og sex bækur Biblíunnar margoft og skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru. Hann vissi að Biblían væri bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum og að Biblían hefði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. En honum þótti vænna um Davíðssálmana en Orðskviðina. Helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú. Ég lærði hjá Árna Jesúfestuna og skildi betur síðar að allir biblíulesarar eiga sér hlið og líka leið inn í ritasafn Biblíunnar. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni og flestir hafa þörf fyrir bróður, vin og frelsara. Biblían er um allt fólk og hentar öllum en talar misjafnt til fólks.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna hefur gjarnan verið kölluð bíblíusýn. Nálgun fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei forsendulaus. Við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum líka og í hvaða hefð eða menningu við lifum. Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni og annað hvernig trúboðsstöð notar Ritninguna. Aðventistar túlka með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti. Því er þarft að staldra við og skoða hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar og hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til að skilja Biblíuna?

Bókstafshyggjan

En fyrst um bókstafshyggju sem hefur breiðst út í nútímanum. Það er skaðlegur lesháttur gagnvart Biblíunni og vert er að vara við. Bókstafshyggjan leggur áherslu á einfaldan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan leitar ávallt að óskeikulli leiðsögn og hefur afar takmarkaðan áhuga á táknrænum boðskap. Bókstafshyggjan hefur skert umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi breytast og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur það í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við og jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum. Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti við þekkingu og rannsóknir og að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags. Þá óttast bókstafshyggjumenn fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir. Þeir óttast oft útlendinga og gera þá tortryggilega, hræðast rökræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði sem á ensku eru gjarnan nefnd fundamentals hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs eða að Biblían sé vísindarit um sköpun heimsins.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Það er svart-hvít sjón. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni og sér bara svart, hvítt en stundum líka grátt. Bókstafshyggjan hefur haft gríðarleg og víða skelfileg áhrif í pólitík. En það er líka þarft að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni er til í öllum kimum heimsins, meðal allra menningardeilda og átrúnaðar og líka trúleysi. Bókstafshyggjan tengist gjarnan hræðslu, valdabaráttu og jafnvel hernaði. Menn læsast í hinni litblindu heimssýn, lífs- eð trúar-afstöðu, öllum til ills, heimsbyggðinni til skelfingar, trú til skaða og Guði til djúprar hryggðar. Guðsríkið er litríkt en bókstafshyggja er litblind.

Þekkingarbreytingar – sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er úrelt sjóntruflandi lestrargleraugu sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi því sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði sem menn hafa stundað við rannsókn Biblíu og trúarlífs hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar og mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists nú en nokkru sinni áður. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblía sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt og trúa á einn máta og túlka á einn veg. Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér hvorki kirkja né kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu að gerð og skrifum Biblíunnar. Góð fræði ógna ekki Guði heldur aðeins ímyndum okkar um Guð, fordómum okkar og hugsanlega eigin sjálfsmynd. Fólk sem horfir með augum trúarinnar þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, kirkju og trúfræði. Það er margt í arfinum sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar. Við megum muna að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.Kristinn maður trúir á Guð en ekki á Biblíuna.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og það sem við sjáum sé sködduð mynd og molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti. Það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar og skerpir mynd hins guðlega. Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt og sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir sem við köllum klassískar þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann hvernig hann vissi hvað hann ætti tala um í kirkjunni. Pabbinn svaraði að Heilagur Andi segði honum það. Strákurinn spurði þá að nýju: „En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?” Guðs góði andi starfar í og með dómgreind okkar. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn. Árni nafni minn og afi varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni sem er Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum og jafnvel sjóninni og samt séð hið dýrmætasta í Ritningunni. Ertu háður eða háð gömlu gleraugunum? Geturðu ekkert lesið nema hafa þau á nefinu? Stýra fordómarnir þér? Biblían er heillandi heimur sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Ný sýn er í boði, ný túlkun og ný biblíusjón. Má bjóða þér ný augu?

Biblíudagurinn. Jes. 55.6-13. 2Kor. 12.2-9. Lúk. 8.4-15.

 

Viltu lifa vel?

Við prestar þjónum mörgum þessa dagana – ekki aðeins í jólamessum og í áramótaguðsþjónustum – heldur í skírnum, útförum, með samtölum, sálgæslu og í giftingum og annarri kirkjulegri þjónustu. Við fáum að vera með fólki á stærstu stundum lífsins. Við heyrum margt stórkostlegt og verðum vitni að því þegar fólk tekur þroskaskref og sækir í hamingjuna. Þar er engin þöggun. Í gær skírði ég fallega stúlku og aðra fyrir þremur dögum síðan. Þegar ég horfði í augu þeirra brosti framtíðin. Þær og uppvaxandi líf hvetur okkur til að lifa vel. Þegar ég lít til baka hef ég séð fólk lifa fallega og elska. En á þessu ári hef ég hef líka furðað mig á hve margir dólgar eru í mannheimum og í okkar samfélagi. Hrottarnir eru ekki aðeins í Moskvu og hópi Rússa í Úkraínu. Þeir eru víða, jafnvel í fjölskyldum okkar, félögum og á vinnustöðum. Dólgar í samskiptum valda þolendum skelfilegum þjáningum. Ekkert okkar vill lifa við ofbeldi eða vanvirðu. Við erum kölluð til ábyrgðar sem er að bera góða ávexti í lífinu.

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður tímans. Jesús segir kennslusögu sem er skiljanleg líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré sem ekki ber ávöxt? Bændur og skógræktarfólk veraldar fella slík tré og nota til annars t.d. húshitunar eða í kokkhúsinu. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðursett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn. Jesúmeiningin er að Guð sé langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að lífi er ætlað að bera ávöxt. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og ráðamanna? Hvað með framtíðina?

Blessunin er alls konar

Við erum fædd til réttinda en líka til ábyrgðar og elskulegs lífs. Er forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís sem bara neytir og tekur til sín en skilar ekki ávöxtum. Er það, já erum við – á fjórða ári dómsins? Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð vakir yfir sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum, árásarstríðum, loftslagsvá og ástamálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda úreltrar tvíhyggju að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. Sú lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru og frið. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú þar með. Kristnin boðar heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Mengun náttúrunnar, stríðsátök og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í.

Hamingjuleitin

Í þjóðsögusafni Íslendinga er merkileg viskusaga sem tjáir sjúka en líka heilbrigða lífsafstöðu. Sagan túlkar raunar kristna siðfræði. Þjóðsögur eru ekki bara skemmtilegar heldur oft kennslusögur til að kenna fólki að lifa vel. Þær eru sumar dæmisögur til að kenna lífsleikni. Ein saga af því tagi er sagan af systrunum Ásu, Signýju og Helgu. Sagan er reyndar til í ýmsum útgáfum en grunnáherslan er sú sama. Í samþjöppun er sagan svona og með skýringum.

Eitt sinn voru karl og kerling og áttu dæturnar Ásu, Signýju og Helgu. Eldurinn dó í kotinu sem var mikið áfall og mun verra en að rafmagnið færi, allar tölvur rugluðust og símkerfið hryndi. Að eldur slokknaði var dauðans alvara. Því fór Ása elsta dóttirin til að sækja eld. Á leiðinni gekk hún fram hjá hól og heyrði talað úr honum til sín: „Hvort viltu hafa mig með þér eða móti“? Ása svaraði að sér væri alveg sama og hélt áfram göngu sinni. Að lokum kom hún að helli. Þar var lifandi eldur og pottur á hlóðum með kjöti. Þar var líka brauð. Þar sem enginn maður var sjáanlegur og stúlkan var hungruð borðaði hún kjöt og brauð en henti afganginum. Til hennar kom vinalegur hundur en Ása lamdi hann. Hundurinn brást hinn versti við og beit af henni hendina. Og Ása flýði eldlaus. Þá fór næsta systirin Signý af stað. Fyrir henni fór eins og systur hennar en hundurinn beit af henni nefið.Hin yngsta fór þá. Röddinni úr hólnum svaraði hún með því að segja: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“ Í hellinum sauð hún kjötið og bakaði brauðið en vildi ekki borða í leyfisleysi. Hún beið því húsráðanda sem leyfði henni að borða. Helga fékk að fara með eldinn. Heima fékk hún þó engar þakkir en síðar kom svo hellisbúinn til að sækja Helgu og gera hana að drottningu í ríki sínu. Hann var – eins og vera ber í góðu ævintýri – prins í álögum.

Hvað merkir svona saga? Til hvers að endursegja hana í kirkju við áramót? Líf okkar allra, hópa og samfélaga er samfelld leit að hamingju, velsæld, góðu mannlífi, lífsgildum, visku – já, öllu því sem getur gert okkur og fólkinu okkar gott. Starf og vinna okkar allra er sókn til frumgæða. Við leitum gleði og lífsfyllingar. Líf okkar er eldsókn. En hvað um annað fólk og lífríki jarðarkringlunnar? Eru þau markmið eða bara tól sem við megum fara vel eða illa með?

Viska aldanna er að við lifum í brothættu samfélagi og hlutverk okkar er ekki aðeins að uppfylla eigin þarfir eða fýsnir heldur þjóna líka öðrum. Djásn og dýrmæti eru vandmeðfarin og geta orðið til mikillar ógæfu ef við virðum ekki aðra, þarfir þeirra og gildi. Hamingja er ekki einkamál heldur samstarfsmál. Stundum breytumst við sjálf í tröll þegar við virðum ekki gerð okkar og vinnum með sjálf okkur. Við verðum að gæta að því að vera ekki dólgar í samskiptum. Foreldrar stúlknanna áttu – ef við færum til nútímans – hús, bíl, höfðu vinnu og allt þetta venjulega til að uppfylla grunnþarfir. En samt var allt í rugli og skralli. Heimilislífið var í upplausn og lífi fólksins var ógnað. Tvær systur af þremur voru hrokafullar. Ása og Signý voru dólgarnir en ekki sá sem virtist hættulegur.

Á vit hins djúpa – trúarlega

Systurnar í sögunni fóru ekki til nágrannana til að sækja eld, heldur á vit frumkraftanna og þar með á vit hins trúarlega. En þær brugðust ólíkt við. Þær eldri voru kjánar, voru sjálfhverfar og skeyttu ekki um lífsreglur. Þær misstu því hönd og nef. Þær náðu ekki markmiði sínu vegna frekju og höfðu að auki varanlegan skaða af. Helga fór leið hinnar markvissu og ábyrgu sóknar. Hún virti frumreglurnar, lét gott af sér leiða, missti ekkert og ávann allt. Þannig lifir gott fólk, þroskað og gott samfélag.

Eldsókn mannkyns er leit að því sem er rétt, til eflingar, menningarauka, réttlætis, friðar og mannbóta. Það sem menn öðlast til gagns er hið torsótta sem gefið er utan hins venjulega í einhverjum helli lífsreynslu eða stórviðburða. Það er mikilvægt fyrir þig að muna að í mestu erfiðleikum, sorg og lífsháska ertu á ferð til að sækja eld. Erfiðustu atburðir lífs þíns eru þínar eldgöngur.

Ég vil gjarnan eiga þig að

Hrifsar þú til þín og átt þar með á hættu að missa nef eða hendi? Iðkar þú hófstillingu í lífinu? Þarftu að breyta? Hvað viltu á nýju ári? Hvaða lífsreglur viltu virða og styðja í samfélagi þínu á nýjum tíma? Á þessu kvöldi og á nýjum degi nýs tíma berast okkur orðin: „Viltu eiga mig að?“ Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við: Svörum við með skeytingarleysi, ofbeldi og hroka? Eða svörum við með: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“„Viltu eiga mig að?“ spyr Guð.

Árið er farið, nýtt ár er að fæðast. Eldurinn slokknar reglulega, dólgarnir hamast og myrkrið sækir að. Okkar verkefni er sístætt að fara vel og með ábyrgð og bera ávexti í lífinu. Stefna og kenning kristninnar er skýr: Dauðinn dó en lífið lifir. Okkur opnast nýr tími – nýtt ár – til að nýta það sem okkur er gefið til lífsgleði en einnig í þágu annarra. Þannig er lífsstefna Guðs, sem er frumeldurinn sjálfur.

——

Við áraslit langar mig að þakka samskiptin við það fólk sem hefur komið á Skólavörðuholt og í kirkjuna á árinu sem er að líða. Yfir eitt þúsund skólabörn komu í Hallgrímskirkju á aðventunni. Mikill fjöldi hefur sótt helgihald og tónleika og ferðamannafjöldinn er mikill. Við, prestar, stjórn og starfsfólk Hallgrímskirkju þökkum samskipti og hlýju í okkar garð og biðjum ykkur öllum blessunar á nýju ári. Fegin viljum við eiga ykkur að og verið velkomin í kirkjuna á nýju ári. Við eigum öll þennan helgidóm og hann er hlið himins. Gleðilegt ár í Jesú nafni: Amen.

Hugvekja – gamlárskvöld, Hallgrímskirkju, 31. desember.

Meðfylgjandi myndir tók ég frá Öskjuhlíð á menningarnótt 2022.

Aular?

Fyrir utan Hallgrímskirkju eru skúlptúrar Steinunnar Þórarinsdóttur á sumarsýningu Listahátíðar. Það eru ekki eftirmyndir eða afsteypur einstaklinga og stórmenna heldur fremur táknmyndir. Annars vegar eru menni án klæða, eins og táknverur mennskunnar sem býr í öllum áður en menning eða ómenning mótar, íklæðir eða afskræmir. Hins vegar brynjuð menni sem táknmyndir vígvæddrar mennsku. Mennin annars vegar og vopnafólkið hins vegar standa saman úti á holtinu. Bil er á milli. Fólkið sem á leið um Skólavörðuholt þessa dagana hleypur ekki fram hjá þessum skúlptúrum eins og Leifi heppna heldur fer að þeim, skoðar þá, snertir þá, stillir sér upp við þá, ræðir um mennin og hermennina og sum segja að brynjuliðið sé eins og her af Pútínum allra landa. Á móti séu saklausir borgarar allra alda. Tvennur Steinunnar vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar og ýmsar túlkanir vakna. Suma dagana eru þeir með fangið fullt af blómum. Fyrir nokkrum dögum kom ung kona og kyssti eina brynjuna rembingskossi – eins og hún væri að reyna að leysa ófreskju úr álögum, kyssa prinsinn til lífs og gleði. Tvær ólíkar manngerðir á torgi lífsins. Önnur í álögum og hin til framtíðar – en til lífs – eins og við förufólk heimsins erum kölluð til.

Hroki og auðmýkt
Guðspjallstexti þessa sunnudags er líka um tvo menn, tvennu. Sagan segir frá tveimur í tengslum og með mismunandi skilning. Þeir voru eins ólíkir og spennuverurnar á torginu utan kirkjunnar. Annar var upptekinn af stöðu sinni. Hann var drambsamur. En hinn baðst miskunnar og fékk lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess að hann væri frábær. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Annar var brynjaður en hinn vitjaði mennsku sinnar. Sagan er ein útgáfa tvennuspennu sem frjóvgar hugsun, nærir íhugun, hvetur til þátttöku, breytir fólki og stælir visku. Mennið í okkur er guðsmyndin og er kallað til mennsku, að frumgerð okkar sé virkjuð til ástar og lífs.

Jesús hefði fengið Nóbelinn ef hann hefði verið sögumaður í samtíð okkar. Smásögurnar hans eru hrífandi og hnittnar. Þær hafa jafnan óvæntan endi, sem vekur til umhugsunar. Sögurnar eru lyklar að visku. Drambsamir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Þeir temja sér botnhegðun. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Hinn drambsami talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Farísei texta dagsins var slíkur maður. Við þekkjum öll slíkt fólk, við lifum jú blómatíma hinna hrokafullu sjálfhverfunga. Þeir eru brynjulið samtíma okkar og vakna ekki af álögunum þó þau séu kysst.

En það er ímynd auðmýktarinnar, sem mig langar til að við íhugum. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við höfum yfir í messunni alla sunnudaga. Kristnin hafnar hroka en er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum mun reynst örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Auðmýktarsagan
Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.“ Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja, sem skildu vel speki hófsemi. Jesús lagði áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar gyðing-grísku uppistöður. Mér sýnist þó að margir kirkjujöfrarnir hafi farið offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og raunar spillt auðmýktarhugtakinu. Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu talaði t.d. um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé lægst settur og aumastur allra. Síðar skrifaði Bernharður frá Clairvaux, annar merkur klaustramaður, líka um tólf skref auðmýktar. Hann áleit að auðmýktin gerði menn óttalausa og kærleiksríka. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning? Er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki.

Auðmýkt aðeins fyrir karla?
Ég heyrði öflugan guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Ég fór að íhuga þessa ydduðu yrðingu. Jú, boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi þar sem auðmýktaráhersla var notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlana. Við getum samþykkt að konur hafi haft veikari stöðu en er fyrirbærið auðmýkt úrelt þar með? Mér þykir algerlega ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla. En þær eiga ekki að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Sem sé, það er ástæða til að endurnýta auðmýktina, endurskilgreina hana og endurlífga.

Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins. Vestrænir hugsuðir hafa því miður lemstrað, “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Þess vegna er ekki skrítið að heimspekingar síðustu alda hafi farið háðuglegum orðum um auðmýkt. Spinoza hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda fólk.

Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir ekki auðmýktina heldur fremur undirlægjuhátt, aumingjaskilning og kúgunarþáttinn. Ég held við ættum að segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Það er brynja sem má losa sig við að ósekju. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá vitund, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Við erum menni á lífsleið ástar og gæsku.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar?
Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan lifir í ljósi Guðs, er af Guði og þiggur þaðan allt, líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður er þakklátur og lítillátur af því að allt er frá Guði komið, stundir og dagar, fjölskylda og fé. Allt er að láni, líf og eignir og allir menn, já öll sköpun er hluti guðslífsins. Því er maðurinn, einstaklingurinn, hlekkur í milli lífs- og þjónustukeðju. Svo er hitt að enginn verður auðmjúkur við að sjálf og persónan hið innra brotni. Auðmýkt er persónueigind sterks sjálfs en ekki veiks. Til að auðmýkt spíri, vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt verður ekki til nema í heilli, sterkri persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður karakter, heldur hafði fullkomlega heila og sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: „Hann þóttist vera góður.” Það var meinlega sagt. En auðmýktin er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. En tileinkun auðmýktar er æfiverkefni. Marteinn Lúther minnti gjarnan á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka, sem  veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Dýrlingur veit ekki af dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð en sjálfræktuð lífslist.

Þrennan
Ekkert okkar er algerlega brynjuð vera né heldur fullkomlega nakið menni. En það er brot af báðum í okkur öllum. Jesús sagði yddaðar sögur til að minna okkur á að við lifum frammi fyrir Guði. Þar er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar, brestir og brot. Þar gildir ekkert annað en auðmýkt, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka, hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar þarf að vera auðmýkt til að brynjur falli, fólk verði glatt, öllum verði þjónað. Þegar við lærum að tjá: „Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið. Brynjan lifnar við kossinn og álögin falla.

Lexían: Jes 2. 11-17. Pistillinn: Rm 3. 21-26. Guðspjallið: Lk. 18.9-14.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. 

Lífsleikni og hvísl Guðs

Ríkur maður bauð vinkonu heim til sín. Þegar gesturinn kom fóru þau upp í háan útsýnisturn til að skoða umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. „Þetta land þarna í austri á ég, þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka allt landið, líka fjöllin sem þú sérð í vestri. Til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Ræðan var áhrifarík og landeigandinn var rogginn. Vinkonan benti beint upp í loftið og spurði: „En áttu eitthvað í þesari átt? Hvernig er með eignina á himnum?” Er þetta góð saga? Reyndar er hún ein af mörgum tvistuð útgáfa af freistingasögunni. Bestu sögur heimsins hafa inntak eða visku sem fólk græðir á. Við græðum meira á lífsvisku en á öllum löndum heimsins.

Guð er hjálp mín

Biblíusaga dagsins eru um ítökin á himnum, hvað við eigum þarna uppi. Sagan er viskusaga um lífsleikni. Hún er útlistun á hvernig við menn ættum að lifa til að vel fari fyrir sjálfum okkur og samferðafólki okkar. Sagan er erkisaga, sem Jesús sagði til að efla hugsun fólks. Hann vildi, að fólk staldraði við, hugsaði og greindi á milli þess, sem væri einhvers virði og hins sem væri rugl og hjóm. Í guðspjallinu býr hinn ríki við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavörur þess tíma. Klæðið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var vel stæður. En fyrir dyrum hans var svo Lasarus, öreigi og þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hafði eftir Jesú. Nafnið Lasarus merkir „Guð er hjálp mín.” Nafnið var ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í jarðlífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa. Sá voldugi og vel stæði sinnti ekki hinum fátæka og hunsaði því ábyrgð sína. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Dauðinn kom að óvörum. Báðir létust. Abraham tók á móti Lasarusi, sem merkir að hann fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni er hann það nærri að hann sá betlarann Lasarus álengdar fjær, sá hve vel var fyrir honum séð og hverrar sælu hann naut. Hann bað um að Lasarus færði honum vökva til að slökkva brunasviða og lina þjáningar. En honum er bent á, að enginn samgangur væri milli sviða og enginn möguleiki á bót. Þá bað hann um, að bræður hans yrðu varaðir við. En Abraham, ættfaðir Hebrea og Gyðinga, sagði honum að þeir myndu ekki frekar en aðrir láta af villu síns vegar þó þeir sæju upprisinn mann. Þessi saga Jesú vísaði þar með á framtíð Jesú sjálfs.

Andleg gæði varða inntak

En sagan er rosaleg. Um aldir hafa menn viljað skilja hana bókstaflega og búa til kenningar um helvíti og himnaríki. En saga Jesú er ekki lýsing á yfirborðsmálum. Sögur Jesú á ekki að taka bókstaflega. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Dæmisögur eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, heldur um merkingu, tilgang og dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Hvað er það þá, sem Jesús vill miðla þeim sem staldra við? Jesús hafði ekkert á móti auði eða ríkidæmi. Hann fagnaði því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður partíkall. Hann var skammaður fyrir að hann væri með þeim lífsglöðu. En Jesús varaði við, að menn yrðu þrælar einhvers í heimi og færu að breyta verkfæri til góðs lífs í markmið. Í því ljósi dró hann upp andstæður af ríkidæmi anda og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri tæki til að bæta lífið en ekki sérstakt markmið. Jesús spurði fólk skipulega að því hvað það setti í forgang og hver gildi þess væru. Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,” sagði hann. Vinkonan spurði í sama anda. Hvaða ítök áttu þarna uppi? Hver er eign þín, viska þína, afstaða?

Erindi við okkur

Á þessi saga erindi við okkur? Erum við kannski upptekin af því að safna hlutum og eignum, vilja meira og stærra? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki markmið heldur tæki til að lifa vel? Fipumst við ekki stundum og gleymum, að fjármunir eru til að gera gott? Munum við alltaf vel, að við verðum fljótt þrælar þeirra, en ekki húsbændur. Sagan um ríka manninn varðar sálarstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fyrir kyrru ástarinnar og faðmlög? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú næði og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Lúther sagði einhvern tíma, að maðurinn væri kengboginn inn í sjálfan sig. Það er myndræn útlegging guðspjalls þessa dags. Hinn ríki var svo upptekin af eignum sínum, að hann gleymdi þeim sem var við dyrnar og var hjálpar þurfi. Auðæfin eru mikil og auðvelt að týnast í þeim önnum sem þeim fylgja. En það er aldrei hörgull á Lasarusum heimsins. Lestu blöð og samfélagsmiðlana, talaðu við starfsfólk hjálparstofnana og fólkið í kirkjunni. Lasarusarnir eru við dyrnar okkar og bíða.

Í þjáningunni kallar Guð

Það er ekki Guð sem sendir dauða, þjáningu og sorg til að aga okkur. Guð hegðar sér ekki eins og kaldlyndur uppalandi. Guð kallar til okkar í þjáðum systrum og bræðrum, kallar okkur til mennskunnar. Í veinum fólks á þurrkasvæðum heimsins hljómar rödd Guðs. Í gráti fólks á stríðshrjáðum svæðum er Guð. Í stunum misnotaðra kvenna um allan heim hvíslar Guð. Í vanlíðan sjúks fólks í húsinu við hliðina á þér biður Guð um aðstoðarfólk. Í vanlíðan barna á lemstruðum heimilum er Guð að biðla til þín. Í fréttabréfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fréttum fjölmiðla spyr Guð, hvort þú getir axlað einhverja ábyrgð og hver mennska þín sé. Í réttindakröfum kvenna um allan heim hvíslar Guð. Lifum vel og með ábyrgð.

Köll til lífs

Strákur keyrði niður Miklubrautina á nýjum sportbíl. Aðrir bílstjórar hægðu á sér til að virða fyrir sér bílinn. Allt í einu skall steinn á bílnum. Ökumaðurinn snöggreiddist, beygði uppá grasbalann og rauk út til að góma grjótkastarann. Það var auðvelt. Lítill strákur var skammt frá og ökumaðurinn rauk til hans og æpti. „Af hverju ertu að henda grjóti í bílinn.” Drengurinn var hræddur. „Fyrirgefðu, ég var búinn að kalla svo lengi og enginn kom. Bróðir minn er lamaður og er í hjólastól. Við vorum þarna á milli grenitrjánna og hjólastóllinn datt og bróðir minn liggur á jörðinni. Við gátum ekki komið honum upp í stólinn. Geturðu hjálpað okkur?” Það var ekki skemmdarfýsn að baki grjótkastinu. Með samanbitnar varir lyfti bíleigandinn lömuðum dreng í stólinn og horfði svo á eftir bræðrunum. Hann sá lakkskemmdina og lét ekki gera við hana fyrr en fór að ryðga undan. Hann notaði beygluna til að minna sig á hvað máli skipti í lífinu.

Hver eru ítökin uppi og hvað sérðu allt í kringum þig? Hlustaðu eftir fréttunum, hlustaðu á köllin í heiminum, hlustaðu á hvíslið hið innra í þér. Guð er að kalla til þín. Raddir heimsins eru Guðsraddirnar. Þegar þú heyrir í Guði í heiminum og skilur samhengið hefur þú líka sinnt ferðaundirbúningi í tíma þegar hinn skyndilegi dauði kemur.

A – Lúk. 16. 19-31 Hallgrímskirkja 19. júní, 2022. 1. sd. eftir þrenningarhátíð og kvenréttindadagurinn.