Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Boris Johnson, fólin og við hin

Á sunnudegi, á miðjum vaxtartíma sumarsins, – þroskatíma – er í textum kirkjunnar vakin athygli á því sem gæti hindrað þroska – falsinu, lyginni og þeim sem fara með lygar! Ekki til að við lærum að ljúga heldur til að þjálfast í sannleikanum sem fer betur með fólk en það sem í skugganum býr. Lygi er nærri okkur. Hún nærist í myrkrinu, er útúrsnúningur og afbökun, alltaf eitthvað hálf, læðist í skugganum, laumar sér í pólitík, í einkalíf og einnig trú. Lygin er boðflenna á fundum fólks og í samtölum. Viljum við það?

Fals – login

Lygin er víða, hún selur fólki falsaða miða á landsleiki. Lygin ekur vörubíla inn í mannmergð saklauss fólks í Nice. Lygin skapar glundroða og réttarmorð í byltingarsamfélögum. Lygin upphefur sig á kostnað annarra. Lygin brenglar verleikasýn fólks og leiðir það til glæpa og voðaverka. Lygin prangar inn á fólk hlutum í stað dýpri gæða. Lygin er á fullu í pólitík nær og fjær. Lygin ruglar gildi þín og æsir þig til að elta tíbrá í stað þess að iðka sannleika og leita lífshamingju.

Lygin spinnur ekki aðeins vef sinn á einkasviðinu heldur einnig í almannarýminu. Lygin nær oft að brengla og brjála stofnanir, þjóðir og samfélög. Hundruðir milljóna fólks hafa dáið á aðeins einni öld vegna þess að lygin stýrði för. Stofnanir brenglast þegar lygin nær valdatökum.

Í norskri stjórnsýslu er reiknað með að allt að þrjú prósent yfirmanna geti verið siðlausir. Slíkir menn valda skaða og fólki mikilli þjáningu. Báðir fulltrúar í forsetakjöri í Bandaríkjunum eru vændir um óheilindi. Franski utanríkisráðherrann sagði í vikunni að Boris Johnson, hinn nýji utanríkisráðherra Englendinga sé lygagosi. Ruth Bader Ginsburg, sem er dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hélt líka fram í vikunni að Donald Trump væri loddari. Allir sem fylgjast með stjórnmálum og þjóðmálum vita að sumir forystumenn ljúga purrkunarlaust. Lygi er oft haldið stíft fram þegar ná skal ákveðnni niðurstöðu eða til að verja stöðu flokka eða hagsmuna. Og það merkilega er að rannsóknir sýna að þegar lygaherferðir dynja á fólki í fjölmiðlum er flóknara og erfiðara fyrir fólk að varast lygarnar en trúa því einfaldlega sem haldið er fram. Jafnvel skarpasta og gagnrýnasta fólk lætur blekkjast.

Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með prettum. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum.

Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Hálfsannleikur spillir. Við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú. Hvorum megin ertu, hvað viltu?

Gosi

Dr. Jakob Jónsson þjónaði Hallgrímssöfnuði yfir þrjá áratugi og lengur en nokkur annar prestur. Hann var glaðsinna og hnyttinn. Mér þótti eftirminnilegt að hann vitnaði á nokkrum fundum okkar og í einu bréfinu til ritverks Carlo Collodi sem heitir á frummálinu Pinocchio. Það er sagan um Gosa. Gosi var þeirrar nátturu að nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Sagan er m.a. kennslusaga hve lygi fer illa með fólk og sannleikurinn gagnast lífinu best. Börnin skilja vel að skrökva er ljótt. Þau vita að við þurfum að vanda okkur til að við afskræmumst ekki og töpum mennskunni.

Er Gosasaga bara fyrir 19. og 20. öld? Nei, hún á við um fólk á öllum öldum því lygin læðist að okkur, vill inn í okkur og stjórna okkur. Vegna þess að lygin er svo víða í stofnunum og samskiptum erum við öll í stöðugri sannleiksglímu. Hið mikilvæga er að gera okkur grein fyrir að þegar við látum af lyginni verðum við mennsk. Lygin eyðileggur hið mennska en sannleikurinn eflir lífið. Því er óendalega mikilvægt og nytsamlegt að staldra við og spyrja: Leitar lygin inn í þig – eða býr Gosi jafnvel innan í þér? Laðast þú að blekkingum? Segir þú sögur sem ekki þola ljós sannleika? Lætur þú ljúga að þér? Lýgur þú að öðrum? Ertu Gosi?

Hið jákvæða og rétta

Hið illa elur illt en ekki gott, hið góða elur gott en ekki illt. Slagorð verslunarinnar Silla og Valda var úr Fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber, ástaraldin og bláber – heldur um tengslin við Guð, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum. Sr. Heimir Steinsson, annar merkur íslenskur guðfræðingur, skrifaði eitt sinn: „Í mér býr fól“ og talaði þar fyrir hönd okkar allra. Gosinn er ekki í hinum eða stjórnmálamönnum. Gosi býr í mér og þér og reynir að umbreyta okkur og aflaga.

Erkimynd mennskunnar – Jesús Kristur

Andstæða Gosa, fúlmenna veraldar – okkar allra – er Jesús Kristur. Jesús faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði alltaf satt. Því var hann elskaður og varð í vitund og trú fólks sannleikurinn sjálfur. Hann var ekki uppfullur af sjálfum sér og eigin dýrð heldur tengslum við Guð. Í samskiptum hafði Jesús alltaf velferð annarra í huga, fegurð þeirra, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna, ekki að benda á hið neikvæða, heldur beina sjónum að hinu mikilvæga. Jesús minnti á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar.

Tilraun um sannleikann

Gosar tímans hafa gert atlögur að öllu því mesta og besta í veröld manna og náttúru. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti þess gjalds sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-módernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu heimsins síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan litað neysluhyggju og sjálfshyggju, að fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum, viðskiptum og fjölmiðlum.

Líður þér ekki betur með fólki sem segir satt, jafnvel þó sannleikurinn sé þungbær? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig?

Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, dafna heilindi og traustið vex.

Gosa, nei takk. Sannleikann, já takk.

Amen.

Hallgrímskirkja 17. júlí, 2016

  1. sunnudag eftir þrenningarhátíð.

Ísland vann EURO 2016

Ísak og tákninÍslendingar unnu EM í fótbolta karla! Íslenska liðið náði lengra en nokkurn óraði fyrir í Evrópukeppninni. Karlarnir töpuðu vissulega síðasta leiknum, en það er hægt að vinna með margvíslegu móti. Skilaboð heimspressunar voru: Frakkar unnu leikinn en Íslendingar unnu hjörtun. Og það er sigur Íslendinga á EURO 2016 – ekki aðeins að hafa töfra í tánum heldur í tengslum og á dýptina. Og það er trúarlegt mál sem vert er að íhuga.

Listdans og trúargildi

Ég horfi á fótboltaleiki eins og listsýningu, listdans tveggja liða í skapandi og gagnvirku ferli. Áhuginn hefur smitast til drengja minna sem iðka fótbolta. Í uppeldi þeirra nota ég gjarnan viðburði eða persónur í boltaheiminum til að ræða við þá og fræða um vont eða gott siðferði. Dýrlingar eru ekki fyrirferðarmiklir lengur í menningu Vesturlanda en fótboltahetjur hafa m.a. komið í þeirra stað. Og myndirnar sem börnin safna eru eins og íkónar. Íþróttir hafa trúarlegar víddir og gegna ýmsum trúarlegum hlutverkum.

Til hamingju Ísland

Fyrir liðlega viku ákváðum við fjölskyldan – í skyndingu – að fara til Parísar og fara á leik Íslendinga og Frakka. Ferðalagið var skemmtilegt og viðtökurnar voru stórkostlegar. Alls staðar var okkur fagnað. Þjónn í lestinni frá Brussel gladdist þegar hann uppgötvaði að við værum íslensk, óskaði Íslendingum heilla og gaf drengjunum lukkugripi. Stúlka sem sat í lestinni var himinglöð yfir að sjá Íslendinga í fyrsta sinn. Leigubílstjórar, þjónar og verslunarfólk báðu um að fá að taka sjálfumyndir af sér og okkur Íslendingum. Allir vildu fagna með okkur, snerta, ljósmynda og óska velfarnaðar. Ekki lengur skrítlingar úr norðri, heldur eðalvíkingar sem höfðu unnið kraftaverk sem dáðst var að. Aldrei hefur verið eins gaman að vera Íslendingur í Evrópu heldur en þessa boltadaga. Ekkert íslenskt auglýsingaátak hefur verið betur heppnað.

Við upplifðum Öskubuskuævintýri í raunheimi. Heimspressan, vefmiðlarnir og sjónvarpið sagði boltasögu um litla þjóð sem elur af sér fólk með töfra í tánum. Og við komumst á Stade de France. Okkar lán var að hafa keypt miða á erlendum miðavef svo við lentum ekki í sömu miðavandkvæðum og sumir landa okkar. Á vellinum tóku Frakkarnir vel á móti Íslendingunum – okkur leið eins og við værum úr fjölskyldunni. Íslendingarnir sungu Ferðalok og þjóðsönginn hástöfum og tár féllu. Íslensku áhorfendurnir hleyptu upp fjörinu og hávaðanum. Asíubúarnir og hinir Evrópubúarnir fögnuðu innilega þegar vel gekk á vellinum og Íslendingar skorðuðu. „Bravó Ísland, til hamingju Ísland.“ Íslendingarnir unnu hjörtun.

Það sem meira er

EURO 16 vakti margar tilfinningar og hugsanir. Það er ekki sjálfgefið að Íslendingar séu verri í fótbolta en Englendingar eða Austurríkismenn. Þegar dýpst er skyggnst og allt er skoðað megum við í þessu Öskubuskuævintýri greina að lífið er ekki lokað, læst, frosið í fyrirframgefnum og óbreytanlegum mynstrum. Innan rammans sem Skaparinn setur veröldinni spírar nýgræðingur,  hið nýja. Veruleikaafstaða trúarinnar er að innan ramma erum við frjáls til að vera. Lífið er leikvangur hins mögulega og kallar lifandi fólk til nýsköpunar og að þora. Það þarf hin nýskírða Sif Hanna að læra og Þorri Jakob einnig. Það þurfa foreldrar þeirra og fjölskyldur að iðka.

Til að minna okkur á list hins mögulega segjum við ævintýri, förum í leikhús, í kirkju, látum okkur dreyma um breytingar í einkalífi, vinnu, pólitík og samfélagi. Við megum hugsa nýjar hugsanir og efast um hefð eða hið venjulega. Við megum breyta og getum gert tilraunir í vísindum, pólitík og einkalífi. Við megum beita okkur til að bæta samfélagsvef okkar þegar eitthvað hindrar réttlæti og möguleika fólks. Líf er vissulega háð formi og skipan en líf leitar þó ávallt út fyrir mörk og heftandi skorður. Þannig virkar gróður við gróðurmörk. Aspir sprengja jafnvel malbik og steypu, flóttafólk við landamæri leitar að smugum, leitandi hugur með forréttindi og spillingu fyrir augum bregst við og viskan reynir að hemja frekju heimskunnar. Mannfólk leitar alltaf út fyrir skorður, mæri sem hefta. Líf er ekki bara efnaferlar og lokað kerfi heldur opin og laðandi veröld möguleika.

Frá … og til – exodus

Í merkingargrunni menningar okkar heimshluta er varðveitt og sögð saga um brottför, exodus, fólk sem fór frá einni veröld til annarrar til að tryggja sér líf og hamingju. Jafnvel úfið haf megnaði ekki að hindra för þessa fólks. Og sú merkilega saga hefur orðið til að þjóðir fyrr og síðar hafa gert hið sama, lagt af stað þrátt fyrir hindranir. Hin íslenska saga byrjaði eins og saga Ísraela. Sagan um Jesú Krist er dýpsta og áhrifaríkasta saga veraldar fyrr og síðar, hin eiginlega erkisaga þessa heims. Og merking hennar er að tilveran er ekki til dauða, harms og ósigurs heldur til lífs, gleði og sigurs. Öll viska Jesú, lífshættir hans og andóf gegn formkreddum var að dauði er ekki hindrun heldur að lífið má og skal lifa, ef ekki í tíma þá í eilífð. Guð er góður dómari en ekki böðull, Guð er ástvinur. Mál kristninnar er sigur lífsins og hins góða. Það sem virtist sigur hins máttuga í sögu Jesú var aðeins sigur í leik. Jesús stefndi aldrei að því að vinna EM-knattleiki fólks heldur hjörtun. Tengsl okkar við hann verða aðeins lífleg þegar við opnum fyrir undrinu og skiljum að töfrar táa hans, munns, handa og veruleika er um líf og tilgang þess. Erindi Jesú verður aðeins numið með hjartanu. Sumt verður ekki sagt eða numið nema með hjartanu. Hin dýpsta skynjun, túlkun og mannlífsiðkun verður aðeins numin með opnum huga, sálarinnar. Sif Hanna og Þorri Jakob skora mörk lífsins með því að að lifa vel, þora að vera og tengjast því sem mestu máli skiptir.

Snortið hjarta

Saga dagsins um fiska og brauð er um að fólk sem leitar lífs mun ekki hungra heldur njóta hins góða. Og máttarverk kristninnar er ekki aðeins undur í huga fólks heldur lífi þess. Kristindómur varðar öll gæði – andleg, vitsmunaleg, félagsleg og líkamleg mál. Kristnin er tengd meistara sínum þegar trúmenn reyna að tryggja velferð allra. Íslenskir knattspyrnumenn unnu ekki alla leiki heldur hjörtun. Jesús Kristur vildi ekki knýja fram sigra heldur snerta hjörtu fólks. Er hjarta þitt snortið eða ertu bara hrifinn af töfrum í tánum. Má bjóða þér fiska, brauð og líf?

Amen.

Sif Hanna Hildardóttir Danielssen (búsett í Bergen, Noregi) var skírð í messunni og fermdur Þorri Jakob Jónsson (búsettur á Manhattan, New York).

Hallgrímskirkja 10. júlí, 2016. 7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Textaröð: A

Guðspjall: Mark. 8.1-9

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“ Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ Þeir sögðu: „Sjö.“ Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.

Áfram Ísland

Áfram ÍslandNýr forseti og nýr meðlimur Guðsríkins. Við höldum í dag hátíð þjóðar. Forseti lýðveldisins hefur verið kjörinn. Það eru mikil tímamót eftir að sami forseti hefur verið á Bessastöðum í fimm kjörtímabil, í tuttugu ár. Ég hlakka til innsetningar nýkjörinn forseta og vænti þess að hann standi með þeim gildum sem þjóðsöngurinn, þjóðmenningin og þjóðarhefðin tjá.

Magnea Sigurborg
Magnea SigurborgOg Magnea Sigurborg er hinn nýi borgari himnaríkis. Hún mun ekki aðeins muna fæðingardag sinn heldur einnig skírnardag. Hún var skírð daginn sem Guðni Th. Jóhannesson, forsetinn með guðsnafnið, var kjörinn. Brosið hennar Magneu er hrífandi – hún er vonarkona. Eins og öll börn heimsins er hún borin til stórvirkja. Sagt var um Jón Vídalín, eitt af stórmennum íslenskrar sögu, að hann væri: Ingenio ad magna nato – borinn til stórvirkja. Það er nú ljómandi lífseinkun fyrir hina mögnuðu Magneu líka – að hún sé borin til stórvirkja. Öll börn eru borin til stórvirkja, að lifa vel. Það er okkar að tryggja að aðstæður sé góðar og styrkur veittur til stælingar.

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid hyllt
Söngur þjóðar

Þetta eru merkilegir dagar sem við lifum nú. Stór hluti þjóðarinnar hefur hrifist með í fótboltabylgjunni. „Ó Guð vors lands“- þjóðsöngurinn hefur verið sunginn hástöfum af tugþúsundum – ef ekki hundruðum þúsunda á liðnum vikum. Fyrir okkur – sem ekki höfum verið í Frakklandi – hefur verið dásamlegt að vera í stórum hópi í heimahúsum, EM-stofum, eða á Ingólfstorgi og taka þátt í söngnum. Vinur minn, sem býr erlendis en var á Íslandi nú í vikunni, vildi syngja þjóðsönginn kórrétt fyrir einn landsleikinn. Ég bauð upp á þjóðsöngsþjálfun til að tryggja að allt yrði við hæfi. Við vorum í Flatey á Breiðafirði og þöndum raddböndin í kapp við gargandi kríur og skrækjandi stelkarnir ruku upp við kraftmikil sönghljóðin. Ég mæli með slíkum söng, það er gaman að syngja með kríum, þessum stjörnum eilífðar.

Rauð, hvít og blá í Politiken

Þjóðsöngurinn hefur slegið í gegn og Ferðalok líka. Tugþúsundir Íslendinga hafa smitað sönggleðinni frá áhorfendapöllunum í Frakklandi, í stjónvarpi og á netmiðlum. „Ó, Guð vors lands – ó lands vors Guð.“ Margir hafa skrifað á netinu hvað söngurinn er áhrifaríkur. Af því Ísland hefur verið litla þjóðin í fótboltanum, Davíð á móti Golíötum knattspyrnunnar, hafa margir farið að halda með Íslandi. Danski fjölmiðillinn, Politiken, varð opinber stuðningsaðili Íslands á EM. Það er gleðilegt að Danir, sem voru súrir gagnvart undanvillingunum við lýðveldisstofnun, skuli taka svo klára, opinbera afstöðu. Svo einbeittur er stuðningurinn að einn stafur í nafni Politiken, var í marga daga í íslensku fánalitunum. Og til að danskir söngvarar kynnu fleira en að kyrja “vi röde og vi er hvide” og gætu tekið þátt í undrinu fengu þeir það verkefni að læra þjóðsönginn! Því var íslenskur kór í Kaupmannahöfn, Staka, fenginn til að syngja og svo var þýðingin textuð og íslenski þjóðsöngurinn varð söngur Politiken. Danir og allir stuðningsmenn um allan heim gátu farið í skyndinámskeið og síðan sungið af hjarta: Ó, Guð, vors lands, ó lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans þínir herskarar tímanna safn….“ Þessari notendavænu vefútgáfu þjóðsöngins hefur síðan verið miðlað og deilt um allan heim og verið notuð til að þjálfa, krydda, kynda upp stemmingu og gleðja.

Civil religion

En hvað er söngur þjóðar? Hann er tákn fyrir Ísland, tákn fyrir sögu, land, náttúru – líf þessa fólks sem býr í þessu landi. Söngurinn er tákn fyrir allar Magneur og allt fólk í þessu landi. Og ef einhverjir vildu þjóðsönginn feigan er andláti söngsins frestað um langan tíma. Þjóðsöngurinn sló í gegn.

Á þessum þjóðhátíðartíma söngs, forseta og barna framtíðarinnar er vert að minna á að þjóðsöngvar gegna ekki aðeins almennu stemmings- og samstöðu-hlutverki, heldur hafa líka trúarlegt hlutverk (um þetta má lesa hjá þeim ágæta Robert Bellah). Gildir einu hvort texti þeirra vísar til Guðs, trúarstefs eða ekki. Hlutverk þjóðsöngva varðar helgun og gildi þjóðar. Flestir, sem ekki eru algerlega trúarlega laglausir eða ljóðrænt flatir, geta skynjað eða tengst einhverju í “Ó, Guð vors lands.” Skáldpresturinn Matthías Jochumsson orti svo vítt og einnig svo breitt að fleiri en kristnir trúmenn geta sungið og tekið undir. Líka múslimar, hindúar og efahyggjumenn geta samsinnt boðskap þjóðsöngsins einmitt vegna breiddar og kredduleysis hans. Því er hann vel fallinn til að þjóna táknhlutverki þjóðsöngs, líka á tímum trúarlegs fjölbreytileika. Aðeins grunnhyggnir efnishyggjumenn (sem eru bókstafshyggjumenn og slíka vantar jafnan sveiflu) munu ekki geta samþykkt glans og inntak söngsins.

Og vissulega eru hraðar skiptingar í textanum, sem flengist slysalaust frá kyrru hins titrandi társ til skartsækinna sólkerfa, sem raða sér í krans! Þessi stóri söngur lyftir draumum, vonum og tilfinningum hvað svo sem á gengur og hvernig sem ósigrar hafa leikið fólk. Söngurinn er vonarsöngur þvert á táknmál áfalla og dauða. Íslendingar spunnu úr sögu, náttúru og möguleikum eitthvað rismikið og seiðandi til að minna á möguleika og opnun. Íslenski þjóðsöngurinn er ekki hernaðar- eða sigursöngur eins og margar þjóðir búa við – söngur sem miklast af því að kúga eða sigra aðra. Öndvert öllu oflæti fyrr og síðar er í þessum texta Íslendinga minnt á hið forgengilega og skammæi lífsins. Og þar er jafnvel að finna sorgarvinnu sem heppnast. Það er því raunsætt áfram Ísland í þessum texta.

Láttu vaða

Í guðspjallstexta dagsins er sagt frá mönnum sem voru búnir að strita en án árangurs. Þeir voru eins og fótboltamenn sem tapa öllum leikjum. Og svo kemur maður til þeirra sem segir þeim að láta vaða. Og þegar fólk þorir getur allt gerst. Magnea er kölluð til að þora að lifa, foreldrarnir einnig, afarnir og ömmurnar. Liðið okkar í Frakklandi er hvatt til að láta ekki ofurefli trufla sig. Við sem þjóð erum kölluð til að láta ekki ósigra og vonbrigði fortíðar og nútíðar hefta okkur heldur láta vaða.

En göslaragangur hefur aldrei skilað árangri til lengri tíma. Aðeins það sem máli skiptir ber ávöxt. Og líf nýbura þessa lands verður ekki gott, nema foreldrarnir leggi lið, ali vel upp, stæli til átaka og til að nýta gáfur og hæfileika til góðs. Nýr forseti verður ekki farsæll nema hann þjóni í góðri sátt við gildi þjóðar, menningar og hefðar og vilja fólksins í landinu. Hann þarf að vera eins og Pétur í fiskisögunni miklu, þora að verða við kalli til þjónustu. Líf okkar sem einstaklinga verður ekki farsælt nema við göngumst við hlutverkum okkar og leyfum hinu mikilvæga að verða í lífi okkar. Niðurstaðan af reynslunni á vatninu var eins og í þjóðsöngnum. Fiskimennirnir fengu stóra vinninginn, fengu netin full af lifandi afla, gerðu sér grein fyrir hvað skipti máli. „Ó Guð vors lands, ó lands vor Guð.“ Og þeir fylgdu þessum Jesú Kristi sem opnaði augu þeirra og sýndi þeim eðli og tilgang lífsins.

Áfram Ísland og …

Ekki veit ég hvernig fótboltaleikurinn annað kvöld fer. Íslendingar eru þegar aðalsigurvegar EM óháð úrslitum í leiknum við Englendinga. Ég mun syngja þjóðsönginn af krafti þó engar verði kríurnar. Vinir mínir á Friðriksbergi munu einnig þenja sín raddbönd – og syngja kórrétt. Og við ættum að blessa nýjan forseta því  köllun hans er að lúta lífsgildum – sem og Guði lands og þjóðar. Landsleikir geta verið skemmtilegir, skírnir eru dásamlegar og stórkostlegasta lífshlutverk okkar er að fylgja Jesú Kristi í öllum veiðiferðum ævinnar. Áfram Ísland.

Amen.

Hallgrímskirkja 27. júní, 2016. 5. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Magnea Sigurborg Pálsdóttir skírð. Hún er dóttir vina minna, guðfræðinganna, Karenar Lindar og Páls Ágústs. Niðurstöður forsetakosningar lágu fyrir og orðið ljóst að Guðni Th. Jóhannesson var valinn. EM-ævintýri Íslendinga hélt áfram.

Guðspjall: Lúk 5.1-11

Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

Í kossi, hrósi, beinum, skírn og tölvu

IMG_8904Hvað er heilagur andi, hvar og til hvers? Er sá andi eitthvað sem er bara til í áhrifaríkum kirkjum í Barcelona, Róm eða París. Og eru íslenskar sveitakirkjur sérstakir uppáhaldsstaðir Guðs?

Öll bernskuár mín var ég í sveit í Svarfaðardal. Sauðfé var rekið á fjall og sótti upp í hlíðar. Á þeim tíma var til siðs að smala fé í júlíbyrjun og rýja. Ég fór í slíka smalamennsku í mörg ár. Fjallgeimurinn var ofast undursamlegur. Mér er minnisstætt eitt sumarið að ég hljóp í þúsund metra hæð milli snjóskafla. Milli morkinna fanna var jörðin svört, vatnssósa og sterklyktandi. Engin gróður var sjáanlegur – allt virtist dautt.

En skyndilega sá ég líf. Agnarlítið háfjallablóm breiddi út blöð sín og sperrti skærrauða krónu mót himni og sól. Þetta smáa blómundur virtist svo umkomulaust en jafnframt grípandi fagurt í þessum blauta, svarta og hvíta risaramma. Eina lífsmarkið í tröllageimi, titrandi í næðingnum, speglaði og braut sólargeislana þúsundfalt í daggardropum krónunnar. Ég man að ég gat ekki annað kropið og lotið þessu lífsmarki og skildi, að það var helgidómur, eilífðarblómstur. Síðan hef ég skilið hvað sr. Matthías átti við með eilífðarsmáblómi þjóðsöngsins.

Allt er gleymt frá þessum degi, öll hlaup á eftir erfiðum rollum, áreynsla, skriður, klettar og klunguhlaup. Aðeins rjóð jurtin lifir í minninu. Hvað þýðir svona upplifun? Er þetta reynsla af heilögum anda? Já.

Hefur þú gengið einhvern tíma á hátt fjall? Reynt á þig, runnið til baka í brattanum, hræðst, haft mikið fyrir, en að lokum komist á toppinn, fengið útsýn til annarra fjalla í öðrum sýslum og jafnvel séð jökla í öðrum landshlutum? Það getur verið áhrifaríkt að lifa slíkt. Vissulega hjálpar efnabúskapur líkamans, endorfínið. En er slík reynsla af heilögum anda? Já.

Við Íslendingar vitum vel – vegna nándar við náttúruna og ferða okkar í rosalegu landi – að náttúran er ekki líflaus heldur ríkulegur veruleiki, sem hefur margvísleg áhrif á okkur. Náttúrusýn margra landa okkar er trúarlega lituð. Trúmaðurinn getur túlkað djúpa náttúrureynslu sem andlega og trúarlega merkingarbæra lifun. Náttúran er okkur mörgum sem helgidómur.

Andinn í listinni

Hefur þú staðið frammi fyrir stóru og miklu listaverki, heima eða erlendis, hrifist af formum eða litum, myndbyggingu, hugviti eða styrk einfaldleikans? Hefur þú starað á skúlptúr eða málverk í erlendri kirkju, sem hefur varpað þér í hæstu hæðir og veitt þér skynjun sem tekur flestu öðru fram? Hefur þú staðið frammi fyrir altaristöflunni í Skálholti, numið friðinn og blíðuna, þegar Jesús kemur inn úr bláma íslenskrar náttúru, með fangið opið? Er hægt að rekja reynsluna til heilags anda? Já.

Hefur þú einhvern tíma haldið á barni og fundið til svo ólýsanlegrar gleði, að allt annað hefur horfið í hrifningu stundarinnar? Hefur þú horft í djúp barnsaugna og fundið traustið og numið mikilvægi þitt? Hefur þú einhvern tíma haldið utan um maka eða ástvin og upplifað í þeim fangbrögðum svo djúpa fullnægju, að önnur gæði veraldar hafa bliknað í samanburðinum. Er slík ástarlifun af ætt heilags anda? Já

Hefur þú einhver tíma lent í siðklemmu, ekki vitað hvaða kostur væri hinn rétti, en síðan hefur ljósið runnið upp, rök og siðvit læðst í hugann? Er slíkt verk heilags anda? Já.

Andlegt smælki eða alls staðar?

Eru engin takmörk fyrir þessum Heilaga anda? Nei. Andinn er sá Guðsmáttur, sem gefur öllu líf, heldur grjóti, eðlislögmálum og þar með sólkerfum í skorðum, hindrar að efni þeirra hrynji saman í svarthol dauðans. Andinn er að starfi þegar fullorðinn segir barni sögur um lífið, ævintýri og undirbýr viskuna í brjósti uppvaxandi kynslóðar. Andinn er í kossi elskenda, hrósi vinar, í verki lækna og hjúkrunarfólks, í beinum sem gróa eftir brot, í starfi forritarans og rafvirkjans, í skírn og altarisgöngu, í jafnvægi krafta náttúrunnar, í tónlistargerningi kórsins, í uppgufun vatns og skýjamyndun og regni. Allt eru þetta verk anda Guðs.

Andinn kallar manninn til trúar, viðheldur samfélagi manna og eflir kirkjuna. Andinn upplýsir okkur, blæs okkur samvisku í brjóst, er rödd skynseminnar, helgar og leiðir, fullkomnar og styrkir. Andi Guðs er alls staðar að verki og kannski hvað augljósast þar sem barist er fyrir framgangi hins góða lífs og lífsgæði varin.

Guð kristninnar verður ekki afstúkaður í veröldinni í einhverjum kirkjukima. Sá Guð, sem ég þekki er alls staðar, sínálægur og sískapandi. Mína guðsafstöðu má m.a. útskýra með því sem hefur a gömlu fræðimáli verið kallað pan-en-teismi. Heitið, orðið, er af grískum uppruna og merkir einfaldlega, að Guð er alls staðar, í öllu og gegnsýrir allt. Því má alls ekki rugla saman við panteisma, sem kemur m.a. fram í indverskum átrúnaði og kennir að allt sé guðlegt. Að Guð sé í öllu og alls staðar merkir ekki að allt sé guðlegt. Við erum ekki guðir, þó Guð búi í okkur. Veröldin er ekki Guð og þar með ekki andlag tilbeiðslu þótt andi Guðs hríslist um hana og geri hana að farvegi andans.

Hvítasunna – 50hátíð

Nafnið hvítasunna er fallegt og tjáir hinn bjarta sólardag kristninnar. Á mörgum vestrænum tungumálum ber dagurinn nafn, sem komið er af gríska orðinu pentecoste og það merkir fimmtugasti og þá er miðað við fimmtíu daga eftir páska. Hátíðin er tengd páskum vegna þess, að hún er framhald, bætir við eða dýpkar þann veruleika, sem páskar tjá. Hvítasunnan er tengd jólum líka. Ef ekki væri Heilagur andi væri Jesús Kristur merkingarlaus og lífið tilgangslaust.

Vissulega hafa margir heldur óljósa mynd af hinum guðlega anda og til eru kristnir trúarhópar, sem hafa reynt að slá eign á þennan anda Guðs, en smætta þar með veru hans og virkni niður í sértækt starf tungutals, lækningar líkamans eða spádómssýn inn í framtíð. En Andi Guðs er meira en sértæk eign eða tæki safnaðar. Allt er eign Guðs en ekki öfugt.

Hvað er andinn? Andinn skapar veruleikann, náttúruna, er að verki í öllu því sem er til lífs. Andi Guðs er líka skapari trúarinnar. Það er Guðsandinn, sem hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs, kennir þér að sjá Guðssoninn, kennir þér að sjá lífið nýjum augum, heyra músík veraldar sem himneska tónlist, kennir þér tala við Guð og að lokum kennir þér að skynja í öllu Guðsnávist, jafnvel í sorg, hörmung og dauða. Með slíka reynslu og afstöðu verður þú aldrei aftur ein eða einn. Alltaf verður nálægur þér sá andi, sá veruleiki, sem gefur öllu líf og er líka sjálft lífið í þér.

Alls staðar

Erlendur prédikari, sem heimsótti Ísland, fullyrti að Heilagur andi hafi ekki komið til Íslands fyrr en á tuttugustu öld! Hann átti auðvitað við, að Heilagur Andi hafi ekki átt erindi til landsins fyrr en söfnuður hans var stofnaður. Ég held hins vegar að Heilagur andi hafi verið hér áður en fyrsta Íslandshraunið sauð í sjónum, verið í flekahreyfingum, verið nærri í goti þorska og fjölgun krossfiska, verið nærri í sprengingum neðansjávargosa. Síðan hefur Andinn verið að verki og er enn að.

Ekkert er til án Guðsanda. En það er hins vegar hægt að sniðganga eða skeyta ekki um Andann, ef menn vilja ekki þiggja nema bara hluta virkninnar! Við getum valið að taka bara við nokkrum gjöfum, sem okkur berast en hirða ekki um aðrar og alls ekki um sendandann. Við getum valið að vera and-snauð. En á hvítasunnu ertu kallaður eða kölluð til dýpri skilnings og trúarskynjunar.

Ef þú ert í bústaðnum þínum, á ferð um landið, ferð í gönguferð eða faðmar fólkið þitt máttu vita að í lífi þínu er Guð nærri og andinn hríslast í öllu sem verður þér til lífs. Blómið á háfjallinu er sköpun Guðs og verk Andans. Elskendur eru sköpun Guðs og elska þeirra er verk Andans. Maðurinn er sköpun Guðs og trúin verður til við, að Guð elskaði, kom og kemur, umfaðmar sköpun sína með krossi sínum, hrífur allt líf með sér með lífgun sinni og úthellir endurnýjunaranda sínum yfir allt sem er til. Guð er alls staðar og í öllu. Við megum lifa í þeim Guðsanda, trúa lífinu og sjá þar með eilífð í öllu.

Amen.

Hallgrímskirkja, hvítasunnudag 2016. Útvarpsmessa RUV

Allir fingur upp til Guðs

fingur til GuðsÉg var með fjölskyldu minni í Kaupmannahöfn fyrir liðlega viku og við flugum heim í vikulok. Flugliðarnir í flugvélinni undruðust og höfðu orð á að vélin fylltist af Dönum á leið til Íslands. En skýringin er að fjórði föstudagur eftir páska er den store bededag og almennur frídagur í Danmörk. Margir Danir notuðu bænadaginn til Íslandsferðar. Bænadagur fyrir liðlega viku í Danmörk en svo er bænadagur á Íslandi í dag.

Og bænadagurinn á sér samiginlega sögu í Danmörk og á Íslandi því Kristján 5. fyrirskipaði á seinni hluta 17. aldar að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Dagurinn var kallaður kóngsbænadagur af því það var kóngur en ekki kirkja sem ákvað bænaiðjuna. En margir héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum en svo var ekki. Beðið var fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir stjórnvöldum á lýðveldistímanum.

Og þótt Íslendingar segðu skilið við Dani héldu menn áfram að biðja og frá og með 1951 var haldinn bænadagur í kirkjum landsins – ekki á föstudegi heldur – á fimmta sunnudegi eftir páska. Og þessi sunnudagur er því bænadagur eins og verið hefur í sextíu og fimm ár í okkar kirkju. „Biðjið“ sagði Jesús. Já við ættum að biðja, biðja mikið.

Fingurnir

Bæn er ekki bara verk andans, n.k. andverk heldur jafnvel handverk líka. Í dag langar mig að spá í handverk bænarinnar og að bæn er handtak manns og Guðs. Fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill ræða við þig og heyra hvað þú hefur að segja en líka finna til veru þinnar. Og margt er hægt að nota til að styrkja bæn, jafnvel alla puttana. Það langar mig til að ræða um í dag.

Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Give me five!

Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu – bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handsalið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun  – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum og fyrirtækjum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem eru sjúk, hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleðina, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Bæn hefur hendur til að starfa með og þjóna lífinu. „Biðjið“ segir Jesús. Bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

Amen.

Þessi texti var til grundvöllunar hugleiðingu á bænadegi þjóðkirkjunnar, 1. maí.