Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Sorgin – skuggi ástarinnar

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Orðasóðar og frelsið

img_3988Í dag er sunnudagur guðlastsins. Það er ekki vegna þess að á þessum degi hafi menn guðlastað eða fengið leyfi til að vera orðasóðar. Nei, á þessum degi er sagt í guðspjallinu að Jesús hafi verið vændur um guðlast. Og hann var svo að lokum tekinn af lífi vegna guðlasts.

Á Íslandi var bannað að guðlasta en svo er ekki lengur. Á síðasta ári, 2015, felldi Alþingi úr gildi grein í almennum hegningarlögum sem úrskurðaði þá athöfn refsiverða, sem smánaði trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags. Það var 125 gr. hegningarlaganna (nr. 19/1940). Eini guðlastsdómurinn í seinni tíð féll í Hæstarétti árið 1984. Í tímaritinu Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Fleiri dómar hafa ekki gengið. Við Íslendingar hefðum ekki verið bættari ef grínistar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap. Að dæma menn fyrir guðlast hefur aldrei bætt samfélag eða guðsdýrkun.

En nú er guðlastsgreinin farin en verkefni okkar er að bæta samtal okkar. Í netheimum hafa margir sullað sinni drullu á torg heimsins. Þar er hópur sem talar niðrandi um menn og Guð, hnjóðar í atferli fólks, lastar skoðanir einstaklinga og smánar fólk með ýmsum hætti. Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Er það vegna áfalla í bernsku eða hrunreiði sem svo mikið flýtur skætingi í garð skoðana fólks, trúar, litar, kynhneigðar. Eða er það ótti? Orðsóðaskapur er líka stundum tjáning óuppgerðar reiði.

Niðrandi tal um Guð

Orðabókin segir að guðlast sé það að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Guðlast var talinn glæpur meðal hinna fornu Hebrea og refsing var líflát. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. En hið athyglisverða er að refsiharkan var ekki vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna valdamanna. Árás á trú og kenningu var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi stjórnvöld þegar trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var að lasta stjórn samfélagsins. Guðlast var ekki liðið vegna þess að það ógnaði valdsjórninni. En sú samfélagsútgáfa guðlasts er allt annað mál og hin trúarlega. Guðlast að viti kristninnar er það að virða ekki hin elskandi, leysandi og styðjandi Guð. Að Guð elskunnar sé ekki elskaður.

Frelsi

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer reynt að feta leið frelsins. Við njótum mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Og þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju. Mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskuafstöðu Guðs kristninnar.

Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum. Jesús Kristur stóð alltaf vörð um einstaklinga og við fylgjendur hans eigum að fara eins að. Frelsi er einn meginþáttur kristninnar. Guð hefur áhuga á frelsi fólks. Jesús Kristur var frelsishetjan mikla sem kom til að leysa fjötra og kalla fólk og heim til frelsis. Enn kallar hann.

En frelsi má nota eða misnota. Að kristnum skilningi er frelsið ekki bara frelsi til að fá útrás fyrir einstaklingsþarfir. Frelsið er fangvítt og í þágu lífsins, lífs okkar allra. Frelsið er líka í þágu annarra. Á tímum sem einkennast af einstaklingshyggju sem slagar í átt að narcissisma slævist meðal fólks hin djúpa frelsisáhersla kristninnar og þjónustuafstaða. Siðvitund breytist og samfélgssýn einnig. Einstaklingurinn verður mælikvarði alls, þarfir hans og langanir. En Guð vill að við umgöngumst lífið, frelsið, fólk sem dýrmæti en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Hinn lamaði í sögunni á sér systur og bræður í samtíma okkar. Sjálfhverfa er ein af alvarlegri röskununum. Því þegar hún vex rrýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða ofar öllu og allt annað verði að lúta því. Og til að frelsið nýtist sem best þarf að gæta að samskiptum, jákvæðri nálgun og mannhelgi allra. Það er hlutverk okkar að stæla siðvitund og kenna börnum okkar ábyrg tengsl og jákvæð samskipti. Verkefni okkar samfélags er að rækta virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, fólki sem hugsar eða er öðru vísi en við sjálf. Við þurfum að gæta okkur að lasta hvorki menn né Guð.

Hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Það er hið trúarlega í lífi þínu. Við erum kölluð til að vanda okkur í öllum tengslum okkar. Vöndum okkur í samtölum og stælum mannvirðinguna.

Hvað er þér mikilvægt?

Strákur var spurður hvað guðlast væri. Hann hugsaði sig um og sagði svo: „Last á enskunni er síðastur. Guð er last. Það þýðir þá að Guð sé síðastur.“ Og það er hnyttin útgáfa og rambar á hið mikilvæga. Þegar allt er þrotið kemur Guð. Guð er síðastur en líka fyrstur.

„Hann guðlastar” ályktuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði viturlega: „Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp?“ Og þar sem maðurinn fékk heilsu var komið að spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlastaði Jesús eða ekki? Nei hann stóð lífsins megin. Guðlast er að virða ekki Guð sem elskar, læknar og leysir. Jesús Kristur elskaði, læknaði og leysti fjötra. Það er fagnaðarerindið sem varðar þig og allt samfélagið.

Amen

19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Hallgrímskirkju, 2016. Útvarpsmessa RÚV.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: „Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Freki kallinn

grimanManstu eftir Dallasþáttunum í sjónvarpinu? Einu sinni var Ewing gamli, pabbi Dallasbræðranna, að kenna Bobby hvernig hann ætti að koma sér áfram. Hann sagði við hann og var að kenna honum meginregluna: “Enginn gefur þér vald. Vald er eitthvað sem maður hrifsar til sín.” Dallasserían er nú kannski ekki lífsleikniþáttur fyrir unglinga, en setning ættföðursins um hið grímulausa, hrifsandi vald er eftirminnileg. Hún tjáir vel hvernig freki kallinn hegðar sér. „Power is not given to you. It is something you take!“

Eitthvað sem þú tekur þér! Valdið, sem þú hrifsar til þín! Þetta er Voldemortviska veraldar. Allt of margar frekjur ganga lausar í samfélaginu, sópa að sér fjármuni, reyna að ná bestu sætunum, aðstöðunni, hrifsa til sín valdastöðurnar. Dallassápan hefur lekið út í allt samfélagið, en jafnframt rutt frá sér hinni mjúku lífsvisku sem allt nærir og eflir.

Í Biblíunni eru í margar sögur um aðila sem sækja í vald. Aðalhrifsir Biblíunnar og sá versti er Satan og er eins konar safnmynd og táknvera alls hins versta. Hann sogar til sín, tælir, rænir og brjálar. Samkvæmt arfsögninni var Satan sonur ljóssins, engill Guðs. Hann vildi þó meira af dýrðinni en honum bar, vildi meira. Og sóknin í vald varð honum að falli. Svona saga varðar alla, er um okkur öll. Við þurfum ekki að taka hana afar alvarlega.

Er frekjan að hrjá þig?

Guðspjallsvers dagsins – í þriðja guðspjallinu – fjallar um það þegar fólk sest í rangt sæti og það er ein birtingarmynd þess að vera í ruglinu. Guðspjallið er um freka kallinn – og freku konuna. Lúkasarguðspjall er bók veislunnar og okkur er sagt frá samkvæmi. Jesús situr til borðs með hópi fólks. Venjan var að heiðursgesturinn talaði um lífið og trúna. Það var nú reyndar uppáhaldsefni Jesú eins og við vitum. Hann hefur sjálfsagt séð vandræðagang fólks við að finna sér rétt sæti. Freki kallinn hefur verið að troða sér og Jesús vísar til uppákomunnar til kenna tilheyrendum sínum lífsleikni. Auðvitað þekktu nærstaddir hinar stífu sætareglur. Enginn fór beina leið til gestgjafans og hlammaði sér niður honum til hægri handar. Og erindi Jesú er: Ertu freki kallinn inn við beinið. Er frekjan að heltaka þig?

Draumur þinn?

Viltu vekja athygli? Langar þig til að vera aðalkallinn – aðalkonan? Viltu verða frægur, ríkur, voldugur? Í undirbúningi kosninga eru þetta góðar spurningar. Kemur þú þér þar fyrir sem þín er ekki vænst og þú átt ekki að vera? Eða bíður þú og lætur vísa þér til sætis? Niðurstaða Jesú er að “…hver sem upphefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upphafinn verða.”

Hver er syndin?

Þessi íhugun um sætaröðun smellpassar inn í tíma okkar. Hún varðar eðli og hlutverk okkar allra. Marteinn Lúther minnti á að maðurinn væri incurvatus in se ipsum, kengboginn inn í sjálfan sig. Það heitir á einfaldri íslensku að vera sjálfselskur – frekjubeygla. Þau sem gera sjálf sig að nafla tilverunnar eru sjálfhverf. Fólki er ætlað að vera upprétt í samskiptum við fólk, náttúru og Guð. En þegar fólk bregst þeirri köllun sinni bognar það inn í sjálft sig. Þá riðlast allt, tengslin bresta og samskiptin. Freki kallinn eyðileggur lífið.

Hrokinn – hubris

Þessa innsýn höfum við Vesturlandabúar þegið í arf bæði úr hinni grísku og gyðinglegu hefð. Grikkirnir sögðu margar rosalegar sögur um þau, sem ekki þekktu mörk sín og ætlaðu sér aðra stöðu en mönnum er fært að skipa. Vefarinn Arachne ætlaði sér að sigra gyðjuna Aþenu í vefnaði. Hroki hennar varð til að henni var breytt í könguló. Draumasveinninn Narcissus tapaði glórunni og lífinu vegna ástar á sjálfum sér. Hann dó beinlínis af því að dást að spegilmynd sinni. Grikkirnir sáu, að þegar menn ætla sér annað og meira en mönnum ber, fer illa. Þeir kölluðu slíkt hroka, hubris. Þegar spekingurinn Evagrius frá Pontus setti fyrstur saman lista hinna verstu synda var hrokinn þar með. Síðar ákvað Gregor páfi á sjöttu öld hverjar dauðasyndirnar væru. Hrokinn hefur síðan oft verið talin meginsyndin og möndull hinna lastanna.

Einkenni hrokans

Hvað einkennir freka kallinn og freku konuna? Þau vilja vera miðja gæðanna. Hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þegar eitthvað fer aflaga kemur hinn freki sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. Einu gildir hvort það er í einkalífinu eða í pólitíkinni. Nazistarnir minntu alltaf á sökudólgana, kommarnir líka. Því miður er alltof mikið af heimspólitík okkar samtíðar með einkennum hinnar hrokafullu frekju. Þau “hin” eru sek, hinar þjóðirnar og eða hóparnir eru dólgarnir.

Frekjan deyðir

Frekjan er sjúkdómur, sem allir líða fyrir nema einna helst sá sem sjúkur er. Fíklar eru skýr mynd hins hrokafulla, haldnir sjálfsblekkingu og reyna alltaf að sannfæra aðra um eigin blekkingu. Hinn freki er sama marki brenndur, reynir að beygja aðra til fylgilags við sig. Hrokinn reynir að smækka tilveruna, einhæfa og rýra. Frekjan deyðir. Fólk tapar ávallt þar sem hrokinn stjórnar. Þar sem hrokafrekjan verður alger, hjá þeim sem hafa tapað siðferðiskennd og dómgreind, eru samferðamennirnir, makar, börn, ættingjar og vinnufélagar notaðir sem tæki til að ná dýrð, aðdáun, völdum eða fjármunum. Hrokinn er hið djöfullega í samfélaginu. Frekjan er alls staðar umhverfis okkur og líka í okkur sjálfum.

Auðmýktin – andstæða hrokans  

Hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig mun upphafinn verða. Þetta er boðskapurinn. Þessu vill Jesús miðla okkur. Auðmýktin, hver er hún og hvað er hún? Er mögulegt að vera auðmjúkur í hinni freku samkeppni? Já, vegna þess að auðmýkt er ekki það að vera geðlaus gufa. Auðmýkt er ekki sakleysi kjánans.

Auðmýkt er andstæða frekjunnar. Hin auðmjúku eru æðrulausir höfðingjar samstöðu og lífsverndar. Hin auðmjúku gera sér grein fyrir að öll erum við jafn mikilvæg, að aðrir eru ekki tæki í eigin þágu, heldur markmið í sjálfum sér eins og bæði Jesús Kristur og siðfræði Immanúels Kants minna okkur á. Á vegi auðmýktar lærum við, að við erum ekki nafli heimsins heldur fögur og fullgild meðal annarra fagurra og fullgildra. Við lærum að við eigum rétt – en þó ekki allan réttinn ein. Við göngumst við að við erum mikilvægur hlekkur í neti veruleikans en ekki miðdepill. Við skiljum að tilveran er fjölbreytileg og margbrotin og við megum gleðjast óttalaust gagnvart því sem er öðru vísi.

Það er ekki auðmjúk afstaða að halda að maður sé neðstur alls sem er og eigi að vera þar. Það er afrakstur lélegrar sjálfsmyndar. Auðmýkt hefur ekki með tap að gera, heldur er geðstyrk viska og heilbrigð veraldarsýn.

Hin fremstu eru hógvær og vitur

Mundu eftir anda boðorðanna: Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa. Þar eru skilin dregin. John Milton kenndi í Paradísarmissi að frekjan væri upphaf og forsenda annarra synda, hið djöfullega afl, sem við eigum í okkur, reynir að draga okkur á tálar, vill sannfæra okkur um að heimurinn eigi að lúta okkur. Þegar dýpst er skoðað er hrokinn uppreisn gegn Guði. Baráttan við frekjuna í okkur er því trúarbarátta þegar grannt er skoðað. Lestu Passíusálmana og þú munt nema sama boðskapinn.

Hin djúpa alvara í sögu Jesú er að veisluherrann í lífsveislunni er Guð sjálfur. Sætaröðunin er ekki af tagi Ewingpabbans, ekki samkvæmt handbók hins illa eða Furstum stjórnsnillinga (Machiavelli). Þar hrifsar enginn, þar er freki kallinn ekki í aðalsætinu. Þar eru allir menn uppréttir, tengdir og glaðir. Því þar er auðmýktin og lífsvitið. Í hvaða sæti ertu þú?

Prédikun 18. september 2016.

Lestrar 17. sunnudags eftir þrenningarhátíð, skv. A-textaröð.

Lexían Orðskv. 16.16-19

Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.
Braut hreinskilinna er að forðast illt,
að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar.
Drambsemi er undanfari tortímingar,
og oflæti veit á fall.
Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum
en að skipta herfangi með dramblátum.

Pistillinn Ef. 4.1-6

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Guðspjallið Lúk. 14.1-11

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Hjálp – hjálpaðu mér!

Hvað bregst fólk við þegar það lendir í lífsháska, t.d. fellur í ískaldan sjó og enginn bátur eða bjarghringur nærri? Ég hef hlustað á fólk lýsa viðbrögðum sínum. Og svo er líka æpt upp í himininn um hjálp.

Lífsópin

Hvað gerir flughrætt fólk þegar það lendir í flugdýfum í óveðri. Ég lenti einu sinni í rosalegu þrumuveðri yfir New York. Eldingar skáru myrk skýin og skruggurnar voru skelfileg nornaöskur. Um tíma var þögn farþeganna alger, nánast eins og í grafhýsi. Engar vélar lentu vegna óveðursins og flugvélin varð að bíða í risastórum flugstrokk yfir borginni. Allar vélarnar hringsóluðu og hentust til og tóku dýfur í öskrandi veðrinu. Þá ærðust nokkur af skelfingu og æptu í verstu kviðunum. Lífsþorstinn, lífsþráin spratt fram með miklum krafti.

Hvað gerir fólk þegar börnin veikjast og eru við dauðans dyr? Ég átti einu sinni dreng á vökudeild sem barðist fyrir lífi sínu. Og nokkur önnur voru á deildinni sem ekki var vitað hvernig reiddi af. Við, foreldrarnir, gengum um stjörf af ótta og bænirnir hrísluðust upp í hvelfingu himinsins. „Guð minn góður gefðu drengnum mínum líf.“ „Guð minn góður hjálpaðu stelpunni minni – ekki taka hana.“

Hvað gerir þegar þú þegar erfiðleikar steðja að þér og þú lendir í óskaplegum aðstæðum sem reyna á þrek, aðstæður, vit, þolinmæði og þrautsegju. Stundum verður álagið lamandi og fólk biður um að þessu megi linna og það geti komist út úr vandanum.

Hvað gerir þú þegar heilsan bilar? Ég hef horft í augu margra sem berjast við krabbamein. Ég bið fyrir mörgum sem eiga við skelfilegan heilsufarsvanda að etja. Hér í kirkjunni er m.a.s. bænastund í hverri viku – á þriðjudögum – þar sem beðið er fyrir veiku fólki. Á ögurstundum reynir á þroska fólks og hver er andleg festa þess. Og um hvað biður fólk? Lækningu, að verkir, mein læknist og að sjúkdómar víki. Fólk vill heilsu, gott líf.

Í hvaða aðstæðum leið þér verst? Hvenær var mest reynt á þig? Hvað gerðir þú þá? Hvernig brástu við? Baðstu annað fólk um hjálp? Hrópaðir þú til guðlegra máttarvalda? Trúir þú að frá Guði sé einhverja hjálp að fá?

Miskunna þú oss

Þessar spurningar, hugleiðingar og minningar eru til að ramma texta dagsins. Jesús var á ferð. Hann var við n.k. endimörk heimsins, þ.e. við samversku landamærin þar sem sómakærir fóru helst ekki. Og við þessi lífsmörk voru menn í lífshættu, tíu líkþráir menn alsettir sárum. Þeir voru menn sem allir forðuðust því sjúkdómur þeirra var hryllilegur og smitandi. Og líkþrá dró menn til dauða. Sjúkir menn rotnuðu eiginlega lifandi. Þeir voru því stórhættulegir, eins og geislavirkir. Fólk óttaðist þá og forðaðist þá fremur en að koma til þeirra. Þessi dauðasveit æpti til Jesú og bað hann að miskunna sér. Líkþráir menn eru sem tákn um allan vanda okkar og heimsins. Þeir æpa á hjálp af því þeir voru í lífsháska. Ekkert gat hjálpað þeim úr þessum nágreipum sem héldu fast og drógu þá niður í grafirnar hægt og örugglega. Hróp þeirra var einfalt en skýrt: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Í flestum mesum heimsins er þessi sama bæn beðin. Hún kemur frá þessum mönnum og öðrum sem kölluðu til Jesú: „… miskunna þú oss.“

Ranveruleg bæn?

Heyrum við þessi hróp? Skiljum við þau? Er þetta sem við segjum eða syngjum í upphafi messunnar bara orðagjálfur fólks sem nennir að fara á fætur á sunnudagsmorgni til að fara í kirkju? Er þetta merkingarlaus þula án blóðs, svita og tára? Þurfum við að taka glanspappírinn utan af messusetningunum? Þurfum við að þvo af okkur svolítið af slepju vanans, helgislepjunni líka? Getur verið að það gagnist okkur í vanda og lífi? Já, því allt sem er sagt og tjáð í messunni er um raunverulegt líf, um atburði í þínu lífi, tengist því sem þú ert og því sem þú upplifir. Við megum gjarnan skilja að orðin eru ekki himneska, utan við heiminn og í einhverju dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar innri mann, heilsu, samskipti, mat, hreyfingu, hlátur, áföll, flugslys, giftingar, börn – lífið í margbreytileika sínum.

Tíu líkþráir menn stóðu ekki í verklausri pásu við veginn og biðu eftir einhverri skemmtun. Þeir æptu vegna þess að lífi þeirra var ógnað, innan frá, utan frá, félagslega og trúarlega. Þó þeir stæðu þarna lifandi voru þeir samt dauðadæmdir menn. Og þeir tjáðu sín hjartans mál með orðunum: „Miskunna þú oss.“ „Kyrie elison“ eru þessi orð á grísku og til í þúsundum tónverka, kirkjutexta, bókmenntum og menningarefni. Í þessari setningu er orðuð þrá lífsins í landi dauðans. Í Biblíunni hefur miskunn verið heiti yfir hjálp sem fólki veitist til að það geti lifað. Miskunn er ekki eitthvað á himnum heldur á jörðu; varðar mat, hjálp gegn óttaefnum, hjálp í stríðum, náttúruhamförum og þegar börnin deyja, maki ferst, þegar sjúkdómar æða eða villidýr bíta. Að njóta miskunnar er að njóta lífs. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk fái heilsu, verði bjargað, fái svalað svengd maga og sálar.

Þakkarleysið

Hinir líkþráu voru á leiðarenda og hrópuðu út úr dauðadeildinni. Og þeir báðu Jesú Krist, um hjálp. Sagan er ekki um hvað eða hvernig Jesús fór að. Sagan er fremur um til hvers lífið er, möguleika í aðkrepptum aðstæðum. Sagan tjáir að Guð heyrir köll, bregst við, svarar fólki og styður það sem er gott og verndar líf. Og mennirnir fóru og í ljós kom við rannsókn að sjúkdómur þeirra var rénandi, sárin voru að gróa, þeir voru heilir. En sagan á sér skuggahlið. Við fáum við líka að vita að 90% gleymdu að þakka fyrir sig. Þeir voru svo fljótir að gleyma að aðeins 10% hópsins kom til að segja takk við Jesú Krist, sem gaf þeim lífið að nýju. Og þakklæti varðar lífsafstöðu.

Hvernig tengir þú?

Miskunna þú mér – hjálp. Það var kall dagsins. Og nú erum við búin að biðja hjálparbænina í messunni í dag. Ef þú hefur lent í lífsháska eða verulega aðkrepptum aðstæðum veistu að þú hefur þurft hjálp. Við túlkum í algeru og róttæku frelsi hvort hjálpin er smá eða stór. Ef við höfum enga trú á guðlegum mætti búumst við ekki við neinum svörum við hjálparbeiðnum. En ef við erum trúarlega músíkölsk getum við séð Guð að verki alls staðar. Mér hugnast slík nálgun betur en hin. Á sjúkrahúsum, í skólum, í samskiptum fólks, í flugvélum, í stríðum og erfiðum aðstæðum er Guð nærri. Miskunna þú – hjálp. Og Guð heyrir og við megum trúa að Guð bregðist við.

Hvernig líður þér? Hefur þú hrópað á hjálp í lífsháska? Hefur þú fengið hjálp þegar ástvinir þínir börðust við sjúkdóma og dauða? Er hjálpin sem þú fékkst sjálfsögð eða guðsgjöf?

Amen.

Hallgrímskirkja 28. ágúst.

Textaröð: A

Lexía: Slm 146

Hallelúja.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,

lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmönnum,

mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Þegar öndin skilur við þá

verða þeir aftur að moldu

og áform þeirra verða að engu.

Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar

og setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapaði himin og jörð,

hafið og allt sem í því er,

hann sem er ævinlega trúfastur.

Hann rekur réttar kúgaðra,

gefur hungruðum brauð.

Drottinn leysir bandingja,

Drottinn opnar augu blindra,

Drottinn reisir upp niðurbeygða,

Drottinn elskar réttláta,

Drottinn verndar útlendinga,

hann annast ekkjur og munaðarlausa

en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

Drottinn er konungur að eilífu,

Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.

Hallelúja.

 

Pistill: Gal 5.16-24

En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.

Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

 

Guðspjall: Lúk 17.11-19

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“