Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Eyland og lífland – Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Móse

 

Ein af merkilegustu bókum sem ég las í vetur er Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Ég heillaðist af hugmyndaauðgi og dýpt þessarar skáldsögu. Söguþræðinum verður ekki lýst í nokkrum setningum, en þó hægt að upplýsa að í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins eða fara, engin skip heldur. Öll fjarskiptasamskipti rofna og Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma, sem leiddi til hruns, raunar algers og rosalegs kerfishruns.

Eyland er vel heppnuð bók um risastóra hugmynd, saga á mörgum plönum og um mörg mál. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða siðferði býr í menningunni? Eyland lýsir vel að menning verndar líf en líka hvað stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menningin er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorði tíu

Lexía dagsins talar inn þetta spurningaflóð. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði upplifað langvarandi kerfishrun. Og slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og jafnvel hryllilega reynslu. Þessi texti dagsins er um það sem við köllum boðorðin tíu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á Sínaífjalli. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur eru samandregnar og einfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kemur á undan ritverkum. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, orðið fyrir hruni, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin í mann-og dýraheimum valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Og hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Menning er alltaf þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Boðorðin urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, samskipti, landbúnað og samskipti við aðrar þjóðir. Og þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur haft áhrif á gildandi mannréttindabálka, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú. 

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Og mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Eining en samt tvær víddir

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að skoða hið gamla efni og færa í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samdráttur eða samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum setti hann saman í það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvirðingu og mannvernd – að við eigum að virða og elska fólk – alla.

Kærleiksboðið í krossinum

Og krossar heimsins minna á það sama – á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin til Guðs. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur um fólk, alla menn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim, en líka náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, reglum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fortíð. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!”  

Ertu sammála? Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, elska – sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa í þeirri lífsafstöðu og leggja lífinu lið – sem er mál seinni orðanna. Það er til að hindra kerfishrun, að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 19. mars, 2017, 3. sunnudagur í föstu.

Hjálp!

Ég var að lesa bók um göngu ungrar konu á Jakobsveginum á Spáni. Bókin heitir Vegur vindsins og höfundur hennar er Ása Marin. Sagan greip mig strax og hélt mér föngnum. Þetta er skáldsaga um unga, íslenska konu. Hún fékk þær hræðilegu fréttir að hún væri með krabbameinvarp í brjósti. Hörmungarfréttin varð til að hún lagði upp í göngu á Jakobsveginum við norðurströnd Spánar – til að vinna með áfallið, með sjokkið, meinið innra. Hún vildi ganga með sjálfri sér áður en hún segði öðrum frá  – kærastanum, foreldrum og fjölskyldu – að hún væri að fara í uppskurð. Sagan er sögð af hispurslausri einlægni og stíllinn er teprulaus. Vegur vindsins er vel skrifuð saga um hvernig vinna megi með áfall og breyta sjúkdómsferli í bataferli.

Íhugunargöngur eru komnar í tísku og Jakobsvegurinn heillar. Pílagrímagöngur eru tákngöngur og við erum öll pílagrímar í veröldinni. Við örkum æviveginn, stuttan eða langan. Og við veljum sjálf hvernig við lifum, hvort við erum þolendur eða öxlum ábyrgð, hvort það er gaman hjá okkur eða hvort við nöldrum okkur í gegnum lífið? Á göngu og í lífinu mætum við sjálfum okkur og glímum við líkamlegar takmarkanir, veikindi og átök. Á göngu og í lífi skella á okkur öldur tilfinninga. Ef við verðum undir öldunni er hætt við að við skröpum botninn. En við getum valið hinn kostinn að mæta öldunum, stinga okkur í gegnum þær og vinna visku úr flóðinu.

Á göngu og í lífi opnast dýptir hinna stóru spurninga. Af hverju lifi ég? Hver eru gildi mín, hvernig vil ég bregðast við samferðafólki – og misskemmtilegu? Hvaðan kem ég og hvert stefni ég? Hvað á ég að gera með stóru spurninguna – um Guð? Trúi ég? Og ef ég vil trúa – hverju get ég trúað svo sátt verði í hjarta en líka skynsemi hugans? Stríð milli trúar og vísinda er tilganslaust og skaddar báðar systurnar, trú og skynsemi.

Ása Marin skrifar listilega um leit einstaklingsins að djúpri sátt í Vegi vindsins. Bókin tjáir skýrt vanda nútímamannsins gagnvart trú. Fólk þolir ekki skinhelgi en leitar samt hins heilaga. Fólk vill ekki úrelta lífsafstöðu en þráir að undur lífsins sé dýpra og stærra en krónur, klink og hlutir. Krabbinn í sögunni er tákn um kreppu karla og kvenna samtímans. Við erum á leið lífsins en með æxli hið innra, í leit að lækningu. Hvernig getum við fengið lausn vandans? Hvað er heilagt og hvernig kemur það okkur við?

Sá blindi

Þá snúum við okkur að Bartíemeusi blinda, sem sat við veginn til Jeríkó. Hann er íhugunarefni dagsins. Karlinn var í vanda. Á Jesútíma var fjörlegt helgihald í Jeríkó og fjöldi presta starfaði þar. Þetta var trúarlegur höfuðstaður og því eðlilegt að Jesús kæmi þar við á Jersúsalemgöngu sinni.

Ég hef einu sinni komið til Jeríkó, sem er í dalnum við Jórdaná. Dagur var að kvöldi kominn og yfir fjöllunum í vestri, yfir Jerúsalem, skáru stórkostlegir sólstafir dökka skýkjabakka. Litadýrðin og ljósdrama var meira en ég hef séð í öðru samhengi.

Bartímeus sat þarna en aldrei varð hann orðið vitni að sjónarspili sólstafa. Aldrei hafði hann heldur séð hina dásamlegu liti þríburablómsins, Bougainvillea, sem teygir sig um alla veggi borgarinnar. Hann hafði bara upplifað ljósaganginn innan í sér og þrá sína um lausn úr myrkri prísundinni. En svo var þessi lækningamaður Jesú kominn í bæinn.

Ertu Bartímeus?

Saga um blindan mann sem leitar lækningar er skiljanleg. En nafn mannsins er hins vegar dularfullt. Við vitum að að fyrri hlutinn – bar – þýðir einfaldlega sonur. Nafnið Bartímeus merkir því sonur Tímeusar og Bartímeus er því ekki eiginlegt skírnarnafn. Við vitum ekki hvað blindi maðurinn hét – hann var bara kunnur af viðurnefni. Kannski var hann nafnlaus og virðingarlaus neðst í metastiga samfélgsins og aðeins þekktur af samhengi sínu. Flestar biblíusögur eru á mörgum plönum og það er áhugavert að ein merking orðins Tímeus er skítur, óhreinindi, drulla. Ef það er merkingin eru skilaboðin að hann væri barn óhreinleikans. Í djúpum skít. Blindur maður fastur í drullu. Og þá er hann orðinn tákn. Ef menn samþykkja að við séum ekki fullkominn er Bartímeus tákn um alla. Við erum öll Barímeus.  

Lifa vel

Bartímeus vissi að enginn myndi beina athygli Jesú að honum, nafnlausum drulludela. Hann var staðráðinn í að láta ekki hjálpina fara hjá án þess að ná sambandi. Bartímeus æpti og lét sig engu varða þótt fólk reyndi að þagga niður í honum. Hann vildi ná athygli Jesú. Þegar Jesús spurði hvað hann vildi stóð ekki á svarinu: “…að ég fái aftur sjón.” Svo féll dómurinn, “…far þú, trú þín hefur bjargað þér.” Sjónin kom og líka viljinn til að lifa vel.

Hjálp

Bartímeus æpti: “…miskunna þú mér.” Þetta er ein frægasta bæn kristninnar. Hún er beðin í öllum öllum messum hér í Hallgrímskirkju. Kyrie eleison, Drottinn miskunna þú mér. Kristur miskunna þú mér. Við Íslendingar erum ekki ein um að þessa bæn heldur hljómar hún í flestum messum heimsins. Allir kórar, sem syngja einhver kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison, Drottinn, miskunna þú mér.

Þegar okkur líður illa sprettur þessi sama bæn upp í djúpi sálarinnar. Þegar við æðum á spítala með börnin okkar fárveik er það þessi gerð bænar sem flengist fram. Líka þegar við lendum í ástarsorg, missum ástvin í dauðann – þegar við erum að sökkva í myrkur, veikindi, drullu heimsins þá æpum við hið innra: Hjálp. Og það er þessi hjálparbeiðni sálarinnar sem er inntakslega hið sama og bænin: Drottinn, miskunna þú mér. Kyrie eleison.

Bæn og ósk

Þegar Elísa gekk Jakobsveginn var hún með krabbamein í líkama sínum. Henni fannst hún vera sokkin í drulluna. Hún var Bartímeus og æpti á hjálp, vonaði að hún fengi raunverulegan bata, þráði stuðning að ofan þó hún væri ekki guðstrúar.

Hún sagði frá því að þegar hún var lítil hefði hún ekki beðið til Guðs en hún hefði hins vegar kunnað að óska sér. Þegar hún handsamaði fiðrildi notaði hún þá óskasstund til að nefna það sem hana langaði í. Þegar hún fann fjögurra blaða smára óskaði hún sér líka. Og þegar hún taldi sig vera undir regnboganum var tími óskanna. Þegar hún henti pening í gjá á Þingvöllum þá var tími til að óska líka – þar er óskabrunnur.

Elísa gerði sér grein fyrir mun á ósk og bæn og segir á einum stað: „Ég kann ekki að biðja en ég kann að óska mér.“ Og það er munur á bæn og óskum. Við óskum okkur hluta, upplifana, að vera á einhverjum draumastað og að komast í einhverjar aðstæður. Óskir okkar eru eitthvað sem við okkur langar í. En bæn er ekki röð af óskum. Bæn varðar hið stóra og mikla, – það sem varðar líf og hamingju. Barnið óskar sér en lífið biður. Bartímeus var ekki með óskalista einhverra smámála sem hann gæti hugsað sér. Mál hans var mál lífsins. Hann bað frá dýpsta grunni sálar, huga og líkama. Hjálp – gefðu mér von, ljós og breytingu.

Bæn varðar alltaf líf og biður um líf. Bæn er ekki ósk um eitthvað yfirborðslegt, smæðarlegt og sjálfhverft. Elísa bað um að fá að vera laus við sorann og Bartimeus bað um sjón – svo hann gæti losnað úr skítnum.

Hjálpin nærri

Sagan um Bartímeus er saga um okkur öll. Og göngusaga Elísu á Jakobsveginum er heillandi saga sem getur opnað fyrir okkur möguleika í lífinu. Hver verður með sjálfum sér lengst að fara. Ertu að sökkva í skítinn? Herja veikindi á þig? Líða ástvinir þínir? Þú mátt kalla á hjálp. Jesús er við eldhúsborð og rúmstokka – líka hér í Þingholtunum – er nærri þér í angist þinni og við hlið þér á Landspítalanum. Jesús Kristur heyrir þegar fólk æpir og kemur. Við ákveðum sjálf hvort við viljum að lífið sé skítt eða lífið sé bataferli. Á okkar valdi er hvernig við lifum og göngum. En Jesús er besti samferðamaðurinn – dregur okkur upp úr soranum og gefur sjón.

Kyrie eleison. Kristur hjálpa þú. Drottinn – miskunna þú.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, annan sunnudag í föstu, 12. mars, 2017.

Textaröð: B

Lexía: 2Mós 33.12-13
Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“

Pistill: Heb 5.7-10
Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Guðspjall: Mrk 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

 

Nauðgun og sáttargerð

Hvað merkir friður? Hvað þýða gömul orð eins og fyrirgefning, réttlæting, iðrun og náð? Þau eru stór og fangvíð. En skiljast þau og tengjast þau lífi þínu og lífi fólks almennt? Hafa þau tapað merkingu af því trúfræðin er roskin og úr takti? Hvað þýðir sáttargerð? Er það orð úr upphafinni himnesku sem ekki tengist tilfinningum fólks, reynslu og þrá? Sáttargerð hefur verið orðuð og iðkuð í kristninni í tvö þúsund ár, miðlað því sem Guð gerir og maðurinn einnig.

Í gærmorgun vaknaði ég snemma. Þrátt fyrir stórviðrin opnaði ég tölvuna í kyrru sofandi heimilis og fór að horfa á og hlusta á TED-fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger sem barst um netheima heimsins í fyrradag og vakti gríðarlega athygli. Þau kynntust árið 1996 þegar Tom var skiptinemi á Íslandi. Hann var átján og hún sextán. Eftir skólaball nauðgaði Tom Þórdísi Elvu. Þau gerðu ekki atburðinn upp á þeim tíma. Hann hélt sína leið til Ástralíu og hún var eftir með sársauka og óuppgerða reynslu. En hún vann með sinn innri mann og eftir mörg ár ákvað Þórdís Elva að senda nauðgaranum bréf. Hún vissi ekki hverju hún ætti von á og vissi ekki hvort hann gæti iðrast. En hann svaraði bréfi hennar og viðurkenndi afbrot sitt. Þau ákváðu að hittast í Höfðaborg í Suður Afríku – miðja vegu milli Íslands og Átsralíu. Í heila viku töluðu þau saman – um sársauka, líðan, hlutverk og unnu úr.

Í Ted-fyrirlestrinum segja þau bæði frá glæpnum, úrvinnslunni og samhenginu. Hún skilaði skömminni, hann gekkst við brotinu og þau tengja við hvað við getum gert til að bregðast við ofbeldi. Þetta er átakanlegur en hrífandi fyrirlestur um hrylling sem ekki á að líða heldur vinna gegn og vinna úr.

Hefði Þórdís Elva bara átt að tala við góða sálfræðing, ná sér í vodkaflösku og detta ærlega í það – eins og hún spurði í fyrirlestrinum? Hefði málið kannski klárast þannig? Nei. Hefði hún verið bættari að hefna sín á honum? Gæti og vildi hún fyrirgefa honum ef hann játaði brotið? Hún sendi bréf, hann gekk í sjálfan sig. Þau skrifðust á í átta ár, greindu flækju glæps, tilfinninga og ferils. Og saman opnuðu þau þessa sögu á TED í fyrradag – 7. febrúar 2017. Þau sögðu blóðríka sögu sem lyktaði með fyrirgefningu og sáttargerð. Og gáfu út bók um glæp og úrvinnslu – Handan fyrirgefningar. Þetta er einstakt mál, einlægnin mikil og hugrekkið stórkostlegt.

Um hvað eru stóru orðin í Biblíunni? Þau eru alltaf um raunverulegt líf. Allir menn verða fyrir einhverjum áföllum. Fólk gerir illt og á fólki er brotið. En hvernig á og er best að vinna úr? Hvernig getum við – eða eigum við – að bregðast við orðum og gerðum fólks sem níðist á okkur? Að vera manneskja varðar að læra að gangast við gerðum sínum. Að vera manneskja varðar að vinna úr áföllum og hrottaskap. Þegar best lætur nær fólk að feta sig upp stiga þroskans og miðla viskunni. Þórdís Elva og Tom náðu að tala saman um hið liðna og opna dýptir sálar og segja okkur hinum. Þau urðu náðarrík í samskiptum við hvort annað af því þau gengust við reynslu sinni og vildu opinbera hið illa. Þau náðu sáttargerð og eru í sólarlandinu handan fyrirgefningar.

Þegar brot hefur verið framið þarf að hreinsa sár, gera upp og gera gott að nýju. Það eru þættir í ofursögu kristninnar. Guð tók af skarið, hafði samband, lét sig varða uppgjörið, elskaði, var tilbúinn að ræða málið í þaula, við alla og gera upp. Tilreiknaði ekki syndir heitir það á máli Biblíunnar. Hitti gerandann og gaf honum nýjan möguleika. Og persóna sáttargerðar í kristninni er Jesús Kristur sem alltaf bendir að baki hefnd og harðneskju til betri niðurstöðu sem elskan stýrir.

Tom og Þórdís Elva hafa sýnt okkur heillandi þráð í kærleiksfesti heims og himins. Saga um glæp varð saga um líf. Þolandi og gerandi leystu hrylling úr fjötrum þöggunar og ofbeldis. Langur föstudagur upplýstist á páskadegi sáttargerðar. Lífið er sterkari en dauðinn. Sáttargerð og fyrirgefning eru ekki úrelt, frekar en hin stóru orðin. Og Guð ekki heldur.

Íhugun í kyrrðarstund Hallgrímskirkju 9. febrúar 2017.

Meðfylgjandi mynd er verk Kristínar Gunnlaugsdóttur og í eigu Hallgrímskirkju. 

 

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.