Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.  

Er í lagi að drepa barn?

Hvernig líður föður sem skipað er að myrða son sinn? Getur nokkur heilbrigð manneskja tekið upp vopn og stungið afkvæmi sitt? Nei, það er óhugsandi. En í sögu dagsins, lexíunni, er þó sagt frá ótrúlegri mannraun sem endaði nærri með barnsmorði. Hvað eigum við að gera með slíkan texta í hinni helgu bók? Já hvað eigum við að gera með hryllingstextana?

Hvað myndum við gera í lífi okkar ef okkur væri fyrirskipað að aflífa barnið okkar? Og það sem verra er að skv. frásögunni í þessum biblíutexta er það Guð sem kemur Abraham, einni af ofurhetjum Biblíunnar, í klemmuna. Sagan um fórn Ísaks er hryllingssaga sem hefur skekið hugi margra um allar aldir. Réttlætir textinn barnaofbeldi? Hver er tilgangur hans? Er þessi texti vitnisburður um sturlun sem réttlætt er með vísun til æðri máttar? Er það skylda trúmanns að gera hvað sem er til að þóknast duttlungum Guðs? Vil ég trúa á Guð sem krefst þess að saklausu lífi sé eytt, að börn séu drepin? Getur þú trúað slíkum Guði?

Nei

Ég settist niður í byrjun vikunnar til að íhuga texta dagsins og m.a. lexíuna um  Abraham og Ísak. Ég uppgötvaði þá að ég hef aldrei – á öllum mínum prestsskaparferli – prédikað út af þessum texta (enda er á þessum 5. sunnudegi í föstu oftast boðunardagur Maríu sem er gleðidagur). Abraham og Sara, kona hans, hafa lengi verið mér hugstæð. Þegar við hjónin eignuðumst tvíbura las ég upphátt fyrir konu mína hina kátlegu sögu af því þegar háöldruð hjón eignuðust kraftaverkabarn sem fékk svo nafn sem merkir Guð hlær. Ísak var barn guðlegrar gleði. Drengirnir okkar eru kraftaverk fullorðinna foreldra og okkur þótti við hæfi að annar þeirra fengi og bæri þetta geðilega nafn Ísak. En á þessum tíma las ég ekki upphátt fyrir konu mína söguna af ferð þeirra feðga, Abrahams og Ísaks til Moríafjalls og hrikalegt inntak sögunnar veik.

Í kristninni hefur þessi frásögnin – í 22.  kafla fyrstu Mósebókar – verið túlkuð sem trúarraun Abrahams, manns sem var alltaf reiðubúinn að hlýða Guði í einu og öllu. Og af því sagan endar vel hefur gleymst hið dimma inntak sögunnar. Ég hef ekki sett mig í spor feðganna áður. Ég trúi á Guð  – en hvað gerði ég ef ég heyrði rödd af himni sem skipaði mér að leggja drenginn minn á eldiviðarstafla og skera hann á háls? Þegar ég setti mig í stöðu föðurins uppgötvaði ég viðbjóðinn. Í huga mér er djúpt og ákveðið NEI – ekki bara föður-nei heldur einnig trúar-nei. Ef Guð myndi skipa mér að skera son minn myndi ég hiklaust segja nei. Guð, sem krefðist slíks, er ekki traustsins verður. Ég trúi ekki á slíkan Guð. Sá Guð sem megnið af ritum Biblíunnar segir frá og Jesús Kristur opinberaði heiminum er ekki harðstjóri og krefst ekki mannfórna. En þessi Guð sem sagt er frá í sögunni um Abraham er öðru vísi  – fremur guð dauða en lífs. En það er aldrei í lagi að drepa barn.

Og hvað eigum við þá að gera við þessa sögu í byrjun Biblíunnar? Og hvernig eigum við að nálgast og skilja þessar sögur? Hvaða hlutverki þjóna þær? Eigum við ekki bara að skera þær úr helgiritum okkar og kasta þeim á bálkesti menningarinnar? Nei, biblíuritin í heild sinni eru raunsæisbókmenntir heimsins – í þeim er allt litróf mannlífs – allar tilfinningar – heilbrigði og líka hryllingur villimennskunnar. Þar eru líka mismunandi guðsmyndir sem hver maður þarf að glíma við og gera upp við. Klisjur í trúarefnum hjálpa ekki heldur það sem eflir raunsæi og vit til lífsverndar.

Katharina, Kant og Kierkegaard

Til er frásögn af Katharinu af Bora, konu Marteins Lúthers, sem hlustaði á mann sinn lesa 1. Mósebók upphátt fyrir fjölskylduna. Kata var klók, vel heima í guðfræði og rauk upp þegar hún heyrði þessa sögu um Abraham. Hún brást hart við, rauf lestur bónda síns og sagðist alls ekki trúa því að Guð myndi nokkrun tíma skipa manni að drepa eigin son. Ég er sammála guðfræði Katharinu.

Heimspekingurinn Immanúel Kant, sem ég hef miklar mætur á, minntist á þessa Abrahamssögu í riti sem hann skrifaði og gaf út skömmu fyrir aldamótin 1800. Kant var alla tíð umhugað um hlutverk, skyldu, siðalögmál og hvernig við eigum að hegða okkur. Hann kenndi að enginn maður geti nokkurn tíma aflífað saklausan son sinn. Krafan væri ósiðleg og í andstöðu við heilbrigða skynsemi manna. Svo væri raunar alltaf óljóst hvort Guð krefðist slíks því við menn gætum ekki með skynfærum okkar greint á milli réttra og rangra skilaboða að handan. Því ættu menn alls ekki að hlýða slíkum kröfum sem Abraham hefði talið sig fá. (Sören Kierkegaard var vel lesinn í Biblíunni og rakti síðar þræðina frá Kant í ritinu Uggur og ótti).

Ekki mann deyða

Siðfræðingarnir benda okkur á að krafan í Abrahamssögunni sé ósiðleg. Trúarheimspekin sýnir okkur að vitrun Abrahams hafi verið vafasöm. Við vitum að barnafórnir tíðkuðust meðal þjóðanna í nágrenni Ísraels. En hinir fornu hebrear fóru aðrar leiðir og stunduðu ekki mannfórnir (mér er bara kunnugt um eitt tilvik í þessu mikla ritasafni og þar er um skýrt frávik). Og við megum muna reglu hebreanna í fimmta boðorðinu: Þú skalt ekki mann deyða.

Sagan um fórn Ísaks er ekki lýsing á raunverulegum atburði heldur táknsaga. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þessi saga er einhvers konar inntakssaga. Sumir fræðimenn telja að hún sé í raun andsaga, hlutverk hennar hafi verið að sýna þjóð og Guð hverfa frá fórnfæringu barna. Ísraelsmenn ættu að hegða sér öðru vísi en nágrannaþjóðir og láta af mannfórnum. En þetta “andhlutverk” er þó óljóst og ósannað. Sagan gæti líka verið táknsaga um að þeir feðgar hefðu staðist öll próf hversu hræðileg sem þau nú voru. Hetjur allra alda þurfa að undirgangast próf og standast til að ná þeim markmiðum sem hetjan á að ná. Þessi saga gæti jafnvel  hafa verið hluti af trúarleikhúsi Ísraelsþjóðarinnar til að miðla að Abraham og Ísak hefðu tekið út þroska og lært mikið – og að þeir brotnuðu ekki á leiðinni og voru því trúarjöfrar. Og svo má auðvitað lesa þessa sögu sem táknsögu um skelfingarmál í mörgum fjölskyldum heimsins. Stundum tryllast feður – einnig mæður og annað fólk í fjölskyldunum – og fremja illvirki. Á öllum öldum hefur verið til brjálað fólk sem þykist fá fyrirskipun úr æðri heimum um að það eigi að deyða börn sín. Á hverju ári eru slík illvirki framin einhvers staðar í heiminum og fjölmiðlarnir segja frá. Mín afstaða er eins og Kötu konu Lúthers. Það er aldrei hægt að réttlæta ofbeldi gegn saklausum börnum, saklausu fólki, með vísun til guðlegs boðs.  

Lífga heiminn

Og þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja texta Ritningarinnar. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita. Til að þess að sjá og finna hrútinn fastan á hornunum í runnanum, finna merkingu og greina samhengi í heildinni lagði Marteinn Lúther til túlkunarreglu við lestur Biblíunnar. Við ættum að skilja Biblíuna í ljósi Jesú Krists. Hver var mannsýn hans, veraldarsýn og trúarsýn? Jú, sá Guð sem hann tjáir er ekki guð hnífanna heldur skapandi, elskulegur og hlýr Guð sem kallar fram veröldina, mennina, lífið, samfélag og hið góða. Hefði Jesús einhvern tíma sett hníf að hálsi barns og skorið? Nei. Hann hefði frekar fórnað sjálfum sér ef hann hefði verið settur í þá skelfingaraðstöðu. Hann var ekki lagður á bálköstinn, hann gekk fram til að þyrma lífi.

Merkingardjásn Biblíunnar – í báðum testamentum – er að heimur Guðs er heimur elskunnar. Jesús Kristur opinberar þann Guð. Í þeim anda lifum við best í samtíð okkar. Kristnin varðar þó að vera tengdur Jesú Kristi og bæta heiminn með honum.

Guðstrúin

Í gær var ég að íhuga Ísakssöguna þegar Ísak sonur minn kom til mín. „Pabbi minn, ég elska þig,“ sagði hann. Mér hlýnaði um hjartarætur og hvíslaði til Abrahams í djúpi hugans. „Nei, ég mun aldrei fara upp á fjallið, mun aldrei neyða drenginn til að bera fórnarviðinn.“ Af hverju? Vegna þess að ég trúi ekki á Guð hnífanna. En ég veit þó vel að alvara sögunnar er að við getum öll tapað áttum. Við getum öll orðið Abraham – með hníf á lofti og jafnvel beitt honum og stungið. Líka í trúarefnum! En þegar menn stinga grætur Guð. Guð biður alltaf um að lífi sér þyrmt.

Við megum gjarnan leyfa lausnarerindi sögunnar að vitja okkar. Er eitthvað í þér sem meiðir og deyðir? Ertu í einhverri stöðu sem þú þarft að losna úr? Abraham og Ísak losnuðu. Þeir heyrðu kall til frelsis. Þú mátt heyra kall til lausnar, úr sorg, úr öllum festum þíns lífs. Guð hefur áhuga á lausn en ekki viðjum. Jesús Kristur breytti veröldinni með boðskap, afstöðu og elsku. Okkar er að leyfa Guði að endurskapa veröldina og líka okkur. Við þurfum engar fórnir heldur elsku. Guð vill hlægja en ekki gráta og við menn erum þeirrar guðsgerðar einnig. 

Ég trúi á Guð sem elskar, Guð sem leysir og Guð sem blessar.

Dýrð sé þeim Guði.

Amen í Jesú nafni.

Prédikun í Hallgrímskirkju 2. apríl, 2017. 5. sunnudagur í föst. B-textaröð kirkjuársins. Lagt út af lexíu dagsins. Þegar ég var búinn að skrifa fyrsta uppkast prédikunar var ég hugsi yfir túlkuninni. Og sendi til dr. Gunnlaugs A. Jónssonar, prófessors. Hann las yfir hratt og sendi mér á laugardagssíðdegi langan pistil og hugleiðingar. Ég breytti ýmsu til bóta í ljósi orða Gunnlaugs. Takk fyrir mig. 

Lexía: 1Mós 22.1-13
Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.

Pistill: Heb 13.12-13
Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

Guðspjall: Mrk 10.35-45
Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

The Sermon

Today we will discuss the dramatic story of Abraham and Isaac in Genesis 22. What kind of God demands a father to kill his son? Can we believe in such a God? Is this a story of the worst possible child abuse? What to do with horror-stories of the Bible? Has the god of the Hebrews evolved from a tyrant demanding outrageous obedience into a totally different type of God – the God of Jesus Christ? What is the value of the story of a father ordered to slaughter his son Isaac (the name of the boy meaning laughter, indeed God’s laughter!). Take the time to think about your belief. What are your values and what are your limits? Do you obey in your life some faulty authorities you should say no to? Is this the time for reversal and a new beginning in your life?

Genesis 22 (NIV)

Sometime later God tested Abraham. He said to him, “Abraham!” “Here I am,” he replied. Then God said, “Take your son, your only son, whom you love—Isaac—and go to the region of Moriah. Sacrifice him there as a burnt offering on a mountain I will show you.” Early the next morning Abraham got up and loaded his donkey. He took with him two of his servants and his son Isaac. When he had cut enough wood for the burnt offering, he set out for the place God had told him about. On the third day Abraham looked up and saw the place in the distance. He said to his servants, “Stay here with the donkey while I and the boy go over there. We will worship and then we will come back to you.” Abraham took the wood for the burnt offering and placed it on his son Isaac, and he himself carried the fire and the knife. As the two of them went on together, Isaac spoke up and said to his father Abraham, “Father?” “Yes, my son?” Abraham replied. “The fire and wood are here,” Isaac said, “but where is the lamb for the burnt offering?” Abraham answered, “God himself will provide the lamb for the burnt offering, my son.” And the two of them went on together. When they reached the place God had told him about, Abraham built an altar there and arranged the wood on it. He bound his son Isaac and laid him on the altar, on top of the wood. Then he reached out his hand and took the knife to slay his son. But the angel of the Lord called out to him from heaven, “Abraham! Abraham!” “Here I am,” he replied. “Do not lay a hand on the boy,” he said. “Do not do anything to him. Now I know that you fear God, because you have not withheld from me your son, your only son.” Abraham looked up and there in a thicket he saw a ram[a] caught by its horns. He went over and took the ram and sacrificed it as a burnt offering instead of his son.

Eyland og lífland – Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Móse

 

Ein af merkilegustu bókum sem ég las í vetur er Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Ég heillaðist af hugmyndaauðgi og dýpt þessarar skáldsögu. Söguþræðinum verður ekki lýst í nokkrum setningum, en þó hægt að upplýsa að í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins eða fara, engin skip heldur. Öll fjarskiptasamskipti rofna og Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma, sem leiddi til hruns, raunar algers og rosalegs kerfishruns.

Eyland er vel heppnuð bók um risastóra hugmynd, saga á mörgum plönum og um mörg mál. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða siðferði býr í menningunni? Eyland lýsir vel að menning verndar líf en líka hvað stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menningin er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorði tíu

Lexía dagsins talar inn þetta spurningaflóð. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði upplifað langvarandi kerfishrun. Og slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og jafnvel hryllilega reynslu. Þessi texti dagsins er um það sem við köllum boðorðin tíu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á Sínaífjalli. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur eru samandregnar og einfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kemur á undan ritverkum. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, orðið fyrir hruni, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin í mann-og dýraheimum valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Og hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Menning er alltaf þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Boðorðin urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, samskipti, landbúnað og samskipti við aðrar þjóðir. Og þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur haft áhrif á gildandi mannréttindabálka, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú. 

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Og mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Eining en samt tvær víddir

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að skoða hið gamla efni og færa í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samdráttur eða samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum setti hann saman í það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvirðingu og mannvernd – að við eigum að virða og elska fólk – alla.

Kærleiksboðið í krossinum

Og krossar heimsins minna á það sama – á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin til Guðs. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur um fólk, alla menn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim, en líka náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, reglum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fortíð. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!”  

Ertu sammála? Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, elska – sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa í þeirri lífsafstöðu og leggja lífinu lið – sem er mál seinni orðanna. Það er til að hindra kerfishrun, að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 19. mars, 2017, 3. sunnudagur í föstu.

Hjálp!

Ég var að lesa bók um göngu ungrar konu á Jakobsveginum á Spáni. Bókin heitir Vegur vindsins og höfundur hennar er Ása Marin. Sagan greip mig strax og hélt mér föngnum. Þetta er skáldsaga um unga, íslenska konu. Hún fékk þær hræðilegu fréttir að hún væri með krabbameinvarp í brjósti. Hörmungarfréttin varð til að hún lagði upp í göngu á Jakobsveginum við norðurströnd Spánar – til að vinna með áfallið, með sjokkið, meinið innra. Hún vildi ganga með sjálfri sér áður en hún segði öðrum frá  – kærastanum, foreldrum og fjölskyldu – að hún væri að fara í uppskurð. Sagan er sögð af hispurslausri einlægni og stíllinn er teprulaus. Vegur vindsins er vel skrifuð saga um hvernig vinna megi með áfall og breyta sjúkdómsferli í bataferli.

Íhugunargöngur eru komnar í tísku og Jakobsvegurinn heillar. Pílagrímagöngur eru tákngöngur og við erum öll pílagrímar í veröldinni. Við örkum æviveginn, stuttan eða langan. Og við veljum sjálf hvernig við lifum, hvort við erum þolendur eða öxlum ábyrgð, hvort það er gaman hjá okkur eða hvort við nöldrum okkur í gegnum lífið? Á göngu og í lífinu mætum við sjálfum okkur og glímum við líkamlegar takmarkanir, veikindi og átök. Á göngu og í lífi skella á okkur öldur tilfinninga. Ef við verðum undir öldunni er hætt við að við skröpum botninn. En við getum valið hinn kostinn að mæta öldunum, stinga okkur í gegnum þær og vinna visku úr flóðinu.

Á göngu og í lífi opnast dýptir hinna stóru spurninga. Af hverju lifi ég? Hver eru gildi mín, hvernig vil ég bregðast við samferðafólki – og misskemmtilegu? Hvaðan kem ég og hvert stefni ég? Hvað á ég að gera með stóru spurninguna – um Guð? Trúi ég? Og ef ég vil trúa – hverju get ég trúað svo sátt verði í hjarta en líka skynsemi hugans? Stríð milli trúar og vísinda er tilganslaust og skaddar báðar systurnar, trú og skynsemi.

Ása Marin skrifar listilega um leit einstaklingsins að djúpri sátt í Vegi vindsins. Bókin tjáir skýrt vanda nútímamannsins gagnvart trú. Fólk þolir ekki skinhelgi en leitar samt hins heilaga. Fólk vill ekki úrelta lífsafstöðu en þráir að undur lífsins sé dýpra og stærra en krónur, klink og hlutir. Krabbinn í sögunni er tákn um kreppu karla og kvenna samtímans. Við erum á leið lífsins en með æxli hið innra, í leit að lækningu. Hvernig getum við fengið lausn vandans? Hvað er heilagt og hvernig kemur það okkur við?

Sá blindi

Þá snúum við okkur að Bartíemeusi blinda, sem sat við veginn til Jeríkó. Hann er íhugunarefni dagsins. Karlinn var í vanda. Á Jesútíma var fjörlegt helgihald í Jeríkó og fjöldi presta starfaði þar. Þetta var trúarlegur höfuðstaður og því eðlilegt að Jesús kæmi þar við á Jersúsalemgöngu sinni.

Ég hef einu sinni komið til Jeríkó, sem er í dalnum við Jórdaná. Dagur var að kvöldi kominn og yfir fjöllunum í vestri, yfir Jerúsalem, skáru stórkostlegir sólstafir dökka skýkjabakka. Litadýrðin og ljósdrama var meira en ég hef séð í öðru samhengi.

Bartímeus sat þarna en aldrei varð hann orðið vitni að sjónarspili sólstafa. Aldrei hafði hann heldur séð hina dásamlegu liti þríburablómsins, Bougainvillea, sem teygir sig um alla veggi borgarinnar. Hann hafði bara upplifað ljósaganginn innan í sér og þrá sína um lausn úr myrkri prísundinni. En svo var þessi lækningamaður Jesú kominn í bæinn.

Ertu Bartímeus?

Saga um blindan mann sem leitar lækningar er skiljanleg. En nafn mannsins er hins vegar dularfullt. Við vitum að að fyrri hlutinn – bar – þýðir einfaldlega sonur. Nafnið Bartímeus merkir því sonur Tímeusar og Bartímeus er því ekki eiginlegt skírnarnafn. Við vitum ekki hvað blindi maðurinn hét – hann var bara kunnur af viðurnefni. Kannski var hann nafnlaus og virðingarlaus neðst í metastiga samfélgsins og aðeins þekktur af samhengi sínu. Flestar biblíusögur eru á mörgum plönum og það er áhugavert að ein merking orðins Tímeus er skítur, óhreinindi, drulla. Ef það er merkingin eru skilaboðin að hann væri barn óhreinleikans. Í djúpum skít. Blindur maður fastur í drullu. Og þá er hann orðinn tákn. Ef menn samþykkja að við séum ekki fullkominn er Bartímeus tákn um alla. Við erum öll Barímeus.  

Lifa vel

Bartímeus vissi að enginn myndi beina athygli Jesú að honum, nafnlausum drulludela. Hann var staðráðinn í að láta ekki hjálpina fara hjá án þess að ná sambandi. Bartímeus æpti og lét sig engu varða þótt fólk reyndi að þagga niður í honum. Hann vildi ná athygli Jesú. Þegar Jesús spurði hvað hann vildi stóð ekki á svarinu: “…að ég fái aftur sjón.” Svo féll dómurinn, “…far þú, trú þín hefur bjargað þér.” Sjónin kom og líka viljinn til að lifa vel.

Hjálp

Bartímeus æpti: “…miskunna þú mér.” Þetta er ein frægasta bæn kristninnar. Hún er beðin í öllum öllum messum hér í Hallgrímskirkju. Kyrie eleison, Drottinn miskunna þú mér. Kristur miskunna þú mér. Við Íslendingar erum ekki ein um að þessa bæn heldur hljómar hún í flestum messum heimsins. Allir kórar, sem syngja einhver kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison, Drottinn, miskunna þú mér.

Þegar okkur líður illa sprettur þessi sama bæn upp í djúpi sálarinnar. Þegar við æðum á spítala með börnin okkar fárveik er það þessi gerð bænar sem flengist fram. Líka þegar við lendum í ástarsorg, missum ástvin í dauðann – þegar við erum að sökkva í myrkur, veikindi, drullu heimsins þá æpum við hið innra: Hjálp. Og það er þessi hjálparbeiðni sálarinnar sem er inntakslega hið sama og bænin: Drottinn, miskunna þú mér. Kyrie eleison.

Bæn og ósk

Þegar Elísa gekk Jakobsveginn var hún með krabbamein í líkama sínum. Henni fannst hún vera sokkin í drulluna. Hún var Bartímeus og æpti á hjálp, vonaði að hún fengi raunverulegan bata, þráði stuðning að ofan þó hún væri ekki guðstrúar.

Hún sagði frá því að þegar hún var lítil hefði hún ekki beðið til Guðs en hún hefði hins vegar kunnað að óska sér. Þegar hún handsamaði fiðrildi notaði hún þá óskasstund til að nefna það sem hana langaði í. Þegar hún fann fjögurra blaða smára óskaði hún sér líka. Og þegar hún taldi sig vera undir regnboganum var tími óskanna. Þegar hún henti pening í gjá á Þingvöllum þá var tími til að óska líka – þar er óskabrunnur.

Elísa gerði sér grein fyrir mun á ósk og bæn og segir á einum stað: „Ég kann ekki að biðja en ég kann að óska mér.“ Og það er munur á bæn og óskum. Við óskum okkur hluta, upplifana, að vera á einhverjum draumastað og að komast í einhverjar aðstæður. Óskir okkar eru eitthvað sem við okkur langar í. En bæn er ekki röð af óskum. Bæn varðar hið stóra og mikla, – það sem varðar líf og hamingju. Barnið óskar sér en lífið biður. Bartímeus var ekki með óskalista einhverra smámála sem hann gæti hugsað sér. Mál hans var mál lífsins. Hann bað frá dýpsta grunni sálar, huga og líkama. Hjálp – gefðu mér von, ljós og breytingu.

Bæn varðar alltaf líf og biður um líf. Bæn er ekki ósk um eitthvað yfirborðslegt, smæðarlegt og sjálfhverft. Elísa bað um að fá að vera laus við sorann og Bartimeus bað um sjón – svo hann gæti losnað úr skítnum.

Hjálpin nærri

Sagan um Bartímeus er saga um okkur öll. Og göngusaga Elísu á Jakobsveginum er heillandi saga sem getur opnað fyrir okkur möguleika í lífinu. Hver verður með sjálfum sér lengst að fara. Ertu að sökkva í skítinn? Herja veikindi á þig? Líða ástvinir þínir? Þú mátt kalla á hjálp. Jesús er við eldhúsborð og rúmstokka – líka hér í Þingholtunum – er nærri þér í angist þinni og við hlið þér á Landspítalanum. Jesús Kristur heyrir þegar fólk æpir og kemur. Við ákveðum sjálf hvort við viljum að lífið sé skítt eða lífið sé bataferli. Á okkar valdi er hvernig við lifum og göngum. En Jesús er besti samferðamaðurinn – dregur okkur upp úr soranum og gefur sjón.

Kyrie eleison. Kristur hjálpa þú. Drottinn – miskunna þú.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, annan sunnudag í föstu, 12. mars, 2017.

Textaröð: B

Lexía: 2Mós 33.12-13
Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“

Pistill: Heb 5.7-10
Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Guðspjall: Mrk 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.