Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Opna

Á þessari afmælishelgi Reykjavíkur iðar borgin af lífi. Margt er á dagskrá hér í kirkjunni, m.a. Sálmafoss í gær sem þúsundir sóttu. Í gærkvöldi horfði ég svo á flugeldasýninguna ofan úr kirkjuturni. Það var áhrifaríkt.

Reykjavíkurmaraþonið er dásamlegt og þúsundir hlupu. Þegar ég fylgdist með manngrúanum hlaupa í gær hríslaðist um mig sterk tilfinning – það var tilfinning fyrir lífinu. Allt þetta fólk var að hlaupa af því lífið er mikilvægt, gott, eftirsóknarvert. Það var gleði í augum hlauparanna og þúsundir stóðu við göturnar til að hvetja áfram, gefa þreyttum fótum aukinn kraft, lemja búsáhöld og nýta alls konar hljóðgjafa til að skapa hvatningarhávaða. Fæst af þessum sem hlupu voru að hlaupa til að vinna í sinni grein. Flest hlupu vegna einhvers fallegs markmiðs; til að hlaupa fyrir góðan málstað, til að gleðjast eða fagna einhverjum fallegum persónulegum áföngum eða markmiðum. Og kannski er ástæða fyrir hlaupum flestra að þakka fyrir líf eða lífsgjöf, hlaupa fyrir lífið, halda upp á lífið, fagna lífinu.

Gjörningur lífsins

Ástæða þess að ég segi þetta er að ég þekki svo mörg sem hlupu vegna þess að þau hafa verið veik en fengið nýjan styrk, bata eða bót meina sinna. Ég þekki fólk í hlaupinu, sem fékk krabbamein en hefur notið endurbata. Og nú hlaupa þau vegna þess að þau meta og þakka fyrir lífið. Ég þekki fólk á hlaupum sem er með gangráð fyrir hjarta og þess vegna gat þetta fólk hlaupið, notið og glaðst yfir lífi og heilsu. Ég þekki fólk í þessu hlaupi, sem hefur verið mikið veikt, verið illa farið, orðið fyrir skelfilegum áföllum en hefur notið stuðnings, hjálpar og lækningar svo það getur tók þátt í hlaupinu í ár. Og svo eru öll áheitin til að efla líf annrra, koma þeim til aðstoðar – líklega á annað hundrað milljónir!

Reykjavíkurmaraþonið er gjörningur lífsins, eiginlega risavaxið þakkarritúal til að tjá gleði og þökk fyrir líf og heilsu. Og líf og þakklæti er aldrei innhverft og sjálfhverft heldur leitar út og til annrra, að verða öðrum til góðs. Margir njóta því beins stuðnings sem er hvatning og peningastuðningur.

Hlaup til lífs

Og þá er það guðspjall dagsins. Þar er líka hlaup til lífs og þakkar. Hópur af vinum fór langa leið til að tryggja að maður í vanda næði fundi Jesú. Hann hafði liðið fyrir heyrnarleysi og þar með málleysi. Svo endaði gjörningur Jesú með því að maðurinn fékk bót meina sinna. Frá því er sagt að Jesús framkvæmdi læknisaðgerð á manninum og sagði við hann lykilorðið Effaþa. Við þetta orð og með læknandi atferli Jesú varð breyting – maðurinn heyrði hljóð lífsins og  fékk mál. Allt gerði Jesús vel og fólk talaði um það sem hann gerði.

Þetta er jákvæður og skemmtilegur texti. Við megum gjarnan nálgast hann með persónulegu móti. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við glaðst. Ef við efumst um kraftaverkasögur er hægt að sjá í þessari sögu öflugan lækni sem gat meira en aðrir. Og svo er þessi saga auðvitað táknsaga um um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel.

Effaþa

Effaþa– er eitt af þessum stóru orðum í sögu heimsins. Og merkingin er einföld en stórkostleg. Effaþaþýðir: Opnist þú. Jesús hefur notað orðið oft því það varðveittist sem máttarorð. Opnist þú – hefur hann sagt við það mörg að frumkirkjan mundi það og varðveitti sem lykilorð sem opnaði skrár og kerfi lífsins. Opnist þú. Maðurinn var í vanda rétt eins og krabbameinssjúkur, hjartveikur, sinnisveikur eða fastur í neti fátæktar eða félagslegs vanda. Opnist þú var sagt, læknirinn tók til starfa og lausnin fannst. Maðurinn fékk hjálp og nýtt líf.

Að baki einstaklingnum og frásögn dagsins er dýpri merking. Öll lendum við í þeim aðstæðum að við erum lokuð og fjötruð. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir eru haldnar af einhverjum vondum mönnum eða meinum sem leiða til ills. Og þá er ljóst að lausnar er þörf. Segja þarf lausnarorðin – einhver þurfa að ganga erinda lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, aktívistar eða aðrir hugsjónamenn sem þurfa að segja orðið effaþaog framkvæma það sem þarf til að losa fjötrana. Vandi mengunar í veröldinni er slíkur að himneskt og jarðneskt effaþaer nauðsyn.

Jesútexti dagsins varðar ekki bara þau sem finnst þau vera sjúk. Hann varðar okkur öll og er okkur boðskapur. Við sem einstaklingar erum í ýmsum aðstæðum lífsins og á ýmsum skeiðum fjötruð eða í vandræðum. Við erum jafnvel stundum í þeim aðstæðum að skilja ekki að við þurfum hjálp. Fíklar heimsins vilja ekki þiggja hjálp eða heyra lausnarorðin, heldur þarfnast þess að vinir styðji þá til hjálpar eða komast í hjáparaðstæður – eins og í textanum. Flóttamenn heimsins þarfnast máttarorða og aðgerða. Og á þeim tíma sem ofstæki vex í pólítík vesturlanda verða æ fleiri læstir í fjötra einfeldni, einhæfni og falsfrétta. Þá er þörf á máttarorðum, leysandi visku og fólki sem þorir.

Mannvirðing

Jesús Kristur er í sögunni sá sem virðir og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir mennsku hans, talar heyrnarleysið til heyrnar og málleysið til málgetu. Sagan er því mannvirðingarsaga. Jesús Kristur virti og virðir fólk, afskrifa ekki heldur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur manninn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Jesús Kristur efldi lífsgæði fólks og þannig vill kristin kirkja vera. Styðja og efla. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi, og um allan heim þar sem kristnin hefur verið heyrð og tungur hafa talað máttarorð. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð alltaf með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

En svo er texti dagsins ekki aðeins um pólitík, góða læknisfræði eða aðgerðir í þágu mengaðrar og þjáðrar náttúru. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá heldur líka leiðsögn um leiðir dauðans og tímans. Við erum dauðleg, við deyjum öll. Og þar er líka sagt enn og aftur effaþa– opnist þú. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttarorð Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Við erum ekki aðeins dauðlegar verur haldnar af fjötrum og sjúkleika, heldur eru við verur lífsins, sem megum hlaupa okkar lífshlaup en halda því hlaupi áfram hinum megin við endamark lífs. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við megum hitta Jesús Krist alla daga, en hann heldur áfram að vera með okkur líka í dauðanum. Hann opnar fjötra dauðans, opnar tímann í eilífð sinni. Kristur segir effaþa– opnist þú og það merkir að ekkert í þínu lífi megnar að fjötra þig alltaf.

Þótt allir séu dauðlegir hleypur samt fólkið í Reykjavíkurmaraþoni fyrir lífið. Þótt allir séu dauðlegir hleypur Jesús Kristur fyrir okkur og opnar líf í tíma og eilífð. Það þarf trú til að sá veruleiki opnist. Við getum ákveðið og neitað að trúa því að lífið sé opnað en Jesús stendur álengdar og bíður okkar. Tilboð hans er skýrt: Opnist þú. Ekkert er svo erfitt að þú getir ekki losnað við fjötra þína og við lok tímans er opnað fyrir veröld eilífðar. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel af því Guð elskar þig og allt fólk, alla sköpun sína.

Amen.

Prédikun 19. ágúst, 12. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon voru 18. ágúst. Myndirnar tók ég þann dag. Kapparnir eru Tómas Magnús, Ísak og Jón Kristján. Flugeldamyndina yfir sundin – er sjónarhorn okkar sem stóðum í Hallgrímskirkjuturni. 

Textaröð: A

Lexía: Jes 29.18-24
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar. Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

Trú og tabú

Stelpa í Stykkishólmi hitti Jesú Krist. Hún var venjuleg fermingarstúlka í venjulegri fjölskyldu sem fór í venjulegt sumarfrí til Spánar. En þar varð óvenjulegur atburður. Stelpan og Jesús Kristur hittust. Hún tók þennan fund, samtalið og samskiptin svo alvarlega að hún breyttist. Fjölskylda hennar átti í erfiðleikum með að sætta sig það sem stúlkan sagði og gerði. Þau héldu að hún væri orðin klikkuð og sendu hana til geðlæknis. Trú var allt í einu orðin sjúkdómur.

Stúlkan hét Alma. Í ljósi nýrrar lífsreynslu tók hún allt til endurskoðunar. Vinatengslin breyttust. Foreldrar vinkonu hennar vildu ekki að þær hittust. Alma ólst upp í stóru þorpi og hafði margvísleg áhrif í margflóknu smásamfélagi. Orð hennar og athafnir reyndu þanþol margra. Í fermingarfræðslunni vissi presturinn sem ekki hvernig hann ætti að bregðast við. Ölmuguðspjallið var allt í einu eins og nýtt guðspjall í plássinu, Jesús var nærri.

Ég ætla ekki að segja ykkur alla söguna um Ölmu. En það gerir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir frábærlega vel í margslunginni bók sem nefnist Englaryk. Guðrún Eva lýsir nærfærnislega brothættu samfélagi sem hefur allt í viðkvæmum skorðum en veit ekki hvernig á að glíma við stærstu gáturnar um líf, tengsl og möguleika. Í bókinni er þyrlað upp ágengum spurningum um hvað trú sé í nútímasamfélagi og hvort við séum á flótta. Hvað gerist ef hið guðlega snertir einstaklinga og hvernig höndla þeir trú og fjölskyldur þeirra? Texi Guðrúnar Evu er fyndinn og nærfærinn. Fíngerður húmorinn og glitrandi ljóðræna seitla inn í sálina.

Alma var á breytingaskeiði unglingsáranna þegar flest er tekið til skoðunar, viðhorf og siðferði. Höfundurinn opnar skápinn og leyfir okkur að fylgjast með þegar ung kona þorir að mæta Guði. Alma gerði mistök og neyddist til að læra að greina milli trúar og afleiðinga. Það er hlutverk okkar manna að þora að breytast en einnig læra af áföllunum. Fjölskyldan gerði líka mistök. En þannig er það hjá venjulegu fólki í venjulegum fjölskyldum í venjulegu íbúðarhúsum. Lífið er ekki klisja. Það býður upp plús – meira en við eigum von á. Stóru spurningarnar um tilgang lífsins læðast inn í okkur. Börnin spyrja, við glímum við tengsl okkar við fólkið okkar og svo verða slys, hamingjudagar koma sem og sólardagar og hversdagsverkefni. Í öllu þessu er spurt um hvort Guð sé til, hvort líf hafi tilgang, hvort heimurinn sé meira en bara efni og efnaferli. Alma var opin fyrir að hversdagsleg veröld væri dásamleg. Hún opnaði fyrir möguleika lífsins.

Tabú Íslands – kynlíf, dauði, trú

Þorir þú að hugsa um trú og tala um trú? Höndlum við þegar fólk verður fyrir vitrun sem breytir lífi þess? Afskrifum við þau sem klikkuð? Viljum við helst bara flýja – og troða þar með stærstu og erfiðustu spurningunum inn í skáp þagnarinnar. Í samfélagi okkar hafa verið þrjú tabú sem ekki hefur mátt tala opinskátt um. Í uss-uss-skápana hafa þessi þrjú verið sett: Trú, kynlíf og dauði.

1 Reyndar er kynlífið að losna úr skápnum en fólk hefur tilhneigingu til að hrapa í hina öfgana, klámið. Við þurfum vera auðmjúk og tilbúin að ræða hvatir, fjölbreytileika, tilraunir, sjúkleika og heilbrigði kynlífsins. Við foreldrar vitum best hvað það er mikilvægt að flýja ekki þegar ungviðið spyr.

2 Svo er það dauðinn sem hefur ekki verið í tísku nema í kvikmyndum. Dauðinn hefur ekki verið hitamál á kaffihúsunum síðan Jean Paul Sartre og tilvistarspekingarnir þorðu að færa hann í tal. En þó lítið sé talað um dauðann er það þó að breytast. Í fortíðinni var dauðinn fléttaður inn í líf fólks. Fólk dó heima og lík voru gjarnan á heimilum dagana á undan greftrun. Dauði dýranna á sveitabæjunum var eins raunverulegur og fæðing þeirra og líf. Spítalavæðingin svifti fólk dauðanándinni en nú leitar dauðinn úr skápum stofnanavæðingar. Ef við getum rætt um horfst í augu við dauðann og rætt um hann erum við enn betur fær um gott líf og lífsleikni.

3 Svo er þriðja tabúið og trú hefur líklega verið mesta tabúið, innst í skáp þagnarinnar. Hvað er trú? Alma hitti Jesú. Það verða ekki allir fyrir slíkri reynslu, fundurinn með Jesú er almennt ekki svo dramatískur en engu ómerkilegri. Meðan við lifum verðum við öll fyrir reynslu sem opnar og knýr okkur til að ákveða hvað við erum, til hvers við lifum.

Þrenns konar trú

Og við tökum okkur stöðu gagnvart heiminum,  hvort við viljum litla, meðalstóra eða stóra tilveru.

1 Ef við viljum að veröldin sé aðeins efni og tilfallandi efnaferli án Guðs þá er það guðlaus trú og tilveran lítil. Það er ekki hægt að sanna þessa lífsskoðun eða afsanna en það er ákvörðun af neikvæðu trúartagi að tilveran sé guðlaus. Ég hef lesið rökin en undrast að fólk sem trúir með þeim hætti verði ekki þunglynt. Það þarf hugrekki til að sogast ofan í hyl guðleysis.

2 Svo eru önnur sem telja að þekkingarskortur hindri að menn geti ákveðið hvort tilveran er guðlaus eða guðleg. Þau meta svo að þekking okkar sé takmörkuð. Við vitum reyndar talsvert margt en erum þó fjarri því að geta með vísindalegri aðferð dæmt um tilgang og Guð í geimnum. Ég skil vel fólk sem viðurkennir óvissuna um hið stóra og guðlega.

3 Svo er það þriðji hópurinn – fólkið sem trúir. Og trú er alls konar og hefur mjög mismunandi afleiðingar. Og flækjum ekki málin með alhæfingum, t.d. með því að segja að trú sé alltaf svona eða hinsegin. Múslimar í þorpi í Aghanistan eru allt öðru vísi en múslimar á Manhattan í New York. Kristinn sértrúarhópur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er allt öðru vísi en þjóðkirkjusöfnuður á Íslandi. Ruglum ekki og alhæfum ekki. Og í dag tölum við bara um trú á Íslandi, í okkar venjulega, umburðarlynda, íslenska og upplýsta þjóðkirkjusamhengi.

Trúin tengir

Hvað er heilbrigð trú? Hún verður ekki bara við að hitta Jesú í sumarleyfi í Andalúsíu. Hún vex upp í venjulegum húsum og hjá venjulegu fólki. Hún þroskast úr barnatrú yfir í vitund um að heimurinn nær lengra en nefið. Trú stækkar heimsskynjunina. Hún er tengsl við hið stórkostlega í veröldinni. Hún er skynjun um að veröldin er meira en efnaferli og köld tilviljun. Trúin sér í sandkornum á ströndinni undur veraldar og trúir að kærleikur Guðs sé eins og hafið (svo notuð sé heillandi mynd úr skáldskap Matthíasar Johannesen). Trúin sér í Jesú Kristi hið guðlega meðal manna, fyrirmynd um hvernig við getum brugðist við í flóknum heimi, kærleiksafstöðu til annars fólks, vilja til að sjá mennsku í öllum mönnum, líka þeim sem hefur mistekist. Trúin opnar, tengir og gerir manneskjuna heila og lagar tengsl ef allt er rétt. Trúin rýfur einangrun fólks og bætir. Það er alveg sama hvernig við klúðrum lífinu, Guð elskar fólk samt og vill styðja. Það er alveg sama hvaða áföll verða, flóð, eldgos, stríð – við erum kölluð til að bæta og gera gott úr, lækna og reisa við. Við erum kölluð til að vera útréttar hendur Guðs í veröldinni. Trú tengir ekki aðens við undur þessa heims heldur opnar glugga að veröldum handan tíma og efnis. Að trúa er að verða trúnaðarmaður Guðs. Það var það sem Alda uppgötvaði, að þegar maður trúir verður tilveran ljómandi, töfrandi og þrungin merkingu – svo notuð sé orð bókarinnar.  

En það að trúa er ekki að verða óskeikul ofurtilvera, súperman eða súperwoman. Trú breytist og dýpkar. Trú leitar þroska rétt eins og við stækkum úr barni í fullorðna veru. Við lærum, gerum mistök, dettum, rísum upp, sjáum hlutina í nýju ljósi og breytum um skoðun. Trú er ekki flótti heldur sítenging við raunveru heimsins. Trú er systir skynsemi og réttlætis. Þegar við trúum erum við ekki beðin um að fórna okkur í þágu einhverrar vitleysu og sérvisku. Það er ekki heilbrigð trú heldur sjúk og á villigötum. Við eigum ekki að fórna líkama okkar, frelsi og lífi fyrir þröngan málstað eða ofbeldi. Þvert á móti, við megum nota allt sem Guð hefur gefið okkur til farsældar og lífsleikni og einnig í þágu mannkyns og náttúru. Við þurfum ekki að trúa úreltum sögum og eigum að lesa Biblíuna með heilanum ekkert síður en hjartanu. Og við ættum að taka alvarlega niðurstöðu vísinda. Trúmaðurinn hefur enga þörf fyrir að einfeldningaskoðanir. Trúin má koma út úr skáp tabúsins í íslensku samfélagi.

Ævintýrin verða ekki aðeins á Spáni eða Stykkishólmi heldur heima hjá þér. Guð er ekki aðeins í þessari stóru kirkju, heldur innan í þér, talar til þín og býður þér að vera vinur og félagi þinn. Og tilveran verður miklu stærri og skemmtilegri þegar tengt er með trú og hjartað slær í takt við hjartslátt alheimsins – Guðs. 

Hugleiðing við upphaf barnastarfs og fermingarfræðslu í Hallgrímskirkju. 3. september 2017.