Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

Trú og tabú

Stelpa í Stykkishólmi hitti Jesú Krist. Hún var venjuleg fermingarstúlka í venjulegri fjölskyldu sem fór í venjulegt sumarfrí til Spánar. En þar varð óvenjulegur atburður. Stelpan og Jesús Kristur hittust. Hún tók þennan fund, samtalið og samskiptin svo alvarlega að hún breyttist. Fjölskylda hennar átti í erfiðleikum með að sætta sig það sem stúlkan sagði og gerði. Þau héldu að hún væri orðin klikkuð og sendu hana til geðlæknis. Trú var allt í einu orðin sjúkdómur.

Stúlkan hét Alma. Í ljósi nýrrar lífsreynslu tók hún allt til endurskoðunar. Vinatengslin breyttust. Foreldrar vinkonu hennar vildu ekki að þær hittust. Alma ólst upp í stóru þorpi og hafði margvísleg áhrif í margflóknu smásamfélagi. Orð hennar og athafnir reyndu þanþol margra. Í fermingarfræðslunni vissi presturinn sem ekki hvernig hann ætti að bregðast við. Ölmuguðspjallið var allt í einu eins og nýtt guðspjall í plássinu, Jesús var nærri.

Ég ætla ekki að segja ykkur alla söguna um Ölmu. En það gerir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir frábærlega vel í margslunginni bók sem nefnist Englaryk. Guðrún Eva lýsir nærfærnislega brothættu samfélagi sem hefur allt í viðkvæmum skorðum en veit ekki hvernig á að glíma við stærstu gáturnar um líf, tengsl og möguleika. Í bókinni er þyrlað upp ágengum spurningum um hvað trú sé í nútímasamfélagi og hvort við séum á flótta. Hvað gerist ef hið guðlega snertir einstaklinga og hvernig höndla þeir trú og fjölskyldur þeirra? Texi Guðrúnar Evu er fyndinn og nærfærinn. Fíngerður húmorinn og glitrandi ljóðræna seitla inn í sálina.

Alma var á breytingaskeiði unglingsáranna þegar flest er tekið til skoðunar, viðhorf og siðferði. Höfundurinn opnar skápinn og leyfir okkur að fylgjast með þegar ung kona þorir að mæta Guði. Alma gerði mistök og neyddist til að læra að greina milli trúar og afleiðinga. Það er hlutverk okkar manna að þora að breytast en einnig læra af áföllunum. Fjölskyldan gerði líka mistök. En þannig er það hjá venjulegu fólki í venjulegum fjölskyldum í venjulegu íbúðarhúsum. Lífið er ekki klisja. Það býður upp plús – meira en við eigum von á. Stóru spurningarnar um tilgang lífsins læðast inn í okkur. Börnin spyrja, við glímum við tengsl okkar við fólkið okkar og svo verða slys, hamingjudagar koma sem og sólardagar og hversdagsverkefni. Í öllu þessu er spurt um hvort Guð sé til, hvort líf hafi tilgang, hvort heimurinn sé meira en bara efni og efnaferli. Alma var opin fyrir að hversdagsleg veröld væri dásamleg. Hún opnaði fyrir möguleika lífsins.

Tabú Íslands – kynlíf, dauði, trú

Þorir þú að hugsa um trú og tala um trú? Höndlum við þegar fólk verður fyrir vitrun sem breytir lífi þess? Afskrifum við þau sem klikkuð? Viljum við helst bara flýja – og troða þar með stærstu og erfiðustu spurningunum inn í skáp þagnarinnar. Í samfélagi okkar hafa verið þrjú tabú sem ekki hefur mátt tala opinskátt um. Í uss-uss-skápana hafa þessi þrjú verið sett: Trú, kynlíf og dauði.

1 Reyndar er kynlífið að losna úr skápnum en fólk hefur tilhneigingu til að hrapa í hina öfgana, klámið. Við þurfum vera auðmjúk og tilbúin að ræða hvatir, fjölbreytileika, tilraunir, sjúkleika og heilbrigði kynlífsins. Við foreldrar vitum best hvað það er mikilvægt að flýja ekki þegar ungviðið spyr.

2 Svo er það dauðinn sem hefur ekki verið í tísku nema í kvikmyndum. Dauðinn hefur ekki verið hitamál á kaffihúsunum síðan Jean Paul Sartre og tilvistarspekingarnir þorðu að færa hann í tal. En þó lítið sé talað um dauðann er það þó að breytast. Í fortíðinni var dauðinn fléttaður inn í líf fólks. Fólk dó heima og lík voru gjarnan á heimilum dagana á undan greftrun. Dauði dýranna á sveitabæjunum var eins raunverulegur og fæðing þeirra og líf. Spítalavæðingin svifti fólk dauðanándinni en nú leitar dauðinn úr skápum stofnanavæðingar. Ef við getum rætt um horfst í augu við dauðann og rætt um hann erum við enn betur fær um gott líf og lífsleikni.

3 Svo er þriðja tabúið og trú hefur líklega verið mesta tabúið, innst í skáp þagnarinnar. Hvað er trú? Alma hitti Jesú. Það verða ekki allir fyrir slíkri reynslu, fundurinn með Jesú er almennt ekki svo dramatískur en engu ómerkilegri. Meðan við lifum verðum við öll fyrir reynslu sem opnar og knýr okkur til að ákveða hvað við erum, til hvers við lifum.

Þrenns konar trú

Og við tökum okkur stöðu gagnvart heiminum,  hvort við viljum litla, meðalstóra eða stóra tilveru.

1 Ef við viljum að veröldin sé aðeins efni og tilfallandi efnaferli án Guðs þá er það guðlaus trú og tilveran lítil. Það er ekki hægt að sanna þessa lífsskoðun eða afsanna en það er ákvörðun af neikvæðu trúartagi að tilveran sé guðlaus. Ég hef lesið rökin en undrast að fólk sem trúir með þeim hætti verði ekki þunglynt. Það þarf hugrekki til að sogast ofan í hyl guðleysis.

2 Svo eru önnur sem telja að þekkingarskortur hindri að menn geti ákveðið hvort tilveran er guðlaus eða guðleg. Þau meta svo að þekking okkar sé takmörkuð. Við vitum reyndar talsvert margt en erum þó fjarri því að geta með vísindalegri aðferð dæmt um tilgang og Guð í geimnum. Ég skil vel fólk sem viðurkennir óvissuna um hið stóra og guðlega.

3 Svo er það þriðji hópurinn – fólkið sem trúir. Og trú er alls konar og hefur mjög mismunandi afleiðingar. Og flækjum ekki málin með alhæfingum, t.d. með því að segja að trú sé alltaf svona eða hinsegin. Múslimar í þorpi í Aghanistan eru allt öðru vísi en múslimar á Manhattan í New York. Kristinn sértrúarhópur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er allt öðru vísi en þjóðkirkjusöfnuður á Íslandi. Ruglum ekki og alhæfum ekki. Og í dag tölum við bara um trú á Íslandi, í okkar venjulega, umburðarlynda, íslenska og upplýsta þjóðkirkjusamhengi.

Trúin tengir

Hvað er heilbrigð trú? Hún verður ekki bara við að hitta Jesú í sumarleyfi í Andalúsíu. Hún vex upp í venjulegum húsum og hjá venjulegu fólki. Hún þroskast úr barnatrú yfir í vitund um að heimurinn nær lengra en nefið. Trú stækkar heimsskynjunina. Hún er tengsl við hið stórkostlega í veröldinni. Hún er skynjun um að veröldin er meira en efnaferli og köld tilviljun. Trúin sér í sandkornum á ströndinni undur veraldar og trúir að kærleikur Guðs sé eins og hafið (svo notuð sé heillandi mynd úr skáldskap Matthíasar Johannesen). Trúin sér í Jesú Kristi hið guðlega meðal manna, fyrirmynd um hvernig við getum brugðist við í flóknum heimi, kærleiksafstöðu til annars fólks, vilja til að sjá mennsku í öllum mönnum, líka þeim sem hefur mistekist. Trúin opnar, tengir og gerir manneskjuna heila og lagar tengsl ef allt er rétt. Trúin rýfur einangrun fólks og bætir. Það er alveg sama hvernig við klúðrum lífinu, Guð elskar fólk samt og vill styðja. Það er alveg sama hvaða áföll verða, flóð, eldgos, stríð – við erum kölluð til að bæta og gera gott úr, lækna og reisa við. Við erum kölluð til að vera útréttar hendur Guðs í veröldinni. Trú tengir ekki aðens við undur þessa heims heldur opnar glugga að veröldum handan tíma og efnis. Að trúa er að verða trúnaðarmaður Guðs. Það var það sem Alda uppgötvaði, að þegar maður trúir verður tilveran ljómandi, töfrandi og þrungin merkingu – svo notuð sé orð bókarinnar.  

En það að trúa er ekki að verða óskeikul ofurtilvera, súperman eða súperwoman. Trú breytist og dýpkar. Trú leitar þroska rétt eins og við stækkum úr barni í fullorðna veru. Við lærum, gerum mistök, dettum, rísum upp, sjáum hlutina í nýju ljósi og breytum um skoðun. Trú er ekki flótti heldur sítenging við raunveru heimsins. Trú er systir skynsemi og réttlætis. Þegar við trúum erum við ekki beðin um að fórna okkur í þágu einhverrar vitleysu og sérvisku. Það er ekki heilbrigð trú heldur sjúk og á villigötum. Við eigum ekki að fórna líkama okkar, frelsi og lífi fyrir þröngan málstað eða ofbeldi. Þvert á móti, við megum nota allt sem Guð hefur gefið okkur til farsældar og lífsleikni og einnig í þágu mannkyns og náttúru. Við þurfum ekki að trúa úreltum sögum og eigum að lesa Biblíuna með heilanum ekkert síður en hjartanu. Og við ættum að taka alvarlega niðurstöðu vísinda. Trúmaðurinn hefur enga þörf fyrir að einfeldningaskoðanir. Trúin má koma út úr skáp tabúsins í íslensku samfélagi.

Ævintýrin verða ekki aðeins á Spáni eða Stykkishólmi heldur heima hjá þér. Guð er ekki aðeins í þessari stóru kirkju, heldur innan í þér, talar til þín og býður þér að vera vinur og félagi þinn. Og tilveran verður miklu stærri og skemmtilegri þegar tengt er með trú og hjartað slær í takt við hjartslátt alheimsins – Guðs. 

Hugleiðing við upphaf barnastarfs og fermingarfræðslu í Hallgrímskirkju. 3. september 2017.

Hvers virði ertu?

Eru sumir dýrmætari en aðrir? Er verðmiðinn mismunandi? Eru einhverjir dreggjar samfélagsins og verðminni en hin sem eru mikils metnir borgarar. Fólk er vissulega flokkað í hópa eftir stöðu, efnahag, menntun og samkvæmt ýmsum stöðlum. En getur verið að við þurfum að gera okkur grein fyrir að manngildi er allt annað en verðgildi. Þú ert svo dýrmætur og dýrmæt að gildi þitt verður ekki metið til fjár. Gildi hjá Guði eru ofar peningagildi manna.

Samtalið

Jesú var boðið í mat. Símon gestgjafi var líklega góður karl, sem vildi tala um pólitíkina og trúmálin við Jesú Krist. Þetta var opið boð, svipað hádegisfyrirlestri og allir voru velkomnir. Fólk í nágrenninu mátti koma og hlusta á það, sem gesturinn hafði að segja.

Fundarstíllinn var af því tagi, sem Sókrates var kunnur fyrir. Þetta var algengur samkomuháttur í þessum heimshluta á þessum tíma, ekki aðeins meðal grískra menntamanna heldur líka gyðinglegra. Gestgjafinn og pallborðsfólk spurði og meistarinn svaraði. Síðan var rökrætt, dæmi tilfærð eða gátur lagðar fyrir. Sögur voru sagðar og gagnspurningar flugu og það sagt sem gæti þjónað málstað eða glætt skilning.

Hið einkennilega var að Jesús brá út af öllum venjum og siðum samfélagsins. Hann leyfði mellu að koma nærri sér, sem þótti ekki bara illt afspurnar, heldur siðferðilega og samfélagslega rangt. Hann leyfði henni líka að þrífa fætur sína, smyrja og nudda. Símon hefur örugglega orðið pirraður yfir að Jesús skyldi leyfa þessari borgarskömm að þjónusta sig og varpa þar með skugga á samkvæmið. Vegna tilfinningaviðbragðanna sagði Jesús Símoni sögu um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Annar fékk niðurfelldar “fimm milljónir” en hinn “fimmtíu.” Hvor ætli hafi verið þakklátari? Símon kunni hlutfallsreikning og svaraði því augljósu dæminu.

Í svona sögum af Jesú er oftast dramatískur viðsnúningur. Í þessari sögu beinir Jesús athyglinni að partískandalnum, að konunni alræmdu og byrjar að tala um mál hennar og stöðu, að hún hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega. Henni sé því fyrirgefið. Því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum og yfirfljótandi þakklæti í fótanuddinu. Jesús gengur lengra og bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins og Guðs.

Auðvitað var þetta hastarlegt og rosalegt af Jesú. Símoni var vorkun. Hann var bara venjulegur maður sem vildi gera vel, efna til settlegra viðræðna sem gætu orðið til að bæta og efla fólk. Hann vildi siðsemi og vildi forðast að alræmd kona flekkaði heimili hans og blettaði æru hans. En Jesús bar hann saman við konuna á botni samfélagsins og hún fékk betri dóm! Hvers konar réttlæti er það? Og að baki er spurningin um manngildi og mannsýn.

Að tortryggja og endurmeta

Við getum haft alls konar skoðanir á að heimili sé flekkað af liði sem kemur utan af götunni óboðið? En aðalmálið er hvort við erum tilbúin að endurmeta hið mikilvæga og verðmæta.  

Jesús þorði að spyrja erfiðra spurninga og fór stundum út fyrir hefðbundin mörk til að fá menn til að opna augu, eyru, hjörtu og líf gagnvart hinu mikilvæga. Og spámenn og skapandi hugsuðir þjóna hinu sama. Uppskurður fordóma er eitt, en hvað kemur svo í kjölfarið er annað og líka mikilvægt. Paul Ricoeur, franski heimspekingurinn, minnti á að meistarar tortryggninnar kenndu okkur að sjá fólk og málefni með nýjum hætti. Meistarar tortryggninnar eru þau, sem þora að efast um viðtekin sannindi, andmæla því, sem ekki stenst skoðun og leggja til aðrar log betri túlkunarleiðir en hinar hefðbundnu. Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullri einurð. En aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar.

Fólk í plús og fólk í mínus 

Og þá aftur til hórunnar, Símonar og Jesú á tali um afstöðu og fólk. Í samtali gestgjafans og Jesú opinberar meistarinn, að Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög. Símon var háður ákveðnum hugmyndum um hvernig tilveran ætti að vera og hvernig ekki. Kona, sem væri á kafi í sukkinu og saurlifnaðinum væri einfaldlega ekki þess verð að vera í samfélagi heiðarlegs og venjulegs fólks. Hún átti sér engrar bjargar von í þjóðfélaginu. Konan væri fyrir neðan mennskuna, ekki þess verð að vera boðið og allra síst þess verð að fá að nálgast þá félaga, trúarleiðtogana og guðsmennina. Þar kom í ljós að Símon aðhylltist mínus-mannskilning.

Jesús bendir hins vegar á að einmitt vegna þess, að konan hefði verið í hræðilegum málum og iðraðist væri hún meðtekin – henni væri fyrirgefið mikið af því hun hefði iðrast gerða sinna. Í þessari afstöðu Jesús kemur plús-mannskilningur Jesú berlega fram. Í hans huga, í afstöðu hans og ræðu kemur í ljós að manneskjan er heilög og á alltaf möguleika ef hún vill vaxa og breytast. Engu máli skipti hvað konan hafi gert ljótt af sér, hún eigi séns gagnvart Guði. Manngildið er grunnatriði og ef fólk tengir sig við líf og Guð sé mál þess endurskoðað og fólkið náðað, sem heitir réttlætt á máli Biblíunnar. Og það er þessi mannsýn í plús, sem er afgerandi. Fólk er guðdómlegt og hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa hrapað á botninn, þau sem eru lítilsvirt, hötuð og hræðileg. Af því að fólk er heilagt á það alltaf að eiga séns og við eigum að skipa málum svo það geti fengið að rísa upp og ná að gera sín mál upp.

Þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú breytist sýn. Við megum gjarnan vera tortryggin um samfélag og tískur þess en við verðum framar öllu að halda í markmið og leiðir ástar Guðs. Öll, sem þú mætir, eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér, handan við fordóma og grillur. Allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi. Manneskjan er heilög og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi, sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.

Guð sér þig og elskar. Hvernig horfir þú á fólk – er það með mínus eða í plús? Eigum við að setja verðmiða á fólk eða sjá strikamerki Guðs í sál allra manna?

Amen.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 32.1-7 (-11)

Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela) Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi nær það honum eigi. Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)

Pistill:  1Jóh 1.5-10

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Guðspjall:  Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“