Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Bullandi karlmennska

Hvað eigum við þá að gera? Það er spurning guðspjallsins. Samtöl á bar rétt hjá Dómkirkjunni og Alþingishúsinu fönguðu athygli margra síðustu vikurnar. Klausturupptökur Marvins, sem reyndar er kona og heitir Bára, voru opinberaðar í skömmtum. Sumt af því, sem sagt var á barnum, var meinlítið röfl en annað var meiðandi. Fjölmiðlafólkið, sem hlustaði fyrst á upptökurnar, spurði sig. „Hvað eigum við þá að gera?“ Og þegar efnið var svo opinberað þyrluðust upp álitaefni. Hvernig átti að bregðast við hlutgervingu kvenna og að þær voru túlkaðar sem tól? Fötlun fólks varð enn einu sinni skotspónn. Samtölin opinberuðu ýmsa fordóma og reiði. Já, hvað eigum við þá að gera?

Textar þessa þriðja sunnudags í aðventu varða samtöl á bar og reyndar líka hvernig karlar, já allt fólk, þarf að lifa og vera. Karlar hafa lengi ráðið mestu í hinu opinbera rými. Hlutur karla er íhugunarefni. Og þar sem karlarnir gegna mörgum hlutverkum í messu dagsins, ómbrimandi karlakór syngur, karl spilar á orgelið og tveir þjóna fyrir altari – og textinn gefur tilefnið – verður talað um karlmennsku af prédikunarstóli, eðli hennar og skuggahliðar. Þau, sem eru með símana sína tilbúna, hafa hér með fulla heimild til að taka upp allt, sem hér verður sagt, birta á netinu og framsenda hvert sem er.

Biblían hefur margt að segja við karla um styrkleika þeirra og veikleika – hvað þeir geta gert eða ættu að gera. Já, Biblían hefur mótað margt í sögu okkar og þar á meðal haft áhrif – með biblíupersónum – á karlmennskuhugmyndir okkar. Og þegar karlar láta allt flakka, óra sína, fordóma, stefnumál og átök þá er margt, sem Biblían getur bent þeim á og bætt við. Biblían heldur áfram að leggja til vísdóm og líka karlímyndir.

Klausturbarsgjörningurinn er merkilegt stykki á leiksviði þjóðfélags. Ekkert handrit var skrifað, heldur var flæðið og spuninn í samræmi hvatir og tilfinningar. Á Klausturbarnum var öll mennska undir, tengsl fólks, gildi og þrýstilínur samfélags, eðli og hlutverk kvenna og fatlaðra. Því er þetta mál rætt í dag og varðar alla karla og allar konur.

Verk karla

„Hvað eigum við þá að gera?“ Svo var og verður spurt. Jóhannes skírari var merkilegur karl. Hann fór ekki á barinn heldur út í eyðimörkina. Hann hafði komist að því að gamla pólitíkin hafði bara klúðrað málum og nú þurfti eitthvað nýtt að vinda ofan af vitleysunni. Jóhannes barðist fyrir bættu samfélagi. Margir hrifust og töldu, að fram væri kominn nýr leiðtogi fyrir nýjan miðflokk fólksins. Jóhannes kom úr eyðimörkinni og að vatninu, skírði og hélt ræður, sem hlustað var á. Hann var vissulega rosalegur, með hunang í skegginu og þyrna í kyrtli, en það var ekkert rugl eða röfl í málflutningi hans. Boðskapurinn var fyrir karla í krapinu, konur að störfum og réttlátt samfélag. Hann hélt fram: Ef þið eruð rík, náið þá í fjármunina úr skjólum ykkar og gefið hinum fátæku. Ef þið eigið föt og mat aflögu ættuð þið að að gefa með ykkur. Og þau, sem voru jaðarsett í samfélaginu (og biblían kallar tollheimtumenn), spurðu: „Meistari, hvað eigum við þá að gera?“ Jóhannes sagði þeim að græða ekki meira en hæfilega. Allir skyldu taka tillit til annarra, enginn skyldi beita slægð eða svikum. Menn skyldu gæta hófstillingar. Og af því það var stemming fyrir búsáhaldabyltingu í þjóðfélaginu vildu margir að Jóhannes yrði foringinn. „Nei, nei,“ sagði hann. Hann væri ekki í pólitík til að bola einni valdastétt frá til að koma annarri að. Hann væri í stóru málunum – þessum sem jól og páskar varða.

Orð og gerðir Jóhannesar skírara sýna karl, sem var sterkur leiðtogi og skilgreindi forystu sína í þágu annrra. Jóhannes sýndi okkur meginþætti karlmennsku. Karl sem þjónn, karl sem siðferðisvera, karl sem vitringur, karl sem lítur á sig sem hlekk í keðju, hluta heildar og í þágu annarra. Það er karlaímynd Biblíunnar – og enginn ábyrgðarflótti.

Karlímyndir

Það var nú ekki markmið þeirra á Klausturbarnum að bjóða Jóhannesi skírara til sín. En Jóhannes þarf að mæta þangað líka með alvöru pólitík. Hann þarf að mæta til okkar allra því við gerum öll mistök, dettum í rugl og missum okkur. Við erum öll undir auga alskyggninnar. Þegar karlar lýsa konum sem tólum er karlmennskan sködduð. Karlar, sem tala niður til einhverra og jafnvel gera grín að þeim eins og þau væru dýr, hafa tapað getunni og flekkað mennskuna. En klausturbargjörningurinn er ekki undantekning heldur eitt af mörgum dæmum um afstöðu einstaklinga og hópa í samfélagi okkar, sem höndla illa samfélagsbreytingar, ógnanir alþjóðavæðingar og fljótandi siðferðisviðmið. Óttinn hefur magnast. Alls konar ótti, við nýbúa, flóttamenn, homma og lesbíur og fleiri. Og reiðin er systir óttans. Þegar karlmennskan tapar getunni er stutt í ofbeldið. Um það verðum við að ræða undanbragðalaust og ekki setja okkur sjálf utan hrings.

Styrkur eða veikleiki

Í öllum samfélögum eru til karlar, sem eru hræddir við sjálfa sig, um sjálfa sig og þar með hræddir við konur. Ein af aðferðum hins hrædda er að hlutgera annað fólk, niðurlægja, lítillækka og hreykja sér á kostnað annarra. Þegar konur eða karlar ná ekki að þroskast til visku og máttar – verða til skuggamenni, sem misnota. Hverjir verða fyrir? Jafnan þrenningin: Börn, konur og náttúra. Það eru helstu þolendur sjúkrar mennsku. Litlir karlar níða aðra niður eða riðlast á öðru fóki til að sjást. Hræddir karlar beita ofbeldi. Ófullnægðir karlar tuddast áfram og trampa á öðrum. Siðblekktir karlar varpa draumórum um eigin mikilleika á heiminn og sækja í vald. Kenna öðrum eða aðstæðum um allt sem aflaga fer. Ábyrgðarflótti einkennir atferli þeirra.

Það er annað en karlímynd Biblíunnar. Stóru karlar kristninnar eru þjónar, karlar sem siðferðisverur, vitringar sem sjá hlutverk sitt í tengslum og í þágu annarra. Og gangast við ábyrgð sinni.

Lýsa upp skuggana

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sagði einu sinni frá því, að í skóla dóttur hans hefðu tólf ára drengir sagt, að það þyrfi að nauðga stelpum með skoðanir. Og takið eftir: Þetta eru drengir, sem ekki eru komnir á fermingaraldur! Ekki væri tekið mark á stelpunum vegna þess að þær væru “ómerkilegar, þær væru ílát, drasl” – eins og drengirnir orðuðu það! Tólf ára drengir í skóla, en töluðu eins og drengir á bar. Ofbeldismenning varðar okkur öll og skiptir okkur máli. Við eigum að bregðast við henni. Allt annað er meðvirkni. Hið illa lifir og dafnar meðan gott fólk gerir ekkert. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur sjálf hvort við ræktum óttann innan í okkur og ofbeldið þar með? Við erum öll í hættu og hættir til að verða skuggaverur.

Jóhannes var flottur karl. Hann ól ekki á ótta og lagði ekki til nauðganir og mannfyrirlitningu. Nei, hann beindi sjónum að því, sem mestu máli skipti, Guði, komu hins góða, trúarlega í mannheim. Aðventan er undirbúningstími. Við megum gjarnan skúra að hætti Jóhannesar. Skúra út ótta og hreinsa okkar andans vistarverur. Taka á móti Jesú Kristi. Hann þjónaði alltaf fólki, virti fólk, gerði ekki grín að fötlun þess, heldur studdi og læknaði. Jóhannes var flottur karl og Jesús Kristur er ímynd þroskaðrar karlmennsku.

Aðventan kallar á alvöru kalla!

Stöldrum við og þorum að endurskoða mennsku okkar. Þið karlar, syngjandi, þjónandi, verandi. Þorið að vera alvöru karlar, sem ræktið þroska en ekki smæðarlegar skuggamyndir. Dætur okkar og synir, allt fólk í umhverfi okkar á að fá að njóta hæfileika sinna án heftinga. Haturshópar eiga ekki rétt á starfsfriði og ofbeldiskúltúr hentar bara í endurvinnsluna. Nú eigum við að leyfa draumum að rætast. Bönnum lausagöngu karltrölla í almannarýminu, en ræktum mennskuna. Notum aðventuna til að hreinsa út fordóma og falsímyndir úr lífi okkar. Hvað eigum við þá að gera? Opnum bar himinsins, leyfum sálmum lífsins að hljóma, körlum að leika og mannlífi að blómstra.

Amen.

Íhugun um karlmennsku, skuggahliðar og alvöru karla.

B-röð texta. Hallgrímskirkja 16. des 2018

Ofurhugar Íslands

5. desember 1948, vígsla fyrsta hluta kirkjunnar, Hallgrímskapella. Fremst á mynd er Vörðuskóli. Í baksýn eru braggar og Hnitbjörg. Skólavörðuholt. Nú er þetta kapella undir kór kirkjunnar.

París hefur sinn Eiffelturn, London Big Ben og Reykjavík Hallgrímskirkju. Þannig var Reykjavík uppteiknuð í ferðakynningu og tjáir hlutverk kirkjunnar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Hallgrímskirkja er orðin einkenni borgarinnar, lógó ferðamennskunnar. Auglýsingabransinn notar hana, sem bakgrunn til að staðfæra og sannfæra. Hallgrímskirkja teiknar sjóndeildarhring Reykjavíkur og Íslands. En svo hefur það nú ekki verið um aldir.

Hvar er Hallgrímskirkja?

Gamlar myndir frá Reykjavík eru skrýtnar því á þeim er enginn gnæfandi kirkja á Skólavörðuholti, turnspíra hálfa leið til himins, kirkjuskip og nettur kórkúpull. Það, sem nú er nauðsyn í auglýsingum ferðaþjónustunnar og sjónrænn stimpill vitundar okkar, er ekkert sjálfsagt heldur ávöxtur starfs stórmenna. Þegar byrjað var á byggingu kapellunnar, neðri hluta kirkjukórsins, var á holtinu braggabyggð stríðsáranna. Það var erfitt að afla heimilda fyrir lóð fyrir kirkjuna. Svo hafði hernámsliðið ekki mikla þolinmæði fyrir eitthvert kirkjurask í miðri heimsstyrjöld. Miðað við fátækt fólks var fáránlegt að láta sig dreyma svona stóra byggingu, hvað þá að fara af stað. Byggingaráform Hallgrímskirkju voru órar, enda var enginn skortur á andstæðingum, úrtölumönnum og glefsandi uppistöndurum. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að Hallgrímskirkju á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar. Þökk sé þeim einbeittu konum. Þær eru meirihluti ofurhugaliðsins.  

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Hetjur heyrðu. Þær voru stórhugar Íslands, sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags, þjóðfélag og kristni. Það var farið til að byggja. Milli bragganna í Skipton Campá Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Sjötug kapella, sjötíu náðarár.

Kapellan og fólkið

Við höfum notið náðar Guðs. Sum ykkar voru fermd hér og önnur gift. Hvað eru mörg ykkar, sem voru skírð í Hallgrímskirkju? Gerið svo vel að rétta upp hönd! Hvað eru mörg í þessum söfnuði, sem voru fermd hér? En gengu í hjónaband? Já og öll hafið þið komið til messu í þessari kirkju. Og við erum í stórum söfnuði fólks, sem hefur lagt lið, notið og verið í liði himinsins.

Í fjölskyldu minni var alltaf talað með mikilli elsku um kapellu Hallgrímskirkju. Foreldrar mínir stóðu með framtíðarfólkinu á Skólavörðuholti og sóttu oft messur hingað. Og svo þegar ég var nýkominn frá Guði fóru foreldrar mínir upp á holtið og sr. Sigurjón Þ. Árnason skírði mig. Og ég var með foreldrum mínum í guðsþjónustum síðar. Eins og mörg önnur börn starði ég heillaður á Kristsmynd Einars Jónssonar og pálmann, sem Guðrún og Karl Ryden gáfu kirkjunni. Bæði voru í kapellunni, síðar í Suðursalnum og eru enn í kirkjuskipi Hallgrímskirkju nú. Eins og tákn um hið lífræna samhengi hins lifandi boðskapar í sjötíu ár. Og mörg munum við líka hve gluggarnir voru hátt uppi í kapellunni og hve stór hún var. Í minni fjölskyldu var börnum kennt að tala þessa kirkju upp en ekki niður. Hún væri á ábyrgð okkar allra. Erindið væri aðalatriðið og það varðar: Að lífið væri ekki bara stríð, braggar, ógnanir og búralegt hyggjuvit – heldur dásamlegt, fullt af möguleikum, fagnaðarefnum og opinni framtíð. Því var svona kirkja byggð. Við njótum stórhuga Anda.

Það sem rætist

Kirkja á sér fortíð. Kirkja er líka saga og þessi kirkja á sér langa sögu. Hvers virði er minning og saga? Í guðspjalli dagsins er Jesús kominn í heilan hring og inn í sögu þjóðar og fjölskyldu. Hann hafði verið í langferð og var loksins kominn heim. Hann fór í sína kapellu á sínu holti á helgidegi. Og tók las orð úr ritasafni þjóðmenningar sinnar, orð um hlutverk, gleðilegan boðskap, hinum þurfandi lausn, nýja og heilbrigða sýn. Þetta voru stærri orð en braggamenn heimsins gætu skilið. Og allir viðstaddir gerðu sér grein fyrir að orð þessa manns voru þvert á allar hugmyndir hagnýts hyggjuvits: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Orð úr fortíð, sem opnuðu framtíð. Söguleg samtíð. Allt stórt, allt nýtt, allt opið. Jesús Kristur, sem veruleiki nýrrar nálgunar alls. Samstaða með hinum kúguðu, líðandi og hömluðu. Já, það væri einkenni þess samfélags, sem Guð kallaði fram, að bæta líf fólks, kalla það til samúðar og samheldni. Og þetta með fagnaðarerindið væri ekki bara að búa til ræðupall fyrir hnyttna uppistandara, heldur opna tímann. Lífið væri meira en matur og frumskógarlögmál. Lífið væri skapað af elskandi Guði. Síðan varð til kristni og alls konar kirkjur. En erindið er alls staðar hið sama, fagnaðarerindi fyrir fólk, heim og framtíð.

Staður tengingar

Saga Hallgrímskirkju er lykilsaga. Hún hófst í andófi og í miðju braggahverfi. Þar voru gleðimálin túlkuð og iðkuð, samfélagið ræktað, fátækir virtir og náðarár kunngerð. Sjötíu árum síðar er Hallgrímskirkja eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. The Guardianhefur fellt þann úrskurð vegna þess að hér hafa milljónir ferðalanga lífsins fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra, náð sambandi við himininn. Ritningin hefur ræst. Byggingunni er ætlað að vera hlið himins, benda upp, teikna landslag menningar og samfélags, vera athvarf hinum jaðarsettu, vettvangur fegurðar, vörn gilda, farvegur skapandi listar, stefnumótastaður tíma og eilífðar. Staðurinn þar sem Jesús Kristur er, stendur upp, opnar bókina og segir skýrt og klárt: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Til hvers kirkja?

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. Hvernig á að túlka vinsældahrun kirkjunnar? Er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó fólk og samfélög ruglist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Kirkjustofnanir fremur en kristni eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkja sé ónauðsynleg – heldur að kirkja sé að breytast. Við, sem viljum hlusta á Jesúboðskap daganna, megum vita að Guð kallar alltaf með raunhæfum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar, en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa. Hvernig eigum við að þjóna öllu þessu fólki sem hingað kemur? Hvernig getum við verið farvegur fyrir gleði Guðs, fagnaðarerindi, fyrir alla?

Nunnurnar

Þær þúsundir, sem koma í Hallgrímskirkju á hverjum degi, eru á lífsferð sinni, pílagrímagöngu frá fortíð til framtíðar. Allt sálir, fólk í leit að merkingu fyrir líf sitt. Fyrir nokkrum dögum var hér á ferð hópur af nunnum. Reyndar voru tveir karlar í nunnubúningi og annar þeirra var með yfirvaraskegg. Nunnurnar íslensku og þmt þessir klæðskiptu munkar eru að ljúka framhaldsskóla. Þau voru uppáklædd vegna dimissjónar. Tímum er lokið og stúdentsprófin eru framundan. Hópnum var boðið inn í kirkjuna og þegar búið var ræða við þau sagði einn í hópnum: „Ég vissi ekki, að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja?“ Nei, var svarið. „Þjóðkirkjan er svona opin og skemmtileg.“ Og svo kom niðurstaða stráksins: „Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni.“ Presturinn sagði „amen.“

Svo tók ég mynd af nunnuhópnum við kór kirkjunnar. Þegar ég skoðaði myndina síðar um daginn og setti hana á vef Hallgrímskirkju varð mér hugsað til allra þúsundanna, sem hafa verið skírð, fermd og gift í þessum kór, í þessum helgidómi. Til þeirra líka, sem hafa verið kvödd með tárum. Og ég hugsaði til eldhuganna, sem þvert á efnisást, fóru til að byggja þetta risahús hinum mesta Guði. Og ég fylltist þakklæti til hugsjónafólksins, sem byggði þessa kirkju og hefur þjónað henni. Er hlutverkinu lokið, nei þetta sjötuga hlið himins er á bernskuskeiði, er vissulega í andlistlyftingu, aðgerð, þessa dagana og framtíðin er opin. Kirkjan er að breytast og þjónusta okkar þar með. Fólkið, sem kemur hingað, þarf að heyra að Jesús Kristur er staðinn upp og talar. Þann dag rætist ritningin.

Hallgrímskirkja 2. desember, 2018.

Lexía

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. Jer. 33. 14 -16

Pistill

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Op. 3. 20-22

Guðspjall

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: 

Andi Drottins er yfir mér 
af því að hann hefur smurt mig. 
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, 
boða bandingjum lausn 
og blindum sýn, 
láta þjáða lausa 
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“  Lk. 4.16-21

 

 

Ástarsögur

 

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018

 

Guð blessi Ísland

Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.

Geir og Guð

Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.

Ekki gjaldþrota á meðan

Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“

Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.

Álagahamur peninganna

Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.

Hliðrun – veiklun

Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“

Blessun en frelsi manna

Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.

…svo að þið lifið

Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykk­ur öll til að standa vörð um það sem skipt­ir mestu máli í lífi hvers ein­asta manns, standa vörð um þau lífs­gildi sem stand­ast það gjörn­inga­veður sem nú er að hefjast…  …Guð blessi Ísland.“

Bæn Geirs virkaði.  Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.

Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.

Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.

Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.

Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.