Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Barn, steinn og skírnarfontur Neskirkju

Þór Sigmundsson, steinsmiður og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, skáld, og börn þeirra gáfu Neskirkju fagran skírnarfont þegar Kolbeinn Tumi var skírður 16. 2009. Hugvekja þess dags fer hér á eftir. 

Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í og líka að lífið spratt fram. Neskirkja fékk skírnarfont að gjöf og drengur gefenda var skírður. Margt er því til íhugunar.

Ég hef verið að kenna öllum sonum mínum ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Þeir taka vel við og bænin er orðin ómissandi upphaf ferða, sem við förum. Bænin er í sálmabókinni og er svona:

Ég byrja reisu mín,


Jesús, í nafni þín,


höndin þín helg mig leiði,


úr hættu allri greiði.


Jesús mér fylgi í friði


með fögru engla liði.

Þetta er góð bæn og ekki síst í reisuaðstæðum lífsins. En lífið – er það ekki ferðalag? Skáldið Tómas minnti á, að það væri undarlegt ferðalag. En við megum gjarnan skilja það sem svo það sé undursamlegt. Tilveran er ekki bara hótelgisting heldur heimili ef við virðum eigandann. Okkur, börnum jarðar, er ekki ætlað að halda okkur til hlés í einhverju skoti heldur taka viðburðum daganna með opnum huga, með áræðni og bjartsýni. Og þannig má afstaða okkar vera gagnvart litlum börnum og nýju lífi.

Nýr fontur

Í dag höldum við hátíð. Harður en klappaður steinn er blessaður. Lítið, mjúkt og margstrokið barn, Kolbeinn Flóki var borinn að grjótinu til skírnar. Skírnarfonturinn er fallegur og drengurinn er stórkostlegur. Þessi nýi skírnarsár Neskirkju er gerður af föður drengsins. Þegar fóstrið stækkaði í kviði móðurinnar var listaverkið að mótast í huga pabbans. Hann skoðaði steina, gerði skissur og kannaði möguleika og leiðir. Það er fallegt að meðganga barnsins var samtíða meðgöngu fonts. Samtímis urðu þau til barn og fontur. Þau eru af sama meiði og eiga sér þegar dýpst er skoðað upphaf í veruleika þess sem klappar heiminn til lífs, Guðs.

Ferjustaður

Í sumar fór ég í ævintýraferð austur við Selfoss. Við, fjölskyldan, fundum Hellisskóg, unaðsreit á vesturbakka Ölfusár, uppvaxandi skóg Selfyssinga. Merkileg listsýning var sett upp þar í rjóðrum og á árbakkanum til minningar um baráttu fólks við fljótið og langa ferjusögu. Fólk, varningur og búsmali var um aldir ferjaður yfir ána við Laugardæli. Ölfusá er stórfljót og þegar ég stóð í flæðarmálinu, horfði yfir skolað sundið skerptist vitundin um, að ferðirnar voru ekki hættulausar og eins gott að ferjumenn væru vanda vaxnir og kunnáttusamir.

Listaverkin í skóginum eru skemmtileg. Eitt sýnir hangandi plastfiska í hjalli og minnir á að greiða varð ferjutoll fyrir flutninginn, fiskar voru gjaldmiðill. Annað verk hafði verið sett í tjörn í skóginum, fjöldi smárra báta sem átti að sigla þar sumarlangt. En í margar vikur rigndi ekki og tjörnin þornaði og gestir gátu gengið þurrum fótum að strönduðum bátunum. Synir mínir kunnu þessu vel og sáu ekkert athugavert við að blautlistaverk væri á þurru, að þeir gætu gengið að þessum bátum. Engum hefði þótt gott að lenda á botni Ölfusár fyrrum, en áin þornaði ekki þótt þurrt væri.

Vörður

Niður við vatnsbakkann sáum við sláandi verk, vörðu með mannsbrag. Hvað var þetta? Var þetta steingerður ferjumaður sem skyggndi ána, leitaði leiðar, horfði yfir straumkastið og stefndi yfir. Listfengið og handbragðið vakti grun minn um hver höfundurinn væri. Þetta hlýtur að vera skúlptúr eftir Þór Sigmundsson? Við kíktum því í bæklinginn um sýninguna. Jú mikið rétt, þetta var varða sem Þór hafði gert, raðað steinflögum saman og myndað merkan minnisvarða. Ekki áminningu um ferjumann, sem flutti sálir til heljar, heldur ferjumenn aldanna, sem ferjuðu til lífs, þeir börðust vissulega á mörkum lífs og dauða. Lítið mátti út af bera, þá gat ferðin endað í dauða, orðið feigðarflan. Hlutverk ferjumanna var að tryggja líf og ferja með öryggi.

Þór hefur gert marga og merkilega skúlptúra. Og svo kom lífið í fang hans, lítið barn og hann langaði til að gera font til skírnar barnsins síns. Þór ólst upp á bökkum Ölfusár og þekkir því hinn glæsilega skírnarfont Selfosskirkju, sem er verk Sigurjóns Ólafssonar. Hann hefur því vitað frá bernsku, að fontur er afar mikilvægur við upphaf lífsferðarinnar.

Í dag byrjar nýtt líf, eilíft líf. Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í. Grjóti var velt fyrir opið, en svo var því velt frá til tákns um að lífið kviknaði, líf Jesú hélt áfram og líf heimsins breytist. Ekkert getur hamið hið eilífa líf. Enginn steinn tefur elsku Guðs, en fólk, efni, og þar með talið grjót mega þjóna lífinu. Nú hefur Þór klappað steininn og búið til úr honum fang fyrir vatnið sem með táknrænum hætti vísar til hreinsunar Guðs á flekkuðum heimi. Skírnarfontur minnir á að lífið sprettur fram úr grjótinu.

Steinn og barn spanna hið stóra mál trúar, mannlífs, tíma og eilífðar. Við höldum hátíð þegar barn er fætt, við minnumst afmælis okkar árlega. Víða um hinn kristna heim minnast menn hinna andlegu afmæla sinna og halda skírnarafmæli hátíðleg. Það er ekki síðra tilefni en fæðingardagur. Við megum gjarnan gera meira úr skírninni, skírnardögum og þar með skírnarminningum.

Hvað er mikilvægast?

Fontur og barn eru mikilvæg en hvort skyldi nú vera mikilvægara? Foreldrarnir, Þór og Guðrún Rannveig, myndu ekki hika við að svara. Það er barnið, sem er dýrmætasta perlan. Grjótið er gott, fonturinn er fagur en barnið er ómetanlegur dýrgripur, sem ekkert getur komið i staðinn fyrir. Slík er skipan lífsins, þannig er málum háttað í ríki Guðs. Lífið er mikilvægast og það ber að vernda, og allt sem er í heimi ber að nota vel og með fegurð til að þjóna lífinu.

Guðspjallið, sem lesið er við allar skírnir, er síðustu orðin i Matthesuarguðspjalli, svonefnd kristniboðsskipun. Þar er boð Jesú um að vinir hans beri allri heimsbyggðinni góðar fréttir um Guð, elsku hans, að við erum börn hans. Þar segir einnig, að við skyldum kenna og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda og síðan halda allt það, sem Jesús hefur boðið. Hvað verður þá? Jú, að Jesús verður með nálægur alla daga til heimsenda. Þar með er hann ferjumaður allra alda, allra manna, ekki aðeins minnisvarði um góðan ásetning og góða stefnu, steinn á árbakka, heldur ferjumaðurinn sjálfur sem stýrir, er nærri, verndar í öllum háska, og blessar allt til enda. Þess vegna er lítill drengur borinn að skírnarþrónni til að hann fái blessun til ferðarinnar yfir fljót ævinnar. Hættur og erfiðleikar munu örugglega mæta á honum eins og okkur öllum. Því þarfnast hann góðs ferjumanns, góðs vinar, heilags anda.

Eilífa lífið

Hvenær byrjar eilífa lífið? Margir halda, að það byrji fyrst þegar komið er hinum megin við dauðastundina. En hið eilífa líf byrjar í hinu jarðneska lífi. Það byrjar ekki hinum megin við dauða og gröf heldur í skírninni. Þá byrjar æviferðin með Guði. Skírnin er því merkasti viðburður mannsævinnar því barnið er vígt himninum. Í skírninni er stefnan tekin og vökumaður himinsins sest í skut og stýrir. Veröldin er áin sem við höldum yfir, kristindómurinn er skipið sem ber okkur yfir fljótið, ferjumaðurinn er bróðirinn besti. Landfestar eru við skírnarfontinn, þar eru fyrstu áratog lífsferðarinnar, þar er beðið og barnið blessað og fær nafnið í veganesti.  Við ströndina hinum megin bíður vörður lífsins, sem tryggir að allt sé gott. og nafnið skráð í bók lífsins.

Þökk sé Þór og fjölskyldu hans fyrir þennan klappaða stein hins agaða einfaldleika og djúpu merkingar. Blessun fylgi Kolbeini Flóka og þeim öllum. Nessöfnuður blessist af gjafmildinni. Og dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda,

Amen.

Hugvekja við blessun skírnarfonts Neskirkju, 16. ágúst 2009.

Fonturinn er gjöf hjónanna, Þórs Sigmundssonar, steinsmiðs og Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur og barna þeirra. Skírnarþeginn Kolbeinn Tumi kom í hjónavígslu 2013 og þá ræddum við saman. 

 

Himinn í mömmubumbu

Á þessum mæðradegi ræðum við um himininn og móður allrar miskunnar, Guð. Margar sögur eru um hvernig fólk hugsar um líf handan dauða. Lína langsokkur var móðurlaus og horfði oft upp í himininn og hugsaði um mömmu sína. Henni fannst hliðin, sem að okkur snýr, öfuga hliðin á himninum, vera falleg og dró því þá ályktun, að hin hliðin hlyti að vera enn betri fyrst rangan væri svona flott.

Veraldarvefurinn ber vott um, að himininn er mikilvægt umhugsunarefni. Ég fletti með Google og komst að því að 640 milljón síður koma upp þegar leitað er undir orðinu heaven. Himmel vísaði á 173 milljónir síðna. Og þegar íslenska orðið himinn var sett inn voru vísanirnar 634 þúsund. Paradís er það, sem flestir vona og um það efni eru á vefnum 664 milljónir vísanir.

Himnaríkisdæmi

Áhuginn er mikill, en svo eru hugmyndirnar um himnaríki mjög mismunandi. Allir foreldrar þekkja glímuna við að skýra út dauðann fyrir börnum, lífsför langömmu eða afa inn í eilífðina. Síðan verður að skýra hvar Guð býr og hvar ekki. Barnið gerir sér bókstaflegar ímyndir og skýringar. Niður er vont, upp er gott.

Í Gullna hliðinu notaði Davíð Stefánsson – í viðbót við stefin úr Opinberunarbók Jóhannesar – kotbændatúlkun á himinhliðinu. Húmor er til hjápar við að nálgast flókin mál, en kannski fjallaði Gullna hliðið fremur um meðvirka eiginkonu hins látna en ferð þeirra hjóna að himinhliðinu!

Í Islam hefur himindýrðin verið útmáluð með munúðarfullum sögum um líkamsnautnir hinna hólpnu í Paradís. Í fornöld vildu norrænir spennufíklar og dýrkendur hermennsku gjarnan halda leikjum áfram. Í Valhöll var hryllingi stríðsins sleppt en haldið í gamanið. Spíritistar fregnuðu og kenndu á sínum tíma, að himinvíddir væru alla vega sjö og sálin færi mishratt um þær veraldir á þroskaferli sínum. Joe Hill talaði um “You’ll get pie in the sky, when you die.” Astrid Lindgren dró upp dásamlega veröld í Rósadal Nangijala í bókinni Bróðir minn Ljónshjarta, sem flestir íslenskir krakkar hafa heyrt eða lesið. Himnaríkið, sem Astrid Lindgren lýsti, var þróunarveröld rétt eins sálarheimar spíritista.

Frá hinu þekkta til hins óþekkta

Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Hvernig verða himnaríkismyndir til? Eins og barnið, sem sér stjörnurnar og skilur með sínum forsendum, erum við öll misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn og skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing. Við getum aldrei talað um himininn í öðru en líkingum. Myndmálið er tæki til að tjá það, sem við höfum hugboð um, dreymir um og vonum.

Til að staðsetja trúarhugmyndir okkar, sem varða himnaríkið og framhaldið, ættum við íhuga fyrst hvernig við manneskjurnar hugsum. Það er þarft að muna hvernig við lærum og þroskumst. Við byrjum alltaf þar sem við erum, lærum út frá því sem við kunnum, skiljum alltaf út frá hinu þekkta.

Himinvarp

Munum, að menn varpa þrá og djúpsettum hugmyndum upp á himin vonanna. Það þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir að þá múslima, sem dreymdi munúðarfulla drauma um tilkippilegar meyjar, voru kynsveltir karlar. Kannski má sjá í elýsesískri þægindaveröld Grikkja að einhverju leyti vörpun á vonum þeirra, sem var annað hvort of heitt eða kalt. Vísast var Valhallarveröldin draumur hermanna og spennufíkla, sem hræddumst hrylling stríðs en þráðu spennuna áfram. Gullslegin hús og prýdd veröld himnaríkis er vörpun á þrá hins fátæka manns. Kannski er Disneyland einna besta raungering hinna barnalegu drauma.

Himnaríkið þitt

En hvert er þitt himnaríki? Íhugaðu og virtu vonir þínar og reyndu að greina þína himinveröld. Það er mikilvægt og frjótt að vinna það verk því þá lærir þú betur að þekkja þig. Þér mun örugglega ekki takast að búa til himininn. En ef þér lánast vel gerir þú þér kannski betur grein fyrir takmörkunum sjálfs þín, mörkum hinnar mannlegu ímyndunar og skilnings og hvert er sumarland þinnar dýpstu þrár.

Búa ykkur stað

Verið ekki áhyggjufull minnir Jesús vini sína á í guðspjalli dagsins. Ég fer frá ykkur til að undirbúa framtíðarveröld ykkar, búa ykkur stað því vistarverur guðsríkisins eru svo margar að komu ykkar þarf að undirbúa. Tómas var nægilega jarðtengdur og í sambandi við sjálfan sig að hann viðurkendi, að hann skildi Jesú ekki, vissi ekki hvaða leið lægi til ríkis Guðs og hvernig himnaríkið yrði. Hvernig eigum við að vita hvaða leið við eigum að fara?

Jesús tekur af allan vafa um, að það sé hann sem opnar hliðið, það sé hann sem gerir veginn og segir efasemdarmanninum Tómasi, að hann sé vegurinn sjálfur, sannleikurinn og lífið. Þar með gerði hann grein fyrir himninum, skýrði út eðli og gerð hans.

Fósturhugmyndir

Oft horfi ég dáleiddur á litlu börnin, sem ég skíri og velti vöngum yfir upplifunum þeirra og hugsunum. Einu sinni varstu svona peð. Hvað hugsaðir þú, hvernig var veröld þín? Var hún ekki talsvert ólík veröld þinni nú?

Og hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þá slakaðir þú á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Vissir þú í móðurbumbunni nokkuð um bíla, neyslu, fátækt, kreppu eða loftslagsvá? Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlegið skildir þú hana ekki. Þú og öll börn fæðast fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Eitt skref í einu og góðir hlutir gerast hægt. Góðar mömmur og góðir pabbar eru undraverðir leiðbeinendur og þroskavakar. 

Hin stórkostlega fæðing

Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hafði allt og síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og það er okkur til skilningsauka þegar við hugsum um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Hvernig verður hinum megin? Getur þú ímyndað þér það? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur ímyndað þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér.

Margir eiga í erfiðleikum með trú og eru kvíðnir gagnvart óvissuferðinni inn í eilífðina. Fólk á í erfiðleikum með hvað við tekur, reynir að fá botn í hugsanir sínar, uppgötva með skynsemi sinni um framhaldið. Að vera kristinn er að fylgja Jesú alla leið. Hann dó en hann reis upp. Þú munt deyja, allir þínir munu deyja, en Jesús vill að þú og allt þitt fólk rísið upp til eilífs lífs. Hann fór alla leið og leiðir þig leiðina líka. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Þú mátt horfa með augum barnsins og ímynda þér réttuna á himinum. Þú getur gert þér grein fyrir, að allt eru þetta aðeins vísbendingar því þú ert í móðurkviði náttúrunnar. Þú átt eftir að fæðast til réttunnar, inn í faðm þeirra sem elska þig. Og sá móðurfaðmur er Guð. Jesús Kristur, er búinn að hanna og smíða stórkostlega veröld. Þar eru vistarverur handa þér. Við vitum ekki hvernig hún verður nákvæmlega, því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing heldur er mál Biblíunnar myndrænt, hliðstæðu-orðræða. En þú mátt trúa Jesú, að hann verði nærri og það er aðalatriðið.

Ferðin þín inn í eilífðina byrjar ekki í framtíð, heldur í bernsku þinni, þegar rétta himinsins umvafði tilveru þína við skírnarfontinn. Eilífðarlífið er byrjað í þér – það byrjaði í skírninni. Þú ert á meðgönguskeiði en fæðing til himins verður síðar. Notaðu lífið, þessa meðgöngu anda þíns og sálar til að leyfa hinum andlegu líffærum að þroskast vel. Stressaðu þig ekki yfir því þótt þú skiljir ekki öll hljóð og áhrif himinsins nú þótt þau berist þér í gegnum náttúrubumbuna og móðurleg kirkjunnar. Þegar þú deyrð, fæðist þú til nýrrar tilveru og þá muntu sjá ljós, liti og dýrð sem tekur fram öllu því, sem þú ímyndar þér á fósturskeiði trúar þinnar. Spennandi! Já, svo sannarlega því lífið lifir fyrir Jesú Krist.

Hallgrímskirkja 3sdepaska 2019, mæðradagurinn, messunni úrvarpað á RÚV. Slóðin verður opin einhverja daga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3bm

Lexía: Slm 126

Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.

Pistill: 2Kor 4.14-18
Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.

Guðspjall: Jóh 14.1-11
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“

Páskafólk

Konur á leið út úr borginni og í ómögulegum erindagerðum. Þær voru vonsviknar og sorgbitnar. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Konurnar, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gætu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagskonur.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum öll föstudagsfólk, við eigum öll okkar löngu föstudaga í lífinu, verðum fyrir þungum raunum sem fylla okkur depurð og eru okkur raun. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Öllu varðar að reyna að læsast ekki inni. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar, bruminu á trjánum hér utan kirkju eða þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót? Er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf

Og þá er mál páskamorguns. Nýr dagur, dauðinn dó en lífið lifir. Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En verðirnir urðu fyrir mikilli reynslu, og það hefur væntanlega verið einhvers konar ljósvitrun. Það sem þeir urðu vitni að var svo rosalegt að þeir lögðu á flótta, sem varðmenn gerði ekki nema í ítrustu neyð því hlaup frá varðmennskunni var grafalvarlegt brot.

Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu líka fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum, sögð og endursögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við viðburðinum, nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt að nýju með boðskap páskadags.

Innri ákörðun

Hvað viltu með þessa frásögn þessa lífsdags? Hvað gerir þú með gleðifréttina að dauðinn dó og lífið lifir? Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið?

Ég veit um konu, sem sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” En alla ævi bjó hún þó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún sá ekki bara ógnir heldur tækifæri, gleði í stað sorga, líf í stað dauða.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni. Verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Það eru þær fréttirnar sem eru kallaðar fagnaðarerindi. Slíkar fréttir eru gleðifréttir, frábærar fréttir.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, þegar geisli sólar sem fer í gegnum okkur og umbreytir okkur. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Lífsfrásögn páskanna umbreytti veröldinni. Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Veröldin er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla. Heimurinn er ekki bara til dauða, heldur er opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn … Hann er upp risinn frá dauðum …“