Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

 

 

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.

Ferðasögur og Saga

Hvað gerir þér gott? Hvernig getur frí orðið þér til góðs á þessu sumri? Hvað verður þér til heilsu og eflingar? Hvað verður þér brauð lífs? Ef þú ert í leyfi eða ræður algerlega þínum tíma – já hvað gerir þú? Og hvað gerir þú þessa mestu fríhelgi sumarsins?

Sumaráform fólks eru með ýmsu móti. Til er dugnaðarfólk, sem ætlar sér mikil afrek í sumarleyfinu, að byggja sumarbústað, mála alla íbúðina og skoða líka Austfirði! Við erum komin af vertíðarfólki, heyannafólki og tarnafólki og vinnusemi hefur löngum verið talin dygð á Íslandi. En að vinna hamslaust í sumarleyfi er hvorki ákjósanleg eða óumflýjanleg örlög. Að vinna er ekki tilgangur sumarleyfis. 

Frí er fyrir fólk en fólk ekki fyrir frí. Að “gera” eitthvað í leyfi er stundum nauðsyn, en að “vera” er mikilvægast. Besta markmið leyfis er reynsla sem nær til dýpta. Frí ætti að þjóna hvíld, hleðslu, ástvinum, andríki og uppbyggingu. Þá verður frí þjónn hamingju.

Ferðasögur
Við, sem eigum vini á facebook, sjáum sumarleyfamyndirnar á vefnum. Ekki aðeins á facebook heldur líka á Instagram, Flickr eða öðrum síðum. Svo eru ferðasögurnar. Og það er við þær, sem mig langar til að staldra við í dag. Það merkilega er, að þegar fólk segir sögur af ferðum sínum er það oft að tala um sjálft sig og líðan sína. Frásögurnar eru með margvíslegu móti og sumar hrífandi eða rosalegar. Þegar þú segir ferðasögu þína hverju ertu þá að lýsa? Getur verið að þegar þú segir ferðasögur þínar sértu að lýsa hver þú ert? 

Sum segja töfrandi undrasögur, sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, heilann af myndum og hugann af fögnuði. Ímyndunaraflið fer á flug og við upplifum undur og stórmerki og fáum jafnvel nýja sýn á lífið.

Aðrir segja harmþrungnar ferðasögur: „Gistingin var léleg, bílaleigubíllinn bilaði, kortinu var stolið, ferðaskrifstofan sveik margt, seinkun var á fluginu, það ringdi allan tímann, frumstætt þjóðfélag og þjónustustigið lágt, ferðafélagarnir leiðinlegir, drykkfelldir og hávaðasamir, sumir fengu matareitrun. Og það er gott að vera kominn heim!“ 

Svona sögur eru erfiðar og afar dapurlegar. Segja þær eitthvað um ferðalanginn?

En hrífandi sögur hafa allt önnur áhrif. Hver megnar að segja svo frá ferðum sínum að þær lifni og maður lifni við? Það er fólkið, sem hrífst og vill miðla, fólkið sem leyfir sér að upplifa til að verða snortið og gefur síðan af örlæti sínu. 

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ferðasögur fólks segi meira um einstaklingana en ferðirnar sjálfar. Segðu mér ferðasöguna – því hún segir hver þú ert. 

Ferðasögur fólks eru ekki aðeins um Finnland, Korfú eða gönguför yfir Fimmvörðuháls, heldur fremur frásögur þess um eigið líf. Fólk, sem segir frá skemmtilegum ferðum og getur jafnvel séð í óveðri tilefni til tjáningar á dýpri veruleika, það er fólkið sem er tilbúið til að upplifa lífið á dýptina, tilbúið til að sjá margbreytileika eigin lífs. Þetta fólk er auðvitað ekki fullkomið frekar en við hin. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir. Það verður fyrir sjúkdómum og missir líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum – numið hið dýrlega í veröldinni. Þetta fólk fer kannski í svipaðar ferðir og hin sem sjá ekkert nema neikvætt. En þau nema þó hið merkilega af því þau hafa í sér vilja og getu til að hrífast og eru tengd hinu stórkostlega. Þau hafa gluggann opinn inn í undur heims og jafnvel undur himins. Þau, sem segja bara sorglega ferðasögu, tjá stundum fremur depurð eigin lífs fremur en ferðar sem það fór.

Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldraðu við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Sorglegar sögur þarf að segja og depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Ferðasaga þín er sannleiksspegill. Ferðasaga fólks er eins og minningargrein um eigið líf!

Ferðasaga Guðs

Já, ferðasögur eru harla merkilegar. Mannasögur eru margs konar. En Guð hefur líka sagt sögu um sig. Sú saga byrjar með því að Guð elskar – elskar þig – vill ganga með þér á þinni för. Guð gisti í mennskum móðurlíkama konu, óx í mannheimi, hefur reynslu af þér og mér, þekkir mannkyn í gæsku og grimmd, gleði og sorg. Allar ferðasögur mannanna komu svo saman í krossi á hæð og tómri gröf. Ferðasaga Guðs er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, vonbjart og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar manna ganga upp í. Ferðasaga Guðs er saga um gleði lífsins, að lífið er sterkara en dauðinn. 

Ferðasaga Guðs er jákvæð, kraftmikil og um ríkidæmi lífsins. „Ég er brauð lífsins…“ segir í texta dagsins. Á ferð með Guði njótum við fæðu, gæða, brautargengis – brauð lífsins er fyrir líf og nægir okkur. Allt sem er í þessar veröld eru gjafir sem Guð gefur, brauð lífsins er koma Guðssonarins og öll gæði sem Guð hefur mönnum, lífi, náttúru til gæfu. Brauð lífsins merkir að allt sem við reynum og lifum eru gjafir Guðs og til blessunar. Guð lætur sig þig varða, gefur þér og er með þér í öllum málum lífs. Er sjálfur kominn til að umvefja þig, efla, næra og blessa. Og fer aldrei fráþér. Guð er alltaf á veginum með þér.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? Varpaðu henni upp á spegil hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir, og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs – dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá er ljóst hver þú ert.

Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Og þú mátt ganga fram í messunni og njóta brauðs og víns. Það er ferð, sem Guð býður til og þar er tilefni reisu lífsins. Mynd af þeirri ferð verður ekki smellt á facebook, heldur er sagan undrasaga um faðmlag tíma og eilífðar, lífgun sálar. Sú saga verður endursögð í gleðisölum eilífðar. Saga þín verður saga Guðs.

Amen

A few words on the the theme of today. This happens to be the most active weekend for travelling in Iceland. The entire nation is on the move. And those of you coming from abroad are travelling too. I did talk about accounts or stories people tell about the travelling. What stories do people tell. Some tell awful stories and others tell stories of wonder and adventure, colorful and enticing stories. I have noticed that some people tell rather negative stories and others more or less tell stories of positive experiences. So my conclusion is that when people tell about their travelling they more or less tell stories about themselves. People who have negative stories about food, hotels and trips are telling more about themselves than the actual turn of events. And the people who tell about wonders and miracles are talking about their positive approach. So tell me about your trip – and I know something about who you are.

God has told us who God is. God has told about God´s trip in the world. That is an account about human bodies, human joy, hopes, wonders, miracles, and also about cruelty but finally that life is more powerful than death, hope is more powerful than despair, the good endures that which is evil.

All our accounts, all human experience and events are part of the primary story of God. All our short stories are parts og pieces of the divine story.

So, turn inside and think obout your story and turn to the world, and become engulfed by the wonder of the world, time, eternity and heaven. You are a pilgrim on the divine road.  

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 4.8. 2019.

Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og verslunarmannahelgi. B-textaröð.

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.