Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Stela framtíðinni

Ég var barn í vesturbæ Reykjavíkur þegar Kúbudeilan geisaði í byrjun sjöunda áratugarins. Fréttaflutningurinn um yfirvofandi heimsenda náði til okkar barnanna. Ég varð óttasleginn og gerði mér grein fyrir að heimsendaógnin væri til framtíðar þó heimsenda hafi reyndar ítrekað verið frestað. Meðan ég enn var barn varð niðurstaðan, að ég ætti aldrei að eignast börn. Mér fannst það væri óábyrgt, ósiðlegt, að fæða börn inn í svo hættulega veröld. En Guð er húmoristi og ég hef eignast fimm börn. Guð opnar alltaf klemmdan tíma. Ég á þrjú barnabörn sem ég horfi í augun á og hugsa um framtíð þeirra og hamingju. Hvernig verður hún? Hvað get ég gert í þeirra þágu?

Nú eru áramót og hugleiðinar um fortíð og framtíð laumast inn í vitundina. Er tíminn opinn og ekkert nema möguleikar framundan á nýju ári? Eða er tími mannanna að læsast og líf heimsins í kreppu? Ég minnist margra samtala við ungt fólk á árinu. Það sem situr helst í mér eru hinar djúpu áhyggjur sem þetta framtíðarfólk hefur af velferð heimsins, náttúrunnar sem er húsið, sem við búum í. Og ég tek alvarlega framtíðarkvíða æsku heimsins og líka að mín kynslóð hafi gert hrapaleg mistök á kostnað fólks og framtíðarlífs plánetunnar. Er framtíðin ógnvængleg? Hvað er til ráða?

Fyrr á árinu söfnuðust framhaldsskólanemar hér fyrir framan Hallgrímskirkju. Unga fólkið hélt á slagorðaspjöldum – um mikilvægi loftslagsverndar. Spjöldin voru með litríkum setningum um náttúruvernd, verkefni okkar og tímann. Boðskapur þeirra hafði djúp áhrif á mig og leitar reglulega upp í hugann. Ég tók myndir af spjöldunum og fór að skoða þær aftur í vikunni. Þar segir meðal annars: „Framtíð okkar er í húfi.“ „Tíminn er á þrotum.“ „Það er löngu kominn tími á aðgerðir.“ „Það er engin planet B.“ Þetta eru ábendingar nokkurra spjaldanna. Hin sænska Greta Thunberg hefur dýpkað áhyggjur æskufólks og beinlínis ákært forystufólk heimsins fyrir að stela tíma og framtíð barna heimsins. Á loftslagsráðstefnu í haust sagði hún við sextíu þjóðarleiðtoga: „Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum ykkar.“Þegar við berum saman einróma viðvaranir vísindasamfélagsins og aðgerðir stjórnmálamanna skiljum við þunga ákærunnar og Greta Thunberg hefur rökin sín megin. Hvað með stuld framtíðar?

Loftslagsvá, plastmengun hafanna, brennandi Ástralía og skelfilegir gróðureldar á öðrum hlutum jarðarkúlunnar. Mengun hefur breytt lífkerfum heimsins og veldur streitu í samskiptum sem leiða til styrjalda og þjóðflutninga. Ótti læðist um í samfélögum heimsins og nær tökum á æ fleirum og kemur fram í alls konar skrítnum óttamyndum. Mannótti, hræðsla við aðkomna og flóttamenn, neikvæð þjóðernishyggja og vonskuathugasemdir nettrölla á samfélagsmiðlum eru tákn um aukna streitu og að menningarmengunin er líka að aukast. Framtíðin verður æ ógnvænlegri. Það er eins og dans tímans sé að hægjast. Börn heyra fréttir, unnið er með þær í skólum og æ fleiri taka viðvaranir alvarlega um klemmda eða lokaða framtíð. Hvernig getum við brugðist við, hvað eigum við að gera? Framtíðarkvíði – skiptir trú á Guð einhverju máli?

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður og kall tímans. Jesús segir kennslusögu, sem er skiljanleg – líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré, sem ekki ber ávöxt? Bændur veraldar fella slík tré. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðusett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva, en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn.

Jesúmeiningin er, að Guð er langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að öllu lífi er ætlað að bera ávöxt – skila sínu láni. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvað í samfélagi okkar er árangurslaust? Hvað á að skera niður? Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og heimsbyggðarinnar? Og hvað með framtíðina? Eru ábyrgðarmenn heimsins geld tré sem bara stela næringu en bera ekki ávexti?

Framtíð – og Greta Thunberg

Samkvæmt Time Magazine er Greta Thunberg maður ársins 2019 og hún hefur reyndar fengið margar viðurkenningar síðasta árið. Og hafir þú ekki enn lesið bókina um Gretu Thunberg og fjölskyldu hennar hvet ég til að þú náir þér í JPV-bókina Húsið okkar brennur. Þar er sögð merkileg saga flókins fjölskyldulífs, sem skýrir af hverju Greta er hert í eldi lífsreynslunnar. Það er hjartagrípandi bók um lífsbaráttu, en ekki bara um loftslagsmál. Greta Thuberg hefur dregið saman og bent á margar viðvaranir vísindasamfélagsins, sem er nánast einróma í ályktunum. Greta hefur orðið fyrirmynd og rödd framtíðarfólksins. Málflutningur hennar er skýr. Skólaverkfall hennar, borgaraleg óhlýðni, hefur orðið fyrirmynd um aðgerðir. Unga fólkið á Vesturlöndum hefur vaknað til vitundar um skyldur sínar gagnvart framtíð heimsins. Þessi lágvaxni risi hefur minnt leiðtoga veraldar á, að gömlu aðferðir þeirra hafi ekki skilað neinu. Of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Og hún hefur ítrekað bent á að fólk heimsins, stjórnmálaleiðtogarnir, leiðtogar þjóðanna, segist elska börnin en steli samt framtíð þeirra, möguleikum þeirra.

Blessunin er alls konar

Hvað þýðir svona boðskapur við áraskil? Er nýtt ár möguleiki? Er staða Boeing-samstæðunnar orðin táknmynd um svik, blekkingar, slys og hrun heimsbyggðarinnar? Er neysla okkar, óréttlát skipting gæðanna slík, að framtíðin er að lokast mönnum? Erum við forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís en tökum bara til okkar en skilum engum ávöxtum. Erum við á fjórða ári dómsins? Og svo endir? Greta Thunberg og framtíðarfólkið minnir okkur á, að við höfum brugðist svo harkalega að við rænum börnin okkar, líka barnabörnin okkar framtíðinni.

Tvíhyggja eða eining?

Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð skiptir sér af efnaferlum í eldfjöllum, sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum og mengunarmálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk-kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Loftslagsvá, mengun náttúrunnur og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í. Þegar unga fólkið talar skýrt og vísindasamfélagið einnig heyrum við rödd Guðs.

Og þá hið nýja ár. Já, framtíðin kallar. En þeim tíma er lokið, að við mannkyn höfum leyfi til að dæla árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið. Við höfum ekki lengur leyfi til að drepa eina milljón fugla og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr árlega vegna plastsóðaskapar. Hið sama gildir um útblástur sem eyðileggur jafnvægi veðurkerfa og hið fínstillta jafnvægi lífvíddanna.

Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér nú á eftir streymir dásamlegt vatn frá uppsprettu lífsins. En fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan og jafnvel algeran vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Jörðin er heilög, helgur garður Guðs, og það verður fellt sem spillir eða skilar ekki ávexti. Hið hræðilega er þegar fólk segist elska börnin sín og barnabörn en stelur samt af þeim. Hvað um Guð og opnun tímans?

Ant­onio Gutier­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur ítrekað minnt á, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims. Það merkir á máli trúar, að gott fólk er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og okkur forréttindafólki vestursins hættir til. Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Við sem einstaklingar getum ekki bjargað heiminum, en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum atkvæði okkar og notum peninga. Ef stjórnmálamenn og leiðtogar okkar eru geldir eins og ávaxtalaust tré eru þeir búnir að fella axardóm sjáfra sín.

Tíminn er kominn. En hvað um framtíðarkvíðann? Eigum við að játast vonleysi dómsdags? Nei. Guð er aldrei í fortíð eða bara í nútíð. Guð er lífsglaður húmoristi. Og Guð kemur alltaf úr framtíð, opnar möguleika þar sem engir voru fyrir. Guð er í lífi, lífsbaráttu, góðum verkum og lífsgöngum unga fólksins. Guð kemur þar sem vonleysið er rammast, opnar og blæs krafti í fólk. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð Guðs. Í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar vona og hugstyrkingar. Guð gefur börnum líf gegn heimsenda. Í hvert einasta sinn er ég horfi í augu barna dáist ég að lífmætti Guðs, sem hefur ekki snúist gegn tímaþjófum heims.

Boðskapurinn er einfaldur: Dauðinn dó en lífið lifir. Leggðu af meðvirkni og hættu afneitun. Opna hug þinn og hjarta. Snúðu þér til framtíðar. Fjórða árið er hafið. Við erum kölluð til verka, að bæta það sem við höfum misgert og bera ávöxt. Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Guð kallar fram líf og nærir. Boðskapur kristninnar er upprisuboðskapur Guðs og talar til framtíðarkvíðans. Við megum gjarnan taka stefnu en Guð hefur unnið það mikilvæga áramótaheit að standa með okkur við að opna framtíð lífs á jörðu og kynslóða framtíðar.

Amen – Í Jesú nafni.

Við, prestar Hallgrímskirkju, þökkum ykkur – söfnuði, starfsfólki, sjálfboðaliðum, tónlistarfólki, vinum og nærri milljón erlendum gestum samfylgdina á árinu 2019. Verið velkomin til helgihalds og samvera í kirkjunni. Nýtt ár mikilla ævintýra er að líða og annað ár kemur. Við erum bjartsýn vegna þess að Guð opnar tíma. Lífið lifir og Guð er nærri. Komi hið nýja ár. Hlið himins er fyrir lífið og í þágu lífs.

Gamlársdagur 2019 – Hallgrímskirkja

Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.

Pistill: Róm 8.31b-39
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? … Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni. 

Dagur látinna og dagur lífs

Hver hafði mest áhrif á þig í uppvexti þínum? Hver mótaði þig? Hvernig vannstu úr reynslu bernskunnar? Og hvernig vinnur þú með minningar? Á allra heilagra messu vakna minningar um ástvini okkar sem eru horfin sjónum okkar.

Nokkrum dögum fyrir allra heilagra messu kom vinur minn og rétti mér bók sem hann hafði skrifað. Hann hafði gefið hana út í takmörkuðu upplagi og hú var ætluð vinum og stórfjölskyldunni. Ég hreiðraði um mig í lestrarstólnum og sökkti mér í efnið. Í formála skýrði höfundurinn, að hann hefði notað tímamótaviðburð í lífi sínu til að staldra við og hugsa um fólkið sem hefði skipt hann miklu máli í lífinu. Það var fjölskyldufólkið, fólk bernsku hans, vinir, velgerðarmenn, ættingjar, sem höfðu látið sér annt um hann, sem og önnur sem voru svo eftirminnileg að þau mörkuðu spor í sálina. Bókin var því safn minninga um karla og konur sem höfundi þótti vænt um, fólk sem var látið. Bókin var þrungin virðingu en líka húmor gagnvart fólki, sem var margbrotið og sum voru erfið í samskiptum. Í henni er lotning, sem kallaði fram eigið þakklæti gagnvart fólkinu, sem ég hef tengst og er farið inn í ljós eilífðar. Líf okkar hefur orðið vegna þess að annað fólk hefur tengst okkur, sinnt okkur eða snortið okkur. Við stöndum í þökk við þetta fólk og líf okkar verður betra þegar við getum þakkað það sem við höfum notið. Á allra heilagra messu megum við hugsa um þau sem eru dáin, þakka gjafir þeirra og messa í lotningu til Guðs og í þökk og bæn.

Líf á himni – líf í heimi

Á þessum eilífðardegi er guðspjallstextinn – undarlegt nokk – ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Við lifum í tíma og hverju nýju núi en við megum lifa og vera líka í ljósi eilífðar.l

Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? … Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Textinn er úr frægustu ræðu heimsins, Fjallræ.lðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Ein skýringin er að á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Í ofurhitanum gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við notum til bökunar. Natrón blandaðist saltinu og saltið bragðbreyttist og dofnaði. Jesús vissi, að saltdeyfa var vond fyrir matargerðina. Þér eruð salt – er því ræða, sem varðar hvort fólk er dofið eða kraftmikið.

Hvað er málið?

Jesús bætir við: Þér eruð ljós – og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar miðja heimsins er skapar aðalviðfangsefni heimsmála hverrar tíðar. Svo var einnig á tímum Jesú. Þjóðernissinnarnir í Palestínu voru vissir um, að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri miðjan. Þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna. Svo ljósræðurnar voru um hvar miðjan væri eða ætti að vera. Orðfæri Jesú er því í samræmi við talsmáta tímans og hann talar því inní pólítík samtíðarinnar. En Jesús var snillingur hins óvænta. Hann stækkaði og umbreytti venjum og vitund fólks. Hann notaði hið venjulega til að skýra hið óvenjulega. Jesús benti fólki á, að það eru ekki borgir, stjórnmál eða valdahópar sem væru mál málanna – heldur annað, meira og mikilvægara. Það væri Guð, sem væri miðjan, en ekki menn og mannaverk. Hlutverk okkar manna er að lýsa svo menn sjái. Við eigum að lifa svo ljós eilífðar skíni.

Þar með er tilgangur ræðunnar ljós – stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína. Tilgangur lífs manna er að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til góðs og að mannlíf tengist Guði. Kristnir menn eru borgarar tíma en líka eilífðar, krydd og ljós.

Hrekkjavaka

Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Undir bandarískum áhrifum bregða krakkarnir yfir sig skikkjum, ganga um eins og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er.

Jesús sagði ekki, að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar og selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker eða rófur, heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera ljósasól og í sambandi við orkubú veraldar.

Dagur látinna og dagur lífs

Allra heilagra messa er dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið.

Hvernig þakkar þú og minnist þú? Vinur minn skrifaði minningar sínar um fólk og gaf út. Að skrifa er ein aðferð við að vinna með sorg og missi. Og alltaf er mikilvægt að leyfa sögum að lifa um látna ástvini. Í sorgarvinnu er mikilvægt að segja sögur um þann sem er syrgður. Leyfa minningum að flæða til að skoða tengslin og tilfinningarnar. Þegar við segjum sögum um fólkið sem hefur tengst okkur skilum við líka áfram gildum, viðmiðum og fyrirmyndum. Hver viljum við að verði ávöxtur lífs okkar?

Í þessu hliði himinsins, spyr ég þig: Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri mannsekju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Reyndu að svara spurningunni hið innra? Hvert þeirra, sem býr í himninum, varð þér til hjálpar og eflingar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í erfiðum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og ljúktu ekki þessum degi fyrr en þú ert búinn að vega áhrifavalda lífs þíns.

En líf er ekki bara fortíð, heldur nú – og framtíð. Minningardagur um þau sem við elskuðum er ekki bara fortíðarmál, dagur til að gráta. Allra heilagra messa er dagur lífsins. Hvað tekur þú með þér frá ástvinum sem eru farin og hverju miðlar þú? Ertu salt – ertu ljós? Hver er lífsstefna þín og hvernig viltu lifa áfram? Erindi kristninnar er, að Guð vakir yfir tíma og eilífð með elskusemi. Guð er í ljósinu og kallar fólkið okkar inn í birtu sína. Trúir þú því? Á allra heilagra messu máttu þakka, en líka stæla trú í núinu.

Allra heilagra messa.

Meðfylgjandi mynd tók ég í fyrstu  kvöldkirkjunni 24. okbtóber, 2019.

Lexía: 5Mós 33.1-3

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17

Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

 

 

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).