Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Spænskur pönnukjúklingur

Fyrir 4.

Upprunalega uppskrift fyrir héraleggi en er dásamleg kjúklingauppskrift. Ekki nota úrbeinaða leggi heldur með beininu. 

Kjúklingaleggir 16 stk (3 – 4 á mann)

½ glas vatn og grænmetiskraftur eða kjúklingakraftur

2 gulir laukar

2 paprika – helst í lit!

1 hvítlaukur (þ.e.heill en ekki 1 lauf!)

steinselja, salvía eða annað ferskt krydd – ég átti salvíu í potti.

rósmarín 1 msk.

cayennepipar 2 tsk.

salt og kjúklingakrydd

lárviðarlauf 3-4 stk.

ólífuolía

(Fyrir þau sem vilja kraftmeiri útgáfu er hægt að steikja smátt skorið bacon með, 200-300 gr. og bæta yfir kjúklinginn áður en grænmetið er sett yfir fyrir langsuðuna. Svo er ljómandi að fínskera eitt fræhreinsað chili líka og bæta út í).

Laukurinn og paprikan grófsöxuð og steikt í olíu. Sett til hliðar. Kjúklingurinn kryddaður með kjúklingakryddi, rósmarín, cayennepipar, salti, salvíu og pönnusteiktur. Síðan er hvítlauk, lárviðarlaufi og forsteiktu paprikunni og lauknum ásamt kryddinu skellt yfir og beint á pönnuna. Uppleystum grænemtiskrafti og vatninu hellt yfir. Síðan er allt látið malla á loklausri pönnunni í 45 mínútur.

Berið fram með uppáhaldskjúklingameðlæti. Ég nota gjarnan bygg eða hrísgrjón og svo grænmeti. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 

Jólamaturinn – andabringur í upphæðum

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju, á ekki von á að messuhald verði með hefðbundnum hætti þessi jólin. Aftansöngur verður mögulega sendur út á netinu frá kirkjum landsins. Sigurður Árni segir að föst hefð á heimili hans á aðfangadag sé kalkúnn. „Kalkúnn hentar vel með aftansöng í kirkjunni þar sem ég get eldað hann á lágum hita í langan tíma undir beikonþaki,“ segir hann. „Þessi andabringuuppskrift sem ég gef hér er oft á jólum og er orðin jólauppskrift margra vina minna. Andabringur eru dásamlegur matur og þegar ég elda þær er vel tekið við á mínu heimili og gjarnan sagt: „Þetta er nú það besta sem ég hef smakkað.“ Ég reyni ekki lengur að spyrja hvort það sé besti matur í heimi eða besta andauppskriftin! Þegar hráefnið er gott, eldað með kærleika og alúð svíkur þessi réttur ekki,“ segir Sigurður Árni og segist ekki vita hvort það megi koma gestir í kirkjuna yfir jólin. Það eru allir að undirbúa sig fyrir önnur plön. Kirkjurnar hafa verið duglegar að streyma athöfnum á netinu. Það er mjög skrítið að geta ekki verið með hefðbundna starfsemi í kirkjunni,“ segir hann. „Ég tel engu að síður að allir séu sammála um að halda ásættanleg jól með einhverjum hætti. Mér finnst þetta yndislegur árstími. Ég á afmæli á Þorláksmessu og jólin byrja alltaf snemma á mínu heimili. Við erum gjarnan með fjölskylduveislu þann dag, hangikjöt og laufabrauð. Mér finnst skemmtilegt að elda fyrir marga og finnst dásamlegt þegar húsið fyllist af fólki. Það verður nú varla þessi jólin,“ segir Sigurður. „Hins vegar er nauðsynlegt að rækta það sem við höfum þegar að okkur er kreppt. Huga að umhyggju og góðum samskiptum.“

Andabringur fyrir fjóra

Byrjið á að marinera bringurnar. Þá er farið í sósugerðina. Meðan sósan er að sjóða niður er ljómandi að huga að maríneringu lauks og döðlubitanna í salatið. Síðan er sætkartöflumeðlætið undirbúið og kjötið steikt.

800 g andabringur

Ristið krossa skinn/fitumegin og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina, ekki verra að það sé gert með einhverra klukkutíma fyrirvara.

Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið svo og steikið stutt, þó þannig að fituskertu hliðinni sé lokað líka. Steikið í ofni í 12–15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60 °C. Takið svo úr ofni og látið taka sig í nokkrar mínútur áður en skorið er í þunnar sneiðar.

Sósan

3 dl anda- eða kalkúnasoð

2 dl rauðvín (líka hægt að nota púrt)
1 msk. balsamik-edik
safi úr 2 appelsínum
safi úr 2 límónuávöxtum
safi úr 1 sítrónu
2 dl kókosmjólk eða eftir smekk
½ msk. rifinn engifer
sulta – eftir smekk – ég nota gjarnan ribs- eða sólberjasultu til að sæta hana og jafna.

Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má síðan setja 1 msk. af köldu smjöri í lokin til að ná gljáa.

Sætar kartöflur

1 meðalstór sætkartafla

1 msk. olía
1,5 tsk. sumac (sítrónupipar getur komið í stað sumac)

1,5 tsk. maldonsalt

Flysjuð og síðan skorin í bita, ca 1x1x2 cm. Sletta olíu yfir og dreifa sumac og salti. Steikja í 200 °C ofni í 20 mínútur. Fylgist með steikingu og ekki ofsteikja.

Jerúsalemsalat í jólafötum

1 rauðlaukur

100 g döðlur – Medjool eru bestar en hinar duga

1,5 msk. hvítvínsedik

Skerið döðlurnar í fernt á lengdina. Sneiðið laukinn í tvennt og síðan þvert og þunnt. Setjið lauk og döðlur í skál ásamt edikinu. Blandið vel saman og látið marinerast í hálfa klukkustund. Síið þá edikið frá. 3 súrdeigsbrauðsneiðar (eða tvö pítubrauð rifin í bita)

75 g möndlur

1,5 tsk. sumac (1 tsk. sítrónupipar getur komið í stað sumac)
1/2 tsk. chiliflögur sletta af sjávarsalti
2 msk. smjör

1 msk ólífuolía

Grófsaxa möndlurnar. Skera súrdeigsbrauð í bita, ca 1 cm á kant. Hitið olíu og smjör á pönnu og veltið brauði á pönnunni í tvær mínútur. Kryddið þá með salti, sumac og chiliflögum. Setjið möndlurnar út í og steikið í tvær mínútur í viðbót. Spínat 150 g – alvöru spínat Kjarnar úr hálfu granatepli (pomegranate) 1 lúka bláber safi úr ½ sítrónu ólífuolía salt Setjið spínat á fat og þá brauðteningana og möndlurnar yfir. Síðast bláber og granateplin yfir. Bætið einni msk. ólífuolíu saman við ásamt sítrónusafanum. Bragðið til með salti – ef þarf.

Jerúsalemsalatið er úr Jerúsalembók Ottolengi og Tamimi. 

Viðtalið og uppskriftirnar birtust í jólablaði Fréttablaðsins 2020. Elín Albertsdóttir.  Föstudagur 27. nóvember 2020. Ernir, ljósmyndari Fréttablaðsins, tók myndirnar. 

Kl. 10.34

Þorskur, harissa og kjúklingabaunir

F 4

800 gr þorskflök

6 msk ólífuolía

1,5 tsk malað kúmmín (cummin)

6 hvítlauksrif – þar af 3 rif kraminn og 3 fínt skorinn

2 gulir laukar – þokkalega fínt skornir

6 kardimommur – kramdar en ekki muldar

1 msk rósaharissa-þykkni (rose harissa)

1 1/2 msk tómatþykkni (paste) eða 300 gr pastasósa (t.d. Gestus)

1 dós ca 400 gr niðursoðnar kjúklingabaunir 

400 ml grænmetiskraftur

kóríander til skreytingar

Salt

Þverskerið þorskflökin í 2-3 cm bita. Blandið saman 4 msk ólífuolíu, kummin, krömdum hvítlauk og salti. Hellið yfir fiskinn og setjið til hliðar í 15 mínútur til marineringar.

Afgangurinn af olíunni á steikarpönnu. Þegar pannan er orðin heit er niðursaxaði laukurinn steiktur, hrært í þar til hann er orðinn meyr og gulllinn. Hitinn minnkaður og saxaði hvítlaukurinn út í og svo kardimommurnar, harissa, tómatþykkn/pastasósan, kjúklingabaunir og 1-2 tsk maldonsalt. Allt hrært saman og leyft að malla í eina mínútu og síðan er grænmetiskrafturinn settur út í og soðið í 3-4 mínútur.

Bæta fisknum ofan á – sullað ofurlítið af vökvanum yfir stykkin – og látið sjóða ca 2 mínútur og þá er fiskbitunum snúið og soðið áfram í nokkrar mínútur þar til fisklaufin falla í sundur. Kardimommurnar veiddar upp úr ef þær finnast! Færið á disk.

Borið fram með salati. Í þessu tilviki var vatnsmelónu-epla-salat haft með. Salatolían með: 1 msk olífuolía, 2 sítrónugrasstilkar, ytri trénuðu laufin kroppuð frá og síðan er afgangurinn fínsaxaður, 5 gr mintulauf, 10 kóríanderlauf, 1/2 tsk sinnepsfræ léttristuð, maldonsalt. 

Fyrir þau sem vilja má rista gott brauð og bera olíu á. Nota brauðið til að moka upp dásamlegu harrissasósunni.

Borðbænin: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Njótið og verði ykkur að góðu.

Uppskrift upprunalega í einni af bókum Ottolenghi en er breytt skv. eigin smekk og ábendingum heimilisfólksins míns. 

Kjúklingur með miso, mirin, engifer og fleiri dásemdum

„Pabbi, þetta er uppáhaldskjúklingarétturinn minn“ sögðu yngri synir mínir þegar við vorum að borða. Þeir voru að vísu búnir að vera úti í körfubolta og fótbolta í marga tíma. En þetta er frábær réttur, sem upprunalega kom frá Ottolenghi en hægt að spinna með uppskriftina í ýmsar áttir. Ljómandi með eggjanúðlum eða basmati-hrísgrjónum. Ef eitthvað vantar af hráefnum er það til í Melabúðinni, ég er búinn að kaupa svo oft í þennan rétt.  Fyrir 6.

12 kjúklingaleggir eða tveir bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir.

2 msk ólífuolía

2 ½ msk mirin

2 ½ msk hlynsíróp

2 ½ msk soya eða tamarin

80 gr hvítt miso eða 1 poki miso.

4 cm ferskur engifer, flysjaður og síðan rifinn – ca 30 gr

4 hvítlauksrif smáskorin eða marin

1 límóna – börkur rifinn og safinn pressaður

40 gr kóríander

2 rauðir chilli, meðalsterkir. Fræhreinsaðir og skornir langsum – þurrkaðar chilliflögur duga ef ekki er til chilli í kælinum

10 vorlaukar. 8 skornir langsum en 2 fínt þverskornir til að bera fram í lokin. Í kvöld átti ég ekki vorlauk en notaði bara púrrulauk í staðinn sem sést á meðfylgjandi mynd.

Salt, pipar og krydd að vild

  1. Forhita ofninn í 200 °C og með viftuna á.
  2. Koma kjúklingnum fyrir í skál og krydda og setja olíu yfir.
  3. Steikja síðan kjúklinginn á pönnu við meðalhita og snúa við eftir ca 4 mínútur og steikja fjórar mínútur í viðbót.
  4. Meðan kjúllinn steikist setjið í stóra skál mirin, soya-sósuna, miso, engifer, hvítlauk, límónubörkinn og límónusafann. Blandið saman.
  5. Setjið síðan nýsteiktan kjúklinginn í skálina með öllum vökvanum, hrærið lítillega til að tryggja að marineringin nái að öllum kjúklingabitunum.
  6. Olíuberið ofnþolið fat. Setjið lauk, kóríander og chilli í botninn og síðan kjúklingabitana ofan á. Hellið vökvanum yfir. Setjið inn í heitan ofninn og álpappír eða lok yfir. Steikið í ca 20 mínútur. Takið lokið af og snúið kjúklingabitunum. Steikið síðan í 20 mínútur í viðbót eða 30 mínútur ef þið notið kjúklingaleggi með beinum.
  7. Berið síðan fram með núðlum eða hrísgrjónum. Og skreytið gjarnan með skornu kóríanderlaufi og vorlauk. Ausið bragðmikilli sósunni yfir kjúling og núðlur. Og auðvitað má nota litríkt salat með eða strá einhverri tegund af Ecospíru yfir eins og ég gerði þennan sólardag í apríl. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

 

 

 

 

 

 

Rauðspretta, koli eða smálúða

Þessi matur er dásamlegur og hátíðarfiskréttur.  Fyrir fjóra:

800 gr. smálúðu, kola- eða rauðsprettu-flök

250 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

2 dósir niðursoðnir tómatar

300 ml. grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 1/4 tsk salt

300 gr mjúkt smjör (200 gr í steikingu og 100 gr. í fiskrúllurnar – sjá neðar)

2 tsk. estragon

1 dl rjómi

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum. 

Bræða smjör á pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli eða ómeðhöndluðum trérprjóni.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 10 mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Takk Áslaug Björgvinsdóttir fyrir að miðla okkur þessari uppskrift frá Svíþjóð.