Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Kjúklingur, sítróna og rósmarín

Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum fyrir kjúklinagasteikingu. Ég breyti krydduninni í samræmi við hvað til er í ísskápnum eða laukagarðinum, en grunnurinn er góður og þolir ýmis frávik. Fyrir 4.

1 kjúklingur

3 litlar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, steinselju og salvíu, tætt í matvinnsluvél og sletta af maldonsalti út í

4 matskeiðar ólífuolía

1 sítróna, skorin til helminga

4 lárviðarlaufblöð

2-4 greinar af fersku rósmarín

Saltað og kryddað að smekk.

Forhitið ofninn og ofnskúffu í 200 gráður. Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel með eldhúspappír. Nuddið kviðarholið með salti og takið síðan létt í húðina við endann á kjúklingabringunni og togið hana varlega upp. Notið hina höndina til að skilja húðina varlega frá bringunni. Troðið í bilið söxuðu kryddjurtunum. Látið síðan smávegis ólífuolíu drjúpa niður í kviðarholið, setjið síðan skornu sítrónuna, lárviðarlauf og rósmaríngreinar. Dragið húðina fram fyrir kjúklingabringuna svo ekki glitti í bert kjöt. Bindið síðan kjúklinginn þétt svo hann haldist vel saman. Nuddið húðina á kjúklingnum upp úr ólífuolíu og kryddið hana rækilega með salti og pipar.

Smyrjið ofnskúffuna með olíu. Leggið kjúklinginn með bringuna niður í skúffuna og setjið hana í ofninn. Bakið í 5 mínútur og snúið kjúklingnum yfir á hina hliðina, enn með bringuna niður. Bakið í aðrar 5 mínútur og setjið þá kjúklinginn á afturendann. Bakið í 70- 75 mínútur við 200 gráður.

Salat og uppáhaldsmeðlæti, þess vegna venjulegar eða sætar kartöflur – eða bygg eða hrísgrjón. Þessi er ættaður frá JO, kokki án klæða.

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. Amen.  

 

Fiski-tacho / besta uppskriftin?

Hráefni – fyrir 4

1 piklaður laukur

1 rauðlaukur og 2 límónur. Laukurinn helmingaður. Ysta lagið skrælt af og síðan er hvor helmingur þverskorinn fínt. Límónur kreistar og vökvinn settur yfir laukinn. Piklað í amk 20 mínútur og ekki verra að leyfa lauknum að vera í vökvanum yfir nótt.

Chili-mayo-sósa

125 gr mayones. 2 tsk chilisósa út í. Hrært vel saman og bragðað til.

Maísblanda með kóríander og chili

200 gr maís.

Hálfur rauður chili fínskorinn.

3 msk fínskorinn kóríander. Blandað saman og smá maldonsalt yfir.  

Fiskur og kryddun

Þrjú til fjögur roðflett þorskflök

1 tsk malað kúmmín (cumin en ekki kúmen)

½ tsk paprikuduft

1 tsk maldonsalt

3 hvítlauksrif, smátt skorin eða pressukramin

3 msk góð ólífuolía

Avocado – í bitum

2 þroskaðir avocado smábitaskorinn

1 límóna, safi.

2 límónuur skornar í rif.

Salat

Salatblöð

2 msk kóríander

Matreiðslan

Stillið bökunarofn á 220 °C. Meðan ofninn er að hitna er meðlætið tekið til. Byrjað á að pikla laukinn. Síðan er chili-mayosósan tekin til sem og maísblandan. Þá er komið að því að gera kryddblöndun á fiskinn. Fiskurinn þverskorinn í þumla og kryddblandan sett yfir og fiskbitunum velt til þar til allur fiskurinn hefur verið kryddaður. Síðan er fisknum komið fyrir í ofninum í hitaþolnu fati og steiktur í 10-12 mínútur eða þar til hann er gegnsteiktur(passa að ofsteikja ekki). Álpappír settur um tortillurnar og pakkinn settur í ofn.

Vökvanum hellt af lauknum og hann settur í skál. Maísblandan í aðra skál og sett á borð. Sem og avocado í einni og chilli-mayo í annarri. Þegar tortillurnar eru orðnar heitar eru þær teknar úr ofni og úr álumbúðum. Ein tortilla sett á hvern disk og síðan er bara að byrja að smyrja með chili-mayo og svo allt hitt sett ofan á. Síðan rúllað upp og auðvitað hægt að setja servéttu utanum svo maturinn leki ekki yfir hendur. Svo eru hnífapör hentug líka. 

Frumuppskriftin er frá Nigellu Lawson.

 

Þorskur í paprikusósu

Þegar ég var búinn að puða í ræðuskrifum síðdegis skaust ég í fiskbúðina og keypti góðan þorsk. Tvistaði fiskuppskrift úr mbl. Skemmtileg uppskrift fyr­ir fjóra.

800 g þorsk­hnakk­ar

100 gr. smjör

1 stór gul­ur lauk­ur

6 hvít­lauksrif

2 rauðar paprik­ur

2 msk. tóm­at­þykkni – pa­ste

2 tsk. papriku­duft – notaði ofurlítið reykta papriku líka

1 tsk sumac

400 gr niðursoðnir tóm­at­ar

300 ml mat­reiðslur­jómi

1 tsk. grænmetiskraft­ur

1 msk. sæta t.d. hunang

salt og pip­ar

fersk­ur graslauk­ur að smekk

kirsu­berjatóm­at­ar

Skerið fisk­inn í pass­lega bita, saltið og piprið létt og setjið til hliðar.

Saxið paprik­ur, lauk og hvít­lauk fremur smátt og steikið á pönnu upp úr smjör­inu þar til allt mýk­ist.

Bætið við kryddinu, tóm­at­þykkni, niðursoðnu tómöt­unum og mat­reiðslur­jómanum á pönnuna og hleypið suðunni upp.

Kryddið með grænmetiskraftinum, sætunni, salti og pip­ar eft­ir smekk og leyfið að malla í 8-9 mín­út­ur eða þar til sós­an þykkn­ar vel.

Leggið fisk­bit­ana í sós­una og ýtið aðeins niður.

Dreifið kirsu­berjatómöt­um yfir eft­ir smekk og leyfa að sjóða við væg­an hita í 6-7 mín­út­ur eða þar til fisk­ur­inn er eldaður í gegn. Hægt að setja lok á pönnuna ef þið viljið að tómatarnir maukist og vökvinn verði meiri í réttinum. 

Stráið síðan fersk­um graslauk yfir og síðan eru herlegheitin borin fram.

Meðlæti góð hrísgrjón og grænt salat.

PS Meðmælanlegt: Hægt að nota sósuna og grænmetið í sósunni daginn eftir í rækjurétt. Tveggja daga matur og góður í bæði skiptin. 

 

Kjúklingur, spínat, tómatar og sæt kartafla

Ég eldaði þennan rétt eftir að Íslendingar sigruðu Frakka í handbolta með átta marka sigri, 29-21. Þetta var einn glæstasti handboltaleikur Íslendinga síðan gott silfur var gulli betra. Rétturinn er við hæfi á frábærum degi. Afar fallegur á diski. Svo voru allir svangir eftir mikil hróp og átök í sófanum 🙂

2 bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir

1 sæt kart­afla

1 poki spínat

1 dós niðursoðnir kokteiltómatar

1 lít­ill rauðlauk­ur fínskor­inn

Mangó- chutney 3 msk

2msk ólífur

Parmesan-ostur

Balsamik ca 1msk

Hitið ofn­inn í 190°. Flysjið sætu kart­öfluna og sneiðið með osta­skera, flysjara eða mandólíni. Látið sæt-kart­öfluflögurnar í stórt eld­fast mót eða fat. Sletta af góðri ólífu­olíu yfir, saltið og piprið og kryddið með eftirlætiskryddinu. Bakað í ofni í ca. 15 mín­út­ur.

Steikið kjúk­linginn á heitri pönnu. Kryddið með salti, pipar og rósmarín eða öðru eftirlætiskjúklingakryddi. Ég bæti oft chilikryddi við, en það er nú smekksatriði. Í lok steikingar setjið ofurlítið af mangó-chutney á kjúlinginn á pönnunni. 

Þegar kart­öfl­urn­ar hafa verið steiktar í 15 mínútur eru þær tekn­ar út. Þá er spínatið sett yfir sætu kart­öfl­urn­ar og síðan kjúk­ling­urinn yfir spínatið. Koktailtómatarnir og ólífurnar síðan sett yfir kjúkling og rauðlauk síðan þar yfir. Að lok­um parmesan-ostur og svolítilli ólífu-ol­ífuolíu skvett yfir allt.

Setja síðan í ofn og bakið í 30 mín­út­ur.

Þegar rétt­ur­inn kem­ur úr ofn­in­um er bal­sa­mik-ediki dreift yfir allan réttinn. Borið fram með fallegu salati. 

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. 

 

 

Coq au vin – vínhani – kjúklingur í víni

Þetta er einn af eðalréttum Frakka og hefur verið eldaður um aldir, jafnvel í þúsundir ára og í ýmsum útgáfum. Rétturinn hefur glatt marga. Til að næra mitt fólk hef ég eldað Coq au vin nokkrum sinnum en við mismikinn fögnuð. Öllum líkar lyktin í húsinu en yngri drengir mínir sögðu kurteislega við mig að þeir vildu ekki móðga mig sem hafði haft svo mikið fyrir eldamennskunni. En þeir teldu þetta ekkert góðan pottrétt. Þeir væru meira fyrir venjulegan mat! En vínhaninn er skemmtilegur réttur og það má nota hvítt sem og rautt vín.

Hráefni

1 1/2 kg kjúklingaleggir og læri með beinum og skinni

1 flaska bragðmikið rauðvín (eða hvítt fyrir þá sem það vilja)

1 bolli kjúklingasoð

2 msk af koníaki eða brandí

250 gr beikon skorið í ca. eins og hálfs cm bita

3 gulir laukar – hver laukur skorinn í nokkra hluta – eftir smekk

4 sellerístilkar skornir í eins cm bita

4 gulrætur, þverskornar í eins cm sneiðar

1 heill hvítlaukur, þ.e. 7-8 geirar, hver um sig tví- eða þrískorinn

2 msk tómatþykkni

2 msk tímían

2 msk steinselja eða hálft bunt niðurskorið

4 lárviðarlauf

250 gr sveppir, helst smáir en annars smáskornir

15 hvítir perlulaukar sem sumir kalla steikarlauk, hægt að fá þá líka frosna

Meðlæti

Bygg og litsterkt salat. Niðursneytt snittubrauð er dásamlegt til að veiða upp sósuna – þ.e. sem ítalskur hjólafélagi minn kenndi mér að kalla scarpeda – sbr. skófyrirtæki Scarpa – en merkir í þessu samhengi uppsleikja. 

Matargerðin

Byrjið á að setja kjötið í skál og hella víninu yfir, kjúklingasoðinu og koníaki (ef það er notað). Best að marínera í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Ef ekki þá er marínerað meðan grænmetið er tekið til,  skorið og meðhöndlað. Kveikið á ofni og setjið á 130°C. Beikonið steikt, 6-8 mínútur. Þegar beikonið er fullsteikt eru kjötflögurnar teknar upp en feitin skilin eftir á pönnunni. Kjúklingurinn tekinn úr maríneringunni og steiktur á pönnu í beikonfeitinni þar til kjötið er orðið gullið, þ.e. hunangslitað, ca. 5 mín á hvorri hlið. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Þá er laukur og gulrætur steiktar í nokkrar mínútur og svo er hvítlauknum bætt við og steikt áfram í eina til tvær mínútur. Takið af pönnunni og setjið tómatþykknið á pönnuna og leyfið hitanum að koma upp og dekkja þykknið. Hellið víninu sem var á kjúklingnum út í og skafið pönnubotnin til að ná steikingarleyfunum upp í vökvann. Setjið kjúlinginn í ofnfast fat eða ofnfastan pott, grænmetið ofan á og setjið allan vökvann sem eftir er út í. Setjið í ofninn og leyfið að malla í einn og hálfan til tvo klukkutíma. Síðustu tíu mínúturnar er hvíti perlulaukurinn settur í pottinn. Svo eru sveppirnir steiktir í smjöri. Ofnfasta fatið eða potturinn tekinn úr ofninu. Ausið á diska og sveppum og beikon sett ofan á. Mér hugnast ekki slepjulegir sveppir né heldur beikon og því er þeim ekki smellt í pottinn eða fatið heldur á matinn þegar hann er kominn á diskinn. Niðurskorin steinselja er ljómandi til skreytingar í lokin. Stundum set ég kóríander í stað steinseljunnar. Kóríander teygir bragðsvið réttarins.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.