Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Þorskur í puttanescasósu – kraftréttur vinnandi kvenna

Puttanescasósan er kennd við vinnandi konur í Napólí. Vinnandi konur eru alls konar og sósan er til í mörgum útgáfum. Ég nota fisk með þessari sósu en hún er oft notuð með kjúklingi eða pasta. Ég læt oft nægja að hafa grænt salat með. Kryddið er breytilegt og þegar graslaukur er nógur nota ég hann eða steinselju. Ofninn er settur á 180°C og svo er byrjað á vinnukonusósunni.

5 hvítlauksrif, pressuð

1 dós tómatdós – má notað kryddað tómatmauk t.d. m,eð basilíku, hvítlauk og oregano (400 g) þau sem vilja meiri sósu geta notað eina og hálfa dós. 

3 msk góðar ólífur

5-6 ansjósur smátt saxaðar

2 1/2 tsk kapers

1 tsk oreganó

1 tsk smátt saxað chili

2 msk basílíka fínt skorin

Hitið olíu í pönnu á meðalhita. Hvítlaukur og chili steiktur í 1 mínútu. Þá er ansjósunum bætt við og steikt áfram. Síðan fer tómatsósan yfir, þá ólífur, kapers og oreganó. Hrært lítillega og soðið á lágum hita þar grauturinn þykknar. Smakka til og salta og pipra að smekk. 

Ofnfast fat (ég nota tarínu) er smurt með olíu. Fiskstykkjunum ca 2 cm á þykkt er raðað í fatið, saltað og sósu hinna vinnandi kvenna síðan hellt yfir fiskinn. Fatið sett í ofn í 12 mínútur – eða þar til fiskurinn er tilbúinn.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Kíkið á fjölbreytnina á netinu – margar útgáfur. Hér er ein útgáfan:

 

Osso Buco – hamingjusprengja fyrir nautnaseggi

Osso Buco er einn af ofurrétt­um Norður-Ítal­íu sem einfalt og gaman er að elda. Ítal­ir not­ar gjarn­an kálfaskanka í réttinn og nautaskank­ar nýtast því líka. Ég steiki oftast kjötið á pönnu og færi svo yfir í stóran ofnþolinn pott. Síðan steiki ég grænmetið, bæti svo við tómataviðbótinni, krydda og sýð, set svo þar á eftir soð og vín og helli síðan öllu dýrðarhráefninu yfir kjötið í pottinum. Ef ég hef byrjað eldamennskuna snemma set ég pottinn í ofn á lágum hita, t.d. 100°C. Annars er ofninn settur á 180°C eða 200°C ef fyrirhyggjan eða tíminn leyfir ekki hægeldamennsku. Ef enginn er pottjárnspottur á heimilinu er auðvitað hægt að nota ofnþolið fat með loki – nú eða sjóða allt á eldavél og hafa auga á potti og framvindunni og tryggja að nægur vökvi sé í fati eða potti.

Meðlæti getur verið bygg, pasta, risotto, hrísgrjón, kartöflusmælki – nú eða bara kartöflumús! Rétturinn verður heldur eintóna hvað liti varðar og því skemmtilegt að skreyta svolítið með rósmarín eða steinselju. Basilíka og kóríander gefa líka skemmtilegt fráviksbragð sem mörgum þykir eftirsóknarvert.

Fyr­ir 6-8

  • 6-8 sneiðar af Osso Buco-kjöti
  • 2- 3 stk. skalot­lauk­ar, saxaðir (aðrar laukgerðir duga ágætlega)
  • 3 sell­e­rístönglar skornir í ten­inga
  • 3 gul­ræt­ur, skornar í ten­inga eða þverskornar
  • 2 hvít­laukar (heilir en ekki lauf) saxaðir
  • 1 msk tímí­ankrydd
  • 1 msk rós­marínkrydd 
  • 3 lár­viðarlauf
  • 1 lúka söxuð steinselja eða 1 msk steinseljukrydd
  • 1 dós heil­ir eða grófsaxaðir tóm­at­ar
  • 1 dós saxaðir tóm­at­ar
  • 6 dl kjúk­linga­soð
  • 2 dl hvít­vín
  • ólífu­olía eft­ir smekk fyr­ir steik­ingu
  • salt og pip­ar skv. smekk 

Aðferð:

  1. Hitið 1-2 mat­skeiðar af ólífu­olíu á pönnu og steikið kjötsneiðarn­ar 3 mín­út­ur á hvorri hlið. Saltið, kryddið og piprið eft­ir smekk.
  2. Takið kjötið upp úr og setjið í pottinn og geymið meðan græn­metið er steikt og sós­an gerð.
  3. Steikið skalottu­lauk, sell­e­rí, gul­ræt­ur og hvít­lauk í um það bil 5 mín­út­ur í pott­in­um.
  4. Bætið síðan við tómöt­un­um og sjóðið í 3 mín­út­ur. Hrærið reglu­lega.
  5. Bætið við hvít­víni, kjúk­linga­soðinu, kryddjurt­un­um, stein­selj­unni og loks kjötsneiðunum.
  6. Setjið í ofninn í amk tvær klst. (ef ekki er sett í ofn er soðið við vægan hita í tvær klukku­stund­ir. Með lægri hita má hægelda.
  7. Vert er að snúa kjöt­bit­un­um við í suðu/steikar-ílátinu einu sinni til tvisvar á þess­um tíma og bæta við kjúk­linga­soði eft­ir þörf­um.
  8. Soðið á að þekja kjötið að amk þrem­ur fjórðu all­an tím­ann og um­lykja græn­metið.

Spilið endilega ítalska músík í undirbúningi og þegar sest verður að borði. Þakkarbæn fyrir hamingjusprengjuna, mat og líf má gjarnan stíga upp með kryddilmi og tónlist: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen – og Guði sé lof fyrir Osso Buco.

Á vefnum er fjöldi myndbanda um hvernig hamingjusprengjan Osso Buco er elduð og þar eru ýmsar skemmtilegar útgáfur af hráefnalistanum líka.

Kjúklingaréttur fyrir elskuna

Jæja, drengir góðir, yngri og eldri. Nú er konudagurinn framundan og gerið konunum í lífi ykkar dagamun. Hér er tillaga að frábærum rétti til að elda sem reyndar er ljómandi fyrir alla góða daga. 

Fyrir 4.

Hráefni
1 msk olía
3 – 4 kjúklingabringur 800 gr
3 hvítlauksrif
100 gr sólþurrkaðir tómatar 10 -12 stk
360 gr risotto hrísgrjón (helst lúxúshrísgrjón t.d. cooks&co Mediterranean Risotto 2 pokar – fæst í Melabúðinni)
900 ml kjúklingasoð
200 ml matreiðslurjómi
salt, pipar, hvítlaukskrydd, paprika og tímían um 1 tsk af hverju kryddi.
fersk basilíka skorin niður og sett yfir hvern disk
parmesan ostur yfir réttinn

Aðferð
Skerið kjúklinginn í bita, steikið í olíunni og gegnsteikið. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar og timían. Skerið sólþurrkuðu tómatana í bita ásamt hvítlauknum. Smellið þeirri tvennu á pönnuna og steikið áfram í um 2-3 mínútur.

Hrísgrjónunum er síðan bætt út pönnuna og líka 900 ml kjúklingasoðinu. Blandið saman og setjið síða lok á og látið malla á miðlungs hita í um 20 mínútur. Mikilvægt að hræra einu sinni eftir um 10 mínútur, annars er hætt við að hrísgrjónin á botninum brenni við. Þegar 20 mínútur eru liðnar ættu hrísgrjónin að vera soðin. Blandið þá matreiðslurjómanum út í réttinn og berið fram. 

Berið fram með fersku salati. Og rífið parmesan yfir og toppið með ferskri basilíku. Hvítlauksbrauð eða niðurskorið snittubrauð.

Uppskriftin er frá Helgu Möggu í mbl og aðlöguð eigin smekk.  Svo biðst ég velvirðingar á heldur dapurlegri mynd sem er ekki í neinu samræmi við bragðgæði réttarins. 

Rifið, fjölkryddað lambakjöt

Lambakjöt er dásamlegur matur. Mikilvægt er að standa með íslenskum landbúnaði og bændum og stuðla að sjálfbærni Íslendinga í matarmálum. Því þarf að halda lambakjöti að uppvaxandi kynslóð og þessi réttur hefur reynst mér vel til þess. Það þarf ofurlitla fyrirhyggju ef hægelda á lambakjöt en það er auðvitað mun betra – bragðlega og tilfinningalega. Best er að bera fram í tortillum en líka hægt að nota með hrísgrjónum og litríku salati. Svo er píta einn valkosturinn. 

Fyrir 4-6

2 rauðar paprikur, skornar í fjórðunga og fræ hreinsuð frá (360-400 gr)
2 rauður chilli. Fræ og stilkar hreinsuð frá
1 heill hvítlaukur – þverskorinn
800 gr lambakjöt – bógur er ljómandi eða læri. Kjötið skorið í nokkur stykki. Sinar og fita hreinsuð frá
3 msk ólífuolía
salt and svartur pipar
3 msk tómatþykkni
2 msk malað kúmmín (cumin)
1¼ tsk malaður kanill
½ msk kóríanderfræ kramið (coriander seeds)
4 lárviðarlauf

1 appelsína – þ.e. safinn
500 ml kjúklingakraftur
1½ msk límónusafi
1½ msk (ca 5gr) grófsaxaður kóríander
1½ msk hlynsíróp
8-10 mjúkar tortillur – hitaðar fyrir notkun. Nota oft grill til snögghitunar. Svo er líka hægt að hita á plötu eða við vægan gashita.
2 vorlaukar, skornir. Mæli með að fín- og lang-skera í ca. 2 cm búta

Ofninn settur á grill-stillingu. Paprikur, chilli og hvítlaukshelmingarnir settir á plötu – mæli með að setja bökunarpappír undir. Baka í ca 12 mínútur og fylgjast með og snúa jafnvel þar til bökunareinkenni koma í ljós.

Setja stóra pönnu á eldavélina og steikingar-ólífuolíu á pönnuna og síðan kjötið. Salta vel og einnig pipra vel með svörtum pipar. Brúna kjötið í 8-10 mínútur.

Hægt er að langsteikja á lágum hita á eldavél en ég set yfirleitt kjötið frekar í ílát sem má vera í ofni. Stundum nota ég fallegan pottjárnspottinn (mér finnst gaman að sjá hann í ofninum J) eða í stórt steikingarfaat. Þá er tómatþykkninu, kúmmín, kanil, kóríanderfræi og lárviðarlaufi smellt yfir kjötið. Þá er bætt við kjúklingasoðinu, bökuðu paprikunum, chilli og hvítlauk (þ.e. mjúka kjarnann úr hvítlauknum en pappírs-hlutanum er hent). Svo má krydda í viðbót með salti og pipar.

Langsoðið á lágum hita í nokkrar klst. Tilbúið þegar auðvelt er að skilja kjötþræði úr stykkjum – sem sé rífa. Ég hef svona rétt oft í ofninum í 5-6 tíma á eitt hundrað gráðum. Þegar komið er að máltíð er lokið tekið af. Appelsínu, límónusafa, kóríanderlaufi og hlynsírópi bætt út í.

Notið tortillur en það er smekksatriði hvernig maturinn er framreiddur, hvort kjötið er tekið upp úr sósunni og rifið og soðið og maukið borið fram með. Notið salat, vorlauk eða annan fínskorinn lauk, fínskornar paprikur og salat. Sýrður rjómi eða majó er ljómandi – líka chilli-majó. Stundum set ég upphitaða hrísgrjónaafganga með. Þetta er glæsilegt næðifæði borið fram sem skyndibiti.

Verði ykkur að góðu og takk íslensk bændastétt.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Kalkúnn fyrir jól

Við höfum notað þessa kalkúnauppskrift á okkar heimili í nær aldarfjórðung því matargerðin er prestsvæn. Elín fann uppskriftina árið 1986. Það er yndislegt að finn hvernig lyktin í húsinu á aðfangadegi undirbýr jól. Uppskrift fyrir 8.

4-5 kg kalkúnn

3 hnefafylli af ferskum sveppum

6-8 hvítlauksrif pressuð eða fínskorin

2 stilkar sellerí

250 g beikon til sneiðingar + 3-4 bréf til klæðningar

5 sneiðar brauð

2 msk dragon (terragon eða estragon)

200 g rjómaostur

½ tsk salt

Aðferð

Beikonið, u.þ.b. 250 g, er sneitt og látið krauma í potti. Skornu sellerí er bætt út í, þá sveppum og síðast hvítlauk sem estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgóð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð og lögð til hliðar.

Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu. Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir eru einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200°C heitan ofn og hitinn lækkaður eftir 10 mínútur í 180°C. Ekki spara beikonið, mörgum finnst stökkt beikon gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló. Til að athuga hvort fuglinn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær er kalkúnninn nægilega steiktur. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

Waldorfsalat

Waldorfsalat er nauðsyn! Epli, sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínúturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni. 

Sósa

Kalkúnninn er tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Vökvanum úr steikingunni er hellt í pott gegnum sikti. Fitu fleytt ofan af. Skafa má bragðgjafana úr steikarfatinu/plötunni og nota í sósuna. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma. Lögg af rauðvíni bætir líka. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir.

Friður á jörðu ríki og blessun meðal manna.

 Ef tími er til er hagnýtast að flétta beikonið á fuglinn. Þá sígur það ekki niður og hylur betur fuglinn. Svo er það fallegast og góð skilaboð. Í friði aðfangadagsins 2023 leit fléttan svona út.