Þakkargerðarmáltíð á fimmtudegi – að amerískum hætti – gekk ekki upp á mínum bæ. En ég lærði á námstíma vestra að meta ameríska þakkarhátíð og langaði til elda kalkún í ár. Og þar sem við heilsteikjum kalkún á jólum fór ég að íhuga aðrar útgáfur og ákvað að elda franskt og með Coq au Vin-vídd. „Fimm stjörnur“ sagði mín káta kona eftir matinn – með stjörnur í augum – og „mundu að skrásetja sósuna líka!“
Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir
Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is
Kjúklingabringur í rasphjúp
Í hlaðborðsveislum er upplagt að bjóða kjötrétt sem fingrafæði. Á okkar heimili er rautt kjöt á undanhaldi og flestum þykir hvítt kjöt gott. Ég steiki stundum þennan kjúklingarétt sem fingrafæði en hann dugar ágætlega í kvöldmat líka. Ég hafði stuttan tíma í eldamennsku í kvöld og á 45 mín. var komin þessi ágæta máltíð.
Smálúða í estragonsósu
Fiskveisla á óveðurskvöldi 2. nóvember. Ég kveikti upp í arninum og bjó til fisksósuna – hreinsaði rauðsperettuflök og hnoðaði estragon, hvítlauk, salti og smjöri saman og setti á flök sem ég svo rúllaði upp og pinnaði saman með tannstönglum ( sem verður að taka úr þegar rétturinn er borinn fram!). Konan mín fagnaði og það er mark á því takandi! Uppskriftin er miðuð við fjóra.
Lesa áfram Smálúða í estragonsósu
Heródesarkjúklingur
Hani Pílatusar er frægasti hani veraldar. En hæna Heródesar er síður kunn en hefur örgglega verið matreidd með kúnst fagurkerans. Hér er uppskrift að tilgátu-Heródesarkjúkling. Þetta er biblíuréttur, þ.e. hráefnin hafa líklega verið notuð af biblíufólki. Uppskriftin – að baki smellunni – er miðuð við 5 við borð.
Týnda syninum fagnað
Á föstudögum er biblíumatur eldaður í Neskirkju. Reyndar voru tæplega tíu kg. af nautakjöti steikt og sett síðan í kryddblöndu þegar í dag, á fimmtudegi – til að marinera kjötið vel. Á borðum 26. október verður máltíð af því tagi sem gæti hafa verið elduð þegar týnda syninum var fagnað. Allir eru velkomnir í ilmandi og bragðgóðan biblíumat í Neskirkju. Kynning og bæn verður kl. 12. Allt hráefnið er af því tagi sem líklega hefur verið notað af því fólki sem segir frá í Biblíunni. Uppskriftin er ekki leyndarmál heldur má gjarnan elda í heimahúsum. Verði ykkur að góðu.
Fyrir 6
800 gr fitulítið ungnautakjöt
2 msk furuhnetur
2 msk estragon
1 tsk basilika
1 tsk rósmarín
2 tsk Maldonsalt
1 tsk svartur pipar
4 msk ólívuolía
15 smátt skornar döðlur
3 msk þurrkaðir ávextir – t.d. apríkósur eða það sem þér finnst gott!
2 stórir rauðlaukar
6 hvítlauksbátar
2 perur
Furuhnetur, kryddið, ólífuolía og hvítlaukur sett í matvinnsluvél, malað og úr verður þykkur grautur, má þynna með ólífuolíu. Kjötið skorið í 2 cm teninga sem eru settir í kryddgrautinn og séð til að allar hliðar kjötbitanna séu vel þaktar. Best er að marinera einhvern tíma, jafnvel sólarhring. Kjötið steikt á snarpheitri pönnu og þegar það er farið að brúnast er smátt skornum lauk og döðlum bætt í. Þess gætt að ekki brenni. Hráefni, sem eftir er, út í. Hiti lækkaður og til að varna bruna er vatni bætt á pönnuna. Þegar fullsteikt er, slökkvið undir og leyfið matnum að standa góða stund. Það hjálpar þurrkuðu ávöxtunum að koma til og smita út sínu bragði.
Bulgúr sem og bygg eða kúskús er gott meðlæti og líka litsterkt ávaxtasalat.
Skemmtileg útgáfa að skera hráefnið til þræðingar á spjót og grilla síðan.
Íhugið gjarnan Lúk. 15.11-32. Hver var týndur? Voru kannski báðir synirnir týndir? Hvað merkir veislan í sögunni og hvernig bregst faðirinn við? Hver er faðirinn í sögunni? Í hvaða stöðu erum við?
Borðbæn: Gef oss í dag vort daglegt brauð. Amen.