Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Marbella kjúklingur

IMG_15501,5 – 2 kg. kjúklingarbitar (nokkrar bringur og leggir)

6 hvítlauksrif

1,5 msk oreganó

0,5 msk salvía

1 msk rósmarín

¼ bolli rauðvínsedik

¼ bolli góð ólívuolía

¼ bolli capers

½ bolli grænar góðar ólífur

½ bolli steinlausar sveskjur, smáskornar

3 lárviðarlauf

1/5 bolli agave síróp

3 rauðlaukar í báta

½ bolli rauðvín

salt

pipar

steinselja fínt söxuð.

IMG_1552

Krydd, olía, edik, olífuolía, sveskjur, capers, vín, ólífur, salt og pipar og lárviðarlauf í bland saman. Hellið yfir kjúklingabita og látið marinerast einhverja klukkutíma og best yfir nótt! En ef tíminn er naumur og marinering enginn verður rétturinn samt góður!

Hitið ofn í 180°. Raðið kjúklingabitunum í eldfast mót og síðan marineringunni aftur yfir. Bakið í eina klukkustund. Dreifa steinselju yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

Borið fram með salati og góðu brauði. Það er líka hægt að nota sætar kartöflur með eða hrísgrjón.

Bæn

Þökkum Drottni – því hann er góður – því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Marbella-kjúklingur er kunnur og margar útgáfur til af honum. Mæli með þessum tveimur. Ragnar Freyr er t.d. alltaf góð fyrirmynd:

http://www.simplyrecipes.com/recipes/chicken_marbella/

http://blog.pressan.is/ragnarfreyr/2012/06/21/dundur-marbella-kjuklingur-ad-haetti-mommu-med-hrisgrjonum-og-salati-revisited/

 

Kjötbollur

Kjötbollur eiga að vera góðar! Á bolludegi gerði ég þessar kúnstugu kjötbollur, sem ættaðar eru frá fundvísum og uppátækjasömum kokki sem er Lilja Gísladóttir. Bollurnar vöktu gleði sem eru laun kokksins. Þær eru afar einfaldar í gerðinni og fljótunnar. Góð sósa er mikilvæg og tvær útgáfur nefndar hér að neðan. Ljómandi að hafa með gott salat og hrísgrjón. Matseld tekur um 45 mínútur.

Liljukjötbollur:

  • 1 kg. gott nautahakk
  • Ritzkexpakki !
  • Toro púrrulaukssúpa

Ritzkexið er sett í matvinnsluvél og malað. Allt hráefnið hrært vel saman og síðan mótaðar litlar kúlur. Þær eru síðan steiktar á pönnu þar til þær eru brúnaðar. Settar síðan í ofnfast fat og steiktar á 180°C í um það bil hálftíma.

kjötbollur_2

 

Chili-ribs sósu er líka hægt að nota og er afar einföld í gerðinni

  • 300 ml. Heinz chili sósa.
  • 400 ml. ribssulta / eða 200 ribssulta + 200 sólberjasulta.

Þessum blandað saman og sósan smökkuð til og hlutföllum hagrætt þar til jafnvægi er náð.

Salat með og hrísgrjón með. Verði ykkur að góðu.

Bæn

Þökkum Drottni því að hann er góður því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Pönnusteiktir þorskhnakkar

Ég fór í Melabúðina og sá fallegan, vellyktandi og þar með nýveiddan þorsk. Eldaði svo að hætti Heilsurétta fjölskyldunnar, afbragðs matreiðslubókar Berglindar Sigmarsdóttur. Breytti uppskrift ofurlítið – er jafnan hvatvís í kokkhúsinu. En matgæðingarnir voru svo sáttir við útkomuna að ég læt uppskriftina flakka og hún miðar við fjóra. Þetta er matur uppá 10 sagði kona mín. Ég hlusta á hennar mat.

800 gr. þorskhnakkar eða góður þorskur

Viðbitið

3 msk sítrónusafi

½ dl agave eða hunang

2 msk góð ólífuolía

1 rauð paprika

4 stórir rauðlaukar

½ – 1 grænn chilli fínsaxaður

10 ólífur – verða vera góðar! ljómandi að skera þær í tvennt

½ msk Maldonsalt

Hráefnið soðið í ca 10 1-15 mínútur – eða þar til laukurinn hefur náð að meyrna.

Tómatkryddjurtasósa

1 dós saxaðir tómatar

3-4 hvítlaukslauf pressuð eða fínskorin

½ búnt kóríander saxaður

½ búnt basilíka einnig söxuð (basileus á grísku þýðir kóngur – konunglegt krydd!)

1 dl. hvítvín

1 tsk. grænmetiskraftur

Tómtar, hvítlaukur, hvítvín og grænmetiskraftur soðið og í lokin er kryddjurtum bætt út í.

Þorskurinn, skorinn í ca. 200 gr stykki, svo saltaður og kryddaður eins og fólk vill og síðan pönnusteiktur í ólífuolíu við háan hita. Brúna fiskinn fyrst í þrjár mínútur og snúið og steikt – en ekki of lengi.

Tómtkryddsósan sett á disk, fisknum komið fyrir ofan á, og síðan viðbitið yfir fiskinn.

Yngri kynslóðin fékk reyndar ofnsteiktar sætar kartöflur með fiskinum – kartöflur fylla fiskihatara.

Þorskhnakkar 1

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður – því miskunn hans varir að eilífu – Amen.

Provence – kalkúnn

Þakkargerðarmáltíð á fimmtudegi – að amerískum hætti – gekk ekki upp á mínum bæ. En ég lærði á námstíma vestra að meta ameríska þakkarhátíð og langaði til elda kalkún í ár. Og þar sem við heilsteikjum kalkún á jólum fór ég að íhuga aðrar útgáfur og ákvað að elda franskt og með Coq au Vin-vídd. „Fimm stjörnur“ sagði mín káta kona eftir matinn – með stjörnur í augum – og „mundu að skrásetja sósuna líka!“

Lesa áfram Provence – kalkúnn