Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Forseti Ítalíu – Porchetta Italiana

IMG_1952Fjölskyldan fór í vikuferð til Noregs og Svíþjóðar – til Kristínar systur og karlanna hennar, Öyvinds og Baldurs. Daginn áður en við fórum duttum við Ísak, níu ára sonur minn, niður á matarmyndband Ragnars Freys, þess ágæta “kokklæknis.” Ragnar eldaði m.a. Porchettu – samansaumaðan svínasíðupoka um svínalund. Við horfðum á bandið andaktugir og hétum hvor öðrum því að við skyldum nú elda þetta góðgæti fyrir stórfjölskylduna þegar allir væru komnir í sumarparadísina – Kristínarskjól – í Strömstad. Vegna flaums Norðmanna til Strömstad eru matarkisturnar þar á heimsmælikvarða og í Strömstad Mat fundum við allt sem Ragnar Freyr mælti með í sinni uppskrift. Kjötmeistarinn skar fyrir mig rifin úr og hló að mér þegar ég vildi fá svínasíðuna heldur jafn-ferkantaðri en sú var sem hann átti í borðinu. En svona eru svínasíðurnar sagði hann en ég var nú á því að hún væri heldur stutt á anan kantinn. Svo ræddum við málin og ég sagði honum að ég ætlaði að ofurkrydda síðuna og setja svínalundina á hana miðja og vefja síðuna utan um allt gúmmulaðið. Og helst hefði ég vilja sauma síðuna saman. Þegar hann gerði sér grein fyrir að íbjúga fótboltanálin mín (rúllupyslunálin) væri heima á Íslandi hjóp hann til og náði í kjötsmokk og gaf mér. Við klæddum súperpylsuna í hann og hann hélt vel allan þriggja klukkutíma steikingartímann.

Hráefnið er þetta:

3 kg svínasíða

1/2 kg svínalund

börkur af einni sítrónu

3 msk jómfrúarolía

3 msk marsala-vín

1 msk fennelfræ

2 msk hökkuð salvía

2 msk hakkað rósmarín

salt og pipar

2 greinar rósmarín

Mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur)

3 fennelhausar

Hægt er að nálgast eldunarleiðbeiningar t.d. á slóðinni: http://www.mbl.is/smartland/pistlar/ragnarfreyr/1353916/

IMG_1950

Á vefnum – undir gúglinu porchetta – eru margar aðrar og skemmtilegar útgáfur sem hægt er að nota. Ég bætti við einum lauk og helling af hvítlauk og ekki síðra að mylja ofurlítið af einiberjum með því þau vaxa í breiðum á Nöthomen við Strömstad. Notaði reyndar ofurlítið sherry líka en eitthvað rautt vín færi betur. Rósmarínið kom úr blómabeði heimilismanna, heilbrigt og fallegt. Svo var gaman að elda í sumarhitanum, svuntan var toppurinn. Kláraði kokkaríið fyrripart og smellti í ofninn og steikti meðan fólkið gekk út eða fór að sigla. Þegar allir komu heim var yndislegur ilmur í húsi og lagði út yfir síkið við morgunverðarpallinn.

IMG_1954

Sonur minn var búinn að gleyma ítalska nafninu og íslenskaði það. Með lyktina svona lokkandi spurði hann: Hvenær verður búið að steikja forseta Ítalíu? Öllum var skemmt og síðan gengur þessi réttur undir nafninu forsetinn eða forseti Ítalíu. Porchetta er orðin að forseta – það er við hæfi.

Kjötæturnar í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst en grænhneigða fólkið var ekki eins hrifið af forsetanum – kýs hann ekki aftur og steikir hann ekki heldur. En kokkurinn var kátur með allt ferlið, margir borðuðu mikið. Ég kýs forsetann.

 

Myntuhlaup

Við ræktum myntu í garðinum. Hún vex frábærlega vel, skýtur öngum í allar áttir og er fjölær. Það var því eins gott að finna einhverja aðra notkun en tilfallandi kryddun og te-uppáhellingu. Myntuhlaup er ljómandi gott t.d. með steiktu lambakjöti eða ofan á brauð. Það er líka gaman að vinna hlaupið, setja það í litlar krukkur og gæða sér á því með lambinu. Myntuhlaup er tilvalið til gjafa og þmt. jólagjafa!

1 kg græn epli eða 6 stykki

1 dl vatn

1/2 bolli sítrónusafi

2  1/2 bolli myntublöð

1/2 bolli fínsöxuð myntublöð

2/3 bolli sykur á móti hverjum bolla safa

Þvoðið eplin og skerið í sneiðar. Merjið stærstu eplabitana. Setjið eplin, vatnið, sítrónusafann  og heilu myntulaufin í stóran þykkbotna pott. Látið suðuna koma upp, minnkið hitan og setjið lok á og sjóðið 10  – 15 mín.

Hellið blöndunni í gegnum sigti í skál og náið safanum úr blöndunni. Geymið í kæli yfir nótt. Hendið hratinu. 

Mælið síaða safann  og setjið aftur í pott. Fyrir hvern bolla af safa setjið 2/3 bolla sykur. Hræra skal í blöndunni við vægan hita án þess að láta suðuna koma upp þar til sykurinn er allveg uppleystur. Látið þá suðuna koma upp og sjóðið í 20 mín við vægan hita.

Bætið fínt söxuðu myntunni út í og hrærið vel. Taka pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Hellið í sótthreinsaðar, volgar litlar krukkur og loka skal vel þegar vökvinn er farinn að kólna. Njóta á köldum vetrarhelgum með vel hvítlauksstungnu lambakjöti!

Spínat og eggaldin lasagna

 

Þetta er afbragðsgóður réttur fyrir þau sem kunna að meta góða grænmetisrétti. Eggaldin notuð í stað pastablaðanna og fyllingin er mjög góð. Eins og myndin sýnir er búið að marinera tómatana með basilíku og rétturinn skreyttur þegar hann er borinn fram. Fagur og góður matur.

 

3-4 stk eggaldin

 

Fylling

 

400 gr ferskt spínat

 

400 ml kókosmjólk

 

1 rifin múskathneta

 

1 tsk broddkúmenduft (cumin)

 

1 tsk karrí

 

1 tsk salt

 

500 gr soðnar sætar kartöflur

 

Ofan á

 

1 dl rifinn parmesan (ef fólk er ekki að fasta)

 

1 dl malaðar hnetur/möndlur

 

smá maldonsalt og malaður pipar

 

Blanda í skál

 

Undursamlegt með góðum tómötum, basilíku, ólófuolíu og salti.

 

Langskera eggaldin í ½ cm þunnar sneiðar. Pensla með ólífuolíu og krydda með salti og pipar. Stilla ofninn á 200 °C. Eggaldinsneiðarnar á bökunarpappír í ofnskúffu og baka þar til þær hafa náð gullinbrúnum lit. Taka út úr ofni og leyfa að kólna. Spínatið saxað fremur smátt í matvinnsluvél og síðan blandað öllu sem á að fara í fyllinguna – hrært í skál eða hrærivél.

 

Setja til skiptis í ofnfast fat: Fylling, eggaldin, kókosmjól, fylling, eggaldin og kókosmjólk. Strá ost/hnetublöndu yfir lasagnað og baka í 30 mín við 180°C.

Upplyftan: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Verði öllum að góðu.

Lakkríslax með sesam

Við Elín, skemmtilega konan mín, fórum á stefnumót við laxá. Við mokveiddum – 19 laxar á einum og hálfum degi. Elínu finnst betra að veiða vel. Og alltaf er tilefni til að fagna og þegar landburður er kominn í kokkhúsið er ráð að bjóða fólkinu sínu til veislu.

Öll börnin mín voru á landinu og bænum. Þau komu í mat, tengdasonur líka. Þau eru matgæðingar og gaman að gefa þeim eitthvað sem þau hafa ekki bragðað áður. Lakkrís – þ.e. anís – og sesam og fleira gott voru í uppskrift kvöldsins.

Laxaflak bein- og roðflett og skorið í hæfileg stykki.

Blanda saman ólívuolíu, tamarisósu og agave (hlutföllin 3 msk, 1 msk, 1 tsk – í þessari röð). Laxastykkin sett í blönduna og gjarnan látin standa í 1 klukkustund. Látið síðan drjúpa af fiskinum – en ekki þerra.

Strá anísfræjum og sesamfræjum yfir og einnig salti – helst Maldon – og pipar að vild.

Lagt á rist í vel heitan ofn í 8 mínútur eða á grill í 4 mín – eða þar til fiskurinn er steiktur. (Líka hægt að setja í eldfast fat).

Meðlæti salat, steiktar kartöflur eða hrísgrjón eða bulgur. Nú svo er hægt að nota poleraða Vallanesbyggið – það er dásamlegt. 

Köld jógúrt sósa með ferskum kryddjurtum, smá sítrónu, salti og pipar. Grísk jógurt hentar ágætlega. Sinnepssletta (t.d. hunangsdijon) má gjarnan líka fara í sósuna.

Þessi uppskrift hentar ágætlega fyrir alla aldurshópa og reynslan sýnir að börn og unglingar borða hana fúslega. Ég hef eldað þennan rétt fyrir tugi í fermingarfræðslu og foreldra fermingarungmenna. Sló í gegn ;).

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.