Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Myntuhlaup

Við ræktum myntu í garðinum. Hún vex frábærlega vel, skýtur öngum í allar áttir og er fjölær. Það var því eins gott að finna einhverja aðra notkun en tilfallandi kryddun og te-uppáhellingu. Myntuhlaup er ljómandi gott t.d. með steiktu lambakjöti eða ofan á brauð. Það er líka gaman að vinna hlaupið, setja það í litlar krukkur og gæða sér á því með lambinu. Myntuhlaup er tilvalið til gjafa og þmt. jólagjafa!

1 kg græn epli eða 6 stykki

1 dl vatn

1/2 bolli sítrónusafi

2  1/2 bolli myntublöð

1/2 bolli fínsöxuð myntublöð

2/3 bolli sykur á móti hverjum bolla safa

Þvoðið eplin og skerið í sneiðar. Merjið stærstu eplabitana. Setjið eplin, vatnið, sítrónusafann  og heilu myntulaufin í stóran þykkbotna pott. Látið suðuna koma upp, minnkið hitan og setjið lok á og sjóðið 10  – 15 mín.

Hellið blöndunni í gegnum sigti í skál og náið safanum úr blöndunni. Geymið í kæli yfir nótt. Hendið hratinu. 

Mælið síaða safann  og setjið aftur í pott. Fyrir hvern bolla af safa setjið 2/3 bolla sykur. Hræra skal í blöndunni við vægan hita án þess að láta suðuna koma upp þar til sykurinn er allveg uppleystur. Látið þá suðuna koma upp og sjóðið í 20 mín við vægan hita.

Bætið fínt söxuðu myntunni út í og hrærið vel. Taka pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Hellið í sótthreinsaðar, volgar litlar krukkur og loka skal vel þegar vökvinn er farinn að kólna. Njóta á köldum vetrarhelgum með vel hvítlauksstungnu lambakjöti!

Spínat og eggaldin lasagna

 

Þetta er afbragðsgóður réttur fyrir þau sem kunna að meta góða grænmetisrétti. Eggaldin notuð í stað pastablaðanna og fyllingin er mjög góð. Eins og myndin sýnir er búið að marinera tómatana með basilíku og rétturinn skreyttur þegar hann er borinn fram. Fagur og góður matur.

 

3-4 stk eggaldin

 

Fylling

 

400 gr ferskt spínat

 

400 ml kókosmjólk

 

1 rifin múskathneta

 

1 tsk broddkúmenduft (cumin)

 

1 tsk karrí

 

1 tsk salt

 

500 gr soðnar sætar kartöflur

 

Ofan á

 

1 dl rifinn parmesan (ef fólk er ekki að fasta)

 

1 dl malaðar hnetur/möndlur

 

smá maldonsalt og malaður pipar

 

Blanda í skál

 

Undursamlegt með góðum tómötum, basilíku, ólófuolíu og salti.

 

Langskera eggaldin í ½ cm þunnar sneiðar. Pensla með ólífuolíu og krydda með salti og pipar. Stilla ofninn á 200 °C. Eggaldinsneiðarnar á bökunarpappír í ofnskúffu og baka þar til þær hafa náð gullinbrúnum lit. Taka út úr ofni og leyfa að kólna. Spínatið saxað fremur smátt í matvinnsluvél og síðan blandað öllu sem á að fara í fyllinguna – hrært í skál eða hrærivél.

 

Setja til skiptis í ofnfast fat: Fylling, eggaldin, kókosmjól, fylling, eggaldin og kókosmjólk. Strá ost/hnetublöndu yfir lasagnað og baka í 30 mín við 180°C.

Upplyftan: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Verði öllum að góðu.

Lakkríslax með sesam

Við Elín, skemmtilega konan mín, fórum á stefnumót við laxá. Við mokveiddum – 19 laxar á einum og hálfum degi. Elínu finnst betra að veiða vel. Og alltaf er tilefni til að fagna og þegar landburður er kominn í kokkhúsið er ráð að bjóða fólkinu sínu til veislu.

Öll börnin mín voru á landinu og bænum. Þau komu í mat, tengdasonur líka. Þau eru matgæðingar og gaman að gefa þeim eitthvað sem þau hafa ekki bragðað áður. Lakkrís – þ.e. anís – og sesam og fleira gott voru í uppskrift kvöldsins.

Laxaflak bein- og roðflett og skorið í hæfileg stykki.

Blanda saman ólívuolíu, tamarisósu og agave (hlutföllin 3 msk, 1 msk, 1 tsk – í þessari röð). Laxastykkin sett í blönduna og gjarnan látin standa í 1 klukkustund. Látið síðan drjúpa af fiskinum – en ekki þerra.

Strá anísfræjum og sesamfræjum yfir og einnig salti – helst Maldon – og pipar að vild.

Lagt á rist í vel heitan ofn í 8 mínútur eða á grill í 4 mín – eða þar til fiskurinn er steiktur. (Líka hægt að setja í eldfast fat).

Meðlæti salat, steiktar kartöflur eða hrísgrjón eða bulgur. Nú svo er hægt að nota poleraða Vallanesbyggið – það er dásamlegt. 

Köld jógúrt sósa með ferskum kryddjurtum, smá sítrónu, salti og pipar. Grísk jógurt hentar ágætlega. Sinnepssletta (t.d. hunangsdijon) má gjarnan líka fara í sósuna.

Þessi uppskrift hentar ágætlega fyrir alla aldurshópa og reynslan sýnir að börn og unglingar borða hana fúslega. Ég hef eldað þennan rétt fyrir tugi í fermingarfræðslu og foreldra fermingarungmenna. Sló í gegn ;).

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Andabringur í upphæðum

Þegar ég var kominn í kirkjunni á annan páskadag og skíra kom ég heim tilbúinn til heimagleðinnar. Þegar ég var búinn að tala við mitt fólk fór ég að undirbúa kvöldmatinn, vinna sósuna og krydda andakjöt sem var búið að bíða tvo daga í kælinum. Þessi uppskrift var veidd af blogginu og er orðin jólamatur á nokkrum heimilum. Svo þegar ég smeygi þessu á vefinn er lyktin í húsinu svo dásamleg að nágrannarnir eru komnir með löng nef úti og spyrja hvað sé verið að elda!

Andabringa snöggsteikt

Miðað er við að uppskriftin sé fyrir fjóra. 800 gr andabringur. Ristið krossa (!) skinn/fitumegin og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina. Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið síðan við steikið stutt, en þó þannig að hinni hliðinni sé lokað. Steikið síðan í ofni 12-15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60°C.

Sósan

Hér er skemmtileg sósa, sem passar afar vel. Ekki vera hrædd við hráefnið!

3 dl anda- eða kalkúnasoð

2 dl rauðvín (hægt að nota púrt)

1 msk balsamikedik

safi úr 2 appelsínum

safi úr 2 límónuávöxtum

safi úr 1 sítrónu

2 dl kókosmjólk eða eftir smekk

½ msk engifer

sulta – skv smekk – ég nota gjarnan ribs eða sólberjasultu til að sæta sósuna og jafna.

Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má síðan setja í lokin 1 msk af köldu smjöri til að fá gljáa.

Þessa anda- og sósu-uppskrift fékk ég úr Matreiðslumeistara MasterCard, sem út kom fyrir jólin 2004, en breytti uppskrifinni að eigin smekk!

Meðlæti – rótargrænmeti

1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur 5 stk skornar langsum

rauðbeður 2 stk

sæt kartafla

litlar kartöflur, skornar í tvennt

gulrætur langskornar

hvítlaukur, heill og grófrifinn

 

Lögur á rótargrænmeti

4 msk ólífuolía

½ msk balsamikedik

½ tsk þurrkað rósmarín

maldonsalt

svartur pipar grófmalaður

Bakað í ofni í 40-60 mínútur.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður, – því miskunn hans varir að eilífu. Amen.