Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Rabarbarakaka Elínar með hvítu súkkulaði, kókos og marsípani

Þetta er besta rabarbarakakan! Um það eru flestir sammála. Jafnvel þau sem hafa aldrei verið hrifin af rabbarbarakökum eða rabbarbarapæ lofsyngja þessa dásamlegu uppskrift. Elín Sigrún Jónsdóttir setti saman þessa uppskrift sumarið 2024 og hún hefur slegið í gegn meðal fagurkeranna. 

  • 3 egg
  • 2 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextrakt
  • 100 gr brætt smjör
  • 2,5 dl fínmalað spelt
  • 1 tsk lyftiduft
  • sjávarsalt á hnífsoddi
  • 3-400 gr rabarbari, skorinn í litla bita
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 100 gr marsípan, (lífrænt í Nettó)
  • 100 gr hvítt súkkulaði, dropar (lífrænt í Nettó)
  • 1 dl kókosmjöl

Hitið ofnin í 175 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í meðan hrært er. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og saltinu saman við og hrærið þar til allt er vel blandað.

Stráið kartöflumjölinu yfir rabarbarann og einnig kókosmjölinu og súkkulaðinu. Blandið þessu út í deigið. Rífið marsípanið með grófu rifjárni yfir kökuna. Bakið í 35-40 mínútur. Ef marsípanið dökknar má leggja álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur. Gæti þurft jafnvel 5-10 mín. bakstur til viðbótar.

Berið fram með rjóma.

Blómkál – hvítlaukur og krydd

Foreldrar mínir ræktuðu blómkál og á hverju hausti var blómkál í boði. Við hámuðum í okkur hrátt blómkáli og mamma notaði blómkál í ýmsa rétti, sauð og steikti. Mér þykir gaman að yngri kynslóðin á mínu heimili hefur uppgötvað bragðgæði nýupptekins blómkáls: „Þetta er bragðupplifun,“ sagði sonur minn um daginn. Hér er blómkálsréttur með Ottolenghi-snúningi.

Blómkálshöfuð meðalstórt, skorið í 1-2 cm blóm (stilkurinn ekki notaður)

4 hvítlauksgeirar
1/4 bolli góð ólífuolía
1 tsk reykt paprika

1 tsk chlliflögur

1 tsk kúmmín

1/2 tsk túrmerik

Saltið og piprið að smekk.

Steinselja skorin til skreytingar
1 sítróna skorin í fjóra hluta

Blómkálið gufusoðið í 5-7 mínútur. Á meðan kálið er soðið er kryddið sett í olífuolíu á pönnu og hrært saman. Þegar kálið hefur verið soðið er það sett í kryddolíuna á pönnunni og steikt við meðalhita þar til það er gullið og augjóslega steikt. En pönnusteikingin ætti að taka 5-8 mín. Komið fyrir á diskum og streytið með steinselju eða dilli. Allt í lagi að smella þrílitri fjólu líka sem kórónu á diskinn. Blómkálstíminn er kartöflutími og því ljómandi að sjóða nýjar kartöflur, merja lítillega og hella yfir bráðnu kryddsmjóri. Betra verður það ekki.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Verði ykkur að góðu.

 

Lambakóróna með kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu

Lambakjöt er besta kjötið og nýjar kartöflur eru nammi. Uppskriftahugmyndir Bjarka Þórs Valdimarssonar voru í Mogganum í morgun. Þær vöktu athygli okkar og við aðlöguðum þær að smekk heimilsfólksins. Lambakórónur voru til í Melabúðinni (200 gr. á mann). Nýjar kartöflur eru dásamlegar fyrir kartöflusalat í byrjun ágúst. Við elduðum þetta heilsufæði til heiðurs nýjum forseta.

Kjötið var marinerað í nokkra klukkutíma. Við áttum ókjör af myntu og sítrónumelissu í garðinum og ég notaði mikið af báðum, fínsaxaði og bætti svo þurrkuðu tímían og rósmarín út í. Safi úr einni sítrónu bættist við, slatti af ólífuolíu, salt og pipar skv. smekk. Kjötið var penslað og leyft að standa (og best sem lengst). Þegar farið er að steikja er kjöthitamælir settur í kjarna á kjötstykkjum og steikt – á grilli eða í ofni – þar til hitinn er 67°C (sem er smekksatriði).

Myntu-jógúrtsósa

1 bolli grísk jógúrt 
1/2 bolli smátt skorin mynta
2 hvítlauksgeirar smátt skornir
1⁄2 tsk. kummin
1⁄4 tsk cayenne
Safi úr hálfri sítrónu
Salt og pipar eftir smekk
Öllum hráefnum blandað í skál

Sumarkartöflusalat

1 kg nýjar kartöflur
2 rauð epli
1 piklaður rauðlaukur (þokkalega fínt saxaður laukur og síðan safi úr einni límónu yfir og látið standa)
1 bolli majónes
2 msk. dijon-hunangs-sinnep
2 msk capers
Ferskt dill skv. smekk
Sjóðið kartöflurnar í 20-25 mín.
Blandið saman hráefnunum.

Ég átti ekki mynd af matnum – svo fallegar möndlukartöflur fá að tjá gæði matarins. 

Bæn: Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen

Besta blini-uppskriftin

Blinis (et. blini) eru smálummur sem hafa verið bakaðar úr ýmsum og mismunandi hveititegundum. Þær voru og eru smurðar eða skreyttar með alls konar áleggi skv. hefðum viðkomandi menningarsvæðisins, t.d. sýrðum rjóma, smjöri, kotasælu, kvarka, kavíar og ýmis konar fiskmeti sbr. reyktum laxi, grænmetis- og ávaxta-mauki og sultu. Blinirúllur eru gjarnan fylltar með kryddi og kjöthakki og eru n.k. frænkur pizzusnúða. Á Íslandi hafa pönnukökur löngum verið bornar fram með þeyttum rjóma og sultu og lummur með sultu. Smálummur – blinis – eru skemmtilegt fingrafæði fyrir veislur. Þær má gjarnan skreyta með ostsmyrju, grænu og fersku kryddi sbr. dilli eða steinselju og reyktum laxi eða öðrum passandi bragðgælum.

Bliniskreyting er heillandi matargerðargjörningur. Graslauksstjörnur nota ég á sumartímanum til að toppa bliniskreytingu. 

Fyrir útgáfuhóf bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins steikti ég 250 smálummur og þegar Ísak og Jón Kristján urðu stúdentar steiktum við fjölda af smálummum líka. Smálummur eru sælgæti.

1 bolli hveiti

1 egg

2/3 bolli mjólk

2 msk ólífuolía

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

Blandið öllu saman og steikið smálummurnar – 3-4 cm á pönnukökupönnu. Látið kólna.

Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.

 

Þorskur í puttanescasósu – kraftréttur vinnandi kvenna

Puttanescasósan er kennd við vinnandi konur í Napólí. Vinnandi konur eru alls konar og sósan er til í mörgum útgáfum. Ég nota fisk með þessari sósu en hún er oft notuð með kjúklingi eða pasta. Ég læt oft nægja að hafa grænt salat með. Kryddið er breytilegt og þegar graslaukur er nógur nota ég hann eða steinselju. Ofninn er settur á 180°C og svo er byrjað á vinnukonusósunni.

5 hvítlauksrif, pressuð

1 dós tómatdós – má notað kryddað tómatmauk t.d. m,eð basilíku, hvítlauk og oregano (400 g) þau sem vilja meiri sósu geta notað eina og hálfa dós. 

3 msk góðar ólífur

5-6 ansjósur smátt saxaðar

2 1/2 tsk kapers

1 tsk oreganó

1 tsk smátt saxað chili

2 msk basílíka fínt skorin

Hitið olíu í pönnu á meðalhita. Hvítlaukur og chili steiktur í 1 mínútu. Þá er ansjósunum bætt við og steikt áfram. Síðan fer tómatsósan yfir, þá ólífur, kapers og oreganó. Hrært lítillega og soðið á lágum hita þar grauturinn þykknar. Smakka til og salta og pipra að smekk. 

Ofnfast fat (ég nota tarínu) er smurt með olíu. Fiskstykkjunum ca 2 cm á þykkt er raðað í fatið, saltað og sósu hinna vinnandi kvenna síðan hellt yfir fiskinn. Fatið sett í ofn í 12 mínútur – eða þar til fiskurinn er tilbúinn.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Kíkið á fjölbreytnina á netinu – margar útgáfur. Hér er ein útgáfan: