Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Takk

Liðnar vikur í aðdraganda biskupskjörs hafa verið mér ríkulegur tími fræðslu og blessunar. Ég hef hitt stórkostlegt fólk, hlustað á merkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á óskir um að kirkjan lifi fallega og vel. Ég hef orðið vitni að þjónustulund framar skyldu og hlotið fararblessun margra.

Ég þakka stuðningsfólki, fjölskyldu minni og kjörmönnum, sem hafa treyst mér til biskupsþjónustu. Ég þakka meðframbjóðendum mínum fyrir góða og uppbyggilega samveru síðustu vikur. Ég þakka góðum Guði sem vakir yfir börnum sínum og veitir þeim kraft og gleði.

Kirkjan er kölluð til þjónustu við heiminn og spennandi tímar eru framundan. Prestar, söfnuðir og þjóðkirkjan eru tilbúin undir breytingar, vöxt og grósku í fjölbreytilegum samtíma. Verkefnin eru mörg og krefjast samstöðu og einingar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Tími tækifæranna

“Hvað, hefur þú tíma til að vera hér í kvöld? Á ekki að telja á morgun?” Já, við Elín, kona mín, vorum á dásamlegu námskeiði um Lúther og undirbúning ferðar á Lúthersslóðir síðar á árinu. Og rétt áður en talið verður í biskupskjöri er heilsusamlegt að núllstilla og hugsa um eðli siðbótar og þjónustu kirkjunnar í sögu og samtíð. 2017 nálgast og ég er tilbúin til að vinna að því að kirkjan verði kirkja bóta og góðs siðar, hvernig sem á mál verður litið.

“Og hvernig líður þér?” var ég spurður í kvöld. Og mér líður ágætlega. Biskupskjör er ekki grískur harmleikur með eingöngu vondum kostum. Biskupskjör er fremur gleðimál með góðum kostum. Alla vega lít ég svo á, að hvað sem kemur út úr kjörinu hafi ég lært mikið, upplifað margt jákvætt og orðið svo margs vísari að ég komi út í stórkostlegum plús – óháð atkvæðamagni og útkomu kosningar. Ég hef notið fræðslu og blessunar í þessu kosningaferli. Þessar liðnu vikur hafa orðið mér ríkulegur tími, bæði persónulega og líka sem þjóni kirkjunnar og kirkjuþingsmanni. Ég hef fengið dýpri og betri skilning á þörfum kirkjunnar í landinu, afstöðu fólks, þörfum safnaða og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta. Kirkjuþingsmaðurinn í mér hefur skarpari sýn á hvað þurfi að gera og leggja til á kirkjuþingi. Og kirkjan, fólkið, prestarnir og söfnuðurnir eru búin undir breytingar. Nú er tími tækifæranna.

Ég hef hitt stórkostlegt fólk undanfarnar vikur, hlustað á stórmerkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á sterkar óskir um, að kirkjan lifi fallega og vel, orðið vitni að þjónustulund framar skyldu, hlotið fararblessun margra. Ég hef notið stuðnings og velvilja samverkafólks míns á kirkjuþingi og í kirkjuráði, í öllum prófastsdæmum, í nærsamfélagi og meðal vina og samverkafólks í Neskirkju. Ég hef fengið ótrúlega margar hringingar, gagnrýni sem ég er þakklátur fyrir, blóðríkar umsagnir fólks sem eru ekki minningargreinar heldur lífsyrðingar. Allt þetta hefur orðið til að skerpa og efla.

Ég þakka biskupsefnum, sem hafa verið mér samferða um landið, en þó mest fyrir elsku þeirra gagnvart kirkjunni. Svo hefur mér þótt elja stuðningsfólks míns ótrúleg og langvarandi kraftaverk. Fyrir hug þeirra og verk er ég þakklátur. Svo er ég þakklátur Elínu, konu minni fyrir staðfestu, kátínu og jafnlyndi hennar, sem aldrei bregst. Við höfum svo sannarlega notið ferða og fundanna. Það er ómetanlegt að geta notið sterkrar lífsreynslu saman. Svo hafa börnin mín verið mér traust stoð. Þau hafa verið óspör á hvatningu í “biskupakeppninni” eins og sex ára synir mínir hafa kallað undirbúning biskupskosningar.

Kæru kjörmenn: Takk, þið sem studduð mig. Við alla kjörmenn vil ég segja: Takk fyrir að þið kjósið í þágu kirkjunnar og vegna framtíðar hennar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Ragna Ólafsdóttir – Minningarorð

Ragna skokkaði yfir kartöflugarðinn á milli húsa síðastliðina Þorláksmessu. Hún var á leið í gleðskap í húsi mínu eins og hún gerði síðustu fimm ár, en við vorum nágrannar og garðar okkar liggja saman. Margir komu þennan dag, en enginn var glaðari eða hláturmildari en Ragna þennan dag. Hún skildi eftir í húsi okkar undur, sögur, hlátra og fögnuð. Skömmu síðar bárust henni tíðindi, sem breyttu lífi hennar. Mein hafði búið um sig og dró hana til dauða 10. ágúst.

Ragna var góður viðmælandi. Augnatillitið, hlýjan og brosið – sem sést á myndinni á sálmaskránni – lifði áfram þegar samtali lauk, alltaf var maður ofurlítið glaðari eftir samræður. Hún hafði lag á að leggja fólki og lífi lið og létta byrðum af viðmælendum sínum. Jafnvel einbeittustu brotamenn í Melaskóla báru virðingu fyrir Rögnu því þeir vissu, að málsmeðferð hennar var sanngjörn og alltaf með velferð þeirra að leiðarljósi.

Dýptirnar

Ragna Ólafsdóttir er farin. Henni hefur verið svift burt úr samfélagi okkar – langt fyrir tímann. Minningabrotin þyrlast upp. Hvaða myndir áttu í hug þér um Rögnu? Mannstu hvað hún var kraftmikil? Getur þú séð hana fyrir þér í skólanum eða segja skemmtisögu í veislu? Gekkstu einhvern tíma Keflavíkurgöngu eða sástu til hennar við að stjórna helgileik í Neskirkju á aðventu? Svo eru það fjölskylduminningarnar – Ragna var öflug og stýrði sínum heimareit.

Hvað risti dýpst í Rögnu? Var það krafturinn, réttlætiskenndin, hetjulundin? Þú átt þínar myndir og dragðu þær fram. Hver er minningin, sem þér þykir vænst um? Og nú færðu ofurlítið verkefni: Segðu frá einhverri minningu um Rögnu í erfidrykkjunni á eftir. Að segja sögur er að virða lífið og efla. Að segja sögu af Rögnu er við hæfi og virðingarvottur. Sumar sögur segjum við einum eða nokkrum og sumar sögur má segja mörgum – og hljóðnemi verður í safnaðarsalnum ef einhverjir vilja deila sögu um Rögnu og segja hana í heyranda hljóði.

Ævistiklur og skólaganga

Ragna Ólafsdóttir fæddist 7. maí og hafði gaman af að vera maístjarna og syngja um maísólina, einingarband og fána framtíðar. Ragna eignaðist síðar mann, sem var fæddur eftir lýðveldisstofnun, en sjálf var hún fædd undir kóngi árið 1944. Ögmundur hefði gjarnan viljað víxla fæðingardögum!

Foreldrar Rögnu voru Guðný Pétursdóttir og Ólafur Guðmundsson. Elst barna þeirra var Sigurbjörg, sem lifir systur sína. Sigurbjörg var sett í að gæta Rögnu litlu og vann sitt verk með slíkri kostgæfni, að hún grét fyrir báðar þegar eitthvað kom fyrir Rögnu. Alla tíð voru þær samstiga og fóru m.a. í leikhús saman í áratugi. Stefán fæddist svo árið 1947 og hann lifir systur sína sömuleiðis. Margrét var yngst og fjórða í röðinni tæplega sex árum yngri en Ragna. Þær Gréta og Ragna, ásamt mönnum þeirra, keyptu hús saman á Tómasarhaga og ólu þar upp börn sín. Þar varð skemmtilegt og fjörlegt mannlíf. Nú hafa algerar breytingar orðið. Á stuttum tíma hafa þrjú þeirra fallið frá og um aldur fram. Ögmundur og Margrét létust bæði árið 2006 og nú er Ragna horfin inn í elskufangið góða.

Heima, nám og fólkið hennar Rögnu

Rögnu leið vel við sjó. “Mér hefur alltaf liðið vel nálægt strönd” sagði hún við mig fyrir skömmu. Þegar Ragna var búin að leika sér í Norðfjarðarfjörunni, þjálfa sig í að nema og læra á undur nátturunnar, hlaupa í nágrenni Garðshorns, þar fjölskyldan bjó og syngja reglulega fyrir gamla fólkið á elliheimilinu hóf Ragna nám í barnaskólanum. Hún hafði einfaldan smekk eða stíl í skólamálunum. Henni þótti gaman að læra og var alltaf hæst í sínum bekk. Forkurinn og valkyrjan Sigurbjörg, amma hennar, tók einkunnablaðið á vorin, fór með það á milli húsa og sýndi hverjum sem sjá vildi. Það voru engir, sem skyggðu á dúxinn Rögnu. Þegar í bernsku varð henni augljóst, að stúlkur þyrftu ekki að vera drengjum síðri í afrekum lífsins. Það var gott veganesti fyrir konuna og uppeldisfrömuðinn Rögnu. Og á skólalóðinni kom einnig í ljós, að hún var ekki aðeins skólaljós heldur foringi. Ragna stóð alltaf með þeim, sem voru lamdir og hæddir, tók sér stöðu með þolendum og var þeirra málsvari. Á þessum árum innrætti hún sér hugrekki og þjálfaði sig í hetjudáðum.

Hvað átti skólaljós að leggja fyrir sig? Stærðfræði og skyldar greinar hentuðu Rögnu vel, en á sjötta áratugnum var ennþá spurt fyrst um kyn en síður um hæfni. Ragna hefði getað hugsað sér lyfjafræði eða efnafræði en var ekki hvött til raungreina – slíkt þótti vart henta kvenfólki á hennar uppvaxtarárum. Eftir landspróf á Eiðum fór hún í M.A. Skemmtileg og viðburðarík ár voru framundan. Hún eignaðist vini til lífstíðar og féll í faðm Skagfirðingsins, skáldsins og fræðaþularins Ögmundar Helgasonar. Ragna lauk stúdentsprófi árið 1964, eignaðist dótturina Helgu 1965, gifti sig fyrsta dag ársins 1966, lauk Kennaraskólaprófi 1968 og fór að kenna í Melaskóla sama ár.

Ragna var réttlætissinni og var í framvarðasveit þeirra, sem vildu auka réttindi kvenna. Hún stofnaði ásamt hópi kynsystra félagsskapinn Úurnar í þágu kvenréttinda. Þá beitti hún sér í pólitík, gekk Keflavíkurgöngur og Helga sagði einhverju sinni, að hún væri eiginlega alin upp á sellufundum! Það er dálítið kostulegt samhengi, sem mér sýnist að hafi skilað góðu. Ólafur fæddist þeim Ögmundi svo árið 1976.

Maður Helgu er Reynir Sigurbjörnsson og þau eiga tvær dætur, Rögnu og Þórhildi. Kona Ólafs er Vaka Ýr Sævarsdóttir. Þeirra sonur er Ögmundur Steinar, sem fæddist í febrúar í fyrra og það var yndislegt að sjá bros og tár ömmunnar við skírn Ögmundar litla. Eldri sonur Ólafs er Ingimar. Hann og öll barnabörnin voru Rögnu afar mikilvæg. Ragna var barnsækin og þau Ögmundur afi voru samstillt og vildu hafa barnabörnin sem flest á heimilinu og sem lengst. Ragna hlakkaði til föstudaganna þegar nafna hennar og Þórhildur komu til að vera yfir nótt eða heila helgi eða Ingimars var að vænta.

Eftir nokkur kennsluár og stærðfræðiviðbót Rögnu hér heima fór fjölskyldan til Danmerkur til náms og starfa. Danmerkurtíminn var þeim öllum gjöfull og þau og aðrir danskelskir eiga með sér hinn merka félagsskap, sem kallaður er af nokkrum “galskap” Danasleikjufélagið.

Skólastjórn

Þegar heim var komið að nýju hélt Ragna áfram kennslu við Melaskóla, en breytingar voru yfirvofandi. Hún sótti um yfirkennarastarf þegar það losnaði. Ragna var vitaskuld ekki í “réttum” flokki en hún var ekki látin gjalda fyrir. Melaskóli var frábær skóli undir stjórn Inga Kristinssonar og kennarhópurinn vösk sveit. Þegar Ingi lét af störfum sótti Ragna um skólastjórastöðuna og ekki var auðveldara þá en í fyrra sinnið að sannfæra pólitíska andstæðinga um, að Ragna ætti ekki að líða fyrir pólitík, heldur vera metin að faglegum verðleikum. En Ragna naut stuðnings viturra manna, sem spurðu fremur um getu en síður um kyn og pólitískan lit. Og hún var laginn stjórnandi og stjórnunarstíll hennar lausnamiðaður. Vert er að minna á, að stúlkur og drengir höfðu fyrir sér og sáu að kona var í forystu þessarar stóru menntastofnunar. Ragna varð þúsundum barna lifandi fyrirmynd.

Melaskóla þjónaði Ragna í 39 ár og þar af 13 sem skólastjóri. Ný viðbygging við Melaskóla var byggð í tíð Rögnu og ekki sjálfgefið hvernig það gæti orðið því svo sérstæð er bygging skólans. Ýmsar breytingar urðu á skólahaldi á Rögnutímanum, sem tóku drjúgan tíma og hún taldi ekki yfirvinnustundirnar. Ragna gerði miklar kröfur til sjálfrar sín sem stjórnanda, bar í brjósti mikinn metnað fyrir hönd skólans og vildi hag nemenda og starfsmanna sem bestan.

Við Vesturbæingar höfum átt frábæru skólafólki að fagna. Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka skólaþjónustu og farsæld Rögnu í starfi. Það skiptir máli að hafa notið afburðafólks í starfsliði og forystu grunnskólanna síðustu áratugina. Festa hefur ríkt í stjórnun þeirra. Hefðir voru virtar. Dæmi um það eru helgileikir Melaskóla í Neskirkju, sem Ragna vildi alls ekki fella niður heldur þróa. Nú, þegar vegið er að afslöppuðu en gjöfulu samstarfi trúfélaga og skóla skal á það minnt að skólastjórarnir í hverfinu voru ábyrgir fyrir eflingu samstarfs við kirkjuna. Á skólastjóratíð Einars Magnússonar í Hagaskóla og Rögnu í Melaskóla urðu hörmuleg dauðsföll og skólafólkið og Neskirkjufólk þróaði fíngert þjónustunet til að stuðningsvinna yrði sem best á neyðar- og sorgarstundum. Það hefur dugað vel því starfað hefur verið í anda mannvirðingar. Fólk, sem vinnur vel saman á álagstímum, leggur grunn að góðu samstarfi og líka vináttu. Við höfum mörg notið og Einar og Ragna líka.

Og áfram veginn

Þegar Ögmundur lést árið 2006 urðu skil í lífi Rögnu og hún afréð að láta af störfum aðeins 63 ára. Hún sagði skilið við skólastjórn árið 2007. Hún var frjáls tíma síns en skólaljósið lýsti áfram. Hún lauk leiðsögmannanámi við Endurmenntun HÍ og hafði meiri áhuga á náminu en að stjórna hópferðum. Þegar Ragna var búinn að ljúka frágangi á ritunum, sem Ögmundur hafði unnið að, var hún opinn fyrir frekara námi. En það nám verður í hinni bestu akademíu, skóla hins hæsta á himnum.

Ragna hafði alla tíð mikinn áhuga á útivist og var fjallageit. Alla daga sinnti hún sinni heilsurækt, fór í gönguferðir og þau Ögmundur hlupu á fjöll þegar færi gáfust og áttu í vinum sinum fólk sem sótti í unað kindagatna og gönguskarða. Í júlímánuði puðuðu Afturgöngurnar og Ragna hafði gleði af ferðum þeirra og félagsskap. Í desember síðastliðnum gekk Ragna á sitt síðasta fjall og kannski við hæfi að það var Helgafell.

Ragna var réttsýn og réttlát. Hún átti fyrirmynd í stórveldisömmu Sigurbjörgu, sem hampaði Rögnu enda líkar um margt, glæsilegar konur báðar og miklar af sjálfum sér. Mér sýnist raunar, að allar konur í ætt Rögnu vera stórveldi og skörungar! Guðný, móðir hennar, var dugnaðarkona. Ólafur, hinn væni faðir Rögnu, átti stundum daprar stundir og þá varð mamman að gegna mörgum hlutverkum þegar pabbinn var magnlítill. Í kreppum verða kostirnir oft skýrir, annað hvort er að standa eða falla. Ragna var hæfileikarík og lét ekki sitt eftir liggja fengi hún nokkru ráðið.

Ólafur, faðir Rögnu, lagði börnum sínum lífsreglurnar fyrr og síðar og mæðraveldi fjölskyldunnar hafði hjartað á réttum stað, stælti réttsýni og vakti yfir velferð þeirra, sem minna máttu sín. Þetta skilaði sér í félagsstörfum Rögnu æ síðan. Barnabörn hennar vita, að hún vildi leggja sitt til að frelsa heiminn og þau og allir, sem eru í þessari kirkju í dag, mega líka vita að venjulegir menn “frelsa” heiminn – ekki með stórvirkjum einvörðungu – heldur í hinu smáa – með því að standa með fórnarlömbum, með því að efla menntun og menningu, með því að halda að ungu fólki hugsjónum, dyggðum, fyrirmyndum, veita börnum nánd, virða þau og alla menn. Ég sá oft til Rögnu að störfum og ég dáðist að þeirri lagni, sem hún beitti, þeirri réttlætissókn sem hún tamdi sér og hvernig hún tók sér stöðu með þeim sem þörfnuðust stuðnings. Því var hún góður skólamaður, því naut hún virðingar samstarfsfólks, nemenda og í samfélagi. Ragna var því verðug valin til forystustarfa í sínu fagsamhengi. Hún sat í svo mörgum stjórnum, ráðum og nefndum kennara og opinberra starfsmanna að ekki verður tíundað hér.

Og Ragna var símenntunarkona, sótti sér fræðslu til lífsloka og hún hvatti fólk til náms. Og hún hvatti börn sín, barnabörn já alla til sóknar í fróðleik og fræði og gladdist hjartanlega við alla námsáfanga síns fólk. Svo sagði hún okkur, vinum sínum frá, með sömu gleði vegna sigra þeirra rétt eins og amma hennar þegar hún gekk um með einkunnablaðið forðum. Orkubúið Ragna hvatti alla til lífs, gæða og átaka andans.

Heimilislífið

Eftir langan vinnudag þótti Rögnu gott að koma heim og kasta hamnum. Hún var góður kokkur, fagurkeri og bjó sér og sínum afar smekkvíst heimili á Tómasarhaga 12. Ég naut þess að eiga hana sem nágranna og góðir grannar eru happauki í lífinu. Ragna hefur lagt drjúgt til samfélagsins á Grímsstaðaholti. Í fyrra var haldin hátið á róluvelli hverfisins. Þar mætti Ragna og hennar fólk. Í gær var svo hátíð að nýju en engin Ragna og skarð hennar var sárgrætilegt.

Heimili Rögnu var glaðsinna og gestrisið. Ragna var veislukona og kallaði fjölskyldu til reglubundinna samfunda og hátíða. Hún var söngvin og sótti syngjandi samfélag. Og hún vildi hafa líf og fjör á heimilinu og hafði gaman af skemmtilegum sögum. Ættingjar að norðan og austan voru velkomnir og komu gjarnan. Svo komu suðurfluttir og stjórfjölskyldurnar tvær, svo ólíkar sem þær eru, ræktu vel tengslin.

Þó margir séu hér í dag eru þó líka margir sem ekki gátu komið til þessarar athafnar. Ég hef verið beðinn fyrir kveðjur til þessa safnaðar frá Maríu Pétursdóttur og fjölskyldu, Þórði Víglundssyni og Stellu á Hlíðargötunni í Neskaupsstað og ennfremur frá Ingimar ömmudreng, Nínu Ýr, Gísla Rúnari og Margréti.

Að undirbúa dauðann

Hvað verður þegar maður deyr? Hvernig undibýr maður dauða sinn? Ragna átti í vinum sínum stoð og stuðning. Vinir hennar heimsóttu hana, hringdu í hana, fóru með henni í leiðangra og ferðir og allt til enda. Ragna átti í Einari vinskap trúmanns, sem talaði með yfirvegun og viti um lífið og lífsmöguleikana. Og fjölskylda Rögnu færir Einari þakkir fyrir vináttu hans við Rögnu alla tíð og stuðning til hinsta dags. Svo vildi Ragna tala við prestinn sinn um stóru málin. Við áttum djúp og gruflandi samtöl, ræddum um trú, rök, vissu og leit, efni og anda, vonir en líka vonbrigði. “Ég verð að hugsa þetta,” sagð hún stundum þegar hún uppgötvaði nýja þanka í fræðum eilífðar. Hún sagði mér frá hvers hún hefði notið og hvað hún hefði þegið í arf – að hefðir og mannsýn kristninnar hefðu orðið henni til styrks en sumt í trúfræðinni ekki að sama skapi.

Svo leitaði hugur hennar til bernskunnar. Þegar ég spurði hana um himininn þá lýsti Ragna honum sem Hellisfirði. Þaðan fékk hún viðmið og við lærum og skiljum jú alltaf hið óþekkta í ljósi hins þekkta. Úr Hellisfirði var Ólafur pabbi hennar og þangað vildi hann fara á sunnudögum þegar fært var. Og Guðný lét oftast undan. Allir fóru í trilluna og svo var stímað fyrir Hellisfjarðarnesið. Í firðinum var ekki lengur hvalastasjón þegar Ragna var barn, en þar voru heimsins bestu aðalbláber, þar var hægt að draga fyrir og fá fisk í soðið. Svo var reynihríslunnar vitjað til að sjá hvernig henni hefði reitt af yfir veturinn. Náttúrunnandinn Ragna vitjaði síðan þessa helgireits reglulega, með sínu fólki og ástvinum. “Þetta er kannski mín helgimynd” sagði hún.

Höggin hafa verið þung síðustu árin í fjölskyldunni. Eiginmaður, systir, mamma og svo Ragna. Alla ævi erum við mannfólkið að æfa okkur í hinu sjálfsagða, þjálfa okkur í að lifa og þegar vel er lifað er dauðinn vel undirbúinn. Ragna vissi að hverju dró þegar hún fékk sjúkdómsfréttir í janúar. Þegar hún hafði náð áttum var Ragna stefnuföst. Hún ætlaði að lifa lífinu en ekki dauðanum. Allt til enda einbeitti hún sér að því að njóta lífs, hitta fólk, njóta daga og augnablika, hlægja að góðum sögum og líka hugsa nýja þanka. Þegar litið er til baka er ljóst að í glímunni við dauðann kom fram hjá Rögnu sama lífseinbeittnin og einkenndi hana í skóla, í fjölskyldulífi, í störfum og í samskiptum við fólk.

Ragna eldar ekki lengur, segir enga sögu eða spottar ranga samlagningu, verður engum skjól eða vörn. “Ég hef lifað vel. Ég hef verið lánssöm” sagði hún við leiðarlok. Og við höfum notið hennar og átt hana að. Nú hefur hún siglt fyrir nesið inn í Hellisfjörð himins. Við megum vera opin gagnvart þeirri siglingu og fæðingu inn í nýja veröld. Þar er hið helga fell sem laðar. Ljóðin og söngvarnir túlka lífið en mega vera okkur ofurlítil tjáning um stemmingu eilífðar um dans, gaman og söng í sumarsins paradís. Megi Ragna lifa eilíflega í þeirri stemmingu, söng og lífi. Og megi réttlæti Guðs og friður umlykja hana. Guð geymi hana, Guð geymi ástvini hennar, Guð geymi þig.

Útför Rögnu Ólafsdóttur var gerð frá Neskirkju 19. ágúst 2011. Bálför. Jarðsett í Sóllandi, dufreit í Fossvogskirkjugarði.

Meðfylgjandi mynd tók ég af Rögnu og Ögmundi í ferðafélagsferð á leggjabrjótsleiðinni frá Svartagili og yfir í Botnsdal. Við nágrannarnir vissum ekki af hverju öðru og hittumst í rútunni á leið austur. 

Sigurð Árna í forystu kirkjunnar – bréf kjörmanna

Við undirrituð viljum og styðjum Sigurð Árna Þórðarson sem Biskup Íslands. Við teljum hann vera rétta manninn til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum. Sigurður Árni er heillandi leiðtogi með hugmyndir og erindi sem við samsömum okkur heilshugar við, sem kristnar manneskjur í samtímanum. Hann nýtur víðtæks stuðnings í stórum hópi og sækir þangað styrk og umboð til að láta góða hluti gerast. Hann er maður samvinnu, samstarfs og eflingar mannauðsins í kirkjunni.

Sigurður Árni er kirkjuleiðtogi með trausta sjálfsmynd, sem gefur öðrum rými, og tekur skýra forystu.

Við teljum hann vera rétta manninn til að leiða þjóðkirkjuna á komandi árum.

Við hlökkum til tíma möguleikanna í kirkjunni með Sigurð Árna sem Biskup Íslands.

Ásbjörn Jónsson, kirkjuráðs- og kirkjuþingsmaður

Birgir Rafn Styrmisson, kirkjuþingsmaður

Birna Guðrún Konráðsdóttir, formaður Stafholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Bjarni Karlsson, sóknarprestur Laugarneskirkju

Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur Laufásprestakalli

Elín Jóhannsdóttir, formaður sóknarnefndar Bessastaðasóknar

Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur Grindavík og kirkjuþingsmaður

Fjóla Haraldsdóttir, djákni í Lágafellskirkju

Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn

Guðni Þór Ólafsson, sóknarprestur Melstað

Hannes Örn Blandon, sóknarprestur Laugalandsprestakalli

Hildur Eir Bolladóttir, prestur Akureyrarkirkju

Hjörleifur Þórarinsson, formaður sóknarnefndar Víðistaðakirkju

Hreinn Hákonarson, fangaprestur

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar og kirkjuþingsmaður

Jóhann Ólafsson, formaður sóknarnefndar Vallasóknar

Jóhannes Pálmason, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur Garðaprestakalli

Jónína Zophoníasdóttir, formaður sóknarnefndar Þingmúlasóknar

Katrín Ásgrímsdóttir, kirkjuráðs- og kirkjuþingsmaður

Kristján Pétur Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Njarðvíkursóknar

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Magnús Eðvald Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Garðasóknar og kirkjuþingsmaður

Margrét Jónsdóttir, formaður sóknarnefndar Gaulverjarbæjarsóknar og kirkjuþingsmaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju

Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar

Sigurður Ægisson, sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Sigurvin Jónsson, æskulýðsprestur Neskirkju

Steindór Haraldsson, kirkjuþingsmaður

Sunna Dóra Möller, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju

Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju

Ursula Árnadóttir, sóknarprestur Skagaströnd.

Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Þórdís Ingólfsdóttir, formaður sóknarnefndar Hagasóknar

Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni Fella- og Hólakirkju

Örnólfur Jóhannes Ólafsson, sóknarprestur Skútustöðum

 

A.m.k. eitt

Þetta var yfirskriftin á tölvupósti sem ég fékk í gær. Svo var meðfylgjandi mynd af kjörseðli í biskupskjöri sem búið var að útfylla og kross var við nafnið Sigurður Árni Þórðarson.

Já, “a.m.k. eitt” en síðan kom runa af skeytum og smáskilaboðum frá kjörmönnum: “Búinn að kjósa” – “búin að póstleggja” “kjörseðill kominn í kassann” “framtíðin að koma.” Það var ánægja í þessum skipalboðum og stemming sem fólk fann til og leyfði sér að njóta og tjá. Hún smitaði og gladdi.

Biskupskjör skiptir máli. Kostirnir eru góðir og valið er úr stórum hópi hæfra biskupsefna. En eitt verður kjörið og atkvæðin sem greidd eru þessa dagana skera úr um framvinduna. Síðustu vikur hafa verið afar ríkulegar og ánægjulegar. Hópurinn, sem hefur farið um landið til að undirbúa kjör, hefur lagt mikið til umræðu um kosti og möguleika kirkjunnar. Megi biskupskjörið verða jafn farsælt og undirbúningur þess hefur verið.

Skeytið með yfirskriftinni „A.m.k. eitt“ var fyrst af mörgum. Og yfirskrift eins tölvupóstsins var sem töluð úr mínu hjarta: “Guð gefi okkur gleðilega framtíðarkirkju.” Ég segi því Amen.