Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Sextíu ár í sóknarnefnd!

Magnús Annasson er búinn að vera í sóknarnefnd í um sextíu ár og þar af formaður sóknarnefndar í 25 ár. Nú lýkur hann ferli sínum í þjónustu Tjarnakirkju og safnaðar á Vatnsnesi með því að kjósa biskup. Hann segir að þetta sé orðið alveg nóg hjá sér.

“Þetta er allt í lagi hjá þér” sagði hann brosandi þegar hann veifaði bréfi mínu til kjörmanna, sem hann hafði fengið fyrr um daginn. Hann rifjaði upp kirkjulífið á Tjörn, mannlífið og kynni sín af prestum og líka biskupum. Hann mundi eftir Ásmundi Guðmundssyni, síðan hafði Sigurbjörn Einarsson vísiterað og svo taldi hann biskuparöðina inn í nútíma. En Sigurbjörn hafði komið aftur – þá í einkaheimsókn. Hann hafði verið í Tjarnarkirkju einn daginn þegar dyr voru opnaðar, maður kom inn og bauð góðan daginn. Hann þekkti komumann og fagnaði honum, þar var Sigurbjörn kominn og hans fólk – á ferð um Norðurland. Það birti yfir Magnúsi þegar hann sagði frá.

Magnús talaði um Tjarnarkirkju, um þá merku presta Sigurð Norland og Róbert Jack, um gripi, alaristöfluna. Og svo væri nú nauðsynlegt að laga veggfóðrið á einum stað! Hann var búinn að minna sitt fólk á það. Nú sagði hann að aðrir tækju við. Hann væri búinn með sinn tíma, vissi ekki hvort honum entist aldur til að kjósa. Öll höfum við hlutverk í ríki Guðs í veröldinni.

Magnús hefur skilað góðu dagsverki. Kirkjan á honum mikið að þakka og vert væri að orða hann, sæma hann kirkjulegri orðu við lok ferils hans. Kirkjan þarf að temja sér að sjá, meta og tjá virðingu. Mér var þakklæti í hug þegar ég gekk út frá Magnúsi Annassyni, þakklæti fyrir umhyggju hans fyrir velferð kirkjunnar, fyrir þolgæði hans og andlegt örlæti. Ný kynslóð axlar nú ábyrgð í kristnilífinu á Vatnsnesi. Gott þú góði trúi þjónn – fyrirmynd okkur hinum um þjónustuafstöðu. Við erum öll hlekkir í þjónustufesti kristni Íslands og heims.

Sjáum, metum og virðum

Ég hlustaði nýlega á vitra konu tala með næmleik um vanda dreifbýlis og þéttbýlis og líka um hlutverk kirkjunnar. Hún sagði, að vandi fólks væri kannski hvað sárastur, þegar það nyti ekki athygli. Þetta var sláandi athugasemd, sem ég staldraði við. Getur verið, að það sé stórt mein og vandi í samskiptum fólks? Er kannski brestur á athygli útbreiddur meðal fólks, jafnvel þjóðarvandi, sem skýrir ýmsar samfélagslegar ófarir, einangrun fólks og vanlíðan?

Öll þörfnumst við þess að vera séð, heyrð og metin. Það er dyggð að sjá fólk, í gleði og sorg, í vanda þess og vegsemd. Raunar verður engin manneskja til nema einhver líti til og líti eftir. Eftirlitsleysi veldur áföllum. Ef enginn sér fólk byrjar það að deyja, svo afdrifaríkur og skelfilegur er skortur tillits. Þegar fólk hylur sig gegn augliti Guðs færist myrkrið nær.

Hrifin augu vekja viðbrögð. Elskurík móður- og föðuraugu sjá mennsku í barni sínu. Þetta eru augnagotur ástarinnar, sem draga eða kalla fram andlega auðlegð þess og þroska. Hvernig líður þér þegar einhver dáist að þér og sér þig með augum umhyggju og hrifningar? Væntanlega vel og eflir þig og stælir. Guð sér okkur menn og þess vegna verður lífið gott og gjöfult. Athygli Guðs bjargar heiminum.

Æviverkefni okkar allra er að skerpa athygli gagnvart sjálfum okkur, öðru fólki og litbrigðum lífsins. Við megum gjarnan læra að sjá betur, heyra betur og finna meira til með öðrum. Í þeim efnum þurfum við að æfa okkur reglulega til að við náum færni. Við ættum líka að segja fólki þegar það gerir gott. Auðvitað eigum við ekki að leggja af gagnrýni heldur nýta skynsemi og leyfa dómgreind að styrkjast. Svo er ráð að nýta vel H-vítamínið – hrós. Við erum svo gerð að við getum numið afar margt í lífi annarra. Við höfum augu, eyru, tilfinningar, líkama og ýmsar náðargáfur til að nema líðan annarra. Og skimum í kringum okkur eftir augliti Guðs og himneskri athygli.

Lofum fólk en nöldrum ekki, upphefjum í stað þess að draga niður, umbunum í stað þess að letja. Sjáum, metum og lofum fólk. Það er í anda erindisins um fögnuð að gleðjast yfir fólki. Hvernig væri að veita þeim athygli sem þú hittir í dag? Jákvæð orð skadda engan heldur efla. Takk fyrir athygli þína.

Ávaxtasamir dagar

Dagarnir eru litríkir þessar vikurnar. Birtan vex með hækkandi sól. En litríki daganna er þó fremur huglægt og andlegt. Ég tala við marga á hverjum degi. Tek við tugum skilaboða í tölvupósti og með hjálp samkiptavefja og síma. Ég var með viðtalstíma í kirkjunni, var við hádegisbænir í Neskirkju á meðan vinir mínir í Háskólaprenti prentuðu 600 bréf til kjörmanna í biskupskjöri. Kona mín smeygði bréfunum í umslög og skaut þeim í pósthús. Þau verða borin út á morgun og föstudag. Ég skrifaði svo pistil fyrir Fréttblaðið, líklega þann síðasta um tíma því ekki rímar saman að skrifa meðan ég verð í kjöri til biskups. Ég hitti ástvini til að undirbúa útför og gekk frá minningarorðum. Síðan þjónaði ég við kistulagningu og útför. Svo naut ég þess undurs, að annar drengurinn minn las fyrir mig úr lestrarbókinni sinni og ég launaði honum – og bróðir hans fékk að njóta þess með honum – með að lesa fyrir þá úr frábærri bók Elínar Elísabetar Jóhannsdóttur um Eddu og Snorra fara í tímaflakk um kristnisöguna. Þegar tímaflakkinu lauk og drengirnir voru sofnaðir fór ég á mitt ritflakk og skrifaði ég tvær greinar. Annasamir en ávaxtasamir dagar.

Melstaður, Skagaströnd, Löngumýri, Vestmannsvatn og Akureyrarkirkja!

Fundir framundan á Norðurlandi. Biskup Íslands verður kosinn í næsta mánuði. Nú er ráð að þau sem hafa kosningarétt komi saman til að tala um málefnin í því kjöri. Stuðningsfólk mitt býður til funda norðan heiða 16. – 19. febrúar.

Hverjir koma á svona fundi? Það er fólk, sem vill ræða um biskupskjör, stöðu kirkjunnar og framtíð. Fundarboðendur eru vissulega stuðningsfólk mitt og ég mun ræða um stefnu og áherslur mínar. En auk þess er tilgangur fundarins samtal um kirkjuna. Því eru allir velkomnir til fundar hvaða stefnu eða afstöðu sem menn hafa í biskupskjöri. Að sækja svona fund er ekki yfirlýsing um stuðning við biskupsefni heldur yfirlýsing um stuðning við kirkjuna.

Fundarstaðir eru fjórir þess daga.

Melstaður í Miðfirði, fimmtudaginn 16. febrúar kl. 17.

Skagaströnd – Hólaneskirkja – föstudaginn 17. febrúar kl. 12.

Löngumýri, föstudaginn 17. febrúar kl. 17.

Vestmannsvatn, laugardaginn 18. febrúar, kl. 13.

Akureyrarkirkja – safnaðarheimili, sunnudaginn 19. febrúar, kl. 13.

Ég mun prédika um hið lifandi vatn og skírn Jesú í Akureyrarkirkju þennan sunnudagsmorgun. Messan hefst kl. 11 og fundurinn verður kl. 13.