Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Hvert er álit þitt á sérþjónustu kirkjunnar?

Ég uppgötvaði sérþjónustu kirkjunnar þegar kynntist sr. Jóni Bjarman. Ég var fangavörður tvö sumur í Síðumúlafangelsi. Þangað kom fangapresturinn og vitjaði fanga, færði þeim stundum bækur, hlustaði grannt á sögur þeirra og rak erindi þeirra og gætti hagsmuna með margvíslegum hætti. Hann var sem umboðsmaður fanga. Svo staldraði hann líka við hjá okkur fangavörðum.

Mér þótti þessi prestur áhugaverður og leitaði eftir að ræða við hann þegar báðir áttum tómstund. Jón opnaði mér ýmsar gáttir þegar hann ræddi um hlutverk prests í sérstæðum aðstæðum. Hann kenndi mér að skilja milli eigin persónu og vinnuþátta og þar með mikilvægi þess að setja mörk. Það hefur síðan orðið mér æviverkefni. Og hann opinberaði fyrir mér mikilvægi þes,s að leita þroska hið innra og vera jafnframt öflugur fagaðili í starfi. Því varð fangapresturinn ráðhollur meistari – öflugur fulltrúi Jesú Krists – í flóknum vinnuaðstæðum. En síðar varð hann vinur minn og velgerðarmaður.

Sr. Jón Bjarman opnaði mér gáttir að fagmennsku. Síðar komst ég að því að margir sérþjónustuprestar og síðar sérþjónustudjáknar eru flestum kollegum fyrirmynd um fagmennsku í starfi. Þau er þjóna í sérþjónustu hafa aflað sér sérmenntunar, sem hefur ekki aðeins nýst á fagstofnunum og í sértækum aðstæðum, heldur hafa miðlað þekkingu og starfsreynslu bæði gagnvart djákna- og guðfræðinemum en líka frætt okkur prestana. Fagstyrkur sérþjónustunnar hefur eflt fagmennsku prestanna og þar með kirkjustarfs með margvíslegum hætti. Sálgæsla í samtíð okkar er líklega mun öflugri en var fyrir tíð sérþjónustunnar.

Hvað finnst þér um fyrirkomulag sérþjónustu kirkjunnar?

Sérþjónustan hefur orðið skýr framlenging kirkjustarfs safnaðanna og hin kirkjulega þjónusta hefur náð mun lengra vegna sérþjónustunnar. Í sérhæfingarþróun samfélags okkar og uppbroti þjóðfélags í æ fleiri hópa og kima er sérþjónusta kirkjunnar nauðsyn.

Með árunum hafa ýmis embætti verið stofnuð og þau hafa ekki verið stofnuð út í loftið heldur í ljósi þarfa. Fleiri er þörf og er vísast flestum ljóst. Fjárskortur er raunar eina hindrunin. Ég hef nokkrar áhyggjur af launamálum sérþjónustunnar og tel mikilvægt, að launaþróun í þessu geira sé með sama hætti og meðal annarra vígðra þjóna.

Telur þú þörf á því að breyta núverandi fyrirkomulagi sérþjónustunnar?

Engra stórra breytinga er þörf að mínu viti nema auka fjárstreymi til þjónustunnar. En ég hef oft velt vöngum yfir hvort sérþjónustan þarfnist aukinnar prófasts- og tilsjónarþjónustu. Sérþjónustan nýtur prófastsþjónustu í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sem er stórt, fjölmennt og fjölbreytilegt prófastsdæmi og nær út fryer landamæri Íslands. Prófasturinn er í fullu starfi sem prestur í stórri sókn, hefur því ærin verkefni og getur ekki haft daglega tilsjón með tugum fólks í sérþjónustunni. Búast má við tilfærslu verkefna til prófastsdæma á næstu árum. Því er mér spurn hvort sérþjónustan þarfnist prófasts? Sá gæti verið aðstoðarprófstur í R. vestra til að varðveita tengslin við prófastsdæmi á Reykjavíkursvæðinu og þar með safnaðatenginguna. Tilsjón er mikilvæg. Sérþjónustan þarf sinn stuðning og athygli.

Telur þú þörf á því að efla sérþjónustu kirkjunnar og ef svo er með hvaða hætti?

Ég styð heilshugar frekari þróun og styrkingu sérþjónustunnar. Í samfélagi sundurgerðar er sérhæfingar þörf til, að þjóðkirkjan sinni þeirri þjónustu, sem á kirkjuna eru lagðar af ríkinu og felst einnig í hlutverki hennar sem þjóðkirkju. Kirkjan á að þjóna allri þjóðinni – og þjóna vel.

Mikilvægt er, að mínu viti, að tengja sérþjónustuna við kirkjur og söfnuði, ef hægt er. Í Neskirkju höfum við notið, að sérþjónustupresturinn, Toshiki Toma, hefur starfsstöð í safnaðarheimili kirkjunnar. Hann hefur með störfum, fagmennsku, þátttöku í helgihaldi og samtölum eflt starfshópinn, sem er að störfum í Neskirkju. Starfshættir og starfskunnátta hans hefur dýpkað skilning okkar hinna. En jafnframt á hann í okkur hinum kollega, sem geta stutt hann með ýmsum hætti. Þetta fyrirkomulag, að sérþjónustuprestur eða sérþjónustudjákni, eigi sér starfsstöð í söfnuði er til góðs. Ég mæli með því þegar því verður við komið.

Þessar spurningar voru sendar af fimm sérþjónustuprestum. Ég vil nota tækifærið til að þakka sérþjónustunni fyrir faggjafir hennar og þjónustu í þágu fólks og kirkju.

Sigurður Árni

Börn, græðarastarf og Fréttablaðið

Fréttablaðið spyr um afstöðu biskupsefna. Spurningar og mín svör eru þessi:

Hverju er mikilvægast að breyta innan kirkjunnar?

Kirkjan er að nútímavæðast. Góðar breytingar hafa orðið á skipulagi þjóðkirkjunnar. Ég vil kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna því börnin eru mestu dýrmætin. Ég vil líka hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að efla samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Glatt fólk þjónar vel.

Hver er þín afstaða til fulls aðskilnaðar ríkis og kirkju?

Aðskilnaðurinn er að mestu orðinn, en þjóðarsamtalið um framtíðarsamskipti þjóðar, ríkis og kirkju er varla byrjað. Kirkjan hefur ekki og sækist ekki eftir forréttindum, heldur að þjóna fólki. Þjóðkirkjan vill frið til þess að þjóna fólki vel og um allt land.

Mundir þú taka þátt í Gleðigöngunni (e. Gay Pride)?

Já. ég tek mér stöðu þar sem ég held, að Jesús Kristur hefði viljað vera. Hann stóð alltaf með fólki. Gleðigangan er í þágu réttlætis í samfélagi okkar. Mínar göngur eru göngur til gleði og Gay Pride er ganga til góðs.

 

Sigurður Árni í Fréttablaðinu og Skessuhorni

Í gær, miðvikudaginn 29. febrúar, birtist viðtal við Sigurð Árna í Skessuhorni. Smelltu hér til þess að lesa greinina. 

Þá birtist viðtal við Sigurð Árna í aukablaði Fréttablaðsins um fermingar í dag, 1. mars. Þar segir Sigurður Árni frá fermingardegi sínum þann 23. október 1966. Þá fermdist hann, ásamt Kristínu systur sinni, sem er einu og hálfu ári eldri. Smelltu hér til þess að lesa viðtalið. 

Íslensku söfnuðirnir erlendis

Ég var spurður um stefnu mína varðandi þjónustu við Íslendinga sem búa erlendis. Við, sem höfum dvalið langdvölum í útlöndum, vitum hve dásamlegt það getur verið að hitta stóran hóp landa, geta talað, sungið íslenska sálma og beðið á móðurmálinu og hlustað á kjarnmikið og vel orðað lífsorð úr prédikunarstóli.

Samkomur og messur eru Íslendingum í útlöndum mikilvægar. Auðvitað hafa þjóðernisþættir áhrif, en kirkjulífið verður sem rammi um aðra þætti og þarfir fólks. Svona hefur það verið frá því Íslendingar fluttu til Vesturheims og þannig hefur það verið í Evrópu síðustu áratugi. Hið sama gildir um annarra þjóða fólk og því heldur þjóðkirkjan messur í Hallgrímskirkju fyrir enskumælandi fólk. Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar því prestsstarfi með glæsibrag. Og við ættum auðvitað að messa oftar á þýsku, dönsku, norsku, sænsku og kannski líka á frönsku og spænsku!

Íslenska kirkjan hefur, vegna fjáreklu, lagt niður prestsstöður í London og Kaupmannahöfn. En söfnuðurnir hafa notið styrkja til safnaðarstarfs þó upphæðirnar hafi ekki verið í sex núllum.

Þjóðkirkjan á að stefna að því að endurstofna prestsstöðurnar. En okkur ber líka að leita áfram lausna á viðkomandi starfssvæðum og óska aðstoðar systurkirkna. Þetta á sérstaklega við í Danmörk og Svíþjóð. Vegna hinna góðu tengsla okkar við anglikanskar kirkju, í anda Porvoo-samkomulagsins, njóta Íslendingar velvilja varðandi kirknafnot og aðstöðu. Svo mun eflaust áfram verða.

Stutt yfirlit um stöðu safnaðanna erlendis er hér að neðan – eins og ég veit best. Góðar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og óháð biskupskjöri. Ég sit á kirkjuþingi og er í samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar og læt mig varða þjónustu hennar erlendis.

Noregur

Staða íslenska safnaðarins í Noregi er góð, raunar fjárhagslega best þeirra safnaða landa okkar sem eru erlendis. Söfnuðurinn hefur verið samþykkt sem n.k. fríkirkja en presturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, er boðinn til funda og samstarfs í norsku þjóðkirkjunn. Söfnuðurinn fær nú starfsstyrk og getur borgað prestinum laun. En vegna fjölda Íslendinga þyrfti jafnvel að bæta við presti eða djákna. Ég mun styðja það mál ef sú stefna verður tekin af presti og sóknarnefnd. Verið er að undirbúa kaup að sal og starfsaðstöðu og er okkar fólki í Noregi óskað til hamingju.

Danmörk

Danska kirkjan er að miklu leyti ríkisstýrð og ráðuneytið hefur ekki viljað samþykkja prestsstöðu í þágu íslenska safnaðarins. Enn sem komið er hefur ekki verið farin leið stofnunar fríkirkjusafnaðar. En Íslendingar þurfa þjónustu og kirkjustarf og vert að skoða alla kosti. Ég vil því stuðla að því að fá utanríkisráðuneyti í málið til styrktar með kirkjunni og sækja fastar að danska ríkið komi til hjálpar – enda greiða Íslendingar sína skatta og sinna sínum skyldum í Danmörk. Og þó ekki hafi fengist nein varanleg úrlausn prestsþjónustumála í Kaupmannahöfn er engin ástæða til að hætta. Þjónusta íslensku kirkjunnar þarf að vera öflug í Kaupmannahöfn og Danmörk.

Svíþjóð

Enn starfar prestur í hlutastarfi í Gautaborg, sr. Ágúst Einarsson og vinnur gott starf. En fjárveitingar til þjónustunnar koma ekki frá kirkjunni heldur íslenska ríkinu. Ástæðan er presturinn aðstoðar fólk sem kemur til Svíþjóðar í lækniserindum.

Það sama gildir um Svíþjóð eins og hin Norðurlöndin, að ástæða er til að reyna áfram að afla liðveislu systurkirkjunnar til að stofna og reka prestsembætti.

England og meginland Evrópu

Prestssatarfið í Englandi var lagt niður og er leyst til bráðabirgða með ferðaprestum. Sú skipan er ekki ásættanleg til lengdar. Í Lúx hefur sr. Sjöfn Þór tekið við þjónustu við Íslendinga. Vel getur farið svo að hún muni þjóna Íslendingum í Brussel einnig. En þetta starf hennar er ekki fast og alls ekki embætti í neinum formlegum skilningi.

Ísraelar áttu erfitt með að tilbiðja Guð við Babýlonsfljót og Boney M. gerði frægt. Og tilbeiðsla á framandi tungu er mörgum erfið. Þjóðkirkjan á styðja starf íslenskra safnaða og veita prestsþjónstu þar sem fjöldi Íslendinga er mikill eins og á Norðurlöndum, Englandi og Vestur Evrópu. Sá stuðningur getur verið margvíslegur. Fjármunir eru góðir en mikilvæg eru líka öll gefandi samskipti og óbeinn stuðningur.