Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

A.m.k. eitt

Þetta var yfirskriftin á tölvupósti sem ég fékk í gær. Svo var meðfylgjandi mynd af kjörseðli í biskupskjöri sem búið var að útfylla og kross var við nafnið Sigurður Árni Þórðarson.

Já, “a.m.k. eitt” en síðan kom runa af skeytum og smáskilaboðum frá kjörmönnum: “Búinn að kjósa” – “búin að póstleggja” “kjörseðill kominn í kassann” “framtíðin að koma.” Það var ánægja í þessum skipalboðum og stemming sem fólk fann til og leyfði sér að njóta og tjá. Hún smitaði og gladdi.

Biskupskjör skiptir máli. Kostirnir eru góðir og valið er úr stórum hópi hæfra biskupsefna. En eitt verður kjörið og atkvæðin sem greidd eru þessa dagana skera úr um framvinduna. Síðustu vikur hafa verið afar ríkulegar og ánægjulegar. Hópurinn, sem hefur farið um landið til að undirbúa kjör, hefur lagt mikið til umræðu um kosti og möguleika kirkjunnar. Megi biskupskjörið verða jafn farsælt og undirbúningur þess hefur verið.

Skeytið með yfirskriftinni „A.m.k. eitt“ var fyrst af mörgum. Og yfirskrift eins tölvupóstsins var sem töluð úr mínu hjarta: “Guð gefi okkur gleðilega framtíðarkirkju.” Ég segi því Amen.

Nálægð í kirkjunni

“Geturðu talað við mig, ég hef þörf fyrir samtal?” Svona setning hljómar þegar eðlilegt traust ríkir milli fólks. Og þannig eiga tengsl milli biskups og ábyrgðarfólks í kirkjunni að vera. Þetta fólk þarf að hafa næði og tíma til að tala saman, miðla reynslu, hugmyndum, álagsmálum og vonarefnum.

Ég hef á kynningarfundum vegna biskupskjörs nefnt, að ég vilji breyta biskupsvísitasíum. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustu er að vitja fólks. Biskup á að vera hlustandi biskup – vera á eyrunum – og veita athygli.

Græðarastarf gagnvart prestunum og fólkinu í kirkjunni er mikilvægur þáttur biskupsþjónustu. Rétt eins og prófastar þurfa biskupar kirkjunnar að heyra hvað fólk segir, grennslast eftir hvernig því líður og reyna að efla það til starfa og lífs.  Líðan presta, þarfir þeirra og velferð prestsfjölskyldna skiptir miklu máli og varðar því biskupstilsjón.

Til að fólki líði vel þarf að næra það. Það sama gildir í fjölskyldulífinu. Til að kirkjulífið blómgist þarf að sjá, heyra og styrkja.

Biskupinn á að iðka tilsjón – það er að sjá, heyra, vera náinn, meta og efla. Biskupinn á ekki að vera í stjórnsýsluskáp heldur vera meðal fólks í kirkju og landi. Biskup á að heyra nándarkall og gegna nándarskyldu í kirkjunni.

 

Þá verður lífið bænalíf

Ég var spurður um bænalíf og það varðar trúar-afstöðu og túlkun. Trúarlíf og bænalíf varða það sama. Guð varð mér altækur veruleiki á unga aldri. Þar er trúarafstaðan, en þar sem Guð er mér umfaðmandi Guð lifi ég og hrærist í þeim veruleika á öllum stundum og í öllu sem ég er og geri. Lífið er mér bænalíf og bænalífið greinist í ýmsa þætti. Bænalíf er ekki aðeins það að bera fram beiðni til Guðs eða tjá tilbeiðslu í orðum heldur líka það að upplifa, nema, lifa – allt sem er verður trúmanninum þáttur í bænalífi. Þegar Guð er umlykjandi veruleiki verður lífið þar með bænalíf.

Börn, unga fólkið og þjóðkirkjan

Í þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað í æskulýðsstarfi er meira í húfi en það fé sem sparast hefur. Ég mun sem biskup beita mér fyrir því að hvergi verði slegið af faglegum kröfum í æskulýðsstarfi og að þjónusta við börn og unglinga verði skilgreind sem grunnþjónusta kirkjunnar. Söfnuðir landsins standa frammi fyrir erfiðu verkefni við ráðstöfun fjármuna, en æskulýðsstarf á að vera forgangsverkefni.

Ég mun beita mér fyrir því að söfnuðir vinni saman að því að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf og að samsetning safnaða ráði forgangsröðun verkefna. Í sóknum þar sem barnafjölskyldur eru í meirihluta er óeðlilegt að minnihluti sóknargjaldi sé varið í þjónustu við þær. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og það er hlutverk biskups að tryggja þeim aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu.

ÆSKÞ gegnir mikilvægu hlutverki sem málsvari æskulýðsstarfs og landssamtök æskulýðsfélaga. Ég hef fylgst með uppbyggingu ÆSKÞ undanfarin ár og mun fagnandi þiggja boð um að sækja Landsmót æskulýðsfélaga í október næstkomandi. Þjóðkirkjan á að setja starf í þágu unga fólksins í forgang. Og það er nútíðarverkefni. Framtíð kirkjunnar verður til með þjónustu við unga fólkið. Við sáum til framtíðar með því að gera æskulýðsstarf að flaggskipi íslensku þjóðkirkjunnar.